< Punktar um passíu

 

 

 

Annar heimur?

 

Eftir þrettánda kvöld jóla

 


Saga þessi, sem varla má heita að sé harla nærri skrifuð — eða punktar um passíu pars á miðjum aldri og kynni þess frá vori einu til þarnæsta hausts og jafnvel fram á vetur — var þetta ekki nánast eins og óskrifað blað þegar við skildum við ástfangið parið um áramótin og enn höfðu ekki skilað sér heim í hreppa til Grýlu og Leppa sveinstaular sex?

Eða hvað? Hefur ekki allt gengið eins og í sögu?

Henni lærðist að vísu fljótt að blanda sér ekki í matseldina. Langaði oft að hjálpa ofurlítið til fyrst, þó ekki væri nema að þvo upp stærstu hræriskálarnar og pottana eftir notkun, en — í guðs bænum, kona, sérðu ekki að ég er að elda! Verð að hafa alveg frítt borð og vaskinn tóman! Svo er ég alls ekki búinn að nota þessa skál. Ég á líka eftir að hræra...

Og hún hrökklaðist brosandi að matborðinu og kveikti sér í sígarettu og gætti þess vandlega að blása reyknum yfir öxl sér að opnum svalardyrunum. Hann hafði snemma gert henni ljóst að honum félli sígarettureykur fremur illa, þó að ekki bannaði hann henni að reykja, til þess var hann of fágaður í jafnaðarstefnu sinni. Hann sem sjálfur reykti, og það pípu sem var honum sem gróin við munn, og oftast rauðglóandi af hinum torkennilega ilmi tegundarinnar hans.

Hann hafði reyndar verið að reyna að hætta er þau kynntust. Hún mátti aftur ekki til þess hugsa að fara á mis við þessa dásamlegu nautn. Var það ef til vill henni að kenna að skammvinnt bindindi hans var fyrir bí? Færi því þó fjarri, fullyrti hann. Hann hefði að minnsta kosti ekki áhuga á að leggja öðrum lífsreglurnar í þeim efnum frekar en öðrum.

En þú mátt alveg skræla rófurnar, elskan, ef þig langar til, sagði hann þá gjarnan af mildi sinni, eða eitthvað í þá veru, óttaðist hann að hafa sært hana með um of umhyggjulegri reglustrikan. Eða flysja kartöflurnar. Nú, eða leggja á borðið. Ellegar, sem gat hent, að hann stæði sjálfan sig að því að eiga ekki einustu ögn í pípu — þá fórnaði hann höndum yfirkominn af vanmætti: Jesús minn almáttugur, elsku hjartað mitt eina, veistu hvað...!

Hún var þá vön að yppta öxlum með uppgerðarsvip og látast ekkert vita. Nei, væni minn, hef ekki hugmynd. Er kannski að brenna yfir hjá þér?

Hjá mér! Ertu alveg frá þér! Nei, ég er tóbakslaus! Drottinn minn dýri, hvað á ég að gera?

Verðurðu ekki bara að leggjast upp í rúm og fara með bænirnar þínar, ástin mín?

Engu líkara en að honum gremdist að þetta örþrota ástand hans væri haft þannig í flimtingum, að minnsta kosti stökk honum tæpast bros á vör, fremur þagði smá stund og hrærði smá meira í pottunum áður en hann mælti með kalda pípuna milli samanbitinna tanna:

Heyrðu, elsku hjartans skatan mín, auktu nú leti mína, værir alveg draumur, ef þú vildir vera svo væn að...

Hann náði sjaldnast að ljúka við setninguna, að hún er rokin upp um háls honum og koss smellur á kinn: Þarft ekki að segja það, þarft ekki að segja það, elsku hjartans þorskhausinn minn, draumaprinsinn minn! Auðvitað hleyp ég út eftir tóbaki handa þér...

 

Þúsund þorskar á færibandinu

Vertíðin er hafin og fennt hefir í spor Kertasníkis, er skilaði sér loks heim í hreppa til Grýlu og Leppa, jólasveinanna allra seinastur, seint á þrettándakveldi jóla. Dies soli invicti nati. Og þegar kemur lengra fram á sér hann varla sína ástkærustu á meðan aflahroturnar standa yfir. Þá fer hún á fætur með blaðburðarbörnunum og vekur hann svo með kossi að kveldi af draumum sínum þar sem hann gjarnan dottar í sjónvarpsholinu, þreyttur eftir sína dagsins önn.

Fyrst framan af er yfirleitt rólegra, stundum jafnvel aðeins dagvinnan. Þá er yndælt að koma við á góðum stað á leiðinni heim og létta sér ofurlítið byrðina með smá laufléttum pela. Þau gera þetta af og til, og ekkert síður hann, þegar þannig stendur á. Það er svo yndælt að setjast við eldhúsborðið og láta líða þannig úr sér fyrir matinn. Finna punkt tilverunnar innra með sér eftir vellíðunarhroll sturtunnar.

Hún saknar dálítið gömlu verkunarinnar, þar sem þau voru allt í öllu og nær allt var unnið í höndum og hafði minnt hana svo á gamla daga þegar hún var úti á landi og tók helst litlu húsin fram yfir hin stóru, sem voru ævinlega full af glymjandi vélargný og einhæfu handtökin aldrei færri en þorskarnir þúsund á færibandinu sem þokuðust sífellt nær. Núna er komin flatningsvél, flökunarvél, flokkunarvél, salthristari og heil færibandalína í gömlu verkunina. Og allt orðið karavætt og vissara að gæta sín á lyftaraskrímslinu sem æðir um gólf...

 

Fagur fiskur í sjó

bröndóttur á halanum

með rauða kúlu á maganum.

Vanda, vanda,

gættu þinna handa,

vingur, slingur,

vara þína fingur.

Fetta, bretta,

brátt skal högg á hendi detta...

 

Eilífur niðurinn ætlaði hana oft hreint að æra. Henni hafði alla tíð verið gjarnt að finna til þreytu í höfði og allur hávaði verið sem eitur í hennar beinum, þá oft verið þrautaráðið að syngja kröftuglega á móti, því að söngurinn linaði gjarnan hlustaverkinn þegar hann var hvað hvimleiðastur, leitandi upp í höfuðið lamandi hugsun hennar; og var söngurinn henni vissulega alls engin þraut, öðru nær, hvort ekki heldur linaði þraut. Eyrnaskjólin sem þau höfðu uppi gerðu takmarkað gagn og mynduðu til lengdar óþægilegan þrýsting á hlustirnar, og ævinlega smaug niðurinn í gegn. Hún hafði að lokum kosið að leita til læknis, því að eitthvað hlaut að vera bogið við það hve hún var ofurnæm fyrir öllu þessu áreiti sem aftur félagar hennar virtust ekki svo mjög kippa sér upp við — nema þá að létu sig bljúg hafa það? Eftir ítarlegar rannsóknir og sneiðmyndatökur af haus og hálsi, með þeirri niðurstöðu að út frá öllu vefrænu sjónarmiði væri hún einfaldlega stálhraust og frískari en fiskur, þá sendi læknirinn hana að lokum til taugasérfræðings, sem kynnti fyrir henni algjörlega nýja kynslóð geðlyfja, eins og hann hafði orðað það. Sem eru nær alveg laus við allar hliðar- og aukaverkanir gömlu lyfjanna, hafði hann bætt við...

Og enn þeir fiskinn fanga, við Flúðir, Svið og Dranga..., hafði ósjálfrátt komið upp í huga hennar og hún óskaði sér þess heitast að tunglið tæki hana og bæri hana alla leið upp til skýja. Eða allaveganna hugurinn hálfa leið í einhverja heima nýja. Jesús! Var þetta þá allt af geðveikum rótum sprottið! Og hrollur hafði farið um hana.

Læknirinn hafði strax róað hana niður með þeim orðum að þó að þetta væru að vísu svokölluð kvíðastillandi lyf þá vildi svo til að sterkt orsakasamband væri milli kvíða og þreytu í höfði og að þessi nýju lyf virtust gera ýmsum gott í því sambandi, meira að segja sumum sem væru hrjáðir af mígreni. Hvort hún vildi ekki prófa?

Víst gerði hún sér grein fyrir því að mannkynsfrelsarar nútímans voru kröfuharðir. Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, setjist með oss að gnægtaborði eilífðarinnar. Sá hængur einn er á að enn þurfum við, eða að minnsta kosti einhver, að kynda undir soðkötlunum, en allt er það einungis spurning um tíma. Spurning um uppfylling tímans, þá er allt mun af sjálfu sér ganga og vér sitja öll saman til borðs og einungis njóta gnægtanna. Þangað til skiptum við með okkur verkum við færibandið og væntum frelsisins sem sífellt þokast nær; einn stjórnar, annar brýtur til mergjar, þriðji raðar á bandið, fjórði setur saman, fimmti tekur af bandinu, sjötti gengur um og smyr bandið en sjöundi stillir hraða hagkvæmninnar, áttundi stendur uppi á stól og hvetur til enn meira hagræðis, níundi syngur fyrir salinn um uppfylling tímans þá er jafnvel muni heyrast til hans í mannlausum sal, hvar þá allt um sjálfsmurðar eilífðarlegur snúist; þá hvetur sá tíundi þann áttunda með ráðgjöf, og veitir ekki af, og ellefti þann tíunda með því að sýna heimspekilega fram á að brátt hljóti uppfyllingin að vera í nánd, hin hinstu rök og saðning alls, smurning sjálfs mannsins, en tólfti boðar bráðabirgðafögnuð lyfjanna, að einungis sé spurning um tíma, að mannkyn fái lagað sig svo að breyttum aðstæðum að úrval alls úrvals fái upp vaxið í alltumlykjandi faðmi frelsisins einasta, frelsisins einskæra, frelsisins einstæða; og situr loks á skriftarstóli sá þrettándi og skráir samviskusamlega allt um ferlið, að skapa sögu uppfyllingarinnar, brjótandi svo heilann, að hvergi halli nú lóð á neinn á vogarskálum þá er hinsti dómur muni upp verða kveðinn.

Herrar mínir og frúr! Frelsið er í nánd! Þokast sífellt nær og nær! Nú þegar sjá lýsisbræðslurnar um sig sjálfar, eða þar um bil næstum því. Eða hvort kemur mannshöndin þar nærri, að kynda undir soðkötlunum? Uppfyllingin er í nánd! Sannið til! Uppfylling saðningar. Uppfylling vona. Uppfylling tímans. Kærleikans! Þá er frelsið eitt mannkyn mun rækta. Og vér smyrja oss með, en með alls engum grúti, hvað þá inntökum.

Og hún hafði ákveðið að prófa og með talsvert góðum árangri. Á því lék enginn vafi að hávaðaóþolsins gætti ekki í sama mæli og áður, og niðurinn fylgdi henni síður heim. Eins og að sigla himinfleyi samanborið við kafbátinn sem hún á tíðum hafði verið í áður! fannst henni jafnvel á bestu stundum. Það var og rétt hjá lækninum, engra hliðar- eða aukaverkana gætti, að hún yrði vör við. Og ekki neinna áhrifa. En þessi lyf voru víst eitthvað skyld töfratöflum sem hennar heitelskaði hafði innbyrt samkvæmt læknisráði er hann hóf sitt litla en tapaða tóbaksbindindisstríð. Skemmtileg tilviljun, höfðu þau verið sammála um er hún skýrði honum frá hvers eðlis töflurnar hennar væru.

Ekki óraði hana fyrir því þá að töflurnar ættu eftir að verða hennar Akkilesarhæll í þeirra sambandi, að högg úr óvæntustu áttinni ætti eftir á hendi hennar að detta.

Daginn inn og daginn út standa þau þarna í nýgljámáluðum geimnum með eyrnaskjólin sín, sem jafnframt eru heyrnartól, starandi út og suður eins og hálfvitar, enginn heyrandi hvers annars mál, en hraðar hendurnar vinna verkin nær blindandi af einskærum vana. Gamlimann, sem er reyndar að mestu hættur, búinn í baki og mjöðm, en sonurinn tekinn við verkstjórninni, kann sér ekki læti þegar hann lítur inn. Skyldi hann halda sig kominn til himnaríkis? Um haustið þegar þau voru að prufukeyra fyrstu sporðana hafði hann fengið að prófa heyrnartólin hennar og brosað eins og bjálfi upp í rjáfur á meðan hann valdi sér eyrnakonfekt, hrærandi í stöðvarleitaranum. Skorti þau í raun nokkuð, leyfði hún sér að hugsa, nema skjái í salinn, virkilega bráðabirgðauppfylling vona, bíó paradís? Orðinn af aurum api, hafði hún hrópað að þeim gamla hástöfum og blikkað hann um leið kankvíslega. Hugsa sér, og ekki einu sinni snúra! hafði hann sagt þegar hann réttir henni aftur tólin stórum brosandi. Ja, seiseia, seiseia, ég skal sei-a ykkur það! Hvað varstu annars að sei-a, lambið mitt? Mikið hefurðu ávaxtað vel pundið þitt, var ég að segja, hafði hún sagt og gefið þeim gamla klapp á kinn og hann kjagað út, kinkandi kolli, enn stórum brosandi.

Guð, hvað ég öfunda þig, segir ráðuneytisfulltrúinn og skenkir þeim lögg þar sem þau sitja við eldhúsborðið. Sannkölluð draumaparadís. Geta verið að allan liðlangan daginn bara að hlusta á útvarpið á meðan ég má láta innantómt skvaldrið í stelpunum yfir mig ganga endalaust, það er að segja þegar ég á ekki símavaktina og þá með gagg og gjammtólin uppi daglangt, eins og drauma í dósum, að senda þessa jeppakalla og hálksklútakellingar út og suður í burréóinu. Eftir svoleiðis daga verkjar mig í eyrun, skal ég segja þér.

Burr...?

Burréóinu, bírókratinu. Gogg, gogg, gogg! gaggar hann til áhersluauka og var orðið heitt í hamsi. Þar sem allir gagga, þú veist, og gjamma hver upp í annan og gogg-gogg-gogga hver í annan allt hvað þeir geta. Bara til að mega tróna sem hæst í þessum píramída, þessum margra hæða fisktrönuhjalli með eintómum þorskhausum hangandi á hverri einustu rim og slá...

Hann snýtti sér, mikið niðrifyrir.

Af hverju klifrar þú þá ekki bara upp líka, ástin mín? Og yrðir þá náttúrlega með ritara til að sjá um allt gaggið og gjammið...

Hún hló snöggt og bætti við: Og þú gætir ráðið mig!

Þetta er ekki til að hafa í flimtingum, sagði hann og stökk ekki bros á vör. Hann var orðinn reiður. — Þú veist að karlmenn nú til dags eiga sér engrar viðreisnar von. Sjáðu til dæmis hana Viggu. Sem á að heita deildarfulltrúi yfir okkur í upplýsingunum. Deildarfulltrúi yfir hverju? Þá sjaldan að hún kemur ekki fram til að leysa okkur hin af hangir hún á bak við í kompunni sinni að leggja kapal. Í tölvunni! Eða hún hangir á netinu. Nema náttúrlega hún segist þurfa að fara á fund og kemur svo til baka tveimur tímum seinna öll angandi, nýkomin úr lagningu! Af hverju var hún tekin fram yfir mig? Af því að hún er kona! Kona, kona, kona! Og þykist öllu ráða, er eins og örn vokandi yfir okkur sé hún ekki að varalita sig eða spegla sig í tölvuskjánum. Bannar okkur meira að segja að hafa nokkra persónulega muni í kringum okkur. Henti núna um daginn uglu, sem ég hafði stillt upp á hillu, beint ofan í skúffu, og svo harkalega að annar vængurinn datt af henni! Sagði ég þér ekki frá því? Hún bað mig að vísu afsökunar og sagði sér þætti þetta leitt, en var þá búin að vera að tönnlast á því að það væri óþolandi að hafa þetta starandi augnaráð, sem hún kallaði, yfir höfðum þeirra og allra gesta og gangandi, líkast því að þetta væri einhver njósnastofnun! Hefurðu vitað annað eins! Vængbrjóta blásaklausa ugluna! Nei, það væri skal ég segja þér dálítill annar bragur á þessari upplýsingaþjónustu ef ég fengi að ráða. Það máttu hengja þig upp á, mín kæra!

Æ, annars, mér leiðast svona samræður, sagði hann argur og stóð upp. Af hverju er aldrei hægt að tala um neitt skemmtilegt? Og hann kveikti undir kartöflunum, gekk fram í hol með pípuna sína í munni og glasið í höndum og kveikti á sjónvarpinu. Það voru byrjaðar fréttir.

 

Þúsund þorskar á færibandinu þokast nær

Eitt kvöldið þegar hún kemur heim úr verkuninn situr hann við borðstofuborðið, afar önnum kafinn. Skápar standa opnir, hálftómir, en aftur á móti á borðinu eru bunkar af pappír, og hálfskrifuð blöð liggja á víð og dreif, út um allt gólf líka. Hann situr boginn við, í þykkum reykjarmekki, yfir drifhvítri örk, með fjöðurstaf í hendi, með blekbyttu, öskubakka og þerrikefli fyrir framan sig.

Hann er sem á nálum, þegar hún birtist með snjóflygsur í hári og hrímkaldar kinnar; hafði misst af vagninum heim. Annars var hún vönust því að ganga og njóta þess að finna þreytuna hríslast úr skrokknum, tálmaði ekki veður mjög för.

Ekki trufla mig, ekki trufla mig, hvíslar hann og er sem í öðrum heimi. Það skrjáfar í pappírnum orð fyrir orð undan fjöðurstafnum.

Enginn matur, þú verður að sjá um þig sjálf, hvíslar hann.

Hún kyssir hann á kinnina og klappar honum á kollinn. Guð, hvað er gaman að sjá að þú skulir vera byrjaður aftur. Eru ekki mörg ár síðan síðast? En af hverju notarðu ekki tölvuna?

Ég þoli ekki tölvur, það veistu! hálf hvæsir hann og dýfir fjöðrinni í blekið og heldur áfram skriftunum, alveg á glóðum.

Jú, hvort hún ekki vissi. Hann hafði farið á ritvinnslunámskeið um haustið á vegum ráðuneytisins en ekkert lagt sig eftir því að halda sér í þjálfun. Ráðuneytið hafði lánað honum gamla ferðatölvu af þessu tilefni en hún var búin að vera nær ósnert á skrifborðinu hans síðan að námskeiðinu lauk. Óþol hans fyrir tólum af þessu tagi gat jafnvel orðið svo megnt að hann roðnaði af reiði einni saman yfir að sjá hana tilsýndar sitja við sína eigin tölvu við sitt eigið vinnuborð inni í barnaherbergi. Nóg er nú samt, átti hann til að kveinka sér, að þurfa að sitja við og horfa upp á þessi apatól í vinnunni að maður þurfi ekki að umbera það heima hjá sér líka! Og ekki leið á löngu þar til að hann var búinn að skila lánstólinu til síns heima.

Hann sat við skriftirnar alla helgina sem nú fór í hönd. Hún tiplar um á tánum og rifjar upp það litla hún kann fyrir sér í matreiðslulist. Hún hafði eiginlega fengið ofnæmi í æsku fyrir allri þannig list. Svo hart hafði móðir hennar jafnt sem matreiðslukennarar lagt að sér við að hrista úr henni mótþróann að hún efaðist um að hún myndi nokkurn tímann bíða þess bætur. Aftur á móti hafði henni alltaf þótt jafn gaman af að þvo upp. Alveg frá því að hún var smástelpa. Gat þá líka alveg gleymt sér. Verst hve hann tók það oft agalega óstinnt upp þegar hún óvart gleymdi sér um of og eitthvað smá brotnaði. Eins hvað hann þoldi illa að hún yndi sér beint í uppþvottinn strax eftir matinn, henni sem þótti alltaf svo gott að koma því mesta frá, allavega hreinsa matarleifar af diskum og skola þá. Og ganga frá borðinu. Þarftu endilega að vera að þessu núna, yndið mitt, átti hann þá til að segja og vildi að hún settist strax inn með honum og þau fengju sér kannski kaffi saman og súkkulaðirúsínur.

Það er komið sunnudagskvöld og hann er enn að. Hefur varla vætt deigan dropa alla helgina, né heldur rakað sig. Hvað þá heldur að farið hafi út úr húsi, og hún raunar ekki heldur nema til þess eins að fara í verkunina og afplána sína laugardagsyfirtíð, og heim aftur með hríðina í fangið; hún hafði enn misst af vagninum, og var þó alltént notalegra að ganga, svo vel búin sem hún oftast var, en að hírast í skýli einhverju bíðandi lon og don. Það var búið að vera að ganga á með slydduhríð alla þessa helgi og undanfarna daga. Kominn á suðvestan, leiðinda þrálátan, eftir ösku suðaustan hlákudumbungshret síðhallandi.

Hún vogar sér varla að líta inn til hans. Hefur hallað eldhúsdyrahurðinni aftur og gæti verið að dunda sér við uppþvottinn alveg eins og hana lysti ef hún væri ekki búin að því öllu fyrir löngu. Situr við eldhúsborðið og yljar sér yfir ofurlítilli veig við kertalog. Hafði satt að segja ekki staðist mátið. Eitthvert hræðilegt tómarúm var að myndast innra með henni. Löggin frá kvöldinu áður var búinn og hún hafði því brugðið á það ráð að kafa hríðina út á næsta bar og biðja þá um að selja sér smá lögg á pela. Sko, það hefðu óvænt komið gestir og... Jú, alveg sjálfsagt.

Á hillum og syllum sitja spæjararnir sínu varðbergi á, sínum grandvöru, vökulu, alsjáandi augum. Hún blikkar uglurnar og gestir hennar kveða sér hljóðs af myndum á veggjum eða úr einhverjum heimum huga hennar og hún raular með. Siglir með þeim um himna og höf en kafar síður mjög djúpin.

 

Þar er siglt á silfurbát

með seglum þöndum,

rauðagull í rá og böndum,

rennir hann beint að ströndum,

rennir hann beint að björtum sólarströndum.

 

Hún hafði svo sett í smá staup handa honum og ætlað að færa honum, læðst inn í borðstofu honum að óvörum og hvíslað í eyra hans: Hvernig gengur með leturgrímurnar?

Hann hafði hrokkið upp af stólnum, svo hverft hafði honum orðið við, og rekið um leið hendina í staupið svo að hvolfdist úr því yfir blekblauta örkina.

Jesús minn! hrópar hann. Þú ert ekki með öllum mjalla! Sérðu hvað þú hefur gert!

Hún stendur stjörf í sömu sporum á meðan hann þýtur fram eftir bréfþurrku og reynir síðan að þerra upp það mesta af vínandanum en blekið einungis rennur enn meira út fyrir bragðið.

Nei, segir hann og dæsir og sest á ný. Ég verð víst að semja þetta allt upp á nýtt. Hvert var ég annars kominn? Var með þetta alveg skýrt í kollinum rétt áðan en nú er allt farið! Farið, farið, farið!

Hann hálf hvíslar síðustu orðin og snýr sér hægt að henni þar sem hún stendur enn fyrir aftan hann hálflömuð. Orðin sitja föst í hálsinum á henni, eins og illvígur kökkur. Henni þykir þetta svo leitt.

Allt þér að kenna, segir hann ásakandi.

Mér þykir þetta svo leitt, stynur hún loks upp lágum rómi.

Leitt! Er það allt sem þú hefur að segja? Þegar allt er farið, allt orðið að eintómri tjöru —.

Voða leitt, stynur hún enn.

Með punktum, kommum og öllu saman!

Svo voða leitt, stynur hún, gráti nær.

Hann teygir sig eftir blekbyttunni, dýfir fjöðurstafnum í og grúfir sig yfir nýja örk en orðin láta á sér standa. Nei, nei, allt farið, hvíslar hann með sjálfum sér, með rjúkandi pípuna milli samanbitinna tanna, en blekið einungis drýpur af pennanum og myndar dökkar kúadellur á hinni drifhvítu örk. Verð þó að reyna, hvíslar hann og grúfir andlitið í höndum sér. Ó, að andinn kæmi nú aftur yfir mig. Miskunnaði sig yfir mig. Ó, hjálpi mér allir englar guðs í paradís.

Hún stendur enn fyrir aftan hann og fær hvorki hrært legg né lið.

Sérðu ekki manneskja að ég er að reyna vinna! hreytir hann allt í einu út úr sér, þegar orðin láta enn á sér standa. Eða ætlarðu að standa þarna í allt kvöld eins og þvara? Fyllibyttan þín!

 

Þúsund þorskar á færibandinu sífellt þokast nær

Það er komið fram yfir miðnætti og hún situr enn inni í eldhúsi. Síðasta veigin í glasi á borðinu. Og fáein pappírsblöð. Hún er að rissa upp hugmyndir að grímum við kertalogann. Það er vissulega notalegt, þegar úti napur vindur hvín og hret er á glugga.

Vælir útí veðri og vindum, vetrarnæturlangt, meðan ljótir kallar liggja hana mömmu, raular hún með sjálfri sér og uglum öllum og gestum. Og pabbi í druslum, dauður í kompu, úr drykkju liggur, hlandbrunnið braggabarn í barnavagni...

Hálfhlær með sjálfri sér og sér myndríkan textann fyrir hugskotssjónum sér, líkt og grímu. Hretið á glugganum þá bakgrunnurinn. Samt erfitt að fanga hugmyndina og skissa upp á blað. Eiginlega einum of margbrotin.

 

Þögull Þorri heyrir

þetta harmakvein

gefur grið ei nein,

glíkur hörðum stein...

 

sönglar hún með sjálfri sér og lætur sig dreyma um betri tíð með blóm í haga. Hún hlakkar til sumarfrísins. Þá ætlar hún að láta hendur standa fram úr ermum. Um haustið þegar hún flutti hafði hún farið með þrjár grímur í gallerí. Eigandinn hafði í fyrstu verið hikandi við taka þær en svo ákveðið að slá til. Nokkuð skemmtilegar, hafði hann sagt, en... Gott og vel, látum á það reyna hvort listunnendurnir mínir falli fyrir þeim. Og ein var seld! Hafði farið skömmu fyrir jól. Það var dálítið undarleg tilfinning að vita af henni einhvers staðar á ókunnum stað, ekki ólíkt því að hún hefði sent frá sér eitt barna sinna og vissi ekki hvar það væri niðurkomið! En allar sölur voru víst trúnaðarmál vildi kaupandinn svo hafa það, nokkuð sem hún varð að læra að sætta sig við — að missa af þeim sjónum, kannski fyrir fullt og allt, eins og þær voru henni samt hjartfólgnar, grímurnar.

Hún átti nokkrar uppi á veggjum hér og þar út um land. Í landlegum og þegar ekkert barst að hafði hún oft varið dauðum tímanum í grímurnar sínar. Sums staðar voru starfrækt lítil listvina- og menningarfélög sem stóðu stundum fyrir sýningu á meðal félagsmanna og hún stundum fengið að fljóta með. Í fásinninu var þetta oft stórviðburður og allir mættu sem vettlingi gátu valdið. Og ekki skorti kaupáhugann. Gjarnan var prúttað um prísinn, mest þó til gamans, og yfirleitt seldust flest verkin og á hóflegu verði sem tók mið af kaupgetu hvers og eins. Það hafði verið allt öðruvísi, líkara því að hún væri að koma börnunum sínum í fóstur, því að hún vissi alltaf hjá hverjum þau lentu.

Um hálfþrítugt hafði hún farið í ríkisins myndlistarskóla en svo hætt eftir tvo vetur, í miðju kafi. Eins og henni hafði samt gengið skínandi vel. Hún skildi ekki alltaf sjálfa sig eða óeirðina sem átti til að koma upp í henni. Sumarið eftir seinni veturinn hafði hún farið með vinkonu sinni að vinna í frystihúsi úti á landi. Og dóttir hennar eina þá komið undir. Víst hefði hún getað farið suður á ný og að minnsta kosti byrjað í skólanum. Mátti vita að samband með manninum gengi aldrei upp en hún þó engu að síður tekið saman við hann og þau sest að í íbúð heima hjá foreldrum hans þarna í plássinu. Dóttir þeirra var ekki einu sinni komin í heiminn, að fuglinn sá var floginn úr hreiðrinu. Floginn burt eitthvert út í heim, á flótta burt frá óttanum við baslið, og hún sá hann aldrei meir. — Æ, hann Nonni minn hefur aldrei getað unað við neitt til lengdar, sagði móðir hans sem átti ekkert til nema kærleik í hjarta sínu handa móðurinni ungu og litla hvítvoðungnum. Og svo hafði æxlast til að þau afinn og amman höfðu tekið þá litlu að mestu að sér og alið upp, og ekki síst í tónlistarlegum efnum. Hún hafði haldið góðu sambandi við þau og oft heimsótt dótturina og dvalið hjá þeim og oft á tíðum unnið í húsinu þar á staðnum um hríð. Og sú litla einnig sótt hana heim hvar hún þá bjó hverju sinni — hún mamma hennar, síðasta farandverkakonan, sem hún átti til að kalla sig í gamni — eða hún þá dvaldist með ömmu sinni og afa hinum í borginni þar sem hún hafði líka mest haldið til eftir að hún byrjaði í skóla fyrir sunnan. Núna var hún orðin stór stúlka, álíka stór og álíka gömul og hún mamma hennar hafði verið þegar hún ól hana í heiminn. Hún hafði nýlega lokið einleikaraprófi í fiðluleik og starfaði í sinfóníunni með manninum sínum sem lék á selló.

Hún fór sjaldan á tónleika með þeim þó að oft stæði henni það til boða. Elskaði sígilda tónlist, nema síst sinfóníur sem voru þó þeirra helstu ær og kýr, ekki heldur úr svo miklu að moða fyrir þau í þeirri listbúskaparins ærnu þraut. Henni leið ekki heldur vel í stórum, hátíðlegum tónleikasölum, fannst andrúmsloftið jafnan uppspennt og þrúgandi; og maðurinn hennar, sem nú sat sveittur inni í borðstofu að leita uppi punktana sína og kommurnar, sem hún hafði óvart glutrað niður fyrir honum, hann var ekki heldur mikið fyrir sinfóníur. Hún var ekki heldur viss um að hann væri mikið fyrir þau og hún var oft hikandi við að ámálga við hann að þau kölluðu í þau. Nema að væri einungis misskilningi hennar og eigin úrræðaleysi um að kenna. En einhvern veginn virtist henni að honum þætti hann eiga nóg með sig og dætur sínar og lítinn dótturson, sem komu oft í heimsókn með snaggaralegum gusti og vörpuðu á heimilið, og ekki síst sá litli, fjörkálfur mikli, birtu og yl.

Það er einhver fyrirgangur í borðstofunni. Hún heldur niðri í sér andanum. Þorir sig vart að hreyfa. Skáphurðum er skellt. Hún fylgist með fótataki hans og vonar heitt og innilega að hann komi nú inn í eldhúsið til hennar svo þau fái sæst og saman setið á sárs höfði.

En hann kemur ekki. Hún heyrir að skrúfað er frá krönum og aftur fyrir. Ó, hve þungt er hans skóhljóð ... og hurð er lokað. Svo er allt hljótt.

Hún læðist fram og lítur inn í borðstofu. Þar er allt strokið og fínt. Hvergi pappírssnifsi að sjá, né blekbyttu né fjaðurpenna. Aðeins öskubakkinn er á borðinu miðju með pípu kaldri og engri glóð.

Hún gengur til baka inn í eldhús og lýkur við veigina.

 

Þei, þei, ró, ró,

þagnar fugl í mó.

Ei við skulum hafa hátt,

hægt og rótt þú sofa mátt.

Þei, þei, ró, ró,

þagnar fugl í mó.

 

Hún veit það ekki núna, en vísast á hún aldrei framar eftir að sjá hann dýfa fjöður í blek.

 

 

Fyrsti heimur?

Annar heimur?

Þriðji heimur?

Fjórði heimur?

Fimmti heimur?

Sjötti heimur?

Í allt öðrum heimi, heima í millum eða heimum alls neðar?

Sjöundi og efsti heimur?

Heimsendir?

Endir?

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist