< Punktar um passíu

 

 

 

Fyrsti heimur?

 

Frá krossmessu á vor til jóla

 


Hún var dóttir sérfræðings í skurðlækningum og móður sem hafði starfað með löngum hléum og í íhlaupum sem ritari lögfræðinga en annars verið heimavinnandi mest alla tíð, þau bæði farin að draga saman seglin og huga að ellinni. Bæði voru þau afkomendur embættismanna af gamla skólanum, önnur amma hennar hafði þó verið skáld og rithöfundur, þó að vísu fremur lítt þekkt hefði verið, enda átt jafn erfitt uppdráttar með frásagnarefni sín alls kyns sem rithöfundarkyn sitt.

Móðir hans hafði lengst af unnið úti, verið barnakennari, en faðir hans verið verslunareigandi, og voru þau nú nokkuð nýlega sest í helgan stein. Foreldrar hans eru bæði komin af rótgrónum iðnaðarmönnum en engum nýaðli, það var fólk sem borið hafði með sér heim frá námi kúltur og klassík og ýmsa kompása nýja, og ekki hafði veitt af í áttavilltri fornöld embættismanna og bændalýðs, önnur amma hans hafði reyndar verið þekktur og eftirsóttur ljósmyndari, nú nýlátin í hárri elli.

Það er skemmtileg tilviljun, fannst þeim báðum tveim, er kynni þeirra hófust fyrir alvöru, að þessar ömmur þeirra höfðu báðar tekið í nefið, og höfðu þau raunar hvort um sig erft tóbakshornin þeirra gömlu og góðu. Ömmu hennar horn var af gömlum bola er Skjöldur hafði heitið og var svo mikið og hringundið að snúa skyldi því í fleiri hringi til að tóbakið nú rynni fram í gulli sleginn stútinn þá er af væri gullhettan og handarbakið klárt. Ekki að undra að átti að hafa verið ættfaðir hálfrar sveitarinnar ömmu hennar, mikils skjaldakyns, að því er hún hafði oft sagt henni frá. Hornið ömmu hans er heldur minna um sig, þó að einnig stórt sé og enn hringundnara, enda af brundhrúti einum öflugum er mikill ættbogi átti og að hafa staðið af í þeirri sveitinni, sveitinni ömmu hans, og Brútur hafði víst verið kallaður, og var ekki síður fallegur í stútinn en Skjöldur gamli, silfursleginn langt upp á bein, og var afar drifin smíði.

Annars fær lesandi ekki margt að vita um bernsku þeirra eða þeirra annað fyrra líf, eða forfeðra eða formæðra, nauta eða hrúta kynin. Þau eru alin upp í sitthvorum borgarhlutanum og við ekki ólíkt atlæti, hann þó öllu frjálslegra en hún, sem aftur má slíta barnskónum við meiri formfestu og foreldraaga. Eftir fremur áhyggjulaus ungdómsár og góðan árangur í skóla er þeim báðum ætluð nokkuð ákveðin menntabraut sem verður þó slitróttari en efni stóðu til og foreldrar ætluðu. Hann með sínar afburða einkunnir í skyldunámi fer að slá slöku við en lætur sig dreyma um að fara á fjarlægar slóðir. Og hefur sitt fram og er sextán ára gamall kominn vestur um haf til ættingja sinna og með ódrepandi áhuga á flugi. Langaði hann mest til að læra það. Það reynist þó torvelt enda dýrara nám en tárum taki. Fljótlega er hann kominn til meginlandsins austan ála og starfar þar um hríð hjá flugfélagi heimalands síns. Þá er hann alltént í góðri stöðu til að veita þrá sinni útrás í fríum, að fara um heiminn, þó að einungis farþegi sé, er mannblendinn og félagslyndur og veitist auðvelt að læra tungumál.

Eitt sinn þegar hann er heima í fríi hlýðir hann á sögu af draumspökum síldarspekúlanti nokkrum er hafi bjargað afskaplega slakri vertíð með býsna eftirminnilegum hætti. Til spekúlantsins kemur einn síldarskipstjóranna í öngum sínum, hvergi sé bein að hafa úr sjó, og þaðan af síður síld, og spyr hvað til bragðs skuli taka. Líkastur svefngengli gengur þá spekúlantinn að stóru korti er uppi á vegg hangir af eyríkinu, sem hann og miðar á það án hiks penna sínum, þá öllu líkastur vegpresti; og sem í öðrum heimi stingur hann pennanum á kaf í kortið á hnitmiðuðum punktinum, er reyndist vera lengst norður og austur í Ballarhafi. Þarna, segir hann, þarna á punktinum, þar er hún!

 

Fyrstu punktar

Og þar reyndist hún líka vera, síldin, á Punktinum, og held ég að hann heiti það víst enn þann dag í dag, punkturinn sá, sagði hann henni frá, því sem hann hafði heyrt ungur maður. Þetta er snemma í frásögninni, aðalsöguhetjur okkar tvær þá komnar nokkuð á miðjan aldur og hafa nýlega kynnst og eru að lýsa lífshlaupi sínu fyrir hvor annarri. Og hann tjáir henni að hann hafi farið að dæmi spekúlantsins eða vegprests rammskyggna, opnað landabréf, þó ekki af eyríkinu og hafinu umhverfis heldur af öllu meginlandinu austan ála — svo lokað augunum og látið sig dreyma og stungið penna á kaf í kortið.

Þannig smá kynnumst við manninum og konunni sem voru sífellt að leita að rétta punktinum. Því að svo vill til að hún ung stúlka fylltist líka útrá og hafði einnig slegið slöku við og reyndar lánast að falla á inntökuprófi í menntaskóla við mikinn harmagrát sinna nánustu. Hafði fallið í algebrískri hnitafræði og það næstum í yfirlið. Tók í miðju prófi að sjá allt renna út í móðu fyrir augum sér, skildi við setningu Pýþagórusar hálfkaraða á borðinu og sveif út, lánaðist það sem sagt fremur, að svífa út, en að líða út af.

Hún man ekki vel hvort það hafi verið nákvæmlega þá, þarna í móðunni, sem hún sá fyrir sér punktinn sinn eða hvort hún hafði líka heyrt þessa prestasögu. En það er allavega um svipað leyti sem hann fer á sinn punkt, sem reynist vera gömul borg í miðri álfunni, að hún fer í sína fyrstu ferð til útlanda, þó heldur skemmri veg, til gamallar borgar við ystu sjávarrönd eyríkis öllu meira og voldugra en það sem þau bæði komu frá. Hún kominn á punktinn sinn til að læra tungumál þeirra eyjarskeggja, hann á sinn til að kynnast heiminum og öllu enn betur — er þó varla lentur á punktinum sínum en að hann kynnist konuefninu sínu.

Nú, þarna á punktinum, þar sem sagt var hún! segir hann. — Nei, en það var sko engin déskotans síld, heldur konan mín sem átti eftir að verða til margra ára. Segir hann núna, góðum þremur áratugum seinna, annarri konu sem hann er núna að kynnast, á enn einum nýjum punkti í lífi sínu, á tímapunkti sem þá er líka nýr í lífi hennar.

 

Lygn fram streymir

Það er að vori, um krossmessuna, í tindrandi ljóma maístjörnunnar, að sagan tekur að streyma fram og nokkuð ljúf og lygn allt fram til næsta vors. Hún er að vinna í gamalli fiskverkun í borginni, hann er fulltrúi í einu ráðuneytanna. Við fáum að vita að konan hans, sú sem hafði verið til margra ára og ekki verið nein déskotans síld, að minnsta kosti ekki á þeim punkti í lífi hans, hafði þá verið rétt að ljúka námi í húsgagnahönnun. Hún var fáeinum árum eldri en hann sem þá brátt stóð á tvítugu. Þau höfðu látið pússa sig saman í hvelli og flutt í lítinn bæ í heimkynnum hans norður á skaga, sem hann svo kallaði, í landi þar nokkru næsta við.

Og til að gera langa sögu stutta — eins og honum var gjarnt að komast að orði, og lýsti nú fyrir nýju kærustunni sinni — þá bjuggum við í þessu landi næsta áratuginn eða svo, fyrst þarna í þokusagganum norður á skaga þar sem við eignuðumst fyrri dóttur okkar, síðan í sjálfri höfuðborginni, sem sumir vilja nú meina að sé hin eina sanna háborg höfuðborganna.

Þegar konan mín eignaðist fyrri dótturina vandaðist dálítið málið því að nú lögðust heimilisverkin helmingi þyngra á mig og ég gat lítið aðstoðað hana við húsgagnahönnunina, sem ég hafði þó tekið all nokkurn þátt í með henni, og varla heldur neitt gripið í párið mitt, sem var og er enn smá tómstundagaman mitt og ég segi þér kannski frá seinna. Ég var hins vegar því duglegri við að læra málið og lét mig nú brátt ekki muna um að rífa kjaft við þessa heimóttalegu norðankalla sem voru sífellt logandi hræddir um kellingarnar sínar fyrir mér. En þetta var of erfitt þarna í strjálbýlinu og við sem sagt fluttum okkur um set, og sem betur fer lengra inn í land og heldur sunnar, til höfuðborgarinnar, sjálfrar háborgarinnar.

Á þessum árum var allt erfiðara og frumstæðara en nú er. Þarna úti eru húsakynni öll lélegri og heimilisverkin eftir því erfiðari en við eigum að venjast, að minnsta kosti voru þau það svo sannarlega á þessum tíma. Og árin liðu og okkur fæddist seinni dóttir okkar og við fluttum í eitt norðurhverfanna. Maður var einlægt að drepast úr kulda á veturna og allt árið um kring ýmist að jagast í köllunum út af kellingunum þeirra eða þá í kellingunum til að koma þeim í skilning um að ég mæti vel kunningsskap við þær þótt það þýddi ekki endilega eitthvað annað og meira en notalegt spjall saman um börnin og búskapinn og að fara kannski út í búð saman.

Að lokum var svo komið að mig langaði heim, þrátt fyrir að margt væri dásamlegt þarna úti, ekki síst að hafa fengið að nema tungutakið af þessu annars ágæta fólki; og svo auðvitað maturinn, vínin, veislurnar, að ógleymdri sólinni þegar hún var hátt á lofti, sem ég elskaði.

Fyrstu vikurnar liðu og svona spjölluðu þau gjarnan saman eða fjösuðu um eitthvað milli himins og jarðar, maðurinn og konan, ellegar þau voru að kyssast og láta vel hvort að öðru eða jafnvel gera hitt og þetta og ýmislegt, og voru þó enn bara venjulegt kærustupar. Þegar við stöldrum við þennan punkt í sögunni búa þau enn í sitthvoru lagi, að vísu ekki ýkja langt frá hvort öðru, í útjaðri miðbæjarins, hún í lítilli blokkaríbúð sem hún leigir, hann aftur á móti í ansi rúmgóðri og fallegri íbúð sem öll bar merki um afar glöggan smekk og fágað handbragð eigandans. Hún kemur ósjaldan til hans á kvöldin og áður en langt um líður eru þau farin að dvelja flestum frístundum saman og...

 

klappa saman lófunum,

reka féð úr móunum,

tölta eftir tóunum,

tína egg úr spóunum.

 

Hún fór í fiskverkunina eldsnemma morgna og var stundum að fram á kvöld. Og oft unnið um helgar. Hans vinnutími var venjulegur ráðuneytistími, verandi þar allt í öllu í móttökunni ásamt samstarfskonum. Þau voru á skiptiborðinu, sáu um stjórnarráðspóstinn, aðstoðuðu ráðherra, ráðuneytisstjóra og þeirra aðstoðarfólk við að koma erindum áleiðis eða á sama hátt taka við erindum, nú auk heldur þau hreinlega sáu um erindin fyrir þau á stundum, ellegar þau voru innlendum og erlendum gestum til leiðsagnar um húsið — sem sagt, voru í einu orði sagt upplýsingafulltrúar stofnunarinnar.

Um mitt sumar lokar gamla fiskverkunin og óvíst að hún opni aftur, enda öll vinnuaðstaða þar og aðbúnaður fyrir neðan allar hellur, jafnvel ekki konum bjóðandi. Kærastan er dauðfegin að komast í gott frí frá kuldanum, bleytunni og sagganum og öllu þessu bónusbogri, hröðum, köldum höndum. Oft hefur þetta verið hennar aðalstarf en hún aldrei kynnst því hráslagalegra. Verið mörg árin allt frá því hún var hálfþrítug eitt af þessu farandverkafólki er fór úr einni verstöðinni í aðra eftir því hvernig vindurinn blés því í brjóst draumnum um meiri tekjur og sérstaklega draumnum um meiri tekjuafgang í vertíðarlok. Endrum og sinnum rættist draumurinn um tekjuafganginn og þá lét hún sig dreyma um að hætta þessu alveg og láta heldur óskadrauminn rætast — að koma á laggirnar alvöru grímuhandverkstæði. Núna er afgangurinn ekki meira en sem nemur um helmings eftirstöðvum af hálfrarmilljónkrónayfirdrættinum sem hún er með í bankanum. Frekar slök vertíð það, en á ef til vill eftir að verða í meira draumalíki, verði einhver sú hin næsta, vertíðin.

 

Og lygn fram streymir í kóngsborg litlu

Brátt fær kærastinn líka sitt sumarfrí úr ráðuneytinu. Hann á gamlan og góðan félaga í kóngsborg litlu eða litlu háborg sem svo er oft á tíðum einnig kölluð og er líka uppi á meginlandinu austan ála eins og háborgin hin mikla. Er kölluð sú litla af því að mörgum þykir hún vera eins og lítil, sæt eftirmynd af hinni miklu og mestu, og kóngsborg af því að hún er aðalborgin í heilu, litlu kóngsríki, þar sem oft heyrast jafnvel hljóð úr hornum fleiri en kúa. Háborgin þessi, þó ekki svo mjög litla, liggur allnokkru norðar á meginlandinu en borgin hin mikla, en núna er hásumar og þeim ætti því varla að verða svo kalt þar.

Alveg væri það draumur, eru þau á einu máli um, að skella sér þangað út. Gamli félaginn vill óður og uppvægur fá þau út til sín. Út komin trúir kærastinn kærustunni sinni fyrir því að þeir félagarnir hafi á árum áður átt innangengt hjá hvor öðrum, ekki síst þegar ofurlítið leynt skyldi fara með lagskonur. En núna er ekkert í leynum, eða því skyldi svo vera, þau enn ung, eða svo til næstum því, og frjáls.

Og lygn fram streymir sagan í kóngsborg litlu. Gamli félaginn er algjör draumur, lætur þeim í té bestu stofuna sína og vill helst allt fyrir þau gera. Hann er dálítið farinn að reskjast og líka stúrna ofurlítið en það breytir engu um það hve allt góða andrúmsloftið sem honum fylgir hefur góð áhrif á þau. Hann er kominn á eftirlaun en hafði einmitt starfað á sömu söluskrifstofunni flugfélagsins og kærastinn hafði gert þá er hann kornungur var rétt að byrja að slíta barnskónum úti í hinum stóra heimi.

Og það er þarna úti sem hún kemst á munkabragðið fyrir alvöru. Nokkuð sem hún hafði þó fengið snöggtum meira en smjörþefinn af þá er hún sjálf hafði reynt eitt og annað ýmislegt í háborginni hinni, þeirri miklustu. Að hún rifjar upp kynnin við líkjör nokkurn góðan, vínanda bókstaflega í munkalíki, og er uppáhaldslíkjör gamla félagans og hann býður þeim stundum upp á. Þá rennur af honum öll lífsþreyta, og ekki síður af þeim þegar svo ber undir, eigandi líka til að kenna hennar stöku sinnum. Það besta við munkinn var raunar hve hann var góður í hófi og í bland við gott andrúmsloft. Öldungis einstæð lystisemd. Öldungis undra ljúffengur líkjör, í rauninni gefandi vínandi, voru þau öll sammála um.

 

Með þér ég vildi yfir Arabíu fara

eða Sa-ha-hara.

Með þér ég óttast mundi hvorki krókódíl né fíl.

Og ein með börn og bú

í bænum Timbúktú

ég una mundi mér

með þér, með þér.

 

Þau svífa á vængjum draumanna, dagana inn og dagana út, og eins um nætur, og þarf vissulega ekki neinn vínanda til neitt sérstaklega. Jafnvel láta sér detta í hug að gaman væri að setjast að í þessari litlu og svo snotru draumaborg. Ráðuneytisfulltrúinn er nefnilega ekki heldur of sáttur við sitt hlutskipti heima. Hvort tveggja er að hann er illa haldinn af lúsarlaununum sem hið opinbera skenkir honum og svo hefur hann alltaf langað til að flytja aftur út. Og sér varla fram á hvernig hann á að fara að því að halda íbúðinni sinni góðu.

Hér væri alveg draumur að setja upp grímuhandverkstæði, segir kærastan alveg í sjöunda himni. Og því þá ekki að reka smá blómaverkstæði með? Hún er heilluð af þessari borg sem hún hefur aldrei komið til fyrr og hún er hreint ekkert svo bangin við að spreyta sig á tungu heimamanna, hrognamálinu þeirra yndislega og skrýtna. Reyndar er ekki nema rétt rúmt ár síðan hún kom heim eftir veturlanga dvöl í háborg háborganna þar sem hún hafði ofurlítið gælt við það sama, að ílendast. Hún hafði séð sér þá þann kost vænstan að hverfa af landi brott, loka á eftir sér hliðum sinnar litlu hámenningarborgar en síður mikilla hámæla, þó ekki væri nema um hríð að hún léti sig burt hverfa af hvísllandinu því góða og trúskaparheita. Þótti orðið nóg um fjölkynngi fjölmælanna, þar sem allt var senn í sögu og sjaldnast hálfsögð sagan öll, en bráð smíðin jafnan runnin undan rifjum stríðandi meðreiðarsveins hennar til nokkurra ára, sem hún var þá að slíta tengsl við, að sömdum einskonar friðarsáttmála. Að heimsstyrjöld þeirri litlu lokinni hafði hún kosið að eyða í ævintýrið bróðurpartinum af öllum tekjuafgangi ævi sinnar og vertíðardrauma. Botn hafði hún þó engan fengið í hina töluðu tungu og sannkallaða hrognamál innfæddra, og mátti svo sem hafa vitað það fyrir. Hafði hún að lokum haldið heim úr þessu veri slypp og snauð með rófu fremur lafandi en að ýkja mjög reist væri.

Hún hafði þó ekki alveg slitið þráðinn úti við þann gamla, hann meira að segja skroppið þangað í heimsókn til hennar í fáeina daga, ekki ólíkt og samviskusöm leynilögga er vildi líta ofurlítið til með gömlum góðkunningja sínum, að hún færi sér nú ekki að voða þarna úti í stóra hámenningarheiminum, hvað þá að hún nokkuð sáttmálaspillandi gerjaði með sér, að hún efna væri í nýja heimstyrjöld eða nokkuð slíkt að slitnað gæti sundur friðurinn með þeim, í heimi þeirra litla.

Heimkomin var hún enn í slitróttri og fremur þrúgandi fjarbúð við hann, eða hvað átti að kalla þann búðskapinn, er hún kynnist nýja draumnum sínum. En núna var það líka alveg búið, hafði hún gert sínum fyrrum ljóst, hafði strax tekið af öll tvímæli um allan slíkan voða. Hann yrði að eiga það við sjálfan sig og út af fyrir sig sem sína einkaskoðun, að ráðuneytisfulltrúinn væri ræningi og ribbaldi er hefði rænt hann draumnum sínum, eins og hann hafði tekið til orða og hreytt í hana er hún að lokum batt endahnútinn. Hafði hann og fyrir sitt leyti sagt að myndi hann nú binda henni slíkan hnút bagga — en alls eigi þó neinn endahnút, hún mætti eigi misskilja sig svo — að skerða myndi hann hár allt á höfði sér niður á axlir berar og eigi láta sér neitt vaxa á þeim höfuðslóðum fyrr en hann hefði frelsað hana úr klóm hins ógurlega dreka...

Hún sér dálítið eftir því að hafa ekki farið hingað til kóngsborgarinnar litlu, sætu og fallegu, frekar en til háborgarinnar háborganna. Nema að þá væri að vísu ekki endilega víst að örlögin hefðu leitt hana á vit nýja draumsins hennar og ef til vill ævintýris mikla. Hún hafði hreinlega jaðrað við að verða þunglynd af því að hýrast í sautján fermetra smáíbúð uppi á fjórðu hæð með ekkert útsýni, þarna um veturinn í háborginni. Og geta varla talað neitt við innfædda því að ekki lá það nú vel fyrir henni að læra hrognamálið það sem þeir töluðu, líkt og kærastanum.

Lærðirðu virkilega ekki neitt? spyr kærastinn hana stundum og trúir því varla. Hann á stundum dálítið erfitt með að átta sig á því hve fólk er misjafnt og ólíkum hæfileikum búið. Að sjaldnast dúfan skríður úr hrafnsegginu. En ætlar ekki margur mig sig og mátulega hyggan?

Nei, því miður, ekki í tungumálinu, en hún hafði þó þroskast ofurlítið í grímugerðinni, gripið aðeins í að móta massa úr leir, pappa og gifsi, uppi á fjórðu hæðinni, með ekkert pláss nema til að snúast kringum sjálfa sig í hálfhring og kannski aftur í hálfhring, en annars aðallega farið á söfn, svo og meðal annars heimsótt grímuhandverkstæði og haft ekki lítið gagn og gaman af, meira að segja verið svo heppin að fá að aðstoða og læra um tíma hjá grímugerðarkonu einni aldeilis frábærri. Hafði hún og reyndar einnig lært af henni munkalíkjörsbergjanina, tjáir hún honum. Yndislegur er nú alltaf sopinn hjá þeim gamla, bætir hún við, sposk á svip. Eins og að vera á endurmenntunarnámskeiði, að fá að signa með honum munkinn. Gullveig þá sannkölluðu. Eða le dôme d'or, sem vinkona hennar hafði gjarnan kallað svo.

Við bjuggum þó til og mótuðum eitt og annað fleira en beinlínis grímur, bjuggum meðal annars til heilt eldfjall, segir hún honum enn af lærdómi sínum.

Hvað þá? segir hann.

Já, það var handa lyfjarisa og einum sjöhundruð læknum, eða hvað þeir annars voru margir þessir fuglar.

Hve margir hvað? Fuglar? hváir hann enn. Signa munk? Gullveig? Le dôme eða hvelfing hvað? Signa himininn? Eldfjall? Eða risar hvað og sjöhundruð læknar! — Og blómaverkstæði og grímuhandverkstæði! Timbúktú! Ættirðu nú ekki að hvíla þig aðeins, elskan mín, á þessum munkalíkjör, eða hvað þú kallar þennan dôme þinn. Það er til ýmislegt fleira, hægt að fá sér smá koníakstár, viskí...

Engu líkara en að hann óttaðist að munkurinn væri fullur af einhverjum nornagaldri.

Ég skal lofa þér að sjá myndir af þessu þegar við komum heim, ástin mín, segir hún brosandi og kyssir hann blíðlega á vanga.

 

Það var í næturlestinni í Karió

sem ég hitti Arabadreng

sem síðan aldrei úr huga mér hverfur

ég elska hann

 

Hann sagði sögur af úlfalda sínum

og söng um vatnið úr vínum og ám

hann brá upp mundum með töfrandi línum

ég elska hann

 

Hann bráðnar og lætur sér vel líka. Lætur sig meira að segja hafa það að signa með henni munkinn, sem hún svo kallar að drekka full sjálfs vínandans. Hann hefur séð nokkrar af grímunum hennar og fallið þær nokkuð vel, og hrifist af þeim sumum. Og ekki síður skemmtilegu blómvöndunum sem hún hafði flettað saman heima þegar þau stundum af prakkaraskap sínum á göngu í tilhugalífinu höfðu tínt upp af götu sinni og úr nærliggjandi görðum blóm, strá og greinar.

Og ég, hm, segir hann. Ég skal líka lofa þér að sjá nokkuð þegar við komum heim, hm, smá grímur, sem ég hef búið til. Hm, segir hann. Einskonar leturgrímur, eða þannig. Eða var ég annars ekki búinn að sýna þér neitt af þeim? Satt best að segja, hm, hefur það einatt og ævinlega verið minn stóri draumur að geta verið frjáls og að fást eingöngu við þessa smágrímugerð mína, hm, eða blekiðju eins og sumir myndu kalla það, en — og það kemur yfir hann hálfgerður hryggðarsvipur — en ætli sé nú ekki samt vissara að standa tryggum fótum og hafa örugga vinnu hjá vísu kompaní. Æ, ég þekki nefnilega dáldið þetta sjálfssínsrekandistofubasl. Æ, hún mín hérna fyrrum, þú veist, æ...

Nei, þau vita kannski ekki allt hvort um annað, né alveg átta sig hvort á öðru, enda kynnin enn stutt. Heimkomin eftir hálfsmánaðar dvöl í kóngsborginni litlu hefur þeim þó lærst ofurlítið meira um hvort annað og allavega bæði haft gagn og gaman af förinni. Og þegar komið er hrímkalt haust snýta þau sér bæði hressilega, og ekkert með það, ákveða að skella sér í eina sæng saman. Og tekur hún nú saman allt sitt litla hafurtask í blokkaríbúðinni litlu og flytur alfarið heim til hans.

 

Leggjum núna hönd í hönd

og hnýtum okkar vinabönd.

 

 

Allt fram streymir

Hvernig þau hefðu farið að ef hún hefði átt eitthvað sem heitið gat! Ísskápinn, þvottavélina, rúmið og ruggustólinn einfaldlega gaf hún. Það sem þá var eftir rúmaðist í litlum sendibíl: Gamli, góði glerbókaskápurinn og leðurhægindastólinn hennar ömmu hennar sálugu, lítill bókaskápur og skatthol og vinnuborðsplata ásamt skrúflöppum, svo og sjónvarpið og tölvan hennar snotra, og loks gamla, lúna langbylgjutækið hennar ömmu hennar. Það litla sem þá enn var eftir, liðónýtt, lét hún koma á haugana. Fyllti svo upp í tómarúmið í bílnum með smáhlutum, en þó aðallega með bókakössum á kassa ofan, að ógleymdum kössunum með öllu grímugerðardótinu, sem voru nú líka heil kynstrin öll!

Elsku hjartans yndið mitt, hafði hann sagt þegar hún dagana á undan hafði verið að rogast með fatnaðinn sinn í nokkrum ferðatöskum heim til hans, þangað sem nú var að verða hennar heima líka. — Væri þér ekki sama ástin mín þótt ég hefði skápana mína áfram sem mest út af fyrir mig. Sérstaklega skápana í svefnherberginu okkar. Auðvitað hefurðu þó náttborðsskúffuna þín megin alveg út af fyrir þig. Og sjálfsagt að þú hengir upp tvær eða þrjár yfirhafnir í fatahenginu í holinu, þó nú væri, yndið mitt. En helst ekki mikið meira. Æ, þú skilur, manni er dálítið annt um flíkurnar sínar og vill helst halda í þær og geyma vel, og gömlu fötin koma nú oft aftur í tísku, ekkert síður en nýju fötin keisarans, hahaha...

Æ, mikil ósköp, þvílík feiknarinnar býsn þetta eru orðin — allar skyrturnar mínar, peysurnar, buxurnar, jakkarnir, jakketarnir og smókingarnir, og svo úlpurnar og frakkarnir, húfurnar, hempurnar, treflarnir og guð veit hvað. Á ég að nefna það fleira, eða var ég ekki annars búinn að sýna þér inn í skápana mína, ástin mín? Veistu það, yndið mitt, ég veit satt að segja hreint alls ekki hvort að þetta hefði yfirleitt gengið hjá okkur ef mér hefði ekki tekist að rýma fataskápinn inni í barnaherberginu.

Yndið mitt, ástin mín, elskan mín eina! hafði hún hrópað upp og knúsað hann af öllum kröftum. Hvort mér er ekki sama! Eina sem máli skiptir er að nú eigum við heima hér saman bæði tvö. Og þökkum guði fyrir að hafa lagt á mig þetta mikla ok allsleysisins, eins og hún amma mín sáluga hefði trúlega komist að orði. Blessuð sé minning hennar.

Og þau höfðu faðmast og kysst og leikið sér saman um stund eins og lítil börn, eða kannski eins og ofurlítið stærri en börn. Og allt fram streymir.

 

Allt fram streymir, endalaust?

Skápurinn í barnaherberginu var ágætur og rúmaði nokkurn veginn öll fötin hennar og einnig flestar yfirhafnirnar. Þau hugðust hafa þetta fyrir vinnuherbergi og tókst svo vel að raða borðum, hillum og stólum að hvert ferfet nýttist. Hún var fegin því að hann hafði ekkert á móti því að skrifborðið hans væri inni í horni. Hún gat þá sett vinnuborðið sitt út við gluggann, það var mikilvægt fannst henni að geta dreift sjónum dálítið út og eins að fá birtuna þvert á tölvuskjáinn en ekki beint á hann; og honum Skildi gamla ömmu sinnar stillti hún upp fyrir miðjum glugga, að njóta mætti með henni útsýnisins, og að hún einnig mætti njóta þess að hafa ábúðarmiklan bolann innan seilingar langaði sig smá í nefið. Gamli leðurstóllinn ömmu hennar tók sig ágætlega út inni í horni hjá litla bókaskápnum. Og gamli glerbókaskápurinn hennar small eins og flís við vegg, og skattholið á næsta vegg eins og flís við rass og geymdi vel langbylgjutækið hennar ömmu hennar, sem hún kveikti stundum á til minningar um þá gömlu. Bylgjan sú langa þó orðin harla þreytt, og þó öllu heldur transistorarnir í því og hátalarinn en sjálf gamla gufan í því, enda hljóðið dálítið eftir því.

Þetta hafði víst verið eitt af allra fyrstu tækjum á sinni tíð sem búið var transistorum, hafði amma hennar iðulega tjáð henni, og aldrei getað vanið sig á að tala um smára, fremur en reyndar flestir, sem þá var nýyrði og var að burðast við að ryðja sér til rúms í málinu, en kom fyrir lítið og var enda naumt skammtaður tími, þess þá ekki ýkja langt að bíða að ýmsar enn aðrar málrænur leystu af hólmi transistorinn, enda torinn sá þá óðum að gamlast í glímu við öllu fagurskapaðri kísil og flögur, líkt og gamli lampinn hafði mátt lúta í lægra haldi fyrir honum, smáranum.

Það held ég nú, rýjan mín, hafði hún verið vön að klykkja út með og fá sér hressilega í nefið með honum Skildi sínum gamla, hún amma hennar gamla, skáldkonan og fróðleiksnáman mikla, sem svo harla fá efni hafði leyft sér að láta fram hjá sér fara er þær spjölluðu saman um heima og geima, nú ellegar hlýddu á músík eða spjall í transistoratækinu hennar gamla og þá þó næsta fullgóða, þó að lítið færi fyrir stuttbylgjunni í því, líkt og aftur á móti í flestum tækjunum sem fylgdu í kjölfar þess á markaðinn eftir því sem glíman við hátíðnina vannst og virtist þó aldrei ætla að vinnast, varla einu sinni í eitt skipti fyrir öll með öllum örgjörvunum allra nýjustum. Nei, og þetta gamla tól var varla einu sinni búið miðbylgju sem nothæfa mætti kalla.

En þar fyrir utan, fyrir utan allt hennar ömmu sinnar fágæta dót og gömlu muni, og hennar eigin veraldlegu og fáu muni, þá voru ágætis stigahillur sitthvorum megin við skrifborðið hans, og hentuðu aðrar þeirra ágætlega til að stafla upp öllu grímugerðardótinu, nú og svo fóru bækurnar upp í hillur á hillur ofan og upp úr kössum ultu hinir og þessir smáhlutir sem lítið mál var að finna stað.

Íbúðin hans var ævintýri líkust. Stofurnar tvær rúmgóðu og stóru, sem báru smekk hans svo gott vitni, eins og allt annað í íbúðinni. Skyldi hans fyrrum kannski hafa hannað sófasettið hans stílhreina? Jafnvel hafa smíðað það? Eða borðstofuborðið, sem er svo tignarlegt á miðju gólfi að helst minnir á ríkisráðsfundarborð. Svo og öll verkin á veggjunum sem mynduðu afar skýra, notalega umgjörð um allt. Þar á meðal ofur stórar svarthvítar ljósmyndir eftir ömmu hans, allt ákaflega sterkar, svipmiklar myndir og sumar svo sérkennilega glaðbeittar. Það leyndi sér ekki næmt handbragð og glöggt auga djúpskyggns listamanns. Og uglur fleiri en tölu varð á komið. En hann var ástríðufullur uglusafnari, hafði um langt skeið viðað að sér eftirmyndum af uglum úr flestum heimshornum, úr postulíni, brenndum leir, tréi, taui og allskyns málmum, og voru meðhöndlaðar með allaveganna móti, einungis engar uppstoppaðar, sem henni féll vel að hvergi var að finna. Sátu á hillum sínum og syllum úti um allt hús og vöktuðu gaumgæfilega glugga og dyr, jafnt allt kyrrt sem og allt sem bærðist, líkt og væri heil grandvör varðsveit sálar hússins. Sannarlega ævintýri líkast.

Og hann sjálfur heilt ævintýr og algjör draumur.

Þau sitja gjarnan í eldhúsinu notalega og svo vel rúma, þar sem manni líður eins og blóma í eggi innan um allar snotru krukkurnar — í einni hillunni eru þær allar með sama móti, kúlulaga úr kristaltæru gleri og með postulínsloki á, hver við hliðina á annarri, með hveiti, sykri, mjöli, grjónum, tei, kaffi, rúsínum, döðlum, sveskjum, og svo mætti lengi upp telja, lítandi til manns líkastar ótalmörgum þægum og velhöldnum margburum. Margt er í mörgu og kirnurnar og keröldin ófá. Svo og vitanlega uglurnar, með sínu firna djúpa og viskufulla augnaráði, sem ljáðu eldhúsinu svo afar dulúðugan blæ. Já, þau sitja gjarnan við eldhúsborðið og mala og reykja saman og kannski kveikja á kerti og fá sér smá neðan í því fyrir matinn og skvaldra svolítið meira saman. Og horfast í augu og horfast í augu við uglur og myndir, og horfa líka stundum upp á hann Brút gamla hennar ömmu hans uppi á einni hillunni og láta jafnvel eftir sér að fá sér smá úr honum í nefið, og snýta sér svo smá á eftir og stundum ekkert smá lítið hressilega.

Hann segir henni eitt sinn frá því hvernig ömmu hans hefði tekist svo snilldarlega upp með að ná fram seiðandi svipnum svo mörgum, og ýmist svo feimulausum eða fullum af djúpri, kankvíslegri hygð, og jafnvel mjög djúpskyggnri, er brá fyrir á sumum myndanna hennar, og raunar allir svipir augljóslega mótaðir af miklu listfengi. Hún hefði aldrei þurft að segja orð, hvorki ostur né hvað þá heldur brennivín né neitt þaðan af heldur sterkara, til að kalla fram viðbrögð hjá fyrirsetum sínum og fyrirsætum, heldur hefði hún einfaldlega fengið sér í nefið! Og þá eðlilega eftir öllum kúnstarinnar reglum, allt eftir því hvernig bros hún vildi laða fram, eða hvernig alvörusvip, hvort mikið ljós skyldi skína úr svip eða fremur skuggi, eða raunar hvaða blæbrigði svipmóts það var sem hún vildi laða fram, sagði hann, og að raunar óborganlegt væri að fá að hafa upplifað kúnstir þessar allar og vera vitni að. Það hefðu svo sannarlega verið miklar kúnstir og á stundum ekki svo lítið kostulegar, en heldur og ekkert síður grátbroslegar, vildi hún fremur laða fram andrúmsloft á þá vísu.

Skemmtileg tilviljun! segir hún að bragði, sannarlega áhugasöm. Einmitt kúnstir eins og hún amma mín hefur leikið líka! Hún sagði mér að hann Skjöldur sinn gamli hefði ekki einungis verið ættfaðir hálfrar sveitarinnar sinnar og alls þess mikla skjaldarkyns, heldur líka í raun og sann verið ættfaðir heilu og hálfu sveitanna í rómönsunum hennar! Því að, sjáðu til, alveg eins og hún amma þín átti hann Brútsa sinn að, þá greip hún amma mín alltaf til síns gamla bola þegar hún þurfti að fæða! Hún kallaði það nefnilega að fæða, eða að fæða af sér, að skapa söguhetjurnar sínar — sagðist þá aldeilis oft hafa lagt sig eftir honum Skildi sínum og á stundum mátt hafa fengið sér meira en lítið drjúgt í nösina áður en skapnaðirnir tóku að birtast nógu skýrt í hugskoti hennar að hún gæti neglt þá niður á blað. Já, og oft verið miklar kúnstir og ekki alveg sama hvernig hún skyldi hringsnúa því, horninu, og sundum margoft og á ótal vegu, áður en að þær loks tóku á sig sína endanlegu mynd.

Hún hafði sótt söguefni sín í gömul ævintýr og líkast til riddarabókmenntir alls konar en hafði aftur á móti oft staðfært frásagnirnar sínar sem nútíma einslags rómönsur, sem á hinn bóginn bókmenntavinir ýmsir tóku ekki endilega með miklum kostum eða kynjum frekar en að þeir felldu sig allskostar við kyn hennar sem rithöfundar, þó að ekki færi hjá því að vel álitleg hefði hún þótt að flestu öðru leyti.

Kannski hafði hún einungis verið dálítið á skjön við tímann, eins og gengur, hvort sem að verið hefði fyrirburi eða eftirburabarn í þeim skilningi. Allt slíkt kynjaraunsæi — eða hvað annars átti að kalla nokkuð töfrum blandinn, draumkenndan stíl hennar — þá á hennar tíð strengilega forboðið af biskupum og páfum öllum.

Vel á minnst! eru þau sammála um — hann hafandi á stundum gluggað aðeins í bækur ömmu hennar ekki síður en hún skoðað myndirnar ömmu hans, jafnt á veggjunum í kring sem í gömlum möppum sem hann átti eftir hana — að einmitt einhvers konar kynjaraunsæi einkenndi verk þeirra beggja, gömlu kvinnanna. Það eru þau alveg sammála um. Ekki ólíkt og að þær báðar hefðu átt sér draum sem þær hefðu þráð að fá birt öðrum, og þá óneitanlega kann oft að vera örðugt að greina á milli draumanna furða og kynja og allra handa töfra og aftur á móti hins kalda veruleika allt um kring.

Já, þannig spjalla þau iðulega saman og horfast í augu og skiptast á skoðunum og skiptast á misjafnlega raunsæislegum sögum og sögusögnum, allt frá munnmælasögum líðandi stundar upp í hálfgerðar rómönsur líkt og úr forneskju, svo og horfast í augu við uglur og myndir og signa fáein full eða fá sér smá í nefið með ömmum sínum og hrúti eða bola, ellegar horfa á sjónvarpið inni í rúmgóða, þægilega holinu, þegar þannig liggur á þeim, ellegar horfa á hitt tækið sitt inni í dúnmjúka rúminu hans stóra. Ellegar lesa, nú og einnegin gera ditten og alls kyns svoleiðis datten, ellegar bara sofa og sofa og láta sig dreyma og dreyma ljúfustu drauma drauma.

Haustið leið tíðindalaust og fram til jóla. Hann var í ráðuneytinu og hún í fiskverkuninni. Já, hún ákvað að hætta við að hætta þar. Lét slag standa fyrst nú væri verið að endurnýja allt í hólf og gólf og hvort eð var enga alminnilega vinnu að fá. Já, fiskverkunin gamla var orðin, ja seiseiú, seiseia — eins og gamli fiskverkandinn orðaði það — seiseiú, seiseia, ha, ha, ha, bareinsogný út úr kú, seiseiú, hú, hú, hú! Og hananú! Og lék við hvurn sinn fingur, sem og vissulega allt fólkið einnig, og lét sitt ekki eftir liggja. Og var þó rólegt fram að jólum, sjaldan nema dagvinnan, enda ekki mikill fiskur og þá bónusinn eftir því, en ætli rættist ekki úr því þegar kæmi fram á vertíð.

Og bráðum kæmu blessuð jólin og börnin færu að hlakka til. Dies soli invicti nati.

Og jólin komu og enginn fór í köttinn, jólasveinar einn og átta og fjórum betur tóku að halda heim, hver á fætur öðrum, dag eftir hvern dag jólanna, heim í hreppa til Grýlu og Leppa. Kærustuparið, sem nú mátti kalla að væri ráðsett, virðulegt sambýlisfólk, lék við hvurn sinn fingur og hvorki nein Grýla né nokkur hreppstjóri né prestur neinn né yfirleitt nokkur lifandi eða dauð sála hefði getað slegið þau út af laginu. Jafnvel svo að ár og dagar liðu...

Og upp á sekúndu og punkt bar áramótin. Dies soli invicti nati. Og voru þá enn eftir á bæjarröltinu sveinar Grýlu sex.

 

 

Fyrsti heimur?

Annar heimur?

Þriðji heimur?

Fjórði heimur?

Fimmti heimur?

Sjötti heimur?

Í allt öðrum heimi, heima í millum eða heimum alls neðar?

Sjöundi og efsti heimur?

Heimsendir?

Endir?

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist