< Skuggsjá ævintýra

Géza Gárdonyi:

 

Undir huliðshjálmi

 

 

 

 

 

 

Titill á frummálinu, ungversku: A láthatatlan ember

Fyrst gefin út árið 1901

 

© 2004 Íslensk þýðing, úr ensku: Árni B. Helgason

Öll réttindi áskilin 

 

Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti,

svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun, rafritun

eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í

heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda

— nema afritun sé til einkanota einvörðungu.

 

 

Hér er farið eftir enskri þýðingu á bókinni, sem nefnist Slave of the Huns, útg.: Penguin 1973, áður útg. af Dent 1969. Uppsetningu þeirrar útgáfu er fylgt í öllum aðalatriðum. Enska þýðingin er að því leyti frábrugðin frumtextanum að öll bein ræða er sett innan gæsalappa en ekki afmörkuð með bandstriki svo sem höfundur hefur hátt á. Þar hefur greinaskilum einnig verið fækkað. Fákunnandi í ensku er ungverska þýðanda þó algjörlega framandi; hefur þó lítillega verið tekið mið af ungverskri útgáfu, meðal annars greinaskil færð að nokkru leyti til samræmis og leituð uppi stöku orð með aðstoð ensk-ungverskrar og ungversk-enskrar orðabókar. Þess má geta að heiti verksins á frummálinu, A láthatatlan ember, væri Hinn ósýnilegi maður, bókstaflega þýtt, en ember hefur svipaða merkingu og maður á íslensku, þ.e. karl, kona, jafnt sem mannkyn almennt, sbr. emberi nem — mannkyn.

 

 

Formáli

kaflar 1 til 10

kaflar 11 til 20

kaflar 21 til 30

 

kaflar 31 til 40

kaflar 41 til 50

kaflar 51 til 60

kaflar 61 til 65

 

 

Eftirmáli þýðanda

 

Géza Gárdonyi var aldamótamaður, fæddur árið 1863, dáinn 1922. Hans er nú helst minnst fyrir nokkrar sagnfræðilegar skáldsögur er út komu um og upp úr aldamótunum. Einna hæst ber þar Egri Csillagok, eða Stjörnur á himni Eger, og þá bók sem hér liggur fyrir. Báðar skipa þær sess á meðal sígildra bókmennta Ungverja og eiga enn vinsældum að fagna, ekki síður á meðal hinna yngri kynslóða. A láthatatlan ember hefur selst til dagsins í dag í yfir hálfri milljón eintaka.

Stjörnur á himni Eger gerist á 16. öld og lýsir yfirráðum Tyrkja í Ungverjalandi, er þar sagt frá umsátri þeirra um Egerbæ.

Með bókinni A láthatatlan ember, Undir huliðshjálmi, kafar höfundur dýpra aftur í aldir, allt til þess tíma þegar Attíla Húnakonungur dvaldist með lýðum sínum á sléttum Ungverjalands. Sögutíminn er miðbik 5. aldar, Evrópa þjóðflutninganna. Rómaveldi stendur á fallanda fæti, er klofið í austurríkið, eða Miklagarðsríkið, og vesturríkið, með höfuðstöðvar í Róm og Ravennu, og má sæta æ harðari ásókn hinna lítt siðmenntaðri þjóða í norðri og austri.

Ein gleggsta heimild sem til er um Attílu Húnakonung og lýði hans er samtímafrásögn Prískusar, grísks sagnaritara er var í þjónustu Miklagarðskeisara. Prískus sótti Húnakonung heim árið 449 í erindum keisarans og felldi frásögn af þeirri för inn í sögu er hann reit af helstu atburðum þess tíma. Sú saga hefur varðveist í brotum og útdráttum í ritum yngri sagnritara.

Sögumann sinn lætur Géza Gárdonyi vera skrifara Prískusar, ungan þrakverskan piltung sem 12 ára gömlum hefur hlotnast það hlutskipti að verða þræll hans en fær notið umhyggju, menntunar og uppeldis húsbónda síns sem væri hann sonur hans. Engum getum skal að því leitt hvort Zeta, en svo er sagnritarinn látinn nefna skrifara sinn eftir síðasta staf gríska stafrófsins, er hugarfóstur höfundar eða hvort hann kann að eiga sér einhverja stoð í heimildum; er það aukaatriði.

Hér er sögð þroskasaga Zetu og ástarsaga og um leið lýst átökum áhrifamestu valdamanna Evrópu þess tíma. Á ytra borði er þungamiðjan orrustan á Katalánavöllum (í nánd við Châlons-sur-Marne, austur af París) árið 451 þegar herjum Attílu Húnakonungs og Vestrómverska keisaradæmisins lýstur saman, og hefur hvor aðili um sig á að skipa ógrynni liðs er samanstendur af hinum ýmsu og ólíku þjóðum og ættkvíslum álfunnar.

Hið innra togast á í sögunni afstaða smælingjans gagnvart hinum meiriháttar mönnum. Hvers má þrællinn sín? Um það leyti sem sagan fer á skrið fær Zeta notið þess að verða leysingi Prískusar, að lokinni átta ára þjónustu. Fríviljugur kýs hann þó að þjóna honum enn um hríð og fer með honum í hinum keisaralegu erindum til lands Attílu. Til þessa tíma hefur Zeta ekki haft önnur bein kynni af heiminum en af fátæktinni í Þrakíu á æskuárum sínum og á hinn bóginn af drambi og fláttskap Miklagarðshirðarinnar. Í ljósi kynna sinna af Húnum verður honum eðli hirðaðalsins æ betur ljóst og hann kemst að raun um að Húnar eru ekki að öllu leyti þeir villimannlegu skrælingjar sem honum hafði verið innrætt. Og á meðan á dvölinni stendur fellir hann hug til húnverskrar meyjar, dóttur eins af vildarmönnum Attílu.

Frá sér numinn, ekki aðeins af ást sinni á meyjunni heldur líka á þjóð hennar og lífsháttum, þar sem hver og einn virðist vera metinn eftir verðleikum án tillits til uppruna eða kyngöfgi, afræður hann að snúa ekki til baka með húsbónda sínum heldur gengst undir þrældómsok að nýju. Hyggst hann sanna fyrir stúlkunni manndóm sinn og fá þannig ekki aðeins hennar og okinu létt af sér heldur einnig viðurkenningu sem frjáls maður í ríki Attílu.

Til er forn saga um uppruna Ungverja, eða Magyara svo sem þeir heita og kalla sig á sinni tungu. Bræður tveir, Hunor og Magor, voru á veiðum og komu auga á hind eina eða hjört, mikla kynjaskepnu er þeir tóku að elta. En hún hljóp undan þeim vestur á bóginn og leiddi þá um langan veg yfir breið fen og ófærar mýrar. Hverfur þá skepnan en við veiðimönnunum blasa frjósöm lönd og fögur, slík sem þeir hugðu að væru hvergi til. Afréðu þeir að taka sér þar bólfestu og gat Hunor síðan af sér Húna og Magor Magyara.

Þessi saga er gjarnan sögð til að túlka inntak þeirrar kenningar að Ungverjar og Húnar eigi sér sameiginlegan uppruna. Hin kenningin er á þá leið að Ungverjar hafi þá fyrst haft kynni af landi sínu síðla á 9. öld, eða um svipað leyti og víkingar námu hér land.

Géza Gárdonyi mun hafa verið í hópi þeirra sem líta svo á að í sögunni af Hunor og Magor sé fólginn sannleikskjarni. Því er það að viðhorf hans til Húna er um margt ekki ósvipað og til dæmis höfunda Íslendingasagna til söguhetja sinna — hann er að rita um þá sem hann álítur vera forfeður sína, og má sagan einnig heita álíka trúverðug — eða ótrúverðug — og þessar sagnir af forfeðrum okkar.

Þannig reynir höfundur að nálgast Húna á þeirra eigin forsendum sem er þveröfugt farið við það sjónarmið er býr til dæmis að baki hetjukvæðum Eddu þar sem horft er til Húna af sjónarhóli þeirra er hafa orðið fyrir barðinu á þeim; þar er Atli konungur sá er öllu böli veldur.

En Jón Helgason segir meðal annars svo í inngangi að bók sinni Kviður af Gotum og Húnum: „Húnar gjalda þess að flest sem um þá var sett á bækur er eftir höfunda sem voru þeim lítt vinveittir, og mundi eflaust margt horfa öðruvísi við ef þeir hefðu sjálfir iðkað pennalist. Vér getum gert oss í hugarlund hvernig Agli Skallagrímssyni mundi borin sagan ef honum væri einvörðungu lýst eftir þeim kynnum sem menn höfðu af honum á Kúrlandi eða í Lundi.“

Við lestur sögunnar má það einu gilda hvor kenningin um uppruna Ungverja er réttari og einnig skiptir það í sjálfu sér litlu máli hvort höfundur hefur rétt fyrir sér í því, sem einnig mun umdeilt vera, að Attíla hafi unnið orrustuna á Katalánavöllum, sem einnig hefur verið nefnd orrusta þjóðanna og er talin með þeim frægari er háðar voru á fornum tímum. Á blöðum sem fundust í fórum höfundar að honum látnum er þó að finna ýmislegt sem hann hefur haft til sannindamerkja um að það sem sagnfræðingar fornaldar settu á bækur um sigur Rómverja fengi vart staðist, og það er að minnsta kosti staðreynd að aðeins örfáum mánuðum seinna er hinn „sigraði“ farinn að herja á borgir og héruð á Ítalíu og stendur að lyktum fyrir dyrum sjálfrar Rómar. Og það er aðeins fyrir tilstilli sjálfs páfans, Leós I, sem kemur út um hliðin og grátbænir Húnakonung knékrjúpandi um miskunn, að hirðingjakóngurinn afræður að hlífa þessari gömlu höfuðborg heimsveldisins.

Dýrkun á einföldu og óbrotnu lífi getur vissulega víða að líta í bókmenntum; og hver er sá sem ekki lætur hrífast með Dafnis og Klói þar sem þau reika um í alsælu með hjarðir sínar eða finnur ekki anganina af gróðri jarðar hjá Hamsun? En ekki er alltaf bjart í sumarhúsum, og jafnvel jörð í Afríku er engin trygging fyrir eilífðarsælu.

Að fara á hestbaki, að skjóta af boga, að segja sannleikann — þessi einkunnarorð Karenar Blixen fyrir frásögn hennar af jörð sem hún átti í Afríku gætu í sjálfu sér hæft sögu Gárdonyi mæta vel, og er þó vissulega einnig til að dreifa öðrum sögum af Húnum um hið síðastnefnda atriðið.

En þegar dregur að lokum bókarinnar hrannast blikur á loft í þessum sæla heimi hirðingjanna. Höfðingi þeirra konungurinn Attíla fellur frá og umhverfist þá gjörvöll heimsmynd þeirra og upphefst Sturlungaöld.

Og sögumaður lýkur frásögn sinni með þessum orðum:

Ég leit aðeins einu sinni til baka. Borgin stóð í björtu báli. Turninn yfir konungshöllinni glóði í rauðu eldhafinu. Engu var líkara en að sólin væri að rísa í vestri.

Og við héldum af stað.

 

Hver var þá hinn eiginlegi sigurvegari að lokum? Óbrotin alþýðumenning, ámóta og Húna, eða menning þeirra sem „héldu af stað“, eða menning hverra? Víst eru Húnar fyrir löngu horfnir af sjónarsviði og Rómaveldi löngu fallið. En hinn sjálfum sér glataði grísk-rómverski menningarandi lifir enn, en nú ekki hvað síst með hinum frumstæðari þjóðum, í þeirri mynd sem nefnd er menning Vesturlanda. Eigi skemmri tíma en langar miðaldir þurftu þær til að tileinka sér hinn gamla suðurevrópska anda sköpunarþrár og framkvæmdagleði og gæða hann eigin frumkrafti.

Einn áfangi, af mörgum, á þeirri leið var ritun norrænna fornsagna. Án þeirra væri fátt heimilda — hversu óáreiðanlegar sem þær kunna að vera — um líf, hugsunarhátt og menningu norrænna manna til forna, varla öðru til að dreifa en einhliða sögnum lítt vinveittra þjóða af grimmd þeirra og villimannlegu æði er þeir í víkingu gerðu hjá þeim strandhögg.

Sú þjóðlífsmynd sem er dregin upp í bók Gárdonyi minnir um sumt á menningu og háttu áanna okkar, sem voru ekki aðeins bændur sem áttu stundum í vígaferlum heldur einnig hálfgerðir hirðingjar sem gættu hjarða í seli og áttu sér fyrir höfðingja menn af sauðahúsi Attílu. Og auk áðurnefndra tengsla við sögusvið nokkurra hetjukvæða Eddu — þó að hér sé að öðru leyti ólíku saman að jafna — á bókin ef til vill einnig erindi við Íslendinga fyrir þá sök að lýst er ölduróti þjóðflutninganna; en það er einmitt í fjörbrotum þess umbyltingasama skeiðs sem mörlandinn hreiðrar um sig hér á hólmanum.

Við sögu, lítillega þó, koma Rygjar sem síðar settust að í sunnanverðum Vestur-Noregi þar sem nú heitir Rogaland, við þá kennt. Einnig hinir ævintýralegu Herúlar, sem leitt hefur verið getum að, að íslenskir landnámsmenn hafi átt rætur að rekja til. Kann lýsing Gárdonyi á þeim að kitla hégómagirnd þeirra sem aðhyllast þá kenningu: Þeir voru heimsins fráustu knapar. Þeir sýndu engum miskunn en kröfðust heldur engrar sjálfum sér. Þeir riðu undir gunnfána er settur var hauskúpuvígindum...

Í Kalda stríðinu fer að bera á viðhorfi sem enn eimir talsvert eftir af, að austurlandamæri Vesturlanda lægju nokkurn veginn um svipaðar slóðir og Járntjaldið alræmda. Hinir vestrænni Vesturlandabúar taka að gleyma því að flestar Austurevrópuþjóðir búa, þrátt fyrir allan stjórnmálaslag síðustu áratuga, að meira eða minna leyti að rótgróinni menningu af svipuðum eða sama toga og hinar vestari.

Sjálf hin kommúnísku fræði eiga ekki síst rætur að rekja til hugmynda um búskaparlag í anda samyrkju meðal hinna frumstæðari Evrópumanna fornaldar, líkt og hugmyndafræði Endurreisnartímans var á hinn bóginn svo mjög í anda fornaldarhámenningar grísk-rómverskrar. Og sannarlega elduðu þessir tveir menningarheimar fornaldar líka grátt silfur, háðu sitt „Kalda stríð“ sem hafði meðal annars í för með sér rimmur svo sem þá á Katalánavöllum og leiddi loks af sér með tilstyrk nýrra trúarbragða algjöran klofning Rómaveldis og hrun.

En hinn grísk-rómverski menningarandi lifir þrátt fyrir allt, síðasta eitt og hálfa árþúsundið í þeirri mynd sem nefnd er kristni. Kristni sem klofnaði með Rómaveldi í Miklagarðsríkið og páfadóm — í grísk-kaþólskan menningarheim og rómversk-kaþólskan — í tvo arma sem báðum átti fyrir að liggja að verða fyrir barðinu á „barbarískum“ siðaskiptafrömuðum. Fyrst af hendi Lúters og fylgismanna hans sem gerast mótmælendur ofríkis pápískunnar, og all nokkru síðar mega hinir sjálfskipuðu erfingjar Miklagarðskrúnunnar, Romanovkeisaraættin og rétttrúnaðarkirkjan grísk-kaþólska, lúta í lægra haldi fyrir marxískum mótmælendum, þeim Lenín og félögum.

Þannig hefur menningin og ekki aðeins Evrópumenning ein ósjaldan mátt lúta því, að „þeir munu lýðir löndum ráða, er útskaga áður of byggðu“. Barbarinn, skrælinginn, er útskagamaðurinn í heimi þekkingarinnar. En það eru ávallt örlög hans að falla vinni hann lönd í þeim heimi. Því að barbarinn er ungmenni í menningarlegu tilliti, barnið sem hlýtur að deyja sjálfu sér nái það að vaxa að viti og þroska og verða fulltíða; með sama hætti og öldungurinn, sá er yfir þekkingunni ræður, hnígur í valinn og heldur þó velli — í arfleifð sinni.

En Húnar urðu aldrei fulltíða að þessum skilningi. Þeir uxu aldrei upp úr barnsskónum heldur aðeins léku sér að því að vinna lönd og aðeins forgengileg lönd. Atla konungi var að vísu haldið ungum í gíslingu í Ravennu þar sem hann nam latínu og kynntist siðum þarlendra, en hvorugt átti eftir að verða annað en tæki í höndum hans til hagnýtra landvinninga í áþreifanlegum heimi. Hvorki hann né lýðir hans eða niðjar virðast hafa sýnt því áhuga að tileinka sér þekkingu aðeins þekkingarinnar vegna.

Og þó. Ef til vill má hafa það til marks um þekkingarþorsta að hann líkt og aðrir konungar allra tíma hélt við hirð sína skáld og lærdómsmenn; prestar voru þar í hávegum hafðir og tillit tekið til spádóma þeirra um framtíðina og hlustað var eftir túlkun skáldanna á fortíð og nútíð.

Er þá aðeins stigsmunur en ekki eðlismunur á barbarískri ungmenningu og hámenntaðri siðmenningu? Eða verða á einhverju stigi hvörf sem leiða til breytinga á eðli mannskepnunnar — af stigi „skepnuskapar“ á eitthvert æðra ef til vill guðdómlegt stig...? Eru styrjaldir okkar tíma — sumar hinar villimannlegustu orrustur þjóða sem sagan um getur — til marks um það?

Hvað sem því líður, nú sem Evrópa er á góðri leið með að verða eitt risastórt markaðstorg og miklir múrar fallnir, kann það að vera fróðlegt að virða fyrir sér stöðuna eins og hún kann að hafa verið í augum skálksins á borðinu fyrir um fimmtán og hálfri öld síðan.

Rétt er þó trúlega að líta á þessa sögu fyrst og fremst sem sagnaskemmtan fyrir unga sem aldna — hún er rituð á skýru og einföldu máli, sem hefur vonandi skilað sér í þýðingunni, að svo miklu leyti sem hægt er að ímynda sér, þrátt fyrir múra þriggja tungumála, hvernig höfundurinn — eða Zeta — hefði hugsað og tjáð sig á ástkæra, ylhýra málinu. Og hafa ber í huga að frásögnin er túlkun á löngu liðnum atburðum sem verða trauðla séðir úr því sem komið er nema í dálítið rómantísku ljósi.

 

haust 1989

Þýðandi

 

 

Um sögulegan bakgrunn verksins má meðal annars lesa í Mannkynssögu 300-630 eftir Sverri Kristjánsson og bókum Jóns Helgasonar Tveim kviðum fornum og Kviðum af Gotum og Húnum. Þá er The History of the Decline and Fall of the Roman Empire eftir Edward Gibbon aðgengileg á netinu, sjá m.a. kafla 34 og 35 um þessi efni.

 

Þjóðflutningarnir á 4. og 5. öld í mynd:

Shockwave Player - veljið þjóðflokk með vinstri músarhnappi:

Heimild að korti: OSSHE HISTORICAL AND CULTURAL ATLAS RESOURCE

 

 

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist