< Undir huliðshjálmi

kaflar 31 til 40

 

 

31.

 

Það fyrsta sem ég sá þegar ég kom til sjálfs mín voru pils er héngu á vegg. Því næst konur er stóðu við beð minn.

Ég var staddur í herbergiskytru eldabuskunnar.

Ein kvennanna hnípti grátbólgin við rúmgaflinn, ég þekkti hana strax, það var Djídjía.

Hinar konurnar voru einnig votar í hvörmum. Þær höfðu allar álitið mig dauðan. En sem ég tók að bæra augnlokin lifnaði yfir þeim.

„Hann er á lífi!“ hrópaði Raba. „Sækið vatn!“ Hún leysti þvengina á stakknum og losaði um flíkina frá líkama mínum og lagði höfuð mitt í kjöltu sér.

Ég hafði enga hugmynd um hvernig sárið á hausnum var á að líta, en þegar þær tóku að þvo mér varfærnum höndum sá ég aðeins að vatnið í skjólunni varð rautt sem vín.

Þá var mín vitjað af einum fræðaranna, Bjóli, presti af söfnuði þeirra Húna. Var hann hið mesta ljúfmenni. Hann hafði með sér trjábörk, leir og pálmviðargreinar, spelkaði handleggsbrotið með berkinum og makaði leirnum yfir og vafði loks tágunum utan um, og var svo listilega um búið að unun var á að líta.

Djídjía var þar enn og brynnti óspart músum.

„Heyrðu mig nú! Hættu þessu voli!“ setti fræðarinn ofan í við hana. „Hann er ekki neitt liðið lík og þarflaust að hafa uppi kveinstafi.“

Hann skar hár mitt og vafði sárabindi um höfuðið.

Á eftir, þegar hann var farinn, heyrði ég óm af rödd hans í gegnum þunnt þilið, sem hann mælti svo til þjónanna:

„Hann hefur fengið slæma útreið. Það má kraftaverk heita að hann fái nokkru sinni stigið í fæturna á ný.“

Mér þótti nefmælt röddin lítið eitt kaldhæðnisleg. Seinna, þegar ég átti eftir að kynnast honum betur, komst ég að raun um að Bjóll var hinn mætasti maður.

Ég var dofinn um allan skrokkinn, var eins og steingervingur, hvort sem því ollu sár mín eða ef til vill svartnættið sem nú grúfði yfir sál minni.

Raba fann sér annan stað til að sofa á og þjónarnir skiptust á um að hjúkra mér og hlúa að.

Vel á minnst ... þjónarnir. Þegar hér var komið sögu hafði ég átt svo lítið við þjónustuliðið að sælda sem minnst mátti verða. Að minni hyggju varð maður enginn maður nema að kunna fyrst stafrófið. Hver sá sem ekki hafði kynnt sér Plató eða að minnsta kosti lesið Virgil, var í mínum augum ekki annað en dýr.

Þetta hafði sem sagt verið álit mitt á þessu fólki. Heimur þess markaðist af daglegu amstri einu og viðkynningu þess við hvert annað. Ég hafði ímugust á því, að húsbónda mínum meðtöldum.

En Móeik ... hún var mér hulin ráðgáta.

Stundum lagði ég hana aðeins að jöfnu við málleysingjana líkt og hitt fólkið, að það væri einungis fyrir fallegt sköpulag frá náttúrunnar hendi sem hún skæri sig úr. En ég hafði fyrr látið heillast af fögrum skapnaði; og það sem ekki er minna um vert, ef finna mætti dæmigerð tákn kvenlegrar fegurðar í marmarastyttum, þá var Móeik engin drottning þeirra fegurstu.

Ég hef ósjaldan brotið um það heilann hvers vegna ég var svo gagntekinn af henni. Ég hafði byggt henni höll í huga mér ... en hvers vegna, um það hafði ég ekki hugmynd. Sá sem einu sinni horfðist í augu við hana, lét vera að gera það öðru sinni. En röddin, óviðjafnanleg hljómlist raddar hennar — það var hún sem gagntók mann. Fegurð hennar var fólgin í þeim hljómi. Sá sem hlýddi einu sinni á hann, þótti hún hrífandi fögur upp frá því, og gilti þá einu hvort hún var þögul. Hvort hún ekki hlaut að vera vel að sér í Bók náttúrunnar! Ekki eru dúfurnar læsar og þykir okkur þó engu að síður vænt um þær. Höldum við dúfu í hendi getum við ekki að okkur gert þótt við sýnum fuglinum blíðuhót.

En hitt fólkið, það hafði ég aldrei litið öðrum augum en dýr náttúrunnar. Það var fyrst núna sem mér skildist hve lítill mannþekkjari ég var.

Konurnar önnuðust mig sem væri ég þeirra eigin bróðir. Þarfnaðist ég vatns eða matar eða vildi hafa hljótt í kringum mig, fékk ég óskir mínar uppfylltar með augntillitinu einu. Fyrst í stað hélt ég að það ætti til þess rætur að rekja að þrátt fyrir allt bæru þær virðingu fyrir mér sem manni af æðri stigu; nokkuð sem þeim bæri skylda til vegna þekkingar minnar og þeirrar menningar er ég væri sprottinn úr. En svo var ekki. Ég átti bágt, til þess lágu ræturnar. Þær liðu önn fyrir mig af þeim sökum einum að ég þarfnaðist umhyggju.

Sárið á höfðinu hlýtur að hafa verið djúpt, því að ég gat með engu móti lyft höfði frá kodda. Það var þungt sem blý og sem elfur elds, magnþrungin sem Dóná, flæddi um það. Eða öllu heldur því líkast sem ég velktist um í ölduróti, þyngdarlaus, en hnigi svo djúpt í móðuna miklu.

Ég veit ekki hve lengi ég var í þessu hugarástandi. En þegar frá leið lægði ólguna. Þegar ég kom fyrst til sjálfs mín og gat bægt varirnar var Kópur einn inni hjá mér í kytrunni. Hann hafði komið með vatn. „Guði sé lof!“ sagði hann þegar hann sá að ég mændi á hann.

„Kópur,“ hvíslaði ég, „hún Litla Ljót mín ... lifir hún enn?“

„Auðvitað lifir hún. Eða hví ekki?“

„Gefið þið henni að éta?“

„Vitaskuld. Hví skyldum við ekki gera það?“

„Viltu vera svo vænn að ná í hana?“

Enn þann dag í dag furða ég mig á því að hænan skyldi hafa verið það fyrsta sem ég leiddi hugann að. Ég varð svo glaður við endurfundi okkar að ég þrýsti henni að mér sem væri hún systir mín!

„Litla Ljót! Litla Ljót!“

Hænan skalf af ótta þegar komið var með hana inn til mín. En þegar hún heyrði rödd mína varð hún strax róleg. Hún var við hlið mér og virti mig fyrir sér — með hægra auga, með vinstra auga, líkt og hænur gjóa augunum — og klakaði sem hún væri í sjöunda himni. Þannig skiptumst við á orðum líkt og við höfðum áður gert.

„Færðu nóg að éta, mín kæra?“ spurði ég hana. „Eru óhræsis hænurnar enn að áreita þig? Sefurðu enn við fletið mitt?“

Og hún svaraði öllu á sína vísu: „Kla-kla-kla...“

Ég svaf ósköpin öll þessa daga. Rétt vakti í eina stund eða svo og féll þá aftur í fasta svefn eins og vöggubarn.

Eitt sinn þegar ég vaknaði varð ég var við að eitthvað svo svalt og notalegt hvíldi á enni mér. Og sem ég opna augun birtist Móeik mér. Hún sat við hlið mér og hvíldi hönd sína á enni mér.

Djídjía stóð við hlið hennar og töluðu þær saman hálfum hljóðum. Í herberginu var bjart, skjárinn skjannahvítur í sólskininu. En jafn skjótt og hún sá að ég hafði opnað augun, tók hún hendina til sín og reis á fætur.

„Farðu ekki,“ hvíslaði ég. „Vertu aðeins lengur, yndislegi draumurinn minn!“

Hún horfði á mig eins og á báðum áttum, sneri sér þá að Djídjíu og sagði henni að fara og sækja vatn í brunninn. Svo settist hún aftur hjá mér.

„Líður þér betur?“ spurði hún vingjarnlegum rómi. „Við óttuðumst svo að þú myndir deyja.“

„Fái ég séð þig, hrjá mig engin veikindi. Mér líður eins og vorið væri komið og þú værir liljan hvít — ódáinslilja í líki stúlku. Þegar þú talar heyri ég englasöng.“

Hún virti mig fyrir sér djúpt hugsandi, lygndi þá aftur augunum skamma stund.

„Föður mínum þykir þetta leitt. En þú veist nú hve skapbráður hann getur verið. Hvað í ósköpunum fékk þig annars til að segja að þú hefðir falsað bréfið? Stundum virðistu spakari að viti en sjálfir fræðararnir, en í annan tíma ertu svo mikið smábarn að þér væri ekki einu sinni treystandi fyrir keri af mjólk.“

„Mér hefur aldrei lærst að ljúga.“

„Það kemur þér sjálfum í koll. Lygin er sjálfsvörn. Nauðvörn. Karlar brynja sig vopnum en konur og þrælar eiga lygina eina sér til varnar; hún er skjöldur okkar. Þú hefðir vel getað sagt að húsbóndi þinn hefði verið drukkinn þegar hann hefði ákveðið að gefa þig föður mínum og þú lagt af stað áður en runnið hefði af honum.“

Hún þagnaði og hlustaði eftir því hvort nokkur væri að koma. Þá sagði hún og í hálfum hljóðum:

„Ég skal láta færa þér dálítið af víni. Drekktu það og þá hressistu brátt. Og viltu svo lofa mér því að snúa aftur til þíns heima. Faðir minn ætlar að láta þig lausan án lausnargjalds og hefur nú þegar sent Prískusi orð um það.“

„Ég fer ekki.“

„Ekki?“

„Nei. Mig gildir einu þótt ég þurfi að þjást en mér er það lífsnauðsyn að fá séð yður.“

Mér vöknaði um augu.

Ráðþrota horfði hún á mig og andvarpaði.

„Þú ert ekki með öllum mjalla! Veistu ekki að...“

„Ég veit.“

„Verði þeir varir við eitt einasta vanhugsað tillit augna þinna, þá mun faðir minn hafa látið aflífa þig á hinn hryllilegasta hátt áður en stund verður liðin.“

„Það veit ég.“

„Og ég hef heldur aldrei gefið þér neinn rétt til að vonast eftir...“

„Nei, þér hafið ekki gefið mér neinn rétt til þess en getið heldur ekki bannað mér það. Ég er þræll og þið getið látið stjaksetja mig eða krossfesta hvenær sem ykkur lystir. En enginn jarðneskur máttur getur meinað mér að eiga mér mína drauma.“

Hún horfði fast á mig rökum augum.

„En ef ég bæði þig um að fara ... ef ég bæði þig um það?“

„Hvers vegna? Ég mundi aldrei verða yður til byrði. Fái ég aðeins séð skuggann af yður er ég alsæll. Sjái ég fötin yðar hangandi á vegg laumast ég til að snerta þau. Ef þér hafið skilið eftir vatn í bikarnum yðar þá drekk ég það, og vatnið bragðast mér sem væri það ljúffengur ódáinsdrykkur goðanna. Ég veit það, veit að þér munuð aldrei verða mín. En viljið þér aðeins segja mér eitt: Voruð það ekki þér sem gáfuð mér rósina?“

Ströng á svip hristi hún höfuðið.

„Af hverju neitið þér því?“ spurði ég og hélt áfram að nauða í henni. „Þó að ég viti að svo kunni að hafa ekki verið, þá mundi það samt gleðja mig óumræðilega ef þér svöruðuð játandi.“

Enn hristi hún höfuðið.

„Það var ekki ég sem gaf þér hana.“

Djídjía kom inn úr dyrum. Hún vætti klút og lagði á enni mér, og sem hún hafði lagað hann til var Móeik farin.

 

32.

Lengst af var það Djídjía sem sat yfir mér. Sat við rúmstokkinn, reiðubúin að uppfylla jafnvel smávægilegustu óskir mínar og lét dæluna ganga, malaði og masaði hvort sem ég hlustaði á hana eða ekki.

Hverju sinni sem hún þurfti að víkja sér frá strauk hún hönd mína og hvíslaði kveðjuorð og var aldrei lengur í burtu en nauðsyn bar til. Engu var líkara en að henni væri ekkert ljúfara en að ég lægi þannig veikur!

Dag nokkurn sagði ég við hana: „Djídjía, ég veit ekki hvað amar að mér en ég er óumræðilega þyrstur. Viltu ekki vera svo væn að kæla vatnið með snjó.“

„Með snjó?“ spurði hún forviða. „Hvar á ég að fá snjó?“

„Er ekki snjór úti?“

„Úti? Hvernig má það vera — eplatrén eru að bruma.“

Var ég búinn að vera þennan óratíma í rúminu? Ég hafði varla eirð í mér til að liggja og komast ekki út í grænan skrúðann. Hænuungarnir tóku að klaka í garðinum og einnig andarungarnir á sína vísu og himinninn varð blárri með hverjum deginum sem leið. Svölurnar flugu nú með litlar goggfyllir af leðju til að nota við hreiðurgerðina.

Ég bað um að vera fluttur út svo ég fengi fylgst með gróandanum, og á eftir mér fylgdi litla svarta hænan mín, klakandi af kátínu, — kla, kla, kla...

Hvað skyldi valda lækningarmætti sólar, sem er svo öflugur að sérhver sem á um sárt að binda þráir að fá að njóta hans? Sem ég lá fyrir þar úti í blessuðu sólskininu leið mér eins og ég væri snjór er tæki hvörfum í öflugum leysingum, bráðnaði og gufaði upp fyrir heitum sólargeislunum, hyrfi og yrði gjöreytt svo mildilega í eilífðarinnar geimi.

Þann sama dag vitjaði fræðarinn mín síðasta sinni. Hann tók börkinn utan af handleggnum og athugaði hvernig brotið hafði gróið. Þótti honum vel til hafa tekist og var stoltur af verki sínu.

„Það er nú svo!“ sagði hann. „En skyldu kristnir prestar geta náð svo góðum árangri?“

„Kæri Bjóll,“ svaraði ég og þakklátum huga, „megi fyrsta handartak ólukkans handleggsins vera handartak þér til heilla. Ég veit að ég er aðeins þræll en þú af stigu herramanna og ósk mín því ekki við hæfi, en við erum báðir menn, ekki satt...“

„Látum svo vera, látum svo vera!“ Og hann brosti og hristi hönd mína varfærnum höndum. „Þú ert skynsamur og sýnir af þér hreinskilni. Og mér skilst að þú kunnir einnig að lesa og skrifa. Eigir þú eftir að verða leysingi þá komdu til mín. Ég skal gera úr þér slíkan fyrirtaks fræðara að þú munir jafnvel hafa tök á að láta rigna.“

„Öðlist ég frelsi,“ svaraði ég, „skal fyrsti gullpeningurinn sem ég vinn mér inn verða þinn.“

„Og ég,“ mælti hann, „skal gefa þér dóttur mína.“

Hann þvoði leirinn af handleggnum og skoðaði þá höfuðið seinasta sinni og klappaði mér loks um vangann.

„Einungis liggðu úti í sólskininu,“ var það síðasta sem hann ráðlagði mér. „Sólargeislarnir eiga upptök sín í jarðeldi og eru handarverk Guðs. Þess vegna lækna þeir. Láti ég einhvern njóta seiðs míns og máttar míns þá má hann treysta því að verða heill á ný; sá er vilji Guðs. Faðir minn var einnig annálaður læknir, og enn drekkur Attíla af bikar sem hann gaf honum. Það er þess vegna sem ekkert fær honum grandað.“

„Segðu mér frá átrúnaði Húna, kæri Bjóll. Hvers kyns guð hafið þið?“

„Hvers kyns? Hvernig spyrðu! — líttu í kringum þig, hafir þú augu!“

„Líta hvert?“

„Á sólina! Þar finnur þú Guð. Hann er með gullna lokka og eins er skeggið gull; augun eru jarknasteinar. Að öðru leyti geislar hann af gulli fram í fingurgóma. Hann fer á fætur á morgnana til að virða fyrir sér heim sinn. Á kvöldin leggst hann til hvílu. Um svipað leyti skríður hann Ófögnuður undan brekáni næturinnar. Hárið á honum er eintóm tjara og skeggið sót; augun eru græn eins og í ketti og sést þó varla í þau fyrir ygglibrúnum...“

Mér fór að líða hálf ónotalega á meðan hann talaði og féll í svefn.

Ég tók að hjarna við og loksins fékk ég stigið í fæturna. Eðlilega var ég til lítils annars megnugur en reika um garðinn. Kona Kata gaf mér tvo sumarklæðnaði úr fínriðnum hör og ég varð glaður við. Ég sneri upp á gerðarlegt yfirvararskeggið og stillti mér upp fyrir framan höllina og gerði mér vonir um að hin sólin mín bjarta ákveddi nú að fara út og viðra sig.

En enginn birtist nema Kati út í glugga.

„Ert þú þarna, Grikki?“

„Það er ég, herra minn.“

„Komdu upp.“

Ég get sjálfum mér um kennt, hugsaði ég, að vera að flagga svona sjálfum mér. Renni aftur á hann móður er ólíklegt að Bjóli fræðara takist að tjasla mér saman á nýjan leik!

Kati var víst nógu harður í horn að taka.

„Við skulum halda áfram spjalli okkar,“ sagði hann. „Segðu mér, hvers vegna hafðir þú mig að fífli með þessu bréfi?“

Eiginkona Kata og faðir hennar voru einnig viðstödd og Móeik, sem kom flögrandi innan úr næsta herbergi og fylgdist með okkur úr dyrum. Hún hallaði sér upp að dyrastafnum og horfði á mig þung í skapi.

„Herra minn,“ svaraði ég hryggur í huga. „Verið mér ekki reiður. Ég er ekki eins slóttugur bragðarefur og ég kann að líta út fyrir að vera. Á meðan ég dvaldist hér með mínum fyrri húsbónda féllu mér lifnaðarhættir Húna æ betur í geð. Þá gerðist það dag einn að Frjálsi Grikki varð á vegi okkar, búinn dýrindis húnverskum klæðum. Þegar hann heilsaði okkur var hann svo kátur í lund og virtist eiga miklu láni að fagna. Hann tjáði okkur að hann hefði verið ánauðugur þræll og farið í stríð með húsbónda sínum og þá unnið sér frelsi með hreystilegri framgöngu og sæti því nú til borðs með fyrrum húsbónda sínum.“

„Rétt er það,“ svaraði Kati og ekki laust við góðlátlegum rómi. „Og þú sem sagt haft eitthvað svipað í hyggju?“

„Já, herra.“

Móeik lyfti brúnum og ég fann hlýju stafa úr augum hennar.

En Kati drap tittlinga og var aftur fullur tortryggni. „En Prískus hafði veitt þér frelsi og hafði í hyggju að gera úr þér tiginn embættismann!“

„Herra minn, mér þótti hirðlífið lítt á treystandi. Það er lagt undir hæl kvenna, hér eru það á hinn bóginn karlmenn sem stjórna. Ég hafði séð yður og ályktaði af viðmóti yðar að þér hlytuð að vera vænn og góður maður. Því hugðist ég verða þræll yðar og gerði mér vonir um að fá að berjast við hlið yðar strax og stríð brytist út.“

Kati virti mig fyrir sér sem hann gekk fram og til baka mælandi gólfið. „Hann er ekki með öllum mjalla, en heiðarlegur er hann!“ sagði hann og hristi höfuðið. „Þú hefðir betur sagt mér þetta strax í stað þess að fara á bak við mig. En hvað um það, ég skal ekki afhenda þig aftur Prískusi. En gerðu þér grein fyrir því að þú hefðir betur sagt mér þetta strax.“

„Ég óttaðist að þér munduð senda mig til baka, herra minn.“

„Látum útrætt um það. En þú verður að sætta þig við að vera þræll áfram fyrst þú valdir þér það hlutskipti. Og í öllu falli leyfist engum frjálsum útlendingum að búa hér. En þar sem þú ert hvorki keyptur þræll né tekinn herfangi ætla ég að láta þig fá peningana þína aftur. Kona!“ Hann sneri sér að eiginkonu sinni. „Láttu strákinn fá pyngjuna sína.“

„Ágæti herra, haldið þér henni frekar sjálfir,“ sagði ég. „Mig vanhagar ekki um neitt og vil aðeins fá að njóta miskunnar yðar og góðvildar. Það væri þá ekki nema einn gullpeningur sem ég vildi þiggja, til að fá launað Bjólfi fræðara...“

„Held nú að hrossahreðkur séu honum nóg; ekki gull!“ skrækti konan. „Eða á að stríðala hann? Við sem færðum honum heilan kálf að launum fyrir að annast þig! Ætli það sé ekki honum meira en nóg!“

Konan var stjúpa Móeikar og stóð Kata jafnvel meiri stuggur af henni en sjálfum Attílu.

Frá þessum degi að telja var ég látinn stunda æfingar með fjórtán og fimmtán ára unglingum; skutum við af boga og lærðum að kasta spjóti og sitja hest á hermannsvísu. Eins og gefur að skilja tók ég aðeins þátt í þeim æfingum sem slæmskan í handleggnum gerði mér ekki erfitt fyrir með að stunda. Annars leiðbeindu kennararnir mér um hvað eina, allt frá því hvernig bogastrengur væri fléttaður til þess með hvaða hætti skyldi snúa sér úr réttri stöðu á hestbaki yfir í öfuga. Táknmál hornblástursins varð ég að leggja sérstaklega vel á minnið. Hver stöðubreyting var gefin til kynna með blástursmerki; nokkuð sem félögum mínum veittist auðvelt að læra því frá unga aldri venjast Húnarnir á að heyra þyt hornanna óma í eyrum. Varð ég að gjöra svo vel að skrá hjá mér táknmálið og læra það heima.

Strax á fyrsta degi komst ég að raun um, og var heldur en ekki auðmýkjandi, að hestarnir stóðu mér í þessum efnum all mjög framar að visku. Hver og einn þeirra vissi upp á hár hvaða merki táknaði stökk! hvað snúa! hvað staðar nem! og svo framvegis — og hvort þeir ekki skildu hornblásturinn þegar þeytt var nærið hrossin!

Víst er það að skipulag og hernaðarlist húnversku riddaraliðssveitanna eru engin auðlærð vísindi. Ég hafði ekki gert ráð fyrir því að ég þyrfti að læra að sitja hest og ríða — því að oftast nær fórum við ekki öðruvísi um óhrein stræti Miklagarðs en á hestbaki. En það á raunar ekkert skylt við það að ríða berbakt á villtu stökki eða láta hestinn prjóna ellegar venda umsvifalaust og láta hann þó ekki hagga sér; og það verð ég að játa, að ósjaldan hélt ég að mín síðasta stund væri komin og ég hálsbryti mig þar sem við æfðum úti á völlunum.

Þegar við æfðum sóknarlotur geystumst við af stað á stökki í þéttum hóp sem dreifði sér eftir því sem við sprettum lengra úr spori. Oft var óvinurinn tákngerður með birkirunna sem hafði verið plantað sérstaklega í því skyni, og skyldum við skjóta örvunum um leið og við kæmumst í skotfæri við runnann, og láta síðan gamminn geysa til baka tafarlaust þegar merki væri gefið um að snúa.

Þjálfarar okkar voru allir gamalreyndir hermenn og þreyttust þeir seint á að innræta mér höfuðatriði listarinnar — að láta reiðskjótann lúta stjórn sem hugur manns væri. Ekki minni áherslu lögðu þeir á undanhaldssókn ef svo má kalla — að látast hörfa undan óvininum til að hann fullur sóknarhugs taki að reka flóttann og brjóti þar með upp eigið skipulag; þá að snúa í skyndingi og láta örvahríðina dynja yfir og fylgja hríðinni eftir inn í óvinahópinn miðjan, sem þá væri í uppnámi; þá að láta kastspjótin — sem voru ein mikilvægustu vopnin — ganga á hol þeim; og eftir því sem návígið yrði meira, beita sverðinu, öxinni, lagspjótinu, kylfunni, og ekki síst hugrekkinu.

 

33.

Dag nokkurn þegar rigndi og við fengum frí frá þjálfuninni fór ég og heimsótti Bjól fræðara.

Tjöld fræðaranna voru rétt hjá hallarbyggingum Attílu. Hestshauskúpa á stöng við hvert tjaldanna var til merkis um að þar byggju prestar. Fyrir framan hvert tjald var lítil ferhyrnd altariseldstó með glóðarhröngli sem reyk lagði af. Þægilegan ilm af steiktu kjöti lagði fyrir vitin frá þyrpingu tjaldanna, sem átti sér þá eðlilegu skýringu að dýrin sem prestarnir færa til fórnar verða þeirra eign. Fengju aðrir að éta þau, missti fórnfæringin gildi sitt.

„Heyrðu, þú þarna krakkaskinn! Hvar finn ég Bjól fræðara?“

„Hann er í tjaldinu þarna hinum megin þar sem hvíti kiðlingurinn er hoppandi fyrir utan.“

„Þakka þér fyrir, gæskurinn.“

„Ég er enginn gæskur þræls!“

Í stærsta tjaldinu bjó blindi öldungurinn Kama. Hann hafði byrjað klerkdóm sinn í tíð Balambérs endur fyrir löngu og var spakvitur mjög. Var hann ávallt hafður með í ráðum þegar tignarmennirnir þinguðu um mikilvæg mál. Gisið og grátt vangaskeggið náði honum niður á miðja bringu, en af því að hann átti vanda til að halla undir flatt með hönd undir vinstra vanga þegar hann hugleiddi þá stóð yfirvararskeggið venjulega jafn hvasst út í loftið þeim megin og það lafði mikið á hina hliðina. Hann var sagður geta skyggnst inn í framtíðina en varð á hinn bóginn að fara spart með opinberanir sínar, því að hverju sinni sem hann réði einhverjum heilla mátti hann fyrir bragðið vænta sér einum skemmri lífdaga, degi sem dróst frá hans úthlutuðu jarðvistaröld.

Tjald öldungsins var þakið hvítum hrosshám á alla vegu, eins og raunar tjöld þeirra allra fræðaranna, en hans var mest um sig. Skinn var strengt út frá forhliðinni til að mynda forsælu og hafðist blindi maðurinn þar gjarnan daglangt við og hlýddi með bros á vör á ærslin í barnabörnum sínum fjölmörgum sem þar léku sér.

Tjöldum prestanna var skipað í hring og var grasflöt inni í þyrpingunni miðri.

Þeir sem sóttu prestana heim áttu ýmsum ólíkum erindum að gegna og leituðu úrlausnar mála sinna í því tjaldi sem hinn rétta sérfræðing var að finna. Því að þeir fræðararnir voru kunnáttumenn hver á sínu sviði.

Kama gamli var æðsti presturinn og sá sem lengst vissi nefi sínu og mestur spámaður var. Hann lægði storma og lagði blessun sína yfir stríðsmenn. Með snertingu handa sinna einna gat hann reist hengda menn upp frá dauðum. Hringsneri hann töfrastaf sínum mót himninum, lægði storm og datt á dúnalogn — svo fremi að sá væri einnig vilji Guðs.

Öldungurinn Íddar var Kömu næstur að virðingu og ábyrgur fyrir fórnfæringum. Hann var um sjötugt, höfuðstór og eftir því herðabreiður. Honum lá afar djúpt rómur, og tillit augna hans var svo magnþrungið að hann gat stöðvað örvahríð óvina með augnaráðinu einu saman, svo að örvarnar féllu til jarðar öllum að skaðlausu — svo fremi að sá væri einnig vilji Guðs.

Zóbókan var ungur að árum og annaðist hann bænalestur og var söngstjóri þeirra félaga. Hann var með afbrigðum raddsterkur og gat legið svo hátt rómur sem horn væri þeytt. Söngur hans var svo töfrandi að maður varð gagntekinn. Hann var sagður kunna bæn er gæti sljóvgað svo vopn óvinanna að jafnvel harðasta stál yrði mjúkt sem blý — svo fremi að sá væri einnig vilji Guðs.

Bógur fræðari, feitur og hárprúður, gamansamur karl, var eldklerkur þeirra félaga og skrifari fólksins. Þyrfti einhver að láta skrifa eitthvað fyrir sig, þá dró hann þessa kynlegu húnversku stafi, og fékk að sjálfsögðu vel borgað fyrir vikið. Ég heyrði aldrei minnst á að hann kynni neitt fyrir sér sem yfirnáttúrulegt mætti kalla. Að vísu var haft á orði að hann gæti tekið á steinum heitum úr eldi, en það getur varla talist merkilegt. Heima í Garði leikur nú hvaða sjónhverfingamaður sem er sér að glóandi járni.

Gyrðir fræðari kunni þá list að láta formælingar hrína á þeim sama og ófögnuði vildi valda. Hann rakti harmatölur við jarðarfarir almúgafólks, og við hjónavígslur baðst hann fyrir og árnaði því heilla. Þegar fórnir voru færðar hafði hann það verk með höndum að skera tunguna úr fórnardýrinu og halda á henni í spón á meðan æðsti presturinn mælti fram fórnarbænina.

Bukkur fræðari var augnlæknir þeirra félaga. Við fórnfæringar hjó hann af haus dýrsins og setti á stjaka til að bægja frá illum öndum.

Bjóll fræðari var meistari í þeirri læknislist að græða beinbrot. Hann safnaði blóði fórnardýranna og lét það renna ofan í holu undir altarinu.

Sármáni gat kveðið niður farsóttir með góðum árangri. Hann steig einnig helgidans og gæddi vopn töfrum, og hann gat látið formælingar hrína á óvininum. Með því einu saman að láta dropa af vatni drjúpa á ungabarn gat hann gert barnið ónæmt fyrir töfrum og allri kynngi.

Damónik baðst fyrir við fæðingar og var sérfræðingur í þeirri list að blessa örvar þeirra er fóru í hernað til fjarlægra landa. Þá var hann ráðgjafi hjónaleysa og bægði hvirfilbyljum á brott. Einnig gat hann látið formælingar hrína á þeim sömu og formæltu.

Vítos fræðari var ævagamall og mjög guðhræddur krypplingur. Hann átti töfrastafi til að lækna með húsdýr og lagði einnig stund á lyfjalækningar. Í fórum sínum átti hann smyrsl þeirrar náttúru, að væri því í orrustum núið um nasir reiðskjótum óvinanna þá féll óvinurinn af baki og tróðst undir fótum dýranna.

Og allir þeir sem ekki eru upp taldir bjuggu þannig á sama hátt yfir sérfræðiþekkingu sér til lífsviðurværis. Ég held að þeir hafi þénað mest á sölu töfragripa. Sá Húni fyrirfannst ekki sem bar ekki eitthvað á sér hangandi um hálsinn — og þá að sjálfsögðu inn undir klæðum sér. Jafnvel nýfædd ungabörn fengu rauða reim um úlnliðinn á sér strax og búið var að baða þau, sér til verndar fyrir hinum óhreinu öndum.

Ég gat ekki að mér gert þótt þessi trúarbrögð vektu aðeins með mér hlátur. Ungir og óreyndir eiga svo létt með að hlæja. En þegar allt kemur til alls, siglir þá ekki sérhvert fley, smátt og stórt, blátt eða grænt, búið seglum eða árum, eftir sömu leiðarstjörnunni. Við nefnum hana Þeóz, Gotar Gut, Húnar Isten — Guð.

Bjóll fræðari var heima. Hann og Zóbókan fræðari sátu við lítið borð undir breiðu skyggni fyrir framan tjaldið hans. Á borðinu stóð vínpyttla gerð úr graskeri og tveir silfurbikarar. Ég nam staðar í nokkurra skrefa fjarlægð frá þeim og beið þess auðmjúkur að þeir yrtu á mig.

„Þú kominn, Zeta?“ sagði húsbóndinn glaðlegum rómi, nefmæltur að vanda.

„Já, herra minn,“ svaraði ég og hneigði mig. „Ég er kominn til þess að þakka yður fyrir það sem þér gerðuð fyrir mig.“

„En gaman að sjá þig! En stattu ekki þarna úti í rigningunni. Komdu inn fyrir!“ Og hann kallaði inn í tjaldið: „Heyrið þið, krakkar! Komið með sessu!“

Ég lét á mér skiljast að ég væri ekki verður slíkrar móttöku en þeir sögðu mér að setjast.

Zóbókan tók ekki síður vel á móti mér og það þótt hann væri mikilsmetinn klerkur og auðugur á veraldlega vísu — eigandi ekki færri en fimmtán þræla.

„Ég hef heyrt þín getið,“ sagði hann og rétti mér höndina. „Þú munt frá Prískusi vera kominn og ert menntaður maður. Og ert kristinn, ekki rétt, eins og allir Grikkir?“

„Satt er það, ég er kristinn,“ svaraði ég. „Einn þeirra kristnu sem taka jafnvel afstöðu til annarra trúarbragða með hugarfari Jesú Krists.“

„Hvernig þá?“

„Kjarni kenninga hans er fólginn í ást og virðingu fyrir öllu fólki.“

„Hann var mikill og heilagur maður,“ sagði Zóbókan og kinkaði kolli. „Ég hef heyrt um hann og stundum legið andvaka og brotið heilann um kenningar hans. En það er ekki á valdi nokkurs manns að haga svo lífi sínu sem hann gerði kröfu til.“

Zóbókan var maður á miðjum fertugsaldri, grannvaxinn og með bjúgmyndað yfirvararskegg, dreyminn á líta til augnanna og fór sér hægt. Og svo vildi til að hann var sonur öldungsins Kömu.

„Eftir því að dæma sem þér segið,“ mælti ég, „þá geri ég ráð fyrir að einhverjir trúboðar hafi verið hér á ferð?“

„Þeir slæðast oft með einn eða tveir í hópi herfanga,“ sagði Zóbókan og brosti. „Og reyna þá gjarnan að snúa okkur til kristni en án teljandi árangurs. Jafnskjótt og Húni heyrir að hann skuli ekki berjast, kærir hann sig ekki um að heyra meira. Þetta er nokkuð sem á ekki upp á pallborðið hjá okkur.“

Einnig Bjóll brosti:

„Enn hefur þeim ekki tekist að snúa einum einasta Húna. Það er aðeins einn og einn útlendur þræll sem lætur skírast. En trúboðar af öðrum toga koma hingað einnig — þeir hinir gulu á hörund úr austrinu sem kenna að maður skuli einskis óska sér og einskis vænta. En ekki einu sinni þrælarnir leggja eyrun við boðskap þeirra.“

„En — æruverðugu prestar,“ spurði ég hæversklega, „mætti ég fá að vita hvað ykkur finnst um stríð?“

Þá bar að húnverska konu með átta ára gamlan dreng á baki sér. Hún vildi finna Zóbókan vegna þess að kýr hafði stigið ofan á fótinn á drengnum. Legubekkur var sóttur inn í tjaldið og sjúklingurinn ungi lagður á hann. Hann gaf lítt til kynna að sér þætti sárt, en af eigin reynslu vissi ég að beinbrot olli ekki svo miklum sársauka til að byrja með.

Zóbókan svaraði spurningu minni. „Hvað okkur finnst um stríð? spyrð þú. Stríð, sonur minn, eru óhjákvæmileg. Ef þau væru það ekki, mundu menn ekki berjast.“

„Ber mér svo að skilja, herra minn, að allt hið illa sé óhjákvæmilegt?“

Presturinn yppti öxlum.

„Hvað er hið illa? Það sem elur af sér hið góða. Allt sem gott má heita í veröld hér er runnið af rótum þess sem verra er. Ef vér værum sannkristnir menn þá skyldum vér gjöra svo vel að fleygja öllum vopnum okkar í Tísjuá. Og gerðum vér það núna, á þessari líðandi stundu, yrði okkur gjöreytt á morgun. Af sjálfum hinum kristnu! Og að svo komnu máli væri vissulega ekkert sem heitið gæti gott eða slæmt að því er Húna varðaði í veröld hér.“

„En látum svo heita,“ svaraði ég, „að allar þjóðir gerðust kristnar.“

„Óhugsandi!“

„Hví þá óhugsandi? Ég bið yður að afsaka, herra, en ég segi þetta ekki til að andmæla yður heldur til þess eins að vér megum grafast fyrir um sannleikann.“

„Haltu áfram!“

„Ég á aðeins við það, að ef einstakir menn fá lifað af án þess að berjast, hví þá ekki heilu þjóðirnar? Eða er þjóð nokkuð annað en stórt samsafn einstaklinga?“

„En mannkynið á vorum dögum er enn að slíta barnsskónum. Veist þú um nokkurt það barn sem ekki berst fyrir lífi sínu? Hvað eina í sköpunarverkinu heyr baráttu. Hið sterka gnæfir ávallt yfir hinu veika. Lífið er allt ein barátta.“

„En við erum engar skepnur!“

Brosmildur lygndi hann aftur augunum og ræskti sig.

„Ekki það, nei. Hm. Ekki skepnur, segirðu. Humm. En hvað nú ef dýr og skepnur skyldu einnig vera fólk?“

„Fólk?“

„Já, fólk er hefði tekið sér bólstað í hinum ýmsu lífverum.“

„Afsakið mig, herra minn, ég skil yður ekki.“

„Áður en þú varst maður gætir þú allt eins hafa verið eitt lítið strá eða blóm, tré, fiðrildi, nú eða aldinbori, úlfur, hestur, ljón — hvað sem er.“

„Er það nú víst?“

„Eitt er víst, að allt á sér upphaf. Ekkert verður til af engu.“

„Ég get tekið undir það.“

„Og það sem af sér getur, hlýtur einnig að hafa verið getið.“

„Víst er það.“

„Á annan veg gæti því ekki verið farið. Eða finnst þér ekki á stundum eins og innra með þér búi dýr, stundum eitt, stundum annað?“

„Nei, herra minn, þá tilfinningu þekki ég ekki.“

„En þekkir þú þá ekki til fólks sem er ævinlega reiðubúið að ráðast gegn sér minnimáttar eða sem vefur ekki síður flókinn vef en sjálf kóngulóin?“

„Vissulega.“

„Og þekkir þú þá ekki fólk sem sankar að sér og nurlar saman líkt og íkorninn, eða sem er blóðþyrst líkt og ljón, eða blauðara en kanína, eða er gætt þjónustulund og tryggð hestsins, ellegar sem er svikulla en snákur? Hvað annað gæti verið orsök alls þessa nema arfur hins fyrra lífs?“

„En hvaða tilgangi ætti slík endurholdgun sálarinnar að þjóna?“

„Hvaða tilgangi? Það má Guð vita. Ég veit það eitt að slík umskipti þjóna þroska sálarinnar; hún styrkist líkt og stjarna er bjartari því stærri sem hún er. Allur dauði jafngildir hamskiptum, og eftir hver hamskipti tökum við okkur bólstað í nýju lífi, gædd endurnýjaðri orku. Þannig breytir lífið sífellt um mynd og við fikrum okkur upp stigann, rim eftir rim.“

„Og hvað tekur við að mannlífinu loknu?“

„Við stígum upp einni riminni hærra og tökum á okkur jafnvel enn fullkomnari mynd. Og eitt er víst. Við verðum aldrei að engu. Líf er tákn þroska og hreyfingar. Sjálfur skaparinn er látlaust að. Og einnig maðurinn skal orka, skapa, stríða — í öllum sínum myndum, og sama hvar er eða hverjir eru mótherjar. Hægt og stígandi glæðist skilningur vor, smám saman fyllumst við hjartagæsku og verðum vegsamlegri og göfuglyndari í athöfnum okkar.“

„En ég get ómögulega munað hvað ég var fyrrum eða hverrar reynslu ég varð ríkari þegar ég var ... eigum við segja, engispretta.“

„Hví skyldir þú muna það? Lætur þú þig einhverju varða nú afhverju þú úthelltir tárum tveggja ára? Eða hví þú kættist? Eða hver voru gullin þín? Eða hvað þá var yfirleitt að brjótast um í kollinum á þér?“

„Víst er ég ofurlitlu nær um viðhorf yðar, herra minn, en er boðskapur yðar til fólksins í þessa sömu veru?“

Fræðarinn yppti öxlum.

„Þetta er ofvaxið skilningi almúgans. Jafnvel þú, menntaður maðurinn, skilur ekki. Á vorum dögum þarfnast fólk enn töfrabragða og tákna sýnilegum berum augum. En aldrei að vita, eigum við að segja eftir nokkur þúsund ár... Bíddu þangað til augu sálarinnar ljúkast upp fyrir þér.“

Við urðum nú að fella tal okkar því að Bjóll fræðari hafði sett upp töfrahatt sinn og var tekinn að muldra í guðræknislegum tón yfir barninu upp úr svartri bók.

 

34.

Sumardag einn bárust okkur fréttir af Dauða Þeódósíusar. Kona — Púlkería — skyldi taka sæti hans, setjast á veldisstól krúnunnar.

Attíla beið ekki boðanna. Hinn borginmannlegi Eslás skyldi eina ferðina enn stíga á bak og ríða suður á bóginn til Marmarahafs. Að þessu sinni fengu þeir honum til samfylgdar þá grimmúðlegustu karla er fyrirfundust — þá Hörð, Kjassa og Makka uxaskalla — og þó að ekki hefði verið litið nema til þjóna þeirra einna, hefði það nægt til að fylla hross Grikkja skelfingu.

Skilaboð Attílu voru stutt og skorinorð:

 

Snúi sendiboðar mínir tómhentir heim aftur, mun ég sækja hausinn af Krýsafíusi sjálfur!

 

Má vera að Krýsafíus hafi ekki dreymt of vel þessa dagana.

Hingað til hafði einungis gull verið sent í stað höfuðsins og höfðu Húnarnir á orði að brátt yrði stefnan tekin á Miklagarð, það mátti heyra á þeim hvarvetna.

Daglangt og fram á kvöld héldu tignarmennirnir sig í kringum Attílu. Risastór uppdráttur af Miklagarði hafði verið breiddur á borð í einu stærsta herbergi hallarinnar. Þar voru allar mikilvægustu byggingar borgarinnar nákvæmlega inndregnar. Hafið var litað grænt og markað myndum af skipum og yfir konungshöllinni var teiknuð kóróna.

Edékon, Kati, Börkur og Órusti útskýrðu hvaða hlutverki hver bygging gegndi. En uppdráttinn sá ég ekki fyrr en að tveimur árum liðnum. Gat ég þá ekki annað en dáðst að því hve nákvæmlega hann var dreginn.

Allt í kringum borgina þustu herskarar ungmenna með miklum fyrirgangi. Frá morgni til kvölds æfðu þeir bogfimi, reiðlist og glímu. Kati leysti mig frá öllum skyldustörfum til að ég gæti tekið þátt í æfingum með hinum.

Ég hef aldrei getað skilið hvað kom Kata til að leyfa mér að taka þátt í æfingunum. Má vera að undir harðri skelinni hafi búið góðhjörtuð sál sem hafi látið blekkjast af fagurgalanum í mér. Við hirð Attílu var að minnsta kosti tugur tignarmanna af erlendum uppruna sem höfðu verið leystir undan oki þrældómsins. Ef til vill hefur Kati viljað gefa hugsanlegu hirðmannsefni tækifæri til að sýna hvað í sér byggi. Og aldrei að vita nema að hann hafi ályktað sem svo að síðarmeir gæti það orðið honum og börnum hans til góðs að eiga sér hauk í horni.

Á meðan á æfingunum stóð kom ég aldrei heim fyrr en seint á kvöldin. Þá var Móeik gengin til hvílu og ég raunar svo þreyttur orðinn að ég einungis gleypti í mig matinn, tók svo strax á mig náðir og svaf vært.

Svo vikum skipti fékk ég ekki litið hana augum.

Um síðir kom umboðssveitin til baka. Þremur dögum áður en hún birtist höfðum við haft veður af því hverjum árangri hún hafði náð og olli koma hennar þó engu að síður miklu uppnámi. Horn voru þeytt í hallarturnum og undir blæstrinum hrópuðu flengríðandi knapar sigri hrósandi: „Hausinn er hér! Þeir færa okkur hausinn af morðingjanum!“

Og víst var hann hingað kominn! Fyrir utan borgina höfðu þeir tekið hausinn úr hunangsleginum, þvegið hann og sett á spjótsodd. Það var þannig sem þeir færðu hann Attílu.

 

35.

Á hverjum degi snæddi Kati hádegisverð með Attílu. Fyrst í stað stóð ég í þeirri trú að þeir sætu einungis að drykkju, af því ég hélt að helsta lífsnautn skrælingjanna væri fólgin í áti og drykkju, en enn einu sinni hafði ég rangt fyrir mér.

Við sérstök tækifæri, þegar gestir sóttu Attílu heim, gátu þessar máltíðir vissulega orðið all hávaðasamar og þeim fylgt mikill glaumur en oftast nær voru þetta þó fremur ráðstefnur en matarveislur miklar.

Með þessum hætti sameinaði konungur hirð sína í eina fjölskyldu. Hverjum og einum var frjálst að láta álit sitt í ljós og andstæð sjónarmið voru rædd opinskátt. Orð hinna eldri vógu þyngst og átti Attíla þó ætíð síðasta orðið.

Að snæðingi loknum, stundum seint, stundum snemma, fór hver í sína áttina til að sinna eigin málum. Attíla sjálfur heimsótti þá ýmsar konur sínar eða hann fylgdist með stríðsleikjum hinna yngri, ellegar hann veitti hinum og þessum erindrekum móttöku, en varla leið sá dagur að ekki væru einhverjir slíkir á ferð úr einhverju heimshorninu.

Eitt vætusamt kvöld í október hafði ég tyllt mér niður fyrir framan smiðju járnsmiðsins okkar sem var við iðju sína í öðrum hluta garðsins. Hann var að brennimerkja örvar með tákni fjölskyldunnar, sem var hið sama og skjaldarmerkið: Tvö sverð í hendi og sól yfir.

Einnig ég notaði sams konar örvar. Að æfingum loknum tíndu strákarnir saman örvarnar sem skotið hafði verið og fékk hver sínar eftir því sem táknmerkin gáfu til kynna.

Örvarnar mínar voru úr greni en örvar húsbónda míns úr sérstökum grönnum bambusreyr. Járnsmiðurinn bjó einnig til örvar handa eldri syni Kata en þær voru auðvitað aðeins úr mjúkum reyr sem óx á bökkum Tísjuár.

En sem ég sat þarna og fylgdist með járnsmiðnum, sem nú var tekinn til við að festa flugfjaðrirnar á örvarnar, kemur þá ekki Kazi, þjónn við hirðina, á harðahlaupum og er mikið niðri fyrir.

„Zeta! Zeta! Farðu til hallarinnar undireins! Attíla vill finna þig. Vertu fljótur! Fljótur!“

Ég varð agndofa af undrun og eins og gefur að skilja hafði ég heldur en ekki hraðan á. Ég skipti um föt og tók sprettinn í höllina.

Hafði nú hamingjuhjólið snúist mér í vil eða til hins verra? hugsaði ég ringlaður. Ó, gat verið að Prískus væri kominn?

Mér var fylgt inn. Ég fylltist óttablandinni lotningu. Um fimmtíu karlar sátu til borðs með Attílu í innri hluta salarkynnanna. Loftið var þrungið sterkri angan af víni. Á hægri hönd konungi sat frændi hans Barki, á hina vinstri Alöður. Og þarna var Kati með sín vökulu varðhundsaugu, og Edékon með sitt ábúðarfulla yfirvararskegg, og hinn Katinn, yfirhershöfðinginn, og Börkur, Dórog, Makki, Káson, Vákor, Úpor, Balan, Madaras, Úrkon hinn katteygði, Zsögod, Komortán, gamli einhenti Barákon (tengdafaðir Kata), Salló, Kontsagi, Hargíta — allir saman úr sveit tignarmanna. Hvítur dúkur var á borðum. Þjónar voru að kveikja á vaxkyndlum á herbergissúlunum. Kringluleitur Húni og svíramikill, Kamokki að nafni, stóð við borðið og hélt tölu yfir félagsskapnum. Annað veifið skotraði hann augum til Attílu ertinn á svip. Allir við borðið voru rauðþrútnir af hlátri.

Kazi gaf mér til kynna að ég skyldi halda kyrru fyrir við dyrnar. Við skyldum bíða á meðan Kamokki lyki máli sínu. Húsbóndi minn gaf mér einnig merki um að bíða. Brátt lyfti Kamokki bikar sínum hátt svo mælandi: „Og nú skála ég fyrir yður, minn hátignarlegi herra. Þess krefst hið stórfenglega tryggðarband er þér nú hafið undirgengist. Yðar skál og yðar heittelskuðu! Skál!“

Með þeim orðum brast á með kröftugum hlátri. Jafnvel hinir eldri létu ekki sitt eftir liggja og tóku undir fumandi. Barákon gamli barði í borðið og hrópaði: „Einmitt! Vel mælt!“

Einnig Attíla brosti.

Þetta var í fyrsta sinn sem ég sá honum stökkva bros og orkaði það einkennilega á mig. Þegar alvörugefinn maður brosir er það einna líkast því að sjá grænt epli umhverfast í rautt — og tók nú út yfir allan þjófabálk. Og voru það þó einungis augun sem brostu, augun dimmu og skelfilegu sem gátu jafnvel komið bergrisum til að skjálfa og nötra.

Þegar öldur fagnaðarlátanna loks fjöruðu út gaf húsbóndi minn mér merki um að stíga fram, stóð þá sjálfur á fætur og leiddi mig fyrir Attílu.

„Herrar mínir, hér er hann kominn,“ mælti hann. „Þetta er þrællinn sem ég minntist á við ykkur áðan. Þótt honum sé gefið ærlega utanundir, lýgur hann ekki.“

Við lá að blóðið frysi í æðum mér. Hver var hugmyndin með slíkri kynningu: Þótt honum sé gefið ærlega utanundir...?

Söfnuðurinn við borðið varð hljóður við. Allra augu hvíldu á mér. Ég var ekki viss hver væri siðvenjan en hneigði mig og kraup á kné. Mér þótti líklegast að þannig bæri þræli að heilsa.

„Stattu á fætur,“ sagði Attíla og spurði formálalaust: „Þekkir þú til Honoríu prinsessu, systur Valentíníanusar keisara þriðja?“

Í herberginu var grafarþögn sem aðeins var rofin af snarkinu í kyndlunum.

„Ég hef aðeins einu sinni litið hana augum,“ svaraði ég hikandi. „Það var á meðan hún var geymd undir lás og slá í Miklagarði.“

„Er hún enn á lífi?“

„Hún var það síðast þegar ég vissi. En þá hafði hún verið flutt til Ravennu og var þar enn haldið fanginni.“

„Og hvers vegna halda þeir henni fanginni?“

„Það er vegna þess, herra minn, að fyrir sextán árum sendi hún yður hring til tákns um heitorð sitt við yður.“

Mér fannst ég kenna munaðargirni í augnaráði Attílu. Honum varð litið á herramennina, sem iðuðu í skinninu og kurraði hljóðlátlega í. Þá varð enn þögn og enn heyrðist aðeins snarkið í kyndlunum.

„Og hvers slags sprund er annars þessi hefðarmær?“ spurði Attíla mig enn frekar.

„Svo er sagt að hún sé ekki með öllum mjalla.“

Og nú brast á með hlátri, hlátri sem raunar gaus upp, líkt og sjálft eldfjallið Vesúvíus væri að verki. Mér varð litið til Kata og furðaði mig á því hvað þeim þætti svo fyndið. Sjálfur var hann viðþolslaus af hlátri en lét á sér skiljast að eg hefði ekki á neinn hátt hlaupið á mig. Alöður konungsson lét skína í allar hvítar tennur sínar, svo kátur var hann. Allir hlógu þeir af svo miklum ofsa að við lá að þeir gengju berserksgang. Attíla einn sat rór og yfirvegaður og glóðu þó í honum augun af meinfýsi.

Hann spurði mig enn nánar:

„Og hvernig er hún útlits — í framan, til dæmis?“

Enn grafarþögn. Aðeins lítilsháttar skríkjur. Varir mínar voru sem límdar saman. Attíla gaut á mig augunum, fullum með djöfullegri kæti.

Guð minn góður! Hverju var ég lentur í? Hverju átti ég að svara? Ég hafði engan tíma til umhugsunar.

„Ég minnist þess eins að hún var áberandi langnefjuð, eins og raunar allir afkomendur Þeódósíusar hins mikla eru, og andlit hennar var eins og visið.“

Enn gaus upp hlátur. Hinn síðhærði Dórog engdist sundur og saman í sæti sínu. Barki frændi Attílu fékk ekki haldið aftur af tárunum sem runnu stór og í stríðum straumum niður vanga hans, og feitur skrokkurinn iðaði í stólnum.

Attíla hallaði sér aftur á bak og brosti sínu tvílráða brosi.

Ég einn var eins og álfur út úr hól og stökk ekki bros.

Ég reyndi að geta mér til um af hverju öll þessi glaðværð og óhemjuskapur stafaði, en án árangurs. Fimmtíu manns hlógu skvaldrandi og ég var engu nær. Að lokum benti Attíla fingri sínum til merkis um þögn og allir hlýddu.

„Piltur minn,“ sagði hann og enn á ný alvarlegur í bragði. „Segðu mér, hvað finnst þeim um mig? Hvað er haft á orði um mig í Rómverska keisaradæminu?“

Þrátt fyrir að hann spyrði fremur alúðlega skalf ég frá hvirfli til ilja. Ég hafði ekki hugmynd um hverju svara skyldi. Ég var sá sem allri glaðværðinni olli og hafði samt ekki hugmynd um hvað á seyði var. En þess var ekki vænst að ég léti Attílu bíða svarsins.

„Við hirðina, herra minn, er litið svo á að þér séuð ljón í mannsmynd, og þá af slíku kyni ljóna sem eins gott sé að fái fylli sína af gulli eigi ekki veröldin að steypast —„

„Ég var ekki að spyrja um hirðina. Ég get nú nokkuð nærri um hvað sá óaldarlýður hugsar um mig. Segðu mér heldur hvaða hugmyndir allur þorri almennings í þessu mikla heimsveldi gerir sér um mig.“

Ég leit á húsbónda minn. Hann bókstaflega geislaði af gleði sem hann virti mig fyrir sér og gaf mér merki um að halda hiklaust áfram talinu, líkt og maður eggjar hund af eintómri hrekkvísi, sem ég og gerði eftir bestu getu.

„Engar fallegar, herra minn.“

„Talaðu skýrar.“

„Það gerir sér slíkar hugmyndir, herra minn ... ég bið yður að afsaka, en það er ekki mitt álit, en þér hafið skipað mér að segja aðeins sannleikann...“

„Aðeins sannleikann!“

„Það gerir sér slíkar hugmyndir um yður, herra, að þér séuð hið hræðilegasta afstyrmi fordæða og norna, eins og raunar allir Húnar; það segir að þér séuð nauðasköllóttur, með greppitrýni eins og svín, lafandi eyru eins og blóðhundur, og getið ekki talað heldur aðeins öskrað eins og...“

Nú kvað við þvílíkur skellihlátur að ég bjóst við því á hverri stundu að ekki aðeins herbergið heldur höllin öll splundraðist í loft upp. Sjálfur gat ég varla á mér setið.

Allir engdust sundur og saman. Eslás ýlfraði og vældi og var orðinn blár í framan. Börkur hló hrossahlátri og það gerði Edékon einnig, og var spurning hvort hann hlægi sig ekki vita máttlausan. Ég hef aldrei á minni lífsfæddri ævi heyrt aðra eins emjan, annan eins rym, annað eins ýlfur og gól. Nokkrir þeirra hnigu niður á gólf og engdust þar í krampaflogum, slík var glaðværðin.

Ég fylgdist með Attílu. Af andliti hans skein sama hverfula brosið og ég hafði veitt athygli áður. Þegar augun ljómuðu af slíkri kátínu var þetta andlit jafn spaugilegt ásýndum og það var allajafna myrkt og haldið ógnvænlegum anda Plútós.

Ég var farinn að óttast að mér hefði hlotnast hlutskipti Tzérkós — nokkuð sem mér hefði þótt lítill vegsauki að, og það þótt aðeins væri ég þræll. En hvað sem því leið gaf Attíla mér merki um að mér væri heimilt að fara.

Húsbóndi minn sneri ekki heim fyrr en undir kvöld. Ég beið hans í dyrunum í þeirri von að hann segði eitthvað, til að ég mætti vera einhverju nær. Ég blygðaðist mín fyrir hve mikla kátínu hreinskilni mín hafði vakið með þeim skrælingjunum. Enn hafði ég ekki minnstu hugmynd um hvað það var sem hafði kitlað svo hláturtaugar þeirra. Ég var því að hugsa um að skreppa yfir til Közu morguninn eftir og biðja hann að útskýra það fyrir mér.

Kati ljómaði ekki síður af gleði en svita þar sem hann kom ríðandi á fáki sínum, skælbrosandi. Hann stökk af baki og klappaði mér um axlirnar.

„Piltur minn, þú stóðst prófið! Í kvöld snæðum við saman! Þú ert þræll, engu að síður snæðum við saman!“

Þetta voru sérréttindi sem engum af þrælum Kata hafði nokkru sinni hlotnast.

Yfir borðum útskýrði hann fyrir konu sinni hve ágæta vel ég hefði staðið mig frammi fyrir Attílu.

„Dögum saman höfum við verið að brjóta heilann um,“ sagði hann, „með hvaða hætti við gætum ögrað Rómverska Keisaradæminu. Við værum farnir að stað fyrir löngu ef þeir hefðu neitað að láta hausinn af Krýsafíusi af hendi. En bleyðurnar létu hann fjúka eins og ekkert væri sjálfsagðara! Fyrir bragðið var Attíla í hreinustu vandræðum með hvað hann gæti þá haft að yfirvarpi fyrir herför á hendur þeim. En svo rifjaðist það upp fyrir honum að fyrir sextán árum hafði einhver prinsessufífla sent honum hring til tákns um heitorð sitt við hann. Hann lét hafa upp á hringnum og sendi eftir Rústa. Rústi las gömlu skjölin sem höfðu fylgt með og komst að raun um að hún hét Honoría, þessi prinsessa. Nú eins og gefur að skilja er hún kristin, sem er ekki beinlínis sami átrúnaður og Attílu; þarna í Rómaveldi er því trúað að Attíla sé djöfullinn holdi klæddur, að hann frýsi og fnæsi og éti hrátt kjöt! En Attíla hyggst sem sagt senda erindreka sína til Rómar á morgun eftir heitmey sinni.“

Loksins rann upp fyrir mér ljós. Hve ógn slægvitrir voru þeir ekki, þessir Húnar! Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds.

„Við höfum hlegið okkur máttlausa yfir þessu í allan dag,“ hélt Kati áfram, „og refurinn hann Edékon spurði án þess að depla auga hvers við mættum vænta — ó, Guð minn góður — ef þeir létu nú enn undan og afhentu prinsessuna! Ó, ef þeir gerðu það nú!“ og Kati skellihló og við ekki litlar undirtektir konu sinnar.

Ég skotraði augum til Móeikar og sá að einnig henni var skemmt.

Og Kati lýsti því í öllum smáatriðum hverju ég hefði svarað Attílu og lagði áherslu á hve vel mér hefði tekist upp og sýnt af mér mikla einurð. — „Hann hlýtur að vera tiginborinn, þessi Grikki!“

Ég sat þögull og álútur út við borðsendann og rétt nartaði í matinn fyrir kurteisissakir. Allan tímann á meðan Kati lauk á mig lofsorði fann ég að augu Móeikar hvíldu á mér.

 

36.

Að þremur dögum liðnum lagði sex manna umboðssveit af stað til Ravennu á fund Valentíníanusar Rómakeisara. Edékon var fyrirliði sveitarinnar sem auk hans var skipuð þeim Kamokka, hinum óstýrláta Madaras, Makka uxaskalla, Beteg og Úpor.

Eitt sinn þegar við Kati riðum út lýsti hann fyrir mér erindi sveitarinnar. Hún átti að koma bréfi til skila, svo hljóðandi:

 

 

Heill þér, Valentíníanus keisari!

 

Mér til mikillar skapraunar hefi ég fregnað að þú haldir heitmey minni, henni Honoríu systur þinni, fanginni.

Ég læt ekki viðgangast að heitmey minni sé haldið bak við lás og slá og krefst þess að þú látir hana lausa án tafar og sendir mér ásamt föðurarfi sínum.

Arfur hennar er helmingur auðsins er Konstantínus skildi eftir sig, og Rómaveldi hálft að auki.

 

Attíla

 

 

Á meðan bréf þetta var á leið til Ravennu komu tvær all sérkennilegar umboðssveitir á fund Attílu.

Önnur þeirra taldi aðeins tvo tröllvaxna náunga, brúna á hörund, skartandi hringjum í eyrum og strútsfjöðrum í höttum sínum. Þétt aðskornar leðurflíkur huldu skrokkana að undanskildum handleggjunum einum. Þeir voru svarteygðir og svo stæðilegir að fótleggirnir minntu einna helst á tröllauknar súlur. Hér voru komnir Vandalar frá Afríku, í umboði Geiseriks konungs. Þeir færðu Attílu fullan kistil af gulldiskum.

Hin sveitin samanstóð af tíu ljóshærðum, bláeygum körlum. Klæði þeirra voru gerð úr mjúku, gulu leðri og höfuðfötin úr rauðu flúneli. Vopn báru þeir á sér silfurslegin og úr stáli og skörtuðu gullsylgjum á brjósti sér. Þetta voru Frankar er áttu sér heimkynni við ána Nekkar. Húnversku konurnar riðu hópum saman að tjöldum þessara gesta og virtu opinmynntar fyrir sér hvíta húð þeirra og hárið sem féll í gullnum lokkum um vanga.

Fyrirliði Frankanna var útlægur prins, mikill fyrir sér og afar glæsilegur álitum. Í hetti sínum bar hann arnarfjöður svo mikla að hún straukst upp undir jafnvel hin hæstu hlið. Hann varð mikill vinur Alöðs, og urðu þeir brátt óaðskiljanlegir.

Erindi beggja sveitanna var að leita ásjár Attílu um hernaðaraðstoð.

Vandalar höfðu fyrrum hreiðrað um sig í skógum Karpatafjalla en um síðir fjölgað svo mjög að þeir máttu leita sér nýrra landa. Þeir flæddu yfir Evrópu suður til Spánar og loks yfir Njörvasund til Afríku þar sem þeir lögðu undir sig Karþagóborg. Síðan höfðu Afríkustrendur verið þeirra heimkynni. Vandalakonungur vildi nú bera undir Attílu þá hugmynd sína að með vori gerðu þeir innrás í Rómaveldi frá tveimur hliðum, hann að sunnan handan um hafið á meðan Attíla herjaði að norðan. Og mundu hittast í Róm.

„Hví skyldi ég bíða til vors?“ hafði Attíla svarað og yppt öxlum, að því er Kati tjáði mér. „Evrópubúar Rómaveldis hafa verið að heyja handa hestum mínum í allt sumar!“

Hann beið þess eins að svar bærist frá Róm.

Og svarið barst. Og því fylgdi ógrynni af perlum ásamt gullofnum skartklæðum, ábreiðum og silki er hann skyldi þiggja að gjöf. En rómverska hirðstjórnin tjáði honum að Honoría væri nú þegar manni gefin.

Attíla lét nú draga hinn rauða fána að húni. Hraðboðar hans kvöddu til heri víðs vegar að úr heimi.

Líf okkar varð ekki samt og áður.

Hvar sem ég fór varð ég vitni að stríðsviðbúnaði. Allir sem vettlingi gátu valdið hófust handa við að fægja og gera við vopn, hvetja sverð og smíða kylfur, flétta bogastrengi, styrkja herklæði með málmflögum, fóðra hjálma og klæða hnakka nýju leðri, og hart var lagt að sér við tjaldgerðina. Sverð- og hnífabrýnslumenn skiptu þúsundum! Og boga- og reiðtygjasmiðir enn þúsundum! Og hvarvetna glumdi í steðjum járnsmiðanna.

Sumarlangt hafði kvenfólkið reykt kjöt af aragrúa nautgripa, svína og sauða og þurrkað ósköpin öll af hnoðdeigi. Núna hökkuðu þær kjötið í smátt og hnýttu deigið í böggla.

Karlarnir æfðu spjótkast jafnvel milli tjaldanna, þjöppuðu saman jarðvegi í litla varða og köstuðu spjótum sínum í þá af svo sem eins og tuttugu til þrjátíu skrefa færi.

Stórir skarar unglinga æfðu sig úti á ökrunum. Horn voru þeytt. Væri merkið langdregið og hnígandi táknaði það undanhald, en væri blásið í tvígang löngum stígandi hljómi var það til tákns um að snúa sér á stökkinu og skjóta.

Þetta var list sem mér ætlaði seint eða aldrei að lærast en var nokkuð sem Húnarnir höfðu vanist frá blautu barnsbeini. Þeir þeystu á slíku harðastökki að var sem ör flygi, sneru sér þá í hnakknum og lögðust á magann og skutu örvum sínum lengst afturundan sér. Og til voru þeir svo kattliðugir að þeir léku sér að því að leggja ör á streng liggjandi útaf á bakinu!

Engir eiginlegir liðsforingjar eru í her Húna, að minnsta kosti ekki í neina líking við þá sem eru í herjum Rómverja; fyrir fara eingöngu herdeildarforingjar sem hafa í þjónustu sinni skutilsveina, hermenn sem ríða hinum fráustu fákum og bera boð þeirra á milli.

Skipan herdeilda tekur mið af fjölskyldum og ættum og kýs hver deild sér sinn fyrirmann eða merkisbera. Táknmerkið er aðeins lituð veifa eða einhvers konar höfuðfat, reyrknippi, sverð, tagl, nautshaus, mánasigð eða eitthvert slíkt auðkenni sem fest er á langt kastspjót.

Komið var haust þegar Alanar birtust í norðrinu. Það var á að líta sem reyrflæmi þokaðist yfir jörð að sjá þá tilsýndar með spjótin sín löngu. Konungur þeirra var þrekvaxinn náungi og leiftruðu í honum augun. Hann var ekkert unglamb lengur en svo sannarlega liðugur sem lamb. Voru menn hans þó ekki beinlínis neinar eftirmyndir hans. Flestir voru þeir hávaxnir og hálslangir og með áberandi hvelfdar augnbrúnir. Þeir stormuðu gegnum borgina með miklum fyrirgangi.

Brátt birtust Núbítar. Dögum saman var þá að drífa að. Þeir voru í úlfsbelgjum. Jafnvel þegar þeir blésu í horn sín líktist hljómurinn ýlfri úlfa. Húnarnir höfðu líka á orði að þeim væri það leikur einn að bregða sér í líki raunverulegra úlfa.

Því næst kom herjans mikið lið hinna villtu og hárprúðu Langbarða, sem notuðu slöngvivaði í stað boga og þá eins og gefur að skilja oddhvassa steina í örva stað. Þeir sungu hástöfum og léku á hljóðpípur.

Á hæla þeirra, og þá var fyrsti snjór fallinn, komu Gelónar, málaðir á hörund, rekandi með sér aragrúa hrossa. Allir voru þeir vopnaðir sigðum og klæddust vestum er gerð voru úr mannshörundi. Rauður og gulur liturinn sem þeir skreyttu sig með í framan var borinn svo ótæpilega á að við gátum ekki að okkur gert að spyrja hvort þeir mundu nú nokkuð þekkja hver annan ef þeir breyttu vígindunum.

Þá þeystu Bastarðar í hlað, austan úr Asíu, á skeiðvögnum er báru þá svo hratt yfir sem logi færi um akur. Þeir höfðu kvenfólk með í för, einnig vopnað, og voru eingöngu yngismeyjar. Bastarðarnir voru með háa strýtta hjálma úr kopar og báru fyrir sig skildi er fléttaðir voru úr reyr. Sverð þeirra voru úr bronsi, mikil á þverveginn og þung í hendi. Örvar þeirra voru eitraðar. Á meðal þeirra sá ég stúlku eina einstaklega fallega sem gældi við tígriskött þar sem hún sat í vagni sínum.

Straumur Akatíranna rénaði ekki fyrr en að tveimur dögum liðnum frá komu hinna fyrstu. Það voru einmitt þeir sem Húnar höfðu sigrað árið áður. Bogar þeirra voru helmingi hærri en þeir sjálfir og til að spenna þá máttu þeir leggjast flatir aftur á bak og spyrna á móti strengnum með fótunum. Þetta voru gerðarlegir menn, brúnir á hörund en með áberandi lágsett enni.

Þá komu hinir fráneygu Rygjar, sem flestir voru rauðhærðir og riðu apalrauðum hestum. Þeir voru búnir síðum stökkum sem einnig voru rauðir, blóðrauðir. Helsta vopn þeirra var tvíeggja öxi sem þeir hittu auðveldlega í mark með af tuttugu til þrjátíu skrefa færi. Venjulega miðuðu þeir á hausinn á hesti óvinarins og þegar hesturinn var fallinn bundu þeir endahnút á tilveru knapans með löngu spjóti sínu.

Því næst komu Skírar, sem voru ljósir á hörund, grannvaxnir en stórbeinóttir. Einnig þeir voru vopnaðir tvíeggja öxum, gleiðum tólum er héngu niður úr hnökkum þeirra, og voru bogar þeirrar slíkrar gerðar að álmurnar voru tvær er bentu gegnt hvor annarri, líkt og axareggjarnar á sinn hátt. Engar konur höfðu þeir með sér.

Túngassar komu gangandi á sínum tveimur jafnskjótu, með sína kringlóttu skildi og stuttu sverð. Jafnvel daginn eftir að þeir voru farnir hjá var laukanganin sem af þeim lagði enn í vitum manns. Sverðin þeirra voru úr fægðum kopar. Þau voru mikið augnayndi. Það orð fór af þeim að þeir legðu aldrei til orrustu fyrr en Húnarnir hefðu ráðist gegn óvininum á reiðskjótum sínum.

Þá komu Herúlar, heimsins fráustu knapar. Þeir sýndu engum miskunn en kröfðust heldur engrar sjálfum sér. Þeir riðu undir gunnfána er settur var hauskúpuvígindum.

Að vestan kom lið Kvada, sem voru háir í loftinu, brúnaþungir og bogskyttur miklar. Bogar þeirra voru svo öflugir að þeir léku sér að því að skjóta örvum gegnum hin sverustu tré. Þeir voru klæddir loðskinni, en af hvaða tagi er ekki gott að ímynda sér, því lyktin af þeim var stækari en af sjálfum skrattanum, trúi ég.

Strax á hæla þeirra komu hinir bláeygu og nefstóru Sváfar, búnir herðabrynjum úr kopar og vopnaðir gaddaólkylfum sem vel mátti ganga af hestum dauðum með. Þeir töldu aðeins nokkur þúsund. Að því er þeir sögðu mundu hinir, sem enn sátu heima, ekki leggja af stað fyrr en með vorinu.

Þá komu hinar ýmsu minniháttar kynkvíslir og þjóðflokkar eða leifar deyjandi þjóða eða sem lent höfðu á tvístringi — komu að sunnan, komu að norðan, og úr austrinu og úr vestrinu. Knapar á fákum sínum, fótgönguliðar, létt kerrueyki, þunglamaleg flutningaeyki, öllu ægði saman og hófadynurinn klingdi í eyrum er fylkingarnar fóru hjá. Því sem næst undantekningarlaust voru guðirnir með í för, líkamnaðir í stein, trjávið, gull eða eir — og allir á að líta sem af hinni sömu ófagnaðarætt skrattans. Undir suma var lagður sérstakur vagn, aðrir voru á stöngum, en með alla var farið af sömu nærgætnislegu auðmýkt og lotningu. Þannig rak hverja fylkinguna eftir aðra gegnum borgina þangað sem búðir voru upp settar, hver við hlið annarrar.

Dögum og og vikum saman streymdu herirnir að undir margradda klið horna og hljóðpípna, að ógleymdum linnulausum hófadyninum og slætti trumbuslagaranna. Höfðingjar herjanna rétt hittu Attílu að máli og létu vita af komu sinni, tóku við skipunum hans og hurfu aftur til manna sinna.

Það var um jólin sem Austgotar birtust. Þeir komu fótgangandi. Þeir voru í hnéháum stígvélum og fyrir hjálma höfðu þeir höfuðskeljar dýra eins og þær lögðu sig með hári, hornum og kollhúfum. Þeir voru vopnaðir korðum, lagvopni með löngu og mjóu blaði. Bræður þrír fóru fyrir þeim, þeir prinsarnir Valdimar, Þjóðmar og Víðmar.

Gotar voru ógnvænlega fjölmenn þjóð. Hjarðir þeirra höfðu rekist um álfuna þvera allt frá Volgu til Eystrasalts. En þá komu Húnar undir forystu Balambérs sem klauf þetta sterka fólk í tvær fylkingar; önnur þeirra mátti hörfa inn í Gallíu og fékk viðurnefnið Vestgotar, hin lét lúta í lægra haldi fyrir Húnum og fékk viðurnefnið Austgotar.

Flóð Austgotanna rénaði ekki fyrr en að fjórum dögum liðnum.

Á hæla þeirra komu Gefðar, en konungur þeirra, Arðrekur, hélt sig við hirð Attílu nær stöðugt. Gefðarnir, sem einnig voru fótgönguliðar og glitruðu af gulli og kopar, héldu syngjandi gegnum borgina.

Næstir komu Saragúrar, sem höfðu pils um sig miðja og töluðu sömu tungu og Húnar og voru ekki ólíkir þeim í útliti, þreknir og hálsstuttir. Spjót þeirra voru unnin úr dýrshornum. Sér til fylgdar höfðu þeir vopnaðar konur sem tóku lagið svo unun var á að hlýða, og þær voru svo vel vaxnar að minntu helst á hlébarða, en til augnanna voru þær líkari köttum. Skildir Saragúranna voru gerðir úr fuglshömum, hömum trana, en hjálmarnir úr tré. Þeir drukku blóð eins og vín, og lagði af þeim sterka angan af skinnum dýra, eins og reyndar var farið með flesta gesta okkar.

Þá komu frændur þeira Saragúra, Roxólanar, sem höfðu á að skipa knöpum afar bogfimum, eins og frændþjóðin einnig. Við hvern hnakk hékk hauskúpa í reipi eða leðuról — það voru drykkjarílát þeirra. Fjölskyldur sínar höfðu þeir með sér, enda eiga þeir sér hvergi heimili nema einmitt á þeim stað sem þeir slá upp tjöldum hverju sinni. Brosmildar konurnar gægðust forvitnar út úr vögnum þeirra, sem voru vel rúmgóðir og tjaldaðir yfir með húðum, en börnin fóru ríðandi samsíða þeim. Það tók hersinguna viku að fara hjá.

Því næst voru það Jazýgar sem flykktust gegnum borgina. Reyndar voru þeir af stofni Alana en höfðu endur fyrir löngu mátt gangast á vald og nú samlagast Húnum, og nú skildi ekkert lengur með þeim annað en klæðaburðurinn. Í orrustum voru þeir búnir brynjum er gerðar voru úr beinflögum telgdum úr beinleggjum, og með svipuðum hætti voru stríðsfákarnir brynjaðir flögum frá faxi niður undir hófskegg. Þó að menn þessir líktust einna helst fiskum komnir í hertygi sín, þá voru þeir engu að síður hinir myndarlegustu — jarphærðir, hávaxnir og kraftalega vaxnir, hver og einn einasti. Þeir eru snjöllustu bogskyttur hér í heimi.

Loks voru það sjálfir Húnarnir sem tóku að flykkjast að — Blakkhúnar og Hvíthúnar, sem aftur skiptust í Húngúra, Húngara og Magýjara. Núna varð mér ljóst að Hvíthúnar eru ekki svo nefndir vegna klæðaburðarins eins, heldur einnig af því að þeir eru ljósari jafnt á hörund sem hár. Fyrri kona Kata hlýtur að hafa verið Húngúri, því vissulega var Móeik með kastaníubrúnt hár. Ó, engillinn minn, hvar er nú hulið yndislega hárið þitt...

Húngúrarnir voru allir vopnaðir tveimur sverðum — eineggjuðu sér á hægri hönd, saxi, og tvíeggjuðu á þá vinstri. Ég veitti því athygli að þeir voru margir með kastlykkju hangandi í hnakknum; það var reipi fléttað úr dýrshárum sem þeir köstuðu með opinni lykkju yfir um andstæðing á flótta, og snöruðu hann af hesti sínum. Húngúrana dreif að undir fjörugum söng og hljóðfæraleik, líkt og þeir væru á leið til brúðkaups.

Á eftir vögnum Magýjaranna, sem voru hlaðnir vistum, höfrum og heyi, fylgdu Úgúrar sem voru fótgangandi. Þeir lifðu á fiskveiðum og féll betur að gæta búða en taka þátt í bardaga. En hvenær sem farið var með vötnum voru þeir líka að bragði teknir til við veiðarnar og léku sér að því að metta þennan milljón maga her!

Liðssafnaður Húnanna tók ekki enda fyrr en undir lok janúarmánaðar. Hver óbreyttur Húni hafði tvo til reiðar. Herdeildarforingjar og skutilsveinar höfðu þrjá, en aftur komu höfðingjar og prinsar þeysandi í hlað með hálfan og upp í heilan tug lausbeislaðra. Og hve óviðjafnanlegir gæðingar það voru!

Það tók tímann sinn að kasta tölu á þetta ógrynni liðs. Tíu þúsund hér, tuttugu þúsund þar, Jazýgarnir einir töldu um fimmtíu þúsund, Gefðarnir áttatíu þúsund, Gotarnir ein sextíu. Við vorum að minnsta kosti heila viku að telja þá og létum þó gott heita að fá upplýsingar um hjá hverjum foringja fyrir sig hve mörgum hann færi fyrir.

Þegar við vorum komnir í hálfa milljón hættum við. Enn þann dag í dag hef ég ekki hugmynd um hve margt manna var þarna samankomið í raun og veru, því að auk allra þeirra sem voru taldir var óhætt að bæta við hundruðum þúsunda þar sem var fylgdarlið hermannanna. Hrossin hljóta að hafa verið á aðra milljón og vagnar og kerrur skipt þúsundum.

Allur þessi mikli fjöldi hafði þó ekki hugmynd um hvert ferðinni var heitið.

Það hefur ef til vill verið hinn fyrsta dag febrúarmánaðar sem grýlukertin á ufsum húsanna máttu lúta lægra haldi fyrir sólargeislunum og tóku að drjúpa. Síðdegis þann dag reið Attíla frá höllinni ásamt hershöfðingjum sínum og hirðmönnum og bjó hinn óvíga her til brottfarar.

Á meðan því fór fram var tjald hans sett á vagna fyrir framan höllina, og voru þeir ekki færri en tuttugu og tveir vagnarnir undir það tjald eitt. Annað tjald minna sem einnig heyrði honum til var sett á stakan, hjólstóran vagn, gulli sleginn. Til þess skyldi grípa á minni háttar áningarstöðum og þegar aðeins yrði tjaldað til einnar nætur.

Um nóttina féll hitinn enn niður fyrir frostmark. Stjörnubjart var og hvergi skýhnoðri á himni. Og sem nú sólin var gengin undir birtist ólýsanlega björt halastjarna í austrinu. Við virtum hana fyrir okkur með óttablandinni lotningu. Fyrst var hún líkust hveitiknippi, en eftir því sem halinn mjókkaði breytti hún um mynd. Þá var sem sverð væri á lofti — sverð Húna.

 

37.

Morguninn eftir fór Káson, lúðurblásari konungs, upp í hæsta hallarturninn og tók að þeyta gjallarhorn sitt, sem var gert úr gríðarinnar fílstönn. Blásið var til brottfarar. Herhvötin ómaði um alla borg. Það var sem þúsundir horna hefðu vaknað af dvala og tóku nú undir hvert með öðru ásamt mergð hljóðpípna. Alls staðar hljómaði sami hergöngumarsinn, og var sem himinn og jörð endurómuðu kallinu.

Um þvera og endilanga borg tóku hermenn að skipa sér í fylkingar. Reykhnoðrar liðu til himins upp frá hverri búð og hverju bóli eins og til tákns um að nú væri neytt hins síðasta morgunverðar. Ég sá að margar konur úthelltu tárum.

Við eins og aðrir höfðum búið um tjaldfarangur okkar undanfarna daga og var hann tilbúinn til flutnings úti í garðinum. Tjaldið var ferningslaga, mikið um sig og sterkt, úr leðri og fóðrað með rauðum flóka. Á hliðum þess voru vængflipar sem mátti slá út til að þeir mynduðu minni tjöld, sem voru ætluð sem svefnskýli handa okkur þjónunum — mér, Karakka, Sabólikka eyrnastóra, Ladó og Bakzoni.

Með tjaldinu var einnig búið um hengirúm húsbóndans og borð og stóla sem hægt var að brjóta saman. Í kistlum voru tvenn hertygi, stálbrynjur með öllu sem þeim heyrði til, og fimm mismunandi herklæði úr leðri — ein til nota að vetrarlagi, önnur að sumarlagi, enn ein sem voru regnklæði og önnur til nota í miklum hita, og loks ein gerð úr húð af vatnahesti og voru þau fagurlega skorin gegn með blómamynstri. Þá voru í farteskinu allra handa vopn og verjur, soðkatlar, pottar og pönnur og drykkjarílát, að ógleymdum einum fimm þúsundum örva sem húsbóndinn ætlaði sér einum.

Það var frost og heystakkarnir hrímgaðir eftir nóttina. Himinninn var heiður og blár.

„Vitar á gott,“ höfðu menn á orði, „að leggja af stað í sólskini.“

Þegar merki var gefið með hornablæstri var nú lagt á hestana og beisli gerð klár. Þegar húsbóndi minn var albúinn til ferðar gerði hann boð eftir mér og lét mér í té tvö sverð, kastspjót og boga, og loks herklæði úr svínsleðri. Að framan um bringuna voru þau ofin fíngerðu víravirki.

Kati faðmaði að sér konu sína og kyssti margsinnis, og síðan dótturina, drengina tvo og tengdaföðurinn.

Einnig hann hafði orð á heiðríkjunni — „Það vitar á gott.“

En bætti við: „Reyndar lofuðu draumar mínir engu sérlega góðu ... en hvað eins og sé að marka draumarugl!“

Ég kvaddi einnig fólkið og kyssti á hönd þess, konunnar hans og Barákons tengdaföður hans, og þegar komið var að Móeik flutu augu mín í tárum. Hún rétti mér hönd sína hæglátlega, ég laut að henni og kyssti. Og ég fann að hún þrýsti mína.

Það ætlaði að vefjast fyrir Kata að kasta á þau síðustu kveðju.

„Þessi fjárans draumur! En hvað eins og sé að marka hann? Draumar eru rugl!“

Og enn tvísté hann í dyrunum. „Gullkeðjan mín, sú með stóru hlekkjunum þú veist...“ sagði hann við konu sína, „...eða þá tínir til einhverja peninga ... tíu gullpeningar ættu að nægja.“

Konan brast í grát.

Við Móeik vorum ein eftir í herberginu, stóðum þar úti á miðju gólfi.

„Segðu mér aðeins, hvers vegna snerir þú til baka? Það var ills viti.“

„Ef ég sný enn til baka,“ svaraði ég henni lágum rómi, „og öðlast sama sess og Frjálsi Grikki ávann sér, get ég þá vænst ... að þú viljir ... blanda við mig geði, fúslega?...“

Hún horfði á mig þögul, sorgbitnum augum.

„Jafnvel þó að ég eigi eftir að sjá þig hér aftur,“ sagði hún loks, „þá get ég engu lofað þér, Zeta. Þú ert vænsti piltur, en þú stendur mér svo fjarri núna ... og munt ætíð gera... En ef þú snýrð ekki til baka ... ef þú snýrð ekki til baka...“

„Ég er tilbúinn að deyja þín vegna, og þá verður öllu lokið.“

„Svo kann að vera,“ sagði hún og var hugsi, steig þá fast upp að mér: „Þú mátt kyssa mig á kinnina.“

Má vera að hún hafi ekki ætlast til að ég snerti hana, nema rétt með kossi á kinnina, en ósjálfrátt tók ég hana í faðminn og þrýsti laust að mér. Augnablik hvíldi höfuð hennar við brjóst mitt og mér fannst ég heyra hennar eigið hjarta slá. Ég hélt henni í faðmi mér og þrýsti vörum að mjúkum vanga hennar; hún lokaði augum og kyrrlát endurgalt hún kossinn.

Ég gat ekki stunið upp einu orði utan ég tautaði: „Liljan mín ... ódáinsliljan mín!“

Því að það var hún — eins og ódáinslilja að vori, blíðan holdi klædd ... hið ljósa man ... ljóð ljóða.

Þungt fótatak Kata í næsta herbergi rauf kyrrðina. Við skildumst að. Móeik strauk fingrum gegnum hár sitt. Augu hennar voru lygn eins og tjarnir á heiði.

Hve skjótt hún hafði varpað yfir sig huliðshjálminum!

Þegar við komum út hafði vagninum með rauða tjaldinu þá þegar verið ekið út úr garðinum og höfðu þjónarnir stillt sér upp í samfellda röð frá dyrum allt að gáttum hliðanna.

„Megi Guð fljótt leiða þig heim!“

Við hliðin stóð Djídjía og flóði í tárum. Einnig hún kyssti á hönd húsbóndans. Og óðara en ég vissi af hafði hún kastað sér fang mér og vafði mig örmum og kyssti svo að ég varð allur löðrandi í tárum hennar.

„Guð veri með þér! Englar himinsins verndi þig!“

Undir öðrum kringumstæðum hefði ég gefið henni utanundir, en ég mátti kyngja reiði minni og hraðaði mér á eftir húsbóndanum.

Sólin var þá þegar tekin að feta sig upp á himininn. Þegar við komum út fyrir borgina gerði reyk mikinn sem þyrlaðist upp í hnoðra á himninum. Fræðararnir voru að fórna hvítum hesti og kyrjuðu þulur sínar í gríð og erg. Öldungurinn Kama stóð við bálið og hélt blóðugum brandi uppréttum í hendi sér, sneri sér svo mót Attílu og lagði blessun sína yfir hann, starandi sínum blindu augum til himins.

Um leið gerði hvin mikinn og sverð, þúsundum saman, voru á lofti. Og þeir er á héldu sneru bröndum til himins og ákölluðu Guð:

„Guð! Guð! Guð!“

Og við héldum af stað, vestur á bóginn.

 

38.

Helmingur heraflans hélt yfir á hinn bakka Dónár og dreifði þar úr sér. Þannig héldum við upp með elfurinni miklu í tveimur fylkingum, fyrst til norðurs þá í vestur. Attíla leiddi herinn á syðri bakkanum en yfirhershöfðinginn, bróðir Kata, þann er nyrðri leiðina fór.

Húsbóndi minn fylgdi liði Attílu. Það var ekki fyrr en um vorið sem herfylkingarnar tvær komu saman á ný þar sem Dóná á upptök sín í villtu skóglendi. Og vorum við þó enn á leið um lönd Attílu, því að yfirráðasvæði hans náði allt frá Volgu vestur að Rín. Jafnvel Attíla sjálfur þekkti ekki öll lönd sín, fólkið sem byggði þau eða hina ýmsu kónga og voru þessar óendanlegu víðáttur þó allar hans.

Morgun einn reið ég í fylgd með tveimur af skrifurum Attílu, Manga-Sag og Kíkí. Þeir tveir voru ávallt fúsir til að spjalla við mig og það þótt ég væri einungis þjónn, og ég var glaður yfir að fá tækifæri til að hrista af mér ferðadrungann. Mangi-Sag var fjörtíu og fimm ára, skeggjaður, sköllóttur og rauðeygður. Hann var af bálki Hvíthúna. Kíkí var einnig Hvíthúni og var á aldur við mig. Hann var rangeygður. Sem barn hafði hann verið tekinn höndum af Rómverjum og höfðu þeir kennt honum að skrifa.

„Segið mér eitt, herrar mínir,“ mælti ég, „hvers vegna tekur Attíla ekki strikið beint til Rómar?“

„Af því að hann veit lengra nefi sínu,“ svaraði Mangi-Sag og drap tittlinga. Hann glotti þegar hann sá að ég var ekki vel með á nótunum. „Ég á við,“ sagði hann, „heimsmálin eru einum of flókin fyrir okkar skilning. Að minnsta kosti botna ég lítið í þeim.“

„Hefur þú þá nokkra hugmynd um hvort Attíla gerir rétt í því að stefna vestur á bóginn?“

„Hingað til hefur Attíla ætíð haft rétt fyrir sér. Því er það, að þó að hann aðhafist eitthvað sem er ofvaxið okkar skilningi, þá má ganga að því vísu að hann gerir hið eina rétta.“

„Komast ekki prestar einmitt svo að orði um Guð?“

„Einmitt! Enda er hann Guð — Guð á jörðu hér. Hann býður aldrei lægri hlut í orrustu, og hann er vort einingartákn!“

„Hann er vissulega meira en maður af holdi og blóði,“ sagði Kíkí og var mikið niðri fyrir, „hann er guðdómleikinn holdi klæddur!“

Ég yppti öxlum.

„Efastu um mikilleika hans?“

„Attílu? Alls ekki! En helgramannasagnir greina aðeins frá geislabaugum látinna hetja.“

Mangi-Sag tók aftur til máls: „Ég hugsa að Attíla stefni í vestur af því að þar eru landamæri Rómaveldis. Íbúar Evrópu eru mestmegnis littlar ættkvíslir og flestir hirðingjar og munu því trúlega fylkja sér undir merki okkar. Geri þeir það ekki, verða þeir neyddir til þess; verði þeir með uppsteyt fá þeir að kenna á svipunni. Þannig eflumst við líkt og snjóbolti er hleður stöðugt utan á sig. Og þegar herinn verður orðinn svo ógn öflugur sem frekast má verða, snúum við suður á bóginn og göngum í skrokk á Hinu volduga rómverska heimsveldi.“

„Og það verður jarðarför!“ sagði Kíkí með eld í augum. „Það verður hin stórbrotnasta jarðarför sem mannkyn hefur nokkru sinni upplifað!“

„Jarðarför menningarinnar?“ muldraði ég. Hrollur fór um mig.

„Endurfæðing!“ sagði Mangi-Sag, alvarlegur í bragði. „Líttu á þessa iðagrænu bletti sem eru svo víðs vegar hér um grundirnar. Þar voru tjaldbúðir sem hafa verið brenndar til ösku. Þegar eldurinn deyr verður ekkert eftir nema sótsvart sárið — þangað til að vori að þar kviknar nýtt líf!“

Hann reið áfram í djúpum þönkum og þögull. Kíkí muldraði:

„Aðeins að Aëtíus væri ekki til staðar! Ég mundi ekki vilja standa frammi fyrir honum ... ef hann vogar sér að rísa gegn okkur...“

„Jafnvel hann gæti ekki veitt Attílu viðnám,“ sagði ég. Hjartað ólmaðist í brjósti mér.

„Engu að síður, þá er eins gott að gæta sín á honum! Hann sem var æskuvinur Attílu — þeir héldu Attílu í gíslingu þegar hann var lítill drengur, veist það? Og það sama átti fyrir Aëtíusi að liggja hjá Húnum nokkrum árum seinna þegar þeir tóku hann fyrir gísl. Þeir eyddu því æskuárunum saman. Hvort Aëtíus þekkir ekki öll brögðin okkar Húnanna! Hann sem meira að segja fór fyrir liði okkar í orrustu — og hafði sigur!“

Kati reið skammt framundan okkur og varð litið aftur. Ég hvatti klárinn en hann gaf mér merki um að vera rólegur og hægði þess í stað á sínum þangað til við höfðum riðið hann uppi.

„Hvað spjallið þið saman um?“

Kíkí reifaði málið í fáeinum orðum.

„Þið getið nærri,“ sagði Kati. „Það er einmitt markmið Attílu að þeir fylki sér undir merki okkar Germanarnir — Kvadarnir, Sváfarnir, Frankarnir, Búrgundarnir og hvað þeir nú heita allir saman. En öllum öðrum fremur hyggst hann beygja undir sig Vestgotana. Sýni þeir einhvern mótþróa, hvort þeir fá þá ekki að súpa seyðið, hundarnir! Þeir eru þjóð sem um munar — stór þjóð og sterk. Og gleymum ekki hinum helmingi Alananna eða Frankanna. Gangi þessar hersingar þrjár ekki til liðs við okkur en taki heldur saman við rómverska herinn, þá gæti Aëtíus hugsanlega staðið upp í hárinu á okkur.“

„Í hárinu á okkur?“ hváði ég í forundran. „Í öllum þessum sæg af fólki! Herra minn, ég hefði nú haldið að þótt allir jarðarbúar stæðu upp í hárinu á okkur, allir með tölu, ásamt öllum þeim sem til moldar hafa verið bornir frá örófi alda en væru nú stignir upp úr gröfum sínum til þess eins að standa upp í hárinu á okkur; jafnvel þótt svo væri komið, held ég samt, að þessi her okkar yrði aldrei að eilífu sigraður.“

Kati klóraði sér í höfðinu og var augsýnilega skemmt.

„Þetta verður Attíla að fá að heyra,“ sagði hann og leit á mig fullur velþóknunar. „„Þótt allir jarðarbúar...“ Hvernig orðaðir þú það?“ Hann hló með sjálfum sér og þeysti á braut.

Rústi, holdgranni skrifarinn sá freknótti, og sá sem var yfir hinum, reið upp að okkur.

„Hvað varstu að segja Kata?“ spurði hann forvitnislegum rómi.

Kíkí sagði honum allt af létta.

Rústi hlustaði með ákefð, en eftir því að dæma hvernig hann brosti virtist honum þykja súrt í brotið.

„Herra minn,“ sagði ég og lét eggjast af brosinu. „Ef þessi Aëtíus getur orðið okkur svo skeinuhættur sem af er látið, hefði þá ekki verið hyggilegra að gera Rómverjum boð um að við hygðumst ekki fara gegn þeim heldur einhverjum öðrum, í stað þess að lýsa stríði á hendur þeim umbúðalaust? Eða hefði ekki Aëtíus þá haldið sig heima?“

„Gott að vera vitur eftir á,“ svaraði Rústi. „Eða heldur þú að Attíla hafi ekki hugsað fyrir þessu?“

„Leitt að hann skyldi ekki gera það í tíma.“

„Það er nú einmitt það sem hann gerði! Áður en við héldum af stað var Rómverjum gert boð um að við hygðumst ekki gera á hlut þeirra heldur ætluðum okkur að berja á Vestgotunum. Ég reit orðsendinguna sjálfur og hún er ekkert leyndarmál. Vestgotar eru með réttu þegnar Attílu en þeir neituðu að gjalda skatt og flúðu til Gallíu þar sem þeir settust að. Og nú skulu þeir fá að komast að því fullkeyptu. Nokkuð sem þeir í Róm skilja mætavel.“

„En hvers vegna grípur Aëtíus þá til vopna?“

Rústi brosti.

„Hvers vegna? Vegna þess að þeir eru ekki algjörir þöngulhausar. Attíla þarf ekki nema rétt að ræskja sig til að þeir skríði undir skildi sína af ótta við að hann taki að spúa eldi og brennisteini.“

„Og ef við nú sigrum Aëtíus, hvað þá?“

„Þá tökum við stefnuna á Róm.“

„Og að Róm unninni?“

„Á Miklagarð.“

„Og leggjum svo allan heiminn að fótum okkar?“

„Nei, ekki allan. Við reisum nýtt ríki, okkar ríki, á rústum hins gamla heimsveldis, og látum ekki syngja í sverðum nema yfir hausamótunum á þeim sem neita að gjalda okkur skatt.“

„Og þú trúir því að Attíla muni varðveita friðinn? Ef ljón legði eið að því að éta aðeins gras og ekkert nema gras, tækir þú eiðinn gildan?“

„Þú hefur rangt fyrir þér ef þú heldur að Attílu þyrsti í blóð. Eða minnistu ekki þess þegar erindrekar okkar sóttu Þeódósíus heim fyrir rúmu ári til viðræðna um verslun og viðskipti í Dónárlöndum?“

„Ekki reyna að telja mér trú um að Attíla taki sér nokkurn tímann fasta bólsetu! Hann verður ekki lengi í Tísjuárhéruðum.“

„Það verður hann nú samt! Hann mun aldrei kæra sig um að búa í neinni keisarahöll. Og jafnvel þótt hann lengdi í einhverjar slíkar marmarahallir, þá myndi hann láta flytja þær stein fyrir stein að Tísjuá.“

„Ég leyfi mér nú að efast um það.“

„Sjáðu til! Við Húnar eirum hvergi nema þar sem gott er haglendi. Og hvergi í víðri veröld eru hagar grösugri og víðfeðmari en einmitt í Dónárlöndum og héruðum Tísjuár.“

Við urðum að fella talið því að nú gaf Hargíta Rústa merki um að finna sig. Hargíta, einn af tignarmönnunum, var maður um fimmtugt og leit hann alltaf út fyrir að vera í illu skapi þótt svo væri raunar ekki. Það var eitthvað í augum hans sem hafði þau áhrif og villti um fyrir manni.

Við Kíkí göltruðum áfram þögulir hlið við hlið. Ég heyrði að hann dæsti þunglega.

„Hvert var þessu andvarpi ætlað að rata?“ spurði ég í spaugi.

Hann brosti. „Það skal ég segja þér,“ sagði hann. „Af því að þú þekkir hana. Hún er yndisleg og með töfrandi augu. Það er hennar vegna sem ég fer í stríðið; þeir skulu fá að skrá að minnsta kosti tíu sem ég hef sigrað.“

Óhugnanlegt hugboð laust mig og mér varð tregt um tungu.

„Hver er stúlkan?“

„Þú þekkir hana. Hvort þú ekki gerir! Og hvort ég hef ekki öfundað þig af því að eiga heima þar!“

„Áttu við Djídjíu?“

„Biddu fyrir þér! Hún sem er aðeins krakkaskinn. Þú heldur þó ekki að ég leggi líf mitt í sölurnar fyrir einhverja tötrughypju!“

„Þá Móeik?“

Enn þann dag í dag undrast ég að ég skuli hafa getað nefnt hana á nafn eins og ekkert hefði í skorist og vera þó á barmi dýpstu örvæntingar.

„Þú átt kollgátuna, ég á við hana,“ svaraði hann mjúklátri röddu.

Ég náfölnaði og dirfðist ekki að líta hann augum. Innra með mér blossaði upp heiftúðugt hatur og ég læsti fingrum um rýtinginn minn. Ég skyldi drepa hann! Ég skyldi drepa þetta skjálgeyga svín!

En lét það ógert. Þvert á móti brosti ég við honum og gaf honum klapp á öxlina með keyrinu mínu, sem ég mælti:

„Heyrðu, gölturinn þinn! Hvaðan kemur þér leyfi til að gefa svo göfugum hefðarmeyjum hýrt auga? Þú sem hefur ekki einu sinni yrt á hana, eða ekki geri ég ráð fyrir því...“

„Ég get að vísu varla sagt það,“ svaraði hann drýldinn. „Það er heldur enginn hægðarleikur fyrir náunga eins og okkur að koma sér í mjúkinn hjá yngismeyjum eins og henni. En það er nú samt svo, að við heyjum stríð þeirra vegna — til að hver og einn geti sýnt hvað í sér búi. Og Húnar meta mann ekki að verðleikum eftir ættgöfgi. Og gleymdu því ekki, þegar á hólminn kemur, að leggja þig eftir hausunum á fjandmönnunum, að sníða þá af þeim sem þú drepur og hengja við hnakkinn þinn. Þú þarft ekki einu sinni að sýna þá skrásetjurunum, nægir að þú sýnir húsbóndanum hausana; því að sjái tignarmaður hvað þú hefur afrekað, þá kemst það til skila; þú mátt treysta því.“

Mér var þetta allt fullkunnugt en lofaði honum að þvaðra. Mér gafst á meðan tóm til að stappa í mig stálinu.

„Og hefur hún svarað þér einhverju?“ spurði ég áræðnari og klappaði hestinum um makkann svo kæruleysislega sem mér var unnt.

„Hefur hún? Vitanlega!“ svaraði hann og lét sér hvergi bregða. Ég greindi það á röddinni að hann var að ljúga.

„Og hvert var nú upphafið að öllu saman?“ spurði ég og hélt áfram að skyggna hug hans.

„Upphafið? Ef ég á að segja eins og er þá veit ég það varla. Við urðum ástfangin án þess einu sinni að skiptast á orðum. Konur eru þannig, hafa svo mikið innsæi; með auglitinu einu saman geta þær lesið úr augnaráði manns allar leyndustu hugsanir.“

„En hvenær töluðuð þið fyrst saman?“

„Fyrst? Í dyngju Eikku drottningar. Rómverskur kristalssali var þar að bjóða vöru sína og það vantaði túlk, svo að Attíla lét senda mig yfir.“

„Það var þá þar sem þið hittust?“

„Einmitt. Þetta var eftir sólarlag og því varð úr að við Alöður prins fylgdum Móeik heim. En Alöður fékk hiksta á leiðinni og varð svo miður sín frammi fyrir yngismeynni að hann sneri til baka. Nú, og svo í skugganum af höllinni —“

„Já, í skugganum?“

„Já, í skugganum — í ljósaskiptunum, þú skilur ... þá ræddum við Móeik ýmislegt...“

„Ýmislegt hvað?“

„Ja, okkar leyndustu hugsanir.“

„Leyndustu hugsanir? Hverjar þá?“

„Nú — að við elskuðum hvort annað.“

„Að þið elskuðuð hvort annað? Hm. Var það svona auðvelt?“

„Vissulega. Hún talaði fyrst. Sagði við mig: „Loksins get ég talað við þig, Kíkí. Ég hef svo lengi fellt hug til þín. Farðu og sýndu að þú sért hetja, næst þegar verður barist. Þú veist hvernig herfanginu er skipt eftir því hve marga hver drepur. Þú gætir vel orðið einn af hirðmönnum Attílu ef þú stendur þig. Og síðan...““

Ég gerði mér upp hósta til að dylja hve mig setti rauðan.

„En Alöður prins?“ spurði ég milli hóstakastanna. „Hafði hann ekki verið að stíga í vænginn við hana?“

Kíkí yppti öxlum.

„Get ég að því gert þó að hún taki mig fram yfir?“ svaraði hann og ekki svo lítið státinn.

„Hafið þið hist oft síðan?“

„Oft og mörgum sinnum. En aðeins á leiðinni heim til hennar.“

Við komum fram á hæðarbrún og við okkur blasti dalur þar sem var fjöldi þorpa og bæja. Kíkí lét heillast af útsýninu en ég, bitur í lund og þungbúinn, hélt mig að baki hans.

Ég vissi að hann laug. Móeik fór aldrei neitt einsömul og var ævinlega komin heim fyrir sólarlag. En ... ef aðeins eitt lítið sannleikskorn fyrirfyndist í frásögn hans ... ef aðeins það eitt, að Móeik hefði gefið honum hýrt auga, þá...

Kíkí skyldi ekki snúa lifandi heim!

 

39.

Á meðan á ferðinni stóð sá ég yfirleitt djarfa fyrir leiðarstjörnu vorri, Attílu, um hálft skeiðrúm vegar framundan.

Með honum riðu tveir eldri synir hans, Alöður og Ellak, og frankverski prinsinn, vinur Alöðs, auk læknis nokkurs, Eudoxíusar að nafni, sem um haustið hafði flúið frá rómversku hirðinni og leitað hælis hjá okkur. Aðrar skært blikandi stjörnur voru Valdimar, sá er var gotnesku prinsanna framastur, og Arðrekur kóngur; þá kóngur Alana og kóngur Akatíra, en sem urðu þó fremur að teljast heldur dauft blikandi fylgihnettir og varð öllu heldur jafnað til tólgartýru af kolu. Af hirðmönnum Húna voru í forustunni þeir Edékon, Kati, Órusti, Börkur, Úpor, Vákur og Balan. (Aðrir þeirra fyrirmanna og höfðingja fóru fyrir hinum ýmsu herdeildum fylkinganna tveggja.) Einnig voru þeir Íddar höfuðklerkur og Zóbókan í forustusveitinni okkar megin. Tvær kvenna Attílu fylgdu sveitinni í vagni bólstruðum silki og skarlati og var vagninn ævinlega umkringdur allra handa þjónum, og mátti á meðal þeirra oft sjá hirðfíflinu Tzérkó bregða fyrir.

Í halarófu í kjölfar hins tigna stjörnuliðs komu þjónar herramannanna, skrifararnir fremstir — þeir sem enn voru ófrjálsir menn — og síðan kokkar og hestasveinar og annað þjónustulið. Húsbóndi minn hafði tvo hestasveina, einn skjaldsvein, og skósvein. Við þjónar hans komum hvergi nærri eldamennsku. Þegar áð var sátu um fjörtíu til fimmtíu manns við borð Attílu og að baki hverjum stóð þjónn hans. Ég þjónustaði Kata. Hann stakk ávallt einhverju að mér — kjúklingalæri, fisksporði, osti eða ávexti. Ég hafði því ekki undan neinu að kvarta í þeim efnum.

Herinn ruddi sér braut í vestur eins og óstjórnlegur vígahnöttur. Í slóð hans urðu eftir rjúkandi rústir þorpa og bæja, og hver sá er fyrir varð og á annað borð vettlingi gat valdið var herleiddur. Brekánum, voðum og klæðum var staflað á vagna — vagna sem einnig voru teknir herfangi. Gull- og silfursjóðir voru læstir niður í járnkistla og góssið skráð í bækur skrifaranna og fjárgæslumönnum síðan falin varðveisla þess.

Dag nokkurn urðum við vitni að meiri hervirkjum og spjöllum en nokkru sinni höfðu borið fyrir augu á leið okkar. Við komum í bæ sem var rústir einar. Hvarvetna lágu lík karla, kvenna og barna og sterkan daun af sviðnu hörundi lagði fyrir vit manns. Fyrir framan kirkjuna sá ég að gamall og hrumur karl hafði verið bundinn við súlu. Hann var dauður, allsnakinn og hafði verið gerður höfðinu styttri. Hausinn lá í blóðpolli rétt hjá líkinu og hvítt biskupsmítur þar ekki fjarri.

Mér varð flökurt en nam staðar á kirkjutröppunum og virti fyrir mér stór, blóðug fótspor — að líkindum biskupsmorðingjans. Hvers slags óargadýr hafði verið hér að verki? Ekki Húni, svo mikið var víst. Það er aðeins í orrustum sem á þá rennur jötunmóður; þeir láta ekki karlmennsku sína bitna á saklausu fólki.

Kona veinaði. Það var einn af Gefðum Arðreks konungs sem var að drösla á eftir sér ungri konu á hárinu eftir götunni. Ótal sinnum hafði ég orðið vitni að þvílíkum atburðum og var hættur að kippa mér upp við þá. Þangað til núna að ég fann heiftina blossa upp innra með mér.

Þaðan sem ég stóð í skugga af einni súlunni athugaði ég hvort nokkur veitti mér athygli. Hundruð og þúsundir mannhunda eigruðu um strætið, allir í þeim sömu erindagjörðum að þefa uppi herfang og fórnardýr í þeim byggingum sem enn stóðu uppi.

Sem Gefðinn dröslaði á eftir sér konunni, hann blóðsveittur en hún vesalings mannsmyndin baðandi út höndum í örvæntingarfullri leit að handfestu í grasi, trjám, steinum ellegar líkum — þá benti ég boga minn, miðaði og skaut.

Örin hitti Gefðann í síðuna. Hann hrökk í kút, sleppti þá takinu á konunni, féll á kné og loks flatur til jarðar. Konan trúði vart sínum augum. Þegar hún veitti örinni athygli varð henni fyrst litið í kringum sig, féll svo sjálf á grúfu ofan á þann dauða.

Þannig vó ég mann fyrsta sinni.

Ég hefði verið barinn í hel ef einhver hefði séð til mín, en ég kærði mig kollóttan. Samviskan nagaði mig ekki hið minnsta.

Liðið var fram á miðjan dag þegar við yfirgáfum bæinn. Fyrir utan bæjarmörkin var búið að slá upp tjaldi Attílu og matur var til reiðu. Enn sá ég mér fyrir hugskotssjónum biskupinn höfuðlausa og var enn óglatt sem ég nú stóð að baki húsbónda mínum.

Aldrei þessu vant hófst máltíðin með þögn. Attíla var úfinn í skapi og geðstirður.

Villisvín var á borðum — soðið og ekkert meðlæti annað en hrossahreðkur. Attíla át af trédiski svo sem hann var vanur og drakk úr kókóshnetubolla. Herramennirnir notuðust við silfur — silfurdiska og skoluðu niður matnum með rauðvíni úr silfurbikurum. Loks hóf konungur máls:

„Hverjir drepa konur og börn vægðarlaust?“

„Gefðarnir,“ mælti einhver hikandi rómi.

„Nei, ekki Gefðarnir!“ hvæsti Arðrekur að bragði.

„Roxólanarnir,“ sagði Kati. „Ég hef séð til þeirra eigin augum.“

„Gelónarnir,“ sagði Hargíta.

„Má ekki einhvern veginn hamla á móti þessu?“ muldraði Balan, einn húnversku virðingarmannanna. Hann var góðhjörtuð sál og hrærður yfir þessum villimannlegu aðförum.

Þrír sendiboðar birtust.

Einn færði fregnir af jarðskjálfta í Gallíu sem ollið hefði hruni bygginga og neytt íbúana á flótta.

Annar, sem var Gelóni farðaður í framan í skærrauðum lit, hafði þá frétt að færa að foringi þeirra væri látinn og spurði hver skyldi koma í hans stað.

Attíla leit yfir til Hargítu:

„Ég fel þá þér í hendur.“

Hargíta kinkaði kolli. Eftir svipbrigðunum að dæma virtist hann tæpast mundu meðhöndla þá neinum silkihönskum.

Sá þriðji sem var frankverskur knapi upplýsti prinsinn ljóshærða um að konungurinn bróðir hans hefði nú verið rekinn í útlegð og að sérstök sveit væri á leiðinni með kórónuna, sem hann yrði krýndur með, og með mikilli viðhöfn.

Við vorum teknir til við næsta rétt, sem var gæs steikt á teini. Guð má vita hvernig þeir hafa orðið sér úti um allar þær gæsir! Kati stakk að mér læri, sem ég síðan gaf Kíkí að máltíð lokinni.

En hvers vegna Kíkí, honum öðrum fremur? Vegna þess að með því að sýna honum vinarhót, vildi ég gera hann mér svo hollan að hann yrði mér sem næst innan seilingar þegar á hólminn yrði komið.

 

40.

Það var fyrst í Ágústusarbæ sem gert var verulegt hlé á ferðinni. Við fengum að hvílast þar í heila viku.

Nú var stærra tjald Attílu sett upp fyrsta sinni. Mig svimaði af því að virða fyrir mér fagurlegt skrautið og allan gullvefnaðinn og súlnamergðina og alla skildina, sem einnig ljómuðu af gulli. Miklu fremur var þetta höll gerð af timbri og vef, á mörgum hæðum og með fjöld turna, fremur en nokkur tjaldnefna.

Á jarðhæðinni var rúmgóður matsalur sem jafnframt var notaður undir hinar ýmsu ráðstefnur, en á hæðinni fyrir ofan dyngjur drottninganna tveggja og aðsetur þjónustumeyja þeirra.

Attíla gekk nú um á meðal okkar í klæðum sem glitruðu af gulli og gimsteinum. Ég átti bágt með að skilja hver var hugmyndin með því þangað til skrifararnir útskýrðu fyrir mér að á herferðum bærist Attíla mikið á, sér í lagi þegar hann vænti þess að þjóðir ynnu sér hollustueiða.

Þegar hér var komið sögu höfðu þúsundir Markómanna, Kvada og Sváfa gengist undir ok Attílu á leiðinni og fylgdu nú fylkingu yfirhershöfðingjans á hinum bakkanum, sem brátt sameinaðist okkur á ný.

Enn nálguðumst við Rín og nú bættust Þýringar í hópinn. Hið sama gerðu Búrgundar, sem áttu sér heimkynni handan fljótsins; og Frankar þeir sem bjuggu við ána Nekkar komu nú einnig til liðs við okkur og færðu prinsi sínum kórónuna og fregn af dauða bróður hans. Ég þykist vita að þeir hafi sálgrað honum.

Á meðan þessar nýju sveitir voru að skipa sér tók nú myrkviði hins aldna Svartaskógar að óma af látlausu skógarhöggi.

Herinn varð að komast yfir Rín. En hvar í veröldinni mátti finna brýr, ferjur og timburflota til að koma öllum þessum óskapa herafla yfir á bakkann handan við?

„Höggvið skóginn!“

Sú hafði verið skipun Attílu, og varla hafði hann sleppt orðinu þegar skógurinn tók að kveða við með dunum og dynkjum sem dag- og næturlangt, sólarhringum saman, dundu í eyrum. Hver einasta öxi sem tiltæk var í hernum var brýnd til stórátakanna og fékk ekki hvíld fyrr en reistar höfðu verið brýr, fleiri en ein og fleiri en tvær, yfir fljótið og ferjur og ótal flotar smíðaðir.

Fyrstir til að fara yfir voru helstu höfðingjar og herdeildarforingjar, að undanskildum flugumönnum okkar, sem að sjálfsögðu voru fyrir löngu farnir yfir fljótið.

Sá sem hefði getað litið segjum af sjónarhóli sólarinnar óslitið mannhafið þegar herinn fór yfir fljótið, hefði orðið vitni að einstökum viðburði í sögu heims. Milljónir iðandi maura þrengdu sér fram fjallaskörð og dali að fljótinu Rín. Dögum og jafnvel vikum saman hefði sá hinn sami mátt virða fyrir sér hersingu glitrandi mannmauranna sem þeir létust berast yfir fljótið líkt og á agnarsmáum pílviðarlaufstilkum. Og fyrir handan hefði hann séð þá breiða úr sér á ný, að hluta norður á bóginn, að hluta suður á bóginn, líkt og veiðimenn steðja að bráð sinni í sveig sem að lokum skal ljúkast um hana; og þar sem það var mest um sig hefði maurahafið spannað yfir vel á annað hundrað mílna breitt svæði fyrir augum hans.

En fjær, all nokkru framundan okkur, fór önnur hersing og ekki fáliðuð. Og hverjir skyldu það hafa verið sem hörfuðu vestur á bóginn undan her Attílu, hægt og sígandi? Reyndar hinir rómversku setuliðar, sem höfðu mátt leggja á flótta úr borgum þeim og bæjum sem við fórum um og leituðu nú uppi her Aëtíusar í því skyni að taka saman við hann. Á meðal þeirra var einnig kvísl Franka — hinir salísku Frankar, sem um skeið höfðu fengið að dreypa á guðaveigum rómverskrar menningar og kusu nú fremur að fá að njóta þeirra enn um sinn.

Það voru eingöngu hirðingjarnir — tjaldbúarnir — sem gengust undir ok Attílu. Hinir sem bjuggu í steinhúsum lögðu á flótta og linntu ekki ferðinni fyrr en náðarfaðmur rómverska hersins um þá laukst. En hvar hélt hann sig, herinn sá? Fyrir vestan, að því er sagt var; í þeirri áttinni sem sólin sest.

Ein kvísl Búrgunda lagði þó heiður sinn að veði fyrir sjálfstæði sínu, á sinn makalausa hátt. Konungur þeirra, Gondíkar, bauð Attílu byrginn. „Hvað varðar mig um Attílu?“ æpti hann upp í opið geðið á Húnum. „Mig varðar ekkert um veraldlega guði! Attíla skal aldrei spenna mig fyrir vagn sinn!“

Hann var höfðingi um áttatíu þúsunda manna, sem allt voru garpar miklir og hetjur og eftir því brjálaðir. Áður en stund var liðin voru hófar húnversku hestanna roðnir blóði þeirra, en sálir sömu áttatíu þúsunda stigu upp til guðs síns.

Undir klettasnös fundu þeir lík af manni, gráum fyrir hærum, sem var alsett sárum. Hvorki sverð né hjálmur fyrirfannst. Andlitið var innfallið og grátt skeggið blóðugt. Fingralangir höfðu þá þegar hirt af honum öll nýtileg klæði. Kveðið var upp úr með að fundið væri lík Gondíkars konungs.

Ég tók ofan.

 

 

Formáli

kaflar 1 til 10

kaflar 11 til 20

kaflar 21 til 30

kaflar 31 til 40

kaflar 41 til 50

kaflar 51 til 60

kaflar 61 til 65

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist