< Undir huliðshjálmi

kaflar 11 til 20

 

 

11.

Við vöknuðum árla morguns daginn eftir og hugðumst færa yfirhershöfðingjanum gjöf keisarans.

Það féll í minn hlut að taka járnbundnar umbúðirnar utan af gjöfinni, sem var mikil gersemi — fimm drykkjarbikarar ásamt tveimur stórum gljádiskum og fimm minni, og var allt saman úr gulli. Það var drifin smíði er sýndi myndasögu af einni af veiðiferðum Alexanders mikla, og væri bikurunum snúið samtímis í hringi eftir hringi, lifnaði heldur betur yfir veiðinni! — gullið fólk var á eftir gullbráð í gylltum skógi! Einnig diskarnir voru frábærlega vel myndskreyttir. Á einum var mynd af Adam og Evu undir trjáviði, á öðrum saga syndaflóðsins; og á brúnunum voru þeir allir saman skreyttir með litlum ástar- og kærleiksgoðum sem héldu höndum saman. Dýrgripirnir voru varðveittir í kistli fóðruðum að innan með hvítu flúneli en yfir þá lagður í fellingum margra álna langur bleikur silkidúkur með blómavígindum.

Óðara en sól skein við dagsbrún höfðum við tekið okkur stöðu við forhlið hershöfðingjahallarinnar — húsbóndi minn, Rústíkus, þrír þjónar og ég. En hliðin voru enn lokuð og læst. Saldróttin hefur að líkindum tekið seint á sig náðir, enda hafði tónlistin dunað fram á miðja nótt. Móeik hlaut að hafa stigið dansinn — en með hverjum? Um það braut ég heilann — og um það hvort hún kynni að hafa dansað fyrr við þann unga mann. Ekkert lífsmark var með húsinu. Þykk, hvít tjöld voru fyrir öllum gluggum og byrgðu geisla morgunsólarinnar úti. En þegar á allt var litið, væri það þó ekki affarasælast að snótin sú tindilfætta léti ekki sjá sig...

Á meðan við biðum kom svarteygður, miðaldra Húni aðvífandi. Bar hann skrautleg vopn og var með skyrtukragann flaksandi um hálsinn. Hann skartaði gullkeðju svo sem allir vel stæðir Húnar gerðu, var búinn svartri hæruskinnshúfu til höfuðsins með trönufjöður gegnumstunginni, hárið var hnýtt í þrjá spena en skegg yfir vör slútti eins og lotin uxahorn. Við lendar honum dinglaði bjúgsverð alsett gimsteinum — og enn, svo sem Húnar einir vopnuðust. Undan dimmum brúnum brosti hann til Prískusar.

Khaire!“ (Sælir!) hrópaði hann.

Khaire!“ Prískus varð forviða. „Hver ert þú, sem heilsar mér á mínu eigin móðurmáli? Hvaðan ber þig að? Og hvað kemur til að þú ert orðinn Húni?“

Menn af öllu þjóðerni bjuggu í borginni, en Grikkir voru fáir, og þegar þá bar fyrir augu voru það þrælar einir — sem ávallt mátti þekkja af úfnu svörtu hárinu og lörfunum sem þeir klæddust. En þessi Grikki var húnverskur herramaður, glingrandi gulli í bak og fyrir.

Enn brosti hann. „Hví spyrðu?“

„Af þeirri ástæðu,“ svaraði húsbóndi minn, „að þú heilsar mér á grísku þrátt fyrir að þú lítir út fyrir ... þrátt fyrir að þú snúir upp á þér skeggið.“

„Tja —“ hóf hinn ókunni maður máls og fitlaði með fingrunum við skeggið á sér. „Ég er Húni — en er fæddur Grikki. Núorðið er ég nefndur Frjálsi Grikki en var kallaður Grikki á meðan ég var ánauðugur.“ Hann andvarpaði hæglátlega. „Vissulega, vinir mínir, þá er lífið ekki ávallt dans á rósum, og enginn veit sína ævina fyrr en öll er.“

Hann tjáði okkur að fyrrum hefði hann verið olíukaupmaður í Istríu. En Húnarnir hefðu herjað þar og tekið hann sjálfan og eigur hans herskildi. Hann hefði fallið yfirhershöfðingjanum í skaut, því tignarmenn taka gjarnan hina auðugri bandingja sér til handa. En það er af því, að ætla má að hinir auðugu eigi auðuga að, sem krefja megi um lausnargjald. Og jafnvel þó að enginn fáist til að leysa þá úr þrældóminum eru þjónar af tignum stigum eigi að síður mikils virði. Þeir kunna sig og eru hyggnari, hafa til að bera meiri stimamýkt en óbreyttur almúginn. Andinn á heimilum hefðarfólksins, reisnin, veltur ekki hvað síst á því að heimilið státi af siðmenntuðum þrælum.

„Nei, enginn veit sína ævina fyrr en öll er, það er víst áreiðanlegt.“ Prískus dæsti. „Hér er siðmenning vor dregin niður í svaðið og bundin á klafa villimennsku.“

Húninn gríski yppti öxlum.

„Tja ... þótt ekki leystu ættingjar mínir mig úr haldi, þá gerði það góður Guð. Húsbóndi minn tók mig með sér til fylgdar þegar stríðið við Akatírana hófst og barðist ég við hlið hans af mikilli hreysti. Ég fékk heilmikið í minn hlut af herfangi og gat því keypt mér frelsi. Ég kvæntist húnverskri konu. Og nú á ég börn — svo yndæl, frísk og fjörug sem nokkur getur hugsað sér. Nú sit ég til borðs með hershöfðingjanum. Við það sama borð og hann þegar hann hafði það fyrir sið að æpa á mig Heyrðu mig, svínið þitt! en ávarpar mig nú Vinur, og einmitt það er ég — vinur hans. Og því er það sem ég segi, Guði sé lof að mér skyldi hlotnast slík ógæfa í Istríu.“

Prískus hristi höfuðið. „En fyrst þú fékkst frelsi, varstu þá ekki frjáls að því að hverfa heim?“

„Það var ég og er — hvenær sem mig lystir.“

„Hvað í ósköpunum fær þig þá til að dveljast hér á meðal þessara skrælingja?“

„Skrælingja, segir þú. Hví þá? Þetta er betra fólk en ég hef nokkurs staðar kynnst, því þegar engin stríð geisa dvelur hver og einn heima með sér og sínum og er óáreittur. Ég — ég fer mínu fram; ég geld enga skatta. Engir opinberir skrifræðismenn eru að reka trýnið inn um gættir, engir lagasnápar né heldur fógetar.“

„En þið eruð ávallt í hernaði.“

„Jafnvel þó að svo væri, hér er maður þó einhvers metinn en ekki er því nú að heilsa á meðal Rómverjanna. Jafnvel á friðartímum er blóði úthellt í keisaradæminu. Þegar þið eruð ekki að heyja styrjaldir þá glímið þið við þorpara og stigamenn, og jafnvel þó að engir væru slíkir eru þó hinir opinberu þorparar æ til staðar, skrifræðismennirnir og fógetarnir. Ríkismenn og valdsherrar eru ofar lögum í Rómverska keisaradæminu, réttlæti er mælt á vogarskálum auðs og eignar; í nafni laganna, með linnulausum lögsóknum, blóðmjólka lögmenn og dómarar skjólstæðinga sína nábleika.“

Prískus hélt uppi vörnum fyrir Rómverja eftir fremsta megni en Húninn gríski einasta blakaði höndum og kinkaði kollinum: „Hafið það þá eftir ykkar höfði. Eigi að síður verður því ekki í móti mælt, að þegar herra ríkis gerir sjálfan sig að guði, eru örlög þegna hans helvíti!“

Þetta var mjúkmáll, altillegur náungi, og þegar hann kvaddi okkur tók hann meira að segja í höndina á mér.

Á meðan hafði þræll opnað hliðin og tjáði hann okkur að hershöfðinginn væri rétt um það bil að koma út, og biðum við hans því í hallargarðinum í stað þess að fara inn. Brátt var hestur hans leiddur út, svo birtist hann sjálfur. Það var ekki fyrr en núna sem við veittum því athygli hve stuttur hann var til fótanna og hjólbeinóttur. Flestir Húnar eru einmitt lágir vexti að vallarsýn og hjólbeinóttir. Einungis á hestbaki virðast þeir vera svo miklir fyrir sér, en lausfóta kjaga þeir eins og endur.

Við hneigðum okkur og Prískus steig fram. Hann minnti á að sérlegur erindreki Hins austrómverska keisaradæmis væri kominn til viðræðna og árnaði honum heilla; í sedrusviðarkistlinum væri gjöf keisarans. Þá spurði hann hvort ekki væri hægt að ákveða stund og stað viðræðufundarins.

Ásýnd hins sigursæla hershöfðingja vakti áhuga minn. Til augnanna var hann ekki ólíkur árvökrum hundi, en andlitið var brosmilt og lýsti skarpri greind.

„Stað og stund? Nú, fyrst það er svo áríðandi að við hittumst, því þá ekki núna, núna strax, og því þá ekki þar sem hann er sjálfur til búðar?“ svaraði hann stutt og laggott. „Ríðið þið af stað, ég elti ykkur uppi.“

Ólíkir eru þeir vorum tignarmönnum, hugsaði ég, og sjá ekki ástæðu til vafsturs og viðhafnar af slíku tilefni.

Yfirhershöfðinginn leit ekki einu sinni við gjöfinni en lét færa hana upp til konu sinnar. Við höfðum hraðan á svo að Maxímínusi ynnist tími til að búast bestu vefjarklæðunum sínum — en það vannst enginn tími til. Hershöfðinginn kom á hæla okkur og bauð góðan dag vingjarnlegum rómi.

Maxímínus muldraði eitthvað í þá veru að velkominn væri hann, en hershöfðinginn þrýsti honum niður í stól, og þegar hann hafði ráðið fram úr því af ræðu Maxímínusar sem túlka mátti sem lofgjörð honum til heilla þá greip hann fram í fyrir honum: „Elsku besti — eins og ég viti ekki hver og hvers kyns ég er?“

Þá hóf hann að segja frá sigrum sínum í austrinu eins og hann væri einn úr okkar hópi, og án þess að gleðin af honum bráði frá því smá óhappi að Alöður konungsson hefði fallið af baki fáki sínum í bardaganum og annar hestur stigið ofan á handlegginn á honum.

Um síðir tókst Maxímínusi að finna orðum sínum smugu, og fjarska lítillátur greindi hann frá því að keisarinn kysi frið til frambúðar en væri þó þeirrar skoðunar að þrálát skipti á lítils megandi umboðssveitum væru lítt vænleg til árangurs, færðu þeim hvorki heim frið né sáttmála þar að lútandi. Væri ekki möguleiki á að yfirhershöfðinginn kæmi sjálfur á fund keisarans? Dýrgripirnir í sedrusviðarkistlinum væru aðeins lítið sýnihorn þess er biði hans í Miklagarði.

Höfðinginn húnverski drap tittlinga, hristi þá höfuðið. „Hræddur er ég um að það yrði örðugt viðfangs,“ sagði hann.

„En herra minn,“ hélt Maxímínus áfram og hélt enn í bláþráð vonarinnar, „á orðum yðar er mark takandi, ólíkt léttvægu málskrafi venjulegra erindreka. Ef þér aðeins vilduð sækja okkur heim væri von til þess að stórveldin tvö gætu innsiglað með sér varanlega sátt. Og eigi aðeins hefðu þjóðir vorar tvær gagn og ábata af, heldur einnig yðar eigin fjölskylda. Keisarinn yrði vinur yðar allt til dauða. Og hver veit nema að af slútandi greinum hans gullapaldurs félli sitthvað í skaut börnum yðar og jafnvel barnabörnum.“

Hershöfðinginn hristi enn höfuðið. „Nei, það er óhugsandi. Jafnvel þó að ég færi sjálfur gæti ég aðeins mælt í orðastað Attílu. Segði ég eitthvað frá eigin brjósti væri ég þess lítt minnugur að Attíla er húsbóndi minn og allir Húnar greinar á sama meiði — jafnvel í næsta lífi stöndum við sameinaðir.“ Hann lyfti höfði og horfði á okkur stillilega. „Trúið mér,“ sagði hann. „Heldur kysi ég hlutskipti þjóns í skugga Attílu en tign mektarmanns undir rómverskum væng, sama hversu mikið ríkidæmi væri í boði. En í öllu falli get ég orðið ykkur að meira liði hér heima. Ekki óhugsandi að ég afstýrði voða ef þið yrðuð fyrir barðinu á Attílu.“

Hann var auðsæilega orðinn leiður á að þrasa um stjórnmál og spurði hvort við ætluðum virkilega að tjalda á þessum stað. „Hér eruð þið svo fjarri konungssetrinu, og taki hann upp á því að fara að rigna verður vegurinn illfær.“

„Við vildum einmitt spyrja yður að því,“ svaraði Maxímínus, „hvar við gætum komið okkur fyrir.“

„Sjáið þið nú til. Látið mig um það. Þjónar ykkar finna sér stað í hallargarðinum. Ykkur sjálfum standa þrjú herbergi til boða við hlið borðstofunnar.“

En herrar vorir þáðu ekki boðið heldur báðu leyfis um að mega tjalda á svæðinu við hlið hallarinnar, á torginu stóra, og samþykkti hershöfðinginn það.

Um það bil sem hann var að yfirgefa okkur reið flokkur kvenna hjá á hröðu brokki, voru þær með boga um axlir og silfraða örvarmæla á baki, og þótti mér trúlegast að þær ætluðu á veiðar. En seinna komst ég að raun um að rétt fyrir utan borgarmörkin hafði fuglahræðum verið stillt upp sem skotmörkum fyrir þær. — Svo stúlkurnar fengu þá einnig æfingu í skotfimi!

Ég veit ekki hverjar þær voru. En í fylgd með þeim voru nokkrir ungir herramenn og þar á meðal einn með hönd í fatla. Tók hann ofan hött sinn og veifaði honum í kveðjuskyni til hershöfðingjans.

„Alöður konungsson,“ sagði hershöfðinginn og brosti.

Fast á eftir fylgdi minni hópur ríðandi karla og kvenna, búinn yfirhöfnum sem flöksuðu glatt í vindinum. Konurnar huldu sig með silkiblæjum og kenndi ég þó Móeik þeirra á meðal. Hún heilsaði hershöfðingjanum með því að veifa til hans, og á hve þokkafullan hátt hún gerði það!

En á því sama augnabliki hljóp einhver óþægð í folann hennar, guð veit hvers vegna — ef til vill hafa mélin skroppið til í skoltinum á honum eða fluga stungið hann — hvað um það þá fékk hann alltént þá flugu í hausinn að rísa upp á afturlappirnar. Hvort mér ekki skaut skelk í bringu — og Móeik á baki...

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég hafði séð hest rísa þannig upp á afturfæturna. Og þá þarf sjaldnast að spyrja að leikslokum. Klárinn kastar reiðmanninum af baki og dregur hann á eftir sér í ístaðinu. Jafnvel þótt knapanum takist að sitja hestinn í fyrstu atrennu er næsta víst að hinn síðarnefndi hafi samt vinninginn — þegar hann kemur niður á framfæturna og eys lendunum tekur knapinn flugið og stingst á hausinn niður. Og þegar hófar klársins gagna í skrokk á honum má knapinn þakka sínum sæla missi hann aðeins ráð og rænu en ekki líftóruna eins og hún leggur sig.

En þegar folinn hennar Móeikar tók upp á þessum óhemjuskap sat hún sem fastast eins og hlébarði með tak á bráð sinni. Steig hún þéttingsfast í ístöðin og hélt sér traustataki í faxið með annarri hendinni en í taumana með hinni, og fylgdi líkami hennar hverri hreyfingu hestsins eftir.

„Glói!“ æpti hún og kippti reiðilega í taumana. „Glói!“

Hesturinn tók ein sex skref og ég fann hve hjartað ólmaðist í brjósti mér. Mér hraus hugur við því að sjá hann spyrna við framfótunum ef hann þá kastaði sér ekki sjálfur til jarðar ... og nú jós hann og enn prjónaði hann ... en laut loks í lægra haldi fyrir einbeittum vilja knapans og stóð á endanum í alla fjóra fæturna, rór og Móeik þægur. Hún sat kyrr í hnakknum eins og ekkert hefði í skorist.

Á meðan þessi ósköp dundu yfir veitti ég því athygli að hún missti eitthvað. Félagar hennar höfðu þeyst á braut en hún var kyrr og hesturinn í sömu sporum. Það var keyrið hennar sem lá þar í rykinu — ef til vill einmitt hið sama og hún hafði eitt sinn rekið í andlitið á mér.

En ég hugsaði ekki um það að þessu sinni, heldur beygði ég mig niður eftir því, alsæll að fá þetta tækifæri til að auðsýna henni þægð og hollustu, og hljóp til hennar með það.

„Þakka þér fyrir, Zeta,“ sagði hún hlýlegum rómi.

Hún lyfti slæðunni frá andliti sér eitt augnablik. Það var glóð í augum hennar, andlitið rjótt. Hún leit á mig stórum augum.

Þá lét hún slæðuna falla og keyrði folann úr sporunum.

Ég fæ ómögulega komið því fyrir mig hvenær hershöfðinginn fór burt frá okkur, eða með hvaða hætti. Mér hafði hitnað í hamsi og fann til þess það sem eftir lifði dags. Hljómur raddar hennar söng í eyrum mér: „Þakka þér fyrir, Zeta!“

Ég furðaði mig á því hvers vegna hún hafði lyft slæðunni — til að ég fengi séð framan í hana? Eða veitti hönd hennar athygli? — Til að ég fengi séð hið fegursta andlit og fallegustu hönd í heimi hér —?

 

12.

Það fór þá aldrei svo að við byggjum ekki áfram í tjöldum okkar, og nú í nánd við höll Katanna sem eins og ég hef áður frá sagt var aðskilin frá setri Attílu með stóru auðu svæði þar sem engu hafði verið við hreyft en var útsparkað eftir hrosshófa.

Höll Kataættarinnar! Þetta litríka litla tvílyfta timburhús heillaði mig upp úr skónum. Sá frumstæði útskurðarmeistari sem átti heiðurinn að þessu litla fuglabúri með lilju- og baldursbrárskurðræmum hvarvetna hefur ekki verið svo lítið eftirlátur ímyndunaraflinu. Grænmálaðir dyrastafir mynduðu innganginn, og jafnvel þeir voru alsettir laufblöðum og blómum.

Strax þegar við höfðum klæðst um morguninn var mér enn falið að annast um gjafir. „Farðu Zeta og taktu til vasann með svanshálsinum og bakkann sem heyrir honum til, og einnig stóru silkistrangana þrjá og apaskinnið. Þú skalt klæðast spariflíkunum og úðaðu rósarilmvatni á vefjarklæðin mín. Við ætlum á fund drottningar, Ríku drottningar.“

Ég hlýddi glaður í bragði.

Ríka drottning var æðst kvenna konungs. Eitíla var hennar sonur. Hún var hin eiginlega drottning, hafin yfir hinar, sem einna helst varð jafnað til skartgripasafns.

Lávarðar vorir tveir ræddu með sér um stund hvort þeir skyldu báðir heimsækja drottningu eða aðeins Prískus. Urðu þeir ásáttir um að Prískus færi einn — hann væri sá þeirra snjallari að koma fyrir sig orði. Var erindið að votta drottningu virðingu þeirra og bera upp þá bón hins sérlega erindreka, Maxímínusar, hvort hann fengi við tækifæri að kyssa á hönd hennar.

Og því var það að Rústíkus, Prískus og ég héldum til hallar konungs. Ég huldi gullgripinn klæði og fór varlega með hann eins og ungabarn. Hinar gjafirnar voru í útskornum sedrusviðarkistli sem borinn var af þrælabarni.

Á þann veg héldum við af stað.

Í hallargarðinum var þröng á þingi fyrir framan höfuðbygginguna. Voru þar hermenn búnir gull- og silfurskreyttum vopnum sínum og verjum, en líka óbreyttur, hörklæddur almúgi. Að vetrarlagi hefðu allir klæðst skinni og húðum dýra og þá lyktað ótæpilega af vaxáburði.

Almúgafólkið hafði þjappað sér saman kringum litskrúðugan stólpa þar sem fuglsmynd úr kopar bar hátt á einni hliðinni, var það örn á flugi með sverð í einni kló, metaskálar í hinni. Undir stöplinum var auður bríkarstóll.

Fólkið vísaði okkur veginn þegar við spurðumst fyrir um aðsetur drottningar og benti okkur til fallega útskorinnar, tveggja hæða byggingar. Var húsið girt af með skíðgarði sem var tilsýndar eins og limgerði en var úr hvítu timbri og allur skorinn út með liljufléttum. Hlið voru vörðuð fjórum körlum í tígrisfeldum. Innan garðs á húströppunum mókti gráhærður þræll með andlitið fram á hné sér. Hann lét vita af komu okkar, bauð okkur síðan að ganga í bæinn.

Í fordyrinu lagði þægilegan ilm fyrir vit manns. Mér fannst það eins og angan af rósum í bland við ilm af myntublómum, en var ekki allskostar viss. Drottning sat í dyngju sinni á legubekk fyrir miðju gólfi umkringd yngismeyjum. Hún var auðþekkjanleg þó að hún væri öðruvísi klædd en þá í fyrra sinnið sem við höfðum séð hana — var núna í rjómagulu silki með látlausu sniði og með tátiljur á fótum sér úr sama efni. Grátt hárið var bundið í sveig og var snigilskeljarlagaður sveigurinn festur með prjóni sem á var gullhnúður á stærð við valhnetu. Þetta var kona sem hefur mátt muna sinn fífil fegri. Svo fögur sem hún hefur verið í blóma aldurs síns, var hún nú komin með svipmót roskinnar hefðarfrúar, en sem var teinrétt í baki og bar höfuðið hátt.

Ekki var annað húsmuna í herberginu en legubekkurinn og lítið borð út undir vegg. Veggirnir voru fóðraðir með dökkum kirsuberjarauðum dúk en gólfið lagt þykkri ullarábreiðu sem var svo mjúk að undir kann að hafa leynst brekán úr valhnetutrefjum eða einhverju þvíumlíku. Þær voru einar sex konurnar sem sátu í kringum húsfreyju, allar önnum kafnar við útsaum — og þeirra á meðal var Móeik.

Ég man ekki einu sinni hvernig húsbóndi minn ávarpaði drottninguna. Móeik átti athygli mína alla. Einnig hún var í látlausum klæðnaði, hvítum, sem bundinn var um mittið með fingurmjóu silkibandi, af því tagi sem einsetumunkar reyra sig með, en tátiljurnar hennar voru gular eins og dvergliljulaukur. Hárið féll laust um axlir — eins og englahár! Og enn varð mér litið á hrífandi augu hennar og því nær ómótstæðilegar varirnar.

Eins og stöllur hennar hélt hún á saumgyrði, tveggja handa breiðu, og vann í gjörðina með rauðum og gylltum silkiþræði. Allar saumuðu þær út sömu vígindin, blóðrauðar liljutvenndir, gylltar á jöðrum.

Þær litu upp frá verki sínu þegar við komum inn. Gjafir okkar vöktu forvitni þeirra, og þó öllu heldur myndirnar sem þær voru prýddar, og sér í lagi sú á vasanum. Það var afar vel gerð mynd af sólarblómi og vakti mikla hrifningu. Rétt á eftir bjóst ein stúlkan til að draga upp blómstur á hördúk og réðist til atlögu við dúkinn með rauðri kalkkrít.

Móeik laut fram til að fylgjast með árangrinum, og þá einnig ég. Ekki þó vegna þess að teikningin vekti svo mikla athygli mína, heldur hreif mig aðeins það, hvernig Móeik horfði á hana.

Hvað um það, stúlkunni tókst hreint ekki svo illa upp að teikna blaðkrónuhnappinn, og enda hafði hún stuðning af sniði, en þegar hún skyldi teikna bikarblöðin, eitt af öðru, brást henni bogalistin og gerði blómið hringundið.

Stelpurnar hlógu. Drottningin leit til þeirra og brosti:

„Víst gæti þetta orðið fallegasta blóm ef við hefðum hnappinn kastaníubrúnan og krónblöðin gulgræn. En teikningin er ekki fullgerð, vill ekki einhver sýna listir sínar?“

Hugmynd laust mig og ég roðnaði.

„Yðar hátign, ef þér aðeins vilduð leyfa mér...“ stamaði ég.

Prískusi blöskraði að ég skyldi leyfa mér að mæla án þess að hafa verið ávarpaður, og hann horfði á mig strangur á svip. En konurnar kipptu sér ekkert upp við það. Á næsta augnabliki hafði mér verið fengið hvítt hörlín og ég um leið kominn niður á hnén, strax tekinn til við að punkta tvo hringi á línið, skjálfandi hendi, á gólfinu.

Skjálftinn hvarf nær samstundis. Ég fann til þess að Móeik fylgdist með mér. Nú væri gullið tækifæri til að sýna henni hverjum hæfileikum ég væri búinn! ... og brátt birtist sólarblómið. Konurnar klöppuðu. „Kunnáttusamlega gert, drengur minn!“ sagði drottningin og fyrir Prískusi var túlkað: „Ég öfunda þig af þrælnum!“

Enn steig blóðið mér til höfuðs. Ég leit á húsbónda minn og átti von á því að hann leiðrétti misskilninginn: „Virðulega hefðarfrú, hann er enginn þræll heldur frjáls maður.“ En það gerði hann ekki, heldur sagði: „Það gleddi mig mjög, yðar hátign, gæti ég gefið yður hann, en frá unga aldri hef ég alið hann á heimili mínu og finnst hann vera mér sem sonur fremur en þræll. Ef yðar hátign óskar á hinn bóginn eftir því að hann teikni fyrir yður þá væri mér ekkert ljúfara en að hann fengi þjónað yður svo lengi sem við dveljumst hér í landi yðar hátignar.“

„Getur þú teiknað fleira svona vel?“ spurði drottningin og horfði vingjarnlega á mig.

„Hvað sem er, mín hátignarlega hefðarfrú,“ svaraði ég.

Mig svimaði af gleði, því ég sá að Móeik horfði á mig af ósvikinni aðdáun og ekki minni undrun, og í fyrsta skipti á ævinni fannst mér ég búa við örlög margföld að virðingu á við ríkra manna hlutskipti.

„En skemmtilegt að heyra,“ sagði drottningin. „Ætli ég leyfi mér þá ekki að ræna þér úr þjónustu húsbónda þíns um stund.“

Prískus hneigði sig og yfirgaf okkur ásamt Rústíkusi en ég kraup enn á kné á meðal kvennanna.

Ég hafði aldrei áður átt við neins konar dráttlist af þessu tagi, aðeins fengist við lýsingu handrita í hinni keisaralegu bókhlöðu og heima hjá húsbónda mínum.

Þegar skrifarar okkar afrita bækur er fyrsti stafurinn ávallt mynd, venjulega af blómi. Gerir skrifarinn frumdrætti með pjáturgriffli og málar síðan myndina í litum eins og ímyndunaraflið leyfir.

„Leyfir yðar hátign að ég teikni morgunfrú?“

„Teiknaðu hvað sem þig lystir!“

Og ég teiknaði fyrir þær morgunfrú er vafði sig um grasrótarstöngul, og bognaði stöngullinn undan byrðinni. Teiknaði ég blómin fjögur, tvö útsprungin og tvö sem voru rétt um það bil að opna hnappa sína.

Og víst líkaði þeim teikningin. „En fagurt!“ sögðu þær í kór. Og sungu síðan hver með sínu nefi hrós mér til heilla. En í allri lofgjörðarrollunni heyrði ég aðeins eitt orð, orð sem Móeik mælti kyrrlátum rómi: „Yndislegt.“

„Yðar hátign,“ mælti ég auðmjúkur. „Blómstrið ætti að sauma út með sýrrauðum silkiþræði og blaðgrænum, þar sem það á við.“

„Teiknaðu heldur blóm í staðinn fyrir graslaufið!“ sagði drottningin.

Þá breytti ég verki mínu og teiknaði blóm í forgrunn og bakgrunninn. Síðasta blómið og hið lægsta dró ég lotið og visið.

Enn dáðust þær að teikningunni og furðuðu sig ekki minna, þar sem þær sátu eða krupu á hnjánum í kringum drottningu. Móeik ein var standandi. Hún hallaði sér yfir öxl einnar stöllu sinnar og virti fyrir sér myndina á gólfinu.

Þá fylgdist ég með henni, þegar þær voru allar með athyglina bundna við myndina en ekki mig, og ég drakk hana í mig með augunum.

„Af hverju teiknar þú svo visið blóm?“ spurði hún. „Visin blóm eru döpur.“

Önd hennar glóði í augum og gagntók mig. Ég gat varla svarað en stundi loks: „Mín kæra yngismær, það er til blóm eitt sem þetta, svo visið, en sem þó lifnar, vökvi döggin það og vermi sólin það.“

Hún horfði á mig, hugsandi. Svo brosti hún.

„Ef þannig liggur í því, þá lífga þú það!“

Drottningunni var nú færð körfufylli af kirsuberjum. Hún fékk sér lófafylli og gaf svo stúlkunum með sér.

Rétt í það mund lauk ég teikningunni.

„Við skulum láta þetta nægja í dag, sonur minn,“ sagði drottningin vingjarnlega. „Komdu aftur á morgun um sama leyti, þegar þú hefur fengið leyfi húsbónda þíns.“ Hún stakk hönd sinni enn ofan í körfuna — „Láttu mig sjá lófana þína!“

Hún var ímynd móðurinnar fram í fingurgóma. En á þessu augnabliki kærði ég mig bara ekkert um móðurlega hlýju og umhyggju. Hvað hélt hún eiginlega að ég væri — að ætla að launa mér með handfylli af kirsuberjum! Og það í augsýn Móeikar!

Ég gaf berin barni undireins og ég var kominn út.

Nú var orðin svo mikil þröng á þingi í hallargarðinum að mér varð ósjálfrátt litið þangað sem allir horfðu, svo stilltir í bragði. Hvað var á seyði?

Ég sá þá að Attíla sat undir stöplinum, undir koparerninum. Það var hann sem allir hlýddu á.

Húsbóndi minn reigði höfuðið til að fá séð yfir mannfjöldann og stóðu þeir við hlið hans Rústíkus og Frjálsi Grikki og rómversku erindrekarnir einnig í námundan við þá.

Ég ruddi mér braut gegnum manngrúann og spurði Frjálsa Grikkja hvað um væri að vera.

„Nú er konungur að ráða fyrir réttlætinu,“ svaraði hann.

Einhver frumstæður andi sveif yfir vötnunum. Höfðinginn á grófhöggnum bríkarstóli og lýðurinn allt um kring. Jafnvel af skeggi yfirvaldsins stafaði kyrrum töfrum. Gegnt Attílu stóðu tveir aldurhnignir karlar og tveir ungir að árum, þeir voru aðilar málsins. Einn sótti málið og lagði áherslur á með hetti sínum sem hann pataði út í loftið. Einir fimmtíu gamlir karlar sátu á jörðinni flötum beinum og á hækjum sér og stóð forvitinn múgurinn að baki þeirra. Allir voru berhöfðaðir — aðeins konungurinn einn hafði uppi höfuðfat, hæruskinnshött með börðunum undnum upp.

„Það er siður hér,“ útskýrði Frjálsi Grikki lágum rómi, „að útkljá deilur á grundvelli fjölskylduskipaninnar. Það er þá höfuð fjölskyldunnar, faðir eða afi, sem annast um eða sker úr um málin. En skerist í odda milli tveggja fjölskyldna er skipaður búakviður til fulltingis forvígismönnunum. Komist kviðdómurinn ekki að niðurstöðu, eða kviðburðurinn er ekki tekinn til greina af aðilum, þá er málinu skotið til konungs. Á friðartímum situr hann hér nær alla morgna og ræður einn fram úr málum án aðstoðar ráðgjafa. Þeirra þarf hann ekki með. Hann hlustar á málflutningsmennina, spyr einnar eða tveggja spurninga, kveður þá upp úr með hinn eina og sanna dóm. Einmitt núna er verið að leiða heilmikla rimmu til lykta. Ungur Húni nokkur færði heim með sér stúlku fangna frá Akatírunum og hafði hér skipti á henni og hesti að viðbættum tíu gullpeningum. Stelpusponsið tók hins vegar upp á því að gefa upp öndina morguninn eftir og nú krefst kaupandinn þess að hann fái hestinn sinn aftur og segir að stúlkan hljóti að hafa verið lasburða gallagripur.“

Við rétt náðum að greina rödd þess aldurhnigna forvígismanns er sótti málið.

„Ég segi þér satt, herra minn, stúlkan var föl sem nár. Ég sagði strax við son minn, sagði við hann: „Þér getur ekki verið sjálfrátt að skipta á hesti og þessu!“ Ég tók hann til bæna, herra minn, ég ávítaði hann harðlega, ég meira að segja sagði —“

„Nóg!“ sagði konungurinn og þögn sló á.

Og hann mælti: „Valur, þegar þú skiptir á hesti þínum og peningunum virtist þér þá stúlkan vera veil?“

Hik kom á piltinn, þá svaraði hann: „ Ég vil ekki halda því fram, herra minn, að ég hafi ekki veitt því athygli, en ég sá ekkert sem benti til að hún væri feig.“

„Hver veitti því þá athygli? Tali sá er vissi stúlkuna feiga!“

Mannsöfnuðurinn þagði.

Enn mælti konungur: „Þú festir kaup á stúlkunni. Með því keyptir þú veilindi hennar einnig. Vöggur hermaður skal halda hrossi sínu, en sóma síns vegna og til að skaði þinn verði ekki þrefaldur skilar hann þér gullpeningunum tíu.“

Beiðendur málsins höfðu ekki fleiri orð um það og hurfu á braut. Úr hópi þeirra er á jörðinni sátu risu einir sex á fætur. Næsta mál skyldi tekið fyrir. Við töfðum því ekki lengur og yfirgáfum dómsmálaráðið.

 

13.

Daginn eftir var umboðssveit okkar boðið til málsverðar með Attílu. Mér var heimilt að fara aftur til drottningar.

Við hliðin varð litla fóstran Katafjölskyldunnar á vegi mínum. Hún stóð gegnt mér og ávarpaði mig eins og gamlan vin: „Heyrðu, viltu vera svo vænn að segja mér, ert þú ekki Avzóni (Ítali)?“

„Nei, það er ég ekki,“ svaraði ég og lyfti brúnum.

„Ég spyr af því að sjálf er ég Avzóni.“ Hún andvarpaði. „Móðir mín var Avzóni og ég heiti Djídja. Eða eins og hér er sagt, Djídjía.“

Hve hræðilegt nafn, hugsaði ég.

Stúlkan hélt áfram: „Móðir mín var ein af ambáttum Kata og hér er ég fædd. Hún dó í fyrra, hún hvíli í friði.“ Hún gerði krossmark fyrir sér og deplaði auga á lítið tár.

„Hvað kemur mér það við?“ rumdi ég.

Hún hrökk í kút og roðnaði og fól andlit sitt í smágerðum dökkum höndum. Hún var allt að einu óásjálegur aumkunarverður armingi, eins og strákhvolpur í pilsgopa.

„Eða hvað viltu mér annars?“ spurði ég og nú aðeins mildari rómi.

„Ekki neitt,“ svaraði hún döpur í bragði.

Ég hafði hraðan á, næstum því hljóp við fót til dyngju drottningar.

Þar var sama kvenfólkið og verið hafði daginn áður og auk þess tvær eða þrjár til viðbótar, en Móeik var þar hvergi. Ég teiknaði af litlum innblæstri. Hvar gæti Móeik verið? Var hún að æfa bogfimi eins og fyrri daginn? Og þá með hverjum?

Enn hlaut ég lof kvennanna fyrir teikningar mínar, en ekkert hrós fékk nú hrært hjarta mitt. En ég horfði á þær brattur á manninn og óskaði mér þess að á meðal þeirra leyndist ein að minnsta kosti jafn fögur og Móeik, ef verða mætti mér til hugarhægðar. En engin jafnaðist á við Móeik. Að henni undanskilinni eru húnverskar konur ekki heldur eins fallegar og þær grísku. En Móeik — hún var morgunstjarnan á meðal stjarnanna.

Um hádegi var komið með snáðann Eitílu — þann fagurleita litla skelmi með tindrandi brám. Hann hlýtur að hafa verið nýkominn úr baði því hann var með blautt hár. Hann var á ilskóm og fínn og strokinn í skarlatlitum silkiklæðum og fótleggirnir reimaðir gullþvengjum að hnjám.

Konurnar kysstu prinsinn hver og ein en hann aðeins móður sína. Jafn skjótt var hann kominn til mín þar sem ég var að gera rósirnar. Hann skoðaði teikningarnar gaumgæfilega, einblíndi svo á mig.

„Hver ert þú?“ spurði hann af einskærri forvitni barnsins.

„Ég er Grikki,“ svaraði ég brosandi, „frá fjarlægu landi, þar sem er vagga ævintýranna.“

Þegar ég hafði sagt það, starði hann á mig enn fastar.

„Hefur þú einhvern tíma séð álfa?“

„Það hef ég.“

„Og hefur þú séð garlakerlingar?“

„Já, ég hef einu sinni séð þannig kerlingu.“

„En þú hefur þó aldrei séð sjöhöfða skrímsli?“

„Jú, það hef ég reyndar.“

„Lifandi?“

„Á lífi, en vísu aðeins einhöfða.“

„Einhöfða? Spúði það eldi?“

„Nei, ekki beinlínis eldi.“

„Hverju þá?“

„Gulldiskum — í hausinn á húsbónda sínum!“

Eitíla starði nú alveg stjarfur en konurnar hlógu.

Jafnvel drottningin gat ekki að sér gert að brosa, tók þá son sinn í fangið og kyssti hann. „Farðu nú, hesturinn þinn bíður eftir þér. Mundu að þú átt ekki að fara upp til gestanna fyrr en þeir hafa matast, og þú mátt ekki toga í skeggið á þeim né heldur leika þér að gullkeðjunum þeirra. Sittu prúður við hlið föður þíns og sýndu af þér alvöru eins og hann.“

Loks var ég einnig frjáls að því að fara, og út kominn gekk ég hringinn í kringum hús Katanna en fékk hvergi komið auga á hina húnversku mey.

Ég meira að segja tók þá áhættu að litast um í kringum konungshöllina. Þar gekk ég fram á hóp hermanna sem voru æði skrautlega búnir. Voru sumir með hetti uppi eða öllu heldur hjálma úr hausfillum og höfuðskeljum uxa eins og það var af skepnunum komið með hornum og lafandi kollhúfum. Svo grimmúðlegir voru þeir ásýndum að maður mátti þakka sínum sæla að vera ekki gripinn með það sama og stjaksettur! Hér voru á ferð liðsforingjar af kyni Saragúra, hingað komnir sem sendiherrar.

Það var langt liðið á dag þegar lávarðar vorir komu úr hádegisverðarboðinu.

„Þessari máltíð gleymi ég aldrei,“ sagði Maxímínus funandi af ákefð.

„Hún var stórkostleg!“ Húsbóndi minn kinkaði kollinum.

„Hreint, hreint ævintýraleg,“ stamaði hervarðarforinginn.

Herramennirnir voru allir vel rjóðir í vöngum en hann var auk þess hálf skjögrandi.

Prískus fékk mér strax það verkefni að færa heimboðið í letur; hann vildi lesa mér fyrir á meðan honum var ævintýrið enn í fersku minni, en Maxímínus lét okkur ekki í friði.

„Haldið þið það sé kóngur!“ Hann brann í skinninu af ákefð. „Frétti keisarinn að Attíla éti af askdalli og drekki úr krús úr tré...“

„Það er af einni saman fordild!“ veinaði hervarðarforinginn sem átti orðið bágt með að standa í fæturna.

„Heyr á endemi!“ fnæsti Maxímínus. „Höfðingi sem sest á meðal lýðs síns til að skera úr einhverrri deilu angurgapa um hross, eins og slíkur maður þjáist af fordild?“

„Alltént forsmáir hann gull!“

„Bjóddu honum fullan sekk af því!“

„Þessi villimaður leiftrar af afburða andlegu atgjörvi,“ skaut húsbóndi minn inn í og hristi höfuðið. „Hláturinn er mælikvarði á mannkosti. Skóarinn rekur upp hrossahlátur. Lærdómsmaðurinn einasta kímir. En í hvaða dilk skal þá draga þann sem sýnir ekki minnstu svipbrigði, hvað þá að örli á minnstu brosvipru, jafnvel þegar hirðfífl eins og þessi erkibjálfi Tzérkó sýnir listir sínar?“

Þeir hlógu allir.

„Ég segi það satt,“ sagði Maxímínus, „ég hélt ég myndi springa af hlátri — hann var svo fyndinn!“

Prískus var enn hugsi. „Það þætti mér gaman að vita hvort honum yfir höfuð þótti ekki fíflið skemmtilegt, eða hvort hann langaði hreint ekkert til að hlæja.“

Athugasemdin var skilningi Maxímínusar ofviða. Það var hinn líffræðilegi Attíla sem hann batt hugann við, áhugi Prískusar var bundinn við hinn andlega. Þannig bar það til dag þennan, að ég seint og um síðir uppgötvaði hvað í raun skildi á milli þeirra mælskumanna.

 

14.

Daginn eftir rigndi. Húnarnir ranghverfðu bjórum sínum og skinnum svo að loðfeldurinn sneri út, jafnt skinnunum er voru tjöldunum til hlífðar sem og skjólflíkum sínum og axlarskinnum. Mér þótti sem ég væri staddur í bjarnaborg!

Hvað sem rigningunni leið var engu að síður fjöldi fólks fyrir framan konungshöllina, svo sem fyrri daginn. Hús Katanna blasti við frá tjaldinu okkar, og ég sá Móeik birtast í dyrum, í kápu er féll laust að líkamanum og var úr svansfjöðrum. Hún steig á bak vöðvastæltum gráum hesti er var leiddur af þræli æði svíramiklum. Hljóp hann með klárnum að drottningarbústaðnum.

Því var það að ég mátti til að fara þangað líka. Ég þvoði mér og kembdi hárið og úðaði á mig ilmvatni, og fór einnig ríðandi, til að ata ekki ilskóna mína leðju. Ég stökk af baki og lenti þurrum fótum á tréþrepunum. Batt hestinn við staur.

Með drottningu dvöldust nú aðeins tvær konur og virtist hún undrandi að sjá mig birtast. „Ertu kominn til að teikna? En það er alskýjað. Hvað um það, vertu með okkur, ef til vill á eftir að birta.“

Hún sat á legubekknum og var með leirker í kjöltunni, afar fábrotið og ekki gljábrennt. En á dreif í kringum hana á bekkbrekáninu voru skartgripir úr gulli — hálsmen, perlufestar, eyrnalokkar, brjóstkringlur og nælur. Ég furðaði mig á því hví drottningin geymdi önnur eins djásn í svo óbrotnu keri en ekki í silfurskríni eða þvíumlíku. Kannski út af einhverri hjátrú. Eða var ef til vill aðeins gömul siðvenja. Ef til vill arfleifð frá fyrri tímum þegar dróttin hafði orðið að leyna fjársjóðum sínum í ám og vötnum eða gröfnum í jörð niður.

Móeik sat við gluggann. Gagnsæir skjáir úr blöðruhimnum komu manni fyrir sjónir eins og skaraðar ísflögur. Það var skýjafarið sem því olli.

Allar þrjár voru þær að fægja og strjúka skartgripina. Ekki einu sinni drottningin lét sig muna um það. Hún handlék dýrindis mittisgjörð, keðju úr hömruðu gulli sem var sett saman úr hlekkjum í mynd laufgaðra jarðarberjaklasa, og hélt henni uppi fyrir augum mér þegar hún sá hve heillaður ég var af gripnum.

„Hefur þú nokkurn tíma séð aðra eins gersemi?“ spurði hún.

„Ég hef séð ekki ósvipað hjá gullsmiðunum okkar,“ svaraði ég, „en ekkert eins dáindisfallegt og þetta.“

„Ég á jafnvel til enn fallegri muni en þetta,“ sagði drottningin. „En sjáðu, er ekki farið birta — teiknaðu nú fyrir okkur keðjuna, aldrei að vita nema hún geti orðið góð fyrirmynd að útsaumi.“

Ég heyrði það á tali kvennanna að drottningin var að velja gjöf úr skartgripasafninu handa hinu nýja kvonfangi Attílu. Það var til siðs að ný eiginkona heimsækti allar hinar konurnar þegar fyrsta nýtt tungl kviknaði eftir brúðkaup. Það var því ætlun drottningar að fá henni gjöfina við það tækifæri.

Ríka drottning var kona fremur hæglát og allajafna heldur döpur í bragði. Hún talaði fátt og jafnvel þótt hún væri hýr á manninn var blítt bros eina merki þess. Svo oft sem mér gafst tækifæri til leit ég upp frá iðju minni og horfði á Móeik, en vildi svo til að hún væri að baki mér var það drottningin sem ég gaf auga.

Reyndar var Móeik einnig að sama skapi fremur alvörugefin en hneigð til glaðværðar.

Drottningin var að virða fyrir sér armband sett demöntum þegar hún sneri sér skyndilega að mér.

„Hvernig eru armböndin sem grískar konur bera?“

„Af ýmsu tagi,“ svaraði ég að bragði. „Svo fremi þær eigi eitthvað slíkt. Því land okkar er ekki lengur auðugt sem fyrrum, mín hátignarlega frú.“

„Setja þær á sig hálsfestar?“

„Fremur sjaldan, mín hátignarlega frú. Það er trúa þeirra að gullfestar heyri til útlendingum.“

„Og grísku stúlkurnar,“ spurði Móeik, „eru grísku stúlkurnar fallegar? Klæða þær sig á svipaðan hátt og við?“

„Grískar stúlkur eru allar dökkhærðar og dökkeygðar en ljósar á hörund,“ svaraði ég. „En þær eru ekki eins fallegar og húnverskar meyjar. Nú á dögum er klæðaburður þeirra ekki eins viðfelldinn og var fyrr á tímum, þegar þær skörtuðu sínu fegursta.“

„Hvernig klæddust þær þá?“ spurðu konurnar þrjár í sömu andrá.

„Næst sér voru þær í silkitreyju eða einhverju öðru ámóta fínu efni og í stuttu hvítu pilsi sem náði þeim niður að hnjám, og þó heldur styttra.“

„Heldur styttra?“

Þær voru orðlausar.

„Já, heldur voru þau það, sérstaklega pils hinna yngri. Utanyfirklæðin huldu aðeins meira af fótleggjunum. Þau voru úr ljósri, fínofinni ull og talsvert efnismikil á lengdina og haldið saman með sylgju á hægri öxl.“

Ég sá að þær voru ekki alveg með á nótunum. „Mín hátignarlega hefðarfrú,“ sagði ég, „lengdin á efninu gerði þeim kleift að sveipa því og vefja um sig á allrahanda máta — á hundrað mismunandi vegu! Og það féll að líkamanum í svo fallegum brotum og fellingum sem gáfu afar vel til kynna vöxtinn og sköpulag kroppsins innanundir.“

Þá létu þær mig teikna hárgreiðslur. En af því mér tókst ekki sem best upp í þeim efnum báðu þær mig um að sýna sér það á kolli Móeikar hvernig grískar konur settu upp á sér hárið og skildu einn lausan lokk eftir í sveip fram á ennið.

Ég varð svo skjálfhentur þegar ég snerti silkimjúkt hárið á Móeik að ég ætlaði varla að hafa það af að greiða henni. En loksins tókst mér það og hún hvarf inn í næsta herbergi til að virða sig fyrir sér í stóru spegilstáli sem þar var, og var hún svo lengi þar inni að drottningin kallaði loks til hennar að koma — „Móeik, spegillinn ryðgar ef þú hættir ekki að horfa í hann!“

Þá kom hún til baka og við horfðum á hana full undrunar — hún var í treyju einni fata og hvítu pilsi sem náði henni niður að hnjám. Um axlir sér hafði hún sveipað hvítri ullarábreiðu sem lá í fellingum niður með líkamanum. Armar og fótleggir voru berir. Mig svimaði af því að horfa á hana. Hún var eins og blómstrið eina — eins og gróskumikil, hvít ódáinslilja í glaðasólskini.

Hún tók nokkur spor um herbergið og sneri sér í hringi, nam þá staðar fyrir framan mig.

„Líta þær svona út, grísku stelpurnar?“

„Ó, aðeins að svo væri!“

„Er eitthvað sem vantar?“

„Það væru þá ekki nema lokkar á eyrun, mín kæra yngismær, og pálmviðarlauf í hönd yðar, blævæng gróandans.“

Móeik sneri sér að drottningunni. „Þykir yður ég vera fögur, frú mín?“

„Það ertu, barnið mitt,“ játti drottningin brosandi. „Megi líf þitt ávallt vera vera svo fagurt sem þú nú.“

Móeik kyssti hönd drottningar, fór þá til baka inn í hitt herbergið til að hafa aftur fataskipti, kom síðan aftur fram í sínum eigin klæðum og tók til við að sauma út eftir einni af myndunum mínum.

„Syngdu fyrir okkur, Móeik!“ bað drottningin. „Mér líður svo vel í dag, við skulum njóta dagsins til fullnustu.“

Móeik lagði blómstursauminn frá sér í kjöltuna og byrjaði að syngja lágum, hlýjum rómi.

 

Grundin er græn. Kastanían brumar.

Gatan hvarf, og hvað eina, í regni vorsins.

Fer ekki ástin mín að koma heim aftur?

Ástin mín, hermaðurinn besti, sveina okkar.

 

Hún horfði beint fram fyrir sig á meðan ljóðið rann henni af vörum, eins og hún sæi fyrir sér sagnadansinn ljóslifandi. Þá hallaði hún sér fram og lagði olnboga yfir saumgyrðið sitt, sveigði höfuð á báða bóga og söng enn:

 

Ó, hve ég hlakka til þegar vorið líður hjá!

Vortíðin gengin um garð, langir sumardagar;

sólarblóm upp vaxið, dagar uppskerunnar hér;

heimkoma hermanna á hausti.

 

Í fyrstunni fékk ég ekki skilið þennan söng og hvernig merkingartengslum orðanna var háttað. En þannig er húnverskur sagnadans — eins og hálsmen sundurslitið, en sem hefur verið sett saman aftur nokkrum perlunum styttra.

 

Skógargreinar naktar. Fýkur lauf fyrir vindinum.

Herinn kominn heim úr fjarlægum löndum.

Aðeins einn mann vantar; einn varð eftir.

Til einskis ég beið hans — aldrei kemur hann.

 

Tjörvi, ertu í jörðinni, hermaður? — eða á himnum?

Jörðu eða á himnum, mundu mig, ástin mín.

Komdu, tak mig á brott með þér í bláa sali upphimins,

eða legg mig í gröf þína dökkum með skuggunum.

 

Hvað rýfur þögnina, ber að dyrum?

„Komdu nú, dúfan mín, hjartað mitt,

ég komst ekki fyrr!

Fákur minn í tunglsljósinu blikar,

hvítur fölskvalaus,

eins og þegar vetrarþokan bliknar fyrir ljósinu.“

 

Stúlkan er ferðbúin, búin sínu hvítasta; ein hún stendur,

marrósarsveigur í hári, blóm í hendi.

Þannig var hún, þegar þeir fundu hana í birtingu:

Á götunni, í stígvélum, rauðum og smáum; búin sínu hvítasta.

 

Þegar söngnum lauk var höfuð hennar lotið og augun rök, og eins var um drottningu farið.

„Vesalings Rósa,“ sagði drottningin. „Hefði hún ekki getað fundið sér einhvern annan pilt?“

„Sumar stúlkur, frú mín,“ svaraði Móeik, „eru eins og blóm sem springa út aðeins einu sinni.“

Þá veitti ég því athygli að þær voru farnar að ræða eitthvað um mig, og ég var ávarpaður af drottningu.

„Hverjir voru foreldrar þínir?“ spurði hún. „Og hver kenndi þér að vera svona flinkur í höndunum?“

Ég rumskaði af draumum mínum.

„Mín göfuga frú,“ svaraði ég, „foreldrar mínir voru fátækt fólk sem átti heima við ströndina. Faðir minn er með brúnt hár og stór augu og þykkt yfirvararskegg. Móðir mín var grannholda kona og lág vexti — Guð veri sálu hennar náðugur. En mér var aldrei kennt að teikna, aðeins veitti því athygli sem í kringum mig var; reyndi að teikna það og komst allt í einu að því að ég gat það.“

Enn furðaði ég mig á því að annar eins páfugl og drottningin skyldi vilja vita eitthvað um eitt lítið ræfils spörvaskinn eins og mig.

„Og hvað kom til að þú kynntist meistara þínum, Prískusi?“ spurði hún mig enn nánar. „Hvar fá þessir karlar fundið svo skynsama þræla?“

„Hátignarlega hefðarfrú, ég er enginn þræll lengur. Ég þjóna húsbónda mínum af frjálsum vilja.“

„Af frjálsum vilja?“

„Af því að mér þykir vænt um hann,“ svaraði ég.

„En þú hefur yfirgefið föður þinn og móður hans vegna?“ spurði drottning.

„Nei, mín göfuga hefðarfrú. Þegar ég var tólf ára gamall var ég látinn létta þyngsta fátæktarokinu af fjölskyldu minni. Í landi okkar eru lagðir afar þungir skattar á fólk, og ríkið selur réttinn til að heimta þá inn. Skattheimtumaðurinn safnar ekki aðeins þeim fjármunum saman sem hann skenkir ríkisfjárhirslunni, heldur einnig nógu til að troða út sína eigin vasa. Faðir minn átti smá landskika og horaða kú, hana Skjöldu, og þegar skattheimtumennirnir fundu ekkert sem fémætt var eftir í húsinu ætluðu þeir að taka hana með sér. Faðir minn var fátækur maður og varð að sjá sex litlum börnum farboða. Ég var elstur ... og hvað annað gat hann gert?...“

„Sjálfur faðir þinn seldi þig?“

Hún smellti saman lófum og starði á mig.

„Mín hátignarlega hefðarfrú,“ svaraði ég hæglátlega, „áratugum saman hefur keisaradæmið orðið að gjalda Húnum skatt. En keisarinn sáir aldrei, aðeins uppsker. Fólkið sker upp hveitið, hann fólkið. Sem lítill drenghnokki vissi ég ekki hvað ánauð var. Ég komst ekki að raun um það fyrr en ég varð að kveðja bræður mína og systur og móður.“

Ég gat ekki tára bundist en hélt frásögninni áfram. „Þá lá móðir mín veik, en faðir minn hafði ekki sagt henni frá því hvað hann hugðist fyrir. Og áður en við fórum leiddi hann mig til hennar til að ég mætti fá kysst hana að skilnaði. Móður minni varð þá litið á föður minn og um leið vissi hún hvað hann ætlaðist fyrir. „Þú selur hann ekki. Þegar ég verð orðin frísk getur þú selt mig!“ Og á meðan hún faðmaði mig að sér dó hún.“

Konurnar horfðu á mig fullar meðaumkunar. Einnig Móeik. Drottningin hleypti brúnum. „Svo að faðir þinn hefur engu að síður selt þig?“

„Við fylgdum móður minni til grafar, stigum svo á skipsfjöl. Daginn eftir var ég kominn á þrælamarkaðinn, stóð þar á palli með fætur hvítþvegna.“

Augu drottningar myrkvuðust og hún þrýsti höndum að hnjám sér. Svo bægði hún frá sér öllum skartgripunum, og svo harkalega, að þeir hentust út í horn.

„Bannsettir rummungarnir!“ hrópaði hún, og henni brann eldur í augum. „Hvenær fáum við brotið veldi þeirra á bak aftur og lagt það undir okkur? Hvenær fáum við komið hinni nýju skipan á í þessum heimi? Hve lengi ætlar Attíla að sitja auðum höndum áður en hann lætur til skarar skríða og kollvarpar þeim?“

Ég stirðnaði af skelfingu.

Drottningin stóð á fætur og gekk til svefnherbergis síns. Konurnar fylgdu henni á eftir kvíðafullar. Forhengið milli herbergjanna féll að baki þeim.

Þjónustustúlkan kallaði á tvær konur aðrar sem tíndu skartgripina saman og fóru með þá burt.

Ég stóð stífur í sömu sporum og gat ekki annað, var sem bergnuminn, eins og hjarðsveinninn í ævintýrinu. Það var skilningi mínum ofvaxið hvað gerst hafði. Hvað átti ég að gera? Fara, eða bíða eftir því að þær kæmu til baka? Ekki gat ég farið án leyfis drottningar, eða að minnsta kosti ekki fyrr en einhver segði mér að drottningin æskti ekki frekari þjónustu af mér þennan dag.

En kannski hafði ég látið eitthvað verulega kjánalegt út úr mér og fengi nú á baukinn fyrir. Eða yrði jafnvel stjaksettur fyrir að hafa valdið drottningu hryggð.

Einn glugginn var opinn, ég gekk að honum og leit niður.

Það rigndi enn látlaust og stórir dropar bóluðu upp af hverjum polli. Enn var mannsöfnuður mikill fyrir framan höll Attílu og gegnvætti sig.

Þræll stóð við tjaldið okkar og var að vinda rennblauta, brúnleita yfirhöfn. Hross þar í grennd bentu til þess að hinir rómversku erindrekar væru í heimsókn. Hreyft var við forhenginu og Móeik birtist. Hún gekk yfir til mín að glugganum.

„Frásögn þín olli drottningu mikilli geðshræringu og hún er í miklu uppnámi,“ setti hún ofan í við mig. „Þú hefur sýnt af þér ósæmilega hegðan — eða leyfist þér kannski í landi þínu að ræða eitthvað í áheyrn drottningar sem gerir hana sorgmædda?“

Hún talaði lágum rómi sem hún setti þannig ofan í við mig — en ég hlustaði ekki einu sinni eftir því sem hún sagði, aðeins á röddina, röddina þýðu, þá undirþýðu... Hve yndisleg hún var sem hún stóð yfir mér, álút — eins og ódáinslilja hvít í vorþeynum!

Varirnar unaðslegu og rauðu mæltu þá til mín, eftir stundarþögn:

„Vesalings Zeta. Víst máttir þú líða mikið. En láttu það ekki á þig fá — Attíla á eftir að sýna þessum harðstjóra í tvo heimana, og þá verður gríska þjóðin hamingjusöm eins og við Húnarnir núna.“

„Ó, mín kæra yngismær,“ hvíslaði ég hugfanginn, „mér hverfur öll sorg sem dögg fyrir sólu þegar þér horfið á mig og ég finn hve yður er hlýtt til mín.“

„Öðruvísi talaðir þú til mín um daginn. Þá hataðir þú mig.“

„Mér mun ávallt þykja það ákaflega leitt, af því...“

„Mér þykir leitt að hafa sært þig. Af því þú ert góður drengur og hjarta þitt er stórt. En farðu nú. Við teiknum ekki meira í dag.“

„Mín kæra yngismær,“ hvíslaði ég, frá mér numinn af gleði. Hjartað ólmaðist í brjósti mér. „Mín kæra ... leyfist mér nokkru sinni að vona að þér réttið mér hönd yðar öðru sinni, svo ég fái kysst hana. Guð á himnum gefi að svo megi verða!“

Hún virti mig fyrir sér, brosti þá lítið eitt, líkt og maður brosir að kjánastrikum krakkaanga.

„Fyrst það er ekkert annað sem yður liggur á hjarta — þá skal yður hér með veitt sú himnaríkisnáð!“ — og hún rétti mér hönd sína.

Ég tók hana í mínar tvær, eins og ég væri með fugl í hendi og léti vel að, kraup á kné, og kyssti hana...

„Farðu nú!“ sagði hún og dró höndina aftur hægt að sér. „Held þú sért ekki með öllum mjalla!“

 

15.

Ekki æskti drottningin nærveru minnar daginn eftir — þó að eðli málsins samkvæmt væri ég þar í námundan, klæddur í mitt fínasta, að skyggnast eftir Móeik. Sólin hafði brotist úr skýjum fram og bakaði drulluna sem brátt varð þétt eins og kökudeig. Loftið var þrungið angan af rakri jörð og hrossataði, og ekki þar fyrir, þá var það hreint og heilnæmt að anda því að sér.

Ungur brúnhærður maður um það bil sautján ára gamall kom ríðandi að bústað Kata. Hann skartaði listavel gerðum gullkeðjum og var með arnarfjöður í hetti sínum. Fylgdu honum tveir þjónar sem einnig voru ríðandi. Þar fór Alöður konungsson. Hann virtist lítt kenna sér meins í handleggnum en hafði þó stungið höndinni á milli hnappa á möttli sínum.

Konungssonurinn hvarf inn um hliðin og birtist brátt aftur ásamt Móeik og freknóttu stúlkunni ánauðugu. Ég var staddur fyrir framan tjaldið okkar og hneigði mig djúpt í virðingarskyni við Móeik. Ekki veit ég hvort hún endurgalt kveðjuna. Grár vöðvastæltur folinn hennar dansaði í drullunni sem tók honum í hófskegg, og sá ég naumast meira af knapa og hesti í þeirri sjónhending sem ég bugtaði mig — og þó einnig smágerða rauða skúa er hvíldu í gylltum ístöðum.

Hinn tiginborni ungi maður reið við hlið hennar, og um eitthvað skemmtilegt hafa þau spjallað, því öll þrjú hlógu þau hjartanlega. Þau staðnæmdust rétt augnablik fyrir framan höll Ríku drottningar og spurðu varðmanninn einhvers. Tók hann ofan hött sinn og hneigði sig þrisvar. Þá riðu þau áfram og hurfu inn á milli húsa Attílu konungs.

Aldrei hef ég verið stunginn á hol, en á þessari stundu gat ég ofur vel ímyndað mér hvernig það væri.

Síðdegis heimsóttum við rómversku sendimennina í búð þeirra. Ég talaði ekki við neinn — gat ekki sest á meðal tignarmannanna og þóttist yfir þjónana hafinn. Því gerði ég mér að góðu að tylla mér einn á tjaldhælstand og góndi út í loftið.

Þegar við vorum að fara spurði húsbóndi minn mig: „Gengur nokkuð að þér?“

„Ekki neitt,“ svaraði ég undrandi.

„Þú ert svo tómlátur,“ sagði hann. „Þú ert þó ekki með magakveisu? Þessir húnversku málsverðir ... ja, góðir eru þeir, en ætli veitti af húnverskri kviðarholsvömb til að fá melt þá!“

Gamall maður er Adam hét var ráðsmaður drottningar. Kom hann til okkar morguninn eftir til að bjóða lávörðum vorum til miðdegisverðar, sem skyldi þó ekki neytt í höllu drottningar heldur í húsi Adams. Voru herramennirnir nokkuð við skál þegar þeir sneru heim að hófinu loknu. Gaf Prískus þá skýringu að margir tignir gestir hefðu verið samankomnir og keppst um að mæla fyrir minni drottningar og hefði henni verið drukkið til hverju sinni.

Sami háttur var hafður á þegar þeir tóku heimboði Attílu og féll þeim siðvenja þessi vel í geð, og raunar hreif þá heldur en ekki!

Prískus tók til við að lesa mér dagbókina fyrir, en fékk það eitt sagt að drottningin væri töfrandi kona og svo aðlaðandi, að í þeim efnum mætti Púlkería keisaraynja taka hana sér til fyrirmyndar. Eftir skamma stund bað hann mig þó um að strika út athugasemdina um keisaraynjuna og sagði mér að skrifa það sem mér sjálfum sýndist.

Við höfðum nú verið í borg Attílu svo dögum og vikum skipti og voru lávarðar vorir farnir að leggja hart að yfirhershöfðingjanum að hann gæfi út yfirlýsingu um gang viðræðnanna. Alla fýsti að fara heim. Alla, að mér undanskildum.

Dag nokkurn seint og um síðir heimsótti hershöfðinginn okkur ásamt herramanni nokkrum er Börkur hét, en sá hafði komið í tvígang til dvalar við keisarahirðina. Þeir höfðu bréf meðferðis. Svar Attílu. Lávarðar vorir brunnu í skinninu er þeir litu innsiglið augum.

Við skyldum halda heimleiðis í bítið morguninn eftir. Mér var þungt um hjartarætur þegar ég aðstoðaði þjónana við að búa um farangurinn. Ég bað Prískus leyfis um að fá að skreppa til drottningar í stundarfjórðung, en um það neitaði hann mér. „Það væri ekki við hæfi að þú færir þangað núna — hún gæti litið svo á að þú værir kominn til að æskja þóknunar.“

Aldrei hafði það hvarflað að mér.

Síðdegis var komið með eina þrjátíu úrvalsgæðinga til okkar, auk vopna af ýmsu tagi. Voru þetta gjafir herramönnum vorum til handa frá Attílu og þeim öðrum fyrirmönnum er þeir höfðu komist í kynni við.

Þeir þáðu þó aðeins þrjá hestanna. Hélt Maxímínus eftir einum jörpum, er Börkur hafði gefið, og húsbóndi minn tveimur gráum, einum frá Attílu og einum frá Kata. Því sem eftir var af stóðinu létu þeir reka til baka.

Á meðan við bjuggum um farangurinn gultu herramennirnir hinar hefðbundnu kveðjuheimsóknir. Fóru þeir til drottningar og Adams ráðsmanns, og til yfirhershöfðingjans, til Kata og skylduliðs, til Edékons og Órusta. Þá leit húsbóndi minn einnig inn til Frjálsa Grikkja.

Drottningin var með höfuðverk og veitti því engum móttöku, en um kvöldið birtust tveir þjónar hennar með tvo af gæðingum hennar í taumi — og færðu mér litla silkipyngju.

Ég bar kennsl á annan þjónanna, sem var með þrjár silfraðar stjörnur á hetti sínum. Hann var vanur að standa vörð við hliðin.

„Drottningin færir þér þetta,“ sagði hann. „Það eru tvær stórar sláttumyntir í pyngjunni og sex minni. Hún sagði að þú ættir aðra þeirra stærri en skyldir senda föður þínum hina. Þær sex minni eru handa bræðrum þínum og systrum.“ (Hún hlýtur að hafa gleymt því að við vorum alls sex systkinin.)

Ég hefði getað grátið. Ég leit á Prískus til að vita hvort mér leyfðist að þiggja gjöfina og hann hneigði höfuð sitt því til samþykkis.

„Segið hátignarlegri hefðarfrúnni,“ hvíslaði ég þakklátum rómi, „að ég muni halda nafn hennar í heiðri allt til dauða og að ekkert fengi glatt mig meira en að fá kropið á kné í nærvist hennar einu sinni enn.“

Lávarðar vorir þáðu ekki gæðinga drottningar heldur lýstu því yfir að þeim þættu þeir ekki verðugir slíks höfðingsskapar. Það væri þeim yfrið nóg, sögðu þeir, að standa í ævarandi þakkarskuld við hana fyrir þann fjársjóð minninga er þeir varðveittu í hjörtum sínum.

Ég dró mig í hlé á bak við eitt af farangurseykjum okkar og opnaði pyngjuna. Þar leyndust tveir stórir egypskir gullpeningar og sex litlir rómverskrar ættar, frá tímum Júlíusar Sesars.

Herramennirnir undruðust stórum er þeir sáu þá, og enda voru þeir tveir hinir stærri á við lófa barns.

Húsbóndi minn sagði að gamni sínu: „Því ræður þú mig ekki í þjónustu þína? Þú ert greinilega sá okkar sem ríkari er!“

Víst gáfu gullpeningarnir hugarfluginu byr undir báða vængi. Ég ákvað með sjálfum mér að ég skyldi grennslast fyrir um stöðu föður míns strax þegar við kæmum heim, og byggi hann enn við sömu kröppu kjörin skyldi ég sækja hann heim og færa honum tvær kýr og klæði og það annað sem hann þyrfti með. Fyrir afganginn af peningunum skyldi ég kaupa handa honum landskika og hús, og við myndum halda slíka hátíð að aldrei liði þorpsbúum úr minni.

Á meðan á öllu þessu gekk var ég að skima í kringum mig í von um að koma auga á Móeik. Á meðan hún átti hug minn allan, þóttu mér auðæfi mín lítils virði. Ég átti mér þá ósk heitasta að ég væri örn og gæti steypt mér yfir hana og numið á brott, eins og dúfu, upp, upp til skýja — og heim.

En maðurinn er vesæll armingi, eins og ormur sem sniglast um foldu.

Sól var að hníga til viðar og á götum bæjarins bauluðu kýr á leið heim úr haga og þyrluðu upp ryki. Engu að síður sátu lávarðar vorir úti við tjaldskör og gerðu kvöldskattinum skil, kaldri nautasteik og osti.

Hvernig gæti ég komist nær húsi Kata?... Ef ég gengi gegnum hallargarðinn fengi ég ef til vill komið auga á hana... Aðeins einu sinni enn — ó, hve ég þráði að mega líta hana augum, aðeins einu sinni enn!

Hliðunum hafði ekki enn verið lokað og slangur af fólki enn á ferli. Stæðilegur þræll stóð á verði við garðshliðin, studdi sig við spjót, geispaði og teygði úr sér. Annar þræll burðaðist með fangfylli af illgresi í námundan við hliðin. Úr átt frá eldaskálanum kom þræll á hlaupum með luktan skaftpott í hendi og hélt inn á strætið. Þykkan reykjarmökk lagði frá pottinum.

Öllum varð starsýnt á þetta. Því að í borginni er aldrei sóttur eldur til nágrannans. Þar er ætíð nóg af þrælum — og einn sem ávallt gætir eldsins, jafnvel á nóttunni líka, svo tryggt sé að hann kulni ekki. Og ég greip tækifærið á meðan fólkið góndi á og smokraði mér inn um hliðin, inn í húsgarðinn. Ef til vill kæmi ég auga á hana hinum megin hússins. Kvöldið var stillt og svo gæti viljað til að kvöldverðarins væri neytt úti undir beru lofti við kyndilljós. Aðeins að ég mætti fá hana séð — þó að ekki væri nema skugga hennar — aðeins einu sinni, allra síðasta sinni...

Ég fór á bak við húsið. Einnig þeim megin var inngangur og dyrastafirnir málaðir svo sem á fordyrinu. Á þröskuldinum sat Húni, loðinn í vöngum og studdist við spjót. Hann leit til mín.

„Er herra Kati heima?“ spurði ég eins sannfærandi rómi og mér var unnt.

„Nei, það er hann ekki,“ svaraði hann að bragði.

„En hin, eru þau heima?“

„Þau eru það.“

„Og þá hefðarfrúin?“

„Það er hún.“

„Og unga hefðarkonan? Yngismey Móeik?“

„Einnig hún.“

„Sjáðu til, ég týndi silfurhnappi. Ég hlýt að hafa týnt honum þegar við vorum hér síðast. Finni ég hann ekki lætur húsbóndi minn mig heyra það.“

„Þú skalt eiga það við sjálfan þig.“

Ég gekk í kringum húsið og þóttist leita að hnappinum. Þá kom grannvaxna, unga ambáttin, Djídjía, út í glugga á jarðhæðinni.

„Nei, hver er nú þar á ferð? Gamli, góði Zeta!“

„Ert það þú, Djídjía!“

Það var sem mér létti.

„Ég hef týnt dálitlu, Djídjía. Það er aðeins hnappur.“

„Hnappur? Ég finn hann fyrir þig í fyrramálið og kem honum til þín í tjaldið. En núna þarf ég að koma Sólargeisla litla í rúmið.“ Hún hélt á litla drenghnokkanum við brjóst sér.

„Við verðum ekki hér lengur í fyrramálið,“ sagði ég. „Við erum á förum.“

„Ó ... eruð þið að fara?“ Og hún horfði á mig stórum augum, fullum einlægni. Einhver kallaði á hana að innan.

„Ó, það er verið að kalla á mig,“ sagði hún og var brugðið. Hún lagði barnið frá sér, sem var þá þegar sofnað, og hvarf síðan.

Enn um stund var ég á stjákli kringum húsið og lagði vel við hlustir, gekk þá að bakdyrunum þar sem vörðurinn var. Þeim megin var garðurinn lítill og fallegur og á annarri hæð hússins voru svalir, fagurlega útskornar. En þar var enginn sjáanlegur.

Í eldaskálanum á neðri hæðinni söng þjónustustúlka við undirleik og glamur af búsáhöldum. Ég dirfðist ekki að horfa svo hátt upp sem á risið heldur mændi áfram á jörðina fyrir fótum mér, eins og ég væri að leita.

Sólin settist að baki espiviðartrjánum í fjarskanum og kastaði síðustu geislum sínum á húsið. Ég veitti athygli rauðum blómsturjurtum í garðinum. Grængullin fluga fór hringfari í kringum mig, suðandi.

Sem ég stóð þar álútu höfði féll rós á jörðina fyrir fótum mér. Mér varð brugðið og leit upp. Það eina sem ég fékk séð var hönd sem hvarf á samri stundu inn um glugga á rishæðinni. Ég tók rósina upp og beið átekta. Ferska angan lagði af blóminu, og stilkurinn var enn volgur viðkomu.

En enginn lét sjá sig.

Hliðunum hafði þá þegar verið lokað. Þræll þeytti lúður og seinustu knaparnir riðu leiðar sinnar í húminu.

 

16.

Við lögðum upp í dögun, þegar rétt roðaði af sól við dagsbrún. Tjaldborg Húnanna ómaði af bauli nautgripahjarða og rýti svína. Við felldum tjöldin sem eftir voru og settum þau á vagnana; herramennirnir stigu á bak reiðskjótum sínum, sem og ég.

Ég einblíndi svo sjónum á timburhöll Kata að ég varð úrvinda. Dökkrauð tjöld voru fyrir öllum gluggum og ekkert lífsmark með húsinu, ekki minnsta hreyfing í nokkrum glugga.

En rósin var á sínum stað, fólgin við hjarta mitt.

Hafði hún fallið úr hendi hennar? Eftir ærnar vangaveltur og heilabrot ályktaði ég að svo hefði verið. Og þó hvarflaði að mér að hugsanlega hefði blómið getað fallið fyrir tilviljun. Það var ekki útilokað að einhver krakki eða þjónustustúlka hefði hent því út.

En víst gat það hafa verið hún!

Enn horfði ég afturundan. Aðeins að ég fengi séð hana, þó að ekki væri nema úr fjarlægð, ég gæti þá alltént veifað til hennar húfunni minni í kveðjuskyni!

En tjöldin byrgðu þá þegar sýn til timburhúsanna. Baulandi kýrnar og rýtandi svínin komu hvaðanæva að út á strætið. Það small í svipum og lúðrar voru þeyttir. Rósfingruð röðulgljáin stirndi við dagsbrún. Runninn var upp nýr dagur í henni gömlu veröld.

Aldrei framar fengi ég að sjá húsið — þetta fallega fuglabúr af húsi að vera né heldur fuglinn flögrandi er þar var fólginn... Aldrei, aldrei...

 

17.

Hve gott það væri nú að geta girt huga sinn flóðgarði, til að hugrenningar ýmsar flæddu þaðan ekki út en fengju að sjatna um skeið í bullukollinum.

En bullan mín strokkaði án afláts, og nú hugrenningar tengdar Frjálsa Grikkja — sem fyrrum hafði einnig ánauðugur verið og mátt búa við meiri vesaldóm en ég nokkru sinni. Ég átti átta gullpeninga, auk hundraðs til viðbótar. Frjálsi Grikki hafði verið rúinn öllu sínu og ekki átt einn koparskilding, hvað þá meir. Og hafði hann þó verið eldri en ég nú var, þá orðinn þungur á fæti og svifaseinn og hafði ekki notið slíkrar menntunar sem ég; hafði hann þó engu að síður farið í stríð og barist af hreysti og verið sviptur oki þrældómsins fyrir vikið; varð þá ríkur maður og kvæntist húnverskri konu. Húnverskri konu!

Einmitt hér hefði ekki veitt af að girða hugarórana af með stíflugarði. Allt frá því að við höfðum lagt af stað heimleiðis höfðu þeir haldið fyrir mér vöku og gert mér ókleift að njóta matarins. En hvernig gæti ég snúið aftur? Hvernig gat ég fengið mig lausan frá húsbónda mínum? Hvernig átti ég að geta tjáð honum að ég hygðist snúa aftur til stúlku sem að öllum líkindum var alin upp með það fyrir augum að hún yrði eiginkona eins af sonum Attílu? Þá var hugmyndaflugið komið á það stig, að ég hugðist láta gullpeningana hundrað í Miklagarði eiga sig — í litlu pyngjunni rauðu hans Prískusar — og sniglast í burt, til baka. Enn braut ég heilann og fékk nú þá flugu í höfuðið að taka gullpeningana mína hundrað á laun úr sjóði húsbónda míns. En hugmyndin skelfdi mig og ég bægði henni á brott hið bráðasta.

Þá flaug mér í hug að leggjast niður við vegarbrúnina og látast ætla að hvíla mig — og verða eftir. Og snúa til baka til Ríku drottningar og beiðast þess að fá að þjóna henni, því að hún vissi að ég var frjáls maður. En hvað ef hún skyldi hafa gleymt því sem ég hafði sagt henni frá? Eða hafnaði mér? Síðustu daga dvalar okkar hafði hún ekki einu sinni æskt nærveru minnar!

Og hvað nú ef hún tæki mér sem hreinum og klárum strokumanni og léti senda mig í böndum til baka til húsbónda míns?

Á nóttunni horfði ég á tunglið og grét sáran yfir því hvernig komið var fyrir mér. Festi ég blund hélt hugarstríðið áfram í draumum mínum, þeir snerust allir um orrustur og dráp — eða um sjálfan mig drepinn. Ég sem þoldi ekki að sjá blóð, var nú allur á valdi þeirrar hugmyndar að verða svo mikils háttar maður sem Frjálsi Grikki!

Istelfur var drjúgan spöl að baki þegar við heyrðum til mannaferða framundan, var þar Vígilás og lið hans á ferð, ásamt Eslási og einum þrjátíu liðhlaupum föngnum. Voru þeir á leið til Attílu. Það var aðeins numið staðar skamma stund og skipst á fáeinum orðum. Lávarðar vorir tjáðu félögum sínum að þeir hefðu meðferðis svarbréf Attílu til keisarans og Vígilás okkur að frásögn hans af reiði Attílu hefði ollið miklu uppnámi við hirð Þeódósíusar.

Og við skildumst. Þeir héldu för sinni áfram í norður, við suður á bóginn, skref fyrir skref.

Um hádegi varð ég að taka skriffærin mín til. Skömmu áður höfðum við orðið vitni að stjaksetningu; þrír karlar höfðu verið stjaksettir og nú vildi Prískus að ég festi atburðinn á blað, ásamt öðru sem á daginn hafði drifið. Það var sumar og sólin skein glatt í heiði og yljaði okkur svo ríkulega að herramönnunum þótti ástæða til að leggja sig að afloknum hádegisverðinum.

Það var í skógi sem við áðum og því ástæðulaust að slá upp tjaldi. Skuggi af eik veitti okkur svala. Ég settist niður í forsælunni undir tré rétt hjá, með papýrusinn og blekið. Húsbóndi minn sofnaði útafliggjandi með hendur undir hnakka og yfir honum blökuðu þrír þrælar blævængjum hæglátlega.

Ég tók hreinan papýrusinn upp úr skrifskjóðunni minni og reit á örkina:

 

 

Virðingarfyllst, til herra Kata

 

Ágæti herra. Ég hef verið að hugsa um það á leiðinni hve mikill öndvegismaður þér eruð og vel innrættur, og hvort ekki væri við hæfi að ég launaði yður góðvild yðar. Þér hafið af rausn yðar gefið mér gæðing sem jafnvel keisarinn mætti öfunda mig af. Því er það, að ég gef yður þræl sem jafnvel Attíla væri fullsæmdur af. Hann á eftir hálft ár í þjónustu. Megi hann verða yðar það hálfa ár.

Þræll þessi er á við gull og gersemi. Minni hans er haldgott sem vax. Þér getið þulið yfir honum hundrað mismunandi tölur og hann mun hafa þær upp eftir yður. Eins getið þér nefnt hundrað framandleg nöfn í hans eyru og hann mun geyma þau í minni sínu. Hann er mæltur á grísku og latínu og á yðar eigin tungu. Hann er vel að sér í sögu, heimspeki, landafræði, málfræði, mælskulist og skrautskrift. Hann heitir Þeófíl en ég hef ávallt nefnt hann Zetu, og því nafni gegnir hann. Verið svo vinsamlegir að þiggja hann af mér að gjöf.

 

Virðingarfyllst,

Prískus, meistari í mælskulist

 

 

Innsigli húsbónda míns var geymt í litlu og meðfærilegu skrifpúlti. Ég innsiglaði bréfið og stakk því inn á mig.

Enn voru herramennirnir í fasta svefni og þjónarnir einnig sofnaðir.

Ég skrifaði því annað bréf.

 

 

Til Prískusar, meistara í mælskulist, húsbónda míns og föður

 

Þrátt fyrir það að ég hef miklar mætur á yður, minn kæri meistari, verð ég að yfirgefa yður nú. Ég get ekki sagt yður hvers vegna, en grátbæni yður um að áfellast mig ekki fyrir vanþakklæti. Því að minningin um það hve góðhjartaður þér eruð, mun ávallt kalla fram tárin í augum mínum, og ávallt skal ég blessa nafn yðar.

Þér voruð svo veglyndir að færa mér hundrað gullpeninga að gjöf. Nú hef ég leyft mér að taka þá, að einum slepptum, úr pyngju yðar. Verið svo góðir að reiðast mér ekki fyrir þær sakir. Peningurinn eini sem ég skil eftir er gjald fyrir hestinn sem ég hef notað fram til þessa, og get ekki án verið.

Guð veri með yður! Lifið heilir!

 

Yðar ætíð elskandi og auðmjúkur þjónn,

Zeta

 

 

Bréf þetta læsti ég niður í skúffunni undir skrifpúltinu; lykilinn fól ég í viðhafnarvefjarklæðum húsbónda míns, þar sem hann mundi finna hann er hann kæmi heim.

Það veittist mér ekki erfitt að setja upp langleitan og viðeigandi svip þegar ég fór yfir til þjónanna og tjáði þeim að ég hefði týnt peningunum mínum.

„Ég hlýt að hafa misst pyngjuna úr vasanum þegar við brynntum hrossunum,“ sagði ég við þá. „En hvort það hefur verið í morgun eða núna áðan veit ég ekki.“

Ég gat vel lesið það úr svip þeirra að fremur glöddust þeir yfir óláni mínu en að þeim þætti það leitt. Þeir höfðu ávallt öfundað mig — en ég erfi það ekki við þá.

„Segið húsbónda mínum,“ sagði ég og steig á bak reiðskjóta mínum, „að verði ég ekki kominn til baka með kvöldinu, þurfi hann ekki að hafa áhyggjur. Ég legg mig einhvers staðar og dreg ykkur uppi á morgun eða hinn.“

Og ég reið á brott.

Undireins og ég var kominn fyrir fyrstu bugðuna á veginum lét ég spretta úr spori. „Ríðum, ríðum nú, fákur minn — eins hratt og fugl flýgur!“ hvatti ég hann.

Ég dró Vígilás uppi og flokk hans innan tveggja stunda. Sagði ég Vígilási að húsbóndi minn hefði sent mig til baka í þjónserindum þrátt fyrir að ég væri enginn þræll lengur.

Vígilás hafði tekið son sinn með sér í ferðina til hann fengi séð hin ýmsu veraldarinnar býsn og firn. Alla bernsku sínu hafði drengurinn átt við veikindi að stríða og legið rúmfastur og var því horaður mjög. Hann var ósköp fávís og einnig stamaði hann, en þetta var grandvar piltur og alvörugefinn.

Vígilás undraðist mjög að ég skyldi vera kominn, og fyrst framan af spurði hann mig í þaula og reyndi að grennslast fyrir um hvaða erindi húsbóndi minn ætti við Kata. En þegar ég hafði fært honum heim sanninn um að ég hefði ekki hugmynd um það, lét hann gott heita og samsamaði sig aftur í félagsskap með liðsforingjanum er var ábyrgur fyrir strokuföngunum.

Ég reið fremst fram í fylkinguna, en án þess að fá nokkuð við það ráðið var ég sífellt að horfa um öxl. Mér var funheitt í framan og hjartað ólmaðist í brjósti mér. Ég þekkti mig ekki fyrir sama mann. Ég hafði stolið, ég hafði svikið, ég hafði hagað mér eins og svín. Aldrei hefði ég trúað því að ég ætti til annan eins ódrengskap.

 

18.

Kvöld eitt í ágúst komum við að Dóná, þar sem yfirráðasvæði Attílu tók við. Sól var að hníga til viðar og Vígilás spurði Eslás hvort ekki væri best að reisa tjaldbúðina þeim megin sem við komum að ánni.

En svo háttaði til að á hinum bakkanum var aftökustaður þeirra sem reynt höfðu að strjúka yfir landamærin en verið gripnir; héngu lík þeirra uppi í trjám öllum til viðvörunar. Ekki beinlínis heillandi náttból!

Eslás hélt að Vígilás væri einungis hræddur um að húnversku landamæraverðirnir yrðu þeim til skapraunar og varð ekki við tilmælunum. „Við förum yfir,“ sagði hann. „Verðirnir skjálfa á beinunum við það eitt að sjá mig. Og fyrir handan erum við komnir lengra áleiðis.“

Hann þreif til horns síns og blés í það á húnverska vísu, svo sem venjan var.

Samt leið að minnsta kosti fjórðungur stundar áður en ferjan lagði frá landi hinum megin. Drógu tveir berhöfðaðir Húnar hana yfir á strengdri taug ásamt sjálfum sér.

„Hvern andskotann eruð þið að hugsa?“ bölvaði Eslás. „Ykkar staður er ferjustaðurinn! Hvar er foringi ykkar?“

„Þeir eru að hengja,“ svaraði sá þeirra sem yngri var, eins og til afsökunar. „Við vorum að horfa á.“

„Hvað svo sem eins og sé þar að sjá?“ urraði Eslás. „Ykkar staður er hér!“

„Þeir voru að hengja að rómönskum sið — á krossa,“ sagði Húninn, enn afsakandi. „Maður sér ekki slíkt upp á hvern dag. Og það tvo...“ og hann spýtti í lófana á sér og bætti við: „Þessir Rómverjar vita svo sannarlega lengra nefi sínu. Þeir eru ekki siðmenntaðir til einskis!“

Það var sem stirndi á gull þar sem blikandi fljótið rann í húmi sólarlagsins. Ef til vill er Dóná mesta elfur jarðar, og ávallt kemur það mér á óvart, allt það ógrynni vatns. En nú fann ég til kvíða og var óttasleginn.

Við tókum land fyrir handan þar sem þá þegar biðu okkar einir tíu eða fimmtán Húnar, allir klæddir treyjum og víðum skinnbrókum. Nú birtist einnig foringi ferjumannanna og spurði hann Eslás hvort það væri eitthvað sem hann vanhagaði um.

„Lambasteik!“ skipaði Eslás. „Og það fljótt!“

Eslás var ævinlega étandi og drekkandi og mikill fyrir sér í kjaftinum. Annars var hann ágætis náungi.

Þjónarnir slógu upp tjöldunum í hringlaga rjóðri sem bar þess merki að vera vanalegt tjaldstæði, því þá þegar höfðu verið gerðar holur fyrir tjaldstengur og grundin öll troðin slétt. Kaupmenn tveir voru einnig að tjalda þar í rjóðrinu; þeir voru á leið til baka í Miklagarð.

Mér varð litið í austur og næstum því stirðnaði af skelfingu. Á hrjóstrugri hæð risu tveir krossar, og voru tveir menn negldir við þá fastir, tveir hvítir, naktir líkamar.

Ég vakti athygli Vígilásar á krossunum og einnig hann tók að skjálfa. „Inn í tjaldið með þig!“ hrópaði hann til sonar síns. „Horfðu ekki þangað yfir!“

Það tók ekki síður á taugar Eslásar að sjá krossana tvo. „Hvað hafa þeir gert?“ spurði hann og af ekki lítilli vanþóknun.

„Það er nú svo,“ svaraði ferjuforinginn, „að þeir eru svo margir sem reyna að strjúka að við eigum fullt í fangi með að halda aftur af þeim. Geri enginn kröfu til þeirra innan viku gætum við þeirra ekki lengur. Nú er svo komið að við hendum þeim í ána, þorpurunum, en öðrum til frekari viðvörunar höfum við stundum hengt þá hér í trjánum, þá skilur hver og einn hvað bíður hans reyni einhver að strjúka. En þessir þarna tveir eru rómverskir strokuþrælar og því ákváðum við að gefa þeirra líkum viðvörun að rómverskum hætti. Ég lét reisa krossana án tafar, og í morgun festum við upp þann eldri, og þann yngri nú síðdegis.“

Annar hinna krossfestu sýndi ekkert lífsmark, en hinn lyfti stöðugt höfði kveinandi. Við Vígilás gengum þangað nær og spurðum hvort hann hefði einhver skilaboð að færa einhverjum heima, en hann megnaði engu að svara, aðeins lyfti höfði í sífellu og hrópaði: „Vatn! Vatn!“

Um tuttugu húnverskir knapar fylgdust af athygli með þeim sem þarna þjáðust, og hver af öðrum létu þeir athugasemdirnar fjúka: „Var það ekki þetta sem þið æsktuð?“

Meira að segja konur og börn fylgdust með gónandi og var ein kvennanna með barn á brjósti. En undir slíkum kringumstæðum sem þessum virðast skrælingjarnir vita tilfinningalausir; eru eins og börn að leika sér að fugli, án þess að hvarfli að þeim að fuglinn kunni að finna til. Hér var fólk saman komið til að skemmta sér yfir dauðastríði manneskja — það var allt og sumt.

Hann var varla kominn af barnsaldri drengurinn, sá er enn lifði og stundi svo sáran, kallandi eftir vatni. Að beiðni Vígilásar klifraði aftökustjórinn upp stiga að baki krossinum og lét drjúpa úr könnu milli vara hans. Hann drakk. Lítið eitt rórra í sinni veitti hann okkur nú athygli og varð þess áskynja af klæðaburði okkar að við vorum rómverskir borgarar.

„Verið miskunnsamir!“ kveinaði hann. „Drepið mig!“

Ég fékk ekki afborið að vera þarna lengur og hvarf til tjaldanna og fannst sem kalt vatn rynni mér milli skinns og hörunds. Skömmu síðar kom Vígilás einnig til baka. Hann spurði Eslás hvort ekki væri mögulegt að leggja sverði gegnum hinn ógæfusama mann, en Eslás hristi höfuðið alvarlegur í bragði.

„Nei, hann er Rómverji og hlýtur því að taka dauða sínum að rómverskum hætti. Og að rómönskum sið skal hinn krossfesti ekki stunginn sverði fyrr en eftir dauðann...“

Við gengum niður að ánni til að fá okkur sundsprett, því heit sólin hafði brennt rykið af veginum inn í hold okkar. Þegar við snerum til baka var ryk í lofti yfir víðitrjánum úti við sjóndeildarhringinn. Ferjumennirnir slæptust kringum eldinn.

„Heyrðu kunningi!“ kallaði ég lágt til húnversks piltungs með strýttan hött á höfði. „Ég finn til með þessum krossfesta þræl. Viltu ekki gera mér þann greiða að leggja hann sverði í hjartastað? Ég launa þér vel.“

„Ég gæti gert það,“ svaraði hann og gaf mér hornauga. „Hvað kallar þú annars góð laun?“

„Einn gullpening.“

Húninn gekk úr skugga um að peningurinn væri ósvikinn, lét hann klingja við stein og hlustaði eftir hljóminum; og var svo horfinn með það sama.

Enn um hríð heyrðum við kveinstafina hljóma í húminu. Þá féll skyndilega á grafarþögn. Hið eina sem rauf kyrrðina voru hrossin á beit, kroppandi stökkt grasið.

 

19.

Orðið var skýjað og tungl ekki enn komið upp og við tókum því snemma á okkur náðir. Ég hallaði mér út af undir beru lofti á meðal hermannanna.

En ég gat ekki sofnað. Enn var ég ekki orðinn þræll á ný — ekki enn. En átti ég möguleika á að snúa til baka undir einu eða öðru yfirskini. En hver yrðu örlög mín héldi ég enn áfram á sömu braut, frá þessari strönd elfurinnar, og sæi mig um hönd seinna? Þá mundu hvorki Vígilás né Eslás né yfirleitt neinn verða til staðar er gæti vottað að ég væri ekki strokuþræll. Og hvað nú ef ég hlypist á brott frá Kata eftir að hann hefði tekið við mér? Hvernig kæmist ég yfir landamærin? Verðir Attílu gættu lands hans eins og sjáaldurs auga hans, og allt eins víst að þeir meðhöndluðu Rómverja einnig að rómverskum hætti í öðrum landamærastöðvum! Sviti spratt mér á enni.

En þá varð mér hugsað til Móeikar, og nóttin luktist um mig eins og rauð rós. Það hafði gerst fyrr í sögunni að konur af háum stigum höfðu orðið þrælar þræla. Engar mannasetningar gátu tekið til hjarta mannsins. Hjartað laut sínum eigin lögmálum.

Rósin var fólgin við brjóst mér, vafin inn í papýrussnifsi. Víst var hún orðin visin, en angaði þó enn.

„Það er angan sálar þinnar, Móeik — þú gafst mér rósina og þar með sál þína!“

 

20.

Við nálguðumst borg Attílu eftir þeirri sömu leið og við höfðum farið fyrrum. En gagnstætt því sem þá hafði verið, að við keyptum okkur mat fyrir eigið fé, tók Eslás nú ekki í mál að við borguðum neitt.

„Hvar sem mig er að finna,“ sagði hann, „þar skal hver og einn vera minn gestur!“ og vissulega þótti okkur hann rausnarlegur.

Það var ekki fyrr en seinna að rann upp fyrir okkur ljós. Enginn ferðalangur hefur keypt sér greiða dýrara verði.

Þegar við komum að bugðunni á Tísjuá þar sem við Móeik höfðum eldað grátt silfur saman, tók ég að skimast um eftir slæðurifrildinu sem hún hafði rétt mér. En það var hvergi sjáanlegt. Annað hvort hefur vindurinn feykt því burt eða einhver fjárhirðir hirt það. Í fyrra sinnið höfðu akrarnir verið grænir og skartað blómskrúði. Nú hafði hvað eina fölnað í steikjandi sumarhitanum. Þá hafði mátt sjá hvar jarðargróðinn stóð uppi í knippum; nú, og svo vikum skipti, höfðum við aðeins haft gulnaða kornstönglastúfa fyrir augum.

Gamall, hnýttur pílviður stóð þar nærri þar sem við Móeik höfðum átt með okkur fundinn. Mundi það ekki viturlegast að fela peningana mína undir honum? Hver vissi hvað framtíðin fól í skauti sér? Og þennan stað ætti ég alltaf að geta fundið aftur. Varla var neinum trúandi til að fara að hnýsast hér, hvað þá grafa í jörð.

Ég leit í kringum mig. Ferðafélagar mínir höfðu þokast lengra fram á veginn og enginn var að baki. Ekkert kvikt var í augsýn nema fé á beit, eins og hvítir deplar í fjarska — og enn fjær, hrossastóð. Allt síðan við höfðum komið inn á sléttuna höfðum við haft hross fyrir augum hvert sem litið var. Hvergi í veröldinni geta verið til önnur eins býsn af hrossum.

Nei, hvergi var sálu að sjá. Ég batt hestinn minn við víðinn og gróf að minnsta kosti tveggja spanna djúpa holu í jörð með rýtingnum mínum.

Ég fyllti í skarð gullpeninganna tveggja sem á vantaði með tveimur af gjöf drottningar, kom þá peningunum fyrir í holunni, í leðurpyngjunni. Yfir setti ég stóran torfhnaus og þjappaði vel ofan á og gekk svo frá að engin ummerki sæjust.

Aldrei á minni lífsfæddri ævi hafði ég unnið jafn heilladrjúgt verk. Því að það voru þessir peningar sem löngu seinna gerðu mér kleift að komast aftur í Miklagarð, þar sem ég nú sit og færi þetta í letur; og það var einmitt fyrir þetta sama fé sem mér auðnaðist að byggja mér lítið, fallegt heimili út við ströndina.

 

 

Formáli

kaflar 1 til 10

kaflar 11 til 20

kaflar 21 til 30

kaflar 31 til 40

kaflar 41 til 50

kaflar 51 til 60

kaflar 61 til 65

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist