< Undir huliðshjálmi

kaflar 21 til 30

 

 

21.

Það var á hádegi sem við komum til borgar Attílu. Sólin var brennheit. Jafnvel í forsælu létu hundarnir tungur lafa. Við borgarmörkin stöðvaði Eslás hersinguna og sendi reiðknapa á undan okkur til að tilkynna Attílu um komu okkar.

Ég bjó mig undir að yfirgefa ferðafélaga mína, en þá rumdi Eslás: „Þú verður kyrr þar sem þú ert!“ Hann var rauður og þrútinn í framan og einnig lýstu augun því að hann var í reiðiham.

Það var svo einkennilegt að sjá þennan ágæta, vingjarnlega mann umhverfast svona fyrirvaralaust, og við urðum allir forviða og varð starsýnt. Var hann drukkinn eða genginn af vitinu?

Innan stundar kom hópur húnverskra hermanna á stökki upp eftir til okkar. Af glitrandi silfurstjörnunum á höfuðbúnaði þeirra mátti merkja að hér færi lífvörður konungs. Þeir heilsuðu Eslási og virtust því næst bíða skipana hans.

„Þið tíu! Af baki!“ skipaði Eslás og átti við okkur. Og sem við vorum komnir af baki gaf hann merki: „Þessa þrjá í bönd!“

Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds og Vígilás fölnaði.

„Ég mótmæli slíkri aðför!“ hrópaði hann. „Ég er erindreki keisarans! Hver sá sem gerir á minn hlut gerir á hlut keisarans!“

„Bindið þá!“ endurtók Eslás og hermennirnir settu okkur í bönd; Vígilás, son hans og mig.

Það fauk í liðsforingja okkar er gætt hafði liðhlaupanna. „Hvernig dirfist þér að koma svo fram við erindreka okkar? Hann er fulltrúi keisarans hér! Hafið þér ekki í tvígang verið erindreki í okkar landi?“

Á meðan á ferðalaginu stóð höfðu þeir Eslás og liðsforinginn drukkið og stytt sér stundir saman í mesta bróðerni. En nú virtist hann kæra sig kollóttan. „Ég mun svara fyrir gjörðir mínar!“ hreytti hann út úr sér.

„Herra minn,“ leyfði ég mér einnig að mótmæla, sárreiður. „Þér vitið að ég er ekki hér á vegum Vígilásar,“ — því að ég gat nú ofur vel ímyndað mér að refurinn Vígilás hefði ekki allt sem hreinast á samviskunni.

En Eslás ansaði mér engu.

„Leitið á þeim!“ skipaði hann, þegar hendur okkar höfðu verið bundnar fyrir aftan bak.

Þeir leituðu fyrst á Vígilási, og í leðurbelti er hann hafði um sig undir treyjunni fundu þeir sjötíu gullpeninga. Sonur hans bar á sér annað eins. Af mér tóku þeir leðurpyngju drottningar og bréfið sem var áritað Kata.

Þá tóku þeir til við að opna farteski Vígilásar. Í venjulegum trékassa í miðjum vagninum fundu þeir járnbundinn kistil, lítið stærri en líkkistu ungabarns, en kistillinn var svo þungur að tvo menn þurfti til að lyfta honum af vagninum.

Aðrir kassar og kistlar innihéldu flíkur og ýmislegt matarkyns.

Eslás benti á kistilinn járnbundna.

„Hvar er lykillinn að þessum?“

„Hann hangir um hálsinn á mér,“ svaraði Vígilás og hnaut um hvert orð skjálfandi röddu. Hann var náfölur af reiði og brjóstkassinn bifaðist ótt og títt eins og físibelgur. „Hægan nú!“ stundi hann. „Ykkur á eftir að hefnast fyrir þetta. Rómverska keisaradæmið er friðelskandi en það þýðir þó ekki að það hafi ekki meiri styrk til að bera en þið Húnar!“

Rómverski liðsforinginn hafði snúið baki við Eslási en sneri nú snöggt um hæl og hreytti út úr sér, fylgjandi orðum sínum eftir með fyrirlitningu í augum: „Ég mun bíða hér til kvölds á meðan menn og dýr hvílast, en sný þá þegar til baka og gef keisara vorum skýrslu. Ég mun gera honum ljóst, að viljum við eiga friðsamleg samskipti við skrælingja, væri hyggilegra að kreppa hnefana!“

Hann hafði mælt frýjuorð. Ég beið þess að Eslás sýndi honum í tvo heimana. Hann hefði leikið sér að liðsforingja þessum spóalegg eins og köttur að mús. En hann blakaði ekki við honum hið minnsta heldur svaraði vingjarnlega:

„Og ég fer þess á leit við þig að þú komir með mér,“ sagði hann. „Þú ert liðsforingi og drengskaparmaður. Ég læt ekki svipta þig sverði þínu, en ég krefst þess að þú komir með okkur og færir sjálfum þér heim sanninn um að það eruð þið sem eruð skrælingjar, ekki við!“

Hann gaf lífverðinum merki um að halda af stað.

Liðsforinginn hikaði, á báðum áttum. En þegar Eslás steig á bak hesti sínum og gaf honum merki um að fara að dæmi sínu, beygði hann sig undir vilja hans og reið upp að hlið Húnans.

Það var þögull flokkur manna sem hélt inn í bæinn eftir aðalstrætinu. Á vagni er fylgdi okkur eftir fluttu þeir kistilinn járnbundna og gullið er þeir höfðu tekið af okkur. Eslás var ekki síður þögull en við hinir. Jafnvel liðsforinginn okkar byrgði ólgandi bræðina innra með sér.

 

22.

Það var um nónbil sem við komum í höll Attílu.

Eðlilega hafði ég vakandi auga með gluggunum á bústað Katanna, og bústað Ríku drottningar. Það var mér raunar léttir að hvergi á meðal kvennanna sá ég neina sem ég þekkti.

Það var farið með okkur beinustu leið í höllina, inn í stóran sal er var opinn á einn veg til austurs, og voru þar ekki aðrar máttarstoðir en sex grannar súlur. Fyrir miðjum salarkynnum var viðarstóll, líkastur hásæti, en veggir skrautlausir, aðeins settir dumbrauðum austurlenskum voðum.

Þegar við gengum inn fyrir stóð Attíla á milli tveggja súlna, búinn látlausum en afar vönduðum línklæðum og var utan yfir skyrtunni klæddur ermalausri, dökkrauðri silkitreyju er náði honum niður á mið læri. Á höfði bar hann hæruskinnshött með spélunum uppbrettum. Sverðið var gyrt við lendar honum í svörtu silkireipi. Hann var umkringdur æðstu hirðmönnum sínum, hinum myndarlega Edékon, oflátungnum Kata og bróður hans, fráneygum yfirhershöfðingjanum; og auk þeirra voru þar þeir Börkur, Orgóvan, Makki uxaskalli, Úrkon, Káson, Úpor, Vákur, allir af tignarmannastétt, og loks aldraður herramaður hárfagur mjög og með áberandi stór eyru — Arðrekur kóngur, sem ég nú sá fyrsta sinni. Þá voru þar einir fimm úr lífverði konungs og loks syfjulegur skrifari.

Eslás steig fram, tók ofan og laut höfði.

„Herra minn,“ mælti hann, „hér er Vígilás kominn. Við höfum leitað á honum og í föggum hans og þetta er gullið sem hann hafði meðferðis.“

Hróðugur benti hann brúskmiklu yfirvararskegginu í átt til þjónanna sem þá þegar höfðu sett kistilinn niður og opnað hann. Gullið var þar fólgið í stórum leðursekk. Þegar þeir tæmdu úr sekkinum flóði gullið yfir gólfið.

Eslás hélt áfram: „Þetta er eitt hundrað þyngdar gulls, eða um það bil átta hundruð sleginnar myntar. Auk þess bar hann gull á sér í belti og eins sonur hans, að minnsta kosti pund þyngdar hvor.“

Hann beindi því næst athyglinni að mér.

„Þessi þræll varð á vegi okkar og fylgdi okkur hingað. Hann er þræll Prískusar. Hann var einnig með bréf á sér, eina sex peninga og þar að auki þetta bréf. Það er áritað Kata en mér þótti ekki ólíklegt að við mættum hafa gagn af því.“ Og hann lagði bréfið ofan á gullhrúguna.

Attíla krosslagði hendur og virti Vígilás fyrir sér.

„Hví allt þetta gull? Hver er tilgangurinn?“ Hann bar spurninguna fram af kaldri rósemi.

„Herra minn,“ stamaði Vígilás, „svo margra þjóna og skepna er þörf á ferðalagi sem þessu. Oft þarf að kaupa hest eða uxa, og svo er það allur maturinn... Og ég hafði einnig hug á að fá nokkra þræla leysta úr haldi...“

Hann var fölur og fár og enni hans gljáði af svita. Attíla skipti litum og var nú svo illilegur á að líta að ég saup hveljur.

„Sannleikann!“ þrumaði hann, og jafnvel súlur salarins skulfu.

Ég veitti því eftirtekt hvernig hann barðist við að ná taumhaldi á skapi sínu; hélt þá áfram rórri í bragði:

„Ferðin hingað hefur verið þér útlátalaus, og jafnvel þó að hver einasta skepna hefði dottið dauð niður hefðir þú getað keypt aðrar í þeirra stað fyrir aðeins brotabrot af þessum fjármunum. Og bágt á ég með að trúa að þú hafir gleymt því að ég hef stranglega bannað að þrælar yrðu keyptir lausir.“

Hann barði sverði sínu í gólfið heiftúðugur. „Ætlar þú að segja mér til hvers þú hugðist nota eitt hundrað gullpund?“

„Herra minn,“ snökti Vígilás, „ég hef ekkert fleira að segja...“

„Ekki það nei? Við skulum sjá til.“

Hann gaf vörðunum merki. „Játir þú ekki nú á stundinni læt ég höggva son þinn í spað fyrir augunum á þér!“

Lífverðirnir fimm tóku sverð sín úr slíðrum. Það hvein í köldu stálinu ... þá varð hljótt á meðan þeir biðu frekari skipana ... allir héldum við niðri í okkur andanum. Það var sem blóðið frysi í æðum manns. Hvað bjó hér að baki? Hvers lags skollaleik var ég orðinn flæktur í?

„Faðir minn!“ veinaði drengurinn og féll á kné fyrir fótum Vígilásar. „Faðir minn!“

„Herra!“ kveinkaði Vígilás sér og lét nú einnig fallast á kné. „Ég skal játa allt ... aðeins vægið syni mínum ... gerið honum ekki til miska...“

„Þá talaðu. En látir þú eitt einasta ósatt orð út fyrir þínar varir munu sverðin ganga á hol syni þínum.“

Hann lét færa sér stól og settist niður, hvíldi olnbogana á stólbríkunum og beið játningarinnar.

„Herra minn,“ hóf Vígilás máls og nú nötruðu í honum tennurnar. „Gull þetta er gjald fyrir glæp ... það sem skyldi gjalda fyrir líf yðar hátignar...“ Hann leit út eins og maður undir gálga.

„Byrjaðu á byrjuninni,“ skipaði Attíla ísköldum rómi.

Vígilás kyngdi og skotraði augum angistarlega líkt og snara herptist þá þegar að hálsi hans. Svo tók hann enn til máls.

„Þegar herramenn yðar þeir Edékon og Órusti sóttu okkur heim fól keisarinn þá Krýsafíusi. Hann vildi vera viss um að þeir nytu hinnar bestu umönnunar. Krýsafíus er hirðmeistari vor og stjórnar lífverðinum og er keisaranum afar kær. Hann bar þá höndum sér sem sína eigin gesti og sýndi þeim borgina og hafið, sýndi þeim borgarmúra gamla Miklagarðs, Gullna hliðið, grafhýsið, paðreiminn, kirkju heilagrar Soffíu, marmarasúlu Konstantínusar mikla og vitann. Hvað eina. Og ég var túlkur þeirra.“

Attíla renndi auga til Edékons og spurði með tillitinu einu hvort Vígilás færi rétt með.

Edékon kinkaði kolli, brosandi.

Vígilás stóð á öndinni, eins og fiskur á þurru landi. Þá greip hann andann á lofti.

„Ég skal segja frá öllu saman, hverju einasta, svo hjálpi mér Guð. Aðeins hlífið syni mínum, yðar hátign!“

„Talaðu!“

„Edékon þótti mikið til koma,“ hélt Vígilás áfram, „og hann dásamaði mjög það sem við sýndum honum, sérstaklega hallirnar og alla listsnilldina. „Hve fallegar byggingar,“ sagði hann. „Engan skyldi undra þótt þið hafið tekið ykkur fastan bólstað — þið vitið hvernig á að byggja hús!“

„Svo gerir sér snigill hver bú sem hann hefur getu til,“ svaraði Krýsafíus.

„Ég skil þig ekki,“ sagði Edékon þá. „Alveg sama hve iðjusamur ég væri af snigli að vera, ég gæti aldrei gert mér aðrar eins hallir og hér eru allt um kring!“

„Og gætir það þó,“ svaraði Krýsafíus og brosti. „Ef þig langaði virkilega til þess, minn kæri húnverski vinur, þá gætir þú vel eignast eins og eina slíka höll — með marmaraþrepum, þaki úr gulli, garði með kýprusviði ... og útsýni til hafsins...““

Enn var Vígilás fölur sem nár. Hvílíkan hrylling mundu ekki þessar játningar hans leiða af sér?

„„Gerðu ekki gys að mér,“ svaraði Edékon. Slíka höll væri aðeins hægt að láta sig dreyma um, eða hvernig í ósköpunum ætti ég að geta eignast eina slíka?“

Krýsafíus brosti og talandi grísku bað hann mig um að telja hug í Edékon, tjá honum að hefði hann í alvöru áhuga á að eignast fallega marmarahöll skyldi hann hitta sig að máli og snæða með sér miðdegisverð, en aleinn — án nokkurs fylgdarliðs. Og það gerði Edékon. Um hádegisbil fylgdi ég honum upp í setustofuna, og ætlaði Edékon þá varla að trúa sínum eigin augum. Hann strauk gluggatjöldin hvert af öðru, snerti á öllum stólum og fór höndum um legubekkina, varð starsýnt á málverkin og ekki síður borðfæturna sem voru útskornir eins og snákar. Allt varð honum að undrunarefni. Og sem við loks settumst til borðs spurði Krýsafíus hann:

„Hver er staða þín við hirð Attílu?“

„Við gegnum engum sérstökum stöðum,“ svaraði Edékon. „Ég er einfaldlega einn af trúnaðarmönnum húsbónda míns og hef með höndum stjórn á lífverði hans, líkt og þú hér.“

„Hefur þú frjálsan aðgang að Attílu?“

„Það hef ég.“

„Jafnvel á nóttunni þegar hann sefur?“

„Ætíð.“

„Sem sagt einnig á nóttunni.““

Edékon brosti, og sem Attílu varð nú litið til hans, sagði hann: „Hve vel hann man allt saman, refurinn.“

Attíla hallaði sér aftur í bríkarstólnum og kom sverðinu fyrir milli hnjánna. Vígilás hélt áfram:

„Þá tók Krýsafíus að ræða önnur málefni, áleit það hyggilegra að við lykjum borðhaldinu áður en við færum nánar út í þessa sálma. Og við gerðum matnum skil og við aðeins þrír. Er við stóðum upp frá borðum sagði Krýsafíus við Edékon: „Ég legg heiður minn að veði fyrir því, að hvaða höll sem þér litist best á gæti orðið þín, ef þig virkilega langaði til þess. Og þú gætir eignast meiri auðæfi en þú gætir nokkru sinni látið þig dreyma um. En áður en ég segi meira, viltu þá strengja þess heit að segja alls engum frá því, jafnvel þótt þú fallist ekki á það sem ég segi? Sverja að þú munir aldrei í lífinu segja neinum frá því? Að öðrum kosti gætu hlotist mikil vandræði af.“

Edékon rétti fram höndina og allir þrír sórum við þess eið að halda hverju orði stranglega leyndu. En herra ... yðar hátign, ég átti engra kosta völ, ég er aðeins þjónn. Ég hef fjörtíu gullpeninga í laun á ári. Þess er krafist af mér að ég túlki hvað eina sem þeir segja. Ég er aðeins tæki í höndum þeirra, ekki maður gæddur sál. Ég hef ekkert gert á hlut yðar af eigin hvötum.“

Og enn hélt hann áfram játningum sínum. Hægt og sígandi afhjúpaði hann leyndarmálið. Attíla hlýddi á þungur á brún, mér þóttu augu hans hvíla á mér eins og mara.

„Er við höfðum svarið eiðinn sagði Krýsafíus: „Fyrst þú hefur frjálsan aðgang að Attílu jafnvel á nóttunni, væri þá ekki mögulegt að koma því svo fyrir ... að hann fengi safnast til feðra sinna eilítið fyrr en ef til vill mætti ætla tímabært samkvæmt lögmálum náttúrunnar?“

„Þú átt við hvort ég gæti drepið hann,“ svaraði Edékon þá rólegur í bragði.“

Attíla lygndi aftur augum af ekki lítilli vanþóknun. Herramennirnir rumdu reiðilega. „Áfram með smjörið!“ skipaði yfirvaldið og Vígilás hlýddi, blóðsveittur af ótta: „„Það voru ekki mín orð,“ leiðrétti Krýsafíus Edékon. „Ég átti einfaldlega við það að sumar stjörnur himinsins eiga til að hrapa. Og því þá ekki alveg eins stjarna Attílu — ef einhver skyti henni skelk...“

„Við skulum tala hreint út,“ sagði Edékon. „Þið Grikkir virðist ævinlega þurfa að tala í einhverjum tvíræðum tón, einhvers slags rósamál. En liggur ekki málið ljóst fyrir, mitt hlutverk er að stytta Attílu aldur, ykkar að verða mér úti um höll og tilheyrandi auðæfi. En hvað hefur keisarinn um ráðabrugg þetta að segja?“

„Keisarinn,“ svaraði Krýsafíus og nú vafningalaust. „Keisarinn segir það sem ég segi, ég er talsmaður hans.““

Attíla barði sverði sínu í gólfið.

„Varmenni!“ drundi í Úrkoni. Jafnskjótt var sverð hans komið hálft úr slíðrum en Attíla hélt honum í skefjum með snöggu augntilliti.

Um stund ríkti grafarþögn. Hross gneggjaði fyrir utan. Mér fannst sem nálykt legði fyrir vit mín. Fölur hélt Vígilás áfram frásögninni.

„Edékon hugsaði sig um, og eftir skamma hríð sagði hann: „Þetta er ekkert smámál. Hve mikið hyggist þið greiða mér?“

„Svo sem ég hefi sagt,“ svaraði Krýsafíus, þá getur þú valið þér hvaða höll sem er, hvar sem er í borginni, að undanskilinni keisarahöllinni, að sjálfsögðu. En hver sem er önnur stendur þér til boða. Ef þér býður svo við að horfa, þá jafnvel þessi, þar sem við erum nú staddir, með öllu tilheyrandi — brekánum og voðum, húsmunum öllum; allt stendur þér til boða. Og til að þú hafir úr einhverju að spila að verki loknu, þá fengir þú í þinn hlut heils árs skattgreiðslu okkar til Attílu — það er að segja, um það bil sextíu hundruð þyngdar gulls. Þættu þér það ekki sæmilegir vasapeningar, eða hvað þykir þér?“

„Þykir mér! Auðvitað þætti mér það,“ samsinnti Edékon, „en ég þarf einnig á fé að halda áður en látið verður til skarar skríða — ég verð að geta mútað vörðunum.“

„Að sjálfsögðu,“ sagði Krýsafíus og brosti. „Það fengir þú allt að auki; eða hvað heldur þú að þú þyrftir mikils við þeirra vegna?“

„Fimmtíu pund mundu duga,“ sagði Edékon.“

Mig svimaði. Hvað biði okkar þegar Vígilás lyki frásögn sinni? Þessi óttalegi maður mundi krossfesta hvern einasta Rómverja er hann kæmi höndum yfir! Og byrja á þeim hér í borginni! Ég virti hann fyrir mér. Hann sat hreyfingarlaus, eins og stytta af Hadesi, eins dökkur á brún og brá og hann var hljóður; en hver kunni frá þeim stormum að segja er geisuðu í huga hans?

Vígilás átti einskis annars úrkosti en segja sögu sína til enda. Með hverju orði lagði hann til nagla í kross þann er hann mundi festur á, vesæll arminginn. Nagla er við myndum brátt allir til finna.

Rödd Vígilásar var á að hlýða eins og ymur úr gröf. „Krýsafíus vildi,“ sagði hann, „reiða gullpundin fimmtíu þá þegar fram. En Edékon hélt aftur af honum. „Engan asa,“ sagði hann. „Félagar mínir gætu komist á snoðir um það ef ég hefði svo mikið gull í fórum mínum. Fyrir nú utan það að Attíla er vanur að spyrja okkur hversu vel hefur verið við okkur gjört. Hann krefst nákvæmrar sundurliðunar — hverjir hafi fært okkur gjafir og þá hvað og hve mikið. Það vekti áreiðanlega grunsemdir ef ég segðist hafa fengið svo mikið gull að gjöf.““

„Rétt eftir haft,“ vottaði Edékon.

Náungi þessi Edékon var svipmikill karl, skegglaus í vöngum, og lýsti andlitið af hreinskiptni og heiðarleika og augun skarpri greind. Hann var í innsta hring við hirð konungs, og hefði honum verið heitið kórónu og kóngsríki fyrir að skerða eitt hár á höfði húsbónda síns, hefði hann gert honum grein fyrir boðinu. Trúnaðarmenn mikils háttar manna eru afar sérstakrar manngerðar; eru eins og grasið í skjóli trjánna, eiga allt sitt komið undir trénu, vita að falli það, rifnar það upp með rótum og rífur með sér svörðinn allt um kring.

Enn hélt Vígilás áfram máli sínu:

„Edékon sagðist mundu fara heim án fjárins. „Látum heldur þennan túlk fylgja mér,“ sagði hann og átti við mig, „og síðar sendi ég hann til baka og með fyrirmælum um hvernig sé ákjósanlegast og hvenær tímabært að koma þessum gullpundum til skila.“

Krísafíusi þótti hér hyggilega ráðið. „Þú hefur lög að mæla,“ sagði hann. „Ég fer nú á fund keisarans og tjái honum hvorra manna þú ert hliðhollur. Við neytum saman kvöldverðar og einnig félagar þínir verða gestir mínir. Gefist þá tækifæri til, mun ég greina þér frá undirtektum keisarans við ráðagerð okkar.““

„Einmitt þannig var það,“ samþykkti Edékon og sneri upp á yfirvararskegg sitt.

„En ég var ekki einu sinni spurður álits, herra minn ... yðar hátign,“ sagði Vígilás. „Ég er ekki meira virði en hvert annað hundspott. Ég fékk engu ráðið, herra minn, því ég er aðeins armur þjónn, ekki meira virði en fjörutíu gullpeninga á ári.“

„Haltu áfram!“ skipaði Attíla af þungri raust.

Og Vígilás hélt áfram.

„Krýsafíus fór á fund keisarans og var með honum allt síðdegið fram á kvöld. Keisarinn kallaði einnig fyrir sig Martíalus, sem er hans helsti ráðgjafi, en hvað þeim fór á milli veit ég ekki, ég var ekki viðstaddur. Um kvöldið var ég enn látinn túlka það sem Krýsafíusi og erindrekum yðar fór á milli. Að loknum kvöldverðinum sátum við þrír einir eftir við borðið á meðan hinir gengu út í garðinn til að virða fyrir sér útsýnið til hafsins og skæran vitann á Krýsapólishöfða.

Þá mælti Krýsafíus við Edékon: „Keisarinn lét í ljós velþóknun sína á því að þú skyldir hafa tekist verk þetta á hendur, og hann mun launa þér eins og við ræddum um. Og í þokkabót munt þú verða þess heiðurs aðnjótandi að verða skipaður í háa stöðu við hirðina, og það hátignarlegri en þú gegnir nú með Attílu. En keisarinn er þeirrar skoðunar að Vígilás sé ekki nógu tiginn til að verða þér til fylgdar og mun því láta Maxímínus fara með þér sem sinn fulltrúa. Vígilás mun aðeins fara með sem túlkur. En Maxímínusi er ekki kunnugt um leyndarmál okkar og mun aldrei verða það.““

„Fer ég ekki rétt með, herra minn?“ spurði Vígilás Edékon með grátstafinn í kverkum.

„Rétt eftir haft.“ Edékon kinkaði kolli og brosti háðslega.

Vígilás andaði léttar.

„Guði sé lof að þér skulið vilja votta sakleysi mitt. En við svo búið héldum við af stað, Maxímínus, Prískus og ég. En er við höfðum átt með yður fyrsta fundinn, herra minn, kom Edékon til búða okkar og kallaði mig á eintal. „Okkur hefur gefist gott tækifæri,“ sagði hann, „þú munt eiga að snúa aftur til Miklagarðs eftir liðhlaupunum sem eftir leifa. Þegar þú kemur til baka skaltu hafa mútuféð til lífvarðanna meðferðis. Þá munu engar grunsemdir vakna.“

Og eins og þér óskuðuð, yðar hátign, fór ég eftir liðhlaupunum og kom með þrjátíu þeirra til baka og gullið að auki, samkvæmt ósk þeirra. Og það voru hundrað pund í stað fimmtíu, því að þeir vildu vera vissir um að Edékon hefði nóg mútufé handa á milli — að áformin færu ekki út um þúfur vegna fjárskorts.“

Á þá lund lauk frásögn hans. Ég skildi nú hvað hafði búið undir með hinum slóttuga ref og hví Attíla hafði orðið svo æfur er hann birtist ásamt Maxímínusi. Eðlilega var Attílu þá fullkunnugt um skollaleikinn. Þegar allt kom til alls höfðu liðhlauparnir aðeins verið peð í taflinu, í sjálfu sér lítils virði og raunar fáir þeirra Húnar, flestir afhrök einhver. Attíla hafði aðeins beitt þeim sem átyllu í mótleik sínum, til að gefa Vígilási tilefni til að snúa einum til baka.

Augu mín höfðu lukist upp. Það var ekki að ástæðulausu sem Eslás hafði krafist þess að fá að meðhöndla okkur sem gesti sína. Það var aðeins fyrirsláttur sem hann hafði borið við til að gullsjóðurinn yrði ekki útskýrður sem farareyrir eða til tryggingar skakkaföllum.

Og kjáninn hafði meira að segja tekið son sinn með sér til að hann fengi að sjá með eigin augum konunglega útför að hætti Húna!

Að Húnar skuli vera álitnir heimskir skrælingjar! Og hér voru þó vor eigin siðmenntuðu gáfnaljós flækt í net þeirra skrælingjanna! Net sem þeir höfðu þó riðið sjálfir með undirferli og klækjabrögðum.

En nú var komið að mér. Mér sortnaði fyrir augum þegar Attílu varð litið á bréfið.

„Látum okkur sjá — hvaða klór er nú þetta?“ varð honum að orði.

Ó, að þessi óttalegi maður læsti nú ekki klóm sínum í mig — augum sínum sem voru eins og arnarklær. Undan því augliti var engin undankomuleið.

„Bréf þetta er frá Prískusi,“ útskýrði Vígilás. „það er áritað herra Kata.“

„Þrællinn slóst í för með okkur á leiðinni,“ bætti Eslás við og hugðist rétta Attílu bréfið. En í stað þess að taka við því kallaði hann Kata fyrir sig.

„Þetta bréf er til þín.“

„Væri ekki rétt að við læsum það hér?“ sagði Kati. „Ég hef ekki hugmynd um hvaða erindi hann á við mig.“

„Lesum það þá,“ mælti Attíla og gaf skrifaranum merki.

Skrifarinn var holdgrannur náungi og freknóttur, kallaður Rústi á meðal Húnanna, sem var stytting fyrir Rústíkus. Síðar meir áttum við ýmislegt saman að sælda.

Hann braut upp bréfið og las það sleitulaust á húnversku. Attíla og menn hans lögðu við hlustir, en ég skalf á beinunum.

„Kynlegt,“ sagði Kati og hló við þegar Rústi hafði lokið lestrinum. Hann virti mig fyrir sér, sneri sér þá að Attílu.

„Mundir þú vilja þiggja þrælinn, herra minn? Í bréfinu segir að hann sé lærður.“

Attíla svaraði engu. Hann hallaði undir flatt, með þungann á einum olnboga á annarri stólbríkinni. Hendur hans voru læstar um sverðið. Þungt augnaráðið hvíldi á Vígilási sem var við það að kikna undan því. Hann vissi að á þessari stundu var líf hans vegið á metaskálum Attílu.

Sonur hans var enn knjákrjúpandi. Hann skynjaði vægi augnabliksins, og skjálfandi eins og hrísla hjúfraði hann sig að fótum föður síns.

Vígilás var eins og maður að drukknun kominn. Hann hrópaði:

„Herra, vægið syni mínum! Verið miskunnsamir, herra minn. Vesalings drengurinn er saklaus! Ég bið yður...“

Tárin runnu niður vanga hans og hann hneig niður kjökrandi.

„Hve auvirðilegur lýður!“ hreytti yfirhershöfðinginn út úr sér. „Ég rek alla rómverska þræla á brott úr mínum garði!“

„Höggvum þá í spað, hvern og einn einasta!“ rumdi í Úrkoni.

„Þvert á móti,“ sagði Attíla. „Við gerum þá okkur ánauðuga um alla eilífð. Það er við hæfi að úrkynjaður lýðurinn þjóni hinu tignara kyni.“

Orð Attílu voru lög. Nú mundu Húnar aldrei framar leysa gríska eða rómverska þræla úr ánauð. Ég fengi að bera kross minn það sem ég átti eftir ólifað.

Attíla reis á fætur.

„Fé þetta,“ sagði hann rólegri röddu við menn sína, „það eru blóðpeningar mínir. Ég vil að því verði deilt út án tafar til ekkna hinna stríðsföllnu. Þú ferð til baka í Miklagarð, Eslás. Órusti verður þér til fylgdar og þið takið þennan dreng með ykkur.“ Hann benti á son Vígilásar.

Enn mælti hann:

„Þegar þú kemur fyrir keisarann, Eslás, skaltu hafa leðursekkinn hangandi um hálsinn og segir þá við hann: „Berðu kennsl á skjattann?“ Þeim bregður illa í brún, en þá skalt þú hreyta í hann: „Þeódósíus er af göfugum ættboga kominn. Það er Attíla einnig. Attíla hefur varðveitt göfgi sína en Þeódósíus ekki. Hann glataði göfgi sinni þegar hann varð skattþegn og þar af leiðandi þræll Attílu. En þræll sem hyggur á fjörráð við húsbónda sinn hefur og einnig glatað æru sinni!““

Hann bjó sig undir að yfirgefa salinn. Menn hans einnig.

„En drengurinn?“ spurði Eslás og átti við son Vígilásar.

„Drengurinn skal koma með fimmtíu pund gulls til baka sem lausnargjald fyrir föður sinn. Þangað til skal faðirinn vera í varðhaldi, fjötraður í hlekkjum.“

„Skulum við einskis meir æskja af keisaranum?“

„Mikið rétt!“ kvað Attíla við rammri raust. „Ég krefst höfuðs Krýsafíusar.“

 

23.

Attíla hvarf á braut.

Verðirnir leystu af okkur böndin og Vígilás faðmaði son sinn að sér. Báðir grétu sáran.

Ég vissi ekki í hvorn fótinn ég átti að stíga. Kati hafði farið með Attílu til hinna innri salarkynna og ekki gat ég fylgt þeim þangað.

Eslás var enn til staðar, var með auga á birgðarskemmunum gegnum víðar gáttirnar og beið þess að komið yrði með einhvern kistil eða poka undir gullið svo hann gæti farið með það út.

„Herra minn,“ ávarpaði ég hann. „Gullpeningarnir mínir... Eins og þér vitið þá tilheyra þeir ekki þessum.“

„Gullpeningar þínir! Ert þú ekki þræll!“

Eðlilega — þræll átti enga peninga. Allt hans var húsbónda hans, peningar jafnt sem börn og skepnur.

„Það er einmitt þess vegna sem ég spyr,“ svaraði ég ákveðinn. „Af því að ég er þræll Kata. Mér ber skylda til að mótmæla því að fé hans sé blandað saman við hitt gullið.“

Hann varð hugsi við þessi orð mín, blikkaði þá augunum og gaf mér merki um að hirða peningana. Ég gekk hægum skrefum út úr höllinni og hugðist bíða Kata fyrir utan hliðin.

Mér var innanbrjósts eins og ég væri nýrisinn upp frá dauðum.

Ég veitti brunninum athygli fyrir framan bústað hershöfðingjans. Hvort mér veitti ekki af þvotti! Ég var skítugur upp fyrir haus og þvoði mér hátt og lágt og fékk mér einnig að drekka, þrátt fyrir að vatnið væri vel volgt í sólarhitanum og grænt slý flyti á yfirborðinu.

Ég beið drjúga stund við hliðin áður en Kati birtist. Hann var kominn á hestbak og sem hann nálgaðist mig steig ég fram og hneigði mig. „Eltu mig,“ sagði hann vingjarnlegri röddu.

Þegar við komum að húsi hans fór hann af baki og mældi mig hátt og lágt með augunum, afar íhugandi. „Hvað sagðistu aftur heita?“

„Zeta, bara Zeta, herra minn,“ svaraði ég daufur í dálkinn.

„Zeta ... sérkennilegt nafn. Eru foreldrar þínir á lífi?“

„Faðir minn kann að vera það.“

„Hvað starfar hann?“

„Hann er fátækur bóndi.“

Hann hristi höfuðið. „Hvern fjárann á ég að gera við þig?“

Fyrir framan húsið voru nokkrir þrælar og þar á meðal gamall karl, höfuðstór og breiðleitur, með grátt rytjulegt kjálkaskegg. Hann hélt á lyklum í leðuról.

„Kakóna!“ kallaði Kati til hans. „Mér var sendur þessi þræll að gjöf. Enginn vill leysa hann út og verður raunar ekki gert héðan af. Til hvers getum við notað hann?“

„Hvað getur þú gert?“ muldraði gamli maðurinn og virti mig fyrir sér eins og ég væri hross.

„Það er talið upp í bréfinu til húsbónda míns,“ svaraði ég stirðum rómi. „Saga, landafræði, heimspeki, málfræði, mælskulist...“ Skyldi hann vilja heyra meira?

Karlinn glápti á mig eins og syfjulegur fíll.

„Getur þú kembt hestum?“

Eins og sært dýr sneri ég mér að húsbónda mínum.

„Herra minn! Ég hef veitt því athygli að þér eigið tvo unga og skemmtilega stráka. Gæti ég ekki séð um að kenna þeim, eða hafa þeir annars nokkurn kennara?“ Ég vissi að svo var ekki.

Kati gaf mér hornauga.

„Við skulum sjá til,“ sagði hann og virtist hugsi en sneri sér þá að gamla manninum. „Gefðu honum eitthvað að éta og láttu hann síðan hvílast, því hann á langt ferðalag að baki.“

Víst var það, að ég var þreyttur, og leit áreiðanlega út fyrir að vera það.

Gamli þrællinn, ráðsmaður húsbóndans, vísaði veginn án þess að segja orð og ég elti. Við fórum að húsabaki, inn í eldaskálann, þar sem mér var gefið dálítið af brauði og osti. Osturinn vakti tortryggni mína. Ég gat ekki hugsað mér að snerta á honum, svo viss um sem ég var að hann væri gerður úr kaplamjólk. Ég dirfðist ekki að spyrja eldabuskuna, sem var önuglynd kerling með skegghýjung; gerði mér heldur brauðið eitt að góðu og drakk með því mikið af vatni.

Þjónustustúlkurnar gáfu mér forvitnilegt auga. Einni þeirra, dökkri yfirlitum, sem var að fægja koparskál, varð skyndilega litið upp frá vinnu sinni.

„Skilur þú húnversku?“ spurði hún.

„Já, ég geri það,“ svaraði ég dræmt.

„Hvaðan kemur þú?“

„Úr Miklagarði.“

„Verður þú leystur út?“

„Nei.“

Þeim varð öllum starsýnt á mig en ég þagði. Úr einu horninu heyrði ég til einnar stúlkunnar mæla á tungu Avzóna við stöllu sína: „Myndarlegasti piltur. Bara dálítið hnakkakerrtur.“

Kakóna gamli kom nú til baka og tók mig með sér inn í gripahúsið. Það var allstórt og úr timbri og skyldi auðsæilega hýsa sæg hrossa og annan búpening yfir veturinn. En núna voru þar aðeins tveir hestar og létu sér leiðast á stöllum sínum.

Ein tíu rúmfleti úr hálmi voru þétt saman í öðrum enda hússins. Tötralegar vetrarflíkur héngu á vegg, þaktar kóngulóarvef. Stæka lykt lagði fyrir vit manns og alls staðar voru flugur.

Mundi þessi andstyggilegi staður eiga að vera heimili mitt? hugsaði ég skelfdur. Heima í Miklagarði hafði ég sofið í rúmi með mjúkum værðarvoðum uppi í litla þrifalega svalarherberginu hans húsbónda míns. Þar voru blóm í gluggum og á veggjunum héngu myndir af Konstantínusi mikla og Þeódósíusi. Loftið var hreint og tært og angaði af sjávarilmi og á nóttunni hafði ég haft net yfir rekkjunni til að bægja flugum frá mér.

„Væri þér ekki sama,“ spurði ég gamla manninn, „þó að ég svæfi ... ég á við, þó að ég svæfi úti? Ef þú gætir orðið mér út um einhverja voð þá gæti ég lagst fyrir hér fyrir utan.“

„Voð? Hm. Þú ferð ekki fram á lítið, he.“

Hann lét mig fá grófan hrosshársdúk. Ég breiddi úr honum undir heysátu í skugganum fyrir utan og lagðist niður.

Hvað biði mín hér ef Kati vildi ekki láta mig kenna börnum sínum? Varla annað hlutskipti en fjósamanns eða hestasveins.

Um kvöldið átti gamli maðurinn leið framhjá og sá að ég vakti. Hann staldraði við. Hann hélt á þykkri rúgbrauðssneið og ostbita.

„Jæja, góði minn,“ sagði hann vingjarnlega, „hefur þú getað sofið?“

„Ég sef í nótt,“ svaraði ég. „Má ég ekki annars sofa hér úti í nótt? Sjáðu til, ég hef aldrei fengist neitt við hesta og því síður sofið í hesthúsi. Mér þætti þess vegna betra...“

„Ætli ekki það ... getur sofið hér,“ muldraði hann blíður í viðmóti. Hann tyllti sér niður hjá mér og tók upp útskorinn saltstaut úr vasa sínum og hóf að snæða.

„Hvaðan ertu?“ spurði hann.

Ég sagði honum upp og ofan af því og spurði hann svo hvernig væri að vera í vist hjá Kata. — „Ef þér er sama þótt ég spyrji, frændi.“

„Nú...“ Hann yppti öxlum. „Það veltur á ýmsu. Margur þrællinn er ekkert of sáttur við hlutskipti sitt hér frekar en annars staðar.“

„Ég skil. En ég á við, hvernig er farið með þá?“

„Það veltur á hverjum og einum, hvernig hver og einn vinnur og hvað hver hefur til síns ágætis.“

„Hvort þeirra er betra, húsbóndinn eða húsfreyjan?“

„Nú ... hrammur húsbónda er stundum þungur. Og húsmóðirin hefur jafnvel auga með spörvaeggjaforðanum. Ég vil þó heldur þjóna þeim en nokkrum öðrum.“

„En yngismærin...?“

Hann yppti öxlum. „Hún hefur ekkert með okkur að gera, er enn aðeins barn.“

Við þögðum um stund. Ég starði ofan í svörðinn, hann japlaði á ostinum. Hann var Saragúri en fæddur hér á meðal Húnanna og hafði glatað tungu forfeðra sinna. Sem ungur maður hafði hann þjónað sem hestasveinn Katanna. Núna, á gamals aldri, hafði hann með höndum ýmis verk utanhúss.

Ég rauf þögnina.

„Fá ekki allir nóg að éta?“

„Allir nóg, jú, jú. Þú getur jafnvel hleypt þig í spik, þó að ekki sé nú mörgum sauðunum slátrað okkar vegna.“

„Verður maður að borða hrossakjöt?“

„Enginn mun neyða þig til þess.“

„En þessi ostur, er hann ekki gerður úr kaplamjólk?“

„Nei, það er hann ekki, þetta er ostur úr venjulegri kúamjólk.“

Í sama mund var hjörð svína rekin inn um hliðin og í átt að stíunum. Svínahirðarnir hröðuðu sér hjá og báru með sér skjólur fullar af skvoli.

Gamli maðurinn stóð á fætur, stakk á sig saltbauknum og vasahníf sínum og lötraði í átt að stíunum.

 

24.

Ég vaknaði í birtingu við klið mikinn er ómaði í eyrum.

Hvergi er borgarskarkali meiri en í skrælingjabæjum að morgni dags. Hvergi eru horn þeytt svo kröftuglega, látið hvína eins í svipum eða rýt svínanna hástemmdara, að ekki sé talað um baulið í kúnum eða hróp og köll mannfólksins. Allir eru komnir á stjá við sólarupprás. Strax í dögun upphefst erillinn í borginni. Reiðknapar flengjast um stræti og brynna hrossum sínum í brunninum. Úfnar og tötrum búnar meyjar reka svín í haga. Ambáttir reka nef út úr dyrum og teygja úr sér. Spörvar tísta í döggvotum trjám. Dúfur blaka vængjum út um borg og bý en svölurnar endasendast. Þær eru á flugnaveiðum.

Ég hafði búið mér lítið hreiður í heyinu. Þó að nokkrir þjónar hefðu einnig gert sér náttból þar úti hafði ég sofið vært og ekkert raskað ró minni annað en fáeinar býflugur.

Ég reytti af mér stráin og sló rykið af ilskónum mínum eftir því sem mér var unnt. Það setti ugg að mér er ég veitti því athygli að þvengirnir voru að losna upp öðrum megin á einum. En þrælar voru hér berfættir á sumrin, enginn átti slíka reimaða ilskó sem ég. Ef ég nú gengi þá úr sér, væri ég þá ekki neyddur til að standa fyrir augliti Móeikar berfættur?

Ég þvoði mér og lagaði á mér hárið svo sem ég best gat með fingrunum einum, því engan átti ég kambinn. Þá stillti ég mér upp við hliðin og beið boða húsbónda míns. Ég gerði ráð fyrir að hann myndi senda eftir mér, og sú varð raunin. Innan stundar var kallað á mig af þjóni einum.

„Heyrðu, Grikki! Húsbóndinn vill finna þig.“

Fjölskyldan sat uppi á svölum og neytti morgunverðar. Á borðum var mjólk, smjör, svínafleski og brennt vín. Móeik sat á milli drengjanna tveggja, og þarna var Djídjía einnig. Gömul kerla með kónganef klædd rauðu silki gekk um beina.

Í sjónhending virti ég þau fyrir mér, sem ég kom í dyrnar, hneigði mig þá og stóð kyrr, álútur, eins og þræli ber að gera frammi fyrir húsbændum sínum.

„Hvað ertu með í hendinni?“ spurði Kati.

„Peningana mína.“

Með þeim orðum steig ég fram og rétti honum pyngjuna.

„Gullpeningar!“ Kati rak upp stór augu. „Svo þú ert svona ríkur, haha!“

„Prískus gerði mér grein fyrir hvað orðið mitt þýðir. En ég veit að hér er það annarrar merkingar.“

„En pabbi,“ skaut Móeik inn í hlýjum rómi. „Grikkinn fékk peningana að gjöf frá Ríku drottningu.“

„Hvað eins og mig varði um það,“ svaraði Kati glaðhlakkalegri röddu. „Þræll hefur ekkert með peninga að gera.“

„Það sem er þrælsins, er húsbónda hans,“ bætti húsmóðirin við.

Ég þokaði mér til baka til dyranna.

„Ég hef verið að velta því fyrir mér sem þú minntist á við mig,“ mælti húsbóndi minn. „Mér finnst það einkennilegur siður hjá Rómverjum að ráða til sín kennara handa börnunum.“

Samkvæmt ströngustu siðvenju skyldi ég ekki hafa svarað nema með jái eða nei. En hvað gat talist prúðmennska í augum þessa skrælingja sem át hrossakjöt og lét sig ekki muna um að hirða fésjóð af fátækum þræli.

„Menntin er mannsins máttur,“ sagði ég og lyfti brúnum. „Og mér sýnast þetta vera skýrleikspiltar, drengirnir.“

„Eins og hvern fjárann ættum við að kenna þeim?“

„Stafrófið, fyrst af öllu, herra minn. Stafirnir eru lyklar að silfri hugans.“

„Silfur hugans? Og hvað skyldi nú „silfur hugans“ eiga að þýða?“

„Ríkidæmi sálarinnar, herra minn. Viskubrunnur vor; þekking, hugsanir, viska þúsunda manna sem þeir um aldir hafa fært í letur og safnað á bækur.“

„Þú vilt sem sagt kenna þeim að lesa?“

„Lesa og skrifa, ef þér svo æskið, herra minn.“

„Þú ert ekki með öllum mjalla, piltur! Gerir þú þér ekki grein fyrir að ég er ríkur maður? Ég get ráðið til mín svo marga skrifara sem mig lystir. Til hvers ætti ég þá og mínir synir að kunna að skrifa?“

Honum var auðsæilega gramt í geði. Og hann sagði þetta af slíkri sannfæringu að ég dirfðist ekki að mæla honum í mót.

„Nú, en þá til dæmis ... matematík?“

„Hvaða þremils tík er nú það?“

„Ehe, stærðfræði, vísindi talnanna, herra minn.“

„Til hvers væri að kunna það? Ég hef aldrei kastað tölu á búpening minn. Samt tek ég samstundis eftir því ef hross vantar eða kú. Og kjúklingarnir eru ýmist fleiri eða færri, hví þá að vera að ergja sig á því að telja þá? Ráðsmaðurinn er fullfær um það. Látum hann kasta á þá tölu. Hvað annað gætir þú kennt?“

„Geógrafíu, historíu, fílósófíu — hvað eina sem þér æskið, herra minn.“ Mér leist orðið ekki alls kostar á blikuna.

„Slettu ekki öllum þessum grísku orðum. Talaðu húnversku!“

„Geógrafía er fræðin um lönd og álfur. Sá sem er vel að sér í þeim vísindum þekkir lönd, fjöll, ár og vötn, veit hvers kyns fólk býr hvar, hvernig aðrar borgir eru, og hvar eru námur, fjallaskörð eða virki, og eins hvaða handverk er fengist við á hinum ýmsu stöðum, og svo margt, margt fleira.“

„Þetta þykja mér góð vísindi.“ Hann kinkaði kolli, hugsi; bætti þá við: „En ekki fyrir börn, aðeins kónga. Konungur fer með fólk sitt hvert á land sem er, þegar honum býður svo við að horfa. Þá er aðalatriðið að hann kunni skil á því hvar gott er haglendi og hvar nóg af fersku vatni. En hvað kanntu fleira?“

„Historíu, herra minn. Það er saga mannkynsins og segir okkur frá forfeðrum vorum og öðrum þeim sem uppi voru fyrr á tímum; hvers konar fólk það hefur verið, hverjir voru keisarar, kóngar og fyrirmenn, hvernig þeir börðust og af hverju, hvernig þeir öðluðust styrk sinn, eða hvað varð þeim að falli, og fengu þá lært lexíur ýmsar fyrir vikið.“

Kati hristi höfuðið.

„Svona lagað er aðeins fyrir fræðaþulina og bragsmiðina,“ sagði hann. „Sonum mínum er ekki ætlað svo lítið að læra þessi ósköp. Langi þá til að heyra eitthvað þess háttar þá er minnsta málið að sækja einhvern bragbarðann og láta hann segja þeim sögur. Nú, en kanntu eitthvað fleira?“

Mér leið orðið hálf ónotalega.

„Fílósófíu, eða vísindi viskunnar,“ svaraði ég mæddur. „Um líf og starf hinna sjö grísku heimspekinga, sérstaklega þeirra Aristótelesar, Epiktetosar, Platós og Sókratesar...“

Kati blakaði frá sér hendi.

„Láttu þessa göróttu Grikki eiga sig! Ég hef aldrei numið neina speki af bókum, og er ég þó engu að síður hygginn maður. Og engu verr mun sonum mínum farnast þó að ekki angri þá spekin sú.“

Ég dirfðist ekki að segja meira. Fullur vonbrigða sá ég fram á að mér yrði enginn starfi fenginn hér innanhúss.

Móeik lét ekki svo lítið sem horfa á mig. Mér varð þungt um hjartarætur.

Kati tæmdi silfurbikar sinn í botn. „Við sjáum til,“ sagði hann að lokum, „sjáum til hvaða gagn ég get haft af þér. En fyrst um sinn skaltu vera minn fylginautur hvert sem ég fer. Og farðu nú.“

Hve mér létti! Svo að Kata hefur þá þótt ástæða til að setja mig skör hærra en hina. Mér var þá ekki ætlað að hirða hrossin!

Ég hneigði mig og gekk öfugur út eins og að lokinni áheyrn hjá sjálfum keisaranum. En gamla þernan með kónganefið tók mig til bæna frammi á ganginum.

„Þú ert nú meiri dóninn!“ sagði hún og horfði á mig með fyrirlitningu.

„Hvað þá?“ spurði ég forviða.

„Þú kemur inn, en heilsar ekki. Þú ferð út, og enn engar kveðjur. Þú mátt þakka fyrir að húsbóndinn gaf þér ekki löðrung.“

 

25.

Kati kom út stundarfjórðungi síðar. Lagt hafði verið á hest hans sem beið hans fyrir utan. Þjónarnir hneigðu höfuð sín og heilsuðu.

„Góðan og blessaðan daginn, herra. Þér hafið vonandi sofið vel, herra?“

Kati leit í kringum sig. „Sækið annan hest. Er Mökkur á stalli?“

„Nei, herra,“ svaraði hestasveinninn. „Ég lét hann á beit ásamt hinum, af því að —“

„Nú, sækið þá gamla Jálk!“

„Leggja á hann?“

„Nei.“

Hesturinn var sóttur — án hnakks og allslaus, ekki einu sinni á honum rýjudula, hvað þá væru ístöð. Kati benti mér á að fara á bak og við héldum af stað út á strætið. Fólk heilsaði honum hvaðanæva, en hann rétt lyfti hendi að hetti sínum.

„Zeta!“ kallaði hann um öxl sér og hægði á gæðingi sínum. Ég lét spretta úr spori upp að hlið hans.

„Hefur þú verið við keisarahirðina með húsbónda þínum?“

„Oftsinnis, herra minn; nær því daglega.“

„Segðu mér frá. Hvers konar fólk er við hirðina?“

„Misminni mig ekki, herra minn, þá komuð þér þangað sem erindreki fyrir einum þremur árum og sóttuð þá sex þúsund pund gulls til keisarans.“

„Rétt er það. En þar lýgur hver eins og hann er langur til, sonur sæll, og allt er eintómur leikaraskapur. Fólk setur upp heiðvirðan svip líkt og veisluklæði. En ég vil vita hvernig það kemur fyrir hversdags. Segðu mér frá því.“

Ég tjáði honum að Þeódósíus væri valdalítill og veiklyndur maður. Í reynd væri það eldri systir hans sem sæti á veldisstóli, og væri sprotinn þó í rauninni í höndum fáeinna gáfnaljósa sem hún hefði með í ráðum. Núna skildi ég að mér var ætlað að stytta honum stundir með spjalli. Þegar smá hlé varð á samræðunum braut ég upp á máli mér viðvíkjandi.

„Leyfist mér, herra minn, að minnast á smávegis sem ekki kemur samræðum okkar við. Þegar ég yfirgaf yður áðan, herra minn, þá vakti þernan athygli mína á því að ég hefði ekki heilsað yður. Ég biðst afsökunar, herra — en sá siður er mér framandi. Á meðal okkar leyfist þræli ekki að tala nema hann sé ávarpaður.“

„Hafðu engar áhyggjur,“ svaraði hann góðlátlega.

Við komum þangað þar sem hrossin hans voru á beit og tókum hest einn, gráan og smávaxinn, út úr stóðinu. Það var Mökkur, sem héðan í frá skyldi vera minn fararskjóti. Því ekki gat Kati verið þekktur fyrir að þræll hans sæti honum jafn hátt.

 

26.

Á leiðinni til baka lét Kati staðar numið hjá hliðunum og rétti mér hött sinn. „Farðu með hann inn,“ skipaði hann andstuttur, „og biddu konuna mína um að fá þér þann sem ég hef uppi í höllinni.“

Ég gerði sem hann bað, þeysti inn í garðinn og hljóp upp á efri hæðina.

Á ganginum varð Móeik á vegi mínum. Hún var búin eins og á leið eitthvert í heimsókn, hvítklædd og í rauðum ilskóm, með slæðu um hárið og keyri í hendi.

Um leið og hún kom auga á mig hélt ég jafnvel að ég fengi að kenna á keyrinu, slík var reiðin er brann henni úr augum.

„Því ertu hér?“ hvíslaði hún. „Hvers vegna komstu til baka?“

Sama yndislega ilminn lagði af klæðum hennar og hafði hrifið mig í húsi Ríku drottningar. Hún horfði á mig gljáeygð eins og köttur í ham en ég kom ekki upp stunu, aðeins stamaði.

Hún tók mig undir arm sér og teymdi mig ákveðin inn um hálf opnar dyr inn í herbergi eitt. Það var fataherbergið, með veggjum þöktum loðskinnsfeldum allt um kring, en á standfæti voru þrír alklæðnaðir rómverskra hertygja.

„Hvers vegna komstu til baka?“ spurði hún enn, sömu reiðilegu röddinni og kom svo þétt upp að mér að engu munaði að nefbroddar okkar snertust — rétt eins og hún hygðist lesa svar mitt úr augum mínum einum. Hjartað í mér nötraði og skalf.

Ég herti upp hugann og svaraði: „Af því að mig langaði til þess.“

„Langaði til þess? Þig sjálfan?“

„Já, mig sjálfan.“

„En hvers vegna? Þú varst frjáls. Faðir minn segir að Prískus hafi fært þig sér að gjöf. Hví ertu orðinn þræll á ný?“

„Ég seldi mig sjálfur í þrældóm. Og fyrir yður, göfuga yngismær, skal ég játa, að ég hljópst á brott frá Prískusi. Ég skrifaði bréfið eigin hendi en í hans nafni. Til þess eins að fá snúið til baka.“

Stúlkan starði á mig stjörfu augnaráði. „Ég skil þig ekki. Hvers vegna gerðir þú þetta?“

„Af þeim sökum einum,“ svaraði ég og smeygði hendi inn undir kyrtil minn, „að ég vildi vita vissu mína, hvort þér hefðuð gefið mér þessa rós.“

Hún hnykklaði brýnnar og starði enn, nú á rósina, þá enn á mig, stjörfu augnaráðinu.

„Nei.“

Hún hraðaði sér út úr herberginu.

Ég skjögraði út. Mér var innanbrjósts eins og jörðin hefði brostið undan fótum mér.

 

27.

Þá daga sem nú fóru í hönd mátti ég þola æ meiri áþján og þrengingar, kvalinn á sál og hjarta.

Þjónarnir létu sér á sama standa um mig. Það var þeim engin nýlunda að þræll kæmi eða annar færi og létu sig það helst varða hvort ég væri af aðalsættum og þá hvort ég ætti von á að verða leystur úr ánauðinni.

En jafnskjótt og þeir vissu að faðir minn væri berfættur fátæklingur og að enginn hefði hug á að leysa mig út, fékk ég aðeins fundið til fyrirlitningar þeirra.

„Þú ert með hendur eins og aðalsmaður,“ sögðu þeir. „En sannaðu til, þær eiga eftir að verða hrjúfar.“ Eða: „Hann ber ilmolíu í hárið á sér. Kópur, þú verður að sjá til þess að hann fái dýrindis möndlumjólk til að þvo sér upp úr á morgnana!“

Kópur var vatnsberinn og gætti eldsins. Annars var hann notaður til flestra verka.

Þeim þóttu þessar meinyrtu athugasemdir afar fyndnar og ráku óspart upp hrossahlátur.

„Kæru vinir,“ sagði ég og reyndi að tala um fyrir þeim, „mér er sama þótt þið hafið mig að athlægi svo lengi sem þið látið ekki stjórnast af illgirni. Sjálfum leiðist mér að spotta fólk. Ég er þjónn húsbónda míns, en vil gjarnan vera á ykkar bandi einnig, ef þið aðeins vilduð setja ykkur í mín spor.“

Þau setti hljóð um stund. Þá tók vatnsberinn til máls, spaugsamur að vanda.

„Þú ert svo tungulipur, talar eins og skólasveinn. Þú ert þó ekki skrifandi?“

„Hann er alvitur!“ hvein í þernunni með kónganefið. „Þið hefðuð nú átt að heyra til hans þegar hann var að útmála fyrir húsbóndanum alla viskuna í kollinum á sér, en kunni þó ekki algengustu mannasiði eins og að heilsa!“

Og enn skellihlógu þau.

Grátt gamanið tók þó á sig aðra mynd, og mér þó heldur í vil, þegar þau komust að raun um að Kati hafði mig sér til fylgdar hvert sem hann fór. Enginn tók undir kveðjur mínar. Nálgaðist ég þau, sneru þau sér undan. Þegar ég eitt sinn settist niður til borðs með þeim lést Raba, eldabuskan, furða sig mjög. „Hvað þá, þú hér?“ sagði hún. „Ég hélt að þú ætir með húsbóndanum í dag!“

„Hundur á að halda sig við borð húsbónda síns,“ mælti Úzúra, dyravörðurinn.

„Hann kann að sleikja sig upp við höfðingjana, flaðrarinn,“ bætti Karakki við, en hann var dökkur kynblendingur með innfallið andlit. „Mætti halda að hann væri rómverskur ráðsherra þegar hann er að hneigja sig fyrir húsbóndanum!“

Ég svaraði þeim ekki aukateknu orði. Ég ætla mér ekki að eiga í orðaskaki við þau, hugsaði ég með mér og sat kyrr. Ómenntað fólk lætur við aðra sér framandi eins og hundar láta, það getur ekki þýðst ókunnuga fyrr en það hefur vanist þeim.

Hvað sem því leið varð ég að koma mér sæmilega við matráðskonuna — það var nú einu sinni hún sem skammtaði mér matinn. Sama hve óþýð og höstug hún var í viðmóti, svaraði ég henni ætíð af sömu háttvísi og þakkaði fyrir mig, hverju sem hún annars deildi mér út.

Það varð til þess að einnig hún varð skotspónn háðfuglanna. „Endilega, Raba frænka, haltu bara áfram að gefa honum bestu bitana,“ gat Úzúra átt til að segja. „Hann þakkar svo prúðmannlega fyrir sig að ætli hann taki ekki brátt að kyssa þig fyrir!“

„Ætli hann vilji ekki ganga að eiga Röbu?“ laumaði Kópur þá út úr sér.

Og enn var skellihlegið. Raba var orðin hnigin að aldri, var með skegg yfir vör og lá svo djúpt rómur sem væri hún karlmaður, og hún var að minnsta kosti þrjúhundruð pund að þyngd. Dögum saman kitlaði þessi brandari Kóps hláturtaugar þeirra.

Það er ekki þrautalaust að færa þennan kafla í letur. Þeir sem lesa þetta í makindum sínum furða sig ef til vill á því að ég skyldi hafa látið bjóða mér annað eins, að ég skyldi ekki hafa staðið upp frá borðum og komið mér út. En þá skyldu lesendur hafa hugfast að það er ein af frumþörfum mannsins að fá neytt matar síns, en er ekki einskær vani. Hungri mann og þyrsti veigrar maður sér ekki við að leggja börkinn af trjánum sér til munns og bergja af forarpollum. Ég undrast ekki að hinn glataði sonur ritningarinnar hafi étið úr sömu trogum og svínin.

En hvort ég ekki geri mér það ljóst núna að ég hefði betur hlegið þeim til samlætis þegar ég var aðhlátursefnið. Og fremur goldið í sömu mynt fyrir það sem þau létu flakka á minn kostnað og þannig hrundið eitruðum örvunum af mér. En þessa daga var ég svo veikur í sinni að ég einungis engdist sundur og saman eins og snákur undan spjótalögum. Hvað eina særði mig, jafnvel kjánalegustu athugasemdir.

Svo að ég einungis sat þegjandi undir hnútum sessunauta minna uns mál var komið til að fara. En ég hafði ekkert á móti því að sitja úti með fótlúnum garminum honum Kóp. Mér var ómögulegt að vera í nöp við hann því að ég fann að hann meinti ekkert illt með því sem hann sagði. Hann lét brandarana fjúka til þess eins að gera sjálfum sér lífið léttbærara.

Enginn hundur var á heimilinu. Eitt barnanna hafði einhvern tímann verið bitið og þá hafði Kati látið lóga öllum hundum sínum. Kjúklingarnir kroppuðu því óáreittir í garðinum næst eldaskálanum og á meðal þeirra veitti ég athygli svartri hænu með lemstraðan fót; einhver hafði stigið ofan á hana á meðan hún var enn ungi. Henni hafði þó ekki verið slátrað og því síður steikt á teini, af því að hún hafði þennan afbrigðilega litarhátt. Venjulega voru svartir kjúklingar fengnir fræðurunum, en vegna fótarmeinsins höfðu þeir ekki getað notast við hana til sinna þarfa.

Ég hafði laumast til að taka smávegis með mér frá borðum og sat maulandi á þröskuldinum þegar ég veitti þessum vesalings smávaxna fiðurskapnaði fyrst athygli. Hún var ljót og eftir því rotinpúruleg og ævinlega hrædd. Kambur hennar var fölbleikur. Hinar hænurnar voru ávallt samtaka um að ybba gogg og hrekja hana frá sér og oft skrækti hún ámátlega af kvölum.

Engu að síður tórði hún og hélt sig gjarnan næst eldhúsinu, ein útaf fyrir sig, sem fjærst hinum hænsnunum er vöppuðu státin kroppandi kringum gripahúsin, og kæmi einhver nærri henni var hún fljót að hörfa undan. Ég átti því til að henda til hennar brauðmolum.

Fyrst í stað fældist hún og hörfaði undan eins og hún héldi að ég væri að kasta til hennar steinum en ekki brauði. En að nokkrum dögum liðnum vann hún bug á hræðslu sinni og tók að voga sér nær.

Hægt og sígandi bundumst við tryggðarböndum. Hún varð sér þess meðvitandi að ég vildi henni ekkert illt.

Því var það að ég kaus fremur að eiga skeggræður með hænunni minni litlu en skiptast á orðum við sessunauta mína.

„Komdu nú, Litla Ljót, vertu ekki hrædd. Hérna! Sóttu! Láttu þér verða af því!“

Brátt tók hún að narta úr lófa mínum, og jafnskjótt og ég birtist trítlaði hún til mín örugg í fasi og þekktist við mig klakandi sem ég talaði til hennar. Og við nánari kynni átti hún það jafnvel til að hjúfra um sig í kjöltu minni og leyfa mér að strjúka sér og er fuglum þó sjaldnast neitt um það gefið að láta handfjatla sig.

Um síðir laðaðist hænan svo að mér að það varð vandi hennar að húka við flet mitt á morgnana og bíða þess að ég vaknaði.

 

28.

Sumarið leið og tjaldborgin tók stakkaskiptum. Við hvert tjald var nú safnað hey- og hálmknippum og á milli knippanna voru hrossunum gerðir stallar; það voru aðeins einföld tágagerði þeim til skjóls fyrir norðan- og austanáttinni, og einnig var tjöldunum þannig komið fyrir að skepnurnar fengju af þeim eitthvert skjól.

Tjöldin voru þakin fleiri skinnum og hrossháir og kýrhúðir settar fyrir innganga, þeim flett frá á daginn en látnar hanga fyrir á nóttunni.

Og einnig fólkið tók stakkaskiptum. Nú voru hnjábrækur og víðar, flaksandi treyjurnar huldar skinnklæðum — bjarndýrsfeldum, úlfsbelgjum, hjartar- og kálfsskinni — og skinnið ávallt hært. Í stað léttra hæruskinnshatta hafði fólk nú loðhúfur á höfði, alþýðan húfur úr gæruskinni en margt hið tignara fólk höfuðföt úr tófuskinni eða bifurskinni. Höttur Attílu var gerður úr ljónsmakka en yfirhershöfðingjans og annarra hirðmanna, og að meðtöldum húsbónda mínum, úr bjarnarskinni. Þrælarnir máttu láta sig hafa það að vera berhöfðaðir.

Enn fylgdi ég Kata hvert sem hann fór og var nú orðinn vanur því að sofa í gripahúsinu, þótt mér reyndist það ekki þrautalaust og gæti stundum ekki tára bundist. En nú sem kólnaði í veðri var ylurinn frá skepnunum engu að síður notalegur.

Móeik varð á vegi mínum dag hvern en lét aldrei svo lítið sem virða mig viðlits, nema ef svo bæri undir að enginn væri í nánd, og þá aðeins smáum augum; hún átti til að yrða á mig fáeinum orðum, kuldalegum rómi og eins og af hendingu, en yrti þó alltént á mig.

Eitt sinn spurði hún mig hvort ég væri sáttur við hlutskipti mitt.

„Mín kæra yngismær,“ andvarpaði ég. „Ég er hamingjusamasti gæfuleysingi á jörð.“

Hún mætti nú hafa spurt mig hvers vegna ég tjáði mig í senn vera hamingjusaman og gæfusnauðan, en hún yppti aðeins öxlum.

„Of seint að iðrast núna.“

„Á meðan ég fæ bergt yður augum,“ svaraði ég, „skiptir mig ekkert annað máli.“

„Gerir þú þér ekki grein fyrir því,“ svaraði hún hranalega, „að þú ert að sóa lífi þínu til einskis!“

„Yður er það einskisvert, vissulega — en mér er það allt.“

Gröm sneri hún við mér baki og fór.

Eitt sinn sá ég til hennar þar sem hún hallaði sér út um glugga og virti garðinn fyrir sér. Það var á grámóskulegu haustkvöldi og tunglið nýkomið upp. Ég lagði lykkju á leið mína og heilsaði henni.

Yðar undirgefinn þræll býður yður gott kvöld.“

Hún aðeins horfði á mig og lét sér hvergi bregða, og þó að ég staldraði aðeins í sporunum og vænti þess að hún segði eitthvað, varð mér ekki að ósk minni.

Öðru sinni, er ég sat í dyrunum daufur í dálkinn og svo niðursokkinn í hugsanir mínar að ég gaf fólkinu sem átti leið hjá engan gaum, þá finn ég angan af klæðum hennar leggja fyrir vit mín og mér verður litið upp.

Þarna var hún þá, klædd kápu úr hreysikattarskinni og með húfu á höfði í sama stíl.

Hún beið eftir hesti sínum.

Ég reis á fætur og hneigði mig.

„Hvernig líður þér?“ ávarpaði hún mig.

„Þakka yður fyrir,“ svaraði ég og enn hneigði ég mig, „— ég er lifandi dauður.“

Þaðan í frá áttum við varla neinar samræður, þótt ég reyndi hvenær sem þess var kostur að finna mér átyllu til þess að vera inni í húsinu. Ég leitaðist ávallt við að ávinna mér hylli barnanna, með því að búa til leikföng handa þeim eða laumast til að færa þeim blóm og ávexti. En hinir þrælarnir gerðu slíkt hið sama, og konur kunna betur lagið á börnum. Ambáttirnar í húsinu voru að minnsta kosti einar tíu.

Víst átti ég þess kost að ræða við Kata; það var einmitt þess vegna sem hann hafði mig sér til fylgdar — til að hafa af mér gaman og ánægju og geta dáðst að mér líkt og ég væri einhver fagurlega slípaður eðalsteinn. Ég var þræll hans og því var menntun mín og raunar hugmyndaheimur minn allur hans eign. Hann snerist í kringum mig líkt og hann væri að handfjatla gullkeðjur sínar og hringi. En þótt hann bæri skynbragð á kosti mína kunni hann ekki að meta þá til fjár.

Því var það að ég varð hundurinn hans, uppáhaldið mesta.

Þrælarnir urðu sér þess meðvitandi að hann var ekki á þeim buxunum að hrinda mér frá sér og því tók afstaða þeirra til mín smám saman að breytast. Væri þeim umhugað að koma einhverju á framfæri við hann trúðu þeir mér fyrir því, af því að það var á mínu valdi að klæða óskir þeirra í haganlegan vef orða sem ég gat laumað inn í samræður okkar.

Á hinn bóginn, að því er sjálfan mig varðaði, var ég alltaf sami kjáninn. Sami vansæli kjáninn. Það var til einskis þótt ég hefði orð á því að mér fyndust veggjarvoðirnar í borðstofunni ekki hanga alveg réttar á veggjunum, ellegar hvort hann vildi ekki að ég fægði vopn hans og verjur og dýrgripina hans. Hann tók þá að vísu tillit til þess sem ég sagði en lét mig einungis kenna einhverjum hinna þrælanna til verka. Á því lék enginn vafi að hann áleit mig vera meðreiðarsvein sér samboðinn, og enda vakti þekking mín ávallt áhuga hans. Ég fylgdi honum hvert fótmál, ríðandi berbakt og berhöfðaður og skyldi spjalla við hann um heima og geima.

En fáfróður var hann með eindæmum. Á stundum, þegar ég hélt að hann hefði skilið mig, gat hann átt það til að spyrja svo sérdeilis broslegra spurninga að ég átti fullt í fangi með að halda niðri í mér hlátrinum. Ég gat ekki stillt mig um að skálda upp úr mér hinum kynlegustu vísindakenningum og frásögnum af sögulegum viðburðum er áttu sér enga stoð, og lýsti fyrir honum löndum og lýðum er hvergi fyrirfundust nema í mínum eigin hugarheimi. Hann lagði trúnað á hvað eina, hvort sem um var að ræða menn með hundshausa, höfuðlaust fólk eða einfætlinga — öllu trúði hann eins og nýju neti.

Fyrir bragðið hélt ég lífi í sálartetri mínu, í þeirri staðföstu trú að ég væri svo yfirburða greindur; trú sem forðaði mér frá því að sökkva niður í dýpstu örvæntingu.

Það olli mér æ meiri áhyggju að klæðnaður minn var að verða tötrum líkastur; og beit þó kuldinn mig ekki eins sárt og hugsunin um það hver áhrif það hefði á Móeik hvernig ég var til fara

Þrælarnir í húsagarðinum — eða þeir utangátta, sem svo voru gjarnan kallaðir — voru allir í skítugum lörfum sem að minnsta kosti á sumum hverjum rétt héngu saman á mittisólunum einum. Þeir naumast þrifu sig, hvað þá kembdu hár sitt.

Ég skolaði úr lörfunum mínum öðru hverju og stagaði þá og bætti eftir því sem kostur var, og eins þvoði ég mér og kembdi reglulega. Enn átti ég aðeins gömlu rómönsku klæðin og voru reimuðu ilskórnir mínir orðnir svo slitnir að ég blygðaðist mín frammi fyrir Móeik. Sæi ég hana nálgast skreið ég í felur eða sneri mér undan, skjálfandi á beinunum af löngunarfullri þrá eftir einu einasta augntilliti frá henni, samtímis því að ég var knúinn til að forðast það sama tillit eins og heitan eldinn.

Þegar vetur gekk í garð og snjór féll fyrsta sinni reið ég samstíga húsbónda mínum, hríðskjálfandi og bleikur og blár á höndum og rauðnefjaður. Hann hefur varla komist hjá því að sjá að mér var orðin það þrekraun að taka til máls.

„Fjandinn hirði garmana þína!“ gjammaði hann. „Hvað á allur þessi skjálfti að þýða? Hví í ósköpunum biður þú ekki Kókónu um eitthvað utan á þig? Eða ætlar þú að drepast úr kulda?“

„Ó, herra minn!“ svaraði ég mæddur. „Kókóna gamli lét mig fá svo hræðilega larfa að ég óttaðist að þér mynduð gjalda þess í illu umtali ef ég klæddist þeim.“

Kati þreif til sverðs síns. „Hver vogar sér að tala illa um mig? Og hver eins og búi þræla sína uppá í silki?“

Allt að einu kallaði Kati mig til sín upp á loft þegar við vorum komnir heim; og í eigin persónu tók hann að gramsa í sínum eigin klæðum eftir flíkum er gætu hæft mér.

Mig hafði lengi langað til að vera búinn að hætti Húna. Ég vildi vera Húni! Að vera Húni jafngilti því að standa Móeik skrefi nær. Og í öllu falli líkaði mér búningur þeirra betur eftir því sem ég vandist honum — hvítri treyjunni, hólkvíðum brókunum og hettinum með arnarfjöðrinni. Það tók mig aftur lengri tíma að venjast vetrarflíkunum þeirra. Þóttu mér þeir þá einna líkastir fjarskyldum ættingjum vorum af dýrakyni — voru þá eins og bjarndýr á hestbaki!

Rýtandi ærlega, másandi og krossbölvandi tíndi Kati til hnjábrækur úr refaskinni handa mér, stakk eða serk úr úlfsbelg og einhvers konar kálfsskinnsstígvél.

Hann fékk skömm í hattinn hjá konu sinni. „Ertu genginn af göflunum, maður!“ sagði hún. „Ætlar þú að klæða þrælinn í þessar ágætis flíkur?“

„Þegi þú!“ urraði Kati og konan hrökklaðist út með það sama.

Vissulega voru þetta ágætis flíkur. Stakknum var hneppt með gullspennum er voru í lögun eins og ljónsklær, en eðlilega skar Kati hlekkina frá og lét mig fá stutta leðurþvengi í staðinn. Samt sem áður var þetta hin besta flík, að vísu lítilsháttar mölétin, en aðeins öðrum megin. Hnjábrækurnar voru lýtalausar að undanskilinni smá bót á sitjandanum en stakkurinn huldi það.

„Herra minn,“ sagði ég fullur þakklætis og þó lítið eitt fölskum rómi, „ég á þetta ekki skilið. Eigið þér ekki einhverjar flíkur dálítið trosnari en þessar?“

„Trosnari en þessar á ég engar til,“ muldraði hann. „Ég mundi einnig fá þér eitthvert fat á hausinn ef ég ætti ekki á hættu á að þú yrðir tekinn í misgripum fyrir tiginborinn herramann; höfuðfat færðu því ekkert. En kólni þér á hausnum skaltu vefja hann með skýluklút eins og stallbræður þínir gera.“

Ég þakkaði fyrir mig af öllu hjarta og hugsaði til þess fullur tilhlökkunar hvernig Móeik yrði við að sjá mig.

En alltof fljótt varð ég að koma mér niður á jörðina. Þegar ég mátaði fötin rann upp fyrir mér ljós að Kati var allur meiri um sig og hávaxnari en ég. Flíkurnar héngu utan á mér. Kominn í stakkinn var ég eins og björn sitjandi á rassinum. Ég reyndi að reyra hann að mér með mittisól en það bætti lítið úr skák og ambáttirnar hlógu sig máttlausar þegar ég birtist í dyrum fataherbergisins, og Kati ekki síður sínum hrossahlátri og lét kalla á allt þjónustuliðið eins og það lagði sig til að allir mættu nú sjá! Og konan hans hló og ... ó, aðeins að Móeik hefði ekki gert það líka —

Ég reyndi allt hvað ég gat að kreista úr mér hláturinn en augun flutu í tárum. Ég átti mér þá ósk heitasta að geta hent þessum dýrshúðum frá mér og hlaupið eitthvert í felur.

„Herra minn,“ leyfði ég mér að ávarpa hann við gott tækifæri nokkru síðar þegar hann var í sínu besta skapi. „Hér í bæ eu svo margir feldskerar, væri ekki mögulegt að láta þrengja flíkurnar mínar lítillega?“

„Hvílík hugmynd!“ Víst kom hún við kvikuna á honum. „Þú lætur þó ekki hvarfla að þér að ég ætli að fata þig upp á hverju einasta ári? Láttu togna úr þér og fylltu út í fötin. Þú átt eftir að klæðast þeim allt til dauða, Grikki!“

Þegar vetur konungur tók að læsa í okkur klónum svo um munaði, fór mér að skiljast betur hvers vegna Húnar klæða sig loðskinni. Það var til þess eins að að geta snúið feldinum að sér, á röngunni. Eldinum var haldið lifandi inni í tjöldunum, en aðeins til matreiðslu og baksturs. Liðlangan veturinn létu karlarnir ekki af þeim vana sínum að safnast saman á strætum úti. Ullarvoðum var kastað yfir bök á hestunum. Væri kuldinn bítandi setti fólk á sig vettlinga og bretti spél og börð niður fyrir eyru, en svo harður gat veturinn aldrei orðið að hann nísti í gegnum loðflíkurnar.

Á veturna höfðu konurnar loðhúfur á höfði og bjuggust til fótanna stígvélum er náðu upp fyrir hné og voru úr mjúku kanínu- eða kattarskinni en kjólar og serkir voru fóðraðir með marðar- og hreysikattarfeldi.

Hárið á mér var orðið axlarsítt. Kuldinn beit ekki á mig, og það þrátt fyrir að snjórinn frysi jafnvel í hárinu sem hann féll ofan.

Næstum því í hverri viku var Attíla sóttur heim af hinum ýmsu umboðssveitum, og fóru jafnvel konungar fyrir á stundum. Eins og gefur að skilja voru þetta engin líflaus marmaralíkneski í líking við hina rómversku keisara, heldur voru þessir skrælingjar af konungakyni óhreinir í framan og bjuggu í tjöldum og burðuðust gjarnan með á sjálfum sér gull svo sem eins og hálfa smálest þyngdar. Þeir voru ómenntaðir en samt sem áður tígulegir kóngar þótt ekki hefðu þeir minnstu hugmynd um hvað íburður í raun þýddi, og sóttust því ekki heldur eftir neinu ígildi burðarins. Af fúsum og frjálsum vilja viðurkenndu þeir Attílu sem sinn æðsta herra.

Ævinlega þegar konunglega gesti bar að garði var hávaðasöm kvöldmáltíð í höllinni, og undir dögun féll það þá í minn hlut að verða mér úti um aðstoðarmann og styðja húsbóndann heim. Húnarnir drukku eins og svín, og var haft á orði að jafnvel Attíla ætti til að verða góðglaður á stundum.

Einnig voru haldnar brúðkaupsveislur sem gátu jafnvel orðið svo margar sem sex einn og sama daginn. Og enn var drukkið og enn var leikin hljómlist og stiginn dans. Eitt sinn komst sá orðrómur á kreik að Alöður konungsson skyldi ganga að eiga Móeik, en það reyndist slúður eitt. Prinsinn gekk að eiga dóttur manns af alþýðustigu. Ég sá stúlkuna, hún var ekki nærri því eins falleg og Móeik.

Það segi ég satt að ekki vildi ég upplifa þessa daga á ný.

 

29.

Ég gafst brátt upp á því að bíða húsbónda míns þegar hann át hádegisverð með Attílu. Reynslan kenndi mér að hans væri aldrei að vænta til baka fyrr en undir sólarlag. Æti hann hádegisverð með yfirhershöfðingjanum vissi ég að ég þyrfti ekki að heimta hann heim fyrr en um miðnætti. Því var það að ég gat hreiðrað um mig í eldhúsinu á meðan hallaði af degi, á dögum sem þessum.

Í einu horninu var stórt eldstæði mikið um sig en ekki mikið hærra en undir kálfa. Héngu soðkatlar yfir og var kynt á vetrum með stórum viðarlurkum. Var notalegt að koma sér þar fyrir á heitum hellunum og stara í glæðurnar.

Á löngum vetrarkvöldum vorum við oft ekki færri en tíu sem þar hreiðruðum um okkur í kringum eldinn — hrossasmalar sem kúrekar, sem höfðu rekið hjarðir sínar og stóð heim úr högum, og einnig frjálsir þjónar af húnversku bergi brotnir, og ég sjálfur og gamli ráðsþrællinn Kókóna. Það jaðrar við að guðræknisleg andakt grípi Húnanna þegar þeir koma þannig saman og stara í glæðurnar. Jafnvel á sumarkvöldum kveikja þeir elda á ökrunum til þess eins að geta starað þannig í logaglæður, andaktugir og dreymandi.

Eitt sinn sat ég einsamall í eldhúsinu. Það var þvottadagur og höfðu konurnar í nógu að snúast með að hengja upp þvottinn í þurrkherberginu í risinu. Sól var um það bil að setjast og tekið að drífa úr lofti með krapahríð.

Djídjía kom askvaðandi inn í skálann og gaut á mig dökkum, blikandi augum sínum.

„Gamli góði Zeta,“ másaði hún. „En hve gaman að sjá þig hér.“

Hún tyllti sér niður við hlið mér, neri saman höndum og yljaði sér yfir glæðunum.

„Við sjáumst svo sjaldan, finnst þér ekki?“ kvakaði hún. „Samt er svo margt sem ég vildi gjarnan spjalla um við þig, af því að mamma var líka af rómönskum uppruna, eins og þú veist; og trúirðu því, ég er orðin fjórtán ára gömul!“

Nei, ég hafði ekki leitt hugann að því og lét mig það litlu varða. Hún leit varla út fyrir að vera orðin þrettán ára, hvað þá meir, og eins skorti hana allan kvenleika, var eins og strákur í kjólgopa; í stuttu máli sagt, ósköp lítt aðlaðandi stelpusnáði. Í hvert sinn sem hún varð á vegi mínum heilsaði hún mér og ávallt brosandi. En mér féll hún ekki í geð, og hefði hún ekki verið til staðar var aldrei að vita nema barnagæslan hefði verið falin mér!

„Sjáðu til,“ sagði hún og lét móðan mása; „við vitum alltaf hvað ég er gömul af því að ég fæddist tveimur árum á eftir ungu hefðarmeyjunni. Og hún fæddist sama ár og Attíla varð kóngur. En finnst þér ekki serkurinn minn fínn, loðfóðrið er af hreysiketti og hann hefur varla neitt verið notaður; unga hefðarmærin gaf mér hann í dag.“

Hún stóð á fætur og fékk sér að drekka úr skjólu þjónanna. Þá settist hún aftur og nú heldur nær mér en í fyrra sinnið og sneri sér að mér. Það var rétt, hún var í sömu flíkinni og Móeik hafði verið klædd í síðastliðinni viku en var ber á fótunum sem voru bláir af kulda.

„Krakkarnir sofa og unga hefðarmærin er í höllinni,“ þusaði hún glaðlegum rómi. „Það verður dansleikur þar í kvöld.“

Ég man ekki hvað það var fleira sem hún þvaðraði um en allan tímann mældi hún mig út með augnaráðinu og mjakaði sér loks svo nærri mér að það var eins og hún hygðist halla höfði sínu að öxlinni á mér.

„Komdu þér í burtu!“ baulaði ég á hana.

Hún spratt óttaslegin á fætur og burstaði ösku af kjólnum fumandi höndum. Hún leit til mín sorgmædd og andvarpaði.

Að lokum fór hún út úr eldhúsinu, sneypt og niðurlút.

 

30.

Desembermorgun einn riðu í garð knapar búnir grískum skikkjum. Ég bar strax kennsl á veiklulegan son Vígilásar og Núma, náunga nokkurn af aðalstign sem hafði oft verið gestur keisarans.

Kati svaf enn og ég húkti undir ufsum hallarhliðanna. Það var hundslappadrífa.

Á samri stundu hitnaði mér í hamsi og tók að líða illa. Guð minn góður! Hvað nú ef Prískus væri með í för? Ég myndi deyja úr skömm!

Þrír þjónar fylgdu liðinu og túlkur. Ég kannaðist við þá alla.

„Er húsbóndinn heima?“ spurði túlkurinn á húnversku.

„Hann er það,“ svaraði ég, einnig á húnversku.

Ég undraðist að þeir skyldu ekki bera kennsl á mig.

Þjónn fór inn og sagði til komumanna, bauð þeim síðan að ganga í bæinn. Þeir höfðu gjöf með sér í smáum kistli og sátu á tali við Kata í um það bil fjórðung stundar.

Ég stóð einn eftir við hliðin, enn heitt í hamsi og haldinn vanlíðan.

Loks tók ég á mig rögg og ávarpaði einn þjónanna á grísku:

„Eruð þið margir á ferð?“

„Nei, við erum heldur fáliðaðir,“ svaraði hann og undraðist að ég skyldi mæla á hans eigin tungu.

„Hverjir tignarmanna eru í för?“

„Herra Anatólíus og Númi ásamt skrifara og túlki.“

„Ekki Maxímínus?“

„Nei, hann er ekki með“

„Ekki Prískus heldur?“

„Nei, ekki heldur.“

Ég andaði léttar, herti enn upp hugann og spurði ákveðinn, sem ég væri formælandi einhvers — hvað liði höfði Krýsafíusar.

„Höfði Krýsafíusar?“

„Já, höfði Krýsafíusar. Hvar er kollurinn?“

„Hvar nema á hálsi sínum?“

„Þá munu vandræði hljótast af.“

„Gull leysir hvers manns vanda og af því höfum við nóg. Þrjá fulla kistla af því. Það ætti nú að vera hverjum manni skammlaus höfuðlausn, skyldi maður ætla!“

Þeir spurðu mig hver ég væri og skyldu þó hafa séð mér bregða nógu oft fyrir í Miklagarði. Ef til vill var það klæðaburðurinn sem villti þeim sýn, eða skeggið, sem á síðastliðnum mánuðum hafði sprottið ótæpilega. Ég lét vera að svala forvitni þeirra.

„Hafið mig afsakaðan, ég er tímabundinn núna. Saga mín er löng og verður ekki sögð í svo fáum orðum. En ef til vill seinna —“

Varla voru þeir á brott úr garði en húsbóndi minn kallaði á mig inn og skipaði mér að hlaupa yfir á konungssetrið og sækja Konstantínus skrifara á stundinni. Ég gaf gaum bréfi á borði hans sem innsigli hafði ekki enn verið rofið á.

Hvað um það, ég varð svo skelkaður að ég hélt ég yrði að gjalti.

„Herra,“ stundi ég skjálfandi á beinunum. „Ég gæti lesið fyrir yður bréfið ef þér vilduð...“

„Nei,“ svaraði hann kuldalegum rómi. „Það er frá Prískusi og gæti hugsanlega varðað þig eitthvað.“

Ég gerði því svo sem fyrir mig var lagt og sótti skrifarann. Á leiðinni ávarpaði ég hann: „Herra, ef það er eitthvað í bréfinu mér viðvíkjandi, vilduð þér þá ekki vera svo vænir að sleppa því? Ég höfða til yðar sem maður til manns...“

„Gæti orðið erfitt við að eiga,“ svaraði hann og hristi hausinn. „Húsbóndi þinn gæti látið hvern sem er annan lesa það. Nei, þetta get ég ómögulega gert.“

Ég hengdi haus, eins og hundur, og leið hræðilega.

„Kyrr hér!“

Húsbóndi minn hnykkti höfðinu því til áherslu. „Aldrei að vita nema eitthvað standi í bréfinu sem þarfnist skýringa þinna.“

Hann reif bréfið upp og rétti það Konstantínusi.

„Lestu!“

Konstantínus þessi var af rómversku bergi brotinn, smávaxinn, jarpur á hár en fölur og tekinn í andliti. En hann lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna og gat verið harður í horn að taka.

Hann hvarflaði augum yfir bréfið, las það síðan og þýddi frá orði til orðs á húnversku.

 

 

Heiðraði herra!

 

Guð veri með yður. Ég leyfi mér auðmjúklegast að ónáða yður með bréfi þessu fyrir þá sök að þjónninn minn kæri, Zeta, er farinn frá mér. Hann sneri til baka inn í land yðar og er enn ókominn aftur þegar þetta er ritað.

Ég ól drenginn upp og hef veitt honum leiðsögn frá því hann var lítill hnokki, í því augnamiði að hann fengi embætti við hina keisaralegu hirð. Það verðskuldar hann, því hann er með afbrigðum skarpskyggn, er heillyndur og hjartahreinn.

En eitthvað hefur raskað sálarró drengsins. Hann hljópst á brott frá mér og er nú að ég hygg einhvers staðar á yfirráðasvæði Attílu.

Ég bið yður þess lengstra orða að hafa upp á honum og vinsamlegast senda hann heim með erindrekunum. Hafi einhver tekið hann höndum og selt hann mansali eða gert sér undirgefinn, þá vinsamlegast skrifið mér hvar hann er að finna og hve mikið það mundi kosta að fá hann keyptan lausan. Ef lausnargjaldið er mér ekki ofviða, mun ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að hann megi verða frjáls á ný.

Erindrekarnir munu færa yður könnu úr silfri, gullhúðaða. Það er lítilmótleg gjöf mín yður til handa.

Verið svo vinsamlegir að þiggja hana af góðum hug.

 

Yðar þénustusamlegur,

Prískus, meistari í mælskulist

 

 

Kati glennti upp skjáina og varð starsýnt á mig. Kona hans virti könnuna fyrir sér í birtunni frá glugganum. Móeik hlýddi á skrifarann lesa bréfið; að lestri loknum tók hún á rás inn í næsta herbergi.

„Ég skil ekki,“ tautaði Kati, „ég skil þetta ekki —. Lestu það aftur, skrifari!“

Hann las það aftur, frá upphafi til enda: Heiðraði herra...

„En ég skil þetta ekki!“ stundi Kati gremjulega. Hann hnyklaði gróskumiklar brýnnar og fnæsti eins og sjálfur kuldaboli byggi honum í brjósti.

„Var það ekki Prískus sjálfur sem færði þig mér að gjöf? Og lét meira að segja bréfið fylgja þér! Heyrðu Mútta, farðu og finndu bréfið. Það er í litlu, þunnu, gulu umslagi undir bjálkasperrunni í stóra herberginu.“

Konan horfði á mig tortryggnislegu augnaráði og fór svo með miklum fyrirgangi eftir bréfinu. Fylgja mátti eftir fótatakinu með því brakið og marrið í gólffjölunum barst gegnum þilið herbergja á milli. Þannig var þá komið fyrir mér — mér allar bjargir bannaðar.

„Herra minn!“ tók ég til máls. Þungt farg hvíldi á mér eins og mara. „Ég má til að játa dálítið fyrir yður. Prískus ritaði ekki bréfið. Ég gerði það sjálfur.“

Augun ætluðu út úr höfðinu á Kata. „Þú sjálfur?“

„Já, herra.“

„Þú ... sem sagt falsaðir það?“

„Ég get ekki borið á móti því.“

Ég hafði gleymt því að ég átti hér orðaskipti við lítt fágaðan skrælingja en ekki siðmenntaðan mann. Skyndilega tók það að öskra, dýrið í Kata. Ég hafði ögrað honum með svikum og prettum og frekari skýringa var ekki þörf. Hann þreif stól á loft.

„Þorpari!“ grenjaði hann af þvílíkum jötunmóð að húsið skalf stafna á milli. „Hví þá, rakkinn þinn? Þorparinn þinn!“

Hann sveiflaði stólnum yfir höfði mér.

Ósjálfrátt bar ég hönd fyrir höfuð mér og á samri stundu brotnaði handleggurinn. Reyndar stólinn einnig og hélt Kati því aðeins löpp eftir. En með henni lúbarði hann mig í hausinn. Ég féll í öngvit.

 

 

Formáli

kaflar 1 til 10

kaflar 11 til 20

kaflar 21 til 30

kaflar 31 til 40

kaflar 41 til 50

kaflar 51 til 60

kaflar 61 til 65

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist