kaflar
41 til 50
41.
Enn var
ferðinni haldið áfram. Daginn inn og daginn út komu njósnarar,
erindrekar og hinir og þessir sendiboðar að hitta Attílu að máli.
„Rómversku herirnir halda í suður,“ sögðu njósnararnir í mars.
„Vestgotar munu ekki sameinast
rómverska hernum,“ sögðu þeir í apríl, „af því að konungur þeirra,
Þjóðrekur, hefur ekki náð samkomulagi við Aëtíus.“
Því næst: „Aëtíus er á leið frá
Róm með meginfylkingu hers síns, eitt hundrað þúsund vopnaðra manna.
Hann er nú þegar kominn að rótum Alpanna.“
„Sangiban Alanakonungur hefur
tekið saman við Rómverja.“
„Þjóðrekur hefur gert Aëtíusi boð
þess efnis, að þar sem Rómverjar hafi kynt undir ófriðarbálinu þá sé
það þeirra mál hvernig það verði slökkt. Aëtíus tvístígandi.“
Svo komum við á geysivíðfeðma
sléttu þar sem hvarvetna gat að líta nakin bein; bein hrossa og
hauskúpur manna. Breið en grunn árlæna liðaðist um grundirnar. Út
við sjóndeildarhring í bláma fjarlægðarinnar grillti í borgarhlið
lítils bæjar.
Það var Katalánabær.
Attíla gaf skipun um að herinn
skyldi hvílast og reið af stað með hershöfðingjum sínum til að kanna
sléttuna. Tímunum saman þeystu þeir um kollótt valllendið og námu
aðeins staðar hér og þar til frekari athugana. Þegar þeir komu til
baka gaf Attíla til kynna hvar tjald hans skyldi reist á hæð einni.
Þá kom til kasta tilsjónarmanna úr foringjaliðinu sem sögðu til um
hvar skyldi reisa tjöld höfðingja og lífvarðarins og hvar hver þjóð
og hvert þjóðarbrot skyldi setja sig niður.
Dagar og vikur liðu áður en allir
hinir dreifðu lýðir höfðu komið sér fyrir.
Bærinn var auður og yfirgefinn
líkt og önnur þorp og bæir sem höfðu orðið á vegi okkar. Aðeins einn
og einn hundur spangólaði óttasleginn á tómum strætum. Attíla kvað
upp úr með að bærinn skyldi vera önnur endastöð víglínu, sem var
eins og mánasigð í laginu og var sett saman úr tveimur röðum
stríðsvagna. Hér var meginhluti búðanna, hér skyldi varnarlínan vera
þegar rómverski herinn skyti upp kollinum.
Þær hersveitir sem höfðu yfir
lausum vögnum að ráða voru gerðar út eftir skepnufóðri,
sláturpeningi, mjöli, steikarfeiti og grænmeti. Þá voru stíflur
settar á ána til að auðveldara yrði um vik með að brynna allri
hrossamergðinni.
Þessa dagana á meðan við vorum að
setja okkur niður báru höfðingjarnir stíft saman ráð sín um á hvora
borgina skyldi fyrst ráðist, París eða Orléans.
Í millitíðinni voru erindrekar
gerðir út til að telja Sangiban á að ganga til liðs við Attílu. Hann
féllst á það, þá, og sagðist mundu koma til liðs við okkur við múra
Orléans; en þegar til kastanna kom — og Guð einn veit hvers vegna —
kaus hann að draga taum Aëtíusar.
Orléans varð sem sagt fyrir valinu
og þangað var haldið.
Þá hafði okkur borist örugg
vitneskja um að Aëtíus væri í Gallíu og að einnig hann hefði verið
iðinn við að sanka að sér bandamönnum á leið sinni. Þá þegar hafði
hann á að skipa hinum öflugasta her. Dag nokkurn fengum við veður af
því að þessi stolti hershöfðingi Rómverja hefði ákveðið að ganga á
fund Vestgota í eigin persónu og beiðast þess af þeim að þeir léðu
ekki Attílu fylgi sitt, heldur honum.
„Fyrir bragðið áskotnast okkur
fimm vikna frestur,“ mælti Attíla.
Og hann lét setja múrbrjótana í
vígstöðu umhverfis Orléans og slöngvivélar er þeyta steinum og
vígvélar slíkar sem hreyta járnflaugum og spjótum. Umsátrið var
hafið.
Þetta var það öflugasta
borgarvirki sem ég hafði nokkru sinni augum litið. En yrði minnstu
hreyfingar vart með þeim er vörðu það létu Húnar örvahríð yfir þá
ganga. Viðbrögðin voru lítilfjörleg og gerðu engan usla á meðal
okkar — en hvílíkir múrar!
Nú voru slöngvivélarnar spenntar
og grettistök ekki undir lest þyngdar flugu yfir múrana.
Hnullungarnir höfnuðu innan garðs með gný miklum líkt og eldingum
lysti niður.
Því næst voru múrbrjótarnir búnir
til átakanna, trissur gerðar tiltækar og mundaðir trjábolirnir. Það
voru engir smá bjálkar heldur bolir með járnflaug á enda sem
spenntir voru aftur af einu eða tveimur hundruðum manna sem lögðust
af alefli á taugarnar. Þegar horn var þeytt til merkis slepptu þeir
og sverir bolirnir skullu á múrnum svo hart að jörðin skalf undir
fótum manns.
Vopnabrakinu linnti ekki fyrr en
langt var liðið á kvöld. Í næturkyrrðinni er á eftir fylgdi barst
okkur sálmasöngur til eyrna, söngur sem átti upptök sín innan
borgarveggjanna:
Ut quid Domine recessisti longe, despicis
in opportunitatibus in tribulatione!
Það var á að hlýða eins og
karlraddirnar hljómuðu nær veggjunum en raddir kvennanna fjær og
innar — raddir þúsunda kvenna, er ómuðu um stjörnublikandi
himinhvolfið. Því verður ekki með orðum lýst. En kuldahrollur
hríslaðist niður bakið á mér...
Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi
þinni, Guð!
Gleym eigi hinum voluðu...
Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti
sínum.
Svo að eigi skulu menn af moldu framar
kúgun beita.
Í dögun hófst hildarleikurinn enn
á ný. Grjótið gnast, múrarnir skulfu og úr öllum áttum dundu örvar
hnýttar hamphnyklum vættum logandi tjöru yfir virkið. Svarað var með
slöngvigrjóti, og hríð örva buldi á skjöldum, og einn og einn
leðurskjöldur brast.
Hátt uppi sveimaði mergð hrafna
yfir hinni rjúkandi borg.
Og enn á meðan á umsátrinu stóð
bárust okkur fregnir.
„Bretónar hafa fylkt sér undir
Aëtíus.“
„Skrambinn hirði þá!“ rumdi í
húsbónda mínum.
„Kvísl Búrgunda hefur farið að
dæmi salísku Franka og hið sama hafa Mervíkingar gert. Rómverski
herinn eflist óðum.“
„Skrambinn hirði þá alla saman!“
„Einnig eru laþínsku Tevtónar og
laþínsku Batavíar gengnir okkur úr greipum. Og einnig Sváfar úr
lögum Alamanna, Frankar frá Renn, Póítér-Saragúrar og allir
Taflararnir. Allir með tölu skriðnir undir verndarvæng rómverska
arnarins!“
„Skrambinn sjálfur...“
Og nú tók steininn úr: „Aëtíus
hefur áunnið sér hollustu Vestgotakonungs.“
Ærið þungbúinn gerði Attíla nú
íbúum Orléans boð um, að gæfust þeir ekki upp, skyldu þeir hafa
verra af. Hann myndi láta bera skógartré að borgarmúrunum og láta
íbúana alla verða eldhafi að bráð.
Forsvarsmenn borgarinnar höfðu
afsalað sér öllu valdi í hendur biskups síns svo að hann var í senn
orðinn borgarstjóri og hershöfðingi jafnframt því að vera æðsti
yfirmaður kirkjunnar. Daginn eftir sendi hann þriggja manna sveit
samningarmanna út um borgarhliðin. Hún færði Attílu gjafir og
svarbréf.
„Hvað stendur í þessu bréfi?“
spurði Attíla dimmum rómi.
„Aðeins nokkur auðmjúkleg skilyrði
okkar,“ hvísluðu erindrekarnir.
„Ég kæri mig ekki um nein
skilyrði!“ hreytti Attíla út úr sér og fleygði bréfinu fyrir fætur
þeirra. „Ég er ekki hingað kominn til að standa í einhverjum
bréfaviðskiptum heldur til að leggja borgina undir mig! Verði hliðin
ekki opnuð mun eldurinn ljúka þeim upp!“
Þá þegar var mergð vagna komin að
borgarmúrunum, allir saman hlaðnir trjám.
Það var heldur ekki að ástæðulausu
sem Attíla var svo fullur óþreyju. Flugumenn hans fluttu stöðugt
fréttir af framrás rómverska hersins. Svo óhugnanlega öflugur sem
hann nú var orðinn, nálgaðist hann óðum, mílu fyrir mílu.
En íbúar Orléansborgar höfðu
eðlilega enga vitneskju haft um það.
„Náðugi herra!“ báðu hinir þrír
erindrekar knjákrjúpandi. „Veitið oss aðeins þriggja daga frest til
að vér megum búast til brottfarar, eða, ef sá er vilji yðar, að vér
sameinumst yður og fólki yðar; í öllu falli erum vér reiðubúnir til
að varpa öllum vorum fjársjóðum yður til fóta.“
„Ég skal bíða til fyrramáls,“
svaraði Attíla.
Morguninn eftir rann upp hinn 14.
dagur júnímánaðar. Borgarhliðin voru opnuð og út gengu erindrekar
biskups. Þeir færðu Attílu borgarlyklana á silfurfati.
„Ég krefst ekki blóðs yðar,“ mælti
Attíla. „En her minn er matar þurfi.“
Hann lét senda þrjú þúsund tómra
vagna inn í borgina og nú voru greipar látnar sópa. Við héldum okkur
í návist Attílu uppi á hæð skammt frá og fylgdumst með þegar
hermennirnir héldu innreið sína ásamt vögnunum.
Brátt voru þök þakin fólki sem
þangað leitaði skjóls fyrir ræningjahöndunum, en að sjálfsögðu braut
þessi óþjóðalýður sér leið hvert sem vera vildi og því þá ekki upp á
þökin einnig?
En um hádegi komu nokkrir
alblóðugir og magnþrota Gefðar og færðu Attílu þau tíðindi að
forvarðliðar Rómverja hefðu nú ráðist á nokkrar af útvarðasveitum
okkar og tvístrað þeim.
Á samri stundu gaf Attíla merki um
að borgin skyldi yfirgefin og lét jafnframt senda sveitir Alana til
að hafa gætur á borgarhliðunum.
Svo augljóst sem það hlaut að vera
úr turnum borgarinnar séð, gat það vart hafa framhjá íbúunum farið
að rykský mikið nálgaðist úr vestri, og ef grannt hefur verið
skoðað, sést glitta þar í rómverska örninn á skjöldum hersveitanna.
Lúðrarnir gullu nú hvarvetna:
„Hörfið! Hörfið!“
Og nú sem frelsið var í nánd greip
um sig ofsakæti á meðal fólksins á þökunum og það tók að varpa
grjóti og viðardrumbum yfir hermennina sem æddu um strætin. Fangar
rifu sig lausa og börðust með því sem hendi var næst.
Uppnámið varð síst minna utan
borgarveggjanna þegar hermönnum okkar lenti saman við þá rómversku
og vógust stjórnlaust á við þá. Knapar og hross ultu um og var
hrundið í kalt blóðbað Leiruár. Þúsundir lúðra og horna básúnuðu án
afláts: „Hörfið! Hörfið!“
Þeir sem voru þá þegar lentir í
miðjum darraðardansinum héldu ólmir áfram vopnaskakinu en kjarni og
meginfylking hersins lét hörfa svo sem boðið var, og hafði raunar
strax deginum áður verið hafið undanhaldið til baka, á
Katalánavelli.
Ekki urðu frekari væringar að
sinni. Húnaher slapp undan Rómverjum og lét þeim bólið eftir, rúið
öllu því sem fémætt var.
42.
Förin til baka á Katalánavelli tók nokkra daga
eins og nærri má geta. Við hvert fótmál máttum við láta ryk og alls
kyns óþverra yfir okkur ganga; mývargur herjaði jafnt á skepnur sem
menn; og linnulaus hófadynur, hringl og skrölt í vopnum og vögnum,
hróp og köll og hornablástur glumdi án afláts í eyrum á þessari
hörmungarför.
Herinn lét greipar sópa í hverjum
bæ og hverri borg er á vegi varð. Jarðargróðinn var troðinn og
traðkaður niður. Hvergi varð eftir stingandi strá í slóð okkar.
Einn bær, Trójubær, hélt þó hliðum
sínum luktum. Við þeim sem voru í fylkingarbroddi blasti aðeins
stórt timburhliðið, lokað og læst, hnoðað járni og látúnsaumað. Hver
þremillinn! ... Hersingin streymdi áfram að og myndaði mannhaf mikið
og hrossa og vagna eins og stíflaður hefði verið árfarvegur. Beðið
var skipana Attílu.
Innan borgarveggjanna mátti heyra
að sungnir voru sálmar. Þá birtist biskupinn uppi yfir hliðunum, með
mítur sitt á höfði og sveipaður hvítum silkihökli með gullofnum
blómavígindum. Hann mundaði silfurkross.
„Er einhver á meðal ykkar mæltur á
latínu?“ hrópaði hann niður til okkar.
Vissulega voru þeir til á meðal
okkar. Herinn okkar, sem stóð saman af allra þjóða lýð úr öllum
heimshornum!
Biskupinn óskaði eftir að fá að
ræða við Attílu.
En slíkar óskir voru hreint ekkert
fáheyrðar. Vart leið svo dagur að einhver borgarbiskupinn skyti ekki
upp kollinum í fullum skrúða sem formælandi klerka sinna og
borgaraðals og beiddist náðar og miskunnar af Attílu (eða af
yfirhershöfðingjanum ef þannig bar undir) líkt og hann væri einhver
dýrlingur. Attíla eða yfirhershöfðinginn svöruðu ávallt því sama
til, að borginni yrði hlíft, að því tilskyldu að borgarbúar gæfust
upp með tilhlýðlegum hætti — sem þýddi með öðrum orðum að þeir
skyldu afhenda allar vistir matar og fóðurs er fyrirfyndust innan
veggja borgarinnar. Einnig skyldu þeir setja tryggingu fyrir því að
þeir yrðu Húnum ávallt drottinhollir.
En hver skyldi sú trygging hafa
átt að vera? Þrír hinir ágætustu borgarar samfélagsins skyldu gefa
sig á vald Attílu ásamt fjölskyldum sínum. Því skyldi biskupinn koma
til skila og með það sama hyrfi hann inn fyrir hliðin sem þá lyktust
að baki honum. Íbúarnir settust á rökstóla, bæðust fyrir og rektu
harmtölur sínar hver fyrir öðrum. Ekki einn einasti ágætur borgari
féllist á að ganga að slíkum skilmálum og gerast gísl í gini
ljónsins. Heldur skyldi hinn rauði fáni dreginn að húni og svo
skipað fyrir að borgina skyldi verja — þangað til yfir lyki.
Og þess var aldrei langt að bíða.
Innan tíðar væri borgin á valdi Húna. Hver sem betur gat leitaði
athvarfs í kirkjunni og hinar betur megandi fjölskyldur með allt
gull sitt og silfur sem þær hlóðu upp á altarið. Þá myndu allir
lyfta augum til himins og leggjast á bæn:
„Almáttugur Guð, miskunna þú oss!“
En aldrei hneigðu himnar eyru við
bæninni. (Eða hvers virði eins og lífshlaup vor mannanna sé í augum
eilífðarinnar?)
En í Trójubæ voru viðbrögðin öll
önnur en við höfðum átt að venjast.
Þarna birtist biskupinn ásamt
klerkum sínum, um þrjátíu að tölu, og bæjarstjóra, fógeta,
bæjarráðsmönnum og öðru stórmenni. Að þessu sinni stóð það næst
Attílu að ríða upp að hliðinu. Þegar sálmasöngnum lauk stóð
biskupinn enn óhagganlegur í sömu sporum.
Hann reisti höfuð sitt og starði á
Attílu þögull. En skyndilega og líkast því sem honum hefði
opinberast einhver hræðileg sýn þar sem Attíla var, þá hrópaði hann
til hans á latínu:
„Hver ert þú, sem veltir
höfðingjum úr sessi, eyðir löndum og kúgar fólk? Hvaðan kemur þér
vald þitt? Hver hefur beðist þess af þér að þú settir heiminn á
annan endann? Hver ert þú?“
Við gripum andann á lofti,
furðulostnir.
Það furðaði mig jafnvel enn meir
að heyra Attílu svara á latínu. Hann barði sér á brjóst og gall við,
eins og lúður væri þeyttur:
„Ego sum Attila, flagellum Dei!“
(Ég er Attíla, refsivöndur Guðs!)
„Fyrst svo er,“ svaraði biskupinn
með tárin í augunum, „fyrst að þér eruð raunverulega hingað sendir
af Guði, þá er það ekki á mínu valdi að setja mig upp á móti yður.
Komið inn fyrir og vinnið verk yðar svo sem þér hafið gert annars
staðar.“
Og hliðunum var hrundið upp. Gamli
maðurinn, hvítur fyrir hærum, gekk út og leiddi hest Attílu af stað.
Svo virtist sem Attíla væri
hrærður yfir göfugmannlegri auðsveipni gamla mannsins. Hann mælti
eitthvað til Kamokka og reið svo inn um hliðin í broddi fylkingar.
Kamokki varð eftir við hliðin og
skipaði nokkrum skutilsveinum svo fyrir að þeir skyldu standa þar
hjá honum og hrópa stöðugt til hermannanna þegar þeir streymdu inn:
„Gerið ekkert á hlut íbúanna! Sá er vilji konungs!“
Þegar við komum á markaðstorgið
lét Attíla koma með hest handa biskupnum.
„Þú ert helgur maður,“ sagði hann.
„Fyrir þína skuld hefur fólk þitt orðið gæfu aðnjótandi. Ég mun
hlífa borg þinni. En þú munt þurfa að dvelja með mér í fáeina daga.
Klerkum þínum skaltu segja að öllum birgðum af mjöli og korni sem
til eru í bænum skuli hlaðið á vagna og það fært Húnum. Við þurfum
einnig á öllu því skepnufóðri að halda sem til er.“
Við héldum leiðar okkar. Herinn
fór gegnum bæinn í skipulagðri fylkingu. Ekki varð neins fyrirgangs
vart nema skrölts í vögnum og kerrum. Af íbúunum var ekki sálu að
sjá utan fáeinna gamalmenna á stangli. Hvergi varð vart minnstu
hreyfingar í húsunum, fólkið hlýtur að hafa falið sig niðri í
kjöllurum og uppi á háaloftum. Skutilsveinarnir mynduðu með sér
samfelldar raðir meðfram aðalgötunni til að fylgja því eftir að
enginn bryti gegn vilja konungs.
Þegar út um eystri borgarhliðin
kom sáum við til nokkurra af íbúum bæjarins sem höfðu lagt á flótta,
ríðandi, á vögnum og hlaupandi við fót, með stefnu til skógar í
norðri. Konurnar báru smábörn á baki sér, eldri börnin voru að
sligast undan alls kyns pynklum og pjönkum. Öll stefndu þau til
skógar og hvert þangað sem leynast mátti í reyr og mýrarsefi; sá var
háttur flóttamanna hvarvetna.
Við fórum yfir brú eina og veittum
þá athygli konu tötrum búinni sem helst hafði úr lestinni. Hún
kraflaði sig áfram yfir grundirnar með barn á baki sér og annað við
hönd. Með þeim hlupu fimm litlar hnátur, allar saman berfættar, og
tvær laglegar stúlkur á táningsaldri, báðar ljóshærðar. Hver þeirra
burðaðist með eitthvað með sér, garma og alls kyns fánýti, jafnvel
þvottabursta. Í örvæntingu sinni hrösuðu þau og hnutu hvert um annað
með gráti og gnístran tanna.
„Mamma mín!“
„Ó, elsku ástin mín litla.“
Og sem henni varð litið aftur varð
móðirin sér þess meðvitandi að allt var unnið fyrir gýg. Hún nam
staðar við árbakkann og starði á okkur augum fljótandi í tárum, eins
og vitstola.
Attíla stöðvaði hest sinn og bað
Úrkon um að fara eftir konunni. Einnig biskupinn hraðaði sér á stað
með honum. Hann taldi hug í konuna og sagði henni að ástæðulaust
væri að óttast. Hún teymdi börnin á eftir sér og kraup niður frammi
fyrir Attílu. Hún kom ekki upp orði en því betur tjáðu skjálfandi
hendur hennar og tárflóandi augun að hún beiddist miskunnar.
„Átt þú öll þessi börn?“ spurði
Attíla.
„Öll saman, náðugi herra!“
kjökraði konan. „Ég er ekkja. Ef þér drepið mig, læt ég eftir mig
tíu sveltandi munaðarleysingja.“ Biskupinn túlkaði jafnóðum.
Attíla gaf Úpori fjárgæslumanni
sínum bendingu um að finna sig og mælti eitthvað til hans. Úpor tók
pyngju upp úr tuðru sinni og taldi í hana peninga. Það voru allt
gullpeningar og hljóta að hafa verið að minnsta kosti þrjú hundruð
talsins.
„Farðu í friði, kona góð,“ mælti
konungurinn. „Taktu við þessum peningum og snú aftur til
borgarinnar. Peningana skalt þú nota til að ala upp börnin þín.“ Og
hann gaf einum lífvarða sinna merki um að fylgja konunni til baka.
Þá þegar er við vorum við Orléans
hafði ég veitt því athygli að all margir manna okkar voru haldnir
einhverri sótt. Sumir skjögruðu áfram, fölir yfirlitum og með bauga
kringum augu. Hver af öðrum örmögnuðust þeir, tóku að selja upp
blóði og duttu svo dauðir niður. Ekki var hitanum um að kenna, eins
og ég hélt í fyrstu, heldur drepsótt. Illskeyttri plágu, sem menn
féllu fyrir eins og lauf á hausti. Daunninn sem nú lagði af hernum
var viðbjóðslegur, vægast sagt.
Þegar við hófum undanhaldið mátti
þá þegar sjá lík beggja vegna vegarins — Núbíta hér, Herúla þar,
Sváfa, Markómanna — menn af öllu kyni hvarvetna. Hver og einn var
skilinn eftir við vegarbrúnina þar sem hann féll niður. Væru vopn
hans einhvers virði voru þau hirt, og sama gilti um góð stígvél,
heillega stakka; hvað eina sem nýtilegt mátti heita var hirt af
hinum dauða eða dauðvona og hann skilinn eftir.
Attíla var orðinn svo þungur í
skapi og viðskotaillur að það eitt skelfdi mann að líta á hann.
Dag nokkurn síðdegis sem við Kíki
riðum saman hlið við hlið leið einn Túngassinn út af rétt framundan
okkur.
Maðurinn var klæddur leðurstakk og
bar á höfði sér koparhjálm með kambstúf. Hjálminn hlýtur hann að
hafa hirt af einhverjum Rómverjanum í grennd við Orléans, eða
hausinn allan ef svo hefur viljað til og þá hjálminn með. Við höfðum
veitt hjálminum athygli áður.
Sem nú manngarmurinn hneig til
jarðar skoppaði hjálmurinn af hausnum. Kíkí brá snöggt við, vippaði
sér af baki, hirti hann og setti hann upp sjálfur.
Ég dauðöfundaði hann, enda var
þetta hinn glæstasti hjálmur settur rauðu granati í kambstúfnum og
með hreyfanlegri andlitsgrímu. Hann hefur áreiðanlega verið tveggja
gullpeninga virði, að minnsta kosti á friðartímum, hvað þá nú þegar
stríð geisaði! Eina sem þurfti að gera var að hylja kambinn smá
flóka eða leðurpjötlu og festa við hann einni eða tveimur fjöðrum,
þá tækju Húnar þann sem hjálminn bæri sem einn úr sínum röðum.
Daginn eftir kvartaði Kíkí undan
höfuðverk. Á þriðja degi fékk hann blóðnasir. „Ég er búinn að vera,“
muldraði hann, þá orðinn fölur og tekinn í andliti.
Á fimmta degi tók hann að kenna
bólgu í handarkrikum og í hálsi, um nóttina var hann albúinn dauða
sínum.
Hann bað mig um að gefa sér vatn.
Allir sváfu í búðunum. Ég fór eftir vatni og gaf honum að drekka.
„Þakka þér fyrir,“ stundi hann.
„Ég á ekki margt fémætra muna eftir heima, aðeins fáeina alklæðnaði
og eina bók; ég læt þér það eftir.“ Hann rétti mér höndina.
Ég lýsti á andlit hans með
kyndlinum til að sjá það betur, laut niður að honum og spurði hann
skjálfandi röddu: „Kíkí, viltu ekki að ég beri Móeik kveðju þína?“
Hann horfði á mig og svaraði
máttvana: „Nei.“
„En af hverju ekki?“
„Til hvers væri það?“
„Kíkí!“ sagði ég og þrýsti
handlegg hans. „Þú ferð ekki yfir móðuna miklu með neitt óhreint á
samviskunni. Segðu að allt það sem þú lést út úr þér um Móeik hafi
verið helber lygi! Þú talaðir aldrei við hana! Ég hefði haft veður
af því! Segðu mér, og aðeins sannleikann — varstu ekki að ljúga?“
Ég horfði í augu hans.
Hann svaraði engu.
Augun gljáðu og ennið var baðað
svita. Skyndilega fór krampi um hann og fingurnir greiptust niður í
grassvörðinn. Hann átti stöðugt erfiðara með andardráttinn. Loks
glennti hann upp augun og starði á mig með undrun, spyrjandi. Hann
mælti aldrei orð af vörum framar. Stjörf augun störðu á mig dauð.
43.
Tjald Attílu sneri til vesturs og því höfðu
öll önnur tjöld verið sett eins niður. Á hinn bóginn hafði Aëtíus
ekki farið með her sinn svo sem við höfðum vænst heldur all nokkru
austar. Við máttum því gjöra svo vel að snúa búðunum við. En áin
Vesla, sem við höfðum haft að baki okkar, rann nú þar af leiðandi
framundan búðunum.
„Skrambinn sjálfur...!“ urraði
Kati lágt með sjálfum sér.
Attíla hafði látið Arðrek búast um
með Gefðana sína við Aubuá þar sem þeir skyldu taka á móti Rómverjum
og neyða þá til að koma gegn okkur úr vestri — þannig að þeir fengju
morgunsólina í augun.
Við fengum þá fyrst að vita í
hverju herkænska Aëtíusar var fólgin um það bil sem hillti undir
hersveitir hans. Hann hafði brotið Gefðana á bak aftur og komist að
baki víglínunni. Við vorum fátækari sem nam fimmtán þúsundum manna.
Attíla lét þá Gefða sem eftir
leifðu vera til taks að baki borgarveggjum Katalánabæjar, ef til
þess kæmi að þyrfti að verja bæinn.
Rétt um það leyti sem ljóst var að
við máttum venda okkar kvæði í kross veitti ég athygli smá
hæðardragi ekki ýkja fjarri og sem bar í milli herjanna. Þá þegar
voru fjórar riddaraliðssveitir frá okkur á hraðri leið þangað, en
Rómverjarnir svöruðu að bragði með ekki síður öflugum hersveitum er
geystust í móti. Þeir voru að minnsta kosti all nokkru öflugri ef
tekið var mið af fjölda liðsmanna einvörðungu. Og er sveitunum lenti
saman með miklu glammi reyndust þeir í öllu falli öflugri; menn
okkar máttu hörfa.
„Slæmur fyrirboði,“ muldraði Bjóll
fræðari við hlið mér.
„Af hverju slæmur fyrirboði?“
spurði ég og lést ekki skilja. „Ef við hefðum brugðist skjótar við
og verið fjölmennari þá væri hæðin á okkar valdi núna!“
„Einmitt þess vegna er þetta
slæmur fyrirboði!“ hreytti fræðarinn út úr sér.
„Þetta hvað?“
„Að við skyldum ekki bregðast fyrr
við og hafa verið fjölmennari.“
Fræðararnir höfðu alið æ meiri ugg
í brjósti sér eftir því sem liðið hafði á ferð okkar og höfðu nú
orðið allt á hornum sér. Hvort sem það átti rætur að rekja til
plágunnar eða einhvers sem þeir þóttust hafa orðið vísari við blót
og bænagjörð, skal ég ekkert um segja, en þeir voru alltént orðnir
hver öðrum styggari. Svörtu kuflarnir þeirra gerðu þá einna líkasta
þjónum dauðans.
„Mig grunar,“ sagði ég gramur, „að
þið hjátrúafullu prestar gerið ef til vill meira úr þessum slæmu
fyrirboðum en efni standa til. Ég biðst forláts, en þetta er nú einu
sinni mitt álit.“
„Hvað er hjátrú?“ sagði hann og
yppti öxlum. „Þú ert kristinn maður og fyrir þér er trú okkar
hjátrú. En í augum okkar er það ykkar trú sem er hjátrú!“
Mér gramdist það enn meir að hann
skyldi veifa þremur fingrum sem hann þetta mælti, eins og til
háðungar heilagri þrenningu.
„Guð er aðeins einn!“ svaraði ég
hvössum rómi. „Það er enginn Guð Húna, Guð Rómverja eða Guð Grikkja!
Guð er aðeins Guð — faðir og húsbóndi alls mannkyns. Hann heyr ekki
baráttu um hæðarkolla, hvorki fyrir okkar hönd né annarra!“
„Fávísi þræll! Við þig ætla ég mér
ekki að þrátta!“
„Af því að þér stendur stuggur af
mér!“
„Stuggur af þér?“
„Af orðum mínum, því sem ég segi —
sannleikanum!“
Þungbrýnn horfði hann á mig dimmum
augum. Við stóðum rétt hjá tjaldinu okkar, við vagnkerru húsbónda
míns.
„En sanni ég nú fyrir þér,“ mælti
hann stilltum rómi, „að Guð okkar Húna sé ekki sá sami og Rómverja
—“
„Það munt þú aldrei geta!“
„Teldist það þó ekki fullgild
sönnun ef ég segði fyrir um, segði þér hvað á eftir að gerast?“
„Það yrðu aldrei annað en bábiljur
einar.“
„En ef það gerðist nú samt!“
„Þá fengir þú höfuð mitt að
launum.“
„Ég þakka! En ég kæri mig ekki um
neitt fánýti að launum.“
„Hann hefur nú nýst mér allvel,
kollurinn.“
„Viltu þá lofa mér því — að segja
það aldrei nokkurri sálu sem ég nú vil trúa þér fyrir?“
„Upp á æru og trú.“ Ég rétti honum
höndina. „En hvað þá ef spádómur þinn reynist rangur?“
„Þá mátt þú gera mig að þræli
þínum. Mátt kristna mig, mátt selja mig, mátt gera við mig hvað sem
þér sýnist.“
„Ég hlusta.“
„Gefðu orðum mínum gaum! Teiknin
hafa sýnt að Attíla mun tapa þessari orrustu.“
Hann mælti þetta af slíkum
sannfæringarkrafti að hrollur fór um mig allan.
„Hreint útilokað!“ sagði ég en
engu að síður setti geig að mér. „Víst hefur plágan tekið af okkur
drjúgan toll, en herinn er svo stór! Það er útilokað! Attíla hefur
aldrei nokkru sinni tapað orrustu. Og hefur þú gleymt því er skal um
sverð Guðs?“
Hann hallaði sér að vagnhjólinu
hryggum augum og vafði gráu skeggi sínu um fingur sér.
44.
Höfðingjarnir
héldu sig uppi í útsýnisturninum á tjaldi Attílu allt frá morgni til
kvölds. Þeir voru að fylgjast með Rómverjunum að slá upp búðum
sínum.
Ég fylgdist einnig með því sem
fram fór, en aðeins frá tjaldinu okkar. Mjög heitt var í veðri allan
daginn og skyggni þar af leiðandi afar gott út yfir vellina. Ég
hlýddi áhugasamur á það sem hinum gamalreyndari stríðskempum fór á
milli.
„Lítið á!“ sagði ein þeirra.
„Rómverjarnir hafa skipað Alönunum fyrir miðju.“
Og satt var það. Auðveldlega mátti
sjá hvernig Aëtíus stillti upp sveitum sínum. Reyrskógurinn sem
virtist bærast fyrir miðju var her Sangibans. Ef til vill var Aëtíus
svo tortrygginn í garð þessa manns sem hafði reynst svo tvílráður og
á báðum áttum. Nema hann hefði slíka tröllatrú á kastspjótum þeirra
að hann hygðist verja með þeim heraflann að baki? Hver veit? Og var
þó spurning hver væri hin eiginlega miðja hersins sem við blasti.
Eða hver gat skorið úr um það þegar slíkt ógrynni liðs var annars
vegar?
„Þarna eru Búrgundarnir, sjáið
þið!“ sagði annar. „Og Frankarnir þarna!“
„En hvern fjárann eru Rómverjarnir
að gera þarna á vinstri vængnum?“
Vissulega voru það hjálmar
Rómverja sem þar glampaði á. Þeir voru að setja upp vélvirka lásboga
og grjótslöngvivélar. Það var sérhverjum ljóst sem á annað borð
hafði sæmilega sjón.
„Þeir hyggjast umkringja Attílu,“
sagði einn af lífvörðunum og hló við. Hann hvarflaði til mín augum
og veitti hjálmi Kíkís athygli á kolli mínum. „Nú þykir mér týra!“
glefsaði hann í mig orðum glettnislega. „Ætlar þó ekki að segja mér
að einnig þú ætlir að fara að berjast, bógurinn?“
„Ég er ekki hingað kominn alla
þessa leið til að stumra yfir grautarpottum!“
„Ætlar kannski að berjast með
húsbóndanum?“
„Í öllu falli ekki með þér!“
„Annars nokkurn tímann stigið
darraðardansinn fyrr?“
„Nei — og þú reyndar ekki heldur —
ekki slíkan sem okkur er nú boðið upp í!“
„Heyrðu, ertu ekki til í að ljá
mér þetta hjálmskinn þitt? Ég skal í staðinn kenna þér dálítið
nytsamlegt.“
„Hvað ætti það svo sem að vera?“
„Eins og til dæmis það hvernig
sleppa má lifandi úr svona leik.“
„Ljái ég þér hjálminn, ligg ég
dauður fyrr en varir. Þú notar nytsamlegu ráðin til heilla sjálfum
þér, ég hjálminn, þakka þér!“
Almennur hlátur kvað við, en
lífvörðurinn neri bakinu á sér upp við tjaldsúlu og rýtti eins og
svín.
„Hann er dálítill refur, þessi
Grikki,“ sagði einn þeirra við hann. „Hann verður ekki svo
auðveldlega hafður að fífli.“
Gapuxaháttur sem þessi var
hermönnunum tamur og hafði verið allt frá upphafi ferðar. Einn hélt
því fram að í stríði skyldi maður ofar öllu leggja traust sitt á fák
sinn. Annar hinu gagnstæða, að ævinlega skyldi meðhöndla hestinn sem
hinn viðsjálverðasta grip — þeir gætu átt það til að hrasa og hnjóta
um, eða tryllast og henda manni af baki ellegar rása með mann út í
opinn dauðann.
Nokkrir þeirra báru á sér
kynngimagnaða verndargripi er bjuggu þeim ákveðið æviskeið. Aðrir
reiddu sig á sverð sem áttu að hafa rekið endahnút á æviskeið
hundruða. Sumir neru mannsblóði um nasir fáki sínum. Og svo voru það
þeir sem reiddu sig á orðkynngi eina og æptu heróp: Aaaa-óóó!
Drottinn leiði drösul minn — djöfullinn hirði óvininn!
Það eitt vissi ég fyrir víst og
mátti treysta, að klárinn minn var einn af mestu gæðingum Kata. Og
þó að varla væri við því að búast að ég hefði krafta í kögglunum á
við hina, átti ég alltént til sálarstyrk að bera. Rataði ég í
ógöngur, skyldi ég engu að síður snúa mig út úr þeim heilum og
klárnum með. Lenti ég inni í óvinahópnum miðjum, skyldi ég rífa
leðrið af kambskúfnum og fjöðrina frá hjálmblikinu og svo æpa heróp
á latínu. Værum það á hinn bóginn við sem rækjum Rómverjana á
flótta, skyldi ég æpa af öllum lífs og sálar kröftum eins og sannur
Húni: „Aaaa-óóó! Djöfullinn hirði ykkur!“
Að sjálfsögðu léti ég ekki mitt
eftir liggja á völlunum nema því aðeins að örugg vitni yrðu til
staðar, annars tæki ég hausana eftir því sem þeir féllu til, svo ég
fengi sannað getu mína.
Hversu svo sem annars hefur verið
farið með hugsanir mínar, get ég ekki neitað því að þegar
óvinaherinn birtist okkur, var eins og nístingsköld rödd hlakkaði í
eyrum mér: Zeta! Þú sleppur héðan aldrei lifandi! Mörg þúsund manns
munu liggja í valnum; og hvers vegna skyldir þú þá lifa
hildarleikinn af?
Rómverski herinn var að skipa sér
langt fram eftir degi. Við komum auga á raðir Vestgota með
leðurskildi sína sem voru á líta eins og snákar sem hringuðu sig.
Vestgotunum var einnig raðað í fremstu víglínu. Og nú fór að komast
hreyfing á lið okkar.
Hirjit! Hirjit! (Hingað!
Hingað!) Það voru herdeildarforingjar Gotanna í her okkar sem voru
að skipa mönnum sínum fyrir. Þeir mjökuðust af stað í halarófu sem
hlykkjaðist frá tjaldbúðunum. Hver foringinn eftir annan birtist:
Akrán dökki, bláeygi sérvitringurinn Arneygur, Fiskur karlinn,
brosandi að venju í brúskmikinn kambinn, og hinn ungi Skúra með
höttinn sinn hallandi út á vanga eins og ævinlega. Það var ekki
lengra síðan en í gær sem hann hafði verið að dansa undir hljómfalli
belgpípnanna þeirra.
Þegar her Rómverja hafði tekið sér
stöðu skipaði Attíla Alönum sínum gegn Alönum þeirra, Austgotum
sínum gegn þeirra Vestgotum. Vestgotarnir lögðu fæð á Austgota fyrir
að hafa ekki á sínum tíma hörfað með þeim undan Húnum. Og eins lögðu
Austgotar fæð á Vestgota fyrir að hafa skorist úr leik og álitu þá
heigla fyrir að hafa runnið af hólmi. Víst geta fjandvinir gert með
sér sátt og lagt niður vopn í stríði, en aldrei stríðandi bræður.
Kain slítur bræðraböndin.
Húnarnir létu sér eftir að skipa
miðjuna — Blakkhúnar og Hvíthúnar saman. Arðrekur hélt sig með
Gefðana sína yst á hægri væng, eins og Attíla hafði skipað fyrir, og
þeim sömu megin voru Akatírarnir, Jazýgarnir, Kvadar, Rygjar og
Saragúrar.
„Ég hef hvergi komið auga á
Herúlana,“ sagði Frjálsi Grikki, sem nú bar að.
„Attíla sendi þá norður ásamt
Magýjörunum,“ svaraði húsbóndi minn og þerraði svita af enni sér.
„Þeir eiga að ráðast aftan að Rómverjunum.“
Nú var vélspjótkastari á vagni
dreginn framhjá okkur af sex uxum með gjökti miklu og glamri.
Hvarvetna var verið að koma vígvélunum fyrir. Vélum sem hreyttu
spjótflaugum og vélum sem slöngvuðu grjóti eða þeyttu drumbum, og
vélvirku lásbogunum. Menn af þeim þjóðum sem snjallastar voru að
leika sér með slöngvivaði komu sér fyrir uppi á vögnum þar sem þeir
áttu hægt með að leika listir sínar, með vel hlaðið undir sig af
úttroðnum sekkjum og alls kyns pjönkum. Fyrir framan vagnana
hreiðruðu svo Alanarnir um sig með spjótin sín löngu og Gelónarnir
með sigðirnar sínar. Þeim síðastnefndu var ekki ætlað að hefja
uppskeru nema fjandmennirnir gengju svo nærri okkur að vagnlínan
væri í hættu.
Ég stóð í þeirri trú að baráttan
yrði hafin strax hinn sama dag, en því var ekki að heilsa. Allan
guðslangan daginn héldu menn áfram að skipa sér, eftir því sem
Attíla sagði fyrir um.
Og myrkrið skall á — niðamyrkur
svo svart sem himinninn væri sót. Varðeldar voru kveiktir í búðum
hvorra tveggja og varðmenn stóðu svo nærri hver öðrum að með hægu
móti hefðu þeir getað hæft hver annan örvum sínum. Síðasta skipun
dagsins var að eigi mætti þeyta horn né blása í pípur og skyldu
allir taka snemma á sig náðir.
45.
Kyndlar loguðu hvergi nema í tjaldi Attílu,
sem stóð hálfopið út í nóttina.
Á borðum rauk af kjúklingum er
höfðu skriðið úr eggjum í Trjójubæ en nú verið sendir Attílu.
Höfðingjar Húna og hinir ýmsu kóngar neyttu matarins án þess að
segja orð. Á meðal þeirra sat Lúpus biskup af Trójubæ. Jafnvel hér
tróndi míturið óhagganlegt á kolli hans og gullofinn hökullinn
sveipaður um herðar. Silfurkrossinn hafði hann lagt fyrir framan sig
á borðið. Hann snerti varla við matnum en strauk skegg sitt og varð
öðru hverju litið á Attílu, áhyggjufullur á svip. Hann átti til að
taka andköf og þá fóru þjáningardrættir um andlit hans. Vesalings
maðurinn var kvalinn af gigt.
Fyrir framan tjaldið höfðu
herdeildarforingjar og allra þjóða ættbálkahöfðingjar hnappað sér og
biðu skipana. Attíla var alltaf annað veifið að kalla Manga-Sag
fyrir sig til að sýna sér töfluna, en það var svart viðarspeldi sem
sýndi afstöðu búða hvorra tveggja stríðsaðila. Smá línpjötlur
allavega litnar voru festar á speldið til tákns um stöðuna, eftir
því hvaða mynd tjöld og liðssveitir, vagnar, vopn og stríðstól höfðu
tekið á sig. Á milli þess sem Attíla snæddi, mat hann stöðuna og gaf
skipanir.
Af og til bar flugumenn og
njósnara að, með nýjustu fréttir af stöðunni, jafnt okkar megin allt
að fremstu víglínu, sem af vígstöðu andstæðingsins. En nú sem
náttsett var orðið var mest tíðindalaust, enda getur enginn her
athafnað sig í svarta myrkri líku því sem nú var; hvergi stirndi á
stjörnu né heldur tungl skini, himinninn var alskýjaður og sortinn.
Í lok máltíðar var ostur borinn á
borð og ávextir soðnir í víni.
Lúpus biskup reis á fætur og lagði
bikar sinn frá sér á borðið.
„Yðar hágöfgi! Konungur konunga!,“
hóf hann máls, á latínu, hátíðlegri, alvöruþrunginni röddu. „Leyfið
mér, yðar undirgefnum þjóni, lægstum þjóna, að mæla fyrir minni
yðar. Orðstír fer af yður markaður blóðugum stöfum. Halastjarna reis
á himni til tákns um yðar turniment. Jörð skelfur hvar sem skuggi
yðar fellur og hinir hugprúðustu menn blikna við augntillit yðar.
Þér eruð sagður úlfur vera, yfir allri jörð gína; djöfull láðs og
lagar! Látum svo vera. En komi ég fyrir hásæti Guðs, segi ég Honum
af yður sögu, að þér hafið farið fyrir ógrynni liðs gegnum borg
mína, en engu að síður öllu eirt. Nú sofa Trjójubúar værir sem
lömb.“
Þakklæti skein úr vingjarnlegum
augum gamla mannsins. Eins og að líkum lætur hefur ræðan verið lítt
skiljanleg þeim herramönnum við borðið, nema ef vera kynni Órusta og
ef til vill hinum unga, nýkrýnda konungi Frankanna frá Nekkará. En
upphafinn tónn ræðunnar hafði djúp áhrif, líkt og sunginn væri
sálmur.
Attíla hallaði sér aftur á bak í
stól sínum. Augu hans voru hulin skugga af ábúðarmiklum brúnunum og
því erfitt um að dæma hver áhrif orð biskupsins höfðu á hann. En
augun voru eini gluggi sálar hans, öll önnur ásýnd hans var eins og
ætíð líkt og höggvin í marmara.
Gamli maðurinn hélt áfram máli
sínu: „Nú er skálmöld, loft er lævi blandið, öldur rísa. Hver þjóð
er lík himingnæfri öldu í ómælishafinu mikla, og allar falla
öldurnar til vesturs. Sá er og hlýtur að vera vilji Guðs.“
Attíla gaf Órusta til kynna að
hann skyldi þýða mál gamla mannsins fyrir borðnautum sínum.
Biskupinn þagði á meðan Órusti
túlkaði það sem hann hafði mælt til þessa, hélt þá ræðunni áfram,
heitur í anda.
„Hinn gamli heimur er hér saman
kominn til að rísa gegn yður. Jafnvel strax á morgun verður úr því
skorið hvor yðar er máttkari og má sín meira. Ómælt blóð mun renna.
En sagan kennir oss að mannkyn má kosta til blóði, svita og tárum
til að fá gengið í endurnýjun lífdaganna. Öllu fárviðri fylgir
eyðing og drep, fleytur steyta á skerjum, fólk ferst. Jarðargróðinn
spillist, akrar eyðast, hjarðir tvístrast, tré rifna upp frá rótum,
björg klofna; dauði og djöfull hvarvetna. Og hversu mjög erum við
ekki harmi slegin! En þegar storminn lægir er loft blandið ferskri
angan lífsanda. Af gömlum rótum vex ungviði er í tímans rás gnæfir
margeflt yfir iðjagrænum völlum. Mannsandinn er reynslunni ríkari,
byggir upp á nýtt, sér fegurri heim.
Yðar hágöfgi, voldugi Attíla! Þér
eruð refsivöndur Guðs yfir oss mönnunum. Fremd yðar er sem
þrumufleygur, logandi sverð; fólk yðar hnattroka. Sá er vilji Guðs,
því að hann er sá er öllu ræður. Góði maður, ég virði og vegsama
yður, því að það eigið þér skilið af mér og það þrátt fyrir að ég
hugsi með hryllingi til surtarloganna er þér hafið vakið. Guð gefi
að yður vinnist aldur til að vitna um endurfæðing lífsins þegar
öldurnar lægir og eldar slokkna. Svo sem þér nú ljóstið oss með
refsivendi Guðs, svo megi Hann einnig blessa oss með hendi yðar.“
Hann gekk til móts við Attílu sem
rétti fram hendurnar. Gamli maðurinn vildi kyssa á hönd hans, en
Attíla faðmaði hann sér.
„Blessaður ætíð!“ hrópuðu
Húnarnir.
„Vivat!“ tóku
útlendingarnir undir með þeim.
„Hogh!“ hrópuðu gotnesku
höfðingjarnir.
Og minni Attílu var drukkið.
Attíla, sem sat enn á stól sínum,
galt fyrir sig á latínu með aðeins lítils háttar húnverskum hreim.
„Það er trúa mín að líf vort
hefjist ekki hér á jörðu fremur en það taki enda hér. En við erum
hér niðurkomin, eigrum um lönd og berjumst fyrir lífi voru og höfum
þó litla hugmynd um hvers vegna. Guð einn það veit. En það veit ég,
að hingað var ég sendur af Guði Húna, sem er einnig Guð allra manna
og alheims! Hann fól mér sverð í hendur — sem ég mun aldrei slíðra!
Gæti því nokkur staðið í vegi fyrir mér?“
Húnarnir skáluðu ákaft og höfðu
enn uppi blessunarorð. Tindrandi augum lyfti Attíla fulli sínu mót
biskupnum og með látbragði er sýndi svo að ekki varð um villst, að
það skyldi drukkið gestinum til.
46.
Nú var staðið upp frá borðum. Nokkrir
viðstaddra yfirgáfu tjaldið, aðrir biðu átekta. Þjónarnir röðuðu
stólunum meðfram tjaldvoðinni en tóku borðið saman og höfðu á brott
með sér.
Á meðan á máltíðinni stóð hafði ég
veitt því óljósa athygli að eitthvað var á seyði fyrir framan
tjaldið en hafði annars verið með allan hugann við borðhaldið.
Núna kom í ljós að búið var að
gróðursetja birkitré eitt allstórt fyrir utan, í fullum skrúða.
Sveinarnir sem höfðu verið að verki voru rétt að ljúka við að þjappa
moldinni að því. Í um tíu skrefa fjarlægð voru félagar þeirra að
kveikja eld í litlum bálkesti. Fræðararnir voru þarna allir saman og
höfðu í ýmsu að snúast. Gyrðir hélt hvítri á og svörtum hrúti í
skefjum á meðan Bukkur kom sjöhyrndri altarishellu fyrir á sínum
stað og Sármáni annarri, kringlóttri og svartri. Það var sem sagt
fórnfæring í vændum og biðu herramennirnir þess eins að blótið
hæfist.
Prestarnir hvörfluðu í kringum
bálið í flöktandi bjarmanum, Kama og Íddar sveipaðir hvítu, Zóbókan,
Bógur og Gyrðir rauðu, aðrir svörtu. Sveinarnir sem voru þeim til
aðstoðar voru búnir sínum venjulegu hermannsklæðum, nema til
höfuðsins, þar sem þeir höfðu uppi strýtta blóthatta svipaða og
prestanna.
Þrír hálfnaktir hljóðfæraleikarar
höfðu komið sér fyrir, hátíðlegir í bragði, undir birkitrénu, tveir
þeirra með djúpar sívalar trumbur og sá þriðji með hápípu all
sérstæðrar gerðar, sem á tungu Húna kallast tárogató og er
trektmynduð í endann.
Höfðingjarnir fengu sér sæti á
lágstólum í kringum Attílu. Fjær, hinum megin við bálið, var þyrping
áhorfenda sem aðallega samanstóð af ýmsum rosknum fyrirmönnum og
foringjum.
Trumbuslagararnir tóku nú að slá
dynjandi takt undir leik hljóðpípuleikarans, sem lét ýla í
tárogatóinu stef sem í senn tjáði sársauka og ógn. Einn prestanna
kveikti á hvítu vaxkerti; annar hélt skál hátt uppi og dreitti vatni
eða einhverjum ókennilegum vökva yfir ána, sem brást við með snöggum
skjálfta; en frammi fyrir henni kraup Zóbókan lotningarfullur,
fremur eins og frammi fyrir manneskju en skepnu, og skyndilega brá
hann hníf sínum — og rak á kaf í dýrið. Eins fór Vítos fræðari að
við hrútinn svarta. Jarmur sauðanna rann saman við tónlistina líkt
og raddir í stefjahrynu, en blóðinu var safnað í skálar, af ánni í
silfurskál og af hrútnum í járnskál.
Prestarnir unnu verk sitt án hiks
og af kostgæfni. Gyrðir og Bógur brettu upp ermarnar og með
breiðblaða bjúghnífnum fláðu þeir sauðina. Damónik herti öxi yfir
eldinum og hjó síðan hornin af hrútnum, sem hann svo rétti Vítosi.
Vítos festi hornin þannig við barðið á hatti sínum að þau stóðu út
beint yfir eyrum hans.
Nú varð lát á tónlistinni.
Íddar gamli klifraði upp í
birkitréið, eftir sporum sem höfðu verið höggvin út í bolin, þangað
til hann nam við neðstu greinarnar. Þar uppi breiddi hann út armana
og sönglaði skjálfandi röddu: „Þögn! Þögn! Þögn!“
Allir tóku ofan — einnig Attíla.
Zóbókan skar hjartað og tunguna úr
hvítri ánni og setti í stóra silfurskeið, hélt þá skeiðinni hátt
yfir eldinum.
Uppi í trénu sneri Íddar sér til
austurs og hrópaði til himins: „Drottinn, vor Guð! Skapari himins og
jarðar! Herra sólar og tungls! Herra stjarnanna! Herra vatnsins! Þér
til dýrðar færum vér þessa fórn, með báli og brandi!“
Zóbókan lét tunguna falla á bálið
og prestarnir hrópuðu í kór: „Drottinn vor, skapari vor, hjálpa þú
oss! Ver með oss!“
Íddar kom ofan úr trénu og tók við
hinni helgu skeið þar sem í var blóðrautt hjartað úr sauðkindinni.
Hann hélt skeiðinni hátt yfir eldinum og bað:
„Almáttugur Guð, faðir vor manna,
þú sem ert á himnum, ofar skýjum, þú sem stýrir eldingum, magnar
veður og vind og færð jörð til að skjálfa! Hjörtu vor brenna af ást
til þín líkt og hjarta þetta mun nú brenna! Ver með oss!“
„Ver með oss!“ þuldu fræðararnir í
kór og undir með þeim tók mannsöfnuðurinn.
Íddar lét hjartað falla á bálið og
um leið hófst helgihljómstefjan á ný.
Nú steig Vítos fram. Dunur
trumbanna dóu út á meðan hann skar hjartað og tunguna úr svörtum
hrútnum og lagði í járnskeið. Holum rómi mælti hann og leit til
jarðar:
„Drottinn alls ófagnaðar! Máttugi
Djöfull! Herra skrattanna! Sorgarbrunnur og armæðu! Svarti Djöfull!
Vinn oss ei mein!“
„Vinn oss ei mein!“ þuldu allir í
kór.
Hann henti hjartanu og tungunni í
gryfju er undir altarishellunni var og hellti blóðinu úr skálinni
sömu leið. Nú logaði aðeins í glæðum á kestinum.
Íddar dró altarishellurnar tvær
yfir glæðurnar og lagði herðablað ofan á hvora um sig. Það sem eftir
var athafnarinnar stóð hann hreyfingarlaus með hendur útréttar svo
þær vissu að herðablöðunum á hellunum.
Þurru grasi var hent á glæðurnar
og bálið blossaði aftur upp. Og nú sneri blindi öldungurinn Kama sér
að eldinum og lyfti tveimur sverðum hátt á loft í kross yfir
eldinum. Tónlistin hætti.
„Lútið niður!“ sönglaði Íddar.
Allir hlýddu og lutu lágt niður.
Kama hóf að syngja hrumri,
skjálfandi röddu: „Drottinn vor í upphæðum, vér áköllum þig. Þú
hefur leitt oss Húna hingað. Sverð þitt er í höndum Attílu. Veit oss
afl þitt að ofan! Vér biðjum þig — styð þú son Balambérs, höfðingja
Húna, þinn útvalda Attílu!“
„Styð þú Attílu!“ tók söfnuðurinn
undir með fræðurunum.
Ég gaut augunum á Attílu. Hann sat
hreyfingarlaus á stól sínum. Yfir svörtu skegginu mændi föl ásjóna
hans, augun hulin skuggum. Hann var á að líta sem holdtekning
næturinnar.
Presturinn hélt áfram:
„Drottinn, vor Guð, þú sem hefur
leitt oss langt að úr austri yfir á sléttur Tísjuár, og af sléttum
Tísjuár í vesturheim, herð þú svo branda vora að stálið vinni á
stáli! Lát þú hvert bragð ljósta svo hart sem eldingar himins!“
Íddar tók við sverðunum af Kömu og
rétti honum tvær örvar í staðinn.
Enn var bætt á bálið sem blossaði
upp og Kama sönglaði, ákallaði Guð og bað hann blessa örvar Húna.
Því næst fór Kama eins að við
beislistauma og bað til Guðs að hann léði hestunum hug og kjark.
Söfnuðurinn hafði eftir síðustu
orð hverrar bænar.
Nú var víni skvett á bálið. Eitt
augnablik grúfði svart myrkrið yfir öllu, þá kviknaði bálið á ný af
vínandanum með hvæsi og blístri og neistaflugi og um stund glóði
strókurinn upp af því.
Kama brá sverði og laust því í
eldtungurnar og tók þá að vekja upp anda allra þeirra Húna er nú
væru horfnir af sjónarsviði, þuldi upp nöfn allra fallinna hetja
þjóðarinnar.
„Af himni og jörð, eldi og vatni,
vaknið! Vakið með oss, þér andblær liðins tíma! Sýnið ykkur líkt og
skýin hjúfra sig um skóg á fjalli! Gangið fram sem skuggar á nóttu!
Vakið með oss, veit oss styrk!“
„Vakið með oss, veit oss styrk!“
þuldi söfnuðurinn.
Íddar stakk sverðunum tveimur í
birkistofninn og fór eins að með örvarnar tvær. Þá festi hann
logandi kertið þar og hengdi loks beislistaumana á trjágrein.
Attíla reis á fætur og söfnuðurinn
dreifðist. Prestarnir, prinsar og höfðingjar fylgdu á eftir Attílu
inn í tjaldið. Fyrirmennirnir settust á stólana undir tjaldvoðinni.
Miðbik tjaldsins var autt.
Nokkrir sverir vaxkyndlar snörkuðu
á höfuðsúlu tjaldsins fyrir miðju gólfi. Kyrrð var komin á í
búðunum, aðeins stöku hrotur heyrðust og til hrossa sem kroppuðu á
beit; það lét í eyrum líkt og öldugjálfur við sjávarströnd. Einn og
einn hundur gelti í fjarlægð. Fyrir utan gneistaði bálið og kastaði
löngum skuggum af prestunum á tjaldvoðina..
Nú tóku trumburnar að duna dimmum örgum hljómi undan
lófum og fingrum slagaranna. Hljóðpípuleikarinn lyfti tárogatóinu að
vörum sér og blés stef sem hann svo endurtók í sífellu:

Zóbókan fræðari tók sér stöðu á
tjaldgólfinu miðju, leit upp sem til himins og baðaði út höndum.
Hann tók að ganga í hringi, æ hraðar og hraðar og hljóp brátt við
fót, tók loks að stökkva og hoppa líkt og hann vildi hefja sig til
himins. Trumbuslátturinn færðist því meir í aukana sem dans
prestsins varð óhemjulegri. Svitinn bogaði af honum, líkaminn
hvirflaðist kringum sjálfan sig. Þá, hægt og sígandi, virtust
kraftar hans fjara út og að síðustu skjögraði hann magnþrota um
gólfið, starandi augum, enn upp, svo að aðeins skein í hvítuna fyrir
sjónum okkar. Andlitið varð rjótt sem purpuri, blánaði þá og gulnaði
og varð á endanum hvítt sem nár; þá riðaði hann og féll loks
froðufellandi niður á mitt gólfið.
Hinir fræðararnir lutu niður að
honum. Tónlistin dó út. Og sem Zóbókan engdist í krampaflogum á
gólfinu slitnuðu út úr honum stök orð á stangli:
„Grundin ... blómin ... hrossin
... svamla ...“
Attíla sat á bríkarstól sínum og
hnykklaði brýnnar.
Kama sneri sér að honum og mælti:
„Liljur vallarins spretta
rauðar sem blóð. Hross og ernir svamla í sama duftinu.“
Allir viðstaddir störðu þögulir
fram fyrir sig. Fáeinir ypptu öxlum, aðrir voru djúpt niðursokknir í
hugsanir sínar. Attíla einblíndi dimmum sjónum fram fyrir sig.
Zóbókan var studdur á fætur af
tveimur öðrum og leiddur á brott. Ég hugsaði með mér að hann hlyti
að hafa innbyrt eitthvert görótt jurtaseiði, því að hann var eins og
vitstola maður.
Enn upphófst tónlistin.
Prestur af bálki Alana steig fram
á gólfið. Hann var í svörtum sorgarkufli og hristi saman alla vega
lita sprota á flókadúk. Allsnakin manneskja, smurð hvítu frá hvirfli
til ilja, fylgdi honum á eftir, og í því skyni að vekja upp anda tók
hún að hringsnúa vagnhjólum jafnframt því sem hún fetti sig
klunnalega á alla kanta á hinn kynlegasta hátt. Á meðan ákallaði
prestur stöðugt Guð og leitaðist við að lesa úr teiknum þeim sem
sprotarnir sýndu.
Spádómur Alanaprestsins þótti öllu
þekkilegri en dómur Zóbókans.
„Fjandi vor birtist mér sem
sjöhöfða dreki. Sá hausinn sem er illúðlegastur ásýndum fellur í
duftið. Sverð Rómverja er hvítt, sverð Húna rautt.“
Attíla hnikaði höfðinu lítið eitt.
Húnversku tignarmennirnir heyrðust hvísla lágt: „Aëtíus...“
Því næst stigu prestar Gota fram
og fóru með sína helgigjörð og mæltu fram heldur óljósa spádóma.
Viðstaddir héldu niðri í sér andanum, djúpt snortnir.
Að síðustu drógu húnversku
fræðararnir glóheitar altarishellurnar inn í tjaldið með járntöngum
og komu þeim fyrir yfir glóðarmolum í tjaldinu miðju. Guðrækileg
andakt greip viðstadda.
Íddar tók nú sviðið herðablaðið af
hellunni sívölu með silfurtöngum er voru húðaðar gulli um höldurnar.
Hann hélt beininu í kyndilbjarmanum og rannsakaði sprungurnar í því
áhyggjufullur á svip.
„Sé ekki neitt,“ sagði hann sem
hann sneri sér að æðsta prestinum, öldunginum blinda. „Ekkert nema
eina stóra sprungu.“
„Það er auðráðið,“ sagði Kama.
Hann sneri sér að Attílu.
„Foringi fjandmanna vorra mun
falla.“
Attíla haggaðist ekki í sessi.
„Látum okkur sjá hitt,“ mælti hann.
Íddar fræðari tók þá hitt beinið
og bar upp í bjarmann. Í tjaldinu var grafarþögn. Fræðarinn las
beinið, atkvæði fyrir atkvæði:
„And ... ar ... allr... a ...
fram ... lið ... inn ... a ... Hún ... a ... berj ... ast ... með
... þér ...“
Herramennirnir spruttu á fætur.
Allir þyrptust að beininu. Attíla fremstur.
Að því er Bjóll fræðari tjáði mér
seinna, höfðu sprungurnar í svörtu beininu verið raunveruleg
setning, skráð með rúnum úr stafrófi Húna.
Allir hinir háu herrar ljómuðu af
gleði. Gamli biskupinn einn lét sér fátt um finnast; hann sat
svefnhöfugur og hinn rólegasti í sæti sínu. Attíla sneri sér að
honum.
„Hyggst þú ekki spá fyrir mér um
framtíð mína? Eða býrð þú ekki yfir mætti til að spyrja hina kristnu
anda ráða?“
Biskupinn rétti úr sér og svaraði
lítillátur: „Ekki bý ég nú svo vel, herra minn. Að okkar hyggju og
trú verður aðeins eitt sagt fyrir um.“
„Sem er hvað?“
„Að verði Guðs vilji, í einu og
öllu.“
„Hljómar ágætlega,“ sagði Attíla
og lét vel að sverði sínu. „Ef sá er vilji Guðs að ég sé gyrtur
þessu sverði, þá hlýtur það og einnig að vera vilji hans að sverðið
ljósti!“
Hann kinkaði kolli til manna sinna
og hvarf upp á svefnloftið.
47.
Ég kveikti á kyndli og lýsti þeim leiðina,
húsbónda mínum og bróður hans yfirhershöfðingjanum. Hvorugur mælti
orð af vörum, ekki fyrr en við komum að tjaldinu okkar og eldri
bróðirinn steig á bak hesti sínum, að Kati spurði hann:
„Það verðum þá ekki við sem hefjum
leikinn eða hvað?“
„Að líkindum ekki,“ svaraði
yfirhershöfðinginn eins og í hálfkæringi og geispaði.
„Svo að teiknin hafa þá ekki verið
alveg afdráttarlaus?“
„Nei. Attíla mun að líkindum taka
stöðuna enn á ný til athugunar í fyrramálið.“
Orð yfirhershöfðingjans vöktu mér
undrun. En seinna átti ég eftir að komast að raun um að vegna
nærveru hinna útlendu prinsa og höfðingja hafði Attíla kosið að láta
sem teiknin hefðu eingöngu verið góðs viti.
„En ef þeir nú kjósa að byrja
strax í fyrramálið?“ spurði Kati.
Bróðir hans hristi höfuðið. „Ég á
bágt með að trúa að þeir geri það. En sofðu eins vel og þú getur. Ég
verð að fara af stað núna strax.“
„Suður fyrir?“
„Já. Tveir sjálfboðaliðar munu
leggja eld að heyvögnum þeirra ef vindur verður hagstæður.
Rómverjarnir hafa lagt þeim svo þétt hverjum að öðrum. Með Guðs
hjálp skal ég svæla þá að handan. Hafðu gott auga með ánni þar sem
hún fellur um reyrsefið.“
Bræðurnir tókust í hendur.
Kati fór inn í tjaldið þungt
hugsi. Hann staldraði við eins og hann væri að íhuga eitthvað með
sjálfum sér, geispaði þá svo svakalega að brakaði í kjammanum. Ég
kom blysinu fyrir í járnhaldinu á tjaldsúlunni og var þá tilbúinn að
hjálpa honum að afklæðast.
„Við sofum í fötunum í nótt,“
sagði hann. „Einnig þú — og hefur sverðið tiltækt.“
Hann seildist ofan í kistil og tók
upp tvo geitarskinnsbelgi er voru á stærð við svínsblöðru.
„Farðu með þá út,“ sagði hann, „og
hengdu þá við hnakkana, einn á Elding og hinn á þann lausbeislaða.
Setur blautar dulur yfir... Og bíddu við!“ bætti hann við og
seildist enn niður í kistilinn, „best að þú fáir einn líka.“
Maður getur orðið æði þorstlátur í
bardaga.
Hann tók korktappann af og
bragðaði á innihaldinu.
„Skrattinn sjálfur! Vínið orðið að
ediki! Finndu! Það er orðið súrt!“
„Ekki að undra,“ svaraði ég. „Eins
og þú veist, herra minn, þá höfðum við engin tök á að taka
vínkjallarann með!“
„En því hefur þá ekki vín Attílu
spillst?“
„Þeir fluttu sitt í kvartilum og
höfðu blautar húðir yfir.“
Hann skreið upp í hengirúmið sitt
og var sofnaður samstundis.
Hrossin hímdu fyrir utan undir
fullum reiðtygjum. Karakki hestasveinn hélt þeim félagsskap. Við
hvern hnakk hékk trékylfa með koparhaus og örvamælir, hver og einn
fullur með álnarlöngum bambusörvum.
„Þú gefur hestunum eitthvað,“
sagði ég. „Enginn mun hreyfa sig fyrr en í fyrramálið.“
„Sérð þú ekki að þeir eru með
fóðurkörfurnar á sér?“ gall Karakki við. Hann fleygði sér út af
undir tjaldskörinni.
Ég kom mér í fletið mitt, sem var
strengt milli súlna undir skinnskyggninu yfir innganginum.
48.
Ég braut ákaft heilann um hvað morgundagurinn
bæri í skauti sér og ætlaði seint að takast að sofna. Skyldi ég eiga
aðra nótt fyrir höndum hér í heimi? Fengi ég nokkru sinni framar séð
hann Stóra Björn á himninum? Hversu gerólík hefði ekki nóttin verið
ef Móeik hefði aldrei komið til sögu? Ég hefði sofið vært heima í
Miklagarði í faðmi sumarnæturinnar með sjávarilm fyrir vitum, en
ekki verið hér í miðju þessu sofandi víti með japlið í hestinum
mínum fyrir eyrum, hestinum sem nú japlaði á höfrum og virtist kæra
sig kollóttan og mundi þó á morgun, ef svo vildi til, bera mig á
baki sér inn í ríki hinna dauðu.
Um miðnætti tókst mér loks að
sofna. Hversu lengi ég svaf veit ég ekki. Á þessum árstíma birtir
snemma, eða um óttubil. Ég vaknaði við hófadyn. Jörðin skalf undan
fótum hrossanna sem þá var verið að reka í hópum til brynningar.
Ég klifraði upp miðsúluna í
tjaldinu og gægðist út um loftopið til að virða fyrir mér
fjandmennina fyrir handan. Einnig þeir voru komnir á stjá. Við ána
milli bækistöðvanna gat að líta hross í milljónatali! Myndi hún ekki
verða svelgd til þurrðar! Var þá runninn upp dagur
úrslitaorrustunnar?...
Húsbóndi minn reis úr rekkju og
þvoði sér, skvetti framan í sig vatni og neri því um vanga og skegg.
Ég tók til leðurstakkinn hans, sem hann skellti sér í og var rokinn
með það sama til Attílu.
Húnarnir voru þá þegar stignir á
bak klárum sínum. Þeir hinir yngstu sátu berbakt eða aðeins með
stakka sína eða brekán eða einhverjar skinnpjötlur undir sér. Allir
mændu í átt til tjalds konungsins. Úti á völlunum fjær voru enn
aðrir; þeir kölluðu án afláts og spurðu nýjustu tíðinda — hvenær
yrði blásið til orrustu.
Þá ungu klæjaði í lófana eftir að
fá hafið bardagann. Þeim hinum gamalreyndari þótti líka þurrt og
skínandi bjart veðrið alveg kjörið til að berjast í. Og því fyrr sem
þeir byrjuðu, því betra; því morguninn er svalur en síðdegið heitt.
Og ævinlega slæmt að fresta því til morguns sem gera má í dag.
Ég hafði heldur enga eirð í mér. Á
meðan Kati fundaði með Attílu gekk ég enn úr skugga um að beisli,
taumar og ístöð væru í lagi og hugði að orrustustakknum mínum.
Rýtinginn minn og sverðið fægði ég með sólanum á ilskónum mínum. Og
eins og aðrir festi ég á mig hnéhlífar, sem voru úr leðri og fylltar
með hrosshári.
Arabískur kaupahéðinn fór á milli
manna og vildi selja ljónsmör. Húnarnir göntuðust með hann og spurðu
hvort heldur ljón rýttu eða hneggjuðu, en engu að síður voru þeir
margir sem keyptu af honum.
Loksins komu boð frá Attílu. Allir
skyldu neyta matar og drykkjar og einnig skyldi hestunum gefið. Og
brátt loguðu eldar hvarvetna og hvert sem var litið var tekið að
reka hjarðir nautgripa, kálfa, sauða og lamba á milli tjaldanna.
„Það verður varla barist í dag,
eða hvað?“ spurði hver maður annan ólundarlega.
„Nema að það verði síðdegis?“
„Síðdegis! Hafið þið nokkurn
tímann heyrt annað eins?“
„Sérð þú ekki að við hefðum sólina
beint í augun ef við ættum að sækja fram núna?“
En hvers vegna skyldu Rómverjar þá
ekki hafa látið til skarar skríða? Ekki hefðu þeir haft sólina í
augun.
Menn úr hópi flugumanna útskýrðu
að Aëtíus ætti enn von á liðsauka og hygðist blása til orrustu
morguninn eftir.
„Við hefjum leikinn nú síðdegis,“
sagði Kati, sem hann svipti af sér orrustustakknum og fékk mér til
varðveislu.
Óðum hlýnaði í veðri.
Yfir eldinum, á álnarlöngum
teinum, snerist krafturinn er skyldi efla okkur til dáða síðdegis.
49.
Enn var miður dagur og skuggana af tjöldunum
lítt tekið að lengja þegar Káson lúðurblásari birtist í turni
konungstjaldsins og lét gella í stóra fílabeinshorninu sínu:

Þúsundir horna tóku undir með
þessu skelfilega þríkvæða stefi. Ef kyrrð hefði ríkt í búðunum hefði
mátt greina hvernig vælið endurómaði allt til ystu jaðra herbúðanna
lengst úti í ósýnilegum fjarska. En á svipstundu tóku búðirnar að
óma af glamri í vopnum og mikilli háreysti; nöfn voru kölluð upp og
merki voru gefin og alls kyns fyrirskipanir í miklu ofboði.
Allir stigu á bak. Hver og einn
hnýtti á sig leðurhött eða hjálm og festi á sig brjósthlíf, gætt var
að reiðtygjum og bogastrengjum, og skildir, örvamælar, sverð og
spjót gerð klár. Saragúrarnir og Roxólanarnir settu upp hjálma sína
— dýrahauskúpur eins og þær komu af skepnunum með hausfillum og
hornum á. Gelónarnir munduðu spjót sín með hauskúpum manna á
spjótsoddum. Markómannar festu uxahorn á hetti sína og voru þá
djöflum líkastir.
Víðsvegar fram undan herbúðunum
tók reykur að liðast til himins. Prestar allra hinna margvíslegu
þjóða voru að búa sig undir fórnarathafnir. Prestar Húnanna mundu
fórna hvítum hesti, Saragúrar og Gelónar mönnum.
Ókennilegur hornablástur barst
okkur til eyrna úr fjarska, úr norðrinu. Það var langdreginn þytur
en gjallandi og vatt upp á sig eins og snákur. Ég hafði aldrei heyrt
neitt þvílíkt fyrr.
„Þeir eru farnir að sækja fram
þarna uppfrá,“ sagði hestasveinn einn.
Varðmenn á völlunum tóku sér nú
stöðu á meðal okkar. Skutilsveinar þyrluðu upp ryki er þeir þeystu á
harðastökki milli tjaldanna. Merkisberar höfðu skorðað flaggstangir
sínar í ístöðum og hljóðpípuleikarar tekið sér stöðu upp á vögnunum
í innri röðinni. Búið var að beita hrossum fyrir vagnana með
vélvirku bogunum og öllum þeim vígvélum.
Allt gerðist með skjótum hætti.
augun glóðu í mönnum. Allir höfðu hátt og hver talaði upp í annan.
Mér fannst ég vera sá eini er biði
þess þögull og fölur er verða vildi. Hrollur fór um mig allan eins
og hýena flaðraði upp um mig. Ég gat varla hreyft legg né lið.
Aðeins eitt komst að í huga mér: Þú ert á leið út í opinn dauðann.
Ég hélt mig fyrir framan tjald
Attílu á meðal hestasveinanna er héldu við hesta konungs og
tignarmannanna. Hesturinn minn var með leðursvuntu fyrrir
brjósthlíf. Í hnakknum hékk kylfan mín. Ég var búinn gráa
orrustustakknum mínum og hafði sveipað slá yfir hann um herðarnar —
til að líkjast þeim herramönnunum. Koparhjálminn hafði ég klætt
þannig að hann virtist fremur vera úr leðri. Ég bar sverðið mér við
mjöðm hægra megin og örvamælinn vinstra megin; í honum hafði ég
tiltækar um hundrað álnarlangar léttar örvar. Annan örvamæli bar ég
á bakinu en á boganum hélt ég.
Enn gall í horninu ofan úr
tjaldturninum:

Og enn tóku þúsundir horna undir
og báru óminn vítt og breitt um búðirnar.
Keðjur sem höfðu verið strengdar
milli vagnanna voru nú leystar og jafn skjótt geystust knapar fram á
fákum sínum á milli þeirra út á vellina með dyn miklum og
fyrirgangi.
Skutilsveinar ríðandi hinum
fráustu gæðingum endasentust fram og til baka frammi fyrir öllum
fjöldanum. Þá mátti þekkja af trönu- og strútsfjöðrum sem þeir báru
í höttum sínum. Háum rómi skipuðu þeir knöpum í deildir og fylkingar
eftir fjölskyldum og ættum. Þeir sem riðu hestum með sterkustu
brjósthlífunum var skipað í fremstu vígröð. Það voru allt þjálfaðir
hermenn sem áttu rétt á tvöföldum hlut herfangs að orrustu lokinni.
Fyrir miðju hverrar deildar reið
sá hinn yngsti, stundum vart orðinn fimmtán ára gamall og hélt uppi
merki fjölskyldu sinnar á löngu spjóti.
Hermennirnir höfðu ekkert sér til
hlífðar á hægri handlegg og sumir heldur ekki neitt á þeim vinstra
nema silfur- og koparslöngur sem þeir höfðu vafið upp á handlegginn
til varnar vöðvunum. Aðeins brjóstkassinn var rækilega varinn og
höfuðið. Samt sem áður voru stálhjálmar sjaldgæfir, flestir báru
hjálma úr leðri.
Hvíthúnar blönduðu sér á meðal
Blakkhúna í litskrúðugum litlum hópum næst miðju víglínunnar. Í
allra öftustu röðum voru svo fótgönguliðarnir.
Hávær bylgja fagnaðarláta reis þar
sem tjald konungs var. Attíla kom ríðandi út með gylltan hjálm á
höfði og herðaslag úr ljónsmakka. Brúnir og vöðvastæltir
handleggirnir voru brynjaðir gulli sem hringaði sig um þá. Hann var
umkringdur æðstu foringjum sínum og lífvörðum og fyrir honum blakti
silkifáni sem lýsti af gullofnum hauki.
Um leið og fáninn kom í augsýn
barst bylgja fagnaðarlátanna um þverar og endilangar búðirnar.
Attíla hvatti hvítan hest sinn
sporum og lét gamminn geysa milli raðanna þar til út á vellina kom
þar sem hann hóf könnun þessa ógrynni liðs sem var engu líkt því sem
sést hafði áður undir sólinni síðan á dögum Xerxesar.
Allt ætlaði um koll að keyra, slík
voru fagnaðarlætin.
Nú var runnin upp sú stund að
fórnardýrunum skyldi slátrað á öllum hinum mörgu ölturum prestanna.
Attíla lét staðar numið þar sem hinn blindi Kama var að fórna dýri
sínu.
Athöfnin var stutt. Presturinn
ákallaði Guð Húna hárri röddu og teygði út hendur sínar í átt til
hvers ættflokks og þjóðar. Því næst dýfði hann birkihríslu í blóð og
blessaði með því herinn.
Hljóðlátir héldu prestarnir áfram
störfum sínum. Þeir myndu ekki láta af fórnfæringunum fyrr en að
orrustu lokinni.
Attíla geystist á milli
herdeildanna á hröðu stökki. Hér og þar nam hann staðar og skiptist
á orðum við þá sem fyrir deildunum fóru og hrópaði hvatningarorð til
hermannanna.
Til okkar í minni deild heyrði ég
að hann kallaði: „Húnar! Í dag skulum við enn einu sinni gera
heiminum ljóst hvað það er að vera Húni!“ Augu hans sindruðu. Og
hvernig hann bar höfuðið! Tilfinningum okkar verður ekki með orðum
lýst. Hann virtist varla lengur vera maður á meðal manna, miklu
fremur ljón guðlegrar ættar þótt í mannsmynd væri!
„Við sýnum þeim í tvo heimana!“
hrópuðu allir til hans, ákaft.
En rödd mín var hás og þurr.
Herdeild Barkar var öðrum megin
við okkar. „Guð berst okkur við hlið!“ kallaði Attíla til manna
hans. „Enn höfum við aldrei tapað orrustu!“
„Og munum ekki gera nú heldur!“
svöruðu hermennirnir að bragði fullum hálsi.
Og Attíla geystist áfram. Hvar sem
hann lét til sín heyra var honum svarað þrumandi raust og við sáum
spjótum lyft til himins. En víglínan var svo löng að hinir tveir
vængir heraflans hurfu í grámósku úti á völlunum. Þeim sem þar voru
gaf Attíla aðeins merki með blikandi sverði sínu. En það jafngilti
líka því að hann kallaði: Sjáið, hér hafið þið sverð Guðs!
Fjarlægur niður og blik af vopnum
gaf til kynna að boð hans hefðu komist til skila. Innra með öllum
lagði hita af sál hans, líkt og sól er upp kemur endurspeglast í
öldum hafsins.
Á meðan á þessu gekk skipuðu
fjandmenn vorir sér í fylkingar.
Það var áreiðanlegt að þeir kærðu
sig ekki um að berjast í dag, og því síður sem lengra liði á daginn
og þeir fengju sólina beint í augun. En áttu þeir nokkurra kosta
völ? Lúðraþyturinn hafði borist þeim til eyrna og þeir orðið vitni
að viðbúningi okkar — voru þeir ekki neyddir til að taka
áskoruninni?
Kaldur hrollur hríslaðist um mig
allan.
Við hlið mér var gamall Húni með
andlitið örum rist ámóta og melóna. „Mér líst ekki allskostar á
þetta,“ tautaði hann.
„Því þá ekki?“ spurði ég, því ég
hjó eftir öllu sem ég heyrði skrafað í kringum mig.
„Af því,“ svaraði hann, „að ef við
förum fram núna, þá verðum við að gjöra svo vel að berjast í alla
nótt. Það er ekkert til verra en að heyja bardaga að næturlagi.“
„Það er það allra besta, maður,“
lagði Sabólikki, sá með eyrun sín stóru, til málanna, stoltri röddu.
„Þá að minnsta kosti svitnum við ekki!“
Við fylgdumst með óvinahernum
breiða úr sér. Silfri lík, glitrandi rönd á hinum bakka árinnar var
Rómverjaher, en Frankarnir með leðurskildina sína voru ásýndum sem
gul rönd með rauðum deplum og Búrgundar sem hvítdeplótt rönd.
Alanarnir voru á að líta sem iðandi reyrskógur og Vestgotar sem
hveitiakur. Og ljóminn sem lagði af flokknum þeim litla er geystist
fram og til baka frammi fyrir herjunum stafaði af Aëtíusi og
Þjóðreki konungi, syni hans Sangiban konungi, Meróvek Frankakonungi
og Gondibó konungi Búrgunda og öðrum fyrirmönnum þeirra.
Þeir röðuðu her sínum niður líkt
og Attíla. Hann var á að líta eins og árstraumur þegar
silfurgljáandi sveitirnar færðu sig um set vítt og breitt um
vellina. Síðan skildust þeir að og fóru hver í sína áttina,
fyrirmennirnir. Núna mátti sjá rómversku herdeildirnar allar á
vinstri væng, gegnt Gefðunum og hinum fjölskrúðugu villimönnum okkar
sem voru makaðir andlitsfarða og með dýraskinn um sig.
Vestgotarnir á hinum vængnum myndu
berjast við Austgotana okkar. Frankar, Búrgundar, Alanar og menn af
ýmsu bergi brotnir stóðu gegnt Húnunum miðsvegar.
Hershöfðingjar Attílu hurfu nú
einnig hver til síns staðar.
Mjög heitt var og svitinn lak af
mönnum.
Í fjarska, að baki rómversku
búðunum, steig reykmökkur mikill til himins. Var kviknað í
heyvögnunum? Hafði yfirhershöfðinginn ráðist til atlögu aftan frá?
Hátt yfir búðunum hnitaði storkur hringi.
Attíla reis upp í ístöðunum og
leit yfir óvinaherinn — enn var eitthvað sem hann vildi kanna betur.
Hann gaf konungi Gota merki með
sverði sínu og her Gotanna tók að hreyfast. Knaparnir dreifðu úr sér
og stefndu reiðskjótum sínum á hröðu stökki í átt til hæðar einnar
er var á valdi Þórismundar. Heróp þeirra runnu saman í eitt
yfirþyrmandi öskur. Það stirndi á vopnin í sólskininu er þau hófust
á loft.
Rykið þyrlaðist upp í kringum
þessa gotnesku knapa þangað til ekki varð lengur komið auga á þá
heldur aðeins gulan bólstur sem hreyfðist yfir jörð líkt og þegar
stormur í aðsigi þeytir upp moldviðri á undan sér.
Og nú lögðu Rómverjarnir lengst í
fjarska til atlögu við ystu sveitir okkar; runnu til móts við þær
líkt og þegar Tísjuá flæðir yfir bakka sína. En svo fjarri voru þeir
að við fengum aðeins greint lágværan hófadyn, líkt og af þrumum í
fjarska.
Allir fylgdust með, enginn mælti
orð af vörum. Hitinn var óskaplegur.
„Skrattinn hirði þig!“ formælti
Kati hesti sínum. „Við erum varla komnir yfir rásmarkið og hann
strax byrjaður að svitna milli eyrnanna!“
Nú tóku trumburnar að duna í
liðssveit okkar og undir tóku gjallandi hornin og loks flauturnar.
En kliðurinn og óhemjulegur fyrirgangurinn sem fylgdi
lokaundirbúningnum nærri því yfirgnæfði hornblásturinn og
flautuleikinn.
Kati skimaði aftur fyrir sig til
að sjá hvort ég væri ekki á mínum stað. Augu hans voru blóðhlaupin
og andlitið glitraði svo af svita að vel hefði mátt ætla að það
hefði verið borið gljákvoðu.
Dauðans kuldahrollur nísti í
gegnum merg og bein. Vöðvunum var líkt farið og þöndum bogastreng er
bíður slökunar.
Enn reis Attíla upp í ístöðunum,
hann leit aftur fyrir sig og gaf nú til kynna með sverði sínu að sér
skyldi fylgt.
Þrjúhundruðþúsund radda kór rak
upp stríðsöskrið: „Fraaa-m! Fram nú!“ og fákarnir spruttu úr
sporunum beint til móts við hersveitir Rómverja.
„Guð veri oss næstur!“
Jörðin nötraði, loftið var þrungið
raddklið þúsunda. Hver og einn laut fram á hesti sínum og fylgdi
eftir foringja sínum á harðastökki. Hver á fætur annarri skyldust
liðssveitirnar að líkt og þegar mönnum er teflt fram á taflborði og
auðir reitir skilja þá að. En þeir reitir voru brátt fylltir upp af
sveitum Barkar, Orgóvans, Dórogs og Makka.
Úti á völlunum dreifðu sveitirnar
enn frekar úr sér og þeystu fram. Fráustu fákarnir höfðu þá þegar
geyst fram úr öðrum líkt og fingur væru út spenntir — ekkert fékk
haldið aftur af þeim. Í kjölfar þessara sveita fylgdu Úpor, Balan,
Madras og Kamokki með lið sín, og síðan Úrkon, Betég, Alöður og
Zsögod.
Nú var komið að okkur. Þar til nú
höfðum við mátt bíða þess eins og spenntur bogi að rúm opnaðist fram
undan okkur. Þegar þeir sem á undan okkur fóru voru nægilega langt
undan rak Kati upp öskur og skók boga sinn.
„Fraaa-m! Í drottins nafni! Fram
nú!“
Við vorum lagðir af stað.
Eða vorum við það í raun og veru?
Var það ef til vill jörðin sem var tekin að skríða aftur undan fótum
vorum? Ég varð að ríghalda um hnén á mér til að geta setið hestinn á
þessari þeysireið.
„Fraaa-m! Fram!“
Nú mátti ég ekki missa sjónar á
Kata. Ladó reið honum við hlið á vinstri hönd og bar þungan
leðurskjöld. Hið eina sem af honum var ætlast var að vera á
varðbergi gagnvart öllum atlögum að húsbóndanum — með skildinum
stóra skyldi hann bera af þeim öll spjótalög og högg er kæmu vinstra
megin frá. Fast á hæla þeirra fylgdum við Karakki og ég. Karakki var
með söðlaðan hest í taumi er skyldi vera til taks ef hestur
húsbóndans yrði fyrir spjóti eða ör; hann gæti þá haft hestaskipti á
augabragði.
„Fraaa-m! Fram!“
Við geystumst áfram — og að því er
mig varðar þökk sé hestinum mínum, því að í sannleika sagt þá var ég
alveg stjarfur fyrstu augnablikin. Þessi djöfullegu öskur og frýsið
og fnæsið í dauðskelkuðum klárunum, glymjandi hófadynurinn og
rykmökkurinn sem feyktist upp ... það var líkast draumi eða
opinberun.
„Fraaa-m! Fram!“
Orðin hrukku upp úr mér eins og
eldblossar.
En að nokkrum mínútum liðnum
slaknaði á taugunum og ég öðlaðist slíkan kraft sem ég hafði aldrei
fyrr fundið til. Öskrin og öll þessi heiftarlegu hróp í kringum mig
höfðu þessi áhrif.
Menn og hestar flengdust áfram og
dreifðu æ meira úr sér, líkt og vatn úr rós vökvikönnu. Mér gafst nú
brátt nægilegt olnbogarými til að spenna bogann, lagði tauminn
lausan á hnakknefið, spennti svo bogann til hins ýtrasta og beið
merkis um að skjóta, umvafinn ryki.
Hófarnir tættu upp grassvörðinn og
ég fékk varla komið auga á Kata fyrir rykinu.
„Fraaa-m!“
Hornblástur: „Skjótið!“
Það var eins og ský drægi fyrir
sólu þegar örvahríðin — frá okkur — hrannaðist upp á himininn.
Hvílíkur gnýr þegar örvarnar klufu
loftið. Hrossin fnæstu og menn æptu fullir ofstopa.
Og enn var eins og ský drægi fyrir
sólu — nú þegar fjandmenn okkar létu örvahríð yfir okkur ganga. Ég
bar skjöldinn fyrir mig. Ein ör hæfði hnakkinn minn og augnabliki
síðar laust önnur skjöldinn minn. Drottinn minn! Aðeins að hesturinn
minn slyppi heill úr þessum ósköpum.
Við geystumst áfram.
Í öllu uppnáminu grillti ég í
þéttar raðir fjandmannanna þar sem þeir báru fyrir sig skildi sína.
Reiðskjótar okkar skákuðu þeim aftur á bak með brauki og bramli.
Hvassyddar gaddakylfur gnustu með braki og brestum. Kappsfull
stríðsöskur breyttust í hin kynlegustu ýlfur og gól. Ég sá ekkert
nema hestana okkar fram undan, en hesturinn minn var þá þegar tekinn
að stökkva yfir lík. Kipptu spjótunum úr skrokkunum! Þetta eru
Alanar! Láttu hófana ganga þeim á hol, fákur minn! Traðkaðu á þeim,
þessum engjandi ormum!
Skammt fram undan mér var særður
maður, enn á lífi, sem var að reyna að brölta á fætur, en Kati
keyrði hann um koll. En maður kom í manns stað, nú Alani með úfið
skegg í fullum herklæðum en með brotið spjót. Einhver fékk að finna
fyrir trékylfunni hans honum á hægri hönd. Sjálfur barði ég einnig
frá mér til beggja handa hvar sem haus var í færi. Krafturinn innra
með mér var óskaplegur; ég hefði getað brotið byggingar niður! Hana!
Hafðu þetta, hundurinn þinn! — og ég fann að eitthvað skall á lærið
á mér. Auðveldara gat það ekki verið! En hvað var þar á seyði? Kati
sneri hestinum sínum skyndilega undan og hélt um andlitið á sér.
Þeir sem voru að baki okkur þeystu fram úr með öskrum og óhljóðum.
Við vorum allir saman lafmóðir og
hljótum að hafa átt í bardaganum í að minnsta kosti klukkustund.
Hrossin voru ekki síður móð og másandi. Svitinn lak af þeim milli
afturfótanna í hvítum froðulækjum. Betur að ég hefði getað stytt í
ístöðunum til að ég gæti teygt úr mér og fylgt höggunum eftir. En
til þess vannst enginn tími. Lungun í mér voru eins og sundurtætt,
ég saup látlaust hveljur og stóð á öndinni og var að skrælna úr
þorsta.
Ég fylgdist með Kata. Hvað hafði
hent hann? Hann spýtti út úr sér tveimur eða þremur blóðugum tönnum
og fylgdi þeim eftir með blótsyrðaflaumi, hristi tár úr augnkróknum
á sér og öskraði á Ladó: „Láttu mig fá stríðsöxina!“
Hann hrifsaði til sín öxina.
Alanarnir stóðu þéttir fyrir eins og hveiti á akri fyrir uppskeru og
lögðu alla áherslu á að hæfa hestana með spjótum sínum. Heil fjöll
af spriklandi hrossum og mönnum er engdust sundur og saman voru þeim
til varnar eins og víggarður. Við urðum að fara á svig við þá til að
geta sótt að þeim. En þá birtust frankverskir knapar skreyttir
rauðum fjöðrum — þeir streymdu að okkur út úr rykskýinu.
Riddaraliðsveitirnar tvær skullu
saman með þrumugný. Það buldi í skjöldum og hjálmar klofnuðu — menn
æptu og ráku upp skræki, hrossin fnæstu. Við vorum staddir í
helvíti. Alblóðugur frankverskur knapi gerði atlögu að mér. Ég
veitti honum högg fyrir bringsmalirnar með kylfunni minni og hann
féll af baki. Hesturinn hans skjögraði utan í minn; einnig hann fékk
að finna fyrir kylfunni minni, fékk hana beint í hausinn. Ég sá
varla úr augum fyrir rykinu. Þá heyrði ég mér til undrunar að blásið
var í horn til merkis um að við skyldum hörfa. Ég tók í taumana.
Fjandmannasveitin var tekin að hrekja okkur til baka. Svo þéttur
fyrir var múgurinn að ég gat ekki einu sinni fengið hestinn til að
snúa sér. En eftir því sem rýmkaðist um að baki okkur tókst honum
það, reis þá hátt upp á afturfæturna og tók loks af stað.
„Guð blessi þig, vaska skepna!“
Önnur deild tók upp baráttuna þar
sem við létum undan síga, en við fylktum liði að nýju og reyndum að
ná andanum. Og lof sé Guði, ég var enn hérna megin grafar.
Við vorum allir saman ataðir
blóði. Kati blés í horn sitt til merkis um að við skyldum skipa
okkur í stöður, síðan hvíldumst við um hríð. Aðför Frankanna hafði
verið svo öflug að við höfðum hrakist fleiri skeiðrúm vegar til baka
áður en herdeild Orgóvans skarst í leikinn og réðist til atlögu við
þá frá hlið.
Við köstuðum mæðinni og þyrruðum
okkur upp. Þorstinn var nístandi. Kati spýtti enn og bölsótaðist og
létu reyndar fleiri það eftir sér. Menn liðkuðu handleggi og réttu
úr fótunum; svo lengi sem hægt var að hreyfa limina gat varla mikið
amað að. Það gat heldur varla komið mjög að sök þó að eitthvað
blæddi; í sannleika sagt fylltist ég stolti þegar ég sá að ég var
blóðugur bæði um læri og brjóst. Aðeins að ég hefði getað lagfært
ístöðin! Núna lyftum við okkur allir í sessi til að sjá hvernig
Orgóvan reiddi af. Þeir ruddu sér braut norður, vegandi á báða bóga.
Það var mér ráðgáta hvers vegna þessir tveir herir sem hér áttu í
ófriði þokuðust svona norður á bóginn. Ef til vill leiddi það af
stöðu þeirra í byrjun átakanna. Bilið á milli okkar og herskaranna
sem þarna börðust var nú orðið á við Dóná á breidd. Yfir mergðinni
var eins og linnulaust brygði fyrir smá eldingarglömpum þar sem
stirndi á vopnin.
„Ég er búinn að koma átta fyrir
kattarnef!“ másaði Ladó. „Sáuðið það ekki allir?“
„Ég er búinn að drepa fimm!“
hrópaði ég.
„Ég sá það!“ svaraði Ladó að
bragði. „Og þú?“
„Þúsund!“ öskraði Kati reiðilega.
„Skal drepa þúsund og það einn og óstuddur!“
Gnýr mikill að baki okkar
yfirgnæfði meira að segja vopnabrakið.
„Attíla!“ hrópaði Kati upp yfir
sig forviða.
Það var hann, ríðandi á stórum,
hvítum gæðingi sínum, umkringdur glæstum lífverði sínum. Á eftir
honum fylgdi mergð einna tuttugu þúsunda Húna. Sem hann nálgaðist
okkur brá hann sverði sínu líkt og hann vildi segja: „Húnar! Hvað
eruð þið að slæpast? Á ég að trúa því að einhverjir ætli sér ekki að
berjast til þrautar og það þó að ég leiði baráttuna?“
Hann þaut hjá ásamt riddurum
sínum, undir hvítum fána sínum sem flaksaði yfir hersveitinni eins
og vofa.
Við í okkar deild fylltumst því
kappi af nýju. Gagnteknir af Attílu helltum við okkur enn á ný í
slaginn.
„Haldið rakleiðis inn að miðju
þeirra!“ hrópaði skutilsveinn, skreyttur strútsfjöður, í snarhasti,
rétt fram undan mér. „Það er skipun Attílu. Við munum brjóta
fjandana á bak aftur í sjálfum þeirra innsta hring!“
En hver í andskotanum gat sagt til
um í þessari ringulreið hvar einhverja miðju væri að finna? Attíla
hlyti þó að fara nærri um hvert stefna skyldi. Og brátt vorum við
einnig þangað komnir þar sem moldrykið reis hæst. Gegnum rykið
blikaði af sverðum og hvítum flöktandi fána Attílu. Jörð skalf og
himinn nötraði, svo æðisgengin var þessi blóðuga barátta. Mér fannst
ég sjá ljóma af gylltum hjálmi Attílu bregða fyrir og eldingarbjarma
af sverði hans. Núna voru það aðallega alanskir knapar sem við áttum
í höggi við. Álnarlöng spjót þeirra flugu allt um kring eins og
fuglar. Við vorum enn á ný staddir í miðju helvíti.
Fyrstur varð fyrir mér
herðabreiður Búrgundi með blóðhlaupin augu. Kati hafði mölvað
skjöldinn hans í spón en síðan flengst á brott í leit að öðru
fórnardýri. Vinstri handleggur Búrgundans féll máttvana niður með
síðunni og lagði ég spjóti mínu í brjóst honum svo það brast undan
því. Eitt augnablik varð óttinn öðru yfirsterkari og ég gleymdi að
kippa spjótinu aftur til mín. En Búrgundinn hrökk í kút og féll af
baki hesti sínum eins og mjölpoki.
Mér gafst enginn tími til að
skyggnast í kringum mig til að sjá hvort einhver hefði ekki orðið
vitni að drápinu — hesturinn minn bar mig rakleiðis áfram. Sem mig
nú vantaði spjótið þreif ég til sverðsins. En ístöðin. Aðeins að mér
hefði gefist færi á að stytta í þeim!
„Fraaa-m! Fraaa-m!“
Hesturinn minn stökk nú yfir dauð
hross og traðkaði á líkum manna og í stað hins háttbundna
stríðsöskurs heyrði ég að menn æptu: „Þeir leggja á flótta!“
Og nú hestar gegn hestum. Víst var
það að Alönunum með spjótin sín löngu hafði reynst um megn að
standast ógnvænlegan sóknarþunga Húna, en fílefldar og þéttar raðir
hundruða þúsunda frankverskra knapa stóðu fastar fyrir. Það var ekki
nokkur vinnandi vegur að ætla að brjótast í gegn með sverð eitt að
vopni. Hér voru það fyrst og fremst spjót, rýtingar og kylfur sem
komu að gagni.
Húnversku og frankversku
riddaraliðunum laust saman í einni dauðans örtröð. Allt rann saman
fyrir sjónum í einn gríðarlegan blóðugan sveim. Vopn köstuðu glampa
í augun, stríðsfákarnir fældust og prjónuðu, formælingar jafnt sem
kylfuhögg dundu í eyrum; vopnaglammið var yfirþyrmandi. Hestar
misstu fótanna og drógu knapa sína niður með sér í fallinu; yfir þá
komu aðrir ríðandi og tröðkuðu á þeim og í valnum voru brátt aðeins
eftir blóðug og iðandi kjötflykki manna og dýra.
Víst fékk ég að finna smjörþefinn
af atganginum. Kati var fyrir löngu horfinn sjónum. Hvíthúnar, allt
óbreyttir hermenn, sveifluðu skaftlöngum stríðsöxum sínum allt í
kringum mig. Einn þeirra var rétt fyrir framan mig þegar Franki
nokkur hitti hann fyrir brjóstið með skaröxi sinni. Húninn féll
aftur fyrir sig af hesti sínum og tókst mér að grípa stríðsöxina
hans um leið og hún flaug úr hendi hans. Á næsta augnabliki hafði ég
látið Frankann finna til hennar — hann fékk hana í hausinn og af
þvílíku afli að höfuðkúpan sprakk inn; maðurinn féll dauður til
jarðar.
„Einhver til vitnis?“ En ég heyrði
ekki einu sinni í sjálfum mér fyrir þessum djöfuls gný.
„Verið þar sem þéttast er fyrir!“
æptu skutilsveinarnir. Og sem einn stórmynntur skutilsveinn hreykti
sér þarna æpandi, uppi á kös hrossa, var eins og hann æpti ekki með
munninum einum heldur líkamanum öllum — eins og maðurinn sjálfur
væri ópið. Svo sjúkleg martröð gat þetta orðið.
Hrossin frýstu og fnæstu vegna
ryksins. Munnvatnsfroðan stóð út af þeim yfir haus í hvítum tjásum
og ataði út knapana.
Önnur húnversk hersveit réðist að
Frönkunum frá hlið og hrakti þá af vegi okkar. Þá opnaðist autt
svæði fram undan okkur og við fengum kastað mæðinni. Ég lyfti upp
hjálmblikinu. Svitinn bogaði svo af mér að ég hefði getað vökvað með
honum þrjú blómabeð heima! Hesturinn minn svitnaði ekki minna og var
allur þakinn froðu — rauðri af blóði. Ég hafði aldrei á ævinni haft
fyrir augunum svo mörg virkilega rauð hross...
Nokkrir blóði drifnir hermenn urðu
eftir að baki okkar. Þeir hópuðu sig saman og yfirgáfu vígvöllinn.
Þar mátti sjá einn með handlegg máttvana niður með síðunni eins og
brúða; annar féll af baki á leiðinni og dróst með hesti sínum. Annar
fóturinn var fastur í ístaðinu.
Ég var enn með of langt í
ístöðunum. Ég var svo logandi sveittur í framan að ég seildist eftir
klút til að þurrka mér með, og þegar ég hafði gert það sá ég að hann
var allur blóði vættur.
„Fraaa-m! Þið vesælu morðhundar!“
Og sem nú ein hersveitin tók að streyma út á grundina, keyrði ég
hest minn úr sporunum og réðist á samri stundu að þremur Frönkum með
stríðsöxinni minni.
Stjórnlaus af bræði sveiflaði ég
öxinni í kringum mig og hafði varla hugmynd um hvað fyrir varð.
Fleiri Húnar komu mér til aðstoðar. Tveir Frankanna féllu í valinn,
hestur þess þriðja bar hann með sér út um víða vellina og kastaði
honum loks af baki.
„Frábært hjá þér, Zeta! Hvílíkt
högg!“ var kallað að baki mér.
Ég sneri mér við — það var þá
Badaló, Húninn sem hafði leiðbeint ungu mönnunum heima um hvernig
ætti að kasta og skutla spjótum. Hann var svo blóðugur allur að ég
hefði ekki þekkt hann ef svitinn hefði ekki bogað svo af andliti
hans að blóðinu skolaði af því. En lofsyrði hans hleyptu í mig nýju
blóði.
Á næsta augnabliki stormaði að
okkur sveit Armorika — og nú gat að heyra annars konar stríðsóp og
öðruvísi stríðsvopn á að líta og annars kyns menn — og það slíkan
sæg að var engu líkara en engisprettufaraldri. Það var eins og
skriða hefði fallið á okkur ofan þegar þeir réðust að okkur. Hver
Húninn á fætur öðrum féll, en þeir sem komust ekki í návígi við
okkur strax skóku stríðsaxir sínar og sverð og létu stríðsópin
gjalla.
Hornblásarinn blés til merkis um
undanhald.
Klárar okkar sneru sjálfkrafa —
þeir þekktu merkið og tóku á rás spölkorn til baka. Sægur öskrandi
Franka og Armorika rak flóttann en við hægðum smám saman ferðina,
sem var okkar kænskubragð; jafnvel á flótta tókum við til boganna
okkar og spenntum þá, og þegar merki var gefið ventum við og létum
örvahríðina yfir þá ganga.
Framvarðalið fjandmannanna átti
ekki hina minnstu möguleika. Sumir þeirra urðu útlítandi eins og
broddgeltir eftir hríðina! Menn og hestar ultu um koll.
„Og nú stríðsaxirnar!“
En mergð óvinanna virtist ekki
eiga sér nein takmörk. Froðufellandi reiðskjótar þeirra virtust rísa
og hníga líkt og öldur í kröppum sjó; í stað þeirra sem féllu í
valinn reið ávallt yfir okkur ný bylgja herskaranna. Hestar þeir sem
enn héldu lífi héldu ótrauðir áfram yfir hina dauðu og enn og aftur
ólgaði vígvöllurinn af sprelllifandi djöflum.
„Fraaa-m! Fram!“
Herðabreiður Franki með svartan,
pottlaga hjálm á höfði geystist í átt til okkar og hjó þverblöðungi
til Badalós, sem var rétt fram undan mér. Lagið kom á háls honum og
var svo öflugt að hausinn af honum hringsnerist í loftinu langan veg
burt.
Ég hugsaði með mér að nú væri mín
síðasta stund upp runnin, hið dimma augnablik dauðans. Drápsmaður
Badalós gerði sig líklegan til að höggva til mín. En hversu hverfult
er ekki hamingjuhjólið í stríði? Húnverskur knapi skaut upp kollinum
fyrir framan mig og skók spjót sitt æpandi.
„Fraaa-m! Fram!“
Hann bægði mér frá og á eftir
honum kom annar til, og enn annar. Þeir tilheyrðu óþreyttri herdeild
sem hafði ráðist til atlögu frá hlið og var nú að koma á vígvöllinn
fyrsta sinni. Það báru þeir augljóslega með sér, því að klæði þeirra
voru ekki einu sinni orðin blóðug og allir héldu enn höfuðfötum
sínum á sínum stað. Mér var bægt lengra og lengra frá ásamt herdeild
Badalós, en fyrir augum mér var eins og eldtungur færu hringfari.
Ég hefði helst kosið að geta snúið
aftur til búða okkar til að ganga úr skugga um af hverju blóðið
lagaði svo í stríðum straumum af andlitinu á mér. En að baki mér var
einnig vegist á báða bóga og af ekki minni ofsa. Knapar umluktir
rykmekki spaðjörkuðu hver innan um annan í óaflátanlegri örtröð og
vörnuðu vegarins. Mér rétt gafst tími til að vippa mér af baki og
seilast eftir skaftlangri stálöxi sem lá á jörðinni og stytti um
leið í snarhasti í vinstra ístaðinu með því að hnýta upp á ólina.
Á næsta augnabliki vorum við allir
komnir á harðastökk í suðurátt, geystumst yfir lík og dauð hross
undir forustu skutilsveins sem hélt uppi rauðri léreftsdulu á
spjóti. Hróp og stríðsöskur voru nú tekin að koðna niður á lægri
nótur vegna þess hve menn voru orðnir hásir og rámir, og klárarnir
voru eins og óþrjótandi lindir svitafroðu sem frussaðist framan í
okkur.
Við réðumst aftan að flokki
Búrgunda — um það bil fimm hundruð manns. Það var ólán þeirra að
hafa orðið viðskila við meginfylkingu hers síns. Núna var þrengt að
þeim og þeir barðir og brytjaðir niður af Húnum og gerðu þeir þó
örvæntingarfulla tilraun til að berjast á móti.
„Umkringið þá!“ gaf hornið til
kynna. „Umkringið þá!“
Þeir sneru við mér bökunum og ekki
veit ég hve marga ég felldi, en kenndi þreytu í handleggnum. Einn
lagði til mín aftur fyrir sig en breiðblöðungurinn hans kom í
klárinn minn þar sem hann á sama augnabliki lyfti höfði. Hesturinn
skjögraði út á hlið og féll síðan yfir sig. Ég henti mér á bak einum
hesta Búrgundanna en veitti því þá athygli að hann hafði einnig
verið særður. En það var fjöldi hesta í kring sem hafði orðið
viðskila við knapa sína og reyndar var stóðið svo mikið og þétt að
stökkva hefði mátt af einu bakinu á annað. Ég kom auga á einn
húnverskan klár í því miðju, greip í faxið á honum og snaraði mér á
bak.
„Umkringið þá!“
Ég veit ekki hversu lengi þetta
blóðbað varði, sá það eitt að Búrgundunum fór ört fækkandi þangað
til hinn síðasti þeirra féll og hringur Húnanna luktist um fjallháan
hrauk af búkum manna og hrossa.
Enn gall í hornunum og nú til
merkis um að snúa. Nýir flokkar voru myndaðir og við hleyptum hestum
okkar á eftir foringjum og skutilsveinum. Í all nokkrum fjarska, sem
gat allt eins verið yfir óvinaherbúðunum miðjum, blakti hinn hvíti
fáni Attílu, og í þá áttina var haldið.
En kraftar mínir voru á þrotum.
Mér blæddi látlaust. Hvergi var á mér þurr þráður hægra megin og
beislistaumarnir voru orðnir svo blóðugir að þeir runnu úr höndunum
á mér. Hvort ég hefði ekki kosið að fá að snúa aftur til búða okkar,
eða að minnsta kosti að fá smá hvíld og slökkva þorstann — með
fullri skjólu af vatni! En það var tómt mál að tala um.
Við vorum komnir að kerrum og
vögnum óvinanna. Sægur af Gelónunum okkar förðuðu streymdi til okkar
úr norðrinu með herfilegum skrækjum. Á næstu mínútum höfðu þeir
vagnana á valdi sínu, slitu keðjurnar á milli þeirra og brutu sér
leið inn á milli.
Allt í einu varð loftið þrungið af
hveiti. Innan búðanna voru frankverskir fótgönguliðar til varnar
vögnum hlöðnum hveiti og öðrum birgðum, með sverð sín á lofti gegn
blikandi rýtingum Gelónanna. Við ruddumst fram hjá þeim gegnum
mökkinn, og enn einu sinni fengu klárar okkar að frýsa og fnæsa
blóðþefinum er lagði af darraðardansinum.
Enn þann dag í dag má ég ekki til
þessara manndrápa hugsa án þess að hryllingur fari um mig allan.
Allt blóðið sem rann, sem hestunum skrikaði fótur í hvað eftir
annað, öll líkin sem lágu í haugum hvarvetna, búkar af mönnum og hræ
af hrossum hvað ofan á öðru. En sem ég hefi sagt, ég var ekki
mannlegur þá heldur óargadýr. Ég drap haldinn grimmd tígrisdýrsins
og lagði hatur á fjendur mína. En ég leiddi aldrei hugann að dauða
sjálfs mín.
En sem ég er þarna kominn, þar sem
okkur var veitt all snörp mótstaða af herdeildinni er fyrir var, þá
verð ég fyrir hverju högginu á eftir öðru og fékk á endanum einhvers
konar þreskiþúst í hausinn. Umhverfis mig varð allt svart og ég féll
máttvana af hesti mínum á meðal hinna dauðu.
50.
Sé einhver rekinn af nauðsyn — eða af heimsku
líkt og ég — út í stríð, þá megi hann njóta þess. Því að dauðinn er
alls ekki sársaukafullur. Þegar svo er komið að vart verður náð
andanum þá er eins og líkaminn verði algjörlega tilfinningalaus,
hvorki högg né stungur meiða heldur vekja aðeins upp tilfinningu
lítilsháttar snertingar. Og ef sárið er banvænt þá einungis lognast
maður út af líkt og inn í draumalandið hverja nótt.
Stríðsmaðurinn finnur hvorki til
né hugsar. Hann á sér aðeins einn ásetning: Að drepa. Jafnvel í
sjálfsvörn ber hann hendurnar ósjálfrátt fyrir sig þegar hann fellur
eða lokar augunum þjóti eitthvað fyrir sjónum hans. En
undursamlegast er, að ekki verður fundið til þyngstu högganna og
dýpstu sáranna.
Þetta veit ég ekki aðeins af eigin
reynslu heldur er þetta einnig reynsla annarra. Öllum sem höfðu
verið slegnir í rot kom saman um að þeir hefðu ekki fundið til.
Þegar ég vaknaði úr dáinu var
farið að dimma. Aðeins fáein ský liðuðust um himinhvolfið eins og
reykhnoðrar af kulnandi glæðum sólarinnar. Mér var kalt.
Hvar var ég niðurkominn?
Úti á völlunum geisaði orrustan
enn, rétt eins og þegar ég hafði skilið við, nú einungis lengra í
burtu. Voru þetta þrumur? Eða svona argvítugur hófadynur? Heyrnin í
mér var eins og dofin.
Ég lá á bakinu í blóðpolli milli
tveggja dauðra hrossa. Ofan á mér lágu lífvana skrokkar manna en
höfuðið gat ég hreyft. Ég lyfti því upp eins og ég gat og hlustaði
eftir ruglingslegum heiftarópum hinna stríðandi þúsunda,
vopnaglamminu, fnæsi hrossanna og dynjandi angistarópunum. Eins og
úr helvíti. En færðist gnýrinn nær? Eða var ekki fremur eins og hann
fjarlægðist? Höfðum við þá ekki unnið enn? varð mér allt í einu
hugsað. Eða mundum við vinna? Hvers vegna hafði Attíla farið sjálfur
í bardagann? Hann var vanur að halda sig uppi í tjaldturni sínum og
fylgjast þaðan vítt og breitt með framvindu leiksins. Og þaðan
kallaði hann síðan skipanir sínar niður til skutilsveinanna sem
venjulega biðu fyrir utan tjaldið á fákum sínum, reiðubúnir að koma
boðunum til skila til hinna fjölmörgu liðssveita. Hann var heili og
hugsun hins stríðandi hers. Eftir höfði hans dönsuðu limirnir,
hverjum bæri að sækja fram og hverjum hörfa. En hvers vegna hafði
hann brugðið út af venju í dag og haldið sjálfur til leiks?
Myrkrið skall á. Í fjarska gullu
herlúðrar til merkis um að hörfa. En örstuttu seinna, og það nú í
dimmunni, gáfu Húnar nýtt merki og hinar stríðandi fylkingar skullu
saman á ný. Enn var ekkert lát á hildarleiknum.
Ó, góður Guð, láttu þá ekki traðka
mig í hel!
Ég hallaði á ný aftur höfðinu í
blóði vætt grasið. Hvar var ég særður? Ég var allur blóðrisa en
kannski að svínsleðurstakkurinn minn og hjálmurinn minn og
skjöldurinn hafi orðið mér eitthvað til hlífðar. Tækist mér að
komast héðan burt, svo veikburða sem ég var?
Enn missti ég meðvitund. Þegar ég
rankaði við mér, vegna kuldans, heyrðist mér vopnagnýrinn vera mjög
langt undan, eins og bergmál af fjarlægum þrumum á sumarkvöldi.
Þá varð allt hljótt. Ég heyrði
ekkert í kringum mig nema angistarvein hinna særðu og kjammt og
kjöltur í hrossunum. Og í fjarska daufan óm af vopnaglamminu ... og
hundgá... En allt var þetta eins og að hlýða á þögnina í samanburði
við hryllilegan atganginn sem ég hafði verið þátttakandi í fyrir
nokkrum klukkustundum.
Myrkrið var algjört — líkt og af
himni hefði fallið sorgarslæða yfir vígvöllinn.
Ég var að deyja úr þorsta...
Raddir hinna urðu æ háværari,
stunur og vein runnu saman í einkennilegan, sársaukafullan nið. Engu
var líkara en heimurinn væri kominn á heljarþröm.
Með miklum erfiðismunum reis ég
upp við dogg eftir því sem ég best gat. Ég velti einum skrokknum
ofan af hrossinu og reyndi að rísa á fætur en fann þá fyrir logandi
sársauka í hægra hnénu. Ég þreifaði eftir því hvort ör væri nokkuð
föst þar og fann að hnéð var alblóðugt. Þegar ég snerti stórt,
blautt sár lá við nærri að ég félli aftur í ómegin.
Það sem ef til vill hélt mér
vakandi voru logar sem ég sá að hreyfðust yfir vígvöllinn, rauðar
ljóstýrur sem flöktu til og frá. Til að byrja með voru þær all
fjarri og virtust dreifast í allar áttir en komu síðan saman í einn
hnapp.
Þetta voru menn með kyndla á leið
um vellina.
Ný lífsvon kviknaði með mér. Ég
reyndi að kalla, af öllum lífs og sálar kröftum, en röddin var þurr
og rám af hæsi: „Þessa leið! Hingað!“
Um leið laust sú hugsun mig að
kannski væru þetta ekki Húnar. Væru þeir úr liði fjandmannanna og
fyndu mig hér myndu þeir án nokkurs vafa leggja mig í gegn spjótum
sínum.
Rétt hjá mér, hinum megin við
hrossið mér á vinstri hönd, heyrðist nú angistarlegt vein: „Æ, þið!
Komið hingað!“
Mennirnir með kyndlana voru enn
all langt burt.
„Hver ert þú?“ kallaði ég yfir til
Húnans.
„Öksöd,“ var svarað sársaukafullri
röddu. Ég kannaðist ekki við nafnið. „En þú?“ spurði hann eftir smá
stund, svo hryggum rómi sem ég hafði aldrei heyrt fyrr.
„Ég er Zeta,“ svaraði ég, „þjónn
Kata. Heldur þú að þeir muni finna okkur?“
„Ég veit það ekki. Ó, Guð minn
góður... Einhver hinna mikilsháttar hefur fallið og að honum leita
þeir.“
„Attíla?“
„Nei, ekki Attíla.“
„En hlýtur það ekki að vera?“
„Á hann bíta engin vopn.“
Við lá að blótsyrði hrykkju mér af
vör — svo einfeldningslega þótti mér þetta mælt.
Ég var að skrælna úr þorsta og
þreifaði eftir því hvort ekki fyrirfyndist pyttla eða
geitarskinnsbelgur af vatni á hnökkunum en fann aðeins vopn. Af
lögun hnakkanna ályktaði ég að bæði hrossin hefðu heyrt Frönkum til.
Mennirnir með kyndlana höfðu nú
nálgast okkur. Eftir því að dæma hvernig glampaði á hjálmana þeirra
hlutu þetta að vera Rómverjar og Vestgotar. Sem sagt ekki Húnar. Það
átti með öðrum orðum fyrir mér að liggja að hvíla hér, á meðal hinna
dauðu. Að líkindum myndi mér blæða til ólífis eða ég deyja úr
þorsta. Tilhugsunin jók mér ekki kjark.
Og hvað lá til þess að ég var hér
niðurkominn, liggjandi í blóðpolli innan um dauð hross og búka af
ókennilegum mönnum, eigandi það eitt í vændum að vera dauður að
morgni? Hvað hafði rekið mig hingað?
Að líða þjáningar vegna einhvers
sem máli skiptir — fyrir sakir trúar, föðurlands, menntunar — fyrir
því geta legið góð rök. En að þjást af tilefnislausu — vegna smá
kattarskinns, stelpurófu af kyni Húna, sem var svo menntunarsnauð að
hún kunni ekki einu sinni stafrófið, sem var svo mikill skrælingi að
hún át flesk til morgunverðar og hafði aldrei sýnt mér svo mikið sem
ástarglampa í auga...
Ég á hinn bóginn, úttroðinn af
allri minni visku og speki, öllum þessum -tíkum, -óríum
og -sófíum, — ég hefði allt eins getað lagt fyrir mig
hundaeldi!
Ó, hve ég var hræðilega þyrstur!
Ég reis aftur upp við dogg og kenndi sárt til. Kyndlarnir voru enn á
hreyfingu og færðust æ nær. Með því að styðja mig við annan hnakkinn
tókst mér að líta þá betur augum. Hverjir voru þarna á ferð?
Líkræningjar? Eða var þarna ef til vill kristinn sálusorgari með í
för?
Þeir dreifðu ekki lengur úr sér
eða virtust leita neins, heldur héldu hópinn í langri einfaldri röð
sem stefndi í átt til okkar. Á líkbörum gerðum úr tjalddúk er
strengdur var á milli tveggja spjóta báru þeir lífvana skrokk.
Á eftir hinum dauða fylgdi
berhöfðaður ungur maður. Hann huldi augu sín sem hann gréti. Sem
þeir fóru hjá sá ég að syrgjendurnir voru fleiri, aðallega
Vestgotar, og að á börunum lá maður, hvítur fyrir hærum, búinn
skartklæðum glitrandi af gulli. Hann var með sítt skegg, einnig
hvítt, og á hjálmi hans, sem einn mannanna bar, var kóróna.
Hver hafði farið með sigur af
hólmi? Hver hafði tapað? Þessar spurningar þutu um höfuð mér hvert
sinn sem ég reyndi að leiða hugann frá þessum drepandi þorsta. Værum
það við sem hefðum sigrað gerði ég mér vonir um að húsbóndi minn
sendi einhvern út af örkinni til að leita mín...
„Öksöd!“ kallaði ég yfir til
Húnans. „Hverjir sigruðu?“
„Enginn hefur sigrað enn,“ svaraði
hann, jafnvel enn veikari röddu en fyrr.
„Hvernig veistu það?“
„Það er hljótt í báðum búðunum.“
„Eru þeir þá ekki sofandi?“
„Nei — þeir hafa auga með hvor
öðrum. Eða reyna að umkringja hvor annan. Ég er að deyja úr þorsta.“
„Berjumst við áfram á morgun?“
„Í heila viku enn, ef nauðsyn
krefur. Hestarnir verða búnir að traðka mig í hel hérna...“
Hryllingsskjálfti fór um mig
allan.
„Heldur þú þá að þeir sæki okkur
ekki?“
„Kannski í fyrramálið.“
„En er það ekki víst?“
„Nei.“
„En þeir hljóta að kanna valinn.“
„Jú, þar sem bardögum hefur
slotað.“
„Hvað amar að þér?“
„Spjót...“
„Hvar varstu hæfður?“
„Í magann.“
„Er sárið mikið um sig?“
„Það kom út um bakið, spjótið.“
Ég talaði ekki frekar við hann.
Hann var svo gott sem dauður. Eftir smá stund sagði hann snöktandi:
„Gefðu mér smá vatn!“
Nær og fjær, úr öllum áttum kvað
við sama tón, stundum vein full örvæntingar, stundum þrungin ekka:
„Vatn... Vatn...“
Allt í einu stundi einhver á
latínu rétt fyrir aftan höfuðið á mér:
„Aquam! Aquam!“
Vatn, já... Aðeins að einhver
hefði getað losað mig, svo ég hefði getað kraflað mig áfram milli
hrossanna þangað til ég fyndi vatn einhvers staðar. Þessi þurri
þorsti sem brann innra með mér er hin sárasta kvöl sem ég hef nokkru
sinni fundið til.
„Aquam!“ Enn var mælt á
latínu en nú nærri fótum mínum. Röddin var sú sama og áður, sem
benti til að þessi þyrsti Rómverji gæti gengið eða að minnsta kosti
skriðið.
„Amice!“ kallaði ég til
hans.
„Aquam!“ svaraði hann
kveinandi. „Da mihi bibere!“ (Gefðu mér eitthvað að drekka!)
„Getur þú gengið?“
„Já, lítilsháttar. En ég get
ekkert séð. Ég er blindur á báðum augum.“
„Það er myrkrið sem villir þér
sýn.“
„Nei, ég fékk ör í gegnum bæði
augun. Gefðu mér dálítið vatn — í guðanna bænum!“
Eftir því að dæma hvernig klingdi
í sverðsslíðrinu hans heyrðist mér að hann væri að þreifa sig í átt
til mín. „Hingað!“ sagði ég og hvatti hann áfram. „Ég skal gefa þér
að drekka ef þú getur losað mig. Ég er særður á fæti og skorðaður á
milli tveggja hrossa. Ég er ekki einu sinni viss um að nokkuð sé
eftir af fætinum fyrir neðan hné. Hann getur líka hafa brotnað undan
þunga klársins.“
„Ertu með nokkurt vatn?“
„Nei, en ég myndi leita það uppi
ef ég gæti það.“
„Leita hvar? Áin er langt í
burtu.“
„Hesturinn minn féll hér einhvers
staðar nærri. Ég á dálítið af víni bundið við hnakkinn.“
Á meðan við töluðum rétti
Rómverjinn út hendur sínar og þreifaði á mér.
„Þú ert Húni!“ Hann hrökk til baka
óttasleginn.
Hann hlýtur að hafa fundið það á
stakknum mínum.
„Vertu óhræddur,“ svaraði ég. „Við
erum báðir sárir og báðir að deyja úr þorsta.“
„Þú gerir mér þá ekkert mein?“
„Ég er kristinn maður.“
Hann þagði við. Nokkur stund leið.
„Ef þú værir kristinn maður þá værir þú ekki hér,“ sagði hann loks
fullur tortryggni.
„Hvað þá um sjálfan þig?“ svaraði
ég og gramdist þetta. „Við skulum einfaldlega horfast í augu við það
að báðir erum við kristnir; en það sem skiptir þig máli er að þú
getur losað mig héðan.“
„Þú drepur mig þá ekki?“
„Upp á æru og trú, nei!“
Hann tók um báða handleggi mína og
reyndi að toga í mig, en hann var máttfarinn og gafst upp með
grátstafinn í kverkum. „Þegar ég féll um,“ sagði hann, „tröðkuðu
hestarnir á mér alls staðar. Mér finnst eins og hvert bein í
skrokknum á mér sé brotið. Blóðið lagar enn úr augunum á mér og hér
skal ég deyja.“
„Ó, Júlíus minn kæri, minn
hjartfólgni og eini sonur,“ hélt hann áfram kjökrandi, „til hvers
eru hermenn yfirleitt að kvænast!“
„Það væri ef til vill reynandi
fyrir þig hinum megin frá, þá gætir þú kannski losað um vinstri
fótinn á mér. Ég get ekki hreyft hann. Komdu þessa leiðina, þú
heyrir það á röddinni hvar.“
Hann fann mig aftur og með
samstilltu átaki tókst okkur þetta. Ég fékk brátt tilfinningu í
fótinn og fann að ég gat hreyft hann. Ég neytti allrar orku er ég
átti til og studdi mig við annan hnakkinn og tókst þannig með
erfiðismunum að mjaka mér upp, nóg til þess að geta lagst á magann
yfir síðu hestsins. En drottinn minn, hve ég kenndi til í hnénu!
„Förum þá af stað!“ sagði
Rómverjinn.
Ég svaraði engu, aðeins tók andköf
og stundi af sársauka.
„Eigum við þá ekki að fara af
stað?“ rak hann á eftir mér. „Eða ertu ekki fær um að hreyfa þig
núna? Ég er búinn að gera það sem þú baðst mig um.“
„Ég get það ekki!“ tókst mér loks
að stynja upp. „Get hvorki hreyft legg né lið. Hnéð á mér er að
drepa mig...“
Ég féll aftur fyrir mig.
„Segðu mér þá að minnsta kosti
hvar hesturinn þinn er!“
„Ó ... hvernig á ég að vita það?
Þú verður bara að þreifa þig áfram eftir hræjunum ... vínbelgurinn
er hnýttur aftan í hnakkinn.“ Stuttu seinna kallaði ég á eftir
honum: „Ef þú finnur vínið þá gefðu mér líka!“
Þegar dró úr sársaukanum þuklaði
ég aftur á hnénu. Núna komst ég að raun um að það sem ég hafði
haldið vera sár var aðallega storkinn blóðköggull. Ég hafði misst
hnéhlífina. Allt í einu snerti ég eitthvað hart rétt hjá hnénu og
enn næstum því lamaðist ég af sársauka. Stund leið áður en mér tókst
að kæfa hann, þuklaði þá aftur niður með hnénu og nú mjög gætilega.
Eftir mikil andköf og gnístran tanna komst ég að því að brot úr
spjótsoddi stóð fast í beini.
Ef ég aðeins gæti kippt því út, þá
myndi sársaukinn vafalaust hverfa. Og ef ég gæti síðan fundið mér
góðan atgeir eða spjót eða eitthvað til að styðja mig við þá ætti ég
að geta staulast heim í búðirnar með morgni, eða allavega
langleiðina. Ég ætti það þá að minnsta kosti síður yfir höfði mér að
verða traðkaður í hel þegar bardagar hæfust að nýju.
En ég var veikburða og haldinn
hitasótt sem lamaði það litla þrek sem ég átti eftir. Ég veit ekki
hvers vegna, en allt í einu datt mér í hug litla hænan mín — litla
bæklaða, svarta hænan mín. Ég sá hana mér fyrir hugskotssjónum þar
sem hún haltraði í átt til mín... „Kla-kla-kla...“
„Hvað vanhagar þig um, púdda mín?“
hvíslaði ég. „Litla, skondna roðhænsnið mitt. Viltu vatn? En ég á
ekki einu sinni til dropa handa sjálfum mér!“
Ég reyndi að rísa á fætur en
kenndi aftur sársaukans í hnénu. Við það kom ég aftur til sjálfs
mín. Eftir nokkra stund dró úr sársaukanum og ég strauk framan úr
mér tárin. Ég varð með einhverju móti að komast héðan. Ég hélt
fótleggnum stífum og lyfti mér upp á lífvana hrossið. Þá, í dimmu
næturinnar, sá ég fjöldann allan af kyndlum er hreyfðust til og frá
í langri, einfaldri röð, í um það bil tveggja örskotslengda
fjarlægð. Í bjarmanum af kyndlunum blikaði á arnarmerki.
Svo að ég var þá skammt frá
rómversku búðunum.
Mér barst til eyrna
tilbreytingarlaust hringl og glamur eins og eitthvað stæði til í
búðunum. Hvað höfðu Rómverjar á prjónunum? Hugðust þeir ráðast á
Húna í þessu djöfullega myrkri — með vopn í annarri hendi, með
kyndil í hinni?
Ég tók varfærnislega á brotinu af
spjótsoddinum.
„Jesús Kristur, styrk þú mig!“
Ég lokaði augunum, nísti saman
tönnum og kippti því út.
Formáli
kaflar 1 til 10
kaflar 11 til 20
kaflar 21 til 30
kaflar 31 til 40
kaflar 41 til 50
kaflar 51 til 60
kaflar 61 til 65
prenta skjal
Rómanza:
heim á kvist
|