kaflar 1 til 10
1.
Ég var tólf ára gamall þegar
faðir minn seldi mig í þrældóm, rétt eins og kjúkling eða hvolp eða
folald. Hann var nauðbeygður, að minnsta kosti gerði hann það
tárvotum augum.
Við áttum heima
í Þrakíu, í Hinu austrómverska keisaradæmi. Það var í þann tíma
þegar skattheimtumenn rúðu fólk inn að skinni til að fullnægja mætti
fjárkröfum Húnanna.
Veröldin öll
virtist drepin í dróma þess orðs — Húnar.
Sussu — Húnarnir
koma! höfðu mæður gjarnan á orði ef gríslingarnir höfðu
ekki hægt um sig.
Mig dreymdi
Húnana, tautaði fólk afsakandi ef svo vildi til að það færi öfugu
megin fram úr á morgnana.
Til að Húnarnir
tækju ekki kvikfénaðinn herskildi létu yfirvöld reka hann á brott úr
umsjá vesalings Þrakverja; það var einmitt um þær mundir sem
móðir mín dó frá okkur sex börnum og kú. Faðir minn átti um tvennt
að velja, að fara með kúna ellegar eitt okkar á markaðinn.
Og ég varð fyrir
valinu.
Við sigldum til
Miklagarðs þar sem faðir minn hvítþvoði fætur mína og stillti mér
upp á markaðstorginu, á palli meðal allra hinna þrælanna er voru
falir. Þar á meðal voru að minnsta kosti þrjátíu drengir á
svipuðu reki og ég.
Fyrstur til að
spyrjast fyrir um verð á mér var maður forneskjulega búinn, því næst
gömul kerla sveipuð grænu sjali. Faðir minn sagði mig falan fyrir
tíu gullpeninga, en að því einasta hlógu þau.
Þá bar ríkan
mann að. Hann var í vefjarklæðum, virðulegur álitum, og ruddu tveir
þrælar honum braut. Af honum krafðist faðir minn einungis tveggja
gullpeninga, og með þeim orðum voru kaupin gerð.
Faðir minn
minntist við mig og sagði: „Guð veri með þér. Og höndlir þú
hamingjuna, þá mundu mig, því ég hef selt þig svo vægu verði þessum
heiðursmanni af því mér þykir trúlegt að þú eigir betri daga í
vændum hjá honum en þessu sveitafólki.“
Föður minn sá ég
aldrei framar.
Mér virtist nýi
eigandinn minn vera maður vegsamlegur, svo sem þeir er líta
veröldina augum eins og ernir fjallanna en kunna þó fótum sínum
forráð eins og þrakverskir unglingspiltar á leið til kirkju á páskum
á nýju ilskónum sínum. Hann hét Maxímínus.
Þegar við komum
heim til hans var ég umsvifalaust drifinn í bað og fenginn fallegur
hvítur kyrtill með svartri mittisól. Á eftir var mér sagt að fylgja
húsbóndanum út í garðinn.
Þrír drengir
voru þar að leik undir hlynviði.
„Piltar mínir,
hérna er þrællinn ykkar,“ mælti húsbóndi minn. „Hann heitir Þeófíl.“
Drengirnir voru
á við mig að vexti, tveir þeirra nokkru eldri, einn yngri. Þeir
virtu mig fyrir sér af velþóknun rannsakandi augum og einnig ég varð
hýr í bragði og þóttist vita að mín væri aðeins þörf sem leikfélaga.
Og víst gat ég mér rétt til.
Mér var stillt
upp sem skotspæni og þeir hentu í mig sítrónum.
„Svona nú —
hneigðu þig!“ skipuðu þeir og ég hlýddi og þótti gaman svo lengi sem
þeir hittu mig ekki, en þegar sendingarnar hættu að geiga var
gamanið eitt þeirra. Ég brast í grát og grúfði mig niður í grasið og
tóku þeir þá að lemja bera fætur mína með viðarteinungum. Þá var mér
nóg boðið, og í bræði minni réðist ég á þann þeirra er stærstur var
og slengdi honum af svo miklu afli utan í tré að litlu mátti muna að
hann rotaðist ekki.
Þeim varð
orðfall. Sá elsti sneri um hæl og hentist inn í húsið eftir
heimiliskennaranum. Gott og vel, hugsaði ég, kallið á hvern sem er,
en ég þegi ekki yfir því hvernig þið drýsildjöflarnir hafið komið
fram við mig.
Brátt birtist
kennarinn, þrumu lostinn.
„Herrra,“
veinaði ég, „þeir hafa mig að skotspæni og misþyrma mér.“
„Og hvað með
það? Ert þú ekki þræll,“ hreytti hann út úr sér og gaf mér vel
útilátinn löðrung. Hinir þrælarnir komu á hlaupum út úr húsinu til
að sjá hvað um væri að vera, og hélt einn þeirra á vendi sem hann
lét mig kenna á svo illilega að blóðið rann með hverri stroku.
Upp frá þeim
degi varð það einlægt hlutskipti mitt að mega þola stríðni og
rangsleitni. Hefði mér auðnast að halda stjórn á skapi mínu og sætta
mig við hvernig komið var fyrir mér, má vera að þeim hefði leiðst
þófið. En ég var aðeins tólf ára gamall og á þeim aldri hefur manni
ekki lærst að látast. Ég gat aðeins látið skína í tennurnar, væri
mér ógnað, sem varð þeim þó aðeins til enn meiri skemmtunar.
„Þræll reiður.
En fyndið!“
Börn eiga víst
til að erta tjóðraða hunda...
Þeir gættu sín á
að misþyrma mér aldrei í augsýn föður síns eða móður, aðeins værum
við einir, eða þá í návist hinna þrælanna. Þá komst ég að raun um
hve lágt þrælar geta lagst og með öllu gleymt að þeir eru líka menn.
Ekki einn einasti þeirra vogaði sér að setja ofan í við drengina;
þvert á móti — þeim var skemmt.
Ein uppáhalds dægrastytting drengjanna var að ata
leðju framan í mig, ella þá þeir
smeygðu lykkju um hálsinn á mér og léku leikinn Hinn hangandi —
„Hengjum hann!“
Stærsti
strákurinn klifraði þá upp í tré og festi reipið á meðan hinir tveir
þeir minni héldu höndunum á mér fyrir aftan bak. Þeim þótti svo
gaman hve ég ýlfraði æðislega. Værum við á ströndinni hentu þeir
gjarnan stafprikum sínum í sjóinn og hrópuðu: „Sæktu, sæktu!“ Mér
veittist það auðvelt því ég var syndur sem selur, en þegar ég sneri
til baka að ströndinni hentu þeir í mig steinum.
Ósjaldan og
grátbólginn reyndi ég að tala um fyrir þeim: „Herrar mínir ungu, af
hverju að vera að kvelja mig? Leikum okkur heldur skemmtilega — ég
kann heilmarga sniðuga leiki.“ Það fékk ekki slæmar undirtektir en
úthaldið var stutt. Þegar þeim tók að leiðast nýi leikurinn tóku
þeir enn til við að pína mig, og eiginlega voru kveinstafir mínir
það eina sem þeir höfðu verulegt gaman af.
Dag nokkurn
þegar ég hafði verið þarna í tvær vikur tók ég það til bragðs að
skríða í felur í garðinum. Ég hreiðraði um mig undir þéttum
ávaxtarunna og hugðist ekki skríða út úr fylgsni mínu fyrr en
kennarinn hóaði í þá.
Mér rann í
brjóst og veit ekki hve lengi ég hef sofið, en hrekk upp af dvalanum
við ólýsanlegan sársauka. Eldur lék um annan fótinn á mér! Þeir
höfðu orðið mín varir og sett viðarspæni milli tánna á mér og kveikt
í, og nú bókstaflega veltust þeir um af hlátri.
Ég hentist fram
undan runnanum í æðiskasti, felldi tvo þeirra um koll mér til sitt
hvorrar handar og gaf þeim þriðja á kjaftinn svo að hann féll einnig
við. Sjálfur æpti ég af sársauka, greip um sviðinn fótinn og engdist
sundur og saman í grasinu, viðþolslaus af kvölum.
Við ólætin kom
fólk á hlaupum út úr húsinu og húsbóndi minn sem sat úti á svölum
með gesti sínum hrópaði niður og spurði hvað gengi á.
Einn þrælanna
brást þá við með því að þrífa til mín og draga mig með sér undir
svalirnar. „Drengstaulinn,“ sagði hann, „hefur verið að lúskra á
hinum ungu herrramönnum.“
Hofmóðugur
herrann varð fölur við, en ég varð þess áskynja að hann duldi reiði
sína af nærgætni við gest sinn og gaf því einungis til kynna með smá
höfuðhneigingu að ég skyldi færður á brott. Ég vissi hvað það þýddi,
að ég skyldi hýddur.
„Herra,“ veinaði
ég knjákrjúpandi, „þeir báru eld að fótunum á mér!“
En allt kom
fyrir ekki, og mátti ég þola slíkar barsmíðar að ég fékk varla
hreyft mig á eftir, en enginn gat komið í veg fyrir að ég úthellti
tárum.
Fjórir dagar
liðu áður en ég komst aftur á lappir og út undir bert loft.
Það var að
morgni dags, og þótti mér trúlegt að herrarnir mínir ungu væru að
lesa lexíurnar sínar og að ég fengi því að vera út af fyrir mig í
garðinum. Og ég hjúfraði um mig í grasrjóðri í glampandi sólskininu.
Sjúkar skepnur elska sólskinið...
Sem ég hvíldist
þar, kom ég auga á mann nokkurn á göngu í garðinum. Var það sá hinn
sami, og að því er mér fannst, all tígulegi, ókunni maður er hafði
setið úti á svölunum með húsbónda mínum daginn þann sem ég var
hýddur. Hann var einn á ferð, í djúpum þönkum.
Ég ligg kyrr,
hugsaði ég. Hann er ekki af okkar húsi og lætur mig því í friði.
Virðulegur
herrann nam staðar fyrir framan mig. „Ertu veikur, piltur minn?“
spurði hann.
Þegar ég heyrði
vingjarnlega röddina brast ég enn í grát.
„Ó, herra minn,“
svaraði ég, svo sem ég væri að rekja harmtölur mínar fyrir mínum
eigin föður, „þeir hafa barið mig svo hrottalega.“
Ég fletti af mér
skyrtunni og sýndi honum líkama minn, bláan og marinn og flakandi í
sárum eftir barsmíðarnar. Og á meðan hann virti mig orðlaus fyrir
sér rakti ég áfram harmtölur mínar, fullur barnslegs
trúnaðartrausts.
Þá í sömu svipan
birtist húsbóndi minn, Maxímínus, og heilsaði gesti sínum. Og sem
þeir hafa heilsast spyr aðkomumaðurinn:
„Mundir þú vilja
selja mér þennan litla þræl þinn?“
„Að sjálfsögðu,
með ánægju,“ svaraði Maxímínus. „Og mér væri það sannur heiður ef þú
vildir þiggja hann að gjöf, þó að lítilfjörleg sé hún og raunar
einskis virði.“
„Nei, ekki vil
ég þiggja hann að gjöf,“ svaraði gestkomandinn, „en viljir þú taka
við þessum litla gullpeningi til tákns um kaupin —“
„Eins og þér
viljið,“ sagði Maxímínus kurteislega.
Þeir gengu um
garðinn um stund og ræddu saman. Þá tók hinn ágæti heiðursmaður mig
sér við hönd og leiddi mig burt. Við fórum um ein þrjú eða fjögur
stræti og komum loks að litlu tvílyftu timburhúsi, en það var
fallegasta hús og þegar betur var að gáð var framhliðin reyndar úr
steini.
Þessi dagur
verður mér ætíð ógleymanlegur. Minn ágæti bjargvættur hét Prískus og
var ráðgjafi keisarans og kennari í sögu og mælskulist. Hann bjó
einn á neðri hæð hússins, innan um bækur sínar og ritplögg, og
annaðist um hann gráhærð, grísk kona ein. Hún tók mig með sér upp á
loft og setti mig í rúmið og nuddaði mig upp úr olíu frá hvirfli til
ilja.
Þegar ég var
orðinn frískur lét Prískus mér tvo klæðnaði í té; var annar ofinn úr
ull og með grænum silkibryddingum og ætlaður til nota við sérstök
tækifæri, hinn úr venjulegu líni og var til hversdagsnota.
Á hverjum morgni
hjálpaði ég konunni að versla og sótti síðan skóla. Síðdegis
klæddist ég betri fötunum og fylgdi húsbónda mínum til hallar
keisarans. Þá liðu stundir gjarnan svo að ég gekk með honum um sali
með skrár og bókfell undir höndum, og var þá hinn hreyknasti piltur
á jarðríki. Húsbóndi minn vildi mér allt hið besta og átti það oft
til að klappa mér á koll eða strjúka um vanga, og ósjaldan og okkur
til gamans fór hann að kalla mig Zetu, eftir bókstafnum gríska. Tók
konan það upp eftir honum og að lokum festist nafnið við mig — Zeta.
Tímar liðu fram
og gamla konan gerðist ellihrum og færðust heimilisstörfin æ meir í
mínar hendur. Ég hélt klæðum húsbónda míns hreinum, bar á ilskóna
hans og fægði og annaðist innkaup á markaðnum. Ég fyllti á lampana
og sópaði og þreif húsið og meira að segja þvoði upp — og gerði hvað
eina með glöðu geði.
Húsbóndi minn
hafði miklar mætur á mér, og því meiri sem árin urðu fleiri. Ég held
að það hafi átt drjúgan þátt hve vel ég annaðist um bækur hans og
skjöl og hélt þeim til haga af svo mikilli natni. Kennari minn vakti
eitt sinn athygli hans á því hve óvenju gott minni ég hefði til að
bera, og lagði húsbóndi minn þá fyrir mig prófraun. Hann las mér
fyrst fyrir tvær línur úr Hómer, þá fjórar, því næst sex — og mér
skeikaði ekki þegar ég hafði þær eftir honum. Hvað því veldur, hef
ég ekki hugmynd um, en orð festast mér svo vel í minni, að lesi ég
eða hlusti á eitthvað af athygli, þá líður það mér aldrei úr minni.
Á þriðja ári
fékk hann mér það verkefni að skrifa afrit, og hafði ég ekki svo
lítið gagn af. Í bókhlöðu keisarans var ætíð þétt setinn bekkurinn
af lærdómsmönnum sem fengust við uppskriftir. Þeir voru mér mjög
innan handar um góð ráð, og af því einu að hlýða á samræður þeirra
lærðist mér margt.
Meðal annars
komst ég að því að þræll öðlast frelsi að lokinni átta ára þjónustu
— þó að einnig tíðkaðist að þrælar væru fylginautar húsbænda sinna
um aldur og ævi. Ég hafði ekki hugmynd um hvorum hópnum ég
tilheyrði, en hafði heldur enga löngun til að yfirgefa húsbónda
minn. Og átta ár liðu og við urðum æ samrýndari. Húsbóndi minn mat
mig ekki aðeins mikils vegna hollustu minnar, heldur einnig sakir
þess að ég var fær um að eiga við hann samræður um heimspeki og sögu
— þekkti Plató, Aristóteles, Heródótus, Plútark, Svetóníus, þá miklu
heimspekinga og mælskumenn, og hafði að minnsta kosti fengið
nasasjón af öllum greinum vísinda. Ætíð gat húsbóndi minn reitt sig
á mig um staðarnöfn, dagsetningar og þess háttar, er hann fékkst við
skriftir. Jafnvel á hinu keisaralega skjalasafni varð ég með tíð og
tíma að eins konar gangandi alfræðiorðabók um lönd og lýði og hvers
kyns fróðleik er að gagni mátti koma.
Morgun einn
þegar ég vakti húsbónda minn var hann hljóður og sagði ekki eitt
aukatekið orð. Það var ólíkt honum, því að hann var vanur að spjalla
við mig á meðan ég rakaði hann og tók til morgunverð. Sagði hann mér
þá gjarnan frá draumum sínum, og þó að hvorugur okkar hefði neina
trú á merkingargildi drauma, gátum við okkur þó oft til um hver
merking þeirra kynni að vera.
Hvað um það og
sem ég segi, hann sagði ekki eitt aukatekið orð þegar ég vakti hann
á þessum morgni snemma vors og færði honum mjólkina sína til
morgunverðarins og spurði: „Sváfuð þér vel, herra minn? Hvað dreymdi
yður í nótt?“
En hann svaraði
því engu til og gaf mér þó auga, afar íhugandi og eiginlega mæddur á
svip.
Hvað gengur að
honum, furðaði ég mig. Hafði mér orðið eitthvað á í messunni? Ég
vissi ekki betur en ég hefði sinnt af trúmennsku öllum mínum
skyldum.
Loks mælti hann
og spurði: „Zeta, hvernig stendur fjárhagur okkar?“
„Eins og í gær,
herra. Sjötíu og fimm gullpeningar og þrjúhundruð og þrjár
sesteríur.“
„Og í rauðu
leðurpyngjunni?“
„Níutíu og sex
gullpeningar, eða rétt rúmlega pund þyngdar.“
Þessi rauða
leðurpyngja var falin í smá skúmaskoti á sérstökum leyndum stað að
baki myndviðarskurði af höfði Jesú Krists. Húsbóndi minn hafði eitt
sinn tjáð mér að pyngja þessi heyrði einhverjum til sem hann væri
skuldbundinn, þó að aldrei hefði hann haft orð á því hver sá væri,
og ég heldur aldrei spurt. En ég bar ábyrgð á allri annarri fésýslu
heimilisins.
„Láttu mig fá
rauðu leðurpyngjuna,“ bauð hann og kinkaði kolli þreytulega í átt
þangað sem pyngjan var fólgin. „Bættu fjórum peningum við, svo þeir
verði hundrað.“
Ég lét sjóðinn
fyrir framan hann á borðið en hann tók þá að ganga um gólf, þungt
hugsi. Ég tók mér stöðu við dyrnar og beið þess kvíðinn sem verða
vildi. Hann átti vanda til að fá höfuðverk og hrukkaði þá ennið, og
því meir sem eitthvað angraði hann. Loks andvarpaði hann og leit á
mig.
„Zeta, sonur
minn, hvaða dagur er?“
„Laugardagur,“
svaraði ég að bragði, „þriðji apríl. Þann dag stofnaði Selevkos
Níkator borgina Antíokkíu. Þann sama dag hófst ríki Heródesarsona
hins mikla. Og á þeim degi dó herra vor Jesús, að því er sumir
álíta.“
„Mikið rétt,“
samsinnti Prískus og gerði krossmark fyrir brjósti sér, gekk þá enn
um gólf.
Á endanum nam
hann staðar og sagði: „Þarna, innan um dagbækurnar mínar, muntu
finna árið 440. Rjúfðu innsiglið og finndu þriðja apríl. Lestu það
sem þar stendur.“
Ég tók bindið
fram, hristi af því rykið, opnaði og las upphátt:
Um morguninn kallaði
keisarinn mig á sinn fund. Við áttum langar viðræður um
Margusarfriðarsáttmálann. Í raun og veru getur Húnakonungur ekki
talist vera bundinn af honum — en það erum við svo sannarlega.
Einungis við! Keisaradæmi vort er glatað snúi þessi skrælingi fákum
sínum gegn oss. Síðdegis fór ég á fund Maxímínusar, þar sem ungur
þræll varð á vegi mínum. Hann hefur hlotið slæma meðferð. Keypti ég
hann og færði heim með mér. Hann heitir Þeófíl.
Ég lauk
lestrinum skjálfandi röddu og leit ringlaður á húsbónda minn.
„Það var fyrir
átta árum,“ sagði hann og horfðist í augu við mig, með vota hvarma.
„Þú ert frjáls núna.“
Það var eins og
ég hefði fengið högg fyrir bringspalirnar — en mjúkt, svo sem engill
væri að verki. Ég blimskakkaði og deplaði augunum — var mig ekki að
dreyma?
Prískus tók
leðurpyngjuna sér í hönd.
„Gjörðu svo vel,
þetta hef ég geymt handa þér. Héðan í frá er þér heimilt að hafa
hatt uppi, þú mátt finna þér konu, getur orðið þinn eigin herra og
húsbóndi, ellegar þú getur látið skrá þig til herþjónustu. Upp frá
þessum degi ber þér ekki að heilsa öðrum en þú sjálfur óskar.“
Mér vöknaði um
augu. „Ó, minn kæri húsbóndi,“ sagði ég og kraup á kné. „Látið mig
ekki fara frá yður. Ég kæri mig ekki um peningana. Lofið mér heldur
að dveljast með yður áfram!“
„Stattu á
fætur.“ Gamli maðurinn deplaði augunum hrærður. „Þá það, þá það...“
Hann langaði til að segja eitthvað vingjarnlegt — það fékk ég lesið
af vörum hans og úr augum — en hann drap aðeins tittlinga og brosti
og hristi höfuðið hæglátlega. „Þú ert nú meiri kjáninn.“
„Það er yður að
þakka, herra,“ svaraði ég með grátstafinn í kverkum, „að ekki er
lengur farið með mig eins og skepnu. Það er yður að þakka að ég hef
hlotið hina ágætustu menntun. Aldrei hafið þér hýtt mig, heldur
leiðbeint mér góðfúslega. Þér gáfuð mér falleg klæði og létuð mig
sitja með yður til borðs. Og umfram allt — þá hafið þér sýnt mér
fram á að kærleikurinn býr í hjartanu.“
Enn velti hann
vöngum, svo brosti hann með andlitinu öllu.
„Viltu þá fylgja
mér — til skrælingjanna?“ spurði hann.
„Til
skrælingjanna?“ Ég fékk sting fyrir brjóstið. „Til Attílu?“
„Þú átt
kollgátuna, til hins arma Attílu,“ svaraði Prískus og dæsti. „Þannig
er nefnilega mál með vexti, að innan fárra daga verðum við að fara á
fund við Attílu.“ Hann fékk sér sæti og starði fram fyrir sig.
„Attílu —“
endurtók ég eins og svefngengill.
Ég trúði vart
mínum eigin eyrum. Víst hafði húsbóndi minn gengið margvíslegra
erinda keisarans, hvenær sem hans hátign var þurfandi hygginda hans,
en nú átti að senda hann á meðal villimanna!
Hvað um það, þá
fór mér brátt að skiljast hvernig í málinu lá. Fyrir nokkrum dögum
höfðu húnverskir erindrekar komið til að hitta keisara vorn
Þeódósíus að máli. Þetta voru skuggalegir náungar, dökkir á brún og
brá og með miklar loðhúfur á höfði, og með tígrisfeldi og
hlébarðaskinn um herðar sér. Jafnvel örum rist andlitin voru því
líkust sem gantalegir tígriskettir hefðu flaðrað upp um þá af
taumlausri ástúð! En glingrandi gullkeðjur sem þeir báru um brjóst
sér gljáðu svo fagurlega að þrátt fyrir allt var unun af að virða þá
fyrir sér. Þeir höfðu verið fimm talsins, og húsbóndi minn hafði
engan frið haft fyrir eilífum boðum um að mæta við hirðina til
ráðahags; ellegar einhver kæmi á hlaupum til okkar — kannski
hirðmeistarinn, Krýsafíus geldingur, eða hinn keisaralegi ráðunautur
Maxímínus, eða túlkur hans hátignar Vígilás — á stundum þegar höllin
virtist vera orðin vettvangur eins allsherjar apaspils. Hvar sem ég
kom voru virðulegir lávarðar stingandi nefjum saman, tvístígandi og
með vomur á sér eða lævíslegt blik í augum.
Erindrekarnir
húnversku höfðu flutt keisaranum skilaboð Attílu, þess efnis, að
hann krefðist framsals þeirra liðhlaupa úr sveitum hans sem leyndust
innan Hins rómverska keisaradæmis. Ennfremur gerði hann kröfu til
þess að þegnar keisarans létu vera að yrkja strandlönd Istelfur —
Dónárlönd — því að það svæði heyrði honum til að því er hann sagði
... þar sem hann hefði barist fyrir því, þá hyggðist hann halda því.
Loks var það ósk hans að eigi skyldi vera verslunarstaður í Illýríu
á bökkum Istelfur — Dónár — svo sem verið hafði, heldur í Næssús,
sem var fimm dagleiðum innar í landi, á mörkum krúnanna tveggja.
Ég var í
höllinni þegar Húnarnir afhentu skilaboðin. Stóð ég að baki húsbónda
mínum og fékk séð hvernig hirðin fölnaði þegar Vígilás túlkur þýddi
bréfið, orð fyrir orð.
Keisarinn
andvarpaði feginsamlega þegar Vígilás las upp þau lokaorð Attílu, að
hann árnaði honum heilla; og víst var það, að ekki þurfti skynugan
mann til að skynja gálgagrínið sem var fólgið í þeim óskum. En það
var ekki háttur keisarans að skyggnast djúpt í orðræður manna —
mestu skipti hann að Attíla var ekki farinn að leggja á hesta sína,
ekki enn!
Keisarinn leit
upp, og allt að því þénustusamlegri röddu spurði hann hina lítt
gæfulegu sendimenn Húna:
„Nokkur frekari
skilaboð frá hans hátign?“
Fyrirliði
þeirra, Edékon, sem skartaði afar ábúðarmiklu yfirvararskeggi,
kinkaði kolli, stoltur í bragði.
„Ójá. Hann vill
biðja þig að hafa hugfast, næst þegar þú sendir menn til hans í
þínum erindagjörðum, að það verði ekki neinir lítilsmegandi
veifiskatar heldur úr flokki mikilsháttar lávarða lands þíns —
ráðsherrar skulu það vera, eða að minnsta kosti ræðismenn.“
Eftir því
tungutaki að dæma sem Húninn viðhafði hefði mátt ætla að hann væri
keisarinn en sjálfur Þeódósíus hestasveinn Attílu!
Keisarinn
hneigði höfuðið viðmótsþýður við hverju eina, lét þá sendimennina í
umsjá Krýsafíusar er skyldi bera þá á höndum sér sem hina tignustu
höfðingja á meðan verið væri að semja svarbréf.
Dagar liðu áður
en því lauk. Og hafi svört hár leynst í gráum hærum míns ágæta
húsbónda, þá var svo ekki lengur þegar upp var staðið. Ég vissi vel
hvað í bréfinu lá, því það var ég sem afritaði síðustu gerðir þess;
og víst er um það, að væri stafrófið sprelllifandi skapnaður, mundu
stafir þeir sem við settum svarið saman úr hafa mætt augliti Attílu
knjákrjúpandi. Yðar afmán, auðmjúklegast! — Evrópsk siðmenning var á
góðri leið með að lúta asískum óþjóðalýð!
Auðmjúklega fór
keisari vor þess á leit við Attílu að þegnar hans hættu ránsferðum
inn í Hið rómverska keisaradæmi, og sagðist mundu senda einn sinn
tignasta ráðsherra á fund við hann, í von um að takast mætti að
leggja drög að friðarsáttmála til frambúðar.
Þetta rifjaðist
núna allt upp fyrir mér, og ég spurði húsbónda minn: „Leyfist mér að
spyrja, með hverjum farið þér, herra minn? Hvern sendir keisarinn?
Krýsafíus?“
Prískus hristi
höfuðið.
„Nei, mann af
betra tagi: Maxímínus.“
Fyrrum húsbónda
minn!
„Herra minn,“
sagði ég af dýpstu einlægni, „yður vil ég fylgja, hvert sem þér
farið. Og það er engan veginn víst að þessir Húnar séu eins
skuggalegir og af er látið.“
„Hugsaðu þig vel
um, Zeta. Þó að þú verðir eftir hér, ertu frjáls ferða þinna, ég
skipa þér ekki fyrir verkum framar. Hugsaðu þig vel um.“
„Það hef ég
gert, herra.“
„Þeir eru
blóðþyrstir í eiginlegri merkingu — drekka mannsblóð! Í orrustum
rífa þeir fórnardýr sín á hol og tæta í sig hjörtu þeirra á meðan
þau enn slá!“
Ég fann að ég
fölnaði í vöngum — svo viðbjóðslegt sem mér hefur ætíð þótt blóð
vera, aðeins orðið eitt vekur hroll með mér. En svo vænt þótti mér
um húsbónda minn, að þótt hann hefði bannað mér það, hefði ég samt
sem áður fylgt honum.
„Ég fer með
yður, herra,“ svaraði ég. „Ég mundi fylgja yður á enda veraldar ef
því væri að skipta.“
„Fallega mælt!“
Gamli maðurinn brosti. „Þá það, sonur sæll. Taktu þá allt til sem þú
álítur að við þurfum með okkur. Láttu blómin í umsjá gömlu
ráðskonunnar og aflæstu herbergi mínu. Og sjáðu til, hér færð þú tíu
gullpeninga; keyptu allrahanda kryddjurtir af egypsku höndlurunum,
og nokkur krókadílaskinn, og dálítið af rauðu spánarleðri, og
fingurgull úr kopar og eyrnadjásn — allt hvað eina sem þér þykir
líklegt að þessi óþjóðalýður muni girnast. En er það alveg
áreiðanlegt að þú viljir koma með mér?“
„Ó, minn kæri
húsbóndi,“ svaraði ég og nú af allri hjartans einlægni, „fyrr
hverfur yður skugginn en að ég fari frá yður!“
2.
Það var vor í lofti og ilmur
af jörð um það leyti sem við brynntum reiðskjótum okkar á bökkum
Istelfur. Birkið og víðirinn voru óðum að laufgast en mórauð
akurmoldin líkust tröllslegum sporum sem jötnar hefðu markað í
grænan skrúða beitilandanna.
Við höfðum
aðeins tíu tjöld meðferðis. Eitt var tjald Maxímínusar, sem var hinn
sérlegi sendimaður keisarans, og annað var ætlað Prískusi og mér.
Þriðja tjaldið tilheyrði Vígilási, túlkinum, sem var skjálgeygur,
horaður náungi, og hafði hann áður sótt Attílu heim. Önnur tjöld
heyrðu þjónunum til og eitt Rústíkusi, sem var höndlari er hafði
fengið leyfi Maxímínusar til að vera í samfylgd með okkur, í þeim
tilgangi að fá ættingja sinn lausan úr haldi.
Svo sem
skotlengd örvar framundan okkur fóru hermenn í fararbroddi er gættu
sautján strokumanna úr liði Attílu, og með þeim riðu hinir húnversku
fylgdarmenn og þyrluðu upp ryki í augu okkar hinna sem rákum
lestina.
Að sjálfsögðu
var tíminn notaður á leiðinni til að grufla í tungu Húna: Hvernig
geltu þessir rakkar og geyjuðu? Vígilás og Rústíkus kenndu
hefðarmönnunum en smámennið ég megnaði einskis að spyrja og varð að
láta mér nægja að leggja við hlustir svo sem kostur var.
Vígilás var ansi
glúrinn kennari, hann spurði þá hefðarmennina alltaf á húnversku og
urðu þeir að svara með því að endurtaka síðasta orð spurningarinnar:
„Hvað er þarna á
beit í haga?“
„Þarna í haganum
er hjörð sauða á beit.“
En eðlilega
spurði hann aðeins um stök orð til að byrja með:
„Hvað er þetta?“
— og hann benti á yfirhöfn sína.
„Sedda eð
gabba,“ svaraði Maxímínus.
„Sedda eð
gába,“ var svar húsbónda míns.
„Þetta er hvorki
gabba né gába,“ leiðrétti þá Vígilás þá, „heldur
kápa.“
„Megi skrambinn
hirða þetta skrælingjamál! Eins og hver fái numið aðra eins
skollatungu nema með móðurmjólkinni!“
Mér fannst ég
verða að læra þetta tungumál.
Ég bað húsbónda
minn leyfis um að fá að þoka mér framar í hersinguna þar sem
strokufangarnir voru; mig langaði til að vingast við einhvern
Húnanna — það var aldrei að vita nema það gæti komið sér vel
síðarmeir að vera einhverjum þeirra kunnugur.
Prískus kynnti
mig þá fyrir foringja hervarðarins og bað hann um að leyfa mér að
fylgjast með föngunum og spjalla við þá.
Brátt gaf ég mig
á tal við smávaxinn Húna með höfuðleður örum rist, eins og allir
karlar af því kyni. Ég gat þó lesið það úr rúnunum að hann var ungur
maður á svipuðu reki og ég og þótti líklegt að við mundum eiga hægt
með að skilja hvor annan. Ég reið fyrst samstíga honum þegjandi,
spurði hann svo á latínu, eins vingjarnlega og mér var unnt, hvað
hann héti: „Quid nomen tibi est?“
Húninn gaut á
mig smáum svörtum augum sínum og ég gerði mér ljóst að hann skildi
ekki. Ég var með brauðsneið á mér og gaf honum. Einmitt svona,
hugsaði ég, vinnur maður hund á sitt band! Og ég spurði hann, á
húnversku: „Hvað er þetta?“
Hann varð hýr
við. „Ert þú ekki Grikki?“ spurði hann, á grísku en með útlendum
hreim. „Þú ávarpar mig á húnversku. Hví þá, fyrst þú talar ekki það
mál?“
„Mig langar til
að læra það,“ benti ég honum á, vinsamlegri röddu. En það var
allavega gott að hann kunni grísku — við mundum þá eiga auðveldara
með að gera okkur skiljanlega; ég mundi verða honum úti um mat og
drykk ferðalagið á enda og hann kenna mér húnversku. Víst hefði
verið skemmtilegra að við hefðum gengið saman, en lyktin af fötunum
hans gerði mér tilhugsun óbærilega. Ég sat því kyrr á klárnum sem
við spjölluðum saman.
Strax á fyrsta
degi lærði ég um hundrað nafnorð og nokkrar algengar kveðjur og
orðatiltæki, svo sem „Góðan dag!“, „Guð veri með þér!“, „Lifðu
heill!“, „Guð blessi þig!“, „Gjörðu svo vel“, „Þakka þér fyrir“,
„Afsakið mig“ og þar fram eftir götum.
Um kvöldið kunni
ég orðið nóg til að geta ávarpað Rústíkus á tungu Húna: „Gott
kvöld. Er ég of seinn í matinn?“
Rústíkus gat
ekki varist hlátri. „Hvað haldið þið —“ sagði hann við herramennina,
„pilturinn er orðinn mæltur á húnversku á einum degi!“
„Haltu bara
áfram að læra, Zeta,“ sagði húsbóndi minn uppörvandi. „Hver veit
nema það eigi eftir að koma þér í góðar þarfir.“
Svo að ég hélt
samviskusamlega áfram að læra. Ó, hvílíkt erkiflón ég var. Hve
staurblindur ég gekk fram á barm glötunar með þeim lærdómi!
Að fáeinum dögum
liðnum hafði ég lært þó nokkuð af vini mínum Húnanum. Hann hét Díli
og hafði verið þjónn tignarmanns nokkurs er Kati hét og var yngri
bróðir yfirhershöfðingja Attílu.
„Nú, en hvað þá
í ósköpunum gerðirðu af þér fyrst þú sást ástæðu til að strjúka úr
svo ágætri vist?“
Pilturinn
kipraði sársaukafullur augun eitt andartak.
„Það var ekkert
sem orð er á gerandi.“
„En þó...“
„Það var ekki
neitt nema að ... sjáðu til, Kati á dóttur...“
„Einmitt það!“
Ég brosti. „Og þú orðið skotinn í henni!“
„Mér gafst ekki
einu sinni færi á að yrða á hana nokkurn tímann.“
Hann fékkst ekki
til að segja meira. En að afloknum hádegisverði laumaði ég undan
pyttlu af víni og fékk honum og varð honum þá aðeins liðugra um
málbeinið.
„Segðu mér,
Díli, hvernig atvikaðist það, fyrst þú áttir ekki einu sinni kost á
því að tala við hana? Eða eitthvað hlýtur þú að hafa brotið af þér?“
Hann andvarpaði.
„Nei, það var ekki neitt. Sjáðu til, ég átti áletraða ástargrein ...
sem ég sendi henni á laun.“
„Ó, kjánaprik
hefur þú verið... Ástargrein! Hvað er nú það?“
„Á meðal okkar
er aldrei notaður papýrus nema við hirðina. Fólk af lágum stigum
notast við trjágreinar sem letrið er rist á með hnífi. Nú og sem ég
líka gerði, tók grein af villirósarrunn og fékk fræðaþulinum í
hendur. „Ristu snoturlega á hana,“ bað ég hann, „eitthvað þess
háttar sem piltar eru vanir að segja við stúlkur. Segðu að sá sem
dirfist ekki einu sinni að horfa á hana, elski hana.“
Og fræðarinn
gerði sem ég bað, risti þetta á greinina svo fjarska fallega:
Faxi foldar
er stjarnan kær
En hún er óravegu burtu!
Stjörnuhiminn
er hár
Foldin neðra
grætur dögginni
Það vita
fræðaþulirnir manna best hvernig á að segja svona lagað. Vitanlega
sagði ég honum ekki hvað stúlkan héti, en því er nú fjárans ver að
ég athugaði ekki að láta hann sleppa nafninu mínu líka. Það var nú
ljóta ólánið.“
„Móðir hennar
hefur komist á snoðir um það?“
„Nei, faðirinn.
Það vildi mér til happs að ég var að flækjast fyrir utan bústaðinn
þegar ég heyrði til húsbónda míns æpa upp nafnið mitt“
Díli hristi
höfuðið. „Það var orðið áliðið kvölds og ef ég hefði ekki getað
leynst í skjóli næturinnar hefði ég verið hakkaður í spað ofan í
hrafnana.“
„En stúlkan, er
hún falleg?“
Díli lyfti
brúnum og baðaði út höndum eins og hann vildi gefa til kynna að
slíkri fegurð yrði ekki með orðum lýst. Ég kímdi. Vafalaust var
þetta bara eitthvert sílspikað flókatrippi.
„En sjáðu nú til
Díli, kæri vinur — ef faðir hennar er slíkur hávelborinn tignarmaður
hefðir þú aldrei átt minnstu von um að eignast hana. Ég skil ekkert
í þér að láta aðra eins fjarstæðu koma þér til hugar.“
Hann þagði og
brár hans titruðu, lauk þá úr pyttlunni.
„Hvað heitir
stelpan?“ hélt ég áfram, af einskærri forvitni, af því mig langaði
til að heyra húnverskt stúlkunafn.
„Móeik,“ stundi
hann raunamæddur.
„Móeik?
Sérkennilegt nafn...“
Við landamærin
biðu okkar húnverskir knapar sem riðu okkur til leiðsagnar um fjöll
og skóga. Í þriðju viku ferðar birtist okkur stór og víðáttumikil
slétta sem við höfðum undir fæti allt til leiðarloka.
Loks komum við
til byggða, í eina af nýlendum Attílu og lýða hans. Ég hafði hálft í
hvoru vænst þess að stærðar skrælingjaborg mætti sjónum vorum, borg
full af villimönnum. En sú varð ekki raunin. Á friðartímum taka
Húnar sér bólfestu á víð og dreif, einungis hirðin dvelst í návist
Attílu, og ekki búa þeir í húsum heldur tjöldum, og verður heldur
ekki um þá sagt að spilling og lestir borgarlífsins hafi sett á þá
mark sitt.
Við fórum um
mörg þorp þar sem sjá mátti tjöld í görðunum við húsin. Þau höfðu
orðið fyrir Húnunum, auð og yfirgefin, og þeir kastað eign sinni á
þau. Díli útskýrði fyrir mér að þeir leituðu einungis skjóls í
húsunum þegar að þeim þrengdu harðir vetur, og þá jafnvel aðeins
konur og börn og lasburða fólk.
„Það á ég erfitt
með að skilja,“ sagði ég. „Hús taka tjöldum langt fram, hvort sem er
á sumri eða vetri; eru hlýrri á vetrum og kaldari á sumrum. Fyrir nú
utan það að auðveldara er að gæta eigna sinna og geyma dýrgripi og
sjóði á tryggum stað.“
Díli hristi
höfuðið. „Hús fjötra fólk við einn stað. Þegar ég neyðist til að
sofa innan veggja og undir þaki þá líður mér eins og í
grafhvelfingu. Ég tek tjöldin fram yfir. Þau fylgja manni. Tjaldbúar
taka sér einfaldlega bólstað eftir duttlungum örlaganna. Veröldin er
svo fögur og víðáttumikil. En að því er mig varðar verður hún þó
brátt of lítil, of smá.“
Jafnvel sjálfur
Attíla lét sig ekki muna um að búa í tjaldi. Við litum það fyrst
augum úr löngum fjarska — fagurlega skreytt með gylltum kúplum þar
sem það gnæfði yfir öðrum tjöldum, gráum og brúnum, og við hún
blakti hvít silkiveifa.
Blágrár reykur
liðaðist til himins frá eldstæðum, ilmur af steiktu kjöti fyllti
vitin. Ég hafði orð á því við hinn húnverska vin minn: „Ég sé að
fólkið þitt sveltur ekki. Er eitthvað hæft í því að þið borðið
hrossakjöt?“
Díli yppti
öxlum. „Kemur fyrir, það veltur á ýmsu. Annars er hrossakjöt ágætur
matur og betra en nautakjöt — þótt mér þyki ólíklegt að ég fái
nokkru sinni að velja um það framar.“
Hann leit
vökulum augum til tjaldborgarinnar. Svipbrigðin lýstu þungum
áhyggjum. „Grikki, sjáðu til,“ sagði hann eftir andartaksþögn. „Þú
hefur verið örlátur við mig á þessu ferðalagi og fyrir það er ég þér
þakklátur. En mig langar til að biðja þig um að gera mér enn einn
greiða, ef ég má?“
„Að sjálfsögðu,
ef það á annað borð er á mínu valdi.“
„Nú ... ef þú
skyldir einhvern tímann hitta mig fyrir og ég verið stjaksettur og
enn á lífi, viltu þá vera svo vænn að koma til mín að næturþeli og
leggja mig í gegn rýtingnum þínum.“
Við töluðumst
ekki meira við og aldrei framar. Þeir færðu hann á brott, ásamt
hinum bandingjunum, þangað sem leið lá í átt til búða Attílu.
Á grösugri hæð
skammt frá búðunum námum við staðar. Við horfðum þögulir út yfir
sléttuna um stund — yfir tjöld og aftur tjöld, þúsundum saman!
Börn ríðandi á
trippum komu á stökki upp eftir til okkar, gláptu á okkur forvitin
og hlógu glaðvær. Þau voru flest í ljósum léreftsfötum, berfætt og
berhöfðuð, með boga sér um öxl eða í höndum og örvamæli á baki. Ég
átti eftir að komast að því að húnverskir krakkar höfðu það sér
helst til dægrastyttingar að skjóta örvum á svölur og spörfugla.
Heldur þóttu mér drengirnir ófríðir, þangað til ég vandist því að
horfa framan í þá. Þeir voru allir nefbrotnir og andlitin örum rist,
líkast því að hundar hefðu haft þá að leiksoppi sem hvítvoðunga.
Á hinn bóginn
voru stelpuhnyðrurnar litlu því fallegri ásýndum, með nef eftir sínu
sköpulagi en ekki útflött, og hörund þeirra mjúkt eins og rósarlauf.
Þær voru rauðklæddar og léku sér að brúðum, eins og hnátur okkar
gera, en trítluðu þó berum fótum líkastar andarungum.
Vígilás benti
okkur á að það væri ekki að ástæðulausu sem Húnastrákar væru gerðir
svo ófrýnilegir ásýndum. Stríðsmenn eru hreyknir af sárum sínum. Að
þeirra áliti væri maður því myndarlegri sem hann gæti státað af
fleiri áverkum á andliti — að undanskildum prinsum og höfðingjum,
því á þá fá engin vopn bitið. Þess vegna kveinka Húnar sér ekki hið
minnsta þótt þeir verði sárir í orrustum, sem fátítt er á meðal
annarra þjóða.
Við bjuggum
okkur undir að reisa tjaldbúð á hæðinni en máttum hætta við það
þegar Húni nokkur kom á þeysireið upp eftir til okkar, þrútinn af
bræði, og spurði með þjósti hvernig við dirfðumst að ætla að hreykja
okkur hærra en sjálfur konungurinn! Við gerðum okkur samstundis
ljóst að slíkt sæmdi eigi... Var okkur síðan gefið til kynna hvar
við mættum náðarsamlegast reisa búðina.
Á meðan við
streittumst við að tjalda bar að á reiðskjótum sínum þrjá Húna, með
hlébarðaskinn um axlir sér og bjarnarfeldshúfur á höfði. Við höfðum
fyrr haft kynni af tveimur þeirra; það var Edékon, með sitt
fagurlega skegg á vör, og Órusti, sem einnig var af háum stigum og
ekki síður drembinn, en andlitsfall hans bar þess vott að varla væri
hann af kyni Húna. Nafn hins þriðja fengum að vita stuttu seinna,
það var Kati.
„Hvert er erindi
ykkar hér?“ heimtaði Kati að fá að vita, yggldur á brún.
Lávarðar vorir
göptu af undrun þegar Vígilás hafði gert þeim spurninguna
skiljanlega. Vitanlega var Attílu fullkunnugt um erindi okkar.
Engu að síður
útskýrði húsbóndi minn málið, en á sína vísu:
„Keisarinn sendi
okkur á fund konungs yðar. Því er það, að við getum engum svarað
nema honum einum.“
„Heldur þú
virkilega,“ þrumaði Kati, „að við séum hingað komnir til þess eins
að sýna okkur og sjá aðra? Prins vor vill fá að vita hvert sé erindi
ykkar hér!“ Hann nefndi Attílu einungis prins en ekki konung.
Annars var þessi
oflátungslegi rumur, Kati, æði úfin og mædd karlugla, og með sama
greppitrýnið og Húnarnir allir. Um háls sér bar hann gullkeðju er
var snúin úr fjórum þáttum og skreytt gullhringum og gljáandi mynt.
Einungis bjúgsverðið eitt, er hann var gyrtur, með hjöltum og haldi
alsettu demöntum, var á við ógrynni auðs. — Æ, vesalings Díli, fyrst
þú felldir ástarhug til dóttur svo mikilsháttar manns, ætli sé þá
ekki fjarska ólíklegt að þú fáir nokkru sinni bragðað á folaldasteik
framar.
„Þér megið til
að gera yður ljóst,“ sagði húsbóndi minn og hafði brugðið fyrir sig
vörn háttvísinnar, „hver er venjan í málum sem þessum. Mundu
erindrekar yðar færa hverjum sem væri skilaboð Attílu til keisara
vors? Mundu þeir láta þau uppi við nokkurn nema hans hátign —“
Húnarnir stungu
saman nefjum um stund og brokkuðu síðan til baka, smellandi hófum.
Okkur þótti
trúlegast að eftirgrennslumenn þessa hefði Attíla gert út af örkinni
fullur fávísi, skrælinginn, og hann velta vöngum yfir svari lávarða
vorra og segja: „Þeir hafa lög að mæla!“
En varla hefur
sú verið raunin. Tveir hinna tignu Húna, Kati og Órusti, komu til
baka og enn belgdi Kati sig út, kuldalegur í bragði og dreissugur.
„Hafið þið
ekkert annað fram að færa við prins vorn, þá hefur prinsinn þetta
eitt við ykkur að segja og skilast hér með: Hypjið ykkur!“ Að svo
mæltu voru þeir á burt.
Maxímínus
fölnaði upp, skelfingu lostinn. Húsbóndi minn mændi í humátt á eftir
knöpunum, yfir sig hissa. Vígilás var alveg að springa. Hann
kveinaði:
„Og er það þá
með þessum hætti sem við skulum snúa heim? Án nokkurs svars? Attíla
þekkir mig — fengi ég mætt honum augliti til auglitis gæti ég unnið
hann á okkar band og knúð hann til að yfirgefa land vort með friði.“
Við höfðum þá
þegar tekið tjaldsúlurnar niður og sett á vagna og vorum að búast
til brottferðar þegar enn einn sendiboðinn kom á harðastökki upp
eftir og kallaði á löngu færi:
„Konungur leyfir
ekki að þið farið í nótt!“ Hann nefndi Attílu konung og þótti mér
það undarlegt, þangað til mér varð ljóst að það gerði hann einungis
af því að við sjálfir höfðum komist svo að orði.
Við tókum því
enn til við að tjalda, og lét Attíla færa okkur kálfakjöt og fullt
vagnhlass af fiski til kvöldverðar. Síðan tókum við á okkur náðir.
Húsbóndi minn
bylti sér óvær alla nóttina, stundi og andvarpaði. Á endanum spurði
ég hann hví hann væri svo mæddur.
„Sof þú áfram,“
sagði hann og dæsti. „En fyrst þú spyrð, þá kvelur mig smánin að
einn einasti skrælingi geti haft okkur að slíkum ginningarfíflum.“
„Herra,“ mælti
ég og reis upp við dogg. „Þér eruð vitur maður og hygginn. Þykir
yður ekki trúlegt að einhver orsök hljóti að liggja öllu
þessu til grundvallar?“
„Hver gæti hún
svo sem verið?“
„Hugsið yður
aðeins um, herra. Viðvíkjandi ferðalaginu. Munið þér, þegar þér eitt
sinn buðuð húnversku fylgdarmönnunum fimm til kvöldverðar og
samræðurnar tóku að snúast um Þeódósíus og Attílu og Vígilás missti
taumhald á tungu sinni.“
„Hann var orðinn
drukkinn.“
„En þá mælti
hann: Það er óhæfa að nefna mann og guð í sömu andrá.“
„En hann var
drukkinn. Húnarnir voru beðnir afsökunar daginn eftir.“
„Já, og þeir
afsökuðu hann, en þrátt fyrir það má vel vera að þeir hafi látið það
berast til eyrna Attílu á hvern hátt erindrekar Þeódósíusar bæru þá
tvo saman.“
Húsbónda minn
setti hljóðan og ég sofnaði. Morguninn eftir sá ég að þeir voru að
bera saman ráð sín, hann og Maxímínus, fyrir framan tjaldið okkar.
Þá hóaði hann í Rústíkus.
Svo sem ég hefi
áður sagt hafði Rústíkus fengið að vera okkur samferða þótt hann
tilheyrði ekki hinni keisaralegu fulltrúasveit. Hann var
hrokkinhærður Grikki um fertugt, vel mæltur á tungu Húna og virtist
ætíð vera önnum kafinn.
Húsbóndi minn
sté á bak fáki sínum. Ég tók um taumana og leiddi hann af stað á
eftir mér og fylgdi Rústíkus okkur fótgangandi. Þannig bar okkur að
búð Kata í glaðasólskini á þessum vormorgni.
Á meðan þeir
tveir ráku erindið innan búðar gætti ég hestsins fyrir utan og velti
vöngum. Hvaða erindi skyldi húsbóndi minn eiga við Kata? Seinna
komst ég að því að hann hafði lofað gjöfum gegn því að Attíla veitti
fulltrúasveitinni áheyrn.
Á meðan þeir
voru inni hjá Kata virti ég forviða fyrir mér tjaldbúðina, sem var
falleg og tilkomumikil og í raun eitt tvöfalt tjald, gert úr
rauðstríprendum dúk, og var hvor hluti ferningslaga og þó fremur
óreglulegur að formi. Búðin hefði áreiðanlega rúmað að minnsta kosti
fimmtíu manns. Það var auðséð að hún tilheyrði engum aukvisa. Yfir
öðrum innganginum sem var skreyttur hvítum töglum og hnefastórum
gylltum kúplum trónaði skjaldarmerki — það var rauð hæruskinnshönd
kreppt um tvö raunveruleg sverð, mökuð biki, og yfir þeim gullin sól
ofin í dúkinn. Það var skjaldarmerki á hverju tjaldi, annað hvort
yfir dyrum eða til hliðar við þær. Fáni blakti við hún á
konungstjaldinu einu.
Hægri helmingur
tjaldsins bar með sér að vera ætlaður kvenþjóðinni. Það mátti ráða
af hvítu perlukögri sem myndaði dyr inngangsins og af heldur
tilkomulitlum hvítum dulum er voru fyrir gluggum.
Fyrir framan
dyngju kvennanna voru fjórir hestar fyrir vagni sem í voru
viðarkistlar og brekán. Svo þær hefðarkonur hugsuðu sér til
hreyfings eitthvert! Aldrei á ævinni hafði ég séð svo fagurlega
skreytta kistla. Kistlar vorir sýnast ekki vera annað en þeir eru,
með óbreyttum blæ sedrusviðarins sem þeir eru skornir út úr og
snikkaðir, og við hjúpum þá brekánum og voðum og finnst engin
sérstök prýði af þeim í sjálfu sér. En skrælingjarnir — þeir mála á
þá liljur og rósir og myndir af páfuglum. Skringilegt hugmyndaflug,
þótti mér. Fyrst þeir höfðu svo kynlega tilfinningu fyrir kistlum,
hvaða hugmyndir gerðu þeir sér þá um kvenlega fegurð, furðaði ég mig
á. Hverju skyldi hún líkjast sú frumstæða stúlka sem Díli átti að
láta líf sitt fyrir? Var víst áreiðanlega einhver búldudrós.
Hefðarkona ein
stóð við vagnkerruna, hesmikil og með hrukkur um augu. Silfurgrá
loðkápa af svipuðu tagi og þeirra karlmannanna tók henni í mitti
utan yfir ljóst, brúnleitt pils.
Sjá mátti á
ábúðarmikilli hökunni að konan taldist ekki til hjúa hér á bæ. Hún
skipaði þrælunum fyrir — sagði til um hvað þeir skyldu bera út á
vagninn og hvernig því skyldi komið fyrir; ströngum augum sem hvíldu
á þeim meðan þeir roguðust svitastroknir með byrðarnar og röðuðu
þeim á vagninn.
Að stundarkorni
liðnu stikaði stúlka út úr tjaldinu, um það bil fimmtán eða sextán
ára gömul. Eins og konan hökumikla var hún klædd silfurgráum feldi,
en andlitið var fínlegt og pilsið hvítt.
Ég furðaði mig á
því hvort þetta gæti verið hún. Nú, ef svo er, held ég að mér lítist
ekkert á hana, hugsaði ég. Hún er ekki beinlínis ófríð, mætti heldur
kallast snotur svona eins og hver önnur frísk og fjörleg snót, en
ekki falleg heldur. Hana skortir hlýjuna. Ég hef séð svo fallegar
stelpur í Miklagarði að mér hefur stundum fundist eins og logi færi
um mig allan. Og stelpurnar okkar eru ekki heldur svona
reigingslegar.
Á meðan ég var
niðursokkinn í hugsanir mínar skipaði stúlkan svo fyrir að lítill
koparseymdur kistill með ámáluðum liljum skyldi borinn út á vagninn.
Hvort það voru peningar ellegar gimsteinar sem fólgnir voru í
skrínunni þeirri skal ég ekkert um segja, en engum duldist að þetta
var hennar eign, svo vandvirknislega sem hún bjó um gripinn með
mottum til hlífðar fyrir hnjaski. Á samri stundu braust vorsólin
fram úr skýjum og lék geislum sínum um andlit stúlkunnar, sem þá brá
strútsfjaðrablævæng sínum því til hlífðar.
Mér þóttu
viðbrögð hennar svo þóttafull — og á samri stundu gerði ég mér ljóst
hve fögur hún var. Það má skrambinn vita hvers vegna, en ég tók að
brenna í skinninu. Allar fallegar stúlkur hafa eitthvað við sig sem
maður gleymir aldrei; að því er hana varðar voru það augun og
varirnar. Það var rétt eins og hún hefði verið sköpuð til þess eins
að einhver yrði að skarta svo dreymnum augum og fagurleitum
rauðum munni. Jafnvel núna, þegar ég kalla hana fram í hugann, þá
eru það augun og munnur hennar sem ég sé fyrir mér svo ljóslifandi.
„Mamma,“ sagði
hún, „mig langar á hestbak.“ Hún talaði skýrum rómi og svo þýðum sem
leikið væri á lágflautu.
„Svona klædd!“
Móður hennar blöskraði. „Hvernig heldur þú að pilsið þitt verði?“
„En ég get ekki
bara setið hér og beðið...“
„Láttu nú ekki
svona, Móeik!“
Herra trúr, það
var þá hún —
„Ég skal þá fara
í annað pils,“ sagði stúlkan, „ef þú lofar mér að ríða út.“
Þá varð henni
litið til mín, en aðeins rétt sem snöggvast — rétt eins og
sólargeisli glampi í spegli og ljósti mann, en aðeins eitt andartak;
samt skalf ég frá hvirfli til ilja.
Þessi stúlka
birtist mér sem engill dauðans. Við tákngervum gjarnan dauðann í
líki beinagrindar með sigð og stundaglas; hér á meðal Húnanna
birtist hann mér í mynd dökkeygðrar stúlku með rauðar varir. Sá sem
leit hana augum, hlaut að deyja.
Hún sneri sér
aftur að móður sinni og spurði hana einhvers — ég heyrði ekki vel
hvað það var. Þá gekk hún áleiðis að tjalddyrunum, en staldraði við
eins og hún væri á báðum áttum, dul í bragði. Enn varð henni litið
til mín; ef til vill hef ég virst henni framandi; og nú hvíldu augu
hennar á mér.
Við horfðumst í
augu.
Ég veit ekki
hvort þeir sem leggja stund á vísindi fá nokkru sinni grafist fyrir
um dýpt mannlegra augna og skýrt af hvaða rót þeir ósýnilegu geislar
eru sprottnir — sem valda hlýju eitt augnablik og kuldahrolli hið
næsta; þeir jökulköldu sem glóheitu, flosmjúku sem flugbeittu, og
sem stundum ljósta mann líkt og eldingar væru.
Stúlkan horfði
enn á mig. Ég varð lémagna.
3.
Kati kom út úr karlabúðinni og leit snöggt á
þjónustusveina sína er stóðu fyrir utan. Ég hneigði mig djúpt fyrir
honum en hann virti mig ekki viðlits heldur gaf merki um að hann
vildi hest sinn. Þá steig hann á bak og var þotinn til búðar Attílu.
Mér þótti það
undarlegt að húsbóndi minn var enn inni og óttaðist að hann hefði
verið tekinn höndum. En ekki hefði einu sinni gefist tími til að
muldra bæn áður en Kati var kominn til baka á skeifuglamrandi gandi
sínum. Hann vippaði sér af baki og þaut inn.
Á næsta
augnabliki birtist Prískus, og Rústíkus að baki honum. Báðir voru
hæstánægðir að sjá.
„Hraðan nú!“
Húsbóndi minn gaf mér bendingu og steig svo á bak, en svo ófimlega
að Húnakrakkarnir í kring veltust um af hlátri. Við Rústíkus hlupum
við fót á eftir honum og ætlaði Rústíkus karlinn alveg að springa af
mæði. Börnin eltu okkur skríkjandi á trippunum sínum.
„Attíla vill
veita okkur áheyrn,“ hrópaði húsbóndi minn til Maxímínusar af löngu
færi.
Vagneykin okkar
voru öll tilbúin til brottfarar, en við þessi orð varð á öllu
skyndileg breyting. Umsvifalaust tóku þeir hinir keisaralegu
fulltrúar að þvo sér, og prýddust hinum fínustu vefjarklæðum.
Jafnvel fyrirliði hervarðarins gljáfægði sverð sitt og hjálm, bar
vax í vængjað yfirskegg sitt og huldi skallann hári. Og þegar þeir
söfnuðust saman hófust harðar deilur um hvernig skyldi ávarpa
Attílu.
„Almáttugi
konungur, allra kónga tignastur,“ stakk Prískus upp á.
Vígilás
andmælti: „Það er fullnægjandi að segja Máttugi prins, enda
hefur Attíla ekki enn verið krýndur — hann er enn aðeins erfðaprins
en enginn kóngur.“
„Kemur í sama
stað niður,“ svaraði Maxímínus. „Og er ekki vissara að hafa vaðið
fyrir neðan sig og ávarpa hann tíu tignarstigum ofar en staða hans
segir til um heldur en að vera stiginu of neðarlega?“
Ég hlustaði ekki
á hver varð niðurstaðan af þessu þjarki. Hugur minn var bundinn við
hið yndislega fiðrildi dauðans, álfakroppinn mjóa er flögraði mér
fyrir hugskotssjónum. Hve ægidjúp, hve seiðandi augu hennar voru!
Einhver óumræðileg tign leyndist í fari hennar. Ó, vesalings þú,
Díli, þú hefur ekki verið með öllum mjalla. Ungar hefðarmeyjar eins
og hún eru ekki aldar upp handa hestasveinum!
Kati birtist að
innan úr tjaldborginni og kallaði: „Komið nú, konungur bíður!“ og úr
augum hans mátti lesa hve upp með sér hann var: „Þetta verður mér og
aðeins mér einum þakkað!“
Fulltrúasveitin
steig á bak fákum sínum. Mér einum þjónanna var leyft að vera með í
för. Bar ég skriffæri og blekbyttu húsbónda míns mér við belti og
papýrus undir höndum. Það setti ugg að mér þegar við nálguðumst
tjald hans hátignar. Svo að nú fæ ég séð, hugsaði ég, hina miklu
mannætu!
Ásamt vopnuðum
vörðunum sem stóðu fyrir framan búðina voru nokkrir karlar með
kórónur uppi. Hverslags kóngar voru nú þetta? Og ég átti eftir að
komast að því seinna, að svo sannarlega voru þetta kóngar. Í hvern
annan tíma umgekkst Attíla þá sem vini sína, en bæri erindreka að
garði máttu þeir láta sér lynda að standa utan dyra skrýddir skrúða
sínum.
Ég hafði alveg
verið viðbúinn því að fá ofbirtu í augun þegar við gengjum fyrir
húsráðanda. Vafalaust væri Attíla uppábúinn sem eitthvert gullið
villingjagoð. Hann biði vor í tignarlegum gullstóli, sveipaður
hreysikattarmöttli, hvar undan gægðust berar blátær svo allir fengju
nú séð demantshringina sem hann þar skartaði — ég hafði átt bágt með
að verjast hlátri við tilhugsunina.
En allt var með
öðrum brag en við höfðum vænst. Okkur var vísað inn í litla,
látlausa vistarveru. Fríska angan lagði fyrir vit manns, eins og af
rúskinni. Fyrir miðju sat maður meðalstór vexti, svartskeggjaður, á
ómáluðum bríkarstóli, klæddur hæruskinnsjakka og í stígvélum úr gulu
leðri. Hann hvíldi olnbogana á hjöltum sverðs er var skeiðað í
svörtu flúneli. Smá augun en dimm hvíldu á okkur frá þeirri stundu
er við gengum inn.
Ég hélt fyrst að
þetta hlyti að vera einhver annar en Attíla, en svo var ekki. Í
kringum hann stóðu ráðsherrar hans, Edékon, Órusti og Kati, og þrír
aðrir að auki, allir rjóðir í kinnum og lýstu af dýrslegum þrótti;
en sjálfur var Attíla heldur fölur yfirlitum.
Sendimenn vorir
hneigðu sig djúpt — og högguðust ekki úr þeirri stöðu. Þeir væntu
þess að hans hátign segði eitthvað, en það gerði hann ekki. Þeir
voguðu sér ekki einu sinni að heilsa. Og tíminn leið. Vel hefði mátt
fara með faðirvorið á meðan. Attíla hreyfði sig ekki fremur en hann
væri líkneskja úr marmara — og gulleitt litaraftið minnti að sönnu á
marmara; og enn lutu sendimenn vorir í óbreyttum stellingum, rétt
eins og þeim þætti mest um vert að skoða nú vel á sér naflann.
Loks mælti Kati:
„Talið!“
Maxímínus spratt
upp og dró fram hið innsiglaða bréf keisarans innundan vefjarklæðum
sínum.
„Almáttugi
konungur, herra þjóða, háæruverðugi eðla prins...“ Röddin skalf —
því hefði ég aldrei trúað! Rödd Maxímínusar, hins hofmóðuga,
borginmannlega Maxímínusar sem ætíð stóð svo keikur sem hrygg hefði
úr stáli. „Vor herra, keisarinn,“ hélt hann áfram, „sendir yður
sínar innilegustu kveðjur og árnar yður heilla.“ Vígilás túlkaði í
einni samfelldri lotu: „...og árnar yður heilla.“
Attíla einblíndi
fram fyrir sig. „Ég óska honum nákvæmlega þess sama og hann mér,“
svaraði hann. Röddin minnti á suð broddflugu er sveimaði um og
leitaði undankomuleiðar úr lokuðu herbergi. Það var geigvænleg rödd.
Það var ekki fyrr en nokkrum mánuðum síðar sem mér skildist hvað í
nístíngsköldum orðunum fólgst: „Ég óska honum nákvæmlega þess sama
og hann mér.“
Hann veitti
bréfinu viðtöku. Hjó síðan til Vígilásar með augnaráðinu.
„Hrokafulla
afmánin þín!“ æpti hann. „Það varst þú sjálfur sem túlkaðir
fyrirmæli mín þess efnis að fulltrúar ykkar skyldu ekki voga sér að
drepa hér niður fæti fyrr en hver einasti liðhlaupi hefði verið
framseldur. Að þú skulir dirfast að koma fyrir auglit mitt!“ Nú
minnti rödd hans á ljónsöskur.
Vígilás varð svo
skelkaður að hann var að því kominn að falla saman. Tjaldsúlurnar
skulfu. Attíla beið svars. En Vígilás var sem negldur niður, náfölur
og ranghvolfandi í sér augunum. Svo djúpt hneig höfuðið niður milli
herðablaðanna að engu var líkara en hann hefði verið gerður höfðinu
styttri.
Þögnin, þétt sem
þoka, var loks rofin af Edékon: „Gott og vel, þú hefur þá ekkert að
segja þér til varnar? Svaraðu!“
„Náðugi herra,“
stamaði Vígilás, „keisarinn hefur nú þegar látið færa yður
liðhlaupana í böndum.“
Attíla hristi
höfuðið.
„Lygalaupar! Ef
ég tæki ekki tillit til þess að þið eruð hingað komnir sem
erindrekar, skyldi ég stjaksetja ykkur alla með tölu.“ Þá skotraði
hann augum þangað sem ungur, svíramikill Húni stóð. „Kíkí,“ sagði
hann, „lestu upp nöfn liðhlaupanna!“
Skrifarinn
leysti utan af skrárvöndli og las upp nöfn um hundrað manns af einu
blaðinu. Á meðan ríkti dauðaþögn.
„Ég krefst allra
þessara manna!“ Attíla lét syngja í sverðinu. „Það er óþolandi að
eiga það yfir höfði sér að manns eigin þjónustumenn kunni að grípa
til vopna gegn yfirboðara sínum.“
Hann reis á
fætur og gekk til innri afkima búðarinnar. Áheyrn var lokið. Við
skjögruðum ringlaðir út.
„Ég skil ekki,“
sagði Vígilás, sem skalf svo glamraði í tönnum. „Hingað til hefur
Attíla ætíð tekið vel á móti mér. Ég hef aldrei séð hann í öðrum
eins vígamóð.“
„Það er ekkert
sem heitir,“ sagði hervarðarforinginn, skjálfandi á beinum, „við
látum ekki bjóða okkur svona lagað. Ég er hermaður — það skal engum
líðast að æpa á mig.“
„Skoraðu hann þá
á hólm!“ Maxímínus gaut á hann augum yfir öxl sér, bitur í bragði.
Húsbóndi minn
var niðurlútur. „Ég þykist þess fullviss nú,“ sagði hann, „að þessir
skrælingjar hafi borið í Attílu rausið úr honum Vígilási, þarna um
kvöldið þegar við þreyttum drykkjuna.“
Edékon slóst í
för með okkur til búðar okkar og tók Vígilás tali þar afsíðis. En
hvað þeim fór á milli höfðum við ekki hugmynd um. Á eftir sagði
Vígilás að Edékon hefði viljað skýra reiði Attílu með
strokumannamálinu einu, en það var ekki aðeins augljóst af svipnum á
honum að hann laug — hann var felmtri sleginn.
Þegar við vorum
að snæða hádegisverð klukkustund seinna komu til okkar tveir
sendiboðar Attílu. Það var roskinn fyrirmaður, Eslás að nafni, og í
fylgd með honum þjónn er gætti tveggja hesta, reiðskjóta og
klyfjaklárs. Eslás tjáði okkur þá skipun Attílu að Vígilás skyldi
snúa umsvifalaust aftur til Miklagarðs og sækja liðhlaupana er enn
voru þar eftir. Skyldum við hinir bíða uns yfirhershöfðingi Húna
kæmi til baka frá Akatírunum, því hvað sem við hygðumst færa honum
að gjöf, gætum við hvorki haft það á brott með okkur né gefið neinum
öðrum. Lagði Attíla blátt bann við því að við ættum viðskipti af
nokkru tagi fyrr en hershöfðinginn kæmi, að við reyndum hvorki að fá
rómverska þræla lausa úr haldi né kaupa okkur húnverska þræla — eða
yfirhöfuð að við keyptum nokkurn skapaðan hlut nema nauðsynlegustu
vistir.
Vígilás hætti að
borða. Umsvifalaust! hljóðaði skipunin. Svo umsvifalaust
skyldi það verða. Magurt, lævíslegt andlitið bliknaði og blánaði og
lýsti örvilnan. Hann lét móðan mása á meðan hann lagði á hest sinn,
og flýtti sér svo að engu var líkara en hann ætlaði í örskotsferð
til Miklagarðs á svo sem fjórðungi stundar!
Daginn eftir
tóku Húnarnir bækistöð sína upp. Héldu þeir í norður og við
sömuleiðis. Attíla stefndi til höfuðstaðar síns, en sá orðrómur var
á kreiki að hann ætlaði sér jafnframt að ganga að eiga húnverska
mey, Eikku að nafni.
Herskarinn lét
staðar numið nærri þorpinu þar sem stúlkan bjó; en við áttum þess
engan kost að verða vitni að brúðkaupinu því að Attíla skipaði svo
fyrir að við skyldum halda ferðinni áfram.
Þrír Húnar voru
leiðsögumenn okkar. Strax á fyrsta degi tók ég einn þeirra tali og
spurði hann hvort hann hefði einhverja hugmynd um hver hefðu orðið
afdrif Díla, þjónustusveins Kata.
„Já, það veit
ég,“ svaraði hann með hægð.
„Hvað þá?“
Hann yppti
öxlum. „Þeir létu hann út til þerris, sama dag og hann kom.“
„Til þerris? —
Hvernig þá?“
Húninn hló.
„Skollinn sjálfur, ertu sá þverhaus að vita ekki hvernig
mjólkurkeröld eru þurrkuð? Á stjaka, vitanlega!“
4.
Á dimmri, drungalegri nóttu
komum við að litlu vatni sem var svo grunnt að jafnvel börn
hefðu átt hægt með að vaða yfir það. En hófför á bakkanum gáfu til
kynna að þarna væri kjörið að brynna hrossum. Gamlar aspir og
birkitré uxu hvarvetna.
Við höfðum varla
lokið við að setja upp tjaldsúlurnar þegar hann skall á bálhvass og
með þrumugný. Hann bætti stöðugt í veðrið sem loks hreif allan
tjaldbúnaðinn okkar með sér og feykti út á vatnið. Eldingar blossuðu
og með svo yfirgengilegum þrumugný að jörðin nötraði. Það var
skelfilegt. Og í einni svipan laust niður leiftrandi þrumufleyg mitt
á meðal okkar, svo logandi skærum og hvellærandi að við lá að
hljóðhimnurnar í manni spryngju og sjónir blinduðust. Leiftrin
slökknuðu í vatninu en við áttum fótum fjör að launa og tvístruðumst
ráðvilltir út í niðdimma nóttina.
Ekki veit ég
hvernig fólk almennt gerir sér leiðina til helvítis í hugarlund. En
að fenginni reynslu þessa nótt myndi ég í sporum málara túlka þá
heljarslóð í mynd flótta í kolniðamyrkri er væri rekinn af
leiftrandi eldglæringum.
Þannig hlupum
við eins og hræddir hérar; en að skammri stund liðinni lýsti
eldingarbjarmi upp húsþyrpingu framundan, það voru hús með
stráþökum. Um leið tóku gjammandi hundar að sækja að mér og létu
heldur en ekki ófriðlega.
„Hjálp!“ veinaði
ég skelfingu lostinn og greindi af hrópum fylginauta minna að fyrir
þeim var svipað ástatt.
Rauð logaglóð
nálgaðist okkur frá einu húsanna. Einhver var þar á ferð sem lýsti
sér með reyrkyndli. „Hvað gengur á?“ kallaði sá sami á húnversku.
„Hverjir eru þið?“
Fleiri komu
aðvífandi úr húsum og tjöldum og lýstu allir sér með sams konar
kyndlum. Þeim varð starsýnt á okkur, svo framandi sem við vorum í
þeirra augum. Voru þetta Húnar sem tekið höfðu sér bólfestu í
þessari húsaþyrpingu og að venju reist tjöld sín á meðal þeirra en
höfðu nú hörfað undan þrumuveðrinu inn í húsin.
Okkur var tekið
með virktum. Húsbóndi minn og ég fengum inni hjá barnmargri
fjölskyldu og voru börnin látin sofa í eina herbergi húskofans.
Heimilisfaðirinn kveikti eld frammi á dyrahellunni og við tókum til
við að þurrka okkur.
Húsbóndi minn
stóð varla í fæturna. Hann var gegndrepa og það blæddi líka úr hnénu
á honum. Örum rist ásjóna heimilisföðurins var svo grimmúðleg á að
líta að Prískusi leist ekki allskostar á blikuna og hvað sem sárinu
leið hörfaði hann undan honum í fyrstu. En undir harðri skelinni
leyndist hið mesta gæðablóð.
Okkur var fært
dálítið af brauði og fleski þó að síst væri það svengdin sem hrjáði
okkur. Húsbóndi minn vildi aðeins fá að liggja út af en ég var önnum
kafinn við að þurrka klæði okkar. Húninn bætti stöðugt á eldinn og
allan tímann spurði hann mig spjörunum úr, hverjir við værum og hvað
hefði att okkur hingað, í þennan landshluta.
Hann fræddi mig
á því að við værum niðurkomnir í þorpi einnar af ekkjum Búda
konungs, en Búda konungur var dáinn fyrir all nokkru og hafði verið
eldri bróðir Attílu. Hann hafði verið höfðingi Hvíthúna en Attíla
Hinna blökku, og að bróðurnum burtkölluðum höfðu þegnar hans mátt
gangast Attílu á vald.
„Og hver er
munurinn?“ spurði ég.
„Reyndar aðeins
sá að við klæðumst mismunandi litum gærum,“ svaraði gestgjafi okkar.
„Á sumrin er þó munurinn enginn.“ Sjálfur sagðist hann vera Hvíthúni
og heita Zsádan.
Óðara þá sömu
nótt fékk ekkjudrottningin vitneskju um hvers kyns gestum stormurinn
hefði feykt inn í þorp hennar, og innan stundar birtust þjónar
færandi hendi, með rekkjuvoðir og þurra bjarndýrsfeldi, vínker og
kalt villigaltarlæri á fati.
„Ó, en sú sæla!“
sagði húsbóndi minn og var þá ekki síst með heit og þurr klæðin í
huga og hlýjar voðirnar; og svipað var honum innanbrjósts þegar hann
vildi þakka fyrir vínið en átti ekki til orð til að tjá þakkirnar
með, heldur gaut augum til himins, fullur þakklætis. Hann hjúfraði
um sig í bjarndýrsfeldinum og lagðist út af, og fór ég að dæmi hans.
Í dögun
morguninn eftir héldum við aftur niður að vatninu. Tjöldin voru þar
sem helst mátti vænta þeirra, á floti víðsvegar um vatnið, og
hrossin á tvístringi. Húnarnir voru þá þegar önnum kafnir við að
smala hrossunum saman og fiska upp tjöldin, og kom okkur það
vissulega á óvart þegar upp var staðið að einskis var vant.
„Ég hef farið
víða um lönd á lífsleiðinni,“ sagði húsbóndi minn, „en hvergi hef ég
hitt fyrir svo alúðlegt fólk. Taktu nú til bestu vefjarklæðin mín,
við göngum á fund hefðarkonunnar Búdu og kyssum hönd hennar, og
alveg sama þó að hún kunni að vera algjör berfætlingur!“
Og
herramennirnir skunduðu á fund drottningar og færðu henni þrjá
silfurkaleika að gjöf, og bættu um betur með þremur dáindis
lungamjúkum leðurhnúðum og öskju fullri af indverskum pipar og
kanil, kókóshnetum og dvergliljulauk.
Á meðan
hreinsuðum við hinir tjöldin. Hvar sem við drápum niður fæti uxu
lijur vallarins, í skjóli af birkinu, og tíndi ég nokkrar saman í
knippi og hugðist færa húsbónda mínum.
En með því
lávörðum vorum dvaldist í húsi drottningar notuðum við tækifærið og
fórum inn í þorpið til að skyggnast um. Það er alltaf skemmtilegt að
virða fyrir sér framandi fólk, og sér í lagi þykir siðmenntuðum
Grikkja það einstaklega ánægjulegt að fá tækifæri til að kynna sér
siði og háttu óþjóða — að komast að raun um hve góðkynja maður er
sjálfur samanborið við þá lýði!
Í þorpinu var
aðeins eitt fallegt hús, það var hús drottningar. Það var samt úr
timbri eins og hin en hægt að hluta það sundur. Varla hefur það
verið meira en fjögurra herbergja en á hinn bóginn voru um tíu tjöld
í kringum það sem greinilega voru hýbýli hefðarfólks, að minnsta
kosti sum. Þar á meðal var eitt ferningslaga með gylltum húni yfir
sem glampaði á. Fyrir dyrum var hrosshá og yfir þeim trónaði rauð
hæruskinnshönd, kreppt um tvö svört sverð og gullofin sól yfir.
Ég hvessti
sjónir — var þetta ekki skjaldarmerki fjölskyldu Kata?
Ó, hví sló
hjarta mitt svo ört? Hví fékk ég ekki slitið hugann frá þessari
stúlku? Sem var mér þó svo órafjarlæg. Þó að hún hefði staðið mér
svo nærri að ég hefði fengið snert klæðisfald hennar, þá hefði hún
samt staðið fjær mér en bilið er heimsenda á milli, frá austri til
vesturs veraldarinnar.
Ég sneri mér
undan og beindi athyglinni að hópi Húna. Af hverju voru þeir sí og æ
á hestbaki? furðaði ég mig. Þeir spjölluðu saman og þeir skemmtu sér
saman á hestbaki, jafnvel hölluðu sér út af á hestbaki, rétt eins og
við teygjum úr okkur á góðum legubekk.
En áður en ég
vissi af var ég enn tekinn að einblína á tjaldið. Gamall Húni,
hvítur fyrir hærum, sat fyrir framan það á nautshúð sem hafði verið
breidd á grasið; var nefið á honum svo útflatt að það hefði ekki
verið kallað því nafni nema fyrir kurteisissakir. Á hann vantaði
líka aðra höndina. Síðar átti ég oft eftir að sjá slíkar gamlar,
lemstraðar stríðskempur.
Herramaðurinn
gamli sat þar hinn rólegasti á meðan tvö lítil börn léku sér í
kringum hann, annað um það bil sex ára gamalt og nú þegar með
andlitið örum rist, hitt ef til vill þriggja ára en ekki enn orðið
afmyndað í framan.
Eldri krakkinn
lék sér með trésverð og skjaldbökuskel sem hann bar fyrir sig sem
skjöld. Sá yngri var aðeins í treyjugopa einum fata og valhoppaði í
kringum herramanninn gamla — en herramaður hefur hann áreiðanlega
verið eftir því að dæma hvernig hárið á honum var tvinnað saman í
þrjá spena, einn yfir enni og tvo sem féllu yfir gagnaugu og vanga.
Vörður stóð fyrir dyrum og hallaði sér fram á spjót sitt sem hann
þrýsti í jörð.
Og þá heyrði ég
óm af rödd út um gluggann: „Sólargeislinn minn, anginn minn litli!“
Það fór fiðringur um mig allan.
Yngra barnið
brosti upp í gluggann, til Móeikar, sem var þá þar.
Og rétt á eftir
var hún komin út, fjaðurmögnuð í hreyfingum, og enn fannst mér hún
líða um loftið líkust fiðrildi. Hún var hvítklædd og í rauðum
stígvélum; hárið féll henni niður á mitti í einni hvítri fléttu.
Hún kom með
mjólk í litlum silfurbikurum og á eftir henni fylgdi berfætt stúlka,
á að giska þrettán ára gömul og var ambátt, og hélt hún á nokkrum
girnilegum ávaxtakökum. Börnin drukku mjólkina og hámuðu í sig
kökurnar af mikilli lyst. Móeik hreiðraði um sig á nautshúðinni og
tók minni krakkann til sín í kjöltuna. Hún þurrkaði honum um munninn
með hvítum klút og kjassaði búlduleitt andlitið. „Sólargeislinn
minn! Ástin mín!“
„Við skulum
halda,“ sagði ég við félaga mína. „Höldum til baka!“
5.
Það var komið hádegi þegar
húsbændur okkar sneru aftur og voru með þeim í föruneyti fimm
klyfjaðir húnverskir þrælar. Bar einn kálf á herðum sér, annar
hveitisekk, sá þriðji tvo héra. Voru herramennirnir hinir kátustu.
„Zeta,“ sagði
húsbóndi minn þegar ég heilsaði honum og vildi færa honum
blómknippið. „Ég er að hugsa um að leysa þig undan þeirri kvöð að
hafa til matinn handa okkur. Farðu heldur og tíndu meira af þessum
liljum vallarins — og hafðu þær margar — og gefðu drottningunni nú
síðdegis.“
Að stundu
liðinni var ég búinn að tína körfufylli af liljum. Ég tíndi líka
nokkrar fjólur, og mér til gamans bjó ég vel um blómin í rúmgóðri
körfunni með grasblöðkum og fáeinum burknum, og skal ekki orðlengja
það, að þegar upp var staðið hafði karfan tekið slíkum stakkaskiptum
að hún var orðin líkust brúðarsveig á stærð við vagnhjól!
„En hve
fagurlega gert!“ Húsbóndi minn var yfir sig hrifinn. „Færðu henni
þetta eins og það er, nema bættu við dálitlu af grösum til að hylja
betur körfubrúnina.“
Brátt var verkið
fullkomnað og ég arkaði af stað með körfuna á höfði mér.
Á leiðinni hét
ég sjálfum mér að gjóa ekki einu sinni augunum á tjaldbúð Kata, sem
var skammt frá húsi drottningar og lá mjór skeifulaga stígur á
milli, um það bil fimmtíu skref lengdar. Var stígurinn eitt
forarsvað eftir rigninguna.
Hvað eins og mér
komi þetta tjald við, hugsaði ég. Nei, ég hvarfla ekki einu sinni
augunum að því. En sem ég nálgaðist tjaldið hugsaði ég með mér að
það hlyti að vera óhætt að horfa þangað rétt einu sinni. Ég fengi
hvort eð er aldrei framar tækifæri til að sjá hana aftur...
Ég tók körfuna
ofan af höfði mér, svo sem ég hygðist staldra við rétt til að kasta
mæðinni, hélt henni undir handleggnum — gekk þá í átt til tjaldsins.
Ambáttin unga,
sem hafði komið út með kökurnar handa börnunum um morguninn, var að
sáldra þurrum, sendnum jarðvegi úr körfu yfir stíginn; en hún var
ekki með nóg nema til að þekja um þriðjung af stígnum og fór því
eftir meira.
Í sama mund
birtist Móeik. Kom út úr tjaldinu, eins klædd og um morguninn en var
nú einnig með silkislæðu um hárið og svo síða að slæðan dróst á
eftir henni. Hún lyfti pilsfaldinum og gekk varfærnum skrefum út á
stíginn í átt til mín. Í átt til mín!
Enn þann dag í
dag sé ég mér fyrir hugskotssjónum stígvélin tvö smáu og rauðu og
andlitið blíða. Stígvélin sem taka skrefin af svo mikilli mýkt;
andlitið svo rjótt sem ferskjublómstur, með augum dökkum og
dreymandi ... sé hana fyrir mér, hvar hún nálgast mig, skref fyrir
skref...
Hún bar höfuðið
hátt, og þegar sandsáldrinu sleppti og leðjan tók við hikaði hún
eins og hind í skógi. Hún beið þjónustustúlkunnar. Ef til vill
hugðist hún ávíta hana fyrir að vera ekki búin að sáldra yfir allan
stíginn.
Það var eins og
mér væri gefið olnbogaskot. Ég stakk hendinni ofan í körfuna og
dreifði blómum yfir stíginn fyrir framan hana. Ég gaf henni ekki
einu sinni auga, rétt eins og þetta ráðslag mitt hefði ekkert með
hana að gera, hélt einungis áfram að hrista körfuna og sáldra blómum
yfir svaðið á stígnum.
Það var nóg í
körfunni til að mynda heilt blómahaf alla leið að dyrum drottningar,
þar sem ég nam staðar. Mér þótti sem logi færi um mig allan. Hjartað
barðist í brjósti mér. Ég vogaði mér ekki að líta upp heldur stóð
stífur í sömu sporum og hrærði hvorki legg né lið, líkt og ég stæði
fyrir rétti og ætti yfir höfði mér dóm fyrir glæpsamlegt athæfi.
Þá heyrði ég að
hún nálgaðist, eftir blómskrýddum stígnum. Og ég leit upp. Og einnig
hún, þegar hún var komin til mín þar sem ég stóð.
Einmitt þannig,
eins og hún horfði á mig, stafar sólin geislum sínum gegnum
laufkrónur trjánna. Hún horfði á mig blikandi augum og brjóst mitt
fylltist fögnuði. Svo glaður — en í senn hryggur — horfði ég á hana
og trúði vart mínum eigin augum.
En tillit hennar
varði aðeins fáein, skammvinn augnablik. Þá gekk hún upp að dyrunum
og ég mændi á eftir henni ringlaður. Það var ekki fyrr en hún var
horfin sjónum, að ég gerði mér ljóst, að hefði einhver Húni rennt
minnsta grun í hvað mér gekk til, hefði sá hinn sami samstundis lagt
mig í gegn, með augnaráðinu einu.
En enginn
stuggaði við mér. Knaparnir héldu áfram spjalli sínu án þess að
veita mér nokkra sérstaka athygli. Gamli karlinn hafði séð til okkar
en virtist ekki sjá ástæðu til að kippa sér upp við neitt. Ef til
vill stóð hann í þeirri trú að ég væri að framfylgja skipunum.
Ég hélt leiðar
minnar og var fremur létt í sinni. Í útjaðri þorpsins heyrði ég að
kallað var á eftir mér barnslegri röddu: „Hæ, hó! Þjónn!“
Ég sneri mér við
og sá að það var ambáttin unga, sem hafði verið að sáldra á stíginn
fyrir Móeik. Hún veifaði til mín.
„Talar þú
húnversku?“ spurði hún, móð og másandi.
„Já, það geri
ég,“ svaraði ég eins og í svefnrofunum, „já, lítilsháttar.“
„Mín unga
hefðarmær vill að þú komir til baka. Hún vill færa þér svolítið að
gjöf fyrir þjónustu þína.“ Hún hló. Hún var með brúnt hár og ósköp
heimóttarleg fannst mér, var horuð og með sótbletti framan í sér —
einasta óskammfeilin stelpurófa.
„Skilaðu því til
þinnar ungu hefðarmeyjar,“ sagði ég, svo virðulegur í fasi sem mér
var unnt, „að ég er enginn þjónn. Ég er ekki þar með að segja að ég
sé einhver hefðarmaður, því það er ég vissulega ekki heldur. En
þjónn er ég ekki. Og ég heiti Zeta.“
Að svo mæltu
sneri ég í hana bakinu, stoltur í bragði, og hélt leiðar minnar.
6.
Þegar ég kom til baka voru
herramennirnir byrjaðir að snæða hádegisverð. Angan af steiktu
kálfakjöti lagði fyrir vit manns. Prískus leit spyrjandi á mig. Við
þekktum svo vel hvor annars hug að oft á tíðum voru orð óþörf.
„Hverju svaraði drottningin til?“ las ég úr augum hans. „Var hún
ekki glöð yfir blómunum?“
Aldrei nokkurn
tímann hafði ég sagt eitt einasta ósatt orð. Prískus hafði veitt mér
svo gott uppeldi að mér þóttu lygar andstyggilegar. En núna svaraði
ég: „Drottningin,“ og leit undan, „hún talaði reyndar ekki við mig
sjálf, en lét skila kærum þökkum.“
Þegar ég heyrði
lygina streyma af vörum mér átti ég allt eins von á því að tungan
rifnaði úr mér með rótum eða að jörðin tæki að skjálfa undir fótum
mér, en hvorugt gerðist. Herramennirnir héldu samræðum sínum áfram
léttir í lund svo að ég settist þá líka að snæðingi fyrir framan
tjaldið, sakbitinn og sálarhróið allt úr skorðum.
Ég svaf illa um
nóttina, og húsbóndi minn einnig. Hann hafði ekki á heilum sér tekið
síðan við komum inn á yfirráðasvæði Húna. En ég var þá fyrst gripinn
hugarvíli þegar stúlkan húnverska hafði mætt sjónum mínum og verið
friðlaus upp frá því, hvern dag og hverja nótt. Þessa nótt, um
miðnætti, þegar ég hugði að hann svæfi, mælir hann allt í einu til
mín:
„Þú grætur. Hvað
gengur að þér? Hefur einhver verið að áreita þig?“
Ég vissi ekki
hverju svara skyldi og var orðlaus um stund. „Ó, herra minn,“ stundi
ég loks. „Ef þér aðeins vissuð hve ég er vansæll.“
„Hver hefur
verið að áreita þig?“ spurði hann þá og reis upp við dogg þegar ég
svaraði engu. „Trúðu mér — hver sá sem það hefur verið, skal sjá
eftir því.“
„Enginn hefur
áreitt mig, herra minn. Ég var aðeins að hugsa um hlutskipti mitt í
þessu lífi.“
„Hlutskipti
þitt?“ hafði hann eftir mér, forviða. „Hefur þér þá hlotnast svo
slæmt hlutskipti að þú hafir ástæðu til að gráta?“
„Herra,
misskiljið mig ekki. Góðvild yðar er mér jafn mikils virði og
sólskinið lífinu. Og er ég þó ekki maklegur yðar minnsta tillits.
Þegar ég hugleiði með hverjum hætti ég var seldur í þrældóm í æsku,
kemst ég að raun um að til einskis var það að þér gáfuð mér frelsi,
því eftir sem áður er ég sama árans vesalings ræsknið...“
Ég varð þess
áskynja hve tal þetta ýfði hugsanir húsbónda míns og þagnaði. Þetta
var óráðshjal.
Um hríð þögðum
við báðir, þá sagði hann: „Zeta, sonur minn, ég hélt ég þekkti þig.
Því ég hef fylgst með þér vaxa úr grasi, rétt eins og með
kýprusviðnum sem ég gróðursetti þann sama dag og ég festi kaup á
þér. En núna — ég þekki þig ekki fyrir sama mann, Zeta. Mér er það
með öllu óskiljanlegt hvað hefur valdið þessum glundroða í sál
þinni.“ Hann þagnaði.
Hann sofnaði en
ég hugsaði um hvaða lygi ég gæti borið fyrir mig morguninn eftir. Ég
mundi segjast hafa fengið martröð...
Og á meðan
horfði ég út um tjaldgættina á blikandi stjörnurnar. Og Móeik
birtist mér... Því að ég þarf aðeins að lygna aftur augunum, þá sé
ég hana ætíð fyrir mér. Í hvítu pilsi og rauðum stígvélum gengur hún
braut sína smáum skrefum; og þegar hún kemur til mín, horfir hún á
mig, dökkum, tindrandi augum...
7.
Enn var nær myrkt af nóttu þegar við vöknuðum við
lúðraþyt. Maxímínus hafði ákveðið að við skyldum tygja okkur strax í
dögun. Mig verkjaði í höfuðið, mér hafði varla komið dúr á auga um
nóttina. En þegar ég hafði búið um rúmfatnaðinn og veitt aðstoð við
að taka tjaldið okkar niður hafði ég enn tíma til að fá mér
sundsprett í vatninu og var orðinn hress og sprækur þegar ég kom til
baka.
Svo riðum við af
stað. Við fórum fyrst framhjá húsi drottningar, en eins og gefur að
skilja varð mér lítt starsýnt á eitthvert drottningarhús.
Vagnar voru
fyrir framan tjald Kata. Þrælar voru að taka það niður og rúlla því
saman utan um tjaldsúlurnar. Voðum og brekánum hafði þá þegar verið
pakkað saman og sett í klyfjar á bak burðarklárum sem risu vart
undan byrðunum. Svo að fjölskylda Kata var þá líka að ferðbúast! Ef
til vill mundu leiðir liggja saman!
Í fyrstu
gladdist ég; reyndi svo að koma fyrir mig vitinu. Eða var ég orðinn
eitthvað verrri — að geta ekki slitið hugann frá stúlku sem, þegar
allt kom til alls, var gætt af sjálfum böðlinum! Engu að síður dróst
ég aftur úr félögum mínum á leiðinni, hvað eftir annað. Við hverja
bugðu og beygju dokaði ég við og leit til baka, ef vera kynni að þau
kæmu sömu leið. Það bar engan árangur þó að ég reyndi að tala um
fyrir sjálfum mér; þótt ég einsetti mér margsinnis að halda mig við
hlið húsbónda míns og gleyma þessari stúlku, þá tók hjartað jafn
skjótt að berjast í brjósti mér, æ ofan í æ. Aðeins einu sinni enn!
Mætti ég aðeins í eitt einasta skipti enn fá staðið fyrir augliti
hennar, svo sem grasið þegar sólin bergir döggina, svo ég jafnvel
hina lengstu nótt í minni hinstu hvílu mætti eiga mér hana fyrir
draum.
Mundu þau ekki
fara að koma? Enn dróst ég aftur úr og reið nú í gagnstæða átt — til
að fá séð hana! Ég verð — jafnvel þótt ég byggi mér sömu örlög og
Díli. Ég varð að fá litið hana augum, aðeins einu sinni enn!
Í þrjár stundir
reið ég í sömu gagnstæðu áttina. Það var nær heiðskírt og sólin
stafaði geislum sínum yfir grænan vorskrúðann. Storkar flugu í
krákustígum yfir ánni. Loks fékk ég komið auga á hina húnversku
þjónustusveina þar sem þeir skokkuðu með vögnunum. Í brjósti
fylkingar fóru vopnaðir Húnar ríðandi og glitraði sólskinið á
málmseymuðum beyslistaumum líkt og gneistaflug af steðja járnsmiðs.
Því næst fylgdi
vagn lokaður að hluta með mjúkum ábreiðum og dreginn af fjórum
hestum. Kona Kata og gamli karlinn sátu í honum og unga ambáttin og
börnin tvö gegnt þeim. Seinna komst ég að því að kona Kata var
stjúpmóðir Móeikar. Móeik fór ríðandi samsíða vagninum og fylgdu
einir tuttugu þrælar á eftir.
Ég nálgaðist þau
á rólegri reið, og þegar ég var kominn á móts við þau steig ég af
baki og tók mér hæversklega stöðu við vegarbrúnina.
„Eitthvað að hjá
ykkur,“ kallaði einn Húnanna. „Hafið þið týnt einhverju?“ Þeir sáu
það á því hvernig ég var klæddur að ég tilheyrði sveit Rómverjanna.
„Já,“ svaraði ég
kurteislega. „Við höfum týnt knippi af tjaldhælum. Þið munið víst
ekki hafa veitt því athygli vænti ég?“ Og þegar vagninn með fólki
Kata fór hjá, hneigði ég mig djúpt, lyfti svo höfði og horfði á
stúlkuna. Hún sat hestinn sem karlmaður væri, en sítt pilsið huldi
lendar hestsins og neðanverðan makka. Hún var með höfuðbúnað er
minnti á hlað eða vefjarhött og var úr einhvers konar léttu og ljósu
efni og um hárið bylgjaðist gegnsæ silkislæða.
Hún leit undan
og fákurinn tölti hjá. Hann virtist vera sér þess meðvitaður hver
sat hann eftir því að dæma hve glæstur gangurinn var.
Enn um hríð reið
ég í gagnstæða átt, sneri þá við og fylgdi þeim eftir og rýndi í
hófförin eins og ég þættist geta skorið úr um hver væru eftir hest
Móeikar. Eftir stundarreið sá ég, enn á ný, hvar Tísjuá blikaði í
fjarska, og nú næstum því hvarf gatan í hávöxnu túngresi. Tísjuá
bugðaðist um grundirnar líkt og endalaus ormur og á köflum hvarf
fljótið sjónum fyrir þéttvöxnum víði.
Ég var sæll og
glaður, því jafnvel úr þessum fjarska gat ég séð til Móeikar allan
tímann. Knapinn prúði með vefjarhöttinn hvíta barst áfram með fólki
sínu eins og vatnalilja í lygnum straumi.
Þá veitti ég því
allt í einu athygli að hún tók sig út úr hópnum og lét gamminn geysa
út um grundirnar. Drjúgan spöl fór hún á harðastökki, lét hann þá
brokka um stund í hringi, hleypti þá enn á sprett eða lét hann
einasta fara fetið. Þannig lék hún listir sínar á reiðskjóta sínum,
tók svo stefnuna niður að ánni og brynnti honum. Og ég horfði á hana
og fann hve hjartað ólmaðist í brjósti mér, eins og blési strítt
undan vængjum hrossagauks! Mér þótti sem hún væri að leika listir
sínar mín vegna.
Ég nam staðar á
árbakkanum þar sem víðirinn óx og sá þá — sem ég hafði einmitt vonað
— að hún tók strikið beint í átt til mín. Hún hallaði sér fram í
hnakknum og var við það að fljúga. Fljúga — til mín!
Ég steig af baki
og hugðist heilsa henni, og ekki fyrsta sinni; og sem ég stóð þar og
sveið í augun, kom hún aðvífandi og rykkti í taumana.
Ég hneigði mig.
„Þræll!“ sagði
hún drembilát. „Heitir þú Zeta?“
„Já, mín kæra
yngismær.“
Og ég tók um
taumana og hélt við fnæsandi fákinn svo að hann tæki ekki að prjóna.
Hún horfði á mig. Tillit hennar var svo töfrandi og tignarlegt að ég
skalf frá hvirfli til ilja, eins og spörvi í luktum lófa manns.
Hún spurði og
enn horfði hún á mig: „Varst það þú sem sáldraðir blómum á leið
mína?“
„Það var
forarleðja á stígnum,“ svaraði ég afsakandi, „og leðjan svo djúp —“
„Og af hverju
vildir þú ekki þiggja neitt að launum?“
„Af því ég átti
það ekki skilið. En það vil ég að þér vitið, að ég er enginn þræll.
Ég þjóna húsbónda mínum af þeirri ástæðu einni að mér þykir vænt um
hann, af því að hann hefur verið mér sem faðir...“
Ég stamaði og
mig rak í vörðurnar. Hún aðeins horfði á mig af kaldri rósemi.
„Ég kæri mig
ekki um að vera þér skuldbundin,“ sagði hún. „Þú skalt láta móður
mína vita af þér þegar þú ríður hjá. Ég er búinn að segja henni frá
því sem þú gerðir; þú skalt þiggja það sem hún færir þér.“
„Ég bið yður að
afsaka, mín kæra yngismær,“ sagði ég, og enn hneigði ég mig. „Ég
mundi vilja hlýða yður í einu og öllu, lúta skipunum yðar — allt til
dauða, ef þér æsktuð svo. En þessu get ég ekki hlýtt. Ef þér viljið
ekki vera mér skuldbundin ... viljið þér þá ekki allra mildilegast
lofa mér að snerta pilsfald yðar með vörum mínum?“
Hún svaraði
engu. Ef til vill var hún að íhuga hverju svara skyldi. En ég kraup
á kné og kyssti faldinn auðmjúkur en glaður í sinni.
Og sem ég leit
upp og horfði á hendur hennar, hvíslaði ég nær örvita: „Ó, að mér
aðeins leyfðist að kyssa einnig á hönd yðar — á yndislega hönd
yðar...“
„Þú óskammfeilni
—“ hvæsti hún, og úr augum hennar stóðu eldglæringar: „Óskammfeilni
hundur!“ — og um leið keyrði hún svipuna þvert framan í mig.
Ég féll um koll.
Mig logsveið undan strokunni og varð þess áskynja að blóð vætlaði
niður hálsinn.
Stúlkan gaf
hestinum lausan tauminn og var samstundis á burt, en ég settist
flötum beinum á vegarbrúnina og starði út í buskann eins og kjáni
úti á þekju. Hjartað sló hægt og þyngslalega, það var eins og
marrandi mylnusteinn snerist í brjósti mér.
Hve lengi ég sat
í þessum stellingum hef ég ekki hugmynd um. Mér leið eins og
jörðinni hefði verið kippt undan fótum mér. Hvað hafði ég gert
rangt? Var það svo glæpsamlegt að kyssa á eina hönd? Jafnvel hönd
hennar var aðeins hönd. Og var ekki koss á hönd einmitt til tákns um
virðingu? Ég hlaut að vera orðinn eitthvað ruglaður. Fegurð hennar
hafði sett glýju í augu mér, svo fullur þrár ég var að mega kyssa á
hönd hennar. En gat það kallast glæpur? Og mundu ekki leiðir okkar
hvort sem er hafa skilist? Og við þá kannski aldrei átt þess neinn
kost að sjást framar í þessu lífi; mundum jafnvel hafa gleymt hvort
öðru.
Þá heyrði ég
hófadyn og vaknaði af hugarvílinu. Ég hélt fyrst að það væri
hesturinn minn, tekinn á rás, en svo var ekki; hann var á beit hinn
rólegasti. Nei, það var stúlkan komin til baka.
Hún nam staðar
fyrir framan mig. En ég leit ekki upp. Heiftin hafði blossað upp í
mér eins og dumbungsský væri lostið eldingu. Hún hafði lítillækkað
mig, smánað mig. Jafnvel þó að hún hefði verið dóttir Júpíters en ég
kálfur einn, hefði hún samt enga ástæðu til að keyra í mig ólina.
„Zeta,“ ávarpaði
hún mig hlýjum rómi, „þú ert ágætis piltur. Það er ekki við þig að
sakast þótt þú hegðir þér kjánalega. Í landi þínu eru siðir ef til
vill aðrir en á meðal okkar... Hérna, þú skalt vefja þessu um sárið
—“
Hún reif stykki
úr slæðu sinni og rétti mér.
Ég sýndi engin
viðbrögð. Virti hana ekki einu sinni viðlits.
Hún hélt á
slæðubútnum útréttri hendi nokkur andartök, lét hann þá falla til
jarðar. Keyrði síðan hestinn úr sporunum.
Hvort hún ekki
mátti! Hvaða rétt hafði hún til að gera svo lítið úr mér?
Húnakonungur var enginn kóngur minn, þeir húnversku herramenn engir
herrar mínir. Og þó að hún léti sem henni þætti miður, þá yrði
óafmáanlegt örið á andlitinu því æ til vitnis sem hún hafði gert
mér. Nei, ég skyldi lítillækka hana — og ég gekk hægum
skrefum niður að ánni og þvoði blóðið framan úr mér.
Þá heyrði ég enn
hófadyn. Ég leit upp. Það var hún, komin enn á ný. Ég gekk til móts
við hana, staðráðin í ásetningi mínum.
Hún stoppaði og
hnykkti slæðunni aftur fyrir bak.
„Ég er komin
aftur,“ sagði hún hlýlega, „af því að þú ert mér reiður. Ég má ekki
til þess hugsa að neinn sé mér reiður — ég vil jafnvel að dýrunum
þyki vænt um mig. Og þess vegna ... hér hefurðu hönd mína, þú mátt
kyssa á hana.“
„Þakka yður
fyrir,“ svaraði ég stoltur í bragði, „en núna kæri ég mig ekkert um
það.“
Hún fölnaði og
skuggi seig yfir brár hennar. Stolt og þrjóskufull horfði hún á mig,
og ég á móti og hvikaði hvergi. Þannig stóðum við gegnt hvort öðru
nokkur andartök, augliti til auglitis. Þá tók hún um taumana og gaf
hestinum undir nára. Hún reið burtu á rólegu skeiði.
8.
Um hádegisbil daginn eftir
dró vagneyki Kata okkur uppi. Ef til vill höfðu þau tekið morguninn
fyrr, en við höfðum tafist sökum þess að einn af hestum okkar hafði
örmagnast.
Lávarðar vorir
stilltu hestunum upp meðfram vegarbrúninni og bugtuðu sig lítillátir
fyrir hersingu Húnanna. Ekki var ég á meðal þrælanna heldur með
húsbónda mínum.
Eins og fyrri
daginn var Móeik ríðandi. Hún var eins til fara nema að nú hafði hún
vafið vefjarhöttinn hærra og stungið í þremur hegrafjöðrum.
Að ég aðeins
væri málari og gæti tjáð það í litum á lérefti hve tígulega þessi
hrífandi mær sat hest sinn, jarpan óstýrilátan folann. Himinblá
silkislæðan flökti um álfakroppinn mjóa; stígvélin tvö smá og rauð
stóðu í gullnum ístöðunum.
Ég hef oft reynt
að draga upp mynd af henni, á töflur jafnt sem hvítan papýrus og er
hreint ekkert svo lélegur teiknari. Nema þá aðeins að ég reyni að
teikna hana. Þá bregst mér bogalistin og engin mynd verður á því —
hvorki af henni né hestinum... Samt sé ég hana alltaf fyrir mér
ljóslifandi þá grönnu mynd, svo skýra sem mína eigin í spegli.
Þau fóru hjá og
tóku undir kveðjur okkar, og einnig Móeik. Hún hnykkti slæðunni
aftur fyrir bak og kinkaði kolli þokkafull til sendimanna vorra — og
hvort ég ekki fann til þess þegar hún hvarflaði augum yfir hópinn og
tillit hennar bókstaflega stirðnaði þá er hún leit á mig; sem hún
lagði því í gegnum mig, svo köldu. Á því augnabliki varð ég þess
áskynja að mér var ekki lengur hatur í hug. Þá þótti mér miður að
hafa hafnað framréttri hendinni, að hafa ekki kysst á hana. En innra
með mér hafði ég upplifað fund okkar á ný og í hugarheimum kysst á
hana — svo fullur fögnuðar að eins hafði mér aldrei verið
innanbrjósts. Það var draumakoss sem hafði ekki horfið mér af vörum.
Núna, þegar ég sá hana að nýju, fann ég enn til hans.
Hve einkennilega
gerð eru ekki svipmót vorra mannanna? Hver dráttur í andliti hennar
var óhagganlegur að sjá, og líkt hefur verið á komið fyrir mér.
Þegar hún leit mig augum hefur hún trúlega ályktað að undir
huliðshjúpnum byggi hatur eitt. En hvað var fólgið undir hennar?
Skyldulið Kata
varð ekki aftur á vegi okkar á leiðinni.
Á sjöunda degi
sáum við djarfa fyrir flokki vegfarenda yfir öxum hveitiakurs, fóru
þar menn búnir hvítum vefjarklæðum er blöktu í golunni.
„Það eru
Rómverjar!“ hrópuðum við upp yfir okkur kampakátir, þótt við hefðum
ekki látið svo lítið sem skyrpa á þess kyns labbakúta heima fyrir!
Þeir voru hvorki
meira né minna en erindrekar Hins vestrómverska keisaradæmis sem þar
fóru. Okkur framandi menn. En á hinni endalausu flatneskju sem
Húnarnir réðu þótti hvorumtveggja full ástæða til að skiptast á
kveðjum svo sem allir værum vér börn við brjóst sömu móður.
„Salvus sis!
Salve!“
Herramennirnir
féllust í faðma. Þrælar tókust í hendur. Og í framhaldi af innilegum
kveðjunum var nú skipst á orðum á latneskri tungu.
Fyrirliði
sveitarinnar hét Rómúlus, dökkhærður tignarmaður, kinnfiskasoginn og
með ábúðarmikið nef. Ásamt honum fóru fyrir liðinu Rómanus
yfirforingi, kátur og vingjarnlegur karl með hrafnsvart yfirskegg,
og grásköllóttur tignarmaður, Prómótus landstjóri Pannóníu.
Erindi þeirra
var ekki síður erfitt úrlausnar en okkar. Attíla hafði gert þá kröfu
á hendur keisaranum vestra að sér skyldu látnir ákveðnir gullgripir
í té, nokkuð sem hinn rómverski Valentíníanus mundi hafa látið honum
eftir með glöðu geði og svo marga sem Húnanum þóknaðist að taka við;
en Attíla hafði einungis gert kröfu til gripa nokkurra er höfðu
horfið á meðan á umsátrinu um Sirmíum stóð. Sá fingralangi hafði
verið einn af sjálfum skrifurum Attílu og hafði vélað gullið úr
höndum biskupsins yfir Sirmíum á afar vafasömum forsendum og síðan
selt það til ábata sjálfum sér í hendur rómverskum veðmangara,
Silvanusi að nafni. Jafnskjótt og Attíla hafði haft veður af
gripdeildunum hafði hann látið stjaksetja skrifara sinn og jafnframt
sett Valentíníanusi úrslitakosti: Annað hvort skyldi Silvanus
framseldur ellegar gullið afhent!
Og nú voru
Rómverjarnir á leið til hans með svar keisara síns, þess efnis, að
Silvanus hefði goldið fyrir gripina í góðri trú; en þar sem þeir
heyrðu kirkjunni til kysi hann, keisarinn, að greiða andvirði þeirra
í sláttumynt — ef þess væri nokkur kostur.
Því var það að
umboðssveitirnar tvær fylgdust að til höfuðborgar Attílu og styttu
hvor annarri stundir á leiðinni.
Ég nefni staðinn
borg þó að engri slíkri væri hann líkur. Kirkjur voru þar engar eða
marmarahallir, né heldur steinbyggingar eða steinlögð stræti. Aðeins
tvö mannvirki úr varanlegu efni voru sjáanleg. Skáru þau sig úr
aragrúa tjalda þar sem þeim hafði verið valinn staður á hæð einni og
voru gerð úr timbri, gul á lit og státuðu meira að segja af
turnspírum. Á að líta virtust byggingar þessar vera hin mestu
hrófatildur og svo gisin að sjá úr fjarska að þau virtust hin
ákjósanlegustu sem dúfnahús ellegar búr fyrir fálka.
„Hvaða mannvirki
eru nú þetta?“ spurði ég.
„Annað er
aðsetur Attílu,“ svaraði leiðsögumaður okkar — og bar fram nafnið
Attíla lotningarfullum rómi. „Hitt er bústaður
yfirhershöfðingjans.“
Umhverfis báðar
hallirnar voru marglitir tjaldskógar. Töldu þeir tíu þúsund tjöld?
Eða hundrað þúsund? Milljón? Engum hefði enst aldur til að kasta
tölu á þau!
Við hvert tjald
stóðu knippi af heyi og hálmi upp á endann, og á milli tjaldanna
voru nokkur stök hús er álengdar virtust vera hvít á lit en voru
reyndar aðeins moldarkofar með stráþökum, og í þeim bjó enginn.
Í útjaðri
bæjarins voru nokkur hundruð járnsmiða að starfi, sótsvartir upp
yfir haus. Daginn inn og daginn út stóðu þeir með hamarinn í höndum
sér að smíða skeifur og örvarodda í reykjarsterkju af sviðnum hófum
og tjörueldi. Óteljandi hross voru á beit í högum ásamt sauðahjörðum
og nautpeningi. Hundar flöðruðu upp um okkur og á hverju götuhorni
flykktust að okkur skarar barna.
Rauð veifa
blakti við hún á hallarsetri yfirhershöfðingjans, og sögðu okkur
Húnar er höfðu komið til móts við okkur og fylgt okkur síðasta
spölinn að það væri til marks um að hann væri í bænum —
hershöfðinginn sá er okkur hafði verið skipað að bíða heimkomu.
Hvar skyldum við
slá upp tjöldum okkar? Leiðsögumennirnir vildu fara með okkur inn í
miðja borg en lávarðar vorir töldu hyggilegra að bíða utan
borgarmarkanna þar til einhver fyrirmanna Húna hefði valið okkur
hentugan stað. Við stöðvuðum því eykin og slógum upp skyggni úr
tjalddúk til að bíða undir í forsælunni.
Nú var að vita
hvenær yfirhershöfðinginn vildi veita okkur áheyrn og riðu því þrír
okkar, húsbóndi minn, Rústíkus og ég, í fylgd leiðsögumanns inn í
bæinn. Þá komst ég að raun um hvers vegna mér hafði virst þessi
höfðustaður Attílu svo afar stór — það sem hafði virst líkast
þéttvöxnum skógi úr fjarlægð, var borg tjalda sem vissulega
var all skipuleg, en tjöldin voru á víð og dreif, með góðu bili sín
á milli þar sem hey- og hálmknippin stóðu upp á endann og eldstæði
voru. Við framanverð tjöldin voru konur við bakstur og matseld og að
annast um börnin sín, og á milli tjaldanna voru einnig víða kýr og
hross á beit. Þarna þurrkuðu þær líka fatnað og eins höfðu staurar
verið reknir niður í jörðina til að hengja kyrnur og keröld á til
þerris. Sjálft tjaldið var aðeins svefnstaður og til skjóls fyrir
regni og vindum, en annars var dvalist úti við svo lengi sem sól var
á lofti. Börnin léku sér úti, konur og þrælar unnu verk sín úti,
jafnvel gamalt fólk og lasburða lá úti á berri jörðinni, eða í besta
falli á dýrshúðum.
En karlarnir,
þeir hópuðust saman á götunum og þá á hestbaki — einlægt voru þeir á
hestbaki; þeir gerðu ekki handtak en spjölluðu því meir saman og
deildu um stjórnmálin og gerðu kaup sín á milli, eða fóru á veiðar
ef svo bar undir, eða öttu kappi hver við annan á fákum sínum, eða
þeir settu stríðsleiki á svið og æfðu drengi sína í vopnaburði. Og
að sjálfsögðu átu þeir og drukku — ekki síst drukku!
Það var ekki
síður athyglisvert hvernig segja mátti til um stærðir fjölskyldna
eftir því á hvern veg tjöldunum var raðað saman. Sumsstaðar mynduðu
tvö eða þrjú tjöld eina heild, reist þétt saman, og heyrði þá hið
stærsta til höfði fjölskyldunnar en fuglarnir úr hreiðrinu bjuggu þá
ásamt mökum sínum í hinum minni. Var eldamennskan þó sameiginleg með
öllum úr sömu fjölskyldu.
Eftir því sem
við þokuðumst nær aðsetri konungs einkenndist byggðin æ meir af
stærri og íburðarmeiri tjöldum. Voru þau ýmist reist á ferhyrndum,
fimmhyrndum eða sexhyrndum trjápöllum sem húðir voru breiddar á eða
þykkir hærudúkar, og við hún eða yfir inngangi tróndu tákn
fjölskyldna eða skjaldarmerki. Oftast nær var um einfalda táknmynd
að ræða, sem gat verið hestshaus, storkur, stjarna, rós, kross,
hringur. Var myndin ýmist saumuð út í tjaldið sjálft eða höfð uppi í
áþreifanlegu eigin sköpulíki; þá til dæmis ör, hrútshaus eða hófur.
Það var því augljóst að Örvarfjölskyldan bjó í þessu,
Hrútarnir í hinu eða Hófarnir þarna. Því aðeins að
táknmerkin væru á stöngum voru þau ekki skjaldarmerki fjölskyldna
heldur til leiðsagnar um einhverskonar iðn eða höndlun sem þar ætti
sér stað. Þannig var ilskór til tákns um hvar skóarann væri að
finna, tjaldgerðarmaðurinn hafði uppi tvær tjaldsúlur í kross,
trésmiðurinn skaröxi, bogsnikkarinn boga rauðmálaðan, feldskerinn
lítinn gæruserk, vopnasmiðurinn sverð, járnsmiðurinn hófa — og var
þó fjöldinn allur af Húnum sem létu aldrei járna hrossinn sín.
Fjöldi þræla var
á stjákli kringum tjöld athafnalífsins, og þegar á allt var litið
stafaði ævintýralegum ljóma af þessu höfuðvígi Attílu Húnakonungs —
og var raunar ævintýri í sjálfu sér. Eða var ekki þessi höfuðpaur
Húna á góðri leið með að leggja undir sig hálfan heiminn?
Á meðal
hestamannanna voru margir með sárabindi um höfuð eða handleggi. Einn
þeirra kastaði kveðju á leiðsögumann okkar: „Guð veiti þér styrk,
Hjörtur!“
„Og þér
langlífi!“ svaraði Hjörtur. „Mikið er gaman að hitta þig aftur!“
Þeir tókust í hendur og skiptust á fleiri orðum.
„Þeir eru rétt
nýkomnir heim úr stríðinu við Akatírana,“ útskýrði leiðsögumaðurinn
fyrir okkur sem við riðum áfram.
„En þú?“ spurði
ég. „Hvers vegna tókst þú ekki þátt í hernaðinum með þeim?“
„Mér var ekki
leyft það,“ svaraði hann. „Einungis þeir lítilsmegandi voru sendir í
stríðið það. Lunginn úr liðinu varð eftir hér heima til að sem
mestur herstyrkur væri til staðar ef herra vor skyldi mæla fyrir um
för á hendur Rómverjum.“
Við skulfum frá
hvirfli til ilja.
„Er ... er þá
Attíla að bollaleggja eitthvað slíkt?“ spurðum við.
„Hann hefur ekki
látið neitt uppi um það — en ætli við getum ekki nærri. Er ekki mest
öll veröldin skriðin undir handarjaðar okkar? Aðeins Rómaveldi eitt
eftir.“
„Og þykir ykkur
trúlegt að þið hafið bolmagn til að knésetja það? Þar er ekki við
alveg sömu smáþjóðina að etja og Akatíra, athugið það.“
Húninn yppti
öxlum. „Smáþjóð eða stórveldi, það kemur í sama stað niður. Sverð
Guðs er í vorum höndum — ekkert sverð af mennskri rót runnið fengi
unnið bug á því.“
„Sverð Guðs —
hvað áttu við með því?“
„Vitið þið það
ekki? Eitt sinn féll sverð af himnum ofan. Ungur hjarðmaður fann
það. Í hvert sinn sem við búumst til stórorrustu tekur Attíla
sverðið sér í hönd.“
„En hvað fær
ykkur til að halda að það sé sverð Guðs í raun og veru?“
„Hvað fær ykkur
til að draga það í efa?“
„Nú, en segjum
að svo væri ekki —“
„Ætli
fræðaþulirnir okkar viti ekki hvað þeir syngja. Sverðið er líka svo
fagurt að enginn mannlegur máttur hefði getað smíðað það. Þegar
drengurinn fann það lék um það blár vafurlogi. Meira að segja Kama
segir það vera af himnum ofan.“
„Og hver er
Kama?“
„Æðsti prestur
vor. Þar hafið þið dýrling! — og öllu helgari en þennan páfa ykkar,
og það upp á hvern einasta dag!“
Við felldum
niður talið þar eð nú hvein í gjallandi hljóðpípum. Og óðara dunaði
tónlist úr tjöldunum úr öllum áttum. Húnverskur piltur stefndi til
okkar fáki sínum sem virtist dansa í takt við hljómlistina. Þrír
flautuleikarar fylgdu honum eftir og blésu tveir þeirra í reyrpípur
við belgflautuundirleik hins þriðja. Pilturinn söng hástöfum og
vingsaði pyttlu og ekki var um að villast að hann skemmti sér
konunglega.
„Dálítið hátt
uppi þessi,“ sagði ég við leiðsögumanninn.
„Ætli hann hafi
ekki bara verið að selja fanga,“ svaraði hann, „og hagnast vel.“
Nú veitti ég
kerrum athygli, sem var farið með um götuna og voru yfirhlaðnar
laufguðum greinum, og tók þá líka eftir því að verið var að skreyta
tjöldin yfir dyrum og við húna með greinum. Ómældu vatni var skvett
á þurra, rykuga götuna og beggja vegna hennar var verið að
gróðursetja tré. Það var ilmur í lofti af rakri mold og grænu
laufinu.
„Segðu mér,“
spurði ég leiðsögumanninn, „er verið að undirbúa einhver
hátíðarhöld?“
„Attíla er
væntanlegur um hádegi,“ svaraði hann.
Timburhallirnar
tvær voru núna á næsta leiti. Mér varð ljóst að raunar voru þessi
hús hrein listasmíði og mikil hagleiksverk á sviði útskurðar.
Bústaður Attílu státaði af heldur meiri íburði, og er nær var komið
sáum við að höllin samanstóð af mörgum húsum sambyggðum. Í miðju var
aðsetur konungs en viðbyggingarnar í kring heyrðu konum hans til og
kóngum sem hann hafði á valdi sínu, og einnig lærdómsmönnum og ýmsum
bandingjum. Í bakgarði hallarinnar voru svo fáein hús sem létu minna
yfir sér, það voru útihúsin — eitt hesthús konungs, annað fyrir
gæðinga kvenna hans, hið þriðja fyrir hross hjúa og heimilisfólks.
Alls voru þetta
um þrír tugir húsa, og þar af á að giska um tuttugu þar sem voru
hýbýli hirðarinnar. Mitt á meðal timburhúsanna var stórt steinhús,
mjallahvítt, og varð húsbónda mínum starsýnt á það, því á margra
vikna ferðalagi okkar höfðum við varla séð nokkra byggingu úr
steini. Við áttum eftir að komast að því að þetta var baðhúsið, og
hafði byggingameistarinn verið þræll frá Sirmíum en grjótið verið
flutt um langan veg á vögnum á staðinn.
Á milli
höfuðstöðva hershöfðingjans og konungssetursins var hringlaga flöt
sem allt eins hefði getað verið skeiðvöllur, eftir stærðinni að
dæma. Svæðið var autt að undanskildu eldgömlu linditré og
stærðarinnar torgaltari úr rauðleitum steini er undir trénu var. Við
jaðar altaristorgsins var vatnspóstur, og væri horft þaðan í austur,
blasti við breiðstræti er lá frá torginu, og væri horft eftir því
endilöngu mótaði fyrir víðiskógi. Gaf skógurinn til kynna að þar
mundi Tísjuá renna.
Við höfðum uppi
á yfirhershöfðingjanum í hallargarði sínum. Sat hann þar á hestbaki
og flutti tölu yfir einum fimmtíu ungum tignarmönnum. Voru þeir vel
og skrautlega búnir í blaktandi silkiblússum innan undir aðskornu
vesti og í treyju yfir, ýmist gulri, rauðri eða bláleitri, með
gylltum hnöppum; jafnvel hestarnir voru búnir uppá með veifum og
fánum er léku um skrokkana eins og slæður. Yngismenn þessir voru að
taka tilsögn um hina hátíðlegu móttöku, og um leið og
yfirhershöfðinginn lauk máli sínu þeystu þeir úr hlaði á
harðastökki.
Yfirhershöfðinginn var þrekvaxinn náungi, rauðleitur á hörund en
gráhærður — var sem eftirmynd Kata, að því undanskildu að bróðir
hans var lægri vexti og ekki svo vingjarnlegur ásýndum sem hann.
Þegar hann veitti okkur athygli sneri hann fáki sínum til móts við
okkur. Gaf hann til kynna að við skyldum sitja rólegir á baki.
„Mér hefur nú
þegar verið skýrt frá komu ykkar,“ sagði hann og heilsaði húsbónda
mínum með handabandi. „Það gleddi mig ef þið vilduð dvelja hér sem
gestir mínir og snæða með okkur miðdegisverð í dag. Ég er raunar
afar upptekinn sem stendur; konungurinn verður hér um hádegi og ég
þarf að bjóða hann velkominn.“
Mér varð litið
inn í hinn innri hluta garðsins og varð starsýnt. Fyrir framan
hátimbraðar byggingarnar var skyldulið Kata að afferma vagna og taka
af burðarklárum. Heimilisþrælarnir voru á þönum fram og til baka, og
litla brúnhærða stúlkan ánauðuga var að kalla upp í einn gluggann:
„Viljið þið flýta ykkur niður! Flýtið ykkur!“
Ég kom einnig
auga á Móeik. Hún var rétt um það bil að fara af baki. Þræll kraup á
kné og lagðist fram á olnboga við hlið hestsins og hún steig niður á
bak honum. Hún kjassaði folann og strauk honum um granir, fór þá inn
í húsið, létt og liðug eins og fiðrildi.
9.
Erillinn í borginni minnti á
býflugnasveim. Hvert sem litið var voru þrælar að skvetta vatni á
götur og dreifa laufi og grasjurtum. Konur og karlar stóðu sparibúin
fyrir framan tjöldin, strjúkandi og snurfusandi klæði sín á síðustu
stundu. Búið var að lita fax og tagl á öllum hvítum hrossum rautt
eða gult. Tjöld voru skrýdd blómum og ábreiðum á allar hliðar.
Hvarvetna var ryk í lofti og gróðurilminn lagði fyrir vit manns og
af mykju og taði, og í eyrum klingdu bjöllur hestanna.
Við hröðuðum
okkur ásamt Maxímínusi til hallar yfirhershöfðingjans — víst vissara
að mæta tímanlega! Þjónn fylgdi okkur inn í rúmgott herbergi á
þriðju hæð þaðan sem aðalgatan og auða svæðið milli hallanna blasti
við augum út um opinn glugga. Eðlilega varð ég þó að sætta mig við
að fá aðeins skyggnst yfir axlir herramannanna. Ysinn og þysinn
færðist æ meir í aukana þangað til á hádegi að reiðmenn ruddu
götuna. Um leið birtust konur hvítklæddar.
Á þeirri stundu,
þegar sól skein í hádegisstað, ómaði skær lúðraþytur úr turni
konungshallarinnar:

Fáeinum mínútum
síðar komu þrír knapar í augsýn, á harðastökki, umleiknir rykmekki,
og reið yfirhershöfðinginn til móts við þá. Um það bil þrjátíu
húnverskir yngismenn af tignum stigum fylgdu honum fast á eftir, og
þeirra á meðal voru fimm piltar með hetti á höfði sér setta gylltum
snúrum — var sá yngsti um það bil fjórtán eða fimmtán ára, íklæddur
himinbláu silki.
„Þar fara
konungssynirnir,“ mælti Rústíkus.
Hershöfðinginn
fylgdi þeim til móts við Attílu, og eftir um það bil hálfa
klukkustund heyrðum við fjörlegan klið berast frá mannhafinu í
fjarska. Til að byrja með var það eins og brimniður, en eftir því
sem kliðurinn dundi hærra í eyrum, hljómaði hann engu líkara en að
móðir jörð ætti sér hjarta, og að hjartað hafi slegið ólmt af gleði.
Hvítklæddu
konurnar höfðu komið í hóp saman út úr höll konungsins, allar
ríðandi og eins búnar hvítu silki. Hrossin voru rauð sem lauf á
hausti og hver hestur teymdur af riddarasveini. Þær fylktu liði
kringum stóran, gulli sleginn vagn, er var í lögun eins og
valhnotuskel, og sat í vagninum hefðarkona drottningarleg ásýndum,
en föl og mögur, og við hlið hennar tíu ára gamall snáði. Einnig
hann var klæddur í hvítt silki, sem og konan, og á höfði sér afar
hárprúðu bar hann himinbláan hött.
„Drottning
drottninganna — hefðarfrú Ríka,“ hvíslaði Rústíkus. „Drengurinn
heitir Eitíla.“
„Veri þú
blessaður, Eitíla!“ kvað nú mannsöfnuðurinn við. „Ætíð blessaður!“ —
en Húnar segja Blessaður! líkt og við segjum „Vivat!“ —
Lifðu heill! Og litli snáðinn brosti og veifaði hetti sínum í
allar áttir.
Seinna fékk ég
að vita hvers vegna þessi konungssonur einn og sér naut svo mikillar
hylli fólksins. Við fæðingu hans höfðu prestarnir sagt svo fyrir að
þó svo að Húnalýðum yrði tvístrað eins og laufi í köldum
haustvindi að Attílu burtgengnum, yrði konungssonur þessi,
Eitíla, þeirra bjargvættur. En hvort sem var nú ástæða til að taka
mark á þeim spádómi eður ei naut hinn ungi konungsson hylli allrar
alþýðu. Hver og einn einasti fagnaði honum í hjarta sínu.
Á meðal
kvennanna, er voru álfkonum líkar þar sem þær fylktu sér um vagn
drottningar, kom ég auga á Móeik. Ó, hugur minn og hjarta, mættu
hlið himnanna opnast mér! Ég barðist við hjartsláttinn uns vagninn
hvarf úr augsýn ásamt föruneyti. Æ, það var eins og draumur hyrfi
mér í bláma hyllinga...
Þá birtist
álengdar hin konunglega brúðför. Hermaður með brúskmikið yfirskegg
kom aðvífandi út úr rykskýi riðnu glampandi sólstöfum. Mundaði hann
blaktandi fána sem á var örn gullofinn. Er nær dró leystist skýið
upp í hundrað radda hljómsveit gangandi hljóðfæraleikara er fylgdu
fánaberanum eftir og voru allir rauðklæddir. Þeir léku á trumbur og
tréflautur og alls kyns hljóðpípur úr beini, við undirslátt tveggja
stóreflis skálabumba úr látúni, og hringluðu litlar bjöllur á
sprotum, áföstum bumbunum.
Húnversk tónlist
hljómar framandlega í siðfáguðum, rómverskum eyrum, en hún er kjörin
til að ganga í takt við. Eigi ósjaldan átti ég eftir að heyra
gáskafullt stefið sem ómaði um stræti þennan dag, og því engum
vandkvæðum bundið að hripa það niður nú:

Sægur þrælabarna valhoppaði
með sveit hljóðfæraleikaranna, þau voru ólm af gleði og stöku
rúlluðu meira að segja á undan sér hjólgjörðum. Á hæla
hljómsveitarinnar komu knapar ríðandi, glitrandi af gulli og silfri.
„Blessaður!“
Hávær fagnaðarópin efldust um allan helming þegar Attíla kom í
augsýn, ríðandi á stórum, hvítum gæðingi. Hinn ungi Eitíla
konungsson var nú kominn á hestbak og reið við hlið föður síns honum
á hægri hönd, en yfirhershöfðinginn honum vinstra megin og fylgdu
hinir prinsarnir honum á eftir. Þá voru konurnar næstar í
fylkingunni, í gulli slegnum vagni hefðarfrúr Ríku. Við hlið hennar
sat nú brúðurin, dúðuð í silki og með sveig um háls sér úr
rósarlaufi þar sem stirndi á jarknasteina á stærð við heslihnetur.
Kvenpeningur
annarra fyrirmanna Húna hafði stillt sér upp undir sóltjaldi fyrir
framan höll yfirhershöfðingjans.
Er Attíla
nálgaðist bar hann hönd að hetti sínum og veifaði í kveðjuskyni, en
ekki brosti hann.
Andstætt við
alla aðra er ljómuðu af gleði var Attíla ásýndum sem marmarastytta.
Skari syngjandi stúlkna safnaðist að honum og drottningu á báðar
hendur, og þar á meðal var Móeik aftur komin, geislandi af gleði
eins og stallsystur hennar. Ekki leit hún á mig — og hefði ekki
heldur átt þess neinn kost að sjá mig af því að linditréð skyggði á
bygginguna þar sem við vorum — en þrátt fyrir það og vegna þess hve
hún brosti fallega tók hjartað kipp í brjósti mér, og einnig ég
brosti. Á þessari stundu fann ég til ástar á Attílu, á allri hinni
húnversku þjóð, hrossaþefnum, á öllu því er brúðkaupinu fylgdi; fann
til ástar á sól og jörð, svo sterkrar, að ég hefði getað umfaðmað
hvern og einn einastan, að hrossunum ekki undanskildum!
Attíla og öll
hersingin ásamt brúðinni mjakaðist áfram.
Skyldulið Kata
hvarf nú inn í höllina og birtist brátt á svölum úti þaðan sem gott
var að fylgjast með skemmtuninni. Við héldum kyrru fyrir á okkar
stað.
Komið var nokkuð
fram yfir hádegi þegar Kati kom yfir til okkar og ítrekaði
miðdegisverðarboð bróður síns. Yfirhershöfðinginn gæti þó ekki snætt
með okkur sjálfur því hann þyrfti að segja Attílu af gangi
stríðsrekstursins, en kona hans og fjölskylda myndu hins vegar verða
til staðar.
„Og mig mun ekki
vanta,“ sagði Kati.
Yrði Móeik
viðstödd? Mér var þungt um andardrátt og leit á húsbónda minn. Mundi
hann skipa mér að standa að baki sér? Svo sem ég varð ætíð að gera
þegar hann sótti viðhafnarveislur, og samkvæmt rómverskri siðvenju
mundi hann þurrka af fingrum sér í hári mínu.
Góður Guð, ver
þú miskunnsamur! Hvað ef hann skyldi skipa mér að þjóna sér núna?
Hvernig ætti ég að geta sagt við hann: „Herra, í aðeins þetta eina
sinn, viljið þér ekki leysa mig undan því?“ Það gat ég með engu móti
sagt, því að við opinber tækifæri er þjónninn eitt helsta aðalsmerki
tignarmannsins.
Það var engu
líkara en Prískus hefði getið sér til um áhyggjur mínar þegar hann
kallaði mig fyrir sig og sagði: „Viltu koma eftir tæplega
klukkustund og færa okkur yfirfylli af döðlum á fínasta silfurfatinu
okkar. Þú skalt fara með fatið að sæti Maxímínusar — hann mun taka
við því af þér.“
Svo að hann
þyrfti þá ekki á mér að halda þegar allt kom til alls!
Ég brá skjótt
við og tók til við döðlurnar, raðaði þeim snoturlega á fatið og
skreytti með lárviðarlaufi og nokkrum smáblómum, sneri mér þá að
sjálfum mér, þvoði mér, kembdi hárið og bar á mig ilmandi smyrsl.
Heldur skyldi húsbóndi minn setja ofan í við mig fyrir að seilast í
fínustu ilmsmyrslin sín en að hann þurrkaði af fingrum sér í hárið á
mér!
Þegar nær
klukkustund var liðin samkvæmt stundaglasinu tók ég fatið mér í hönd
og hélt upp á loft. Dyrnar að borðstofunni stóðu opnar upp á gátt og
lagði lykt af steiktu kjöti út um þær. Sátu að minnsta kosti tuttugu
manns við borðið. Hershöfðingjafrúin sat í öndvegi, það var kona
bólugrafin í andliti, hlaðin gimsteinum. Henni á hægri hönd var
Maxímínus, húsbóndi minn á hina vinstri, þá aðrir gestir og þeim
eins raðað, körlum og konum á víxl. Þar á meðal var Móeik.
Augu mín hvíldu
á henni meðan ég stóð í gættinni og beið þess að húsbóndi minn yrði
mín var. Freknótt stúlka gegnt henni við borðið lét móðan mása á
meðan Móeik vann á kjúklingalæri með perlumóðurhníf. Hún var afar
einbeitt á svip.
10.
Við héldum öllu til haga á
minnisblöðum sem húsbóndi minn sá og upplifði. Síðar mundi hann taka
greinarnar saman á bók er yrði varðveitt í hinni keisaralegu
bókhlöðu. Eins og gefur að skilja var það ætíð ég sem hélt á
pennanum, hripaði þá niður á snifsi af papýrus punkta um allt hvað
eina sem á daga okkar dreif, stundum samkvæmt því er húsbóndi minn
las mér fyrir, en oftast var ég einn um klór þetta. Þegar við kæmum
heim myndum við koma röð og reglu á alla bleðlana og ég þá færa
efnið í letur á hið fínasta bókfell.
Það var um svo
margt að skrifa sem hafði borið til tíðinda þennan dag að ég beið
ekki húsbónda míns heldur hófst einn handa. Hann kom seint heim og
líkaði það vel að sjá til mín þar sem ég sat fyrir framan tjaldið
mitt með skriftarheftið mitt.
„Duglegur
drengur ertu,“ hrósaði hann mér. „Hversu langt ertu kominn?“ og úr
vasa sínum dró hann upp lófastóra valmúafræböku, en þannig hafði
hann oft dekrað við mig á meðan ég var aðeins stráklingur — kom þá
heim með köku eða böku handa mér sem gerði mig svo sælan og glaðan;
en núna, og það var ekki fyrsta sinni, sárnaði mér að sjá bökuna —
ég var ekkert barn lengur!
„Ég er kominn á
þann stað,“ svaraði ég og kyssti á hönd hans að þökkum fyrir bökuna,
„þegar Attíla kemur að hallarhliðinu, nemur þar staðar og tekur
konuna sína nýju í fangið og heldur á henni inn eins og hún væri
ungabarn.“
„Lofaðu mér að
heyra það annað sem þú hefur skrifað.“
Og ég las upp
fyrir hann, og þegar ég var kominn á þann stað þar sem ég lýsti
drottningunni húnversku og hennar fylgdarmeyjum, breytti ég
ósjálfrátt um tón, svo sem ég væri að lesa upp ljóð: „Þær voru á að
líta eins og mergð hvítra dúfna. Húnverskar konur eru englum
líkastar. Á meðal þeirra er ein svo fögur að jörð skelfur af gleði
einni saman, hvar sem hún stígur fæti niður...“
„Hvurslags
eiginlega kjána afkáraskapur er þetta!“ sagði Prískus, og það
kurraði í honum.
Ég einasta
stamaði og rak í vörðurnar.
„Strikar þetta
út! Og áfram —“
Þá veitt hann
því athygli að ég var orðinn kafrjóður út að eyrum og hann leit á
mig með einkennilegt blik í augum.
„Gættu að þér,
sonur sæll,“ sagði hann með hægð, eftir stundarþögn. „Þú ert á
viðsjálum aldri og margar freistingarnar að varast. Ætli sé ekki
hyggilegra að kunna fótum sínum forráð en vera að eltast við
flögrandi fiðrildi — svo þú verðir ekki höfðinu styttri!“
Þá fór hann að
tala við Maxímínus, en um hvað hef ég ekki hugmynd og hafði enga
löngun til að vita það. Smám saman tók ég að anda léttar, en
áminning húsbónda míns leið mér ekki úr minni. Hann hafði lög að
mæla. Ég hafði ekki minnstu hugmynd um hvað bjó hið innra með Móeik;
það var fagurt skinnið sem hafði lamað dómgreind mína — það sem
innst í sefa bjó var mér hulin ráðgáta. En líkami þessarar stúlku
var hið undursamlegasta sköpunarverk Guðs á jörðu, undursamlegra en
blómin hans; og hver forsmáir ilm þeirra og angan?
Formáli
kaflar 1 til 10
kaflar 11 til 20
kaflar 21 til 30
kaflar 31 til 40
kaflar 41 til 50
kaflar 51 til 60
kaflar 61 til 65
prenta skjal
Rómanza:
heim á kvist
|