Megindrættir
Grunnrannsóknir og meginhönnun ásamt heildarhönnun fyrstu áfanga verksins má ætla að taki um tvö til þrjú ár en að fyrsta áfanga verksins, e.t.v. fjórum tíundu alls verksins, væri lokið á fjórum til fimm árum með fullbúnum brautum og stýringum þannig að gæti farið að skila tekjum af farþegaflutningum. En það væri mikilvægt að virkja sem fyrst fullbúnar leiðir til að lágmarka sem mest fjármagnskostnað á verktíma, þ.e.a.s. vexti af framkvæmdafé. Í framhaldi af því væri hver áfanginn lagður undir eftir annan þannig að hverjum og einum væri lokið e.t.v. á tveimur árum, en það væri þá sá tími hverju sinni sem áfangarnir bæru fullan fjármagnskostnað áður en væru fullbúnir og tækju að skila tekjum. Með því að unnið væri að fleiri áföngum í senn gætu verklok legið fyrir að um fjórum árum liðnum til viðbótar, þannig að heildarverktími væri um tíu ár, að meðtöldum þeim tíma sem rannsóknir og hönnun tækju í byrjun.
Smíði vagna myndi vinda fram samhliða gerð jarðbrautanetsins þannig að um þriðjungur þeirra væri tilbúinn til notkunar að loknum fyrsta áfanga og væri vögnum síðan fjölgað eftir því sem síðari áföngum lyki.
Svo stórt verk, sem 130 km löng jarðvagnagöng eru, auk 50 km langrar Suðurnesjabrautar, býður upp á að margvíslegar verklausnir væru sérhannaðar. Um 40 til 50 sérútbúnir vagnar væru smíðaðir til flutninga á jarðefnum til losunarstaða og aðföngum til gangagerðarinnar. Þetta væru u.þ.b. 6 tonna bílar sem bæru 3ja til 4ra rúmmetra farm af jarðefnum eða byggingarefnum. Þeir væru handvirkir á verkstöðum og í ófullbúnum göngum og stokkum en ækju annars fyrir sjálfstýringu, sjálfkeyrandi, um þá hluta ganga sem væru fullbúnir.
5 milljónir rúmmetra af lausum jarðefnum væru fluttar í u.þ.b. 1,5 milljónum ferða á 9 árum um höfuðborgarsvæðið, en það jafngildir um 150 til 200 þúsund ferðum á ári eða um 500 ferðum á sólarhring. Samkvæmt því færi hver hinna 40 til 50 vagna u.þ.b. 10 til 15 ferðir á sólarhring. Til að fullnýta ferðirnar væru þær skipulagðar á þann veg að vagn sem flytti jarðefni úr einum verkstað flytti steypuefni, bergbolta og önnur byggingarefni til baka í lengra kominn, nærliggjandi verkstað, auk þess að flytja malarefni í brautir, allt eftir þörfum.
Flutningapalli með jarðefnum úr göngum væri víxlað út á losunarstað fyrir annan er hefði verið lestaður með aðföngum. Steypuefni væri flutt þurrt í sekkjum en hrært saman við vatn og önnur íblöndunarefni eftir affermingu á verkstað, og er allt byggingarefni væri komið á sinn stað, eða malarefni í braut, væri vagni enn haldið til flutnings á jarðefnum út úr göngum, og þannig koll af kolli. Undir verklok alls kerfisins væru hlutar úr þessum verkvögnum e.t.v. endurnýttir til smíði á nýjum áætlunarvögnum, enda tæki frumhönnun verkvagnanna þá mið af því.
Loftræsting og útvegun vatns og rafmagns lægi mjög beint við er unnið væri að gerð ganganna, enda yfirleitt stutt um veg að fara að næsta brautarstöðvargrunni eða um boraðar holur milli ganga og yfirborðs jarðar, er oft væri einungis fáeinum metrum ofar, gagnstætt því sem gengur og gerist við flesta hefðbundna gangagerð.
Stigahús neðanjarðarstöðva væru sprengd neðan frá og svo langt upp sem gerlegt væri en lóðrétt op, sem svaraði nokkurn veginn til lyftuhússins, væri borað eða sprengt ofan eða neðan frá og opið síðan sprengt og grafið út í fulla breidd og lengd, sem víða væri um 6 x 10 metrar, en jarðefnin er hrunið hefðu niður væru flutt á brott um göngin. Raski og umfangi verka ofanjarðar væri þannig haldið í lágmarki og áhrif á almenna umferð væru með minnsta móti. Lyftu- og stigahús væru síðan steypt upp og rúllustigum komið fyrir og brautarfordyri byggt yfir innganginn, sem væri hið eina sýnilega á yfirborði jarðar að verki loknu, en stigahúsið hverfðist að öðru leyti saman við umhverfið ofanjarðar undir steyptu þaki.
Áfangaskipting
Fyrsti áfangi verksins fæli í sér Suðurnesjabraut í heild sinni, alls um 50 km leið og um 12 brautarstöðvar, ásamt öllum brautum um Hafnarfjörð, Garðabæ og vestari hluta Kópavogs, og leiðir um Mjódd og grennd og þaðan um Bústaðahverfi að Kringlu, og frá Kringlu í Smáralind annars vegar og í Vatnsmýri hins vegar, að Umferðarmiðstöð og Háskóla Íslands, alls um 58 km og um 85 brautarstöðvar til viðbótar.
Brautarnet áfangans væri þá samanlagt alls um 108 km og fæli í sér um 100 brautarstöðvar, þar á meðal allar stórar stöðvar netsins í heild, auk rekstrarstöðva, stjórnstöðvar og höfuðstöðva og næmi stofnkostnaður gróft á litið um 40 til 45% af heild alls brautarnetsins.
Hér verður gert ráð fyrir að á sama tíma muni nýr innanlandsflugvöllur vera lagður með austur- og norðurströnd Bessastaðaness og á fyllingum í sjó fram í norður og austur af nesinu, en að efni í fyllingar og aðrar undirstöður flugvallarins kæmu úr jarðgöngum brautarnetsins. Síðasti hluti þessa fyrsta áfanga væri því Vatnsmýrarsvæðið ásamt braut undir Fossvog að Kársnesi, enda flytti flugið ekki úr mýrinni fyrr en að lokinni gerð Bessastaðanessvallar, en annars væri almennt unnið að hinum ýmsu hlutum áfangans á fjölmörgum stöðum samtímis.
Að loknum þessum fyrsta áfanga væru strætisvagnar aflagðir í Hafnarfirði, Garðabæ og í vestari hluta Kópavogs og dregið úr ferðum þeirra milli Mjóddar, Kringlu og Vatnsmýrar, auk þess sem almennar áætlunarferðir og ferðir almenningsvagna ferðamanna milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðis féllu að mestu leyti niður. Á fyrsta heila rekstrarári þessa fyrsta áfanga brautarnetsins má e.t.v. gera ráð fyrir allt að 3 milljónum ferða á Suðurnesjabraut og um 4 milljónum ferða á þessum hluta höfuðborgarsvæðins, og þá samsvarandi fargjaldatekjum þó að rúmum helmingi alls brautarnetsins væri þá enn ólokið.
Jafnskjótt og hinum ýmsu hlutum fyrsta áfanga lyki væri hafin vinna við þá næstu, áfanga tvö og þrjú, sem saman næmu e.t.v. um 25 af hundraði alls verksins í heild, en það væru annars vegar allar brautir um Breiðholt og Árbæ, með Mjódd fyrir þungamiðju, og hins vegar Seltjarnarnes og öll miðborg Reykjavíkur að Kringlumýrarbraut. Samsvarandi og að loknum fyrsta áfanga væru leiðir strætisvagna um þessi hverfi lagðar af að öllu eða verulegu leyti er þessum áföngum lyki.
Lokaáfangar verksins, hinir fjórðu og fimmtu, e.t.v. um 30 af hundraði alls verksins í heild, væru síðan unnir í beinu framhaldi af áföngum tvö og þrjú, annars vegar frá Kringlumýrarbraut um Laugarnes, Múlahverfi, Laugardal, Kleppsholt, Sund og Ártúnshöfða, og hins vegar um Grafarvog, Geldinganes, Grafarholt og Mosfellsbæ, og að þeim loknum væru síðustu leiðir strætisvagna í þéttbýli lagðar af.
{ultimatesocialbuttons}
Mynd nr. 5 – bakgrunnur myndar: GoogleEarth – Laugavegur, Kjörgarður og grennd – líkön fyrirliggjandi húsa eru eftir 3Dsvenni, sjá nánar GoogleEarth
Mynd nr. 6 – bakgrunnur myndar: Smáralind – Viðskiptablaðið 18. janúar 2014 – http://www.vb.is/frettir/100759/
Mynd nr. 7 – bakgrunnur myndar: Bakarabrekkan ofan við Lækjargötu – http://reykjavik.is/stadir/bakarabrekkan
Aðrar myndir, en eru tilgreindar, eru höfundar