Fluglest
Hugmyndir eru uppi um hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur.[1] Gert er ráð fyrir fjórum sjálfstæðum lestum og alls þremur lestarstöðvum á 47 km langri leið – tveimur endastöðvum, annarri við flugstöðina, hinni við Umferðarmiðstöðina, og einni millistöð á sunnanverðu höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir tæpum 4 milljónum farþega á fyrsta ári reksturs, árið 2023, en að afkastageta lestanna fjögurra væri um 1000 manns á klukkustund hvora leið, eða alls um 2000 manns á klst. Stofnkostnaður er áætlaður 115 milljarðar króna, að meðtöldum vaxtakostnaði á framkvæmdatíma, en að brúttótekjur væru um 10,5 milljarðar króna á fyrsta rekstrarári. Þær forsendur eru gefnar að ferðatími væri 19 mínútur (eða 15 mín. án viðstöðu á millistöðinni), og að ferðatíðni væri um 15 mínútur á annatíma, en annars hálftími. Hámarkshraði lesta væri allt að 250 km/klst.
Meðalbiðtími eftir lest frá flugvallarstöð – á annatíma – væri því um 7 mínútur, ferðatími 19 mínútur til Reykjavíkur, meðalbið eða tími í umstang vegna leigubíls, einkabíls eða strætisvagns á Reykjavíkurstöð væri einnig e.t.v. 7 mínútur, og ferðatími þaðan til lokaáfangastaðar e.t.v. um 15 mínútur til jafnaðar. Heildarferðatími – á annatíma – væri því um 50 mínútur en þá því lengri, að meðtöldum biðtíma, sem lestir gengju stopular utan álagstíma, eða sem næst klukkustund.
Meðalfargjald er áætlað um 2600 krónur en lægstu áskriftargjöld fjölnotenda, t.d. þeirra er ferðuðust vegna vinnu eða náms, á bilinu 700 til 800 kr. Almenn fargjöld flugfarþega, er væru langstærsti hluti notenda, eru áætluð um 3800 kr. Þar til viðbótar kæmi kostnaður við leigubíl, einkabíl eða strætisvagn, þannig að ferðakostnaður allflestra væri á bilinu 4000 til 5500 krónur eða þaðan af meiri þegar tekinn væri leigubíll.
Til samanburðar þá væri meðalferðahraði jarðbrautarvagna nálægt 60 km á klst á um þriðjungi leiðarinnar, þá aðallega um höfuðborgarsvæðið, en um 90 km á klst á hinum tveimur þriðju hlutum leiðar, um Suðurnes. Samkvæmt því væri meðalferðatími um 35 mínútur miðað við 46 km langa leið til jafnaðar. Áætlunarvagnar færu á allt að mínútufresti á annatímum, auk þess sem deilivagnar og einkavagnar væru ávallt til staðar. Biðtími á flugvelli væri því nær enginn og oftast lyki ferð vagns á brautarstöð innan 200 til 300 metra frá endanlegum áfangastað farþega, eða í fáeinna mínútna göngufæri.
Vegna þess hve ferðamátinn væri margbreytilegur, þjáll og ódýr, má vænta þess að allfleiri veldu hann en ef hraðlestakerfi væri í boði, enda gæti meðalfargjald verið nálægt 2300 krónum, þá heldur hærra fyrir almenna flugfarþega en mun lægra fyrir fasta notendur, líkt og væri með lestinni – og þá eðlilega að meðtöldum ferðakostnaði til hvaða staðar eða frá hvaða stað sem væri á höfuðborgarsvæðinu, eða á Suðurnesjum, eftir atvikum.
Samlegðaráhrif af sameiginlegum rekstri brautarnets á Suðurnesjum og höfuðborgarnetsins væru umtalsverð fyrir utan hve nýting höfuðborgarnetsins væri meiri og brautin mikil lyftistöng fyrir Suðurnesjabyggðir, enda þjónaði hún byggðunum sem innra samgöngunet jafnt sem ytra, í víðtækum skilningi. Annatímar tengdir flugumferð eru hinir ýmsu óháð annatíma umferðar á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem litið er til árstíðabundinna anna eða breytilegra anna á sólarhring. Háannir í flugi eru á sumrin þegar umferð er með léttasta móti á höfuðborgarsvæðinu og annatími flugs hefst talsvert fyrr á morgnana og dreifist með öðrum hætti yfir sólarhringinn en borgarumferðin. Nýting vagna væri því betri en ella og álag á stjórnstöðvar hlutfallslega jafnara.
Höfuðborgarlestir
Ýmsar hugmyndir hafa einnig verið uppi um lestir á höfuðborgarsvæðinu, borgarlestir, léttlestir, jarðlestir, strætólestir, sem eru allar þó því marki brenndar að fyrst og fremst er tekið mið af ferðatíma um borð í lestunum á meðan þær fara úr einum stað í annan – en ekki heildartíma ferða.[2] En einmitt vegna þess hve slík kerfi eru þunglamaleg að byggingu og plássfrek, og eftir því dýr fyrir fámenn samfélög, er einungis gert ráð fyrir fáum leiðum, með löngu bili á milli brautarstöðva og stopulum ferðum. Af því leiðir að drýgsti hluti ferðatíma notenda færi í flest annað en að sitja í hraðskreiðum vögnunum, fyrir utan þann tíma er færi í bið, hvað þá utan annatíma er ferðir væru stopulli. Einungis þeir er byggju næst brautarstöðvum og væru svo heppnir að sækja vinnu eða skóla nærri brautarstöð fengju notið ávaxtanna að einhverju marki. Aðrir væru meira eða minna háðir langri göngu til eða frá stöð, eða strætisvögnum jafnframt, til að brúa bilin milli heimilis, vinnu eða skóla, tækju þeir ekki einkabíl alfarið fram yfir ferðamátann.
Afleiðingin væri því sú að lestarkerfið færi að stýra borgarskipulaginu. Eftirspurn eftir húsnæði undir íbúðir, þjónustu og margvíslega starfsemi myndi aukast til muna í kringum brautarstöðvarnar fáu og fasteignaverð á þeim slóðum hækka eftir því, en engu að síður sæti fjöldinn allur eftir sem ekki gæti nýtt sér lestirnar sökum fjarlægðar. Gríðarlegum fjármunum væri því varið í þágu tiltölulega fárra, og enn minna væri úr að spila til að bæta slakar strætisvagnasamgöngur í öllum þeim borgarhlutum er útundan yrðu.
Nýjustu hugmyndir um höfuðborgarlestir er að finna í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015 til 2040. Er gróft miðmat stofnkostnaðar 15 km leiðar með vögnum áætlað 65 milljarðar króna og árlegur, almennur rekstrarkostnaður 1,6 milljarðar.[3] Ætla má að með afskrifta- og vaxtakostnaði gæti heildarrekstrarkostnaður numið nær 6 milljörðum króna miðað við 3% afskriftir og 3,5% vexti.
Hraðvagnakerfi
Verkfræðistofan Mannvit skilaði skýrslunni Almenningssamgöngur, hraðvagnakerfi[4] árið 2012 þar sem metinn er kostnaður við „að skipta út núverandi stofnleið númer 1 í leiðakerfi Strætó bs fyrir nýja hraðvagnaleið”, með það að meginmarkmiði „að stytta ferðatíma um a.m.k. 5 mínútur samanborið við hefðbundna strætisvagnaleið á sömu leið”.
Stofnkostnaður með öllum verklegum þáttum, vögnum og biðstöðvum er metinn vera á bilinu 6 til 7 milljarðar króna, og er þá árlegur, almennur rekstrarkostnaður alveg ótalinn. Einungis er gert ráð fyrir sex vögnum, til jafnaðar væntanlega þremur vögnum á hvorri stefnu, og alls fimm biðstöðvum, einni stöð í hverju sveitarfélaganna, Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi, og tveimur í Reykjavík – við Háskólann í Reykjavík og Umferðarmiðstöðina, sem væri endastöð. En þessar fimm biðstöðvar kæmu þá í stað þeirra u.þ.b. 16 stöðva sem eru nú á samsvarandi hluta leiðar 1, talið frá Firði í Hafnarfirði að Umferðarmiðstöð.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um hve heildarferðatími myndi lengjast til muna hjá mörgum, þegar tekið hefði verið tillit til allra skiptinga milli hefðbundinna strætisvagna og hraðvagnanna, enda gefur augaleið að fjöldinn allur þyrfti að taka venjulegan vagn að einhverri af hraðvagnastöðvunum fimm og á samsvarandi hátt frá hraðvagnastöð til að komast á leiðarenda, eða á hinn bóginn ganga langan veg – nema að hugmyndin sé að byggja heilu Manhattanhverfin í kringum stöðvarnar fáu til að stytta meðalferðatímann. Það breytti þó ekki því að önnur hverfi væru áfram jafn út úr.
Stofnkostnaður með öllum verklegum þáttum, vögnum og biðstöðvum er metinn vera á bilinu 6 til 7 milljarðar króna fyrir þessa 11,4 km leið (en 15,1 milljarður fyrir 12,4 km leið ef valin væri þéttbýlislest fyrir sama svæði samkvæmt eldri athugun VSÓ verkfræðistofu...), og er þá árlegur, almennur rekstrarkostnaður alveg ótalinn. Í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015 til 2040 gerir sama verkfræðistofa, Mannvit, hins vegar ráð fyrir að stofnkostnaður við 15 km hraðvagnaleið með vögnum gæti numið um 30 milljörðum króna...
Léttsporbílakerfi
Loks ber að nefna hugmynd að smábílakerfi er Hrafn Arnórsson setti fram í lokaritgerð sinni til meistaraprófs í byggingarverkfræði – Léttsporbílakerfi.[5] Á mjög greinargóðan hátt kryfur höfundur til mergjar flest þau atriði er til álita koma í sjálfvirkum almenningssamgöngum er byggja á smávögnum.
Höfundur fjallar um spor í þeirri merkingu að það geti táknað ósýnilegan feril er farartæki sé leitt eftir um braut eða akveg jafnt sem sýnilegt spor úr málmi eða öðrum efnum sem farartækið fylgi, í báðum tilfellum fyrir tilverknað einhvers konar fjarstýringar og sjálfvirkni. Léttsporbílakerfi tekur þá til áþekkrar hugmyndar og kölluð hefur verið personal rapid transit – PRT – og hefur verið þekkt í meira en hálfa öld. Elsta sporbílakerfi sem hefur verið í samfelldri notkun er Morgantown-kerfið í Bandaríkjunum, sem var tekið í notkun í háskólabænum Morgantown í Vestur-Virginíu árið 1974. Til marks um það hve kerfið er öruggt þá hafa engin orðið þar slys í 40 ára sögu þess. Það byggir á 10 til 20 manna vögnum sem ganga fyrst og fremst ákveðnar áætlunarleiðir og kann því í strangasta skilningi að vera á mörkum þess að flokkast undir personal rapid transit, PRT, sem miðar yfirleitt fremur að því að hver og einn geti pantað sér vagn, yfirleitt frekar lítinn, og síðan valið sér leið innan kerfisins.
Í þessum þrengri skilningi þá er ULTra-kerfið á Heathrow-flugvelli það fyrsta sem tekið hefur verið af hönnunar- og tilraunastigi og sett í fullan rekstur, en það var árið 2011, og er því nokkur reynsla komin á það.[6] Nokkur slík samsvarandi kerfi eru á teikniborði, á tilraunastigi eða komin til framkvæmda og eiga þau það yfirleitt sammerkt að vera á brautum er skera sig verulega úr frá umhverfinu, uppbyggð eða á súlum eða á annan hátt afmörkuð á girtum brautum ofanjarðar. Hugmynd Hrafns að léttsporbílakerfi gengur út á afar litla eins manns vagna er gætu þó rúmað eitt eða tvö smábörn jafnframt, þannig að tvær akreinar í tvístefnu rúmuðust á rúmlega 2ja metra breiðri braut. Brautirnar væru gerðar úr málmgrindareiningum er hvíldu á súlum ofan annarrar umferðar og brautarstöðvar þá einnig, þannig að yfirleitt væri farið um stiga milli jarðar og stöðvar.
Hrafn hugsar sér um 125 km langt brautanet á höfuðborgarsvæðinu, með um 250 brautarstöðvum, og fylgdi netið yfirleitt gatnakerfinu, oftast stofnbrautum og öðrum meginleiðum.
Hugmyndin má vissulega kallast draumsýn eða útópía og erfitt er að sjá hana fyrir sér í reynd. Brautirnar skæru sig mjög úr frá umhverfinu og girtu oft sýn, auk þess sem súlunum, er bæru þær uppi, fylgdi slysahætta á jörðu niðri. Veður hefði mikil áhrif á brautir jafnt sem farartækin og með tíð og tíma myndi málmurinn kalla á verulegt og kostnaðarsamt viðhald til varnar tæringu. Hvassviðri, slagveður, snjór, krapi og ísing tæki kerfið í gíslingu þegar verst léti og allur stjórnbúnaður, nemar og firðstýringar væri undir miklu álagi og hætti því frekar við bilunum. Það væri því hætt við lítilli tiltrú á kerfið, sem notkunin þó helgast ekki síst af, samfara því að hár afskriftarkostnaður, viðhaldskostnaðurinn, myndi sliga það. Þá er það galli hve brautarstöðvar væru oft í mikilli nánd við almennar umferðarbrautir, sem myndi kalla á ýmsar hættur, sérstaklega gagnvart yngri notendum, og torvelda aðgengi að stöðvunum. Má og ætla að erfitt yrði að anna aragrúa svo smárra vagna á álagstímum nema að brautarstöðvarnar væru því lengri og umfangsmeiri og eftir því fyrirferðarmeiri í umhverfinu.
Ritgerð Hrafns er engu að síður einkar athyglisverð, enda er hugmynd hans að léttsporbílakerfi á höfuðborgarsvæðinu einungis hluti verksins og líklega fremur sett fram sem dæmi um það að hve fjölmörgum atriðum þarf að hyggja við hönnun slíkra kerfa en að henni sé ætlað svo mjög raunhæft gildi í sjálfri sér. Er hugmyndin allrar athygli verð sem slík, og ekki síður sá drjúgi hluti ritgerðarinnar sem fjallar almennt um flest einkenni léttsporbíla og brauta, eða personal rapid transit, PRT, á mjög skýran og greinargóðan hátt.
Léttara og umfangsminna jarðvagnakerfi?
Þeirri spurningu má velta upp hvort jarðvagnakerfi væri á einhvern hátt ódýrara og þá jafnframt hagkvæmara ef það væri miðað við mjórri göng og minni vagna en hér hefur verið gert. Til dæmis að ummál 6 sæta vagnanna væri lagt til grundvallar sem hámark og að í stað hinna stærri, áætlunarvagnanna, kæmu liðvagnar, sem settir væru saman úr samsvarandi einingum og minni vagnarnir. Það hefði þó lítil áhrif á umfang ganga og stokka vegna þeirrar öryggiskröfu, sem hér hefur verið lögð til grundvallar, að í neyðartilfellum væri rúm fyrir manneskjur meðfram gangaveggjum óháð umferð vagna. Ummál ganga og þar af leiðandi útgröftur jarðefna myndi því varla minnka nema e.t.v. um 10% eða í mesta lagi um 15%, en umfang brautarstöðva væri þó síst minna, að óbreyttri umferð notenda, eða í raun heldur meira vegna lengri brautarpalla og fleiri vagnhliða til að anna mætti fleiri vagneiningum.
Það væri líka vafasamur ávinningur að gera ráð fyrir einstefnubrautum og eftir því mjórri göngum eða stokkum. Þótt ein akrein kæmi í stað tveggja myndi engu að síður vera gert ráð fyrir gangvegi beggja vegna, af fyrrnefndum öryggisástæðum, og ummál ganganna myndi því minnka hlutfallslega minna en ella, nema að brautir væru einungis ætlaðar mannlausum vögnum, t.d. vöruvögnum. Og því fleiri einstefnugöng, því lengra myndi brautarnetið verða í heild. En ekki síst af öryggisástæðum hafa tveggja akreina göng verið höfð að meginreglu þannig að ávallt kæmust vagnar fram hjá vagni sem af einhverjum ástæðum hefði stöðvast. Engu að síður væri það ávallt á valdi kerfisstjórnar hvernig leiðir væru nýttar – sem tvístefnuleiðir eða í tveggja akreina einstefnu, allt eftir því hver flutningsþörfin væri á hverjum tíma.
Þá er alls óvíst að mjórri göng en þau sem hér hefur verið gert ráð fyrir myndu vera nokkuð ódýrari, enda takmörk fyrir því hve hægt er að minnka verkfæri og tæki við gangagerð sem þessa, svo að nokkuð hagkvæmara sé, og því minni sem efnisflutningavagnar væru því fleiri væru ferðir þeirra. Þá má nokkuð ljóst vera að stærð og umfang ganga hefur lítil sem engin áhrif til lækkunar á öðrum kostnaðarliðum, svo sem við stýrikerfi og alla högun og stjórn, nema síður væri, enda væri því fleiri einingum að sinna sem þær væru smærri, auk þess sem brautarstöðvar myndu síst verða minni svo sem áður er sagt.
{ultimatesocialbuttons}
[1] Fluglestin – Mat á hagkvæmni hraðlestar milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur. Ráðgjöf og verkefnastjórnun, Reykjavík júlí 2014. http://www.fluglestin.is/Files/Skra_0067594.pdf
[2] Sjá m.a. Léttlestakerfi höfuðborgarsvæðisins – http://is.wikipedia.org/wiki/Léttlestakerfi_höfuðborgarsvæðisins
[3] Höfuðborgarsvæðið 2040 – fylgirit 5: Mat á samgöngusviðsmyndum, kafli 4.2.1. SSH/Mannvit 2014 http://ssh.is/images/stories/Sóknaráætlun/Lokaskyrslur/Vaxtarsamningur/Mat_samgongusv_loka_NET.pdf
[4] Almenningssamgöngur, hraðvagnakerfi – Mannvit, Rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar, mars 2012 – http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Alm_samg-hradvagnak/$file/Almenningssamg-Hradvagnakerfi.pdf
[5] Léttsporbílakerfi – Hrafn Arnórsson, MS-ritgerð, Háskóli Íslands 2011 – http://skemman.is/stream/get/1946/10229/25516/1/Meistararitgerd_Hrafns_Arnorssonar_2011.pdf
[6] ULTra – wikipedia.org – http://en.wikipedia.org/wiki/ULTra_(rapid_transit)
Mynd nr. 1 – titilmynd: Ráðgjöf og verkefnastjórnun, Facebook – https://www.facebook.com/rradgjof/photos_stream
Mynd nr. 2: Hugmynd að léttlestakerfi: Léttlestakerfi höfuðborgarsvæðisins. Sjá heimild/neðanmálsgrein nr. 2
Mynd nr. 3: Hraðvagnabiðstöð: Almenningssamgöngur, hraðvagnakerfi – Rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar, mars 2012, bls 12: Tromerca hraðvagnakerfið í Mérida, Venezuela – Sjá heimild/neðanmálsgrein nr. 3
Mynd nr. 4: Hraðvagn á sérleið: Almenningssamgöngur, hraðvagnakerfi – Rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar, mars 2012, bls 10: TEOR hraðvagnakerfið í Rouen, Frakklandi – Sjá heimild/neðanmálsgrein nr. 3
Mynd nr. 5: ULTra smávagnabraut á Heathrow-flugvelli: http://www.ultraglobalprt.com/ – http://www.ultraglobalprt.com/wp-content/uploads/2011/08/bs9.jpg
Mynd nr. 6: Hugmynd að léttsporbílabraut: Léttsporbílakerfi, MS-ritgerð, Hrafn Arnórsson, Háskóli Íslands 2011, bls. 63: Brautareining léttsporbílakerfis – Sjá heimild/neðanmálsgrein nr. 4
Mynd nr. 7 – bakgrunnur myndar: Google Maps – Grindavíkurvegur, Street View Aug 2013 – horft í norður til Þorbjarnar. https://www.google.is/maps/@63.844255,-22.435655,3a,47.5y,23.5h,93.93t/data=!3m4!1e1!3m2!1sIXhP8mQeHaXWQGMapLXd0Q!2e0
Aðrar myndir, en eru tilgreindar, eru höfundar