Með samsvarandi vexti og verið hefur undanfarin ár, um 5% á ári, myndi farþegafjöldi Strætó vera orðinn um 27 milljónir árið 2030 og 42 milljónir árið 2040, sem er þó talin ólíkleg og óraunhæf þróun.[1] Með tilliti til þess hve ferðir um jarðbrautanet, sem leyst hefði Strætó af hólmi, myndu vera mun þjálli og hve netið myndi í raun opna fyrir margvíslega fleiri ferðamöguleika en með Strætó má ætla að árlegur fjöldi jarðbrautaferða um höfuðborgarsvæðið gæti numið um 30 til 40 milljónum á fyrstu rekstrarárum alls brautarnetsins, í kringum árið 2030, er sífellt fleiri gerðu sér ljósa kosti þess að geta ferðast hratt og óhindrað um netið milli nær allra staða á höfuðborgarsvæðinu, auk Suðurnesja.
Frá þeim tíma að telja myndi 6% aukning farþega á höfuðborgarsvæðinu á ári (samsvarandi og gert er ráð fyrir í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins ef léttlest væri kjölfesta almenningssamgangna), leiða af sér fjölgun ferða á einum áratug þannig að alls gætu farþegar þá verið orðnir um 60 milljónir manns á ári árið 2040 – eða þaðan af meir um miðja öldina.
Með tilliti til spáa um verulega aukinn ferðamannastraum til landsins og aukna aðsókn að Bláa lóninu, sem nú er verið að stækka verulega, má á samsvarandi máta ætla að farþegum á Suðurnesjabraut myndi frekar fjölga með árunum, að þeir gætu verið orðnir um 10 milljónir manns á ári um miðja öldina, frá því að vera um 6 til 7 milljónir í byrjun rekstrar.
Í eftirfarandi næstu köflum, er fjalla um stofnkostnað og rekstrarkostnað annars vegar en eignarhald og fjármögnun hins vegar, verður til einföldunar reiknað með um 55 milljónum ferða um höfuðborgarsvæðið til jafnaðar á ári fyrstu tvo áratugina en um 7 milljónum ferða um Suðurnesjabraut – þótt það kynni að liggja nær lagi að miða við 30 til 40 milljónir ferða fyrstu rekstrarárin á höfuðborgarsvæðinu en um 60 til 70 milljónir um miðbik aldar og 6 til 7 milljónir ferða milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðis til að byrja með en um 8 til 9 milljónir ferða einum eða tveimur áratugum síðar.
Jafnframt, og einnig til einföldunar, verður reiknað með um tíföldu vægi ferðakostnaðar milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins miðað við ferðakostnað innan höfuðborgarsvæðisins.
Þá ber að hafa í huga að jarðbrautanet sem laðaði til sín umtalsvert fleiri farþega en leiðakerfi strætisvagna myndi draga verulega úr umferð einkabíla og þar af leiðandi hafa mikil áhrif til sparnaðar við gerð annarra umferðarmannvirkja, þannig að leggja mætti á hilluna flestar áætlanir um gerð mislægra gatnamóta eða jarðgöng fyrir almenna umferð á höfuðborgarsvæðinu. Land sem ella færi undir umferðarmannvirki nýttist undir byggð er félli að fyrirliggjandi skipulagi án umtalsverðra gatnaframkvæmda.
Og vegna þess hve ferðatími myndi styttast og ferðamöguleikar aukast til mikilla muna frá því sem nú er með Strætó, myndu vegalengdir milli aðseturs, dvalarstaðar, vinnustaðar, skóla og hinna ýmsu borgar- og bæjarhluta skipta því minna máli. Hótel í Mjódd eða í Hafnarfirði væri sem næst í sömu sveit sett og hótel í miðborg, eða búseta í Mosfellsbæ vel raunhæfur valkostur þótt vinna væri sótt í Garðabæ eða einhvern slíkan veg – alls án einkabíls.
Ekki síst ber að hafa í huga að framlag hins opinbera til jarðbrautanetsins, að frátöldu hlutafé, væri í byrjun nánast óbreytt hið sama og og rennur nú til Strætó, eða e.t.v. um 4 milljarðar króna á ári, og færi það þó stigminnkandi með árunum (jafnframt því að Strætó heyrði nær sögunni til) þar til jarðbrautanetið færi að standa alfarið undir sér án stuðnings hins opinbera, e.t.v. að 8 til 10 árum liðnum frá verklokum.
Hlutafé hins opinbera jafnt sem annarra, er legðu fé til framkvæmdar í upphafi, myndi á síðari stigum skila sér í hreinum fjárhagslegum arði, svo sem hér verður fjallað um í eftirfarandi köflum, auk alls þess beina og óbeina samfélagslega arðs sem öll framkvæmdin myndi skila í fyllingu tímans.
Almennur, samfélagslegur arður eða ábati verður vissulega ekki metinn til fjár á jafn einfaldan máta og hreinn ágóði út frá efnahagsreikningi jarðbrautaverkefnisins, sem mældist meðal annars í lægri framlögum hins opinbera til almenningssamgangna. Eða hver myndi vera beinn og óbeinn arður einstaklinga, eða samfélagsins í heild, vegna lægri ferðakostnaðar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum? Fjölskyldur sem fækkuðu við sig um einn bíl frá tveimur kynnu að spara hartnær eina milljón króna á ári en verðu þess í stað broti fjárhæðarinnar í ferðir með jarðbrautavögnum. Á samsvarandi máta gæti einstaklingur með knöpp fjárráð bætt hag sinn um hundruð þúsunda króna á ári með því að spara einkabílinn eða sleppa honum alveg. Bættu 30 þúsund manns hag sinn til jafnaðar um hálfa milljón króna á ári með þessu móti þá samsvaraði það um 15 milljörðum króna. Önnur 30 þúsund manns sem spöruðu sér 200 þúsund krónur á ári hvert og eitt með minni notum af einkabíl væru alls 6 milljörðum króna betur sett fyrir vikið. Er þá alveg ótalinn árlegur tugmilljarða króna sparnaður samfélagsins vegna minna álags á almenn umferðarmannvirki, minni tafatíma og minna vegslits vegna fækkunar ökutækja og minnkandi þarfar á flóknum vega- og gatnatengingum, auk þess sem lægri slysatíðni myndi spara samfélaginu.
Mikilvægi jarðbrautanetsins lægi ekki síst í frelsi til að ferðast milli nær hvaða staða sem væri á höfuðborgarsvæðinu eða á Suðurnesjum á mjög skömmum tíma án bindingar við eigin bíl eða skutl annarra. Unglingar í Grafarholti skryppu auðveldlega á fótboltaleik í Keflavík engu síður en njarðvískir jafnaldrar þeirra á Völlinn í Reykjavík. Barn í Mosfellsbæ gæti með góðu móti sótt tónlistarskóla hvar sem væri í Reykjavík eða tónlistarskóli í Mosfellsbæ laðað nemendur þaðan til sín ef því væri að skipta, eða börn í Vesturbænum kosið að æfa íþróttir með ÍR eða Leikni í Breiðholti frekar en KR – eða á hinn bóginn börn í Breiðholti með KR – einfaldlega af því að það væri þeirra val, alls án þess að hefðu foreldra sína fyrir einkabílstjóra eða að stóla þyrftu á æ stopulli og tímafrekari strætisvagnaferðir.
Engu að síður gæti fleira komið til en farþegaflutningar sem reikna mætti jarðbrautanetinu beint til tekna þannig að augljóslega kæmi fram í efnahagsreikningi og þá til hagsbóta öllum notendum.
Þannig gætu ýmsir möguleikar verið fólgnir í fraktflutningum er tengdust flugvöllum, höfnum og hinum ýmsu vöruhúsum og vinnslustöðvum. Ferskfiskur væri fluttur til Keflavíkurflugvallar frá fiskvinnslustöðvum á svæðinu, og e.t.v. frá Bessastaðanessvelli utan af landi einnig, auk þess sem almenn flugfrakt væri flutt á ýmsa vegu milli flugvalla og vöruafgreiðslustöðva á svæðinu. Á samsvarandi máta flyttu vagnar vörur milli Sundahafnar, og annarra hafna á svæðinu, og hinna ýmsu afgreiðslustöðva og vöruhúsa stórmarkaða og stórra framleiðslufyrirtækja, fiskvinnsluhúsa sem annarra. Afleggjarar, eða heimreiðar sem svo mætti kalla, göng, stokkar eða yfirbyggðar brautir sem tengdu vinnslustöðvarnar, vöruhúsin og flugvallar- og hafnarskemmur við heildarnetið, gætu verið til muna umfangsminni og ódýrari að gerð en almennar brautir og væru þá yfirleitt einnar akreinar án sérstakra öryggisgangreina til hliðanna, enda ækju vöruvagnarnir ávallt mannlausir.
Þá er einnig til í dæminu að samnýta mætti brautir með jarðstrengjalögnum til raforkuflutnings, sérstaklega á Suðurnesjum. Það er þó ekki tekið til athugunar í köflunum er hér fylgja á eftir um kostnað, eignarhald og fjármögnun, né heldur það sem hér hefur verið nefnt um mögulega nýtingu netsins til vöruflutninga, enda krefðist hvort tveggja mjög sértækra athugana og markaðsrannsókna sem eðlilegra væri að huga að á síðari undirbúningsstigum. En því víðtækari sem væru notin af jarðbrautanetinu, því lægri gætu fargjöld og flutningsgjöld almennt verið, sem aftur myndaði enn frekari hvata að nýtingu netsins í heild sinni.
Þegar fram liðu stundir, í fjarlægari framtíð, þegar sjálfkeyrandi bílar, alls án ökumanna, væru almennt orðnir heimilir, myndi jarðbrautanetið engu að síður þjóna tilgangi sínum. Það myndi þá verða tengt akbrautum ofanjarðar og nýtast til fulls sem hluti alls samgönguæðakerfisins, en akbrautir og önnur samgöngumannvirki á yfirborði jarðar gætu þá að sama skapi orðið því minni fyrirferðar og verulegt rými myndi falla til undir þéttari byggð.
{ultimatesocialbuttons}
[1] Höfuðborgarsvæðið 2040 – fylgirit 5: Mat á samgöngusviðsmyndum, kafli 3.4, mynd 22. SSH/Mannvit 2014 – http://ssh.is/images/stories/Sóknaráætlun/Lokaskyrslur/Vaxtarsamningur/Mat_samgongusv_loka_NET.pdf
Mynd nr. 1 – titilmynd: Þotuhreiðrið eftir Magnús Tómasson. Iceland, Land of Fire and Ice: http://blink.brunner-group.com/en/issues/airport-waiting-meeting-relaxing/our-favorite/content.html - mynd þar nr. 11: http://blink.brunner-group.com/uploads/tx_templavoila/06_JetNest_01.jpg (Mynd lítið eitt aðlöguð, bakgrunnur felldur burt)
Mynd nr 2 – bakgrunnur myndar: Google Maps – Kristnibraut, Street View Aug 2013 – horft af Grafarholti til Akrafjalls og Esju. https://www.google.is/maps/@64.126764,-21.758466,3a,75y,332.61h,83.71t/data=!3m4!1e1!3m2!1sM59Hu58fhUie84Ol2KH9cA!2e0
Mynd nr 3 – bakgrunnur myndar: Bakkarnir í Breiðholti – 02-02-2014 Colorful roofs in Breiðholt – http://www.overv.eu/archive/ (1391374498053.jpg)
Aðrar myndir, en eru tilgreindar, eru höfundar