< Hafa, ekki hafa

 

ÞRIÐJI HLUTI

 

HARRÝ MORGAN

Vetur

 

 

 

1. kafli

Albert hefur orðið

Við vorum allir þarna inni á staðnum hans Fredda og þessi hávaxni renglulegi lögfræðingur birtist og spyr: „Hvar er Juan?“

„Ekki kominn aftur enn,“ svaraði einhver.

„Ég veit að hann er kominn. Þarf að hitta hann.“

„Einmitt, þú sagðir þeim til hans og fékkst honum stefnt fyrir vikið og hyggst nú taka að þér vörnina fyrir hann,“ sagði Harrý. „Láttu vera að sniglast hér eftir honum. Ætli þú sért ekki kominn með hann í vasann.“

„Skál fyrir þér!“ sagði lögfræðingurinn. „Ég hef verk handa honum að vinna.“

„Nú, farðu þá þá og leitaðu að honum annars staðar en hér,“ sagði Harrý. „Hér er hann ekki.“

„Ég er að segja þér það, ég hef verk handa honum að vinna,“ sagði lögfræðingurinn.

„Þú hefur ekkert verk handa neinum að vinna. Þú ert naðra, allt og sumt.“

Rétt í þann mund kemur inn sá gamli í gúmmísölunni með sitt síða gráa hár niður á axlir og biður um kvartpint og Freddi mælir það út fyrir hann og slær í korktappann og sá gamli er óðara rokinn út með það.

„Hvað kom fyrir handlegginn á þér?“ spurði lögfræðingurinn Harrý. Harrý var með ermina nælda upp að öxl.

„Mér þótti hann svo lítt fagur á að líta að ég hjó hann,“ sagði Harrý við hann.

„Þú og ásamt hverjum hjóstu hann?“

„Við doktorinn hjuggum hann,“ sagði Harrý. Hann var búinn að vera að fá sér í glas og var að verða dálítið þéttur. „Ég hélt honum kyrrum og hann hjó. Ef þeir hyggju þá fyrir að vera í annarra manna vösum værir þú hvorki með hendur né neina fætur.“

„Hvað kom til að þeir þurftu að höggva hann?“ spurði lögfræðingurinn hann.

„Taktu það rólega,“ sagði Harrý við hann.

„Nei, ég er að spyrja þig. Hvað kom til og hvar varstu?“

„Farðu og finndu þér einhvern annan að gantast við,“ sagði Harrý við hann. „Þú veist vel hvar ég var og hvernig það gerðist. Haltu kjaftinum á þér saman og láttu mig í friði.“

„Ég þarf að ræða við þig.“ sagði lögfræðingurinn við hann.

„Þá ræddu við mig.“

„Nei, á bak við.“

„Ég hef ekkert við þig að tala. Þér hefur aldrei legið neitt gott til neins. Naðran þín.“

„Ég hef dálítið handa þér. Dálítið gott.“

„Allt í lagi þá í þetta sinn,“ sagði Harrý við hann. „Varðandi hvað er það? Juan?“

„Nei. Ekki Juan.“

Þeir fóru fyrir sveiginn á barborðinu og á bak við þar sem búðarvörurnar eru og héldu sig þar drykklanga stund. Á meðan þeir héldu sig þar birtist dóttir Stóru Lúsíar ásamt þessari stelpu af staðnum þeirra sem hún er alltaf á sveimi með, og þær settust við barinn og fengu sér kóka-kóla.

„Þeir segja mér þeir ætli ekki að lofa neinum stúlkum að vera neitt úti eftir klukkan sex á kvöldin og engum stúlkum af neinum stöðunum,“ segir Freddi við dóttur Stóru Lúsíar.

„Það er það sem þeir segja.“

„Fjárans bær þetta er að verða,“ segir Freddi.

„Fjárans bær, það segirðu satt. Maður rétt skreppur út eftir samloku og kók og þeir húkka mann og sekta um fimmtán dali.“

„Það er það eina sem þeir næla í núorðið,“ segir dóttir Stóru Lúsíar. „Þróttmikið fólk af öllu tagi. Aðeins að það sé nógu blómlegt og sællegt.“

„Gerist ekkert með þennan bæ og það fjandi brátt þá lýst mér ekki á það.“

Í sömu svifan komu Harrý og lögfræðingurinn aftur fram og lögfræðingurinn sagði: „Þú verður þá þar út frá?“

„Af hverju ekki að fá þá hingað?“

„Nei. Þeir kæra sig ekki um að koma inn eftir. Þar út frá.“

„Allt í lagi,“ sagði Harrý og gekk að barnum og lögfræðingurinn hélt áfram út.

„Hvað viltu, Al?“ spurði hann mig.

„Bacardi.“

„Láttu okkur fá tvo bacardi, Freddi.“ Síðan sneri hann sér að mér og sagði: „Hvað ertu að gera núna, Al?“

„Í atvinnubótavinnunni.“

„Gera hvað þar?“

„Grafa holræsin. Rífa upp gömlu sporvagnateinana.“

„Og færð hvað fyrir?“

„Sjö og hálfan.“

„Á viku?“

„Hvað heldur þú?“

„Hvernig megnarðu að fá þér í glas hérna?“

„Ég var ekki með neitt fyrr en þú bauðst mér upp á,“ sagði ég við hann. Hann laut aðeins fram á borðið til mín. „Hefðirðu áhuga á að fara í túr?“

„Veltur á hvað það er.“

„Við ræðum það.“

„Allt í lagi.“

„Komum út í bíl,“ sagði hann. „Sjáumst, Freddi.“ Hann var dálítið andstuttur eins og hann átti til þegar hann var við skál og ég fylgdi honum eftir upp sundurgrafna götuna þar sem við höfðum verið að vinna allan daginn, að horninu þar sem hann geymdi bílinn sinn. „Komdu inn,“ sagði hann.

„Hvert á að halda?“ spurði ég hann.

„Veit ekki,“ sagði hann. „Finnum út úr því.“

Við ókum upp Hvíthöfðastræti og hann mælti ekki orð og við ókum götuna á enda þar sem hann beygði til vinstri og fórum síðan sem leið lá gegnum miðbæinn og inn á Hvítastræti og út eftir niður að strönd. Allan tímann mælti Harrý ekki aukatekið orð og við beygðum áfram inn á sandveginn og fórum eftir honum inn á breiðstrætið. Þegar við vorum komnir þangað beygði hann upp að gangstéttinni og stoppaði.

„Einhverjir útlendingar vilja taka bátinn minn á leigu í túr,“ sagði hann.

„Tollararnir hafa lagt hald á bátinn þinn.“

„Þeir vita það ekki, útlendingarnir.“

„Í hvers konar túr?“

„Þeir segjast þurfa að koma einhverjum yfir sem á eitthvert erindi til Kúbu en getur ekki farið með bátnum eða flugvélinni. Stríðvör sagði mér þetta.“

„Gera þeir það?“

„Svo sannarlega. Hafa gert það allt frá byltingunni. Hljómar ekki sem verst. Býsna margir fara þessa leiðina.“

„En báturinn?“

„Bátnum verðum við að stela. Þú veist þeir hafa hana ekki klára svo ég geti ekki sett í gang.“

„Hvernig ætlarðu að ná henni út úr kafbátahöfninni?“

„Ég næ henni út.“

„Hvað með að komast til baka?“

„Ég finn lausn á því. Ef þig langar ekki með, þá segðu til.“

„Ég er tilbúinn hvenær sem er ef einhver peningur er í spilinu.“

„Heyrðu mig,“ sagði hann. „Þú hefur upp úr þér sjö og hálfan á viku. Þú átt þrjá krakka í skóla sem eru orðnir svangir á hádegi. Þú átt fyrir fjölskyldu að sjá sem gengur um með tóman maga og ég gef þér kost á að þéna smá pening.“

„Þú hefur ekki minnst á hve mikið. Þénustan verður að vera áhættunnar virði.“

„Það er ekkert upp úr neinu að hafa sem er áhættunnar virði núorðið, Al, ekkert sem heitið getur,“ sagði hann. „Sjáðu mig. Ég var vanur að þéna þrjátíu og fimm dali á dag á meðan aðaltíminn stóð yfir fyrir að fara með menn út að fiska. Núna, fyrir að smúla skitnum brennivínsfarmi sem er varla meira virði en báturinn minn, þá missi ég ekki aðeins bátinn heldur verð fyrir skoti og missi einnig handlegginn. En ég skal segja þér það að krakkarnir mínir skulu ekki þurfa að ganga um með tóman maga og aldrei skal ég leggja mig niður við að fara að grafa holræsi fyrir stjórnina og bera minna úr býtum en kostar að brauðfæða þá. Ég er allaveganna ekki fær um að grafa núna. Ég veit ekki hverjir sömdu lögin en hitt veit ég að engin nein lög eru fyrir því að mann verði að svengja.“

„Ég fór í verkfall út af þessum launum,“ sagði ég við hann.

„Og fórst aftur að vinna,“ sagði hann. „Þeir sögðu að þið strídduð gegn almannaheill. Fóruð alltaf að vinna, var það ekki. Spurðuð aldrei neinn að ykkar heill.“

„Það er enga vinnu að hafa,“ sagði ég. „Það er enga vinnu að hafa neins staðar að maður framfleyti sér á laununum.“

„Af hverju ekki?“

„Ég veit það ekki.“

„Ekki ég heldur,“ sagði hann. „En fjölskylda mín skal fá að borða svo lengi sem einhver borðar. Það sem þeir hyggjast fyrir er að svelta ykkur Kræklinga héðan burt svo þeir geti brennt hreysin til grunna og reist leiguhýbýli og gert þetta að ferðamannabæ. Þetta heyrir maður. Ég hef heyrt að þeir séu að kaupa upp lóðir, og síðan þegar vesalings fólkið hefur verið svelt út og það er farið til að svelta dálítið meira einhvers staðar annars staðar koma þeir til skjalanna og breyta þeim í unaðsreiti fyrir ferðamenn.“

„Þú talar eins og róttækur,“ sagði ég.

„Ég er ekki neinn róttækur,“ sagði hann. „Mér sárnar. Mér hefur lengi sárnað.“

„Það hefur varla linað sárindin að missa handlegginn.“

„Fjárinn hirði handlegginn. Maður missir handlegg maður missir handlegg. Það er til verra en að missa handlegg. Maður er með tvo handleggi og tvo af einhverju öðru. Og maður einhentur eða með einn af þessum — hann er áfram maður. Fjárinn hafi það,“ segir hann. „Ég kæri mig ekki um að ræða það.“ Síðan, að mínútu liðinni, segir hann: „Ég er enn með þessa hina tvo.“ Síðan setti hann bílinn í gang og sagði: „Áfram nú, förum og lítum á þessa náunga.“

Við keyrðum eftir breiðstrætinu og golan þaut yfir höfðum okkar og nokkrir bílar tóku fram úr og þar sem öldunum hafði skolað yfir sjóvarnargarðinn á háflóðinu lagði anganina af dauðum þara á steypunni, og á stýrinu var Harrý með sína einu hönd. Mér líkaði við hann allt í lagi og hafði verið býsna oft til sjós með honum í gamla daga, en hann var núna breyttur maður síðan hann missti handlegginn og þessi náungi í heimsókn niður frá Washington sór eið að því að hann hefði séð brennivíni varpað fyrir borð á bátnum, og tollararnir tóku hana. Honum leið alltaf vel um borð og án bátsins leið honum býsna illa. Ég held að hann hafi verið feginn að hafa fundið sér afsökun fyrir að stela henni. Hann vissi að hann gæti ekki haldið henni en ef til vill gæti hann þénað á henni einhvern skilding á meðan hann væri með hana. Ég var nógu illa peningaþurfi en kærði mig ekki um að lenda í neinum vandræðum. Ég sagði við hann: „Þú veist að ég kæri mig ekki um að lenda í neinum rosa vandræðum, Harrý.“

„Hverju gætirðu lent í verra en þú ert í nú?“ sagði hann. „Hvað er til fjandanum verra en að svelta?“

„Ég svelti ekki,“ sagði ég. „Hvern fjárann ert þú alltaf að tala um að svelta?“

„Má vera að þú gerir það ekki, en krakkarnir þínir gera það.“

„Hættu þessu,“ sagði ég. „Ég skal vinna með þér en þú getur ekki leyft þér að tala við mig á þennan hátt.“

„Allt í lagi,“ sagði hann. „En vertu viss um að þú viljir vinnuna. Mér standa býsna margir til boða í þessum bæ.“

„Ég vil hana,“ sagði ég. „Ég var búinn að segja þér það.“

„Sýndu þá af þér kæti.“

„Sýnd þú af þér kæti,“ sagði ég. „Þú ert sá einasti sem talar eins og róttækur.“

„Æ, sýndu af þér kæti, sagði hann. „Allir eruð þið haldnir sömu iðrakreppunni þið Kræklingar.“

„Síðan hvenær ert þú ekki Kræklingur?“

„Síðan ég fyrsta sinni á ævinni fékk gott að borða.“ Hann var meinfýsinn núna, allt í lagi, og allt frá því að hann var strákur hafði hann aldrei sýnt neinum neina vorkunnsemi. En neinni sjálfsvorkunn hafði hann heldur aldrei verið haldinn.

„Allt í lagi,“ sagði ég við hann.

„Taktu það rólega,“ sagði hann. Fram undan sá ég ljósin frá þessum stað.

„Við hittum þá hér,“ sagði Harrý. „Haltu kjaftinum á þér hnepptum saman.“

„Farðu fjandans til.“

„Æ, taktu það rólega,“ sagði Harrý sem við beygðum inn á afleggjarann og ókum í sveig á bak við staðinn. Hann var hrotti og óþverrakjaftur en allt í lagi mér líkaði við hann.

Við stöðvuðum bílinn á bak við þennan stað og fórum inn í eldhúsið þar sem kona mannsins var að elda við ofn. „Hæ, Fríða,“ sagði Harrý við hana. „Hvar er Stríðvör?“

„Hérna rétt fyrir handan, Harrý. Hæ, Albert.“

„Hæ, ungfrú Richards,“ sagði ég. Ég hafði þekkt hana allt frá því hún hafði verið í miðri bæjariðunni, en þær tvær eða þrjár giftra kvenna í bænum sem hvað harðast máttu leggja að sér létu sér yfirleitt fátt fyrir brjósti brenna og þessi mátti leggja hart að sér, skal ég segja þér. „Líður ekki fólkinu þínu vel?“ spurði hún mig.

„Hafa það öll gott.“

Við fórum gegnum eldhúsið og inn í þetta bakherbergi. Þar sat Stríðvör, lögfræðingurinn, ásamt fjórum Kúbönum við borð.

„Fáið ykkur sæti,“ sagði einn þeirra á ensku. Hann var seiglunagli á að líta, mikill á velli, búlduleitur og með rödd sem lá djúpt niður í barka, og maður sá á honum að hann hafði fengið sér vel neðan í því. „Hvað heitir þú?“

„En þú?“

„Allt í lagi,“ sagði þessi Kúbani. „Hafðu þinn háttinn á því. Hvar er báturinn?“

„Hún er niður frá þar sem snekkjurnar eru,“ sagði Harrý.

„Hver er þetta?“ spurði Kúbaninn og leit á mig.

„Félagi minn,“ sagði Harrý.

„Hvað viltu? Bacardi?“

„Hvað sem er, sama og þið,“ sagði Harrý við hann.

„Drekkur félagi þinn?“

„Þigg eitt,“ sagði ég.

„Enginn hefur boðið þér enn,“ sagði stórvaxni Kúbaninn. „Ég spurði aðeins hvort þú drykkir.“

„Æ, hættu þessu, Roberto,“ sagði einn hinna Kúbananna, sem var ungur, rétt kominn af stráksaldri. „Er þér fyrirmunað að aðhafast neitt án þess að vera með illkvittni.“

„Hvað áttu við með illkvittni? Ég aðeins spurði hvort hann drykki. Ef maður ræður einhvern heldurðu þá maður spyrjir ekki hvort hann drekki?“

„Gefðu honum í glas,“ sagði hinn Kúbaninn. „Snúum okkur að viðskiptunum.“

„Hvað tekurðu fyrir bátinn, stóri strákur?“ spurði djúpraddaði Kúbaninn, sem nefndur var Roberto, Harrý.

„Veltur á því hvað þú hyggst fyrir með hana,“ sagði Harrý.

„Fara með okkur fjóra til Kúbu.“

„Hvert til Kúbu?“

„Cabañas. Rétt hjá Cabañas. Niður á ströndinni undan Mariel. Veist hvar þetta er?“

„Veit ég vel,“ sagði Harrý. „Bara að taka ykkur þangað?“

„Allt og sumt. Taka okkur þangað og setja á land.“

„Þrjú hundruð dalir.“

„Of mikið. Hvað segirðu um dagleigu og við ábyrgjumst tveggja vikna leigu?“

„Fjörtíu dalir fyrir daginn og þið setjið fimmtán hundruð dala tryggingu fyrir tjóni sem báturinn kynni að verða fyrir. Þarfnast það frekari útskýringa?“

„Nei.“

„Þið borgið bensín og olíu.“ sagði Harrý við hann.

„Við erum tilbúnir að láta þig fá tvö hundruð dali fyrir að taka okkur þangað yfir og setja á land.“

„Nei.“

„Hve mikið viltu?“

„Sagði þér það.“

„Það er of mikið.“

„Það er það ekki,“ sagði Harrý við hann, „Ég hef ekki hugmynd um hverjir þið eruð. Ég hef ekki hugmynd um í hvers konar viðskiptum þið eigið og því síður hverjir skjóta á ykkur. Það er vetur og ég verð að fara í tvígang yfir flóann. Í öllu falli hætti ég bátnum mínum. Ég skal flytja ykkur fyrir tvö hundruð og þið setjið þúsund til tryggingar fyrir tjóni á bátnum.“

„Það er sanngjarnt,“ sagði Stríðvör við þá. „Það er meira en sanngjarnt.“

Kúbanarnir fóru að ræða saman á spænsku. Ég skildi þá ekki en vissi að Harrý gerði það.

„Allt í lagi,“ sagði Roberto, sá stórvaxni. „Hvenær ertu tilbúinn að fara?“

„Hvenær sem er annað kvöld.“

„Það er til í dæminu að við viljum ekki fara fyrr en þarnæsta kvöld,“ sagði einn þeirra.“

„Allt í fína, hvað mig varðar,“ sagði Harrý. „Látið mig aðeins vita í tíma.“

„Er báturinn þinn í góðu standi?“

„Mátt treysta því,“ sagði Harrý.

„Fallegasta gnoð,“ sagði sá ungi í hópnum.

„Hvar sástu hana?“

„Herra Simmons, lögfræðingurinn hérna, sýndi mér hana.“

„Ó,“ sagði Harrý.

„Fáðu þér í glas,“ sagði annar Kúbaninn. „Hefurðu komið oft til Kúbu?“

„Nokkrum sinnum.“

„Talar spænsku?“

„Aldrei numið málið,“ sagði Harrý.

Ég sá að Stríðvör, lögfræðingurinn, leit á hann, en hann er sjálfur svo brögðóttur að hann kann því alltaf mun betur að fólk segi ekki sannleikann. Rétt eins og þegar hann kom inn til að ná tali af Harrý um þetta verk þá gat hann ekki talað við hann hreint út. Hann varð að láta sem hann vildi hitta Juan Rodriguez, sem er vesæll illþefjandi gallegoi sem myndi ekki hika við að stela frá sinni eigin móður og Sríð-vör fékk kærðan á ný til að fá vörnina í sinn hlut.

„Herra Simmons talar góða spænsku,“ sagði Kúbaninn.

„Hann er menntaður maður.“

„Ertu klár á siglingafræðinni?“

„Er klár á því að fara og klár á því að koma.“

„Þú ert fiskimaður?“

„Já, herra minn.“

„Hvernig ferðu að því að fiska einhentur?“ spurði sá búlduleiti hann.

„Maður einfaldlega fiskar tvöfalt hraðar,“ sagði Harrý við hann. „Var það eitthvað fleira sem þið vilduð mér?“

„Nei.“

Þeir voru allir farnir að tala saman á spænsku. „Ég er þá farinn,“ sagði Harrý.

„Ég læt þig vita varðandi bátinn,“ sagði Stríðvör við Harrý.

„Þetta er dálítill peningur sem þarf að setja upp.“ sagði Harrý.

„Göngum frá því á morgun.“

„Jæja þá, góða nótt,“ sagði Harrý við þá.

„Góða nótt,“ sagði sá ungi og viðmótsþýði. Sá búlduleiti sagði ekki neitt. Hinir tveir voru báðir með svipmót indíána og höfðu ekki tekið neitt til máls nema til að ræða við þann búlduleita á spænsku.

„Sé þig seinna,“ sagði Stríðvör.

„Hvar?“

„Hjá Fredda.“

Við fórum út og aftur gegnum eldhúsið. „Hvernig hefur María það, Harrý?“ spurði Fríða.

„Hún hefur það gott núna,“ sagði Harrý við hana. „Henni líður vel núna,“ og við förum út um dyrnar. Við settumst inn í bílinn og hann ók til baka inn á breiðstrætið og mælti ekki orð af vör. Allt í lagi hann var eitthvað að hugsa.

„Á ég að skutla þér heim?“

„Allt í lagi.“

„Býrðu núna út við sveitaveginn?“

„Já. Hvað um túrinn?“

„Ég veit ekki,“ sagði hann. „Ég veit ekki hvort það verður nokkur túr. Sé þig á morgun.“

Hann lét mig úr fyrir utan þar sem ég bý og ég fór inn og er ekki fyrr búinn að opna dyrnar en hún gamla mín segir mér að fara fjandans til fyrir að hafa verið úti að drekka og koma seint í matinn. Ég spyr hana hvernig ég eigi að megna að drekka með enga peninga og hún segir að ég hljóti að láta skrifa. Ég spyr hana hver hún haldi að skrifi hjá mér þegar ég sé í atvinnubótavinnunni og hún segir mér að halda minni byttuönd fjarri sér og setjast við borðið. Svo að ég sest niður. Krakkarnir eru allir farnir að horfa á hornaboltaleikinn og ég sit þarna við borðið og hún færir mér kvöldmatinn og yrðir ekki á mig orði.

 

2. kafli

Harrý

Ég hef enga löngun til að taka þátt í þessum hráskinnsleik en hverra kosta á ég völ? Þeir gefa manni ekkert undanfæri núna. Ég get látið það eiga sig; en hvers má þá eiga von? Ekki var það ég sem bað um neitt af þessu og sé maður kominn út í það er maður kominn út í það. Ef til vill ætti ég ekki að taka Albert. Hann er deigur en hann er snöggur og góður um borð í bát. Honum verður ekki svo auðveldlega í bringu skotið en ég veit ekki hvort ég ætti að taka hann. En ég get ekki tekið neina byttu eða neinn niggara. Það verður að vera einhver sem ég get lagt traust mitt á. Ef við komumst frá því skal ég sjá til þess að hann fái sitt í hlut. En ég get ekki sagt honum frá því, annars hann mundi gugna á því og ég verð að hafa einhvern mér við hlið. Það væri betra einsamall, manni gengur allt betur einsömlum en ég held ekki ég kæmist frá því einsamall. Það kæmi Albert betur að hann vissi ekkert af því. Það eina er Stríðvör. Stríðvör sem mun vita hvernig allt er í pottinn búið. Samt hljóta þeir að hafa leitt hugann að því. Hljóta að hafa tekið það með í reikninginn. Heldurðu að Stríðvör sé slíkt flón að hann viti ekki hvað þeir hyggist fyrir? Þætti gaman að vita. Auðvitað er til í dæminu að þeir ætli sér það ekki. Má vera að þeir hyggi ekki á neitt slíkt. En það liggur beint við að ætla að þetta sé það sem þeir hyggist fyrir og ég heyrði þetta orð. Geri þeir það verða þeir að gera það rétt um myrkur eða þeir fá á sig strandgæsluvélina niður frá Miamí. Það er orðið dimmt núna um sexleytið. Hún flýgur ekki niður eftir á innan við klukkutíma. Jafnskjótt og dimmt er orðið eru þeir sloppnir. Öllu falli, eigi ég að flytja þá verð ég að hugsa fyrir hvernig ég á að snúa mér í því með bátinn. Það verður ekki svo erfitt að ná henni út en geri ég það í kvöld og þeir komast að því að hún er farin gætu þeir kannski haft upp á henni. Það verður í öllu falli mikið uppistand. Í kvöld er samt eina tækifærið sem ég hef til að ná henni út. Ég næ henni út á flóðinu og kem henni í var. Ég finn út hvað vantar í hana ef nokkuð er, hafi þeir ekki tekið neitt. En ég verð að taka bensín og taka vatn. Ég á fyrir höndum fjandi erilsama nótt allt í lagi. Þegar ég verð búinn að koma henni í skjól verður Albert að koma með þá í hraðbát. Kannski hans Waltons. Get tekið hann á leigu. Eða Stríðvör getur leigt hann. Það væri betra. Stríðvör getur hjálpað mér að ná bátnum út í kvöld. Stríðvör er sá eini. Því það veit fjandinn að þeir hafa Stríðvör með í dæminu. Þeir hljóta að hafa tekið hann með í reikninginn. Gerum ráð fyrir að því sé eins farið með okkur Albert. Leit einhver þeirra út fyrir að þekkja til sjómennsku? Leit einhver þeirra út fyrir að vera sjómaður? Látum okkur sjá. Má vera. Sá viðmótsþýði, gæti verið. Hugsanlega hann, sá ungi. Ég verð að fá þetta á hreint því ef þeir hugsa sér að komast af án Alberts eða mín frá byrjun þá er ekkert undanfæri. Fyrr eða síðar komum við inn í dæmið. En þér vinnst tími á flóanum. Og ég hugsa málið allan tímann. Verð að hugsa skýrt allan tímann. Mér mega ekki verða á mistök. Ekki nein mistök. Ekki nein. Gott og vel, ég hef nóg að hugsa um núna allt í lagi. Nóg að gera og nóg að hugsa um og velta jafnframt vöngum yfir hver fjandinn muni gerast. Velta jafnframt vöngum yfir hvernig öllu bannsettu spilinu reiðir af. Þeir einu sinni lögðu í borð. Þú einu sinni tekur þátt. Eitt tækifæri færðu. Í stað þess einungis að horfa upp á það allt saman fara fjandans til. Með engan bát, ekkert til að hafa viðurværi af. Þessi Stríðvör. Hann veit ekki hvað hann er kominn út í. Hann hefur ekki minnstu hugmynd um hvernig þessu á eftir að reiða af. Ætla að vona að hann láti sjá sig hið allra fyrsta niður frá hjá Fredda. Verður ansi margt að gera hjá mér í kvöld. Eins gott að fá sér eitthvað í svanginn.

 

3. kafli

Það var um hálftíu sem Stríðvör kom til baka. Það leyndi sér ekki að þeir höfðu haldið því býsna vel að honum því þegar hann drekkur verður hann svo drjúgur með sig og þegar hann kom inn var hann orðinn ansi drjúgur með sig.

„Jæja, Stórskot,“ segir hann við Harrý.

„Skalt spara þér stóru skotin á mig,“ segir Harrý.

„Ég þarf að ræða við þig, Stórskot.“

„Hvar þá? Á bak við inni á skrifstofunni þinni?“ spyr Harrý hann.

„Já, þarna á bak við. Nokkur þarna á bak við, Freddi?“

„Ekki síðan þessi lög voru sett. Segðu mér, hve lengi ætla þeir að láta þessa klukkansexreglu gilda?“

„Af hverju felurðu mér ekki að gera eitthvað í málinu?“ segir Stríðvör.

„Fel þig fjandanum.“ segir Freddi við hann. Og þeir tveir fara á bak við þar sem búðarvörurnar eru og kassarnir með tómu flöskunum.

 

Kveikt var á einni rafmagnsperu í loftinu og Harrý skyggndist alls staðar á milli búðarhillnanna þar sem ljósið náði ekki niður og gekk úr skugga um að enginn væri þar.

„Jæja?“ sagði hann.

„Þeir vilja fara seint síðdegis ekki á morgun heldur hinn,“ sagði Stríðvör við hann.

„Hvað hyggjast þeir fyrir?“

„Þú talar spænsku,“ sagði Stríðvör.

„Þú hefur þó ekki sagt þeim frá því?“

„Nei. Ég er þinn vin. Veist það.“

„Þú mundir ekki hika við að svíkja þína eigin móður.“

„Hættu þessu. Hugsaðu um hvað ég er að verða þér úti um.“

„Hvenær varðstu svona seigur?“

„Heyrðu mig, ég þarfnast peninganna. Ég verð að losna héðan burtu. Ég er að skrælna hérna. Veist það, Harrý.“

„Hver veit það ekki?“

„Þú veist hvernig þeir hafa verið að afla fjár fyrir þessa byltingu með barnsránum og hvað það nú heitir.“

„Ég veit.“

„Þetta er sami hluturinn. Þeir gera það í góðu augnamiði.“

„Jú. En hér er hér. Það er hér sem þú ert fæddur. Þú veist, allir vinna þarna.“

„Það kemur ekkert fyrir neinn.“

„Þar sem þessir drengir eru að verki?“

„Ég hélt þú hefðir skilningarvit í lagi?“

„Þau eru í lagi. Hafðu ekki áhyggjur af mínum skilningarvitum. En ég hef hugsað mér að búa hér áfram.“

„Ekki ég.“ sagði Stríðvör.

Jesús, hugsaði Harrý. Hann sagði það sjálfur.

„Ég ætla mér að losna héðan,“ sagði Stríðvör. „Hvenær ætlarðu að ná bátnum út?“

„Í kvöld.“

„Hver ætlar að hjálpa þér?“

„Þú.“

„Hvert ætlarðu með hana?“

„Þangað sem ég hef alltaf farið með hana.“

 

Það var engum erfiðleikum bundið að ná bátnum út. Það reyndist jafn einfalt og Harrý hafði reiknað með. Næturvörðurinn fór hringinn sinn á heila tímanum en hélt sig þess á milli við ytra hliðið á gömlu flotastöðinni. Þeir komu á skektu inn í dokkina og skáru hana lausa á útfallinu og hún fór út af sjálfu sér, aftan í skektunni. Á meðan hana rak í sundinu fyrir utan athugaði Harrý vélarnar og sá að þeir höfðu ekki gert annað en taka kveikjurnar úr sambandi. Hann athugaði bensíngeymana og sá að það voru í henni nálægt hundrað og fimmtíu gallon. Þeir höfðu ekki dælt neinu af henni, í geymunum var það sem hann hafði átt eftir þegar hann kom yfir þetta síðasta sinn. Hann hafði fyllt áður en þeir lögðu af stað og hún hafði eytt afar litlu vegna þess hve þeir höfðu orðið að fara sér hægt í þungum sjónum.

„Ég á bensín í geyminum heima við hús,“ sagði hann við Stríðvör. „Ég get hlaðið bílinn af tágakútum eina ferð út eftir og Albert getur farið aðra ferð ef með þarf. Ég ætla að koma upp að í bótinni beint undan þar sem vegurinn liggur yfir hana. Þeir geta komið út eftir í bíl.“

„Þeir vildu að þú yrðir við Portarabryggjuna.

„Hvernig á ég að geta legið þar á þessum bát?“

„Það geturðu ekki. En ég ekki von á því að þeir kæri sig um að þurfa að aka neitt.“

„Jæja, við höfum hana þarna í nótt og ég fylli á hana og geri það sem gera þarf og skipti svo um stað. Þú getur tekið hraðbát á leigu til að fara með þá á út. Ég verð að fara núna með hana þangað upp að. Býsna margt sem ég þarf að gera. Þú rærð í land og ekur út að brúnni og nærð í mig. Ég verð þar á veginum eftir um það bil tvo tíma. Ég læt hana eiga sig og fer upp á veg.“

„Ég næ í þig,“ sagði Stríðvör við hann; og hún klauf sjóinn hljóðlega þegar Harrý sneri henni með vélarnar á hægum snúningi og dró skektuna nærfellt inn í skímuna frá leguljósinu á kapalskonnortunni. Hann rauf vélartengslin og hélt við skektuna á meðan Stríðvör fór yfir í hana.

„Eftir um tvo tíma,“ sagði hann.

„Allt í lagi,“ sagði Stríðvör.

Sem hann sat í stólnum við stýrið, á hægri ferð í dimmunni, vel undan ljósunum á bryggjusporðunum, var Harrý að hugsa, svo að Stríðvör fær að vinna dálítið fyrir kaupinu sínu allt í lagi. Þætti gaman að vita hvað hann heldur að hann fái fyrir. Þætti gaman að vita hvernig hann yfirleitt fór að því að krækja í þessa drengi. Þar höfum við skarpan gutta sem átti sín tækifæri hér eitt sinni. Hann er líka góður lögfræðingur. En mér rann til rifja að heyra hann sjálfan segja það. Hann fór orðum um sitt eigið sjálf þá það. Kyndugt hvað menn geta látið sér um munn fara. Það setti ugg að mér við að heyra hann tjá sig þannig um sinn innri mann.

 

4. kafli

Hann kveikti ekki ljósið þegar hann kom inn í húsið heldur tók af sér skóna í forstofunni og gekk upp beran stigann á sokkaleistunum. Hann afklæddist og fór upp í rúm í bolnum einum saman, áður en kona hans vaknaði. „Harrý?“ sagði hún í myrkrinu og hann svaraði: „Farðu að sofa, gamla mín.“

„Harrý, hvað er um að vera?“

„Er að fara í túr.“

„Með hverjum?“

„Engum. Kannski Albert.“

„Á báti hvers?“

„Ég er búinn að ná bátnum aftur.“

„Hvenær þá?“

„Núna í kvöld.“

„Þú verður settur inn, Harrý.“

„Enginn veit að það var ég.“

„Hvar er hún?“

„Falin.“

Sem hann lá hreyfingarlaus í rúminu fann hann fyrir vörum hennar á andliti sínu og síðan hendur hennar fara um sig og hann velti sér þétt yfir hana.

„Langar þig?“

„Já, núna.“

„Ég var sofandi. Manstu þegar við gerðum það ekkert síður sofandi?“

„Heyrðu, er þér sama um handlegginn? Orkar það ekkert hlægilega á þig?“

„Kjáni ertu. Mér líkar það. Mér líkar allt sem þú ert. Settu hann þarna. Haltu honum áfram þarna. Haltu áfram, mér líkar það svo vel, svo sannarlega.“

„Hann er eins og veifi á þöngulhöfða.“

„Þú ert enginn þöngulhöfði. Gera þeir það virkilega í þrjá daga? Hamslaust í þrjá daga?“

„Sem ég er lifandi. Heyrðu, hafðu hljótt. Við vekjum stelpurnar.“

„Þær hafa ekki hugmynd um hvað ég á. Þær munu aldrei hafa hugmynd um það. Aha, Harrý. Einmitt svona. Aha, ástin mín.“

„Bíddu.“

„Ég vil ekki neitt bíða. Haltu áfram. Einmitt svona. Einmitt þarna. Heyrðu, gerðirðu það einhvern tímann með niggarastelpu?“

„Sem ég er lifandi.“

„Hvernig er það?“

„Eins og að láta hákarl hjúkra sér.“

„Sniðugur ertu. Harrý, ég vildi að þú þyrftir ekki að fara. Ég vildi að þú þyrftir aldrei að fara. Hver er sú besta sem þú hefur nokkurn tíman gert það með?“

„Þú.“

„Lygarinn þinn. Alltaf lýgurðu að mér. Þarna. Þarna. Þarna.“

„Nei. Þú ert sú besta.“

„Ég er gömul.“

„Þú verður aldrei gömul.“

„Hef heyrt þetta áður.“

„Það skiptir engu máli þegar kona er á annað borð góð.“

„Haltu áfram. Haltu áfram núna. Settu stúfinn þarna. Haltu honum þarna. Haltu honum. Haltu honum núna. Haltu honum.“

„Það heyrist of mikið til okkur.“

„Við hvíslumst.“

„Ég verð að fara áður en birtir.“

„Farðu að sofa. Ég skal vekja þig. Það gefst tími til þegar þú kemur til baka. Við förum á hótel uppi í Miamí eins og við vorum vön. Alveg eins og við vorum vön. Á einhvern stað þar sem hvorugt okkar hefur aldrei komið. Af hverju gætum við ekki farið til New Orleans?“

„Kannski,“ sagði Harrý. „Heyrðu María, ég verð að sofna núna.“

„Við förum til New Orleans?“

„Því ekki? Eina ég verð að sofna núna.

„Sofnaðu. Þú mikla ástin mín. Farðu að sofa. Ég vek þig. Hafðu ekki áhyggjur.“

Hann sofnaði með handleggsstúfinn útbreiddan á koddanum og hún lá lengi og virti hann fyrir sér. Hún sá hann í bjarmanum sem lagði af götuljósunum inn um gluggann. Ég er heppin, var hún að hugsa. Þessar stelpur. Þær vita ekki hvað þær eiga í vændum. Ég veit hvað ég hef öðlast og hvað ég hef fengið. Ég hef verið heppin kona. Hann að líkja því við þöngulhöfða. Ég er fegin að það var handleggur en ekki fótur. Mér hefði ekki líkað að hann hefði misst fót. Af hverju skyldi hann hafa misst þennan handlegg? Samt skondið, en ég kippi mér ekki upp við það. Ég kippi mér ekki upp við neitt í sambandi við hann. Ég hef verið heppin kona. Ekki neinir aðrir menn eru eins og hann. Fólk sem aldrei hefur reynt þá skilur það ekki. Ég hef haft þá marga. Ég var heppin að fá hann. Ætli þessum turtildúfum líði eins og okkur. Ætli þeim líði svona allan þennan tíma? Eða ætli þær meiði sig í henni? Ég er farinn að hugsa ljótustu hugsanir. Horfðu á hann, hvernig hann sefur eins og ungabarn. Víst vissara að ég vaki til að ég geti ýtt við honum. Drottinn minn, ég gæti gert það næturlangt ef karlar væru þannig gerðir. Gæti hugsað mér að gera það og fara aldrei að sofa. Aldrei, aldrei, nei, aldrei. Nei, aldrei, aldrei, aldrei. Já, hugsaðu þér, ímyndaðu þér það. Ég á mínum aldri. Ég er ekki gömul. Hann sagði að ég væri enn góð. Fjörtíu og fimm er ekki hár aldur. Ég er tveimur árum eldri en hann. Horfðu á hvernig hann sefur. Horfðu á hvernig hann sefur þarna eins og barn.

 

Tveimur tímum fyrir birtingu voru þau komin í bílskúrinn að setja á tágakúta úr bensíngeyminum, slógu korkinn í og komu þeim fyrir í bílskottinu. Harrý var með krók festan með ólum við upphandlegginn á sér hægra megin og hann lyfti fimlega tágafléttuðum kútunum og lét þá ganga.

„Viltu ekki neinn morgunverð?“

„Þegar ég kem til baka.“

„Viltu ekki kaffið þitt?“

„Ertu með það til?“

„Vissulega. Ég hellti upp á þegar við fórum út.“

„Komdu með það út.“

Hún kom með það út og hann drakk það í dimmunni sitjandi á bílhjólinu. Hún tók við bollanum og lét hann á hillu í skúrnum.

„Ég ætla með þér og hjálpa þér við að handlanga kútana,“ sagði hún.

„Allt í lagi,“ sagði hann við hana og hún settist við hlið hans, stórvaxin og með langa fótleggi, handstór, mjaðmamikil og enn í blóma, með hatt er slútti yfir ljóst, litað hárið. Þau óku út sveitaveginn í dimmu og kuli morgunsins, gegnum þétt mistrið sem grúfði yfir flesjunum.

„Út af hverju ertu með áhyggjur, Harrý?“

„Ég veit það ekki. Bara með áhyggjur. Heyrðu, ertu að láta hárið á þér vaxa?“

„Hélt kannski ég ætti að gera það. Stelpurnar hafa verið á eftir mér með það.“

„Til fjandans með þær. Þú hefur það eins og þú ert vön.“

„Viltu það virkilega?“

„Já,“ sagði hann. „Þannig fellur mér það.“

„Lít ég ekki út fyrir að vera of gömul til þess?“

„Þú lítur betur út en þær allar saman.“

„Ég ætla þá að taka það upp. Ég get lýst það meira ef þér finnst.“

„Hvað eru stelpurnar að skipta sér að því sem þú gerir?“ sagði Harrý. „Þær eiga ekkert með að vera að abbast upp á þig.“

„Þú veist hvernig þær eru. Þú veist, ungar stúlkur eru svona. Heyrðu, ef þú gerir góðan túr, eigum við þá ekki að fara til New Orleans, ættum við ekki að gera það?“

„Miamí.“

„Nú, þá Miamí. Sama er mér. Og við skiljum þær eftir hér.“

„Fyrst verð ég að ljúka dálitlum túr.“

„Þú ert ekki áhyggjufullur, er það?“

„Nei.“

„Veistu, ég lá og vakti í næstum fjóra tíma bara að hugsa um þig.“

„Þannig eru þessar gömlu okkar.“

„Ég get hugsað um þig hvenær sem er og orðið alveg frá mér.“

„Jæja, við verðum víst að setja þetta bensín á,“ sagði Harrý við hana.

 

5. kafli

Klukkan tíu um morguninn stóð Harrý við barinn á staðnum hans Fredda ásamt fjórum eða fimm öðrum; tveir tollverðir voru rétt farnir út. Þeir höfðu verið að spyrja hann um bátinn og hann hafði ekki sagst vita neitt um hann.

„Hvar varstu í gærkveldi?“ spurði einn þeirra.

„Hér og heima.“

„Hve lengi fram eftir varstu hér?“

„Þangað til var lokað.“

„Einhver sem sá þig hér?“

„Fjöldi fólks,“ sagði Freddi.

„Hvað gengur að ykkur?“ spurði Harrý þá. „Haldiði að ég mundi stela mínum eigin bát? Hvað ætti ég að gera með hann?“

„Ég aðeins spurði hvar þú hefði verið,“ sagði tollvarðstjórinn. „Engan æsing.“

„Ég er ekki æstur,“ sagði Harrý. „En ég var æstur þegar þeir tóku bátinn án þess að hafa neinar sannanir fyrir því að brennivín hefði verið í henni.“

„Það var svarinn eiður að því,“ sagði tollvörðurinn. „Það var ekki minn eiður. Þú veist hver það var.“

„Allt í lagi,“ sagði Harrý. „Vertu bara ekki að segja að ég sé æstur þó þú sért að spyrja mig. Þætti betur að þið hefðuð upp á henni. Þá ætti ég möguleika á að fá hana aftur. Hvaða möguleika á ég ef hún er stolin?“

„Enga, ætla ég,“ sagði tollvörðurinn.

„Jæja, farðu þá og áttu þín pappírsviðskipti.“

„Engan derring,“ sagði tollvörðurinn, „eða ég skal sjá til þess að þú fáir eitthvað til að derra þig út af.“

„Eftir fimmtán ár,“ sagði Harrý.

„Þú yrðir ekki með derring eftir fimmtán ár.“

„Nei, og ég hef heldur aldrei setið inni.“

„Jæja, vertu þá ekki að derra þig ellegar þú færð ástæðu til.“

„Taktu það rólega,“ sagði Harrý. Rétt í þann mund birtist þessi einfeldningslegi Kúbani sem ekur leigubíl, með náunga úr vélinni í fylgd með sér, og Stóri Rodger segir við hann:

„Hayzooz, þeir segja mér að þú hafir verið að eignast barn.“

„Já, herra,“ segir Hayzooz afar stoltur.

„Hvenær giftirðu þig?“ spurði Rodger hann.

„Síðsta mánuð. Mánuð síðan. Þú koma í brúðkaupið?“

„Nei,“ sagði Rodger. „Ég kom ekki í brúðkaupið.“

„Þú missa dáldið,“ sagði Hayzooz. „Þú missa fjandi góða brúðkaup. Af hverju þú ekki koma?“

„Þú bauðst mér ekki?“

„Ó, já,“ sagði Hayzooz. „Ég gleyma. Ég ekki bjóða þér... Þú fá sem þú vilja?“ spurði hann útlendinginn.

„Já, það held ég. Eru þetta bestu kaupin í bacardíinu sem þú hefur að bjóða?“

„Já, herra minn,“ sagði Freddi við hann. „Þetta er hið eina sanna carta del oro.“

„Heyrðu, Hayzooz, hvað fær þig til að halda að þú eigir þetta barn?“ spyr Rodger hann. „Þú átt ekkert barnið.“

„Hvað þú meina mig ekkert eiga barnið? Hvað þú meina? Guð minn góður, ég ekki leyfa þér tala þannig! Hvað þú meina mig ekkert eiga barnið. Þú kaupa kúna þú ekki eiga neitt kálfann? Mig eiga barnið. Guð minn góða, já. Mig eiga barnið. Mig eiga það. Já, herra!.“

Hann fer út ásamt útlendingnum og bacardíflöskunni og það er Rodger sem situr uppi með hlátrasköllin allt í lagi. Þessi Hayzooz lætur ekki að sér hæða allt í lagi. Hann eða hinn þessi Kúbani, Ástartár, sem þeir kalla.

Rétt í þann mund birtist lögfræðingurinn Stríðvör, og hann segir við Harrý: „Tollararnir voru rétt í þessu að fara út eftir eftir bátnum þínum.“

Harrý leit á hann og maður sá koma á hann manndrápssvipinn. Stríðvör hélt áfram í sama tón hljómlausri röddu. „Það var einhver sem kom auga á hana í fenjaviðnum ofan af einum af þessum háu WPA-trukkum og hringdi í tollstöðina þaðan sem þeir eru að slá upp búðum fyrir utan Boco Chica. Ég hitti Hermann Frederichs rétt í þessu. Hann sagði mér frá því.“

Harrý mælti ekki orð af vörum, en maður sá að honum hvarf manndrápssvipurinn og augun lukust upp og urðu eðlileg á ný. Þá sagði hann við Stríðvör: „Allt berst þér til eyrna, ekki satt?“

„Ég hélt þú hefðir áhuga á að heyra,“ sagði Stríðvör sömu hljómlausu röddinni.

„Þetta varðar mig engu,“ sagði Harrý. „Þeir ættu að hafa betur auga með einum bát en þetta.“

Þeir stóðu þarna tveir við barinn og hvorugur mælti orð fyrr en Stóri Rodger og hinir tveir eða þrír höfðu komið sér út. Þá fóru þeir á bak við.

„Þú ert naðra,“ sagði Harrý. „Allt sem þú kemur nærri er nöðrukyns.“

„Er við mig að sakast þó sést hafi til hennar úr trukk. Þú valdir staðinn. Þú valdir þínum eigin bát fylgsni.“

„Haltu þér saman,“ sagði Harrý. „Síðan hvenær eru þeir farnir að nota háa trukka eins og þennan? Þetta var síðasta sinn sem ég átti þess kost að afla fjár á heiðarlegan máta. Síðasta sinn sem ég átti þess kost að gera bát út á eitthvað sem peningur er í.“

„Ég lét þig vita strax og ég frétti það.“

„Gammurinn.“

„Hættu þessu,“ sagði Stríðvör. „Núna vilja þeir fara seint síðdegis í dag.“

„Fari þeir fjandans til.“

„Þeir eru orðnir trekktir út af einhverju.“

„Hvenær vilja þeir fara?“

„Klukkan fimm.“

„Ég verð mér úti um bát. Skal fara með þá til helvítis.“

„Ekki slæm hugmynd.“

„Ekki orð um það núna. Láttu vera að opna á þér gogginn um mín viðskipti.“

„Heyrðu mig, þú froðufellandi morðhundurinn þinn,“ sagði Stríðvör. „Ég er að reyna að rétta þér hjálparhönd og verða þér úti um eitthvað— .“

„Og eina sem þú gerir er að eitra fyrir manni. Haltu þér saman. Þú eitrar út frá þér hvar sem þú ferð.“

„Hættu þessu, hrottinn þinn.“

„Taktu það rólega,“ sagði Harrý. „Ég þarf að hugsa. Eina sem ég hef gert var að hugsa málið ofan í kjölinn og ég var kominn að niðurstöðu og nú verð ég að hugsa málið upp á nýtt.“

„Af hverju læturðu mig ekki hjálpa þér?“

„Þú kemur hingað klukkan tólf og verður tilbúinn að reiða af hendi þennan pening fyrir bátinn.“

 

Er þeir komu fram kom Albert inn á staðinn og hann fór til Harrý.

„Þykir það leitt, Albert, ég get ekki notað þig,“ sagði Harrý. Hann hafði hugsað málið það langt nú þegar.

„Ég færi fyrir lítið,“ sagði Albert.

„Þykir það leitt,“ sagði Harrý. „Ég hef enga þörf fyrir þig núna.“

„Þú færð engan góðan fyrir það sem ég vil fara fyrir,“ sagði Albert.

„Ég fer einn míns liðs.“

„Þú ætlar þó ekki í túr sem þennan einsamall,“ sagði Albert.

„Haltu þér saman,“ sagði Harrý. „Hvað veist þú um þetta? Færðu uppfræðslu um mín viðskipti í atvinnubótavinnunni?“

„Fjandinn hirði þig,“ sagði Albert.

„Má vera að geri það,“ sagði Harrý. Hver sem hefði veitt honum athygli hefði séð að hann var feiknin öll að hugsa og vildi síður láta ónáða sig.

„Ég vildi gjarnan fara,“ sagði Albert.

„Ég get ekki notað þig,“ sagði Harrý. „Láttu mig í friði, væri þér sama?“

Albert fór út og Harrý stóð þarna við barinn, og sem hann hefði aldrei séð neitt af því fyrr virti fyrir hann sér nikkelmaskínuna, dimemaskínurnar tvær og kvartdalsmaskínuna, og myndina á veggnum af síðustu vörn Clusters.

„Hann var góður þessi um barnið sem Hayzooz stakk upp í Stóra Rodger með, fannst þér ekki?“ sagði Freddi við hann sem hann dýfði nokkrum kaffibollum í uppþvottabala.

„Láttu mig fá pakka af Chesterfields,“ sagði Harrý við hann. Hann hélt pakkanum undir handleggsstúfnum og reif upp eitt hornið, tók sér sígarettu úr honum og setti upp í sig, stakk síðan pakkanum í vasann og kveikti sér í sígarettunni.

„Hvernig er ástandið á bátnum þínum, Freddi?“ spurði hann.

„Ég var með hana í förum nýverið,“ sagði Freddi. „Hún er í góðu standi.“

„Viltu leigja mér hana?“

„Í hvaða tilgangi?“

„Í túr yfir.“

„Ekki nema þeir setji tryggingu fyrir andvirði hennar.“

„Hvers virði er hún?“

„Tólf hundruð dala virði.“

„Ég vil taka hana á leigu,“ sagði Harrý. „Treystirðu mér fyrir henni?“

„Nei,“ sagði Freddi við hann.

„Ég set húsið að veði.“

„Hef engan áhuga á húsinu þínu. Ég vil tólf hundruð dali í seðlum.“

„Allt í lagi,“ sagði Harrý.

„Útvegaðu féið,“ sagði Freddi við hann.

„Biddu Stríðvör að bíða mín þegar hann kemur,“ sagði Harrý við hann og fór út.

 

6. kafli

Heima í húsinu voru María og stelpurnar að borða hádegismatinn.

„Hæ, pabbi,“ sagði elsta stelpan. „Pabbi er kominn.“

„Hvað ertu með í matinn?“ spurði Harrý.

„Steikarsneiðar.“

„Einhver sagði að þeir hefðu stolið bátnum þínum, pabbi.“

„Þeir eru búnir að hafa uppi á henni,“ sagði Harrý.

María leit á hann.

„Hverjir þá?“ spurði hún.

„Tollverðirnir.“

„Ó, Harrý,“ sagði hún, full samúðar.

„Var ekki gott að þeir fundu hana, pabbi?“ sagði sú næst elsta af stelpunum.

„Ekki tala á meðan þú borðar,“ sagði Harrý við hana. „Hvar er maturinn minn? Eftir hverju ertu að bíða?“

„Ég er að koma með hann.“

„Ég er að flýta mér,“ sagði Harrý. „Þið stelpur klárið matinn ykkar og farið út. Ég þarf að tala við móður ykkar.“

„Viltu gefa okkur fyrir bíó í kvöld, pabbi?“

„Af hverju farið þið ekki að synda? Ekki kostar það neitt.“

„Ó, pabbi, það er of kalt til að fara að synda og okkur langar svo í bíó.“

„Allt í lagi,“ sagði Harrý. „Allt í lagi.“

Þegar stelpurnar höfðu lokað á eftir sér sagði hann við Maríu: „Skerðu það fyrir mig í bita, viltu það ekki?“

„Vitaskuld, ástin.“

Hún skar kjötið fyrir hann í bita eins og fyrir lítinn dreng.

„Takk,“ sagði Harrý. „Ég er fjárinn hafi það til bölvans óþægðar, er það ekki? Annað en sagt verður um stelpurnar, er það ekki?“

„Nei, ástin.“

„Skondið að við skyldum ekki neitt eignast stráka.“

„Þú ert svo mikill karl í krapinu. Þá koma alltaf stelpur.“

„Ég er ekki neinn fjandans karl í krapinu,“ sagði Harrý. „En heyrðu, ég á fjárans túr fyrir höndum.“

„Segðu mér frá bátnum.“

„Þeir sáu til hans úr trukk. Háum trukk.“

„Pungarnir.“

„Verra en það. Skittin.“

„Æ, Harrý, segðu ekki svona hér á heimilinu.“

„Þú lætur stundum verra en það út úr þér í rúminu.“

„Það er öðruvísi. Ég vil ekki heyra sagt skitti við mitt eigið borð.“

„O, skittin.“

„Æ, ástin, þú átt bágt,“ sagði María.

„Nei,“ sagði Harrý. „Ég er bara að hugsa.“

„Jæja, þú hugsar það út. Ég treysti á þig.“

„Treysti. Það er það eina sem ég hef á að byggja.“

„Viltu segja mér frá því?“

„Nei. Bara ekki hafa áhyggjur sama hvað þú heyrir.“

„Ég hef ekki áhyggjur.“

„Heyrðu, María. Viltu fara upp á háaloft og ná í Thompson byssuna fyrir mig og athuga í trékassanum með skotunum hvort það séu ekki skot í öllum knippunum.“

„Lætur það þó vera.“

„Ég má til.“

„Viltu hafa eitthvað af skotfærapökkum með þér?“

„Nei. Ég hef engin tök á að hlaða. Ég hef úr fjórum knippum að spila.“

„Ástin, þú ert þó ekki að fara í þess háttar túr?“

„Ég á slæman túr fyrir höndum.“

„Ó, Guð minn góður,“ sagði hún. „Ó, Guð minn góður, ég vildi óska að þú þyrftir ekki að gera þetta.“

„Farðu og finndu hana og komdu með hana niður. Gefðu mér smá kaffi.“

„Allt í lagi,“ sagði María. Hún hallaði sér yfir borðið og kyssti hann á munninn.“

„Láttu mig vera,“ sagði Harrý. „Ég þarf að hugsa.“

Hann sat við borðið og virti fyrir sér píanóið, borðskápinn og útvarpið, myndina á veggnum af dögun í september og myndirnar af ástargoðunum með bogana sína að baki höfðunum, gljáandi borðið úr ósvikinni eik, og stólana, einnig úr gljáandi, ósvikinni eik, og hengin fyrir gluggunum, og hann hugsaði: Hvaða möguleika hef ég á að njóta heimilis míns? Af hverju er verr komið fyrir mér en í upphafi? Allt verður þetta einnig farið ef ég spila ekki rétt út. Fjárinn hafi það. Ég á ekki sextíu dala virði útistandandi, en þetta skal verða minn vonarpeningur. Þessar árans stelpur. Það er það eina sem mér og henni gömlu minni hefur orðið úr því sem okkur er áskapað. Ætli strákarnir inni í henni hafi farið áður en ég hitti hana?

„Þar höfum við hana.“ sagði María er hún kom með hana haldandi í axlarólina. „Þau eru öll full, knippin.“

„Ég verð að fara,“ sagði Harrý. Hann vóg í höndum sér þunglamalega sundurtekna byssuna í olíusteinkaðri léreftstösku. „Settu hana undir framsætið í bílnum.“

„Vertu sæll,“ sagði María.

„Vertu sæl, gamla mín.“

„Ég hef ekki áhyggjur. Farðu varlega.“

„Líði þér vel.“

„Æ, Harrý,“ sagði hún og þrýsti honum að sér.

„Lofaðu mér að fara. Ég er tímabundinn.“

Hann klappaði henni á bakið með stúfnum.

„Þú og þöngulhöfðaveifinn þinn!“ sagði hún. „Ó, Harrý. Farðu varlega.“

„Ég verð að fara. Vertu sæl, gamla mín.“

„Vertu sæll, Harrý.“

Hún horfði á hann þegar hann fór út úr húsinu, hávaxinn og herðabreiður, flatur um mjóhrygginn og mjósleginn niður lendarnar, og hann hreyfir sig enn, hugsaði hún, snöggur sem hann er og liðugur og ekki enn orðinn gamall, eins og eitthvert dýr, hann er svo hvikur og mjúkur í hreyfingum, hugsaði hún, og þegar hann var að setjast inn í bílinn virti hún hann fyrir sér, sólbliknaðan ljóshærðan kollinn og andlitið, kjálkabreitt, líkt og á mongóla, og mjótt augnaráðið, nefið, brotið við ennisbrún, og víðan munninn og ávöl tannstæðin, og þegar hann var sestur inn í bílinn og brosti til hennar fór hún að gráta. „Árans andlitið á honum,“ hugsaði hún. „Hvert sinn sem ég sé á honum árans andlitið langar mig til að gráta.“

 

7. kafli 

Þrír ferðamenn voru á barnum hjá Fredda og hann var að afgreiða þá. Einn var mjög hávaxinn, grannur og herðabreiður, klæddur bol og stuttbuxum og notaði sterk gleraugu, sólbrúnn og með jarpleitt, velsnyrt og smávaxið yfirskegg. Konan sem var í fylgd með honum var með ljóst hrokkið hár, stuttklippt eins og á karlmanni, í lélegu samræmi, og með andlit og líkamsbyggingu glímukonu. Hún var líka í bol og stuttbuxum.

„Ó, hnot þér,“ var hún að segja við þriðja ferðamanninn, sem var rauðbirkinn og dálítið búlduleitur, með ryðrautt yfirskegg og hvíta bómullarhúfu með grænu plastskyggni og var hann haldinn þeirri áráttu að ýkja svo varahreyfingarnar þegar hann talaði að engu var líkara en að hann væri að borða eitthvað óþægilega heitt.

„En hrífandi,“ sagði grænskyggndi maðurinn. „Ég hafði aldrei heyrt þetta orðatiltæki notað í eiginlegum samræðum. Ég hélt að þetta væri úreltur frasi, eitthvað sem maður hefði séð á prenti í — ehe — skrípablöðunum en aldrei heyrt.“

„Hnot, hnot, tvöfalda hnot þér,“ sagði glímukonan og geislaði í sömu svifan svo töfrum sínum að augu hans fengu um leið numið nöbbótta vangamynd hennar.

„Hve fagurt,“ sagði grænskyggndi maðurinn. „Þú ferð svo vel með. Er þetta ekki upphaflega komið frá Brooklyn?“

„Hafðu hana afsakaða. Hún er konan mín,“ sagði hávaxni túristinn. „Hafið þið hist áður?“

„Ó, hnot honum og tvöfalda hnot fyrir að kynnast honum,“ sagði konan. „Hvernig hefurðu það?“

„Ekki svo slæmt,“ sagði grænskyggndi maðurinn. „Hvernig hafið þér það?“

„Hún spjarar sig undurvel,“ sagði sá hávaxni. „Þú ættir að sjá hana.“

Rétt í þann mund kom Harrý inn og kona hávaxna ferðamannsins sagði: „Er hann ekki stórkostlegur? Þetta er það sem ég vil. Keyptu hann handa mér, papa.“

„Má ég eiga við þig orð?“ sagði Harrý við Fredda.

„Að sjálfsögðu. Haltu áfram og segðu það sem þér sýnist,“ sagði kona hávaxna ferðamannsins.

„Haltu þér saman, hóran þín,“ sagði Harrý. „Komdu á bak við, Freddi.“

Á bak við sat Stríðvör við borðið og beið.

„Hæ, stóri strákur,“ sagði hann við Harrý.

„Haltu þér saman,“ sagði Harrý.

„Heyrðu mig,“ sagði Freddi. „Hættu þessu. Þú kemst ekki upp með þetta. Þér líðst ekki að kalla viðskiptavini mína nöfnum eins og þessu. Þér líðst ekki að kalla kvenmann hóru á sómasamlegum stað eins og þessum.“

„Hóru,“ sagði Harrý. „Þú heyrðir hvað hún sagði við mig?“

„Jæja, allaveganna, kallaðu hana ekki nafni eins og þessu upp í opið geðið á henni.“

„Allt í lagi. Ertu með peningana?“

„Að sjálfsögðu,“ sagði Stríðvör. „Því ætti ég ekki að vera með peningana? Sagði ég þér ekki að ég myndi verða með peningana?“

„Látum okkur sjá.“

Stríðvör rétti þá yfir borðið. Harrý taldi tíu hundraðdala seðla og fjóra tuttugu.

„Þetta ættu að vera tólf hundruð.“

„Að frádreginni þóknun minni.“ sagði Stríðvör.

„Láttu mig fá það.“

„Nei.“

„Fáðu mér það.“

„Ekki þennan kjánaskap.“

„Þú auvirðilega litla hækjan þín.“

„Þú hrottinn þinn,“ sagði Stríðvör. „Skalt ekki reyna að ná því af mér með valdi því meira er ég ekki með á mér.“

„Ég skil,“ sagði Harrý. „Ég ætti að hafa gert ráð fyrir því. Heyrðu, Freddi. Þú hefur þekkt mig lengi. Ég veit að hún er tólf hundruð dala virði. Þetta er hundrað og tuttugu of lítið. Taktu við því og taktu áhættuna af þessum hundrað og tuttugu og leigunni.“

„Það gera þrjúhundruð og tuttugu dali,“ sagði Freddi. Þetta var átakanleg fúlga fyrir hann að leggja undir, og það sló út á honum svita við að hugleiða það.

„Ég á bíl og á útvarp heima sem stendur vel undir því.“

„Ég get útbúið pappíra upp á það,“ sagði Stríðvör.

„Ég kæri mig ekki um neina pappíra,“ sagði Freddi. Hann svitnaði enn og röddin var hikandi. Þá sagði hann: „Allt í lagi, ég tek áhættuna. En í Guðs bænum farðu varlega með bátinn, viltu gera það, Harrý?“

„Sem hún væri mín eigin.“

„Þú glataðir þinni eigin,“ sagði Freddi, enn að svitna og nú enn verr haldinn við að leiða hugann að því.

„Ég passa vel upp á hana.“

„Ég kem peningunum fyrir í bankahólfinu mínu,“ sagði Freddi.

„Harrý varð litið á Stríðvör.

„Góður staður það,“ sagði Stríðvör og glotti.

„Þjónn,“ kallaði einhver frammi.

„Það ert þú,“ sagði Harrý.

„Þjónn,“ var enn kallað.

Freddi fór fram fyrir.

„Þessi maður móðgaði mig,“ heyrði Harrý hástemmda röddina segja, en hann var að ræða við Stríðvör.

„Ég mun liggja við bryggjuna fram undan strætinu. Það er ekki hálf húsaröð.“

„Allt í lagi.“

„Fleira er það ekki.“

„Allt í lagi, Stórskot.“

„Sparaðu þér stóru skotin á mig.“

„Sem þú vilt.“

„Ég verð þar frá og með klukkan fjögur.“

„Nokkuð fleira?“

„Þeir verða að taka mig með valdi, þú skilur? Ég veit ekkert um þetta. Ég er bara að vinna í vélinni. Er ekki með neitt um borð til að fara í túr. Ég hef tekið hana á leigu af Fredda til að leigja hana út á veiðar. Þeir verða að beina að mér byssu til að fá mig til að setja í gang og þeir verða að skera á böndin.“

„Hvað með Fredda? Þú leigðir hana ekki af honum í því skyni að fara á veiðar.“

„Ég ætla að tala um það við hann.“

„Ég léti það vera.“

„Ég ætla að gera það.“

„Ég léti það vera.“

„Heyrðu mig, við Freddi höfum átt saman í viðskiptum síðan í stríðinu. Í tvígang höfum við haft með okkur félag og aldrei átt í neinum vandræðum. Þú veist vel hvað ég hef möndlað með af leka fyrir hann. Hann er sá eini af tíkarsonum bæjarins sem ég myndi treysta.“

„Ég myndi ekki treysta einum einasta.“

„Og þú skyldir ekki. Ekki eftir þá reynslu sem þú hefur haft af sjálfum þér.“

„Láttu mig í friði.“

„Allt í lagi. Farðu og hittu félaga þína. Hvert er þitt útspil?“

„Þeir eru Kúbanar. Ég hitti þá í veitingaskálanum við þjóðveginn. Einn þeirra vill skipta bankatryggðum tékka fyrir reiðufé. Nokkuð að því?“

„Og þú tekur ekki eftir neinu?“

„Nei. Ég segi þeim að hitta mig í bankanum.“

„Hver ekur þeim?“

„Einhver leigubíll.“

„Hvað á hann að halda að þeir séu, fiðlarar?“

„Við finnum einhvern sem hugsar ekki. Þeir eru býsna margir hérna í bænum sem geta ekkert hugsað. Sjáðu Hayzooz.“

„Hayzooz er óvitlaus. Aðeins skondið hvernig hann talar.“

„Ég læt þá kalla í einhvern kjána.“

„Skalt þá hafa það einhvern sem á enga krakka.“

„Þeir eiga allir krakka. Nokkurn tímann vitað leigubílstjóra án krakka?“

„Þú ert djöfuls rotta.“

„Nú, ég sem hef aldrei drepið neinn,“ sagði Stríðvör við hann.

„Né muntu heldur aldrei gera. Komdu, við skulum koma okkur héðan. Manni líður illa af því einu að vera návistum við þig.

„Nema að þú sért ömurlegur sjálfur.“

„Geturðu fengið þá til halda sér saman?“

„Haldirðu ekki kjafti.“

„Haltu þínum eigin saman.“

„Ég ætla að fá mér drykk.“

 

Frammi sátu ferðamennirnir þrír á stólkollum sínum. Þegar Harrý kom að barnum leit konan undan til að lýsa vanþóknun sinni.

„Hvað viltu fá?“ spurði Freddi.

„Hvað drekkur frúin?“ spurði Harrý.

„Kúbu Libru.“

„Láttu mig þá fá óblandaðan viskí.“

Hávaxni túristinn með smáa jarpleita yfirskeggið og sterku gleraugun laut fram stóru andliti sínu og beinvöxnu nefi mót Harrý og sagði: „Segðu mér, hver er hugmyndin með að tala á þennan hátt við konuna mína?“

Harrý mældi hann út upp og niður og sagði við Fredda: „Hvers konar staður er þetta sem þú rekur?“

„Svaraðu mér,“ sagði hávaxni maðurinn.

„Taktu það rólega,“ sagði Harrý við hann.

„Þú kemst ekki upp með þetta.“

„Heyrðu mig,“ sagði Harrý. „Þið komuð hingað niður eftir til að hressa ykkur og styrkja. Taktu það rólega.“ Og hann fór út.

„Ég hefði átt að gefa honum á hann held ég,“ sagði hávaxni ferðamaðurinn. „Hvað finnst þér, mín kæra?“

„Vildi óska að ég væri karlmaður.“ sagði konan hans.

„Mundir ná langt þannig vaxin,“ sagði grænskyggndi maðurinn ofan í bjórinn sinn.

„Hvað varstu að segja?“ spurði sá hávaxni.

„Var að segja að þú gætir haft upp á nafni hans og heimilsfangi og skrifað honum bréf þar sem þú segðir honum álit þitt á honum.“

„Segðu mér, meðal annarra orða, hvað heitirðu? Hver er hugmyndin, ertu að gera gys að mér?“

„Kallið mig bara prófessor MacWalsey.“

„Ég heiti Laughton,“ sagði sá hávaxni. „Er rithöfundur.“

„Gleður mig að kynnast yður,“ sagði MacWalsey prófessor. „Skrifarðu oft?“

Hávaxni maðurinn leit í kringum sig. „Komum okkur héðan, mín kæra,“ sagði hann. „Hér gengur ekki á öðru en móðgunum og hnotum.“

„Undarlegur staður,“ sagði MacWalsey prófessor. „Töfraveröld, svo sannarlega. Þeir kalla þetta Gíbraltar Ameríku og liggur þrjú hundruð sjötíu og fimm mílur suður af Kaíró, Egyptalandi. En þessi staður er sá eini sem ég hef gefið mér tíma til að fara á enn sem komið er. Þetta er samt ágætur staður.“

„Þú er greinilega prófessor í lagi,“ sagði eiginkonan. „Þú veist, mér fellur vel við þig.“

„Mér fellur líka ágætlega við þig, vinan,“ sagði MacWalsey prófessor. „En ég verð víst að fara núna.“

Hann stóð upp og fór út að skyggnast eftir hjólinu sínu.

„Hér eru allir saman eintómt hnot,“ sagði hávaxni maðurinn. „Ættum við að fá okkur annan drykk, kæra?“

„Mér féll vel við prófessorinn,“ sagði konan. „Afar alúðlegur.“

„Þessi hinn náungi—“

„Ó, hann var hann svo fallegur á svipinn,“ sagði konan. „Eins og tatari eða einhvern veginn þannig. Vildi óska að hann hefði ekki verið svona móðgandi. Hann var ekki ólíkur Gengis Khan á svipinn. Hann var stór, Gæ.“

„Hann var einhentur.“ sagði maður hennar.

„Ekki tók ég eftir því,“ sagði eiginkonan. „Ættum við að fá okkur annan drykk? Þætti gaman að vita hver kemur inn næst!“

„Kannski Tamerlane,“ sagði maðurinn.

„Gæ, þú ert menntaður maður,“ sagði konan. „En þessi Gengis Khan mundi nægja mér einn. Af hverju þótti prófessornum svona gaman að heyra mig segja hnot?“

„Ég veit það ekki, mín kæra,“ sagði rithöfundurinn Laughton. „Ekki þótti mér það.“

„Honum fellur við mig fyrir það sem ég virkilega er,“ sagði eiginkonan. „Guð, hann var sætur.“

„Átt líklega eftir að sjá hann aftur.“

„Hvenær sem þið komið hingað mun hann birtast ykkur.“ sagði Freddi. „Hann býr hér. Búinn núna að halda til hér í tvær vikur.“

„Hver er hinn, þessi sem var svo grófur í tali?“

„Hann? O, náungi hér úr grenndinni.“

„Hvað gerir hann?“

„O, sitt lítið af hverju,“ sagði Freddi við hana. „Hann er fiskimaður.“

„Hvernig missti hann handlegginn?“

„Ég veit það ekki. Hann varð fyrir einhverju slysi.“

„Gæ, hann er fallegur,“ sagði eiginkonan.

Freddi hló. „Margt hef ég heyrt hann kallaðan en aldrei þetta.“

„Finnst þér hann ekki fallegur?“

„Takið það rólega, frú,“ sagði Freddi við hana. „Hann er ásýndum eins og nefbrotið svínslæri.“

„Guð, hve karlmenn geta verið heimskir,“ sagði konan. „Hann er algjör draumur.“

„Hann er slæmur draumur,“ sagði Freddi.

Allan tímann á meðan á þessu gekk sat rithöfundurinn þarna hálf heimskulegur ásýndum nema þegar honum varð litið á konu sína aðdáunaraugum. Aðeins rithöfundur eða fátækrafulltrúi hjá ríkinu gæti átt konu svona útlítandi, hugsaði Freddi. Guð minn góður, er hún ekki hræðileg?

Í sama mund birtist Albert.

„Hvar er Harrý?“

„Niður á höfn.“

„Þakka,“ sagði Albert.

Hann fór út og rithöfundurinn og eiginkona hans sátu áfram og Freddi stóð við barinn og var með áhyggjur af bátnum og hve slæmt það væri fyrir fæturna að standa uppréttur alla daga. Hann hafði sett mottu á steypugólfið en það virtist koma fyrir lítið. Hann var stöðugt með verki í fótunum. Engu að síður gerði hann það gott, ekkert síður gott en hver annar í bænum og hann var með litla yfirbyggingu. Þessi kona var kjáni allt í lagi. Og hverslags maður var það sem nældi sér í þess háttar konu að búa með? Ekki einu sinni léns virði, hugsaði Freddi. Ekki einu sinni þó maður hefði lokuð augun. Engu að síður drukku þau hanastélin. Dýrustu drykki. Það var þó til einhvers að vinna.

„Já, herra minn,“ sagði hann. „Að bragði.“

Inn var kominn sólbrúnn gervilegur maður jarphærður í röndóttri fiskimannatreyju og stuttum kakibuxum ásamt afar laglegri stúlku sem var í fínprjónaðri hvítri ullarpeysu og dökkbláum, víðum buxum.

„Er það ekki Richard Gordon,“ sagði Laughton sem hann stóð upp, „ásamt elskulegri ungfrú Helenu.“

„Hæ, Laughton,“ sagði Richard Gordon. „Ekki vill svo til að þú hafir orðið var við blautan prófessor hér um slóðir?“

„Hann er rétt nýfarinn,“ sagði Freddi.

„Viltu vermúð, hjartað mitt?“ spurði Richard Gordon konu sína.

„Ef þú vilt,“ sagði hún. Sagði síðan „Hæ“ við Laughtonhjónin. „Hafðu minn tvo franska móti einum ítölskum, Freddi.“

Hún settist á stólkoll með fæturna dregna inn undir sig og leit út á strætið. Freddi leit á hana með aðdáun. Hún var að hans mati sú laglegasta af öllu aðkomufólkinu í Key-Vest þennan vetur. Jafnvel laglegri en sú fallega og fræga frú Bradley. Frú Bradley var að verða dálítið digur. Þessi stúlka var með elskulegt írskt andlit, dökkt hár sem liðaðist næstum niður á axlir og var mjúk og hrein á hörund. Freddi leit á brúna hönd hennar sem hún hélt um glasið.

„Hvernig gengur vinnan?“ spurði Laughton Richard Gordon.

„Ágætlega,“ sagði Gordon. „Hvernig gengur þér?“

„James kærir sig ekkert um að vinna,“ sagði frú Laughton. „Hann bara drekkur.“

„Segðu mér, hver er þessi MacWalsey prófessor?“ spurði Laughton.

„O, hann er einhvers konar hagfræðiprófessor held ég, í árs kennsluleyfi eða einhverju þess háttar. Hann er vinur Helenar.“

„Mér fellur vel við hann.“ sagði Helana Gordon.

„Mér fellur hann líka vel.“ sagði frú Laughton.

„Mér féll vel við hann á undan,“ sagði Helena Gordon glöð í bragði.

„O, hafðu hann þá,“ sagði frú Laughton. „Þið litlu góðu stelpurnar fáið alltaf það sem þið viljið.“

„Það er það sem gerir okkur svo góðar,“ sagði Helena Gordon.

„Mig langar í annan vermúð,“ sagði Richard Gordon. „Viljiði drykk?“ spurði hann Laughtonhjónin.

„Því ekki?“ sagði Laughton. „Segðu mér, ætlar þú í þetta mikla samkvæmi sem Bradleyhjónin halda á morgun?“

„Auðvitað ætlar hann það,“ sagði Helena Gordon.

„Mér fellur hún vel, þú veist,“ sagði Richard Gordon. „Hún vekur áhuga minn jafnt sem kona og sem félagslegt fyrirbrigði.“

„Gæ,“ sagði frú Laughton. „Þú getur talað sem þú værir jafn menntaður og prófessorinn.“

„Ekki afhjúpa fáfræði þína, mín kæra.“ sagði Laughton.

„Fer fólk í rúmið með félagslegum fyrirbrigðum?“ spurði Helena Gordon og horfði út um dyrnar.

„Enga hótfyndni,“ sagði Richard Gordon.

„Ég meina er það hluti af heimavinnu rithöfundar?“ spurði Helena.

„Rithöfundur verður að vita um allt,“ sagði Richard Gordon. „Hann getur ekki látið eigin reynslu eina saman endurspegla borgaralegar viðmiðanir.“

„Ó,“ sagði Helena Gordon. „Og hvert er hlutverk eiginkonu rithöfundarins?“

„Ansi margvíslegt, ætla ég,“ sagði frú Laughton. „Þú ættir til dæmis að hafa séð manninn sem var hérna rétt áðan og móðgaði mig og James. Hann var skelfilegur.“

„Hefði átt að gefa honum á hann,“ sagði Laughton.

„Hann var hreint skelfilegur,“ sagði frú Laughton.

„Ég ætla heim,“ sagði Helena Gordon. „Kemur þú með, Dick?“

„Hafði hugsað mér að vera aðeins lengur niðri í bæ,“ sagði Richard Gordon.

„Jæja?“ sagði Helena Gordon og leit í spegilinn að baki Fredda.

„Já,“ sagði Richard Gordon.

Þegar Freddi virti hana fyrir sér sá hann ekki betur en hún væri gráti nær. Hann vonaði að hún færi ekki að taka upp á því þarna á staðnum.

„Viltu ekki annan drykk?“ spurði Richard Gordon hana.

„Nei.“ Hún hristi höfuðið.

„Segðu mér, hvað gengur að þér?“ spurði frú Laughton. „Hefurðu það ekki gott?“

„Alveg skínandi,“ sagði Helena Gordon. „En það er sama, held ég fari heim.“

„Ég verð ekki lengi,“ sagði Richard Gordon.

„Engar áhyggjur,“ sagði hún við hann. Hún fór út. Hún hafði ekki grátið. Hún hafði ekki heldur haft uppi á John MacWalsey.

 

8. kafli

Harrý Morgan hafði ekið niður að bátnum þar sem hann lá við bryggju og er hann hafði gengið úr skugga um að enginn væri í nánd hafði hann lyft upp framsætinu í bílnum og smeygt út flatri, olíusteinkaðri léreftstöskunni og lagt hana frá sér í stýrisskýlinu á bátnum.

Kominn um borð opnaði hann vélarlúguna og kom töskunni með hríðskotabyssunni úr sjónmáli þar niður undir. Hann sneri bensínlokunum og setti báðar vélar í gang. Stjórnborðsvélin snerist liðugt eftir tvær þrjár mínútur, en sú bakborðsmegin missti úr á öðrum og fjórða strokki og hann sá að brestir voru komnir í kertin, leitaði að nýjum kertum, en fann engin.

„Verð að ná mér í kerti og setja bensín á,“ hugsaði hann.

Niðri í vélarrúmi tók hann hríðskotabyssuna úr töskunni og festi skeftið við hana. Hann fann tvær slitrur af viftureimum og fjórar skrúfur og með því að gera göt í reimarnar útbjó hann ólar til að halda byssunni upp undir skýlisdekkinu vinstra megin við lúguna, beint yfir bakborðsvélinni. Þar hékk hún vaggandi í ólunum og hann tók eitt af skotknippunum fjórum í töskuvösunum og setti í byssuna. Krjúpandi á hnjánum milli vélanna teygði hann sig upp eftir byssunni. Aðeins tveggja hreyfinga var þörf. Fyrst einungis að hnykkja reimólinni sem hélt undir skeftið af skrúfunni. Síðan taka byssuna til sín út úr hinni lykkjunni. Hann reyndi þetta og það tókst auðveldlega einhentur. Hann ýtti litlu vogarstönginni alla leið frá hálfsjálfvirku yfir á sjálfvirkt og gekk úr skugga um að öryggið væri á. Síðan setti hann hana aftur upp. Hann sá ekki hvar hann gæti komið aukaknippunum fyrir svo að hann setti töskuna með þeim í undir bensíntank þar sem hann gæti teygt sig eftir henni, með þá enda á knippunum sem gengju upp í byssuna næst sér. Ef ég lít niður í vél skömmu eftir að við erum lagðir af stað get ég notað tækifærið og sett tvö knippi í vasann, hugsaði hann. Vissara að vera ekki með þau neins staðar þar sem hristingurinn gæti sett árans helvítin úr skorðum.

Hann reisti sig upp. Þetta var fallegt síðdegi og loftið tært, ekki kalt, hann golaði aðeins af norðri. Fallegt síðdegi allt í lagi. Það var að falla út og tveir pelikanar sátu á bryggjustólpum við sundbakkann. Fiskibátur, dökkgrænn á lit, fór hjá með vélarskellum áleiðis í átt að fiskimarkaðnum, en aftur á sat svartur fiskimaðurinn og hélt um stýrisvölinn. Harrý leit út yfir sundið, blágrátt í skini síðdegissólarinnar, svo lygnt að varla gáraði sem golan lagðist með útfallinu, leit þangað út þar sem sandeyjan hafði orðið til þegar sundið var dýpkað, þar sem hákarlahjallurinn hafði verið settur upp. Hvítir mávar svifu yfir eynni.

„Verður fallegasta kvöld,“ hugsaði Harrý. „Verður fallegasta kvöld að fara yfir.“

Hann var dálítið sveittur eftir að hafa verið niðri í vélarrúminu og hann rétti úr sér og þerraði framan úr sér með tvisti.

Albert var þarna á bryggjunni.

„Heyrðu, Harrý,“ sagði hann. „Vildi óska að þú tækir mig með.“

„Hvað gengur nú að þér?“

„Núna ætla þeir aðeins að láta okkur hafa þrjá daga í viku í atvinnubótavinnunni. Ég var fyrst að heyra þetta í morgun. Ég verð að fá eitthvað að gera.“

„Allt í lagi,“ sagði Harrý. Hann hafði hugsað sig um. „Allt í lagi.“

„Gleður mig að heyra,“ sagði Albert. „Mér leist ekkert á að fara heim til hennar gömlu minnar. Hún sagði við mig í dag að ég mætti fara fjandans til eins og það hefði verið ég sem hefði lagt niður vinnu.“

„Hvað gengur að henni gömlu þinni?“ spurði Harrý glaðbeittur. „Gefðu henni utan undir.“

„Gefð þú henni utan undir,“ sagði Albert. „Þætti gaman að vita hvað hún segði. Þessar gömlu hafa munninn fyrir neðan nefið.“

„Heyrðu, Al,“ sagði Harrý. „Taktu bílinn minn og farðu með þetta í Sjótækjasöluna og fáðu sex stykki af millimetrakertum eins og þetta. Farðu svo og fáðu ís fyrir tuttugu sent og hálft dúsín af marlaxi. Keyptu tvo pakka af kaffi, fjórar dósir af maísbuffi, tvö brauð, dálítið af sykri og tvær dósir af þurrmjólk. Komdu við á Sinclair stöðinni og segðu þeim að koma hingað niður eftir og setja á hana hundrað og fimmtíu gallon. Komdu aftur svo fljótt sem þú getur og skiptu um kertin á öðrum og fjórða á bakborðsvélinni, talið frá kasthjólinu. Segðu þeim að ég komi aftur til að borga bensínið. Þeir geta beðið mín eða hitt mig hjá Fredda. Heldurðu að þú munir þetta allt? Við förum með lagsmenn á tarpúnveiðar á morgun.“

„Það er of kalt til að veiða tarpún,“ sagði Albert.

„Ekki segja lagsmennirnir,“ sagði Harrý við hann.

„Ætti ég ekki frekar að taka heilt dúsín af marlaxi?“ spurði Albert. „Ef ókindin skyldi rífa þá í sig. Það er víst býsn nóg af henni núna í sundunum.“

„Jæja, hafðu það þá dúsín. En vertu kominn eftir klukkutíma og láttu setja á hana bensínið.“

„Hvað ætlarðu að gera með allt þetta bensín?“

„Við verðum líklega snemma úti og seint inni og enginn tími til að setja á hana.“

„Hvað er orðið af þessum Kúbönum sem vildu fá sig flutta?“

„Hef ekkert heyrt frá þeim?“

„Gott verkefni það.“

„Þetta er ekki síður gott. Farðu nú að koma þér.“

„Hvað fæ ég fyrir?“

„Fimm dali á daginn,“ sagði Harrý. „Hafirðu ekki áhuga þá láttu það vera.“

„Allt í lagi,“ sagði Albert. „Hvaða kerti voru það aftur?“

„Á öðrum og fjórða, talið frá kasthjólinu,“ sagði Harrý við hann. Albert kinkaði kolli. „Held ég muni það,“ sagði hann. Hann settist inn í bílinn, sneri honum og ók burt upp strætið.

Þaðan sem Harrý stóð í bátnum gat hann séð múrsteinshlaðna bygginguna og aðalinnganginn á First State bankanum. Hann var við endann á götunni, aðeins einni húsaröð neðar. Hliðarinngangurinn var í hvarfi. Hann leit á úrið. Hún var rétt rúmlega tvö. Hann lagði aftur hlerann yfir vélarrúminu og klifraði upp á bryggju. Jæja, hugsaði hann. Vogun vinnur, vogun tapar. Ég er búinn að gera það sem ég get. Ég fer núna og hitti Fredda og kem svo til baka og bíð. Hann fór til hægri þegar hann var kominn upp bryggjuna og gekk niður hliðargötu til að þurfa ekki að ganga fram hjá bankanum.

 

9. kafli

Þegar hann var kominn inn til Fredda langaði hann til að segja honum frá því en hann fékk það ekki af sér. Það var ekki neinn á barnum og hann sat á stól og langaði til að segja honum frá því, en það var ekki nokkur leið. Sem hann var að því kominn að segja honum það vissi hann að Freddi mundi ekki afbera það. Hefði ef til vill gert það í gamla daga, en ekki núna. Jafnvel ekki heldur í gamla daga. Það var ekki fyrr en hann hugðist segja Fredda frá því að hann gerði sér grein fyrir hve málið var slæmt. Ég gæti einfaldlega verið hér, hugsaði hann, og þyrfti ekki meira um það að hugsa. Gæti einfaldlega verið hér, fengið mér nokkra drykki og orðið þéttur og þetta kæmi mér ekki við. Að því frátöldu að þessi byssa mín er um borð. En það hefur ekki nokkur hugmynd um að hún er mín nema hún gamla mín. Komst yfir hana á Kúbu í einum túrnum í þá daga þegar ég var að manga með þessar hinar. Enginn hefur hugmynd um að ég eigi hana. Ég gæti verið hér og þetta kæmi mér ekki frekar við. En á hverjum fjandanum ættu þau að lifa? Hvaðan eiga peningarnir að koma til að halda Maríu uppi og stelpunum. Ég bátslaus, peningalaus og menntunarlaus. Hvað getur einhentur maður gert? Eina sem ég hef að manga með eru mín eigin skilningarvit. Ég gæti einfaldlega verið hér og fengið mér segjum fimm glös í viðbót og allt mundi verða afstaðið. Einfaldlega látið slarka og látið vera að aðhafast nokkuð. Þá yrði hvort sem er um seinan.

„Gefðu mér í glas,“ sagði hann við Fredda.

„Sjálfsagt.“

Ég gæti selt húsið og við mundum leigja þangað til ég fengi eitthvað að gera. Gera hvað? Ekkert. Gæti labbað niður í banka og kjaftað frá og hvað fengi ég að launum? Þakkir. Áreiðanlega. Þakkir. Kippa af kúbönskum stjórnarafstyrmum skýtur á mig að ástæðulausu með farm um borð og gerir mig handleggnum fátækari og önnur kippa af U.S. tegundinni sviptir mig bátnum. Síðan á ég að láta hús mitt og fá þakkir fyrir. Nei, takk fyrir. Fjárinn hafi það, hugsaði hann. Ég á engra kosta völ.

Hann vildi segja Fredda frá því svo að það væri einhver sem vissi hvað hann væri að bauka. En hann gat ekki sagt honum frá því af því að Freddi mundi ekki afbera það. Hann hafði gott upp úr sér núna. Það var ekki margt á daginn, en á hverju einasta kvöldi var þéttskipað fram til klukkan tvö. Freddi var ekki aðkrepptur. Hann vissi að hann mundi ekki afbera það. Ég verð að gera það einsamall, hugsaði hann, með þessum vesalings árans Albert. Drottinn minn, það var á honum sultarsvipurinn meiri en nokkru sinni þarna uppi á bryggju. Þeir Kræklingar voru til sem fremur mundu svelta í hel en taka eitthvað ófrjálsri hendi allt í lagi. Fjöldinn allur í þessum bæ með garnirnar gaulandi um þessar mundir. En mundu aldrei mögla. Einungis lofa görnunum að gaula dálítið dag hvern. Hafa vanist því frá barnæsku, sumir hverjir.

„Heyrðu, Freddi,“ sagði hann. „Mig vantar tvo kvartara.“

„Af?“

„Bacardí.“

„Fínt er.“

„Viltu vera svo vænn að losa korkinn. Þú veist ég vildi leigja hana til að fara með nokkra Kúbana yfir.“

„Sagðir það já.“

„Ég er ekki viss um hvenær þeir vilja fara. Kannski í kvöld. Hef ekki heyrt neitt frá þeim.“

„Hún er klár hvenær sem er. Hún verður fín nóttin ætlirðu yfir í kvöld.“

„Þeir minntust eitthvað á að renna fyrir fiski núna seinnipartinn.“

„Það er allur búnaður um borð hafi pelikanarnir ekki pikkað hann upp.“

„Hann er enn um borð.“

„Jæja, ég óska þér góðrar ferðar,“ sagði Freddi.

„Takk. Láttu mig fá annan, væri þér sama?“

„Hvað viltu?“

„Viskí.“

„Hélt þú værir að drekka bacardí.“

„Á það til góða ef hann verður kaldur í nótt.“

„Þú verður með goluna í bakið alla leið yfir,“ sagði Freddi. „Gæti vel hugsað mér að fara yfir í nótt.“

„Þetta verður fallegasta nótt allt í lagi. Láttu mig fá annan, væri þér sama?“

Í sömu svifan kom hávaxni ferðamaðurinn inn ásam konu sinni.

„Er það ekki draumurinn minn,“ sagði hún og settist við hliðina á Harrý.

Hann leit snöggvast á hana og stóð svo á fætur.

„Ég kem aftur, Freddi,“ sagði hann. „Ætla niður í bát ef þessir lagsmenn kynnu að vilja fara á veiðar.“

„Ekki fara,“ sagði konan. „Vertu svo vænn að fara ekki.“

„Þú ert kátbrosleg,“ sagði Harrý við hana og fór út.

Neðar í götunni var Richard Gordon á leið í hinn stóra vetrarbústað Bradleyhjónanna. Hann gerði sér vonir um að frú Bradley mundi vera ein heima. Hún mundi vera það. Frú Bradley safnaði rithöfundum engu síður en bókum þeirra en um það var Richard Gordon enn ókunnugt um. Hans eigin kona var á leið heim gangandi eftir ströndinni. Hún hafði ekki rekist á John MacWalsey. Nema þá hann dræpi á dyr hennar.

 

10. kafli

Albert var um borð í bátnum og bensínið komið á geymana.

„Ég ætla að setja í gang og sjá hvort hún vinni ekki á þessum tveimur,“ sagði Harrý. „Allt komið um borð?“

„Já.“

„Skerðu þá nokkrar beitur.“

„Viltu þær stórar?“

„Einmitt. Fyrir tarpúninn.“

Albert var aftur á að skera beituna og Harrý við stýrið að hita vélarnar þegar hljóð barst honum til eyrna líkt og þegar vél feilpústar. Hann leit niður strætið og sá hvar maður kom út úr bankanum. Hann var með byssu í hendinni og hljóp. Svo var hann horfinn sjónum. Tveir menn að auki birtust í dyrunum og með leðurtöskur og byssur í höndum og hlupu í sömu átt. Harrý leit á Albert sem var niðursokkinn í að skera beituna. Fjórði maðurinn, sá stórvaxni, kom út um dyrnar á bankanum skimandi í kringum sig og bar fyrir sig Thompson byssu, og er hann gekk aftur á bak út tók sírenan í bankanum að væla löngum síendurteknum skerandi hljómi og Harrý sá byssukjaftinn spúa ta-ta-ta-ta og heyrði búm-búm-búm-búm, holan og skammvinnan hljóm undir emjandi sírenuvælinu. Maðurinn sneri sér við og tók til fótanna, nam rétt staðar til að skjóta enn einu sinni að dyrum bankans, og sem Albert reisti sig upp aftur á segjandi „Drottinn minn, þeir eru að ræna bankann. Drottinn minn, hvað eigum við að gera?“ heyrði Harrý til Ford leigubílsins er hann skaust út úr hliðargötunni og horfði á hann leggjast þungt í borð þegar hann sveigði í átt að bryggjunni.

Þrír Kúbanar sátu aftur í og einn við hlið bílstjórans.

„Hvar er báturinn?“ æpti einn þeirra á spænsku.

„Þarna, fíflið þitt,“ sagði annar.

„Þetta er ekki báturinn.“

„Þetta er kapteinninn.“

„Áfram nú. Áfram nú í drottins nafni.“

„Út með þig,“ sagði Kúbaninn við bílstjórann. „Upp með hendurnar.“

Sem bílstjórinn var kominn út og stóð við hlið bílsins smeygði Kúbaninn hnífnum sínum undir belti hans og hnykkti honum til sín svo að beltið hrökk sundur og risti svo sundur buxur hans næstum niður að hnjám. Hann svipti þeim niður um hann. „Stattu kyrr,“ sagði hann. Kúbanarnir tveir með leðurtöskurnar þeyttu þeim inn í stýrisskýlið á bátnum og ruddust svo allir um borð.

„Af stað,“ sagði einn. Sá stórvaxni með hríðskotabyssuna rak hana í bakið á Harrý.

„Áfram nú, kapti.“ sagði hann. „Af stað.“

„Taktu það rólega,“ sagði Harrý. „Beindu þessu eitthvað annað.“

„Leystu böndin,“ sagði sá stórvaxni. „Þú!“ við Albert.

„Bíddu,“ sagði Albert. „Ekki fara af stað. Þetta eru bankaræningjarnir.“

Stórvaxni Kúbaninn sneri sér að bragði og sveiflaði Thompson byssunni að Albert. „Heyrðu, ekki! Ekki!“ sagði Albert. „Ekki!“

Það reið af byssunni svo þétt við brjóst hans að hvein í kúlunum líkt og undan þríhentum löðrungi. Albert hneig á kné, starandi augum, með opinn munn. Það var eins og hann vildi enn segja: „Ekki!“

„Þú þarft ekki neinn með þér,“ sagði stórvaxni Kúbaninn. „Þú einhenti tíkarsonur.“ Síðan á spænsku: „Skerið á böndin með fiskihnífnum þarna.“ Og á ensku: „Áfram nú. Af stað.“

Síðan á spænsku: „Rekið byssu í bakið á honum!“ og á ensku: „Áfram nú. Af stað. Ég skýt af þér hausinn.“

„Af stað förum við,“ sagði Harrý.

Annar Kúbananna með indíánska svipmótinu hélt byssu að síðu hans þeim megin sem handleggsstúfurinn var. Byssuhlaupið nam næstum við krókinn.

Sem hann sneri stýrinu með heilu höndinni og sveigði henni frá leit hann aftur með til að sjá hvort hann hefði hreint borð gagnvart bryggjustólpunum og sá Albert liggjandi fram á kné sér með höfuðið út á hlið í blóðpolli. Uppi á bryggju var Ford leigubíllinn, og bílstjórinn á nærbuxunum með buxurnar niður á ökla, með hendurnar uppi yfir höfði sér, og munnur hans jafn gapandi og á Albert. Enn var ekki neinn að sjá á leið niður strætið.

Bryggjustólparnir liðu aftur undan sem dokkin var að baki og hann kom út á sundið og fór fram hjá bryggjunni þar sem vitinn var.

„Áfram nú. Láttu hana ganga,“ sagði stórvaxni Kúbaninn. „Verðum að vinna tíma.“

„Farðu burt með þessa byssu,“ sagði Harrý. Gæti látið hana steyta á Krabbaskeri, hugsaði hann; en það er fjandanum ljósara að þessir Kúbanar mundu kála mér.

„Láttu hana ganga,“ sagði stórvaxni Kúbaninn. Síðan, á spænsku: „Leggist niður, allir saman. Gætið að kapteininum.“ Hann dró Albert inn í stýrisskýlið og lagði hann þar út af og lagðist svo sjálfur niður aftur í skut. Hinir þrír lögðust allir niður í stýrisskýlinu. Harrý sat á stólnum við stýrið. Hann horfði fram sem hann hélt henni út úr sundinu, fyrst fram hjá innsiglingunni inn í kafbátahöfnina, gætandi að snekkjum og græna ljósinu, fram hjá hafnargarðinum og nú virkinu, síðan fram hjá rauða ljósinu; og leit svo aftur. Stórvaxni Kúbaninn hafði tekið grænan pakka með skotfærum upp úr vasa sínum og var að raða skotum í knippi. Byssan lá við hlið hans og hann raðaði skotunum í knippin án þess að horfa á þau, raðaði þeim af tilfinningu einni saman, skimandi aftur af bátnum. Hinir horfðu allir aftur nema sá sem hafði auga með honum. Það var annar þeirra með indíánska svipmótinu og hann benti honum með skammbyssu sinni að horfa fram. Enn var enginn bátur farinn á eftir þeim. Vélarnar gengu þýðlega og þeir höfðu fallið með sér. Hann tók eftir þungum bylgjuköstunum sjávarmegin við baujuna sem hann fór hjá, með strauminn iðandi við belginn.

Það eru tveir hraðbátar sem gætu dregið okkur uppi, var Harrý að hugsa. Annar þeirra, hans Reys, er í póstferðum frá Matecumbe. Hvað ætli sé orðið af hinum? Ég sá hana fyrir nokkrum dögum og þá var Ed Taylor með hana, rifjaði hann upp fyrir sér. Það er sá sem ég hafði hugsað mér að Stríðvör tæki á leigu. Þeir eru tveir að auki, mundi hann núna. Sá sem Vegamálastjórnin hefur í förum upp frá með eyrunum, og hinn liggur inni á Garrison vík. Hve langt erum við komnir? Hann leit aftur þangað í áttina þar sem virkið var komið vel aftur undir; yfir byggingunum í flotastöðinni var tekið að hilla undir rauða tígulsteinsbygginguna þar sem gamla pósthúsið var og gul hótelbyggingin gnæfði núna upp yfir þröngri sjónarröndinni sem bærinn markaði á himininn. Þarna var bugtin undan virkinu, og vitann bar við himin yfir byggðinni sem teygði sig út eftir í átt að stóra vetrarhótelinu. Alltaf fjórar mílur, hugsaði hann. Þar koma þeir, hugsaði hann. Tveir hvítir fiskibátar voru að fara fyrir brimbrjótinn og var haldið í átt til þeirra. Þeir komast aldrei á tíu, hugsaði hann. Aumt er það.

Kúbanarnir voru að spjalla saman á spænsku.

„Hve hratt förum við, kapti?“ sagði sá stórvaxni og leit um öxl aftan úr skutnum.

„Tólf mílur eða þar um bil.“

„Hvað komast þessir bátar?“

„Kannski á tíu.“

Þeir horfðu allir á þá núna, jafnvel einnig sá sem átti að gæta að Harrý. En hvað get ég gert? hugsaði hann. Ekkert enn sem komið er.

Hvítu bátarnir urðu engu stærri sýnum.

„Sérðu þetta, Roberto,“ sagði sá viðmótsþýði.

„Hvað þá?“

„Sérðu!“

Langt aftur undan, svo langt að maður greindi það varla, risu smá skvettur á haffletinum.

„Þeir eru að skjóta á okkur,“ sagði sá viðmótsþýði. „En sú heimska.“

„Drottinn minn dýri,“ sagði sá stórvaxni. „Af þriggja mílna færi.“

„Fjögra,“ hugsaði Harrý. „Alltaf fjögra.“

Harrý gat séð þessar smá skvettur rísa en skothvellina gat hann ekki greint.

„Þessir Kræklingar eru brjóstumkennanlegir,“ hugsaði hann. „Og sem öllu verra er, þeir eru kátbroslegir.“

„Hvaða stjórnarbátur er á staðnum, kapti?“ spurði sá stóri og búlduleiti og leit aftan úr skutnum.

„Strandgæslan.“

„Hvað gengur hún?“

„Kannski tólf.“

„Erum við þá á fríum sjó?“

Harrý svaraði ekki.

„Erum við þá ekki á fríum sjó?“

Harrý sagði ekki neitt. Hann hafði Sanda-Key á bakborða, berandi æ hærra, takandi æ stærri sneið af sjóndeildarhringnum, var kominn með leiðarmerkið á litlu Sanda-Key rifunum nánast þvert á stjór. Að tíu mínútum liðnum myndu þeir hafa rifið að baki.

„Hvað gengur að þér? Ertu mállaus?“

„Að hverju varstu að spyrja mig?“

„Gæti eitthvað dregið okkur uppi núna?“

„Strandgæsluvél,“ sagði Harrý.

„Við skárum á símastrenginn áður en við komum í bæinn,“ sagði sá viðmótsþýði.

„Ekki þó á þráðlausa sambandið, eða hvað?“ spurði Harrý.

„Áttu von á að vélin geti komið?“

„Hennar gæti verið von fram undir myrkur,“ sagði Harrý.

„Hvað heldur þú, kapti?“ spurði Roberto, sá búlduleiti.

Harrý svaraði ekki.

„Svona nú, hvað heldurðu?“

„Fyrir hvaða sakir létuð þið þennan tíkarson drepa félaga minn?“ sagði Harrý við þann viðmótsþýða sem stóð núna við hliðina á honum að skoða kompásstefnuna.

„Haltu þér saman,“ sagði Roberto. „Drep þig líka.“

„Hvað höfðuð þið mikið upp úr krafsinu?“ spurði Harrý þann viðmótsþýða.

„Við vitum það ekki. Höfum ekki talið það enn. Það er ekki okkar, allavega.“

„Átti ekki von á því,“ sagði Harrý. Hann var nú kominn fram hjá vitanum og hann setti á 225°, sína venjulegu stefnu á Havana.

„Ég á við, við gerum það ekki vegna sjálfra okkar. Heldur fyrir byltingarsamtök.“

„Og drápuð líka félaga minn þeirra vegna?“

„Mér þykir það afar leitt,“ sagði pilturinn. „Ég get ekki lýst því með orðum hve mér líður illa yfir því.“

„Reyndu það ekki.“

„Sjáðu til,“ sagði pilturinn lágum rómi, „hann Roberto þarna er slæmur maður. Hann er góður byltingarsinni en slæmur maður. Hann drap svo mikið á Machadotímanum að honum fór að líka það. Hann heldur að sé sniðugt að drepa. Hann drepur í góðri trú, auðvitað. Bestu trú.“ Hann leit um öxl á Roberto sem var nú sestur í einn af fiskistólunum aftur á, með Thompson byssuna í kjöltu sér, og horfði aftur af á hvíta bátana sem Harrý sá að höfðu nú minnkað tilsýndar.

„Hvað áttu að drekka?“ kallaði Roberto aftan úr skutnum.

„Ekkert,“ sagði Harrý.

„Ég drekk þá mitt eigið,“ sagði Roberto. Annar hinna Kúbananna tveggja lá á einum bekkjanna sem voru yfir bensíngeymunum. Hann leit út fyrir að vera orðinn sjóveikur nú þegar. Hinn var augsýnilega orðinn sjóveikur, enn sitjandi uppi.

Þegar Harrý leit aftur sá hann blýgráan bát sem var kominn fyrir virkið og dró á hvítu bátana tvo.

„Þar kemur strandgæslubáturinn,“ hugsaði hann. „Ekki eru þeir síður brjóstumkennanlegir þar.“

„Áttu von á því að sjóflugvélin komi?“ spurði pilturinn viðmótsþýði.

„Það verður komið myrkur eftir hálftíma,“ sagði Harrý. Hann tók um stýrisstólinn. „Hvað hyggist þið fyrir? Drepa mig?“

„Ég hef enga löngun til þess,“ sagði pilturinn. „Ég hef andstyggð á drápum.“

„Hvað ert þú að gera?“ spurði Roberto sem sat nú með viskípela í hendinni. „Vingast við kapteininn? Hvað langar þig til? Að sitja við kapteinsins borð?“

„Taktu stýrið,“ sagði Harrý við piltinn. „Sérð hver stefnan er? Tvö tuttugu og fimm.“ Hann stóð upp af stólnum og fór aftur á.

„Gefðu mér drykk,“ sagði Harrý við Roberto. „Þarna hefurðu strandgæslubátinn þinn en hún getur ekki náð okkur.“

Hann hafði nú bælt niður bræði sína, allt hatur og stolt, sem hvern annan munað, og nú tekið að gera áætlanir.

„Enginn vafi,“ sagði Roberto. „Hún nær okkur ekki. Líttu á þessi sjóveiku pelabörn. En hvað varstu að biðja um? Drykk? Áttu þér einhverjar fleiri óskir að síðustu, kapti?“

„Þú ert spaugsamur,“ sagði Harrý. Hann fékk sér stóran sopa.

„Hægan nú!“ sagði Roberto. „Þetta er það eina sem er til.“

„Ég á lögg í viðbót,“ sagði Harrý við hann. „Ég var aðeins að gantast við þig.“

„Skalt ekki gantast við mig,“ sagði Roberto tortrygginn.

„Því skyldi ég ekki að reyna?“

„Hvað áttu?“

„Bacardí.“

„Náðu í það.“

„Taktu það rólega,“ sagði Harrý. „Því þetta stærilæti?“

Hann klofaði yfir líkama Alberts á leiðinni fram. Er hann kom á móts við stýrið leit hann á kompásinn. Pilturinn var um það bil tuttugu og fimm gráður frá réttri stefnu og kompásnálin sveiflaðist til. Hann er enginn sjómaður, hugsaði Harrý. Ég vinn tíma fyrir bragðið. Sjáðu kjölfarið.

Freyðandi kjölfarsrákirnar tvær lágu í hlykkjum í átt að vitanum sem var núna dökkur á að líta aftur undan, uppmjór og renglulegur út við sjóndeildarhringinn. Bátarnir voru næstum komnir úr augsýn. Það rétt grillti í loftskeytamastrið yfir bænum. Vélarnar gengu þýðlega. Harrý stakk hausnum niður og teygði sig eftir annarri bacardíflöskunni. Hann fór aftur á með hana. Kominn aftur í skut fékk hann sér sopa og rétti Roberto síðan flöskuna. Hann stóð og horfði niður á Albert og varð óglatt. Vesalings sultarafstyrmið, hugsaði hann.

„Hvað er að? Hræddur við hann?“ spurði Kúbaninn búlduleiti.

„Hvað segirðu um að koma honum fyrir borð?“ sagði Harrý. „Ekkert vit í að vera að hafa hann með.“

„Allt í fína,“ sagði Roberto. „Þú ert óvitlaus.“

„Taktu undir handleggina á honum,“ sagði Harrý. „Ég tek undir fæturna.“ Roberto lagði Thompson byssuna niður í breiðan skutinn og hallaði sér fram og tók undir herðarnar á líkinu.

„Þú veist, ekkert er þyngra í heimi en dauður maður,“ sagði hann. „Þú einhvern tímann áður lyft dauðum manni, kapti?“

„Nei,“ sagði Harrý. „Þú einhvern tímann lyft dauðri konu?“

Roberto dró líkið að skutnum. „Þú ert svalur náungi,“ sagði hann. „Hvernig lýst þér á að við fáum okkur drykk?“

„Áfram nú,“ sagði Harrý.

„Heyrðu, mér þykir leitt að hafa drepið hann,“ sagði Roberto. „Mér mun þykja það enn leiðara að drepa þig.“

„Hættu þessu tali,“ sagði Harrý. „Eða hver er tilgangurinn?“

„Áfram nú,“ sagði Roberto. „Út fyrir með hann.“

Sem þeir hölluðu sér fram og roguðu líkinu útbyrðis hnykkti Harrý hríðskotabyssunni með fætinum sömu leið.

Hún small í sjónum um leið og Albert, en á meðan Albert snerist í tvígang um sjálfan sig í hvítu, freyðandi skrúfukastinu áður en hann sökk, fór byssan beinustu leið niður.

„Betra þannig, ehe?“ sagði Roberto. „Öllu sjómannslegra.“ Þá veitti hann því athygli að byssan var horfin. „Hvar er hún? Hvað gerðirðu af henni?“

„Hverri?“

„Ametralladorunni!“ sagði hann, grípandi til spænskunnar í uppnáminu.

„Hvað þá?“

„Þú veist vel.“

„Ég varð ekki var við neitt.“

„Þú sparkaðir henni útbyrðis. Ég drep þig núna, núna.“

„Taktu það rólega,“ sagði Harrý. „Fyrir hvern fjandann ætlarðu að drepa mig?“

„Láttu mig fá byssu,“ sagði Roberto við annan sjóveiku Kúbananna á spænsku. „Láttu mig fá byssu, snöggur!“

Þarna stóð Harrý og hafði aldrei fundið fundið jafn mikið til sín, og hann fann svitann spretta fram í handarkrikum og seytla niður með síðunum.

„Þú drepur of mikið,“ heyrði hann að sá sjóveiki sagði á spænsku. „Þú drapst aðstoðarmanninn. Núna viltu drepa kapteininn. Hver á að koma okkur yfir?“

„Láttu hann í friði,“ sagði hinn. „Drepur hann þegar við komum yfir.“

„Hann sparkaði hríðskotabyssunni útbyrðis,“ sagði Roberto.

„Við erum komnir með peningana. Hvað ætlarðu að gera með hríðskotabyssu núna? Það er nóg af þeim á Kúbu.“

„Það væri glapræði, skal ég segja þér, að drepa hann ekki núna. Mátt vita það. Láttu mig fá byssuna.“

„O, haltu þér saman. Þú ert fullur. Hvert sinn sem þú ert fullur viltu drepa einhvern.“

„Fáum okkur að drekka,“ sagði Harrý og horfði út yfir gráa ylgju Golfstraumsins þar sem rauð sólkringlan var rétt í þann mund að hníga til sjávar. „Lítið á. Þegar hún fer alveg undir verður liturinn skærgrænn.“

„Fari það í helvíti,“ sagði búlduleiti Kúbaninn. „Þú heldur að þú komist upp með þetta.“

„Ég útvega þér aðra byssu,“ sagði Harrý. „Þær kosta ekki nema fjörtíu og fimm dali á Kúbu. Taktu það rólega. Þið eruð sloppnir núna. Það fer ekki nein strandgæsluvél að koma núna.“

„Ég ætla að drepa þig,“ sagði Roberto og mældi hann út. „Þú gerðir þetta af yfirlögðu ráði. Það er þess vegna sem þú fékkst mig til að lyfta þessu með þér.“

„Þú drepur mig ekki,“ sagði Harrý. „Hver kæmi ykkur annars yfir?“

„Ég ætti að drepa þig núna.“

„Taktu það rólega,“ sagði Harrý. „Ég ætla að líta á vélarnar.“

Hann opnaði lúguna og fór niður, herti á smurþrýstiboxunum á stefnisrörunum tveimur, tók á vélunum og þreifaði á skeftinu á Thompson byssunni. Ekki enn, hugsaði hann. Nei, ekki enn tímabært. Drottinn minn, hvílík heppni. Hvern andskotann eins og þetta skipti Albert máli þegar hann er hvort sem er dauður? Hún gamla hans þarf þá ekki að hafa fyrir því að láta grafa hann. Þetta búlduleita afstyrmi. Þessi búlduleiti drápshundur. Drottinn minn, hve ég vildi taka hann núna. En betra að bíða.

Hann rétti úr sér, klifraði upp og lokaði lúgunni.

„Hvernig hefurðu það?“ sagði hann við Roberto. Hann lagði höndina á breiðar axlirnar. Búlduleitur Kúbaninn leit á hann án þess að segja orð.

„Sástu það fara yfir í grænt?“ spurði Harrý.

„Farðu til fjandans,“ sagði Roberto. Hann var orðinn drukkinn en var tortrygginn, og vissi líkt og af dýrslegri eðlishvöt að eitthvað var farið úrskeiðis.

„Ég skal taka við henni um stund,“ sagði Harrý við piltinn við stýrið. „Hvað heitirðu?“

„Þú mátt kalla mig Emilio,“ sagði pilturinn.

„Farðu niður og finndu þér eitthvað að éta,“ sagði Harrý. „Það er þarna brauð og maísbuff. Lagar kaffi ef þig langar í.“

„Mig langar ekki í.“

„Ég helli upp á sopa seinna,“ sagði Harrý. Hann sat við stýrið, með kveikt á kompásljósinu, og hélt henni á strikinu án fyrirhafnar undan hægri ylgjunni, virðandi fyrir sér húmið hníga yfir sæinn. Hann hafði engin siglingarljós á.

Þetta væri fallegasta nótt að sigla yfir, hugsaði hann, fallegasta nótt. Um leið og aftanskinið deyr verð ég að halda henni austur á við. Geri ég það ekki komum við til með að sjá bjarmann af Havana innan stundar. Innan tveggja stunda, öllu falli. Jafnskjótt og hann sér bjarmann gæti þessi tíkarsonur látið verða af því að drepa mig. Heppni að losna við þessa byssu. Fjárans heppni. Þætti gaman að vita hvað María hefur í kvöldmatinn. Hún er áreiðanlega býsna áhyggjufull. Mætti segja mér að hún komi engu niður fyrir áhyggjum. Þætti gaman að vita hvað þessi afstyrmi hafa haft upp úr krafsinu. Skondið að þeir skuli ekki telja það. Ef þetta er ekki fjandans leið til að afla fjár fyrir byltingu. Þessir fjandans Kúbanar.

Þetta er heigull, þessi drengur Roberto. Ég afgreiði hann í kvöld. Afgreiði hann sama hvernig þessu annars lyktar. Verður þó ekki vesalings árans Albert til hjálpar. Mér varð óglatt af að hlunka honum svona útbyrðis. Skil ekki hvernig mér kom það til hugar.

Hann kveikti sér í sígarettu og reykti í myrkrinu.

Ég er á réttri leið, hugsaði hann. Mér gengur betur en ég gerði mér vonir um. Strákurinn er ágætur strákur. Vildi óska að ég gæti komið þessum tveimur yfir í sama borð. Vildi óska að það væri einhver leið að spyrða þá. Jæja, ég verð að gera mitt besta. Því auðveldara sem verður að afgreiða þá á undan því betra. Því betur sem allt gengur því liðugra verður það.

„Viltu samloku?“ spurði pilturinn.

„Takk,“ sagði Harrý. „Gefurðu félaga þínum eina?“

„Hann er að drekka. Mundi ekkert vilja,“ sagði pilturinn.

„Hvað um hina?“

„Sjóveikir,“ sagði pilturinn.

„Þetta er falleg nótt að fara yfir,“ sagði Harrý. Hann sá að pilturinn fylgdist ekki með kompásnum svo að hann hélt áfram austanhallri stefnu..

„Ég mundi njóta þess,“ sagði pilturinn. „Ef ekki væri vegna félaga þíns.“

„Hann var prýðisnáungi,“ sagði Harrý. „Særðist einhver í bankanum?“

„Lögfræðingurinn. Hvað hét hann aftur, Simmons.“

„Drepinn?“

„Hugsa það.“

Svo, hugsaði Harrý. Herra Stríðvör. Hverjum fjáranum bjóst hann við? Hvernig gat hann ímyndað sér að hann slyppi? Þetta hefst upp úr því að reyna að vera svalur. Þetta hefst upp úr því að vera of klár um of. Herra Stríðvör. Vertu sæll, herra Stríðvör.

„Hvernig var hann drepinn?“

„Þú getur rétt ímyndað þér,“ sagði pilturinn. „Það er allt annað mál en með félaga þinn. Mér líður illa yfir því. Þú veist, það er ekki ætlun hans að gera rangt. Það er bara þetta stig sem byltingin er á núna sem hefur haft þessi áhrif á hann.“

„Hann er kannski ágætis náungi,“ sagði Harrý, og hugsaði: Hvað hraut þér nú af vör? Árans kjafturinn á mér, hann lætur hvað sem er út úr sér. En ég verð að reyna að vingast við þennan pilt ef ske kynni að—

„Hvers konar bylting er það sem þið eruð að gera núna?“ spurði hann.

„Við erum einu raunverulegu byltingarsamtökin,“ sagði pilturinn. „Við viljum losna við alla gömlu stjórnmálamennina, alla amerísku heimsvaldastefnuna sem heldur okkur kverkataki, losna undan harðstjórn hersins. Við viljum byrja frá grunni og gefa öllu fólki tækifæri. Við viljum létta þrældómnum af guajirosunum, þú veist, bændunum, og skipta upp stóru sykurplantekrunum milli fólksins sem vinnur á þeim. En við erum ekki kommúnistar.“

Harrý leit af kompásnum á hann.

„Hvernig miðar ykkur?“ spurði hann.

„Núna einungis öflum við fjár til að geta hafið baráttuna,“ sagði pilturinn. „Til þess þurfum við að beita aðferðum sem við mundum aldrei nota seinna. Við þurfum líka að notast við fólk sem við mundum ekki vilja láta vinna fyrir okkur seinna. En tilgangurinn helgar meðalið. Þeir máttu gera það sama í Rússlandi. Stalín var eiginlega stigamaður í fjölda ára áður en byltingin varð.“

Hann er róttækur, hugsaði Harrý. Það er það sem hann er, róttækur.

„Hugsa að þið hafið fundið ykkur góðan málstað,“ sagði hann, „fyrst þið starfið í þágu þeirra sem erfiða. Ég tók býsna oft þátt í verkföllum hér í gamla daga þegar við höfðum sígarettuverksmiðjurnar í Key-Vest. Ég hefði feginn viljað gera allt sem í mínu valdi stendur hefði ég vitað hvað vakti fyrir ykkur.“

„Fjöldinn allur af fólki vill hjálpa okkur,“ sagði pilturinn. „En vegna þess á hvaða stigi hreyfingin er um þessar mundir er okkur ekki kleift að treysta neinum. Mig tekur mjög sárt til þess að þetta stig skuli vera óumflýjanlegt. Ég hef andstyggð á hryðjuverkum. Mér líður líka afar illa yfir því hvaða aðferðum er beitt til að afla nauðsynlegs fjár. En það er engra kosta völ. Þú veist ekki hve ástandið er slæmt á Kúbu.“

„Hugsa að það sé ansi slæmt,“ sagði Harrý.

„Þú hefur ekki hugmynd um hve slæmt það er. Harðstjórnin er villimannleg og teygir anga sína út í hvert einasta smáþorp í landinu. Fólk má ekki koma saman á strætum úti. Kúba á enga erlenda óvini og þarf ekki á neinum her að halda, en í hernum eru núna tuttugu og fimm þúsund manns, og allt frá lægstu undirforingjum og upp úr er herinn eins og blóðsuga á þjóðinni. Allir saman, jafnvel óbreyttir hermenn, maka krókinn hvar sem þeir fá því komið við. Núna hafa þeir komið sér upp varasveitum þar sem þrífst alls kyns óheiðarleiki, hrottaskapur og undirferli frá því í gamla daga á Machadotímanum, og þeir hirða allt sem herinn kærir sig ekki um. Við verðum að brjóta herinn á bak aftur áður en nokkuð annað verður aðhafst. Áður var höfð stjórn á okkur með bareflum. Núna er höfð stjórn á okkur með rifflum, skammbyssum, vélbyssum og byssustingjum.“

„Þetta hljómar illa,“ sagði Harrý, sitjandi við stýrið, enn haldandi henni austur á við.

„Þú getur ekki ímyndað þér hve slæmt það er,“ sagði pilturinn. „Ég ann mínu hrjáða landi og mundi gera hvað sem er, hvað sem er, til að leysa það undan þessari harðstjórn sem við búum við núna. Ég geri ýmislegt sem ég hef andstyggð á. En ég mundi gera ýmislegt sem ég hef andstyggð á þúsund sinnum á ný.“

Mig langar í drykk, var Harrý að hugsa. Hvern fjárann eins og ég láti mig þessa byltingu hans varða. R—— hún sér þessi bylting hans. Til að hjálpa erfiðismanninum rænir hann banka og drepur samverkamann sinn og drepur síðan þennan vesalings árans Albert sem aldrei gerði nokkurn skapaðan hlut af sér. Það er erfiðismaður sem hann drepur. Hann hugsar ekki út í það. Maður með fjölskyldu. Það eru Kúbanarnir sem stjórna Kúbu. Þeir svíkja allir hver annan. Þeir selja hvern annan mansali. Þeir hljóta makleg málagjöld. Fjárinn eigi þessar byltingar þeirra. Eina sem ég þarf að gera er að sjá fjölskyldu minni farborða og mér tekst það ekki. Þá fer hann að segja mér frá þessari byltingu sinni. Fjárinn eigi þessa byltingu hans.

„Slæmt hlýtur það að vera, allt í lagi,“ sagði hann við piltinn. „Taktu stýrið smá stund, væri þér sama? Ætla rétt að fá mér drykk.“

„Sjálfsagt,“ sagði pilturinn. „Hver er stefnan?“

„Tvö tuttugu og fimm,“ sagði Harrý.

Komið var myrkur núna og það var talsverð undiralda svo langt úti í Golfstraumnum. Hann fór fram hjá sjóveiku Kúbönunum tveimur þar sem þeir lágu á bekkjunum og aftur á þar sem Roberto sat í fiskistólnum. Aldan straukst með síðum bátsins í myrkrinu. Roberto sat með fæturna uppi í öðrum fiskistól sem sneri móti honum.

„Láttu mig fá aðeins af þessu,“ sagði Harrý við hann.

„Fjandinn eigi þig,“ sagði búlduleitur maðurinn þungum rómi. „Þetta er mitt.“

„Allt í lagi,“ sagði Harrý og fór fram í eftir hinni flöskunni. Niðri í myrkrinu, með flöskuna undir handleggsstúfnum, dró hann korkinn úr sem Freddi hafði losað og tyllt aftur og saup á.

Eins gott að gera það núna eins og seinna, sagði hann með sjálfum sér. Ekkert vit í að bíða. Piltungurinn hefur talað út. Búlduleita afstyrmið drukkið; hinir tveir sjóveikir. Ekkert því til fyrirstöðu að gera það núna.

Hann saup aftur á og bacardíið yljaði honum og hann hresstist við en engu að síður fann hann til kulda og tómleika kringum magann. Hann fann til kulda alls staðar innra með sér.

„Viltu sopa?“ spurði hann piltinn við stýrið.

„Nei, takk,“ sagði pilturinn. „Ég drekk ekki.“ Harrý sá í skímunni frá kompásljósinu að hann brosti. Hann var geðugasti piltur allt í lagi. Líka þægilegur í tali.

„Ég ætla að fá mér einn,“ sagði Harrý. Hann saup vel á en það náði ekki að verma kalda deigluna sem hafði núna breitt úr sér frá maganum um allt brjóstholið. Hann setti flöskuna niður á dekkið í stýrisskýlinu.

„Haltu henni á þessari stefnu,“ sagði hann við piltinn. „Ég ætla að líta á vélarnar.

Hann opnaði lúguna og fór niður. Hann festi hlerann upp með löngu krókhaldi sem var fest í auga á dekkinu. Hann laut yfir vélarnar og tók með sinni einu hendi á vatnskassanum og bullustrokkunum og síðan á smurþýstiboxunum við stefnisrörin. Hann herti á þeim um einn og hálfan snúning hvoru. Hættu að tvístíga, sagði hann við sjálfan sig. Svona nú, hættu að tvístíga. Hvar geymirðu hjartað núna? Í buxunum, geri ég ráð fyrir, hugsaði hann.

Hann leit upp um lúguna. Hann gat næstum snert bekkina tvo yfir bensíngeymunum þar sem þeir sjóveiku lágu. Pilturinn sneri í hann baki þar sem hann sat á háum stólnum og markaði greinilega fyrir útlínum hans móti kompásljósinu. Þegar hann sneri sér við gat hann séð Roberto þar sem hann teygði úr sér í stólnum aftur í skut, svo að skuggamynd hans bar við dimman sæinn.

Tuttugu og tvö í knippi gerir í mesta lagi fjórar fimm skota hríðar, hugsaði hann. Verð að taka mjúklega á gikknum. Allt í lagi. Áfram nú. Hættu að tvístíga, garnalausa viðundrið þitt. Drottinn minn, hvað ég mundi gefa fyrir einn í viðbót. Nei, það verður ekki neinn í viðbót núna. Hann teygði sig upp með vinstri höndina, losaði um reimólina, setti höndina um gikkvarann, ýtti örygginu alveg yfir með þumlinum og tók til sín byssuna. Sitjandi á hækjum sér í vélarrúminu miðaði hann varlega á hnakkann á piltinum þar sem markaði fyrir honum móti kompásljósinu.

Heljar blossi stóð fram úr byssunni svo að lýsti upp myrkrið og skothylkin smullu í opnum hleranum og hrundu niður á vélina. Áður en slyttið af líkama piltsins var hnigið niður af stólnum hafði hann snúið sér og og skotið á mannveruna á bekknum til vinstri, haldandi nötrandi, eldspúandi byssunni svo nærri manninum að brunalyktina af úlpu hans lagði fyrir vitin; vatt sér svo að hinum og lét hríðina ganga í skrokk á honum er hann í sömu svifum var að setjast upp, þrífandi til byssu sinnar. Hann hnipraði sig nú niður og leit aftur á. Sá búlduleiti var horfinn úr stólnum. Hann sá skuggamyndir beggja stólanna. Að baki honum lá pilturinn hreyfingarlaus. Það var ekkert vafamál með hann. Á öðrum bekknum lá maður engjandist. Á hinum, sá hann út undan sér, lá maður hálfur út yfir borðstokk.

Harrý reyndi að koma auga á þann búlduleita í myrkrinu. Báturinn fór núna í hring og lítið eitt birti í stýrisskýlinu. Hann hélt niðri í sér andanum og skyggndist um. Þetta hlaut að vera hann þar sem vottaði fyrir fyrir smá þúst á dekkinu út við hornið. Hann fylgdist með henni og sá að hún hreyfðist lítið eitt. Þetta var hann.

Maðurinn var að mjaka sér í átt til hans. Nei, í átt til mannsins sem lá hálfur út yfir borðstokk. Það var byssan hans sem hann var á eftir. Samanhnipraður fylgdist Harrý með honum þangað til hann var orðinn viss í sinni sök. Þá lét hann ganga í skrokk á honum. Hann var á hnjánum þegar skotin hæfðu hann, og þegar blossinn og búm-búm-búmið dóu út heyrði hann að hann engdist sundur og saman.

„Þú tíkarsonur,“sagði Harrý. „Búlduleiti drápshundurinn þinn.“

Kuldinn var nú allur horfinn innra með honum og hann heyrði gamalkunnan, holan hljóminn í brjósti sér og hann kraup niður og fálmaði undir ferstrendan, viðarklæddan bensíngeyminn eftir öðru skotknippi til að setja í byssuna. Hann fann knippið, en höndin var hráblaut og köld.

Geymirinn hæfður, sagði hann við sjálfan sig. Verð að drepa á vélunum. Sé ekki hvar er tekið út af þessum tanki.

Hann ýtti á íbjúga vogarstöngina, lét tóma skotknippið falla og smellti nýju í grópina, klifraði síðan upp og fór út úr stýrisskýlinu.

Sem hann var kominn upp, með Thompson byssuna í sinni vinstri hönd, skimandi í kringum sig áður en hann legði hlerann aftur með króknum á hægri handleggnum, reis sá Kúbaninn upp sem hafði legið á bekknum stjórnborðsmegin og hafði verið hæfður þremur skotum í vinstri öxl, en tvö höfðu lent í bensíngeyminum, miðaði vandlega og skaut hann í magann.

Harrý settist niður, við það að falla aftur fyrir sig. Honum leið eins og hann hefði verið sleginn með kylfu í magann. Hann var með bakið við eina af járnpípunum sem héldu við fiskistólana og í þann mund sem Kúbaninn skaut að honum á ný og flísaði úr fiskistólnum yfir höfði hans, seildist hann niður eftir Thompson byssunni, fann hana, tók hana varlega upp, með krókinn um fremra haldið, og lét helminginn af nýju skothleðslunni ganga í skrokk á manninum sem sat álútur uppi, skjótandi í makindum sínum að honum. Maðurinn skrapp saman í hrúgald á bekknum og Harrý þreifaði um dekkið í stýrisskýlinu eftir þeim búlduleita, fann hann þar sem hann lá á grúfu, fálmaði eftir höfði hans með slæma handleggnum og setti krókinn um það, þrýsti hlaupinu að höfðinu og tók í gikkinn. Svo þétt við höfuðið myndaði byssan hljóð eins og slegið væri í grasker með kylfu. Harrý setti byssuna niður og lagðist á hliðina á dekkið í stýrisskýlinu.

„Tíkarsonur er ég,“ sagði hann, með varirnar niður við þilfarsplankana. Tíkarsonur, nú búinn að vera. Verð að drepa á vélunum eða við fuðrum upp, hugsaði hann. Ég á enn von. Ekki er öll von úti. Jesús Kristur. Aðeins eitt þurfti til að spilla því. Aðeins eitt til allt færi úrskeiðis. Fari það í kolað. O, drottinn visti í neðra þetta Kúbanaafstyrmi. Hvern hefði órað fyrir að ég hefði ekki séð fyrir honum?

Hann reis á fjóra fætur og skellti aftur hinum hluta hlerans yfir vélarrúminu, skreið yfir hann og fram að stýrisstólnum. Hann vóg sig upp við stólinn, undrandi yfir hve auðvelt hann átti með hreyfingar, fann þá skyndilega til máttleysis og svima er hann stóð uppréttur, hallaði sér fram hvílandi slæma handlegginn á kompásnum og sneri startrofunum tveimur. Vélarnar hljóðnuðu og hann gat heyrt sjóinn skvampa við síðurnar. Ekkert annað heyrðist. Hún lagðist þver fyrir hægri ylgjunni sem norðanvindurinn hafði vakið og tók að velta.

Hann hékk við stýrishjólið, settist síðan og lét líða úr sér í stólnum, hallandi sér fram á kortaborðið. Hann fann hve stöðug lamandi ógleði dró úr honum allan mátt. Hann fletti frá sér skyrtunni með heilu hendinni og snerti gatið með lófabarðinu, setti svo fingurinn í það. Það blæddi afar lítið. Allt innvortis, hugsaði hann. Ég gerði betur að leggjast niður svo að það nái að jafna sig.

Tunglið var komið upp og hann gat nú séð hvernig umhorfs var í stýrisskýlinu.

Allt í graut, hugsaði hann, allt í einum fjárans graut.

Gerði betur að leggjast niður áður en ég dett niður, hugsaði hann og hann lét sig líða niður á dekkið í skýlinu.

Hann lagðist á hliðina og sem báturinn valt lagði tunglskinið inn og hann gat virt allt vel fyrir sér inni í stýrisskýlinu.

Það er stappað, hugsaði hann. Það er það sem það er, það er stappað. Þætti gaman að vita hvað hún gerir, hugsaði hann síðan. Þætti gaman að vita hvað María gerir. Kannski að þeir greiði henni verðlaunaféð. Bannsettur Kúbaninn. Hún spjarar sig hugsa ég. Hún er klár kona. Hugsa að við hefðum öll spjarað okkur. Þetta voru grillur í mér hugsa ég, allt í lagi. Ætli ég hafi ekki færst of mikið í fang. Hefði átt að láta vera að reyna það. Það gekk allt upp þangað til undir það síðasta. Enginn mun vita hvernig það gerðist. Vildi óska að ég gæti gert eitthvað fyrir Maríu. Víst feikn nóg af peningunum hér um borð. Hef ekki einu sinni hugmynd um hve mikið. Allir mundu vera allt í fína með það í handraðanum. Þætti gaman að vita hvort strandgæslan klípur ekki af því. Ætli ekki smá. Vildi að ég gæti látið hana gömlu mína vita hvað gerðist. Þætti gaman að vita hvað hún gerir. Ég veit ekki. Ætli ég hefði ekki farið að vinna á bensínstöð eða eitthvað þess háttar. Hefði átt að láta alveg vera að ætla aftur á sjóinn. Það er ekki lengur neinn heiðarlegan pening upp úr því að hafa að gera út bát. Bara að tíkin léti ekki svona. Bara að hún hætti að velta svona. Ég finn hvernig það skvampar allt inni í mér til og frá. Ég. Herra Stríðvör og Albert. Allir sem skiptu sér að þessu. Líka þessi afstyrmi. Hljóta að vera óheillaviðskipti. Einhver óheillaviðskipti. Hugsa að það sem náungi eins og ég ætti að taka sér fyrir hendur væri að reka bensínstöð eða eitthvað þess háttar. Fjandinn sjálfur, ég gæti ekki rekið neina bensínstöð. María, hún fer út í að reka eitthvað. Hún er orðin of gömul til að manga með lendarnar á sér. Vildi óska að tíkin ylti ekki svona. Verð bara að taka það rólega. Verð bara að taka það eins rólega og mér framast unnt. Liggja kyrr og drekka ekki vatn, segja þeir. Sér í lagi ekki drekka vatn, segja þeir.

Hann virti fyrir sér það sem birtist honum í tunglskininu inni í stýrisskýlinu.

Jæja, ekki þarf ég að þrífa hana, hugsaði hann. Taktu það rólega. Það er það sem ég þarf að gera. Taka það rólega. Verð að taka það eins rólega og ég framast get. Ég á enn kosta völ. Liggirðu kyrr og drekkir ekki vatn.

Hann lá á bakinu og reyndi að anda reglulega. Báturinn vaggaði á bylgjum Golfstraumsins og Harrý Morgan lá á bakinu í stýrisskýlinu. Í fyrstu reyndi hann að skorða sig af gagnvart veltingnum með heilu hendinni. Svo lá hann rólegur og lét sig hafa það.

 

 

FYRSTI HLUTI: HARRÝ MORGAN, Vor

1. kafli

2. kafli

3. kafli

4. kafli

5. kafli

 

ANNAR HLUTI: HARRÝ MORGAN, Haust

1. kafli

2. kafli

3. kafli

 

ÞRIÐJI HLUTI: HARRÝ MORGAN, Vetur (1 til 10)

1. kafli - Albert hefur orðið

2. kafli - Harrý

3. kafli

4. kafli

5. kafli

6. kafli

7. kafli

8. kafli

9. kafli

10. kafli

 

ÞRIÐJI HLUTI: HARRÝ MORGAN, Vetur (11 til 18)

11. kafli

12. kafli

13. kafli

14. kafli

15. kafli

16. kafli

17. kafli

18. kafli

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist