< Hafa, ekki hafa

 

ANNAR HLUTI

 

HARRÝ MORGAN

Haust

 

 

 

1. kafli

Þeir komu yfir um nóttina og fengu á sig kaldaskít af norðvestri. Þegar sólin kom upp eygði hann tankskip á leið niður flóann sem bar svo hátt og var svo hvítt á að líta í svölu skini sólarinnar að svo virtist sem háhýsi risu úr hafinu og hann sagði við niggarann: „Hvar í fjáranum erum við?“

Niggarinn reis upp til að líta á.

„Ekki neitt eins og þetta til hér megin Miamí.“

„Það veistu andskotakornið að okkur hefur ekki borið út undir neina Miamí,“ sagði hann við niggarann.

„Eina ég segja engin nein hús eins og þessi á neina Flórída Key.“

„Við höfum verið með strikið á Sanda-Key.“

„Verðum að sjá hana þá. Hana eða amerískar eyrar.“

Þá sá hann eftir smá stund að þetta var tankari en ekki nein háhýsi og innan stundar birtist honum Sanda-Key vitinn þar sem hann reis úr hafinu, hár, mjósleginn og brúnn og nákvæmlega þar sem hann átti að vera.

„Maður verður að hafa trú á stýrimanninum,“ sagði hann við niggarann.

„Ég hafa trú,“ sagði niggarinn. „En eins og þessi túr er orðinn ég ekki hafa trú á neinu neitt lengur.“

„Hvernig er fóturinn?“

„Ég meiða mig í því stöðugt.“

„Það er ekki neitt,“ sagði maðurinn. „Þú heldur því hreinu og vel um búnu og það læknar sig sjálft.“

Hann stýrði núna til vesturs til horfs á Konu-Key þar sem hann hugðist leggjast yfir daginn undan fenjaviðnum þar sem engra væri að vænta, og þar átti báturinn að koma til móts við þá.

„Það verður allt í lagi með þig,“ sagði hann við niggarann.

„Ég veit það ekki,“ sagði niggarinn. „Ég illa meiddur.“

„Ég ætla að snikka þetta vel til á þér þegar við komum í plássið,“ sagði hann við hann. „Það hæfði þig ekki svo illa. Ekki þessar áhyggjur.“

„Ég varð fyrir skoti,“ sagði hann. „Ég aldrei áður orðið fyrir skoti. Hvernig sem maður er skotinn er slæmt.“

„Þú ert bara sárhræddur.“

„Nei, herra. Ég er skotinn. Ég er illa sár. Búinn að skjálfa í alla nótt.“

Niggarinn hélt áfram að jagast þannig og gat ekki haldið aftur af sér með að taka umbúðirnar sífellt af og skoða sárið.

„Láttu þetta vera,“ sagði maðurinn við stýrið við hann. Niggarinn lá á stýrishúsgólfinu og sekkir af brennivíni í laginu eins og svínslæri lágu þar í hrúgum um allt. Hann hafði búið sér hægindi á milli þeirra. Hverju sinni sem hann hreyfði sig gnísti í brotnu gleri í sekkjunum og anganina lagði af öllu því sem farið var til spillis. Það hafði runnið út um allt. Maðurinn var núna kominn með horfið á Konu-Key. Hann sá eyrina núna glögglega.

„Ég meiddur,“ sagði niggarinn. „Ég meiða mig stöðugt verra.“

„Ég finn til með þér, Wesley,“ sagði maðurinn. „En ég verð að stýra.“

„Þú ferð ekki með mann neitt betra en hund,“ sagði niggarinn. Hann var núna orðinn ljótur á svipinn. En maðurinn fann enn til með honum.

„Ég á eftir að gera þér þetta bærilegra, Wesley.“ sagði hann. En liggðu nú rólegur.“

„Þér er alveg sama hvað mann hendir,“ sagði niggarinn. „Þú ert ekki mannlegur.“

„Ég ætla að snikka þetta vel til á þér,“ sagði maðurinn. „Liggðu bara rólegur.“

„Þú snikkar þetta ekki neitt til á mér,“ sagði niggarinn. Maðurinn, sem hét Harrý Morgan, svaraði því engu af því að honum féll vel við niggarann og ekki var hægt að gera neitt á þessari stundu nema gefa honum á hann, og hann gat fengið það af sér að gefa honum á hann. Niggarinn hélt áfram að tala.

„Af hverju stoppuðum við ekki þegar þeir fóru að skjóta?“

Maðurinn ansaði engu.

„Er ekki líf eins manns meira virði en farmur af brennivín?“

Maðurinn var með allan hugann við að stýra.

„Allt við þurfa gera er að stoppa og þeir taka brennivínið.“

„Nei,“ sagði maðurinn. „Þeir taka brennivínið og bátinn og þú lendir í fangelsi.“

„Mér er sama um fangelsi,“ sagði niggarinn. „En ég vildi aldrei láta skjóta mig.“

Hann var nú farinn að taka á taugar mannsins og maðurinn orðinn þreyttur á þessu tali.

„Hvor í helvíti var verr hæfður?“ spurði hann niggarann. „Þú eða ég?“

„Þú verr skotinn,“ sagði niggarinn. „En ég aldrei verið skotinn. Ég reiknaði ekki með að vera skotinn. Ég fæ ekki borgað fyrir að vera skotinn. Ég vil ekki vera skotinn.“

„Taktu það rólega, Wesley,“ sagði maðurinn við hann. „Það gerir þér ekkert gott að tala svona.“

Þeir voru núna að koma upp að Konu-Key. Þeir voru komnir inn fyrir sandrifin og þegar hann hélt bátnum inn sundið var erfitt að sjá til af því það glampaði svo af sólinni á haffletinum. Niggarinn var að verða alveg utan garna eða orðinn svo guðhræddur vegna sára sinna; að minnsta kosti talaði hann í sífellu.

„Af hverju þeir smúla enn brennivín?“ sagði hann. „Bannið vera búið. Af hverju þeir keyra báta svona á milli? Af hverju þeir ekki flytja brennivín á ferjunni?“

Maðurinn við stýrið fylgdist náið með sundinu.

„Af hverju fólk ekki vera siðsamt og heiðarlegt og vinna siðsama heiðarlega vinnu?“

Maðurinn sá hvernig öldunni skolaði mjúklega út eftir að hafa brotnað á bakkanum, jafnvel þegar hann greindi ekki sjálfan bakkann fyrir sólinni. Hann sneri henni, snúandi stýrinu með annarri hendi, og sundið opnaðist út. Þá hélt hann henni á hægri ferð, nú með vélarnar í gangi aftur á bak, alveg upp að þar sem fenjaviðurinn teygði sig út yfir bakkann og sló svo út báðum tengslum.

„Ég get látið út ankeri,“ sagði hann. „En ég get ekki náð neinu ankeri upp.“

„Ég get ekki einu sinni hreyft mig,“ sagði niggarinn.

„Það er vissulega fjandi bágt á þér ástandið.“ sagði maðurinn við hann.

Hann mátti leggja hart að sér við að taka fram minna ankerið og lyfta því, en hann kom því yfir og lét falla og gaf vel út af færi og hún svifaði inn á móts við fenjaviðinn svo að greinarnar lögðust alveg inn undir stýrisskýlið. Þá fór hann niður og til baka inn í stýrisskýlið. Honum virtist að skýlið mundi liggja fjandi bert fyrir sjónum, en þá það.

Alla nóttina síðan hann hafði gert að sárum niggarans og niggarinn bundið um handlegginn á sér var hann búinn að vera við stýrið með augun á kompásnum, og þegar birti af degi hafði hann séð hvar niggarinn lá þarna innan um sekkina í miðju skýlinu, en svo hafði hann enn mátt festa hugann við kompásinn og bylgjandi sjóina og skyggnast eftir Sanda-Key vitanum og hafði aldrei gert sér fyllilega grein fyrir hvernig ástatt var. Ástandið var slæmt.

Niggarinn lá í miðjum hlaðanum af brennivínssekkjunum með fótinn upp fyrir sig. Átta kúlnagöt voru á dreif um skýlið. Glerið í vindskyggninu var brotið. Hann vissi ekki hve mikið af sprúttinu var farið í mél, og þar sem niggaranum hafði ekki blætt, þar hafði honum sjálfum blætt. En það sem honum þótt verst, það þótti honum á þessu augnabliki, það var anganin af lekanum. Allt var gegnsósa. Báturinn lá núna kyrr undir fenjaviðnum en hann gat ekki hætt að finna til hreyfingarinnar sem ólgusjórinn á flóanum alla nóttina hafði vakið.

„Ég ætla að hella upp á smá kaffi,“ sagði hann við niggarann. „Svo ætla ég að snikka þetta betur til á þér.“

„Mig langar ekki neitt í neitt kaffi.“

„Mig langar í,“ sagði maðurinn við hann. En þegar hann var kominn niður tók að svífa að honum svo að hann fór aftur upp á dekk.

„Ætli okkur langi nokkuð í kaffi,“ sagði hann.

„Mig langar í dálítið vatn.“

„Allt í lagi.“

Hann gaf svertingjanum bolla af vatni úr tágakút.

„Af hverju þú vilja keyra áfram þegar þeir byrja að skjóta?“

„Af hverju þeir vilja skjóta?“ svaraði maðurinn.

„Ég vil doktor,“ sagði niggarinn við hann.

„Hvað getur doktor gert fyrir þig sem ég get ekki?“

„Doktor læknar mig.“

„Þú færð doktor í kvöld þegar báturinn kemur.“

„Ég vil ekki neitt bíða eftir neinum bát.“

„Allt í lagi,“ sagði maðurinn. „Við þurfum núna að hlunka út þessu brennivíni.“

Hann byrjaði að hlunka því út og það var erfitt verk með aðeins annarri hendi. Brennivínssekkur vegur aðeins fjörtíu pund en þeir voru ekki margir sem hann gat hlunkað út áður en þreytan sótti að honum. Hann settist inn í skýlið og lét sig síðan líða út af.

„Þú drepur þig á þessu,“ sagði niggarinn.

Maðurinn lá rólegur í skýlinu með einn af sekkjunum undir höfði sér. Hann lá í skugga af greinum fenjaviðarins þar sem þær slúttu inn undir skýlisþakið. Vindurinn þaut í greinum trjánna og sem hann leit út upp á háan, kaldan himininn sá hann þunn og vindskafin skýin í norðri.

„Enginn kemur á meðan hann kaldar svona,“ hugsaði hann. „Þeir gera ekki ráð fyrir að við höfum lagt í hann í þessum vindi og eru því varla að leita okkur uppi.“

„Heldurðu þeir komi?“

„Enginn vafi,“ sagði maðurinn. „Eða því ekki?“

„Hann blæs of mikið.“

„Þeir leita okkur uppi.“

„Ekki á meðan hann er svona. Af hverju ertu að ljúga að mér?“ Niggarinn talaði með munninn á grúfu ofan í sekkinn.

„Taktu það rólega, Wesley,“ sagði maðurinn við hann.

„Taktu það rólega, segir maðurinn,“ hélt niggarinn áfram. „Taktu það rólega. Taka hvað rólega? Taka því rólega að deyja eins og hundur? Þú komst mér í þetta. Komdu mér út úr því.“

„Taktu það rólega,“ sagði maðurinn, vingjarnlega.

„Þeir koma ekki,“ sagði niggarinn. „Ég veit þeir koma ekki. Mér er kalt, skal ég segja þér. Ég þoli ekki þennan sársauka og kulda, skal ég segja þér.“

Maðurinn reisti sig upp, tómur innan að honum fannst og óstöðugur. Augu niggarans hvíldu á honum sem hann reis upp á annað hnéð, með hægri handlegginn dinglandi, og tók í hægri höndina með þeirri vinstri og setti hana milli hnjánna og togaði sig síðan upp með taki á borðstokknum þangað til hann stóð uppi, álútur, með augun á niggaranum og hægri höndina enn milli læra á sér. Honum fannst sem hann hefði aldrei fyrr fundið til virkilegs sársauka.

„Haldi ég honum beint út, teygji hann beint út, þá finn ég ekki svo til,“ sagði hann.

„Láttu mig setja hann í fatla,“ sagði niggarinn.

„Ég get ekki beygt olnbogann,“ sagði maðurinn. „Hann stífnaði svona.“

„Hvað ætlarðu að gera?“

„Hlunka út þessu brennivíni,“ sagði maðurinn við hann. „Getur þú ekki sett það út fyrir sem þú nærð til, Wesley?“

Niggarinn reyndi að hreyfa sig eftir einum sekk, en lagðist þá út af stynjandi.

„Finnurðu svona mikið til, Wesley?“

„Ó, Guð,“ sagði niggarinn.

„Heldurðu ekki að ef þú einu sinni hreyfðir þig, að þá mundirðu ekki finna eins mikið til?“

„Ég er skotinn,“ sagði niggarinn. „Ég hreyfi mig ekki neitt. Maðurinn vill ég fara að hlunka út brennivíni þegar ég er skotinn.“

„Taktu það rólega.“

„Segirðu þetta einu sinni enn tryllist ég.“

„Taktu það rólega,“ sagði maðurinn hæglátlega.

Niggarinn gaf frá sér ýlfur og sem hann fór fálmandi höndum um dekkið greip hann upp brýnið undan lúgukarminum.

„Ég drep þig,“ sagði hann. „Ég skal rista úr þér hjartað.“

„Ekki með brýninu,“ sagði maðurinn. „Taktu það rólega, Wesley.“

Niggarinn grúfði sig skælandi niður í sekkinn. Maðurinn hélt áfram hægum tökum að lyfta sekkjum með kössum af brennivíni og henda þeim fyrir borð.

 

2. kafli

Meðan hann var að hlunka út brennivíninu heyrði hann vélarhljóð og er honum varð litið upp sá hann bát sem var haldið í átt til þeirra, á leið niður sundið hjá eyraroddanum á Konu-Key. Þetta var hvítur bátur með húsi í leðurgulum lit og með vindskyggni.

„Bátur að koma,“ sagði hann. „Komdu, Wesley.“

„Get það ekki.“

„Öðruvísi mér áður brá,“ sagði maðurinn. „Og skal ég muna þér þetta.“

„Haltu áfram og gleymdu engu,“ sagði niggarinn. „Ég mun heldur neinu neitt gleyma.“

Án þess að hafa augun af bátnum sem kom á hægri ferð niður sundið, og svo að svitinn bogaði af honum, færðist maðurinn allur í aukana og tíndi upp með heilu hendinni sekkjaða brennivínskassana og henti þeim fyrir borð.

„Færðu þig,“ og hann þreif í sekkinn undir höfði niggarans og lét hann líða út yfir borðstokkinn. Niggarinn settist upp.

„Þar koma þeir,“ sagði hann. Báturinn var kominn nánast þvert á þá.

„Það er kapteinn Willie,“ sagði niggarinn. „Á lagsmannaveiðum.“

Aftur á hvíta bátnum sátu tveir menn flónelklæddir og með bómullarhatta dorgandi í fiskistólum og gamall maður með flókahatt og stormhlífar hélt um stjórnvölinn og stýrði bátnum rétt undan fenjaviðnum þar sem sprúttbáturinn lá.

„Nokkuð að frétta, Harrý?“ kallaði gamli maðurinn þegar hann fór hjá. Maðurinn sem kallaður var Harrý veifaði móti honum heilu hendinni. Báturinn skreið undan. Mennirnir tveir á veiðum horfðu í átt til sprúttbátsins og töluðu við gamla manninn, en hvað þeir sögðu gat Harrý ekki greint.

„Hann snýr við í ósnum og kemur til baka,“ sagði Harrý við svertingjann. Hann fór niður og kom upp með ullarteppi. „Best ég breiði yfir þig.“

„Mál til komið þú gerir það. Þeir komust ekki hjá að sjá þetta brennivín. Hvað gerum við?“

„Willie er besti skarfur,“ sagði maðurinn. „Hann lætur þá í bænum vita af okkur. Þessir veiðikallar angra okkur ekki. Því ættu þeir að láta sér umhugað um okkur?“

Ákafan skjálfta hafði sett að honum og hann settist við stýrið og hélt hægri handleggnum milli læranna. Hnén skulfu og með skjálftanum fann hann að gnísti í upphandleggsbeininu. Hann setti sundur hnén, lyfti handleggnum og lét hann hanga með síðunni. Þarna sat hann með hangandi handlegginn þegar báturinn fór aftur hjá á leið til baka upp sundið. Mennirnir tveir í fiskistólunum töluðu saman. Þeir höfðu tekið stangirnar inn og annar þeirra horfði til hans gegnum kíki. Þeir voru of langt undan til að hann gæti greint hvað þeir sögðu. Það hefði ekki komið honum að neinu gagni þó hann hefði getað það.

Svo að Harrý hefur farið yfir í nótt, hugsaði Willie Adams kapteinn með sér sem þeir voru að dorga niður Konu-Key sund á leigubátnum Suður-Flórída, af því að hann var of úfinn til að hægt væri að fara út með rifinu. Þessi drengur er með skilningarvitin í lagi. Hann hlýtur að hafa lent í öllu veðrinu. Hún er líka skip í sjó að leggja. Hvernig skyldi hann hafa brotið vindskyggnið? Fjárinn að ég færi yfir á nóttu sem í nótt leið. Fjárinn að ég myndi nokkurn tímann smúla brennivíni frá Kúbu. Þeir fá það allt frá Mariel núna. Víst talið að það verði fellt alveg úr gildi. „Hvað er það sem þú ert að segja, herra minn?“

„Hvaða bátur er þetta?“ spurði annar mannanna í fiskistólunum.

„Þessi bátur?“

„Já, þessi bátur.“

„O, þetta er bátur frá Key-Vest.“

„Ég var að spyrja hvers bátur þetta væri.“

„Hvernig ætti ég að vita það, herra minn?“

„Er það fiskimaður sem á hann?“

„Nú, svo segja sumir,“

„Hvað áttu við?“

„Hann fæst við eitt og annað.“

„Veistu ekki hvað hann heitir?“

„Nei, herra minn.“

„Þú kallaðir hann Harrý.“

„Ekki ég.“

„Ég heyrði að þú kallaðir hann Harrý.“

Willie Adams kapteinn virti vel fyrir sér manninn sem var að ræða við hann. Granstæðin voru há og andlitið afar rustalegt með djúpstæðum, gráum augum og munnsvip sem leit fyrirlitlega við honum undan hvítum bómullarhatti.

„Ég hlýt að hafa kallað hann það fyrir misgáning,“ sagði Willie kapteinn.

„Þú sérð að maðurinn er sár, doktor,“ sagði hinn maðurinn og rétti kíkinn að félaga sínum.

„Það sé ég vel án kíkis,“ sagði maðurinn sem ávarpaður var doktor. „Hver er hann þessi maður?“

„Hvernig ætti ég að vita það?“ sagði Willie kapteinn.

„Nú, þú munt fá að vita það,“ sagði maðurinn með fyrirlitlega munnsvipinn. „Skrifaðu hjá þér númerið á bógnum.“

„Er búinn að ná þeim, doktor.“

„Við förum yfir og athugum málið,“ sagði doktorinn.

„Ertu doktor?“ spurði Willie kapteinn.

„Ekki í læknisfræði,“ sagði sá gráeygði við hann.

„Ef það er ekki í læknisfræði sem þú ert doktor myndi ég ekki fara þangað yfir.“

„Af hverju ekki?“

„Ef hann vildi okkur eitthvað hefði hann gefið okkur merki. Vilji hann okkur ekkert þá kemur þetta okkur ekki neitt við. Hér niður frá heldur hver sér að sínu.“

„Allt í lagi. Halt þú þá þér að þínu. Farðu með okkur yfir að þessum bát.“

Willie kapteinn hélt áfram sem leið lá upp sundið. Tveggja strokka Palmerin hóstaði stöðugt.

„Heyrðirðu ekki hvað ég sagði?“

„Jú, herra minn.“

„Af hverju hlýðnastu þá ekki skipun minni?“

„Hver fjandinn þykist þú vera? spurði Willie kapteinn.

„Málið snýst ekki um það. Gerðu sem ég segi þér!“

„Hvað þykistu vera?“

„Allt í lagi. Rétt til þess að þú vitir það, þá er ég einn af þremur þýðingarmestu mönnum Bandaríkjanna um þessar mundir.“

„Hvern fjárann ertu þá að gera hér í Key-Vest?“

Hinn maðurinn hallaði sér fram. „Hann er Frederick Harrison,“ sagði hann með áherslu.

„Aldrei heyrt hans getið.“ sagði Willie kapteinn.

„Þú munt þá eiga það eftir,“ sagði Frederick Harrison. „Eins og allir í þessu illþefjandi krummaskuði ef ég á að tala hreint út.“

„Þú ert altillegasti náungi,“ sagði Willie kapteinn. „Hvað bar til að þú varðst svo þýðingarmikill?“

„Hann er einn af þeim stóru í stjórnarráðinu,“ sagði hinn maðurinn.

„Hismi og hjóm,“ sagði Willie kapteinn. „Ef hann er allt þetta hvað er hann þá að gera í Key-Vest?“

„Hann er hér aðeins sér til hvíldar,“ útskýrði ritarinn. „Hann á að fara að taka við stöðu yfirríkis—“

„Nóg um það, Willis,“ sagði Frederick Harrison. „Má ég þá biðja þig um að fara með okkur yfir að bátnum,“ sagði hann og brosti. Bros hans var sérsniðið að slíku tilefni.

„Nei, herra minn.“

„Heyrðu mig, þú sjómannshálfviti. Ég skal gera þér lífið svo leitt að þú—“

„Já,“ sagði Willie kapteinn.

„Þú veist ekki hver ég er.“

„Ekkert af því skiptir mig máli,“ sagði Willie kapteinn.

„Mætti segja mér að maðurinn möndli með sprútt.“

„Hvað heldur þú ?“

„Mætti segja mér að hann sé eftirlýstur.“

„Ég efast um það.“

„Hann er lögbrjótur.“

„Hann á fyrir fjölskyldu að sjá og þarf að hafa ofan af fyrir sér og sínum. Hvern andskotann átt þú með það að fara að setja fólk á vonarvöl sem streðar hér í Key-Vest fyrir stjórnina fyrir sex og hálfan dal á viku?“

„Hann er særður. Það þýðir að hann hefur lent í vandræðum.“

„Nema að hann hafi hæft sig skoti sér til gamans.“

„Þú getur sparað þér hnýfilyrðin. Þú ferð yfir að þessum bát og við tökum manninn fastan og leggjum hald á bátinn.“

„Og taka hann hvert?“

„Til Key-Vest.“

„Ert þú lögregluforingi?“

„Ég er búinn að segja þér hver hann er,“ sagði ritarinn.

„Allt í lagi,“ sagði Willie kapteinn. Hann lagði hart í borð og sneri bátnum og fór svo nærri bakkanum að skrúfan þyrlaði upp leir. Hann hökti niður sundið í átt að hinum bátnum þar sem hann lá undir fenjaviðnum.

„Ertu með byssu um borð?“ spurði Frederick Harrison Willie kaptein.

„Nei, herra minn,“

„Flúnelklæddir mennirnir tveir höfðu staðið upp og fylgdust nú með sprúttbátnum.

„Þetta er heldur skemmtilegra en veiðarnar, ehe, doktor?“ sagði ritarinn.

„Veiðar eru tóm vitleysa,“ sagði Frederick Harrison. „Setji maður í hyrnufisk, hvað gerir maður með hann? Maður getur ekki einu sinni étið hann. En þetta er að mínu skapi. Feginn að ég skyldi komast að þessu milliliðalaust. Svo sár sem hann er er honum engrar undankomu auðið. Sjórinn er of úfinn. Við höfum borið kennsl á bátinn.“

„Ætlarðu virkilega að taka hann höndum einn þíns liðs,“ sagði ritarinn með aðdáun í röddinni.

„Og óvopnaður einnig,“ sagði Frederick Harrison.

„Með engin G fól,“ sagði ritarinn.

„Edgar Hoover miklar heldur fyrir sér lið sitt,“ sagði Frederick Harrison. „Held við höfum látið hann leika nóg lausum hala. Farðu upp að honum,“ sagði hann við Willie kaptein. Willie kapteinn rauf tengslin og bátinn tók að reka.

„Hæ,“ kallaði Willie kapteinn yfir í hinn bátinn. „Haldið höfðum ykkar niðri.“

„Hvað þá?“ sagði Harrison reiðilega.

„Haltu þér saman,“ sagði Willie kapteinn. „Hæ,“ kallaði hann enn yfir í hinn bátinn. „Hlýðið á. Farið inn í bæ og takið það rólega. Látið ykkur bátinn engu skipta. Þeir ætla að taka hann. Hlunkið út farminum og farið inn í bæ. Það er fír hér um borð hjá mér sem á sér einhvers konar hægindi í Washington. Þýðingarmeiri en forsetinn, segir hann. Hann hyggst þjarma að þér. Hann heldur að þú möndlir með sprútt. Hann er með númerið á bátnum. Ég hef aldrei haft nein kynni af þér og hef því ekki hugmynd um hver þú ert. Gæti ekki borið kennsl á þig—“

Bátinn hafði rekið spölkorn frá. Willie kapteinn hrópaði enn: „Hef ekki einu sinni hugmynd um hvar á jarðríki það er sem við höfum rekist hér á þig. Hef ekki hugmynd um hvernig ég ætti að komast hingað á ný.“

„Fínt er,“ heyrðist hrópað frá bátnum.

„Ég verð á veiðum með þennan gilda skammstafanakokk fram í myrkur,“ hrópaði Willie kapteinn.

„Fínt er.“

„Hann elskar fiskveiðar,“ æpti Willie kapteinn svo að rödd hans var nærri brostin. „En hóruunginn fullyrðir að maður geti ekki étið þá.“

„Þakka þér fyrir, bróðir sæll,“ svaraði rödd Harrýs.

„Þessi kapti bróðir þinn?“ spurði Frederick Harrison, orðinn rauður og þrútinn í framan en enn haldinn friðlausri ást á sannleikanum.

„Nei, herra minn,“ sagði Willie kapteinn. „En næstum allir bátasjómenn kalla hver annan bróður sinn.“

„Við förum inn til Key-Vest,“ sagði Frederick Harrison; en lítillar sannfæringar gætti í röddinni.

„Varla, herra minn,“ sagði Willie kapteinn. „Þið herramenn tókuð mig á leigu út daginn. Ég hef í hyggju að sjá svo til að þið fáið peninganna ykkar virði. Þú kallaðir mig hálfvita en ég skal sjá til þess að þú fáir fyllilega dagsleigunnar virði.

„Farðu með okkur til Key-Vest.“ sagði Harrison.

„Já, herra minn,“ sagði Willie kapteinn. „Þegar þar að kemur. En heyrðu mig, hyrnufiskur er ekki síður góður til átu en guðlax. Þegar við höfðum þann háttinn á að selja hann til Ríos með Havana markaðinn fyrir augum fengum við fyrir hann tíu sent á pundið, sama og fyrir guðinn.“

„O, haltu þér saman.“ sagði Frederick Harrison.

„Hélt þú hefði áhuga á svona löguðu sem stjórnsýslumaður. Eruð þið ekki sífellt að kukla við verðið á því sem við étum eða annað slíkt? Eða hvað? Hleypa því upp og slíkt. Hleypa því upp á mjölinu en takið því minna mark á möglinu?“

„O, haltu þér saman,“ sagði Harrison.

 

3. kafli

Um borð í sprúttbátnum lét Harrý síðasta sekkinn fara fyrir borð.

„Réttu mér fiskihnífinn,“ sagði hann við niggarann.

„Hann er horfinn.“

Harrý þrýsti á rafstartrofana og gangsetti báðar vélarnar. Hann hafði bætt við annarri vél þegar hann hóf á ný að smúla brennivíni; þegar kreppan hafði sett leigubátaútgerð á hausinn. Hann tók öxina og hjó á ankerisfestina. Það sekkur til botns og þeir krækja í það þegar þeir slæða upp farminn, hugsaði hann. Ég sigli gnoðinni inn á Garrison vík og hyggist þeir taka hana þá taki þeir hana. Ég verð að komast til læknis. Ég kæri mig ekki um að missa hvorutveggja bátinn og handlegginn. Farmurinn er jafn mikils virði og báturinn. Það fór ekki svo mikið í mél. En aðeins lítið eitt mélað angar býsnin öll.

Hann setti tengslin á bakborðsvélina og sveigði frá fenjaviðnum. Það var farið að falla að. Vélarnar gengu þýðlega. Bátur Willie kapteins var kominn tvær mílur undan með stefnu á Boca Grande. Ætli sé ekki nóg fallið að að komast megi yfir tjarnirnar núna, hugsaði Harrý.

Hann setti tengslin á stjórnborðsmegin og vélarnar rumdu þegar hann jók gjöfina. Hann fann hvernig hún reis að framan og grænn fenjaviðurinn hneigði greinarnar þegar báturinn dró til sín sjóinn frá rótum þeirra. Vona að þeir taki hana ekki, hugsaði hann. Vona að þeir geti snikkað til á mér handlegginn. Hefði aldrei hvarflað að manni að þeir færu að skjóta á okkur í Mariel eftir að vera búnir að koma þangað og fara óáreittir um sex mánaða skeið. Þarna er Kúbönum rétt lýst. Einhver ekki borgað einhverjum og við mátt súpa seyðið. Kúbanaháttur, allt í lagi.

„Heyrðu, Wesley,“ sagði hann og leit aftur til niggarans þar sem hann lá í stýrisskýlinu með ábreiðuna yfir sér. „Hvernig líður?“

„Guð,“ sagði Wesley, „Gæti ekki liðið verr.“

„Þér á eftir að líða verr þegar gamli doktorinn fer að krukka í sárin,“ sagði Harrý við hann.

„Þú ert ekki mannlegur,“ sagði niggarinn. „Þú átt þér engar mannlegar tilfinningar.“

Þessi Willie gamli er besti skarfur, var Harrý að hugsa. Besti skarfur þessi Willie gamli. Hefðum betur farið inn en að vera að bíða. Það var heimskulegt að bíða. Mig sundlaði svo og brast kraftana að ég gat ekki ályktað rétt.

Hann sá núna hvítt Kræklingahótelið fram undan og loftskeytamastrið og húsin í bænum. Hann sá bílferjurnar þar sem þær lágu inni í Trumbo dokkinni, sem hann mundi sigla fram hjá áður en hann tæki stefnuna inn á Garrison vík. Þessi Willie gamli, hugsaði hann. Hann sýndi þeim í tvo heimana. Þætti gaman að vita hvaða gammar þetta eru. Fari það í kolað ef mér líður ekki bölvans býsn illa einmitt núna. Mig sundlar þessi býsn. Það var rétt af okkur að halda inn. Það var rétt af okkur að bíða ekki lengur.

„Herra Harrý,“ sagði niggarinn. „Mér þykir leitt að ég gat ekki hjálpað við að hlunka þessum leka út.“

„Fari það í kolað,“ sagði Harrý, „gerir engum niggara gott að fá skot í sig. Þú ert ágætis niggari, Wesley.“

Handan við vélaryminn og háværan slátt bátsins við sjávarflötinn heyrði hann holan, framandlegan söng í brjósti sér. Hann var alltaf altekinn þessari líðan þegar hann var að koma heim úr túr. Ég vona að þeir geti snikkað til á mér þennan handlegg, hugsaði hann. Ég á heilmikið ógert með þennan handlegg.

 

 

FYRSTI HLUTI: HARRÝ MORGAN, Vor

1. kafli

2. kafli

3. kafli

4. kafli

5. kafli

 

ANNAR HLUTI: HARRÝ MORGAN, Haust

1. kafli

2. kafli

3. kafli

 

ÞRIÐJI HLUTI: HARRÝ MORGAN, Vetur (1 til 10)

1. kafli - Albert hefur orðið

2. kafli - Harrý

3. kafli

4. kafli

5. kafli

6. kafli

7. kafli

8. kafli

9. kafli

10. kafli

 

ÞRIÐJI HLUTI: HARRÝ MORGAN, Vetur (11 til 18)

11. kafli

12. kafli

13. kafli

14. kafli

15. kafli

16. kafli

17. kafli

18. kafli

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist