< Hafa, ekki hafa

 

FYRSTI HLUTI

 

HARRÝ MORGAN

Vor

 

 

 

1. kafli

Þú veist hvernig það er þarna í Havana snemma á morgnana þegar útigangsræflarnir liggja enn sofandi undir húsveggjum, jafnvel áður en nokkuð er farið að sjást til vagnanna sem keyra út ísinn á krárnar. Hvað um það, við komum sem leið lá yfir torgið frá dokkinni til að fá okkur kaffi á San Fransiskó perlunni og aðeins einn betlari var vaknaður á torginu og var að fá sér að drekka úr lindarbrunninum. En þegar við setjumst inn á skálann þá bíða þessir þrír þeirra þar eftir okkur.

Við settumst og einn þeirra kom yfir.

„Nú, jæja?“ sagði hann.

„Ég get það ekki,“ sagði ég við hann. „Ég hefði ekkert á móti því að gera ykkur greiða. En ég sagði ykkur það í gærkveldi að ég gæti það ekki.“

„Þú setur upp það sem þú vilt.“

„Það er ekki málið. Ég einfaldlega get það ekki.“

Hinir tveir voru komnir yfir og stóðu þarna daprir á svip. Þetta voru snotrustu piltar allt í lagi og ég hefði gjarnan viljað gera þeim þennan greiða.

„Þúsund fyrir manninn,“ sagði sá þeirra sem var lipur í enskunni.

„Ekki ergja mig,“ sagði ég við hann. „Ég segi ykkur satt, ég get það ekki.“

„Seinna, þegar hlutirnir verða ekki þeir sömu og nú, gæti það komið sér vel fyrir þig.“

„Ég veit það. Ég er allur á ykkar bandi. En ég get það ekki.“

„Af hverju ekki?“

„Báturinn er mitt lifibrauð. Missi ég hann hef ég ekkert til að lifa á.“

„Þú getur keypt þér annan bát fyrir peningana.“

„Ekki í steininum.“

Þeir hljóta að hafa haldið að nóg væri að að þrefa dálítið við mig til að ég gæfi mig því þeir hættu ekki.

„Þetta mundu gera þrjú þúsund dali og þig mundi muna um minna síðarmeir. Ástandið á eftir að breytast, eins og þú veist.“

„Heyrið mig,“ sagði ég, „Ég læt mig einu gilda hver er forseti hér. En yfir til Ríkjanna flyt ég ekki neitt sem getur talað.“

„Meinarðu að við mundum kjafta?“ sagði einn þeirra sem hingað til hafði þagað. Hann var hvekktur.

„Ég sagði sem getur talað.“

„Heldurðu að við séum lenguas largas?“

„Nei.“

„Veistu hvað lengua larga er?“

„Já. Tungulangur.“

„Veistu hvernig við meðhöndlum slíka?“

„Ekki þráast þetta,“ sagði ég. „Þið gerðuð mér tilboð. Ég hét ykkur engu.“

„Haltu þér saman, Panchó,“ sagði sá við þann hvekkta sem fyrst hafði haft orð fyrir þeim.

„Hann sagði að við mundum kjafta,“ sagði Panchó.

„Heyrið mig,“ sagði ég. „Ég sagðist ekki mundu flytja neitt sem getur talað. Ekki talar sekkur af brennivíni. Ekki tala tágakútar. Ýmislegt fleira getur ekki talað neitt. En menn geta það.“

„Líka kínverskir?“ sagði Panchó af dáindis dáruskap.

„Þeir geta talað en ekki skil ég neitt sem þeir segja.“ sagði ég við hann.

„Svo þú situr við þinn keip?“

„Ég sagði ykkur það í gærkveldi. Ég get það ekki.“

„En þú kjaftar ekki?“ sagði Panchó.

Einfaldlega skilningsleysi hans hafði hleypt í hann illu blóði. Og ekki síður vonbrigði hans, hugsa ég. Ég virti hann ekki einu sinni svars.

„Þú ert ekki lengua larga, er það?“ spurði hann af sama dáruskapnum.

„Það held ég varla.“

„Hvað áttu við? Hefurðu í hótunum?“

„Heyrðu mig,“ sagði ég við hann. „Vertu ekki með þetta steigurlæti svo snemma dags. Ég efa það ekki að þú hefur skorið þá býsna marga á háls. En ég hef ekki einu sinni fengið að drekka kaffið mitt enn þá.“

„Svo þú heldur að ég skeri fólk á háls?“

„Nei,“ sagði ég. „Og mér er fjandans sama. Geturðu ekki átt í viðskiptum án þess að verða illur við?“

„Mér er illt í skapi núna,“ sagði hann. „Ég gæti drepið þig.“

„Æ, fjárinn hafi það,“ sagði ég við hann. „Talaðu minna.“

„Komdu nú, Panchó,“ sagði sá sem fyrstur hafði tekið til máls. Síðan við mig: „Mér þykir þetta mjög miður. Vildi þú gætir tekið okkur.“

„Mér þykir ekki síður fyrir því. En ég get það ekki.“

Þeir þrír héldu í átt til dyranna og ég fylgdist með þeim fara. Þetta voru ekki ósnotrir ungir fírar, velklæddir; enginn þeirra með hatt og litu út fyrir að eiga firn af seðlum. Það vantaði allavega ekki að þeir töluðu ósköpin öll um peninga og töluðu þesslags ensku sem er ríkra Kúbana háttur.

Tveir þeirra litu helst út fyrir að vera bræður, og sá þriðji, Panchó, var lítið eitt hávaxnari, en samskonar drengur á að líta. Þú veist, grannur, velklæddur, hárið gljáborið. Mér virtist hann ekki svo lítilmótlegur sem ætla mátti af tali hans. En ég sá að hann var ansi óstyrkur á taugum.

Sem þeir sneru til hægri út um dyrnar veitti ég athygli lokuðum bíl sem kom þvert yfir torgið í átt til þeirra. Fyrst fór rúða og kúlan small í uppstilltum flöskunum á barhillunum á veggnum hægra megin. Ég hlýddi á byssuna gelta og bob, bob, bob, flöskur splundruðust eftir endilöngum vegg.

Ég stökk á bak við barborðið vinstra megin og gat fylgst með yfir borðbrúnina. Bíllinn hafði numið staðar og tveir náungar hnipruðu sig á bak við hann. Annar þeirra hélt á Thompson byssu en hinn mundaði sjálfvirkri, framanafsagaðri haglabyssu. Sá með Thompson byssuna var niggari. Hinn var alklæddur hvítum bílstjórabúningi.

Einn drengjanna lá með álútt höfuð útglenntur á gangstéttinni rétt fyrir framan stóra gluggann þar sem rúðan hafði splundrast. Hinir tveir voru fyrir aftan einn af ísvögnunum frá Tropical brugghúsinu sem stóð fyrir framan Cunard krána næstu dyr við. Annar vagnkláranna hékk niður í aktygjunum, sláandi út undan sér, en hinn jós svo að hausinn virtist ætla af honum.

Annar drengjanna hleypti af handan frá afturhorninu á vagninum og skotið sentist upp af stéttinni. Niggarinn með Tommy byssuna lagðist með andlitið næstum ofan í götu og lét vaða neðan undir vagninn aftanverðan og víst er um það að einn féll beint á stéttina með höfuð álútt yfir rennusteininum. Hann hlunkaðist þar niður og setti hendurnar til varnar sér yfir höfuðið, og á meðan niggarinn hlóð að nýju skaut bílstjórinn að honum með haglabyssunni, en af helsti löngu færi. Maður gat séð förin eftir skothöglin á dreif yfir stéttina eins og rignt hefði silfri.

Hinn fírinn dró þann sem hafði orðið fyrir skotinu á fótunum bak við vagninn og ég sá niggarann lúta niður að malbikinu til að gera að þeim aðra hríð. Þá sá ég gamla Panchó koma fyrir vagnhornið og leita skjóls bak við hestinn sem enn stóð uppi. Hann snaraði sér fyrir hestinn, náfölur eins og sjúskuð skyrta, og með stóru Lugerinni sinni, haldandi á henni báðum höndum til að hafa hana í jafnvægi, hæfði hann bílstjórann. Hann skaut tveimur skotum yfir höfuð niggaranum, sem hann nálgaðist hann, og einu skoti neðar.

Hann hæfði dekk á bílnum því ég sá rykstrók þyrlast upp af götunni þar sem loftið streymdi út, og á tíu feta færi skaut niggarinn hann í kviðinn með Tommy byssunni, sem hlýtur að hafa verið síðasta hleðslan í byssunni því ég sá hann henda henni frá sér, og gamli Panchó lyppaðist niður og féll fram fyrir sig. Hann reyndi að rísa upp, enn með tak á Lugerinni, en gat einfaldlega ekki reist höfuðið, og tók þá niggarinn haglabyssuna sem lá við hjólið hjá bílstjóranum og fletti með henni burt vanganum á honum öðrum megin. Einhver niggari.

Ég steypti í mig einum í snarheitum úr fyrstu flöskunni sem ég sá opna og gæti ég þó ekki enn sagt þér hvað það var. Mér leið heldur nöturlega eftir þetta allt saman. Ég lét mig hverfa á bak við barinn og út bakdyramegin gegnum eldhúsið og rakleiðis burtu. Ég leit ekki einu svo mikið sem í átt til mannmergðarinnar sem dreif hratt að fyrir framan veitingaskálann heldur valdi hreina leið með útjaðri torgsins og inn um hliðið og út á bryggjuna og um borð.

Náunginn sem hafði hana á leigu beið um borð. Ég sagði honum frá því sem hafði hent.

„Hvar er Eddi?“ spurði hann mig þessi náungi Johnson sem var með okkur á leigu.

„Ég sá hann aldrei eftir að skothríðin hófst.“

„Heldurðu þeir hafi hæft hann?“

„Nei, fari það í kolað. Það get ég sagt þér að einu skotin sem lentu inni í skálanum fóru í hillurnar á barnum. Það var þegar bíllinn kom aftan að þeim. Þegar þeir skutu þann fyrsta beint fyrir framan gluggann. Þeir komu að undir horni svona eins og þessu—“

„Þú virðist fjári viss í þinni sök,“ sagði hann.

„Ég var vottur að þessu,“ sagði ég við hann.

Þegar ég í sömu svifan lít upp sé ég hvar Eddi kemur niður að dokkinni og slánalegri og hoknari í herðum en nokkru sinni fyrr. Hann lét skankana ganga svo að engu var líkara en liðamótin væru öll úr lagi gengin.

„Þar kemur hann.“

Ásjálegur var hann. Eddi var aldrei sérlega ásjálegur snemma á morgnana, en núna var hann virkilega óásjálegur.

„Hvar hélst þú þig?“

„Á gólfinu.“

„Fylgdistu með?“ spurði Johnson hann.

„Minnstu ekki á það, herra minn,“ svaraði Eddi. „Mér verður óglatt af því einu að hugsa til þess.“

„Þér veitti ekki af drykk,“ sagði Johnson og beindi síðan orðum sínum til mín. „Gott og vel, eigum við að halda?“

„Undir þér komið.“

„Hvað ber dagurinn í skauti sér?“

„Ætli ekki sama og í gær. Gæti jafnvel orðið betri.“

„Þá höldum við.“

„Allt í lagi, um leið og við fáum beituna.“

Við vorum búnir að vera með þennan fugl úti í þrjár vikur á veiðum í röstinni og enn hafði ég ekki séð sent að frátöldum hundrað dölum sem hann hafði fengið mér til að gera upp við konsúlinn og greiða hafnargjöldin og taka einhvern kost og fá olíu á gnoðina áður en við lögðum í hann yfir. Ég lét í té öll veiðarfæri og hann leigði hana á þrjátíu og fimm dali daginn. Á næturnar hélt hann til á hóteli og mætti um borð hvern morgun. Eddi varð mér úti um samninginn svo að ég varð að taka hann með. Ég réði hann upp á fjóra dali á dag.

„Ég verð að setja á hana bensín.“sagði ég við Johnson.

„Þó nú væri.“

„Það kostar sitt.“

„Hve mikið?“

„Gallonið gerir tuttugu og átta sent. Ætli ég þurfi ekki alltaf fjörtíu gallon. Það gera ellefu og tuttugu.“

Hann rétti mér fimmtán dali.

„Viltu láta afganginn fara upp í ölið og ísinn?“

„Prýðilegt,“ sagði hann. „Dregur það bara frá því sem ég skulda þér.“

Mér fundust þrjár vikur helsti langur tími ef ég átti að láta hann ganga úr greipum mér, en hverju máli skipti það ef honum var treystandi? Samt sem áður hefði hann átt að borga vikulega. En ég hef verið með þá úti í mánuð og fengið greitt. Ég hafði við mig einan að sakast en mér leist vel á þetta fyrst til að byrja með. Það var aðeins rétt upp á síðkastið sem hann var farinn að vekja með mér ugg en ég vildi ekki hafa orð á neinu af ótta við að fá hann upp á móti mér. Ef hann var til að reiða sig á, þá því betra sem hann yrði lengur.

„Flösku af bjór?“ spurði hann mig og opnaði kassa.

„Nei takk.“

Í sama mund kom þessi niggari sem sá okkur fyrir beitu út á bryggjuna og ég sagði Edda að vera klárum að sleppa.

Niggarinn kom um borð með beituna og við slepptum og héldum úr höfn en niggarinn fór að krækja nokkrum makrílum á; þræddi krókinn gegnum skoltinn á þeim og út um tálknin svo að risti út með síðunni og svo gegnum og út hinum megin, og reyrði skoltann saman um vírleiðarann og eins reyrði hann krókinn að hann ekki smokraðist af og beitan mundi dorgast liðugt án þess að taka að spinna.

Hann var ósvikinn svartur niggari, harður nagli, þungbrýnn og með blátt vúdú-perluband um hálsinn niður undir treyjunni og með gamlan stráhatt. Það sem átti við hann þarna um borð var að sofa og lesa blöðin. En hann var fyrirtaks beitningamaður og snöggur.

„Geturðu ekki beitt, kapteinn, eins og hann?“ spurði Johnson mig.

„Get það, herra minn.“

„Hvað ertu þá að gera með niggara til þess?“

„Þegar sá stóri hleypur á snærið muntu skilja,“ svaraði ég.

„Hvað áttu við?“

„Niggarinn er sneggri að því en ég.“

„Getur þá ekki Eddi gert það?“

„Nei, herra minn.“

„Þetta eru mér útgjöld að þarflausu, sýnist mér.“ Hann hafði látið niggarann hafa dal á dag og niggarinn hafði verið á rúmbu hvert einasta kvöld. Ég sá að nú þegar var komin yfir hann höfgi.

„Við þurfum hans með,“ sagði ég.

Þegar hér var komið höfðum við farið fram hjá fiskigildruskútunum sem lágu fyrir föstu fram undan Cabañas og hjá bátunum sem þeir veiða á kjötfiskinn einnig fyrir föstu á harða botninum hjá Morró og ég stefndi gnoðinni í átt út á flóann þar sem hann hvelfdist að dimmri hafsbrún. Eddi kom út með stóru tálfiskana tvo og niggarinn var búinn að beita á þrjár stangir.

Röstin var nánast í tveimur farvegum og sem við nálguðumst jaðarinn gat maður séð hvernig hún féll fram næstum purpuralit með reglubundnum iðusvelgjum. Hann var farinn að kula aðeins af austri og við fengum um borð til okkar feiknin öll af flugfiski, þessa stóru með svörtu vængina sem taka sig út eins og myndin af Lindberg á flugi yfir Atlantshafið þegar þeir hefjast á loft.

Þessir stóru flugfiskar eru besta vísbendingin sem þarna er völ á. Svo langt sem augað eygði gat að líta smá flekki af þessu visna flóaþangi sem þýðir að meginröstin sé uppi og fram undan fuglar að athafna sig yfir torfu af smáum túnfiski. Maður gat séð þá stökkva; en þetta voru aðeins tittir, nokkur pund hver. „Láttu það fara hvenær sem þú vilt.“ sagði ég við Johnson.

Hann setti á sig beltið og ólarnar og slakaði út af stóru stönginni með Hardy hjólinu og sex hundruð jördum af þrjátíuogsex línu. Ég leit aftur undan og sá að beitan dorgaðist vel, svona skvampandi á eftir í kjölfarssvelgnum, og tálfiskarnir tveir tóku dýfur og fóru í loftköstum. Við vorum rétt um það bil á mátulegum hraða og ég stefndi henni inn í röstina.

„Haltu stangarhaldinu í hólknum á stólnum,“ áminnti ég hann. „Hún tekur þá ekki eins í stöngin. Taktu bremsuna af svo þú getir gefið út þegar hann bítur á. Ef hann tekur og þú ert með bremsuna á kippir hann þér útbyrðis.“

Hvern dag mátti ég endurtaka við hann sömu hlutina, en ég kippti mér svo sem ekki upp við það. Einn af hverjum fimmtíu lagsmönnum manns kann að fiska. Og þegar þeir kunna það eru þeir hálfa túrana eintóm flónskan og vilja nota línu sem er ekki nógu sterk til að halda neinu stóru.

„Hvernig lítur út með daginn?“ spurði hann mig.

„Gæti ekki litið betur út,“ sagði ég. Þetta var svo sem ágætis dagur allt í lagi.

Ég lét niggarann taka stýrið og sagði honum að halda henni austur á bóg með straumjaðrinum og fór aftur á þar sem Johnson sat og fylgdist með beitunni skvampandi í eftirdragi.

„Viltu að ég setji út aðra stöng?“ spurði ég hann.

„Nei, ég held ekki.“ sagði hann. „Ég vil setja í, berjast við og landa mínum fiski sjálfur.“

„Ágætt,“ sagði ég. „Viltu að Eddi setji hana út og rétti þér hana komi einn í námundan svo þú getir sett í hann?“

„Nei,“ sagði hann. „Ég kýs að hafa aðeins eina stöng úti.“

„Allt í lagi.“

Niggarinn stýrði henni enn úthallt og ég leit þangað og sá að hann hafði séð flekk af flugfiski hefja sig fram undan og aðeins upp í strauminn. Ég leit aftur undan og þarna sá maður hvar sólin merlaði svo fallega Havana og í sömu svifan skip sem var rétt að skríða út úr höfninni undan Morró.

„Ég held þú fáir færi á einum að berjast við í dag, herra Johnson,“ sagði ég við hann.

„Kominn tími til,“ sagði hann. „Hvað erum við búnir að vera lengi í túrnum?“

„Þrjár vikur liðnar í dag.“

„Það er langur tími að eltast við fisk.“

„Þetta er skondinn fiskur,“ sagði ég við hann. „Hann lætur ekki sjá sig fyrr en hann kemur. En þegar hann kemur þá er líka býsn nóg af honum. Og hann hefur alltaf komið. Komi hann ekki nú kemur hann aldrei framar. Tunglið stendur rétt af sér. Straumfallið er gott og hann ætlar að kula sæmilega.“

„Það voru nokkrir smáir þegar við komum út fyrst.“

„Já,“ sagði ég. „Sem ég sagði þér. Smáfiskinum fækkar og hann lætur undan síga þegar sá stóri kemur.“

„Þið kapteinarnir á lagsmannabátunum haldið alltaf sama strikinu. Annað hvort er of snemmt eða síðbúið eða vindurinn ekki réttur eða tunglið stendur illa af sér. En í sama stað kemur niður, peningana viljiði fá.“

„Svo er nú það,“ sagði ég við hann, „fjandans málið er einmitt það að yfirleitt er of snemmt eða síðbúið og æðioft er ekki réttur vindur. Þegar þú síðan færð almennilegan dag ertu í landi víðsfjarri lagsmanni þínum.“

„En þú heldur að dagurinn í dag verði góður?“

„Það er nú svo,“ sagði ég við hann, „að sjálfur hef ég fengið að reyna nóg í dag. En ég skal hengja mig upp á að þú átt eftir að fá að reyna ósköpin öll.“

„Það ætla ég að vona,“ sagði hann.

Við einbeindum okkur að dorginu. Eddi fór og lagðist fram á. Ég stóð og skyggndist eftir sporði. Alltaf annað slagið tók niggarinn að dotta og ég fylgdist ekki síður með honum. Mætti segja mér að hann hafi verið eilítið út á lífinu.

„Væri þér sama þó þú réttir mér flösku af bjór, kapteinn?“ spurði Johnson mig.

„Sjálfsagt, herra minn,“ sagði ég og gróf í ísinn eftir einni kaldri handa honum.

„Viltu ekki einn?“ spurði hann.

„Nei takk, herra minn,“ sagði ég. „Bíð heldur með það þangað til í kvöld.“

Ég opnaði flöskuna og var að rétta honum hana þegar ég sé þennan móleita slána með spjót lengra en armur manns brjótast með haus og makka upp úr vatnsskorpunni og glefsa í makrílinn. Hann virtist meiri um sig en sagviðarbolur.

„Slakaðu honum til hans!“ æpti ég.

„Hann er ekki búinn að taka,“ sagði Johnson.

„Haltu þá.“

Hann hafði komið djúpt neðan að og misst hans. Ég vissi að hann mundi snúa við og koma eftir honum aftur.

„Vertu viðbúinn að gefa eftir um leið og hann læsir um hann skoltinum.“

Þá sá ég hann koma niður undir vatnsskorpunni. Maður gat séð útglennta kviðuggana á honum eins og purpuravængi og purpurarendurnar á móleitum skrokknum. Hann fór um eins og kafbátur og bakugginn kom upp úr og maður gat séð hvernig ugginn risti vatnsskorpuna. Þá kom hann rétt aftan að beitunni og spjótið kom nú einnig úr kafi, eins og vaggandi, laust við sjóinn.

„Láttu beituna fara inn í skoltann á honum,“ sagði ég. Johnson tók höndina af kasthjólinu og það tók að hvína í því og gamla melspíran sneri frá og niður og ég hafði hana fyrir augunum silfurgljáandi í allri sinni dýrð sem hún sneri fram með skipshliðinni og stefndi hratt frá í átt að ströndinni.

„Haltu lítið eitt við með bremsunni.“ sagði ég. „Ekki mikið.“

Hann herti aðeins á bremsunni.

„Ekki of mikið,“ sagði ég. Ég sá að stríkkaði á línunni. „Festu hana nú snöggt og láttu hann finna fyrir því,“ sagði ég. „Þú verður að láta hann finna fyrir því. Hann mun allt að einu stökkva.“

Johnson herti á bremsunni og tók aftur á stönginni.

„Láttu hann finna fyrir því!“ sagði ég við hann. „Rektu það í hann. Láttu hann finna það fjórum, fimm, sex sinnum.“

Hann lét hann enn hafa það og vel útilátið nokkrum sinnum og þá kengbognaði stöngin og tók að ýlfra í hjólinu og upp úr kom hann, búm, í löngu, bugðulausu stökki, silfurgljáandi í sólinni og kom niður með boðaföllum líkt og hesti hefði verið att fram af björgum.

„Slakaðu á bremsunni.“ sagði ég við hann.

„Hann er farinn,“ sagði Johnson.

„Fjárinn hafi það,“ sagði ég við hann. „Slakaðu á bremsunni, snöggur.“

Ég gat séð bogann sem línan myndaði og næst þegar hann stökk var hann kominn aftur fyrir og stefndi á haf út. Svo kom hann upp úr aftur og small í sjónum svo að hvítfreyddi og ég sá að hann var kræktur í kjaftvikinu. Rendurnar sáust greinilega á honum. Þetta var góður fiskur, núna silfurgljáandi með purpuraröndum og svo mikill um sig sem viðarbolur.

„Hann er farinn,“ sagði Johnson. Línan var slök.

„Dragðu inn,“ sagði ég. „Hann er vel á. Beint áfram og á útopnu!“ öskraði ég til niggarans.

Þá kom hann upp einu sinni, tvisvar, stinnur eins og stólpi og stökk eins og hann var langur til beint í átt til okkar og með boðaföllum hverju sinni sem hann lenti. Það stríkkaði á línunni og ég sá að hann hafði enn tekið stefnuna upp að landi og svo sá ég að hann venti.

„Núna ætlar hann á skeiðið sitt,“ sagði ég. „Taki hann með krókinn elti ég hann. Hafðu bremsuna lina. Nóg er af línunni.“

Gamla melspíran stefndi út til nor-vest eins þær gera allar þessar stóru og, bróðir sæll, tók hún með krókinn! Hún fór að stökkva í þessum löngu bugum og við hverja skvolpu risu sjóirnir eins og eftir hraðbát fleytandi kellingar. Við fylgdum henni eftir, á fjórðungi línu þegar við höfðum tekið snúninginn. Ég var kominn á stýrið og kallaði látlaust til Johnsons að hafa bremsuna lina og vera snöggur á hjólinu. Þá allt í einu sé ég að kemur hnykkur á stöngina og línan verður slök. Hún virðist ekki slök nema maður viti af því, því að þungi hennar í sjónum tekur í. En ég vissi.

„Hann er farinn,“ sagði ég við hann. Fiskurinn var enn stökkvandi og hann hélt því áfram á meðan hann var að hverfa okkur sjónum. Góður fiskur, allt í lagi.

„Ég finn ekki betur en að hann taki enn í,“ sagði Johnson.

„Það gerir þungi línunnar.“

„Ég get varla halað inn. Kannski hann sé dauður.“

„Líttu á hann,“ sagði ég. „Hann er enn að stökkva.“ Maður gat séð til hans hálfa mílu þarna úti, enn reisandi sjóina.

Ég tók á bremsunni hjá honum. Hún var þéttingsföst. Maður gat ekki hnikað línunni þumlung. Eitthvað hlaut að bresta.

„Var ég ekki búinn að segja þér að hafa bremsuna lina?“

„En hann tók stöðugt út línu.“

„Hvað með það?“

„Hvað gat ég annað gert en herða að.“

„Heyrðu mig nú,“ sagði ég við hann. „Ef þú gefur ekki eftir línu þegar þeir taka krókinn á þennan hátt þá slíta þeir. Engin lína heldur þeim. Þegar þeir vilja í þennan haminn þá verðurðu að gefa þeim eftir. Verður að hafa bremsuna lina. Fiskimennirnir sem veiða fyrir markaðinn geta ekki einu sinni haldið aftur af þeim með hvalavað þegar þeir gera þetta. Það eina sem er til ráða þegar þeir fara á skeiðið sitt er að elta þá á bátnum svo þeir taki ekki út á enda. Þegar þeir hafa lokið skeiðinu leita þeir botns og þú getur hert á bremsunni og halað inn.“

„Svo ef ekki hefði slitnað þá hefði ég náð honum?“

„Hefðir átt möguleika.“

„Hann hefði ekki haldið þetta út, er það?“

„Hann getur svo ótal margt annað. Það er ekki fyrr en eftir skeiðið sem bardaginn hefst.“

„Gott og vel, setjum í annan,“ sagði hann.

„Þú verður fyrst að hala inn þessa línu,“ sagði ég við hann.

Við höfðum sett í þennan fisk og misst hans án þess að Eddi rumskaði. Núna kom gamli Eddi aftur á.

„Hvað er um að vera?“

Eddi var prýðismaður á bát hér í eina tíð, áður en hann varð bytta, en það er ekki neitt lið í honum núorðið. Ég virti hann fyrir mér þarna sem hann stóð hávaxinn og kinnfiskasoginn með linjulegan kjammann og þessar grámyglulegu stírur í augum og hárið allt bliknað af sólinni. Ég vissi að hann var að deyja af löngun í drykk.

„Ætli þér muni veita af einum bjór,“ sagði ég við hann. Hann fékk sér einn úr kassanum og slokaði honum í sig.

„Jæja, herra Johnson,“ sagði hann, „ætli sé ekki best ég dormi aðeins áfram. Kærar þakkir fyrir bjórinn, herra minn.“ Einhver Eddi. Fiskurinn skipti hann engu máli.

Nú, við settum í einn um hádegisbilið og hann svippaði sér af. Maður gat séð krókinn ganga þrjátíu fet upp í loftið þegar hann spýtti honum.

„Hvað gerði ég rangt núna?“ spurði Johnson.

„Ekki neitt,“ sagði ég. „Hann bara spýtti honum.“

„Herra Johnson,“ sagði Eddi sem hafði vaknað til að fá sér annan bjór. „Herra Johnson, heppnin er bara ekki með þér. Þú ert þá kannski því heppnari í ástum, herra Johnson, hvernig litist þér á að við færum út í kvöld?“ Og hann fór til baka og lagðist aftur útaf.

Um fjögurleytið þegar við erum á bakaleið fast undan ströndinni að berja á móti straumnum, stríðum eins og í bunustokki að vatnshverfli, og við með sólina í bakið, þá bítur á agnið hjá Johnson sú alstærsta svarta melspíra sem ég hef nokkru sinni séð. Við höfðum rennt fjaðrakrabba og náð okkur í fjóra af þessum túnfisktittum og niggarinn beitti einum á krókinn. Hann var nokkuð þungur að dorga með en skvampaði þetta líka fína í kjölfarinu.

Johnson tók ólarnar af kasthjólinu svo hann gæti sett stöngina milli hnjánna því það þreytti handleggina að halda henni stöðugt uppi. Og af því að það þreytti hendurnar að halda við kasthjólið þegar þessi stóra beita tók svona í, þá herti hann á bremsunni þegar ég sá ekki til. Mig óraði ekki fyrir því að hann hefði gert það. Mér féll illa að sjá hann halda svona á stönginni en þótti orðið skolli hvimleitt að vera sífellt að agnúast við hann. En með bremsuna af mundi fara út lína svo að ekki stafaði nein hætta af. Allt að einu var þetta slök veiðimennska.

Ég var við stýrið og hélt henni með straumjaðrinum á móts við gömlu sementsverksmiðjuna, þarna þar sem dýpkar svo fast undan ströndinni og gerir eins konar iðusog þar sem er alltaf mikið af æti. Þá sé ég strók eins og eftir djúpsprengju og sverðið, og augun, og opinn neðri skoltann og mikilúðlegan purpurasvartan hausinn á kolsvartri melspíru. Bakugginn var allur upp úr og svo hár tilsýndar sem skip undir fullum seglum, og öll sporðsigðin var upp úr þegar hún skellti sér á þennan túnfisk. Trjónan var jafn mikil um sig og knatttré og hallaði upp, og þegar melspíran hrifsaði til sín beituna klauf hún hafið svo að gáttir þess opnuðust. Hún var alveg purpurasvört og með augu á stærð við súpuskálar. Hún var mikilfengleg. Ég þori að hengja mig upp á að hún hefði staðið þúsund pund.

Ég æpti til Johnsons að gefa út til hennar línu, en áður en ég kom upp orði meir sé ég Johnson rísa í loft upp af stólnum eins og hífður í gilsinum, og hann með þessa stöng í höndunum eitt andartak og stöngin í keng eins og spenntur bogi, og þá hæfir stangarhaldið hann í kviðinn, og veiðitólin öll eins og þau leggja sig farin fyrir borð með það sama.

Hann hafði hert þétt að bremsunni og þegar fiskurinn hreif til sín agnið tók svo í Johnson að hann reis beinustu leið upp af stólnum og fékk engu haldið. Hann hafði haldið stönginni um þvera kjöltu sér, með stangarhaldið skorðað undir læri. Hefði hann ekki haft ólarnar á sér hefði hann farið á eftir sömu leið.

Ég sló út vélinni og fór aftur á. Þarna sat hann með hendur um kvið sér þar sem stangarhaldið hafði hæft hann..

„Geri ráð fyrir að þetta nægi í dag,“ sagði ég.

„Hvað var þetta?“ sagði hann við mig.

„Svört melspíra,“ sagði ég.

„Hvernig gerðist þetta?“

„Þú reikna það út?“ sagði ég. „Hjólið kostaði tvö hundruð og fimmtíu dali. Það kostar meira núna. Stöngin kostaði mig fjörtíu og fimm. Auk þess litlu undir sex hundruð jördum af þrjátíuogsex línu.“

Rétt í þann mund slær Eddi á axlir honum. „Herra Johnson,“ segir hann, „heppnin er bara ekki með þér. Veistu, ég hef aldrei á ævinni séð annað eins.“

„Haltu kjafti, byttan þín,“ sagði ég við hann.

„Á ég að segja þér, herra Johnson,“ sagði Eddi, „þetta er sú fágætasta sjón sem ég hef orðið vitni að á allri minni lífsfæddri ævi.“

„Hvað á maður að gera þegar maður setur í svona fisk?“ sagði Johnson.

„Það er nú það sem þú vildir vinna til að fá einn að fást við,“ sagði ég við hann. Ég var sárreiður.

„Þeir eru of stórir,“ sagði Johnson. „Og til hvers, maður mundi einungis taka út fyrir það.

„Heyrðu mig,“ sagði ég. „Fiskur eins og þessi mundi drepa þig.“

„Þeir ná þeim þó.“

„Menn sem vita hvað veiðar eru ná þeim. En haltu ekki að þeir taki ekki út fyrir það.“

„Ég sá mynd af stelpu sem náði einum.“

„Vissulega,“ sagði ég. „Enn á veiðum. Hann kokgleypti og maginn lá úti þegar hann flaut upp dauður. Ég er að tala um dorg þegar þeir eru kræktir í skoltann.“

„Hvað um það,“ sagði Johnson, „þeir eru of stórir. Hafi maður ekki gaman af því, til hvers þá?“

„Vel mælt, herra Johnson,“ sagði Eddi. „Hafi maður ekki gaman af því, til hvers þá? Heyrðu, herra Johnson. Þarna hittirðu naglann á höfuðið. Hafi maður ekki gaman af því — þá til hvers?“

Ég var enn í uppnámi yfir að hafa séð þennan fisk og leið bölvanlega yfir missi veiðarfæranna. Ég hafði ekki geð í mér að hlusta á þá. Ég sagði niggaranum að stefna gnoðinni á Morró. Ég yrti ekki á þá orði og þarna sátu þeir, Eddi í einum stólnum með bjór og Johnson með annan.

„Kapteinn,“ sagði hann við mig að stundarkorni liðnu, „gætirðu blandað fyrir mig einn geimbolta?“

Ég blandaði fyrir hann einn án þess að segja orð, og síðan handa sjálfum mér einn vel sterkan. Ég hugsaði með mér, nú er þessi Johnson búinn að vera á veiðum í fimmtán daga, loks setur hann í fisk sem hver fiskimaður mundi vilja fórna ári til að ná, hann missir hans, glatar þungaveiðibúnaðinum mínum, gerir sjálfan sig að fífli og situr svo þarna hinn ánægðasti með sig, að sumbli með byttu.

Þegar við komum í höfn og niggarinn stóð þarna og beið, sagði ég við Johnson: „Hvað með morgundaginn?“

„Ég held varla,“ sagði hann. „Ég held ég sé búinn að fá nóg af svona veiðiskap.“

„Viltu gera upp við niggarann?“

„Hve mikið skulda ég honum?“

„Einn dal. Þú getur látið hann hafa þjórfé ef þú vilt.“

Svo að Johnson lét niggarann hafa einn dal og tvo kúbanska tuttugu senta peninga.

„Fyrir hvað er þetta?“ spurði niggarinn mig og sýndi peningana.

„Drykkjuaur,“ sagði ég við hann á spænsku. „Þú ert búinn. Hann gefur þér þetta.“

„Ekki koma á morgun?“

„Nei.“

Niggarinn sækir hnykil af seglgarni sem hann notaði til að reyra með beiturnar, setur upp stráhattinn sinn og sólgleraugun og fer án þess að kveðja. Hann var niggari sem lét sig okkur litlu varða.

„Hvenær viltu ganga frá reikningnum, herra Johnson?“ spurði ég hann.

„Ég fer í bankann í fyrramálið,“ sagði Johnson. „Við getum gengið frá honum síðdegis.“

„Veistu hve þetta eru margir dagar?“

„Fimmtán.“

„Nei. Þeir eru sextán með deginum í dag og einn dagur hvora leið sem gerir átján. Síðan er það stöngin, hjólið og línan frá því í dag.“

„Þín er áhættan af veiðarfærunum.“

„Nei, herra minn. Ekki þegar þú glatar þeim á þennan hátt.“

„Ég hef greitt leigu fyrir þau upp á hvern dag. Þín er áhættan.“

„Nei, herra minn,“ sagði ég. „Ef fiskur hefði brotið þau og ónýtt og það væri ekki þér að kenna, þá mundi gegna öðru máli. Þú týndir öllum þessum útbúnaði fyrir hreint kæruleysi.“

„Fiskurinn kippti honum úr höndunum á mér.“

„Vegna þess að þú varst með bremsuna á og hafðir ekki stöngina í hólknum.“

„Þú átt ekki neitt með að vera að krefjast neins fyrir það.“

„Ef þú tækir bíl á leigu og létir hann renna fram af bjargbrún, heldurðu að þú yrðir ekki látinn borga hann?“

„Ekki ef ég væri í honum.“ sagði Johnson.

„Vel mælt, herra Johnson,“ sagði Eddi. „Þú skilur, er það ekki, kapti? Ef hann væri í honum dræpist hann. Svo hann mundi ekki þurfa að borga. Góður þessi.“

Ég lét mig byttuna engu varða. „Þú skuldar mér tvö hundruð nítíu og fimm dali fyrir þessa stöng og hjól og línu,“ sagði ég við Johnson.

„Það er nú ekki rétt,“ sagði hann. „En ef það er þannig sem þú lítur á málið því þá ekki að skipta því sem á milli ber?“

„Ég get ekki endurnýjað búnaðinn fyrir minna en þrjú hundruð og sextíu. Ég kref þig ekki fyrir línuna. Fiskur eins og þessi gæti tekið hana alla án þess að við þig væri að sakast. Ef hér væru einhverjir aðrir en bara bytta mundu þeir segja þér hve veglyndur ég er við þig. Ég veit að þetta virðist mikið fé en hann kostaði mig líka drjúgan skilding búnaðurinn. Maður fer ekki á veiðiskap sem þennan nema nota það besta sem völ er á.“

„Herra Johnson, hann segir að ég sé bytta. Má vera svo sé. En ég skal segja þér, hann hefur á réttu að standa. Hann hefur á réttu að standa og er sanngjarn,“ sagði Eddi við hann.

„Ég kæri mig ekki um að valda neinum vandræðum,“ sagði Johnson að lokum. „Ég borga fyrir þetta, jafnvel þó ég sjái ekki nein rök til þess. Það eru þá átján dagar á þrjátíu og fimm dali og tvö nítíu og fimm að auki.“

„Þú lést mig fá hundrað,“ sagði ég við hann. „Ég læt þig fá lista yfir það sem ég hef lagt út fyrir og dreg frá það sem eftir er af kostinum. Það sem þú keyptir af vistum reiknist til frádráttar.“

„Þetta er sanngjarnt,“ sagði Johnson.

„Heyrðu, herra Johnson,“ sagði Eddi. „Ef þú vissir hvers þeir eru vanir að krefjast af ókunnugum myndirðu vita að þetta er meira en sanngjarnt. Veistu hvað þetta er. Þetta er fáheyrt. Kaptinn meðhöndlar þig eins og þú værir sjálf hans eigin móðir.“

„Ég fer í bankann á morgun og kem niður eftir síðdegis. Síðan tek ég bátinn ekki á morgun heldur hinn.“

„Þú getur verið samferða okkur til baka og sparað þér fargjaldið.“

„Nei,“ sagði hann. „Ég spara tíma með því að fara með bátnum.“

„Þá það,“ sagði ég. „Fá okkur drykk?“

„Fyrirtak,“ sagði Johnson. „Nokkur urgur í brjósti, er það nokkuð?“

„Nei, herra minn,“ sagði ég við hann. Svo að við þrír sátum þarna aftur á og drukkum saman geimbolta.

Daginn eftir var ég að vinna í henni allan morguninn, skipta um olíu niðri í vél og gera eitt og annað. Á hádegi fór ég upp í bæ og fékk mér að snæða á kínkastað þar sem maður fær ágæta máltíð fyrir fjörtíu sent, og keypti síðan fáeina hluti til að taka með heim handa konunni minni og stelpunum okkar þremur. Þú veist, ilmvatn, nokkra blævængi og þrjá svona háa hárkamba. Þegar ég var búinn að því kom ég við á kránni hans Donavans og fékk mér bjór og spjallaði við gamla manninn og gekk síðan til baka niður að San Fransiskó dokkinni með viðkomu í leiðinni á þrem, fjórum stöðum til að fá mér bjór. Ég keypti tvo handa Frankí á Cunard kránni og leið prýðisvel þegar ég kom um borð. Þegar ég kom um borð átti ég aðeins eftir fjörtíu sent. Frankí kom um borð með mér og á meðan við sátum og biðum eftir Johnson fékk ég mér tvo eða þrjá kalda úr ísboxinu með Frankí.

Það hafði ekki sést neitt af Edda alla nóttina eða um daginn en ég vissi að hann mundi birtast fyrr eða síðar, jafnskjótt og hann væri rúinn lánstraustinu. Donovan sagði mér að hann hefði staldrað stundarkorn við þar á kránni hjá sér og þá verið með Johnson og Eddi látið skrifa hjá sér fyrir þá. Við biðum og ég fór að furða mig á því að Johnson skyldi ekki skila sér. Ég hafði beðið þá í dokkinni fyrir skilaboð um að hann skyldi fara um borð og bíða mín þar en þeir sögðust ekki hafa orðið hans neitt varir. Ég gerði ráð fyrir engu að síður að hann hefði verið úti fram eftir og kannski ekki farið á stjá fyrr en um hádegi. Bankarnir voru opnir til hálf fjögur. Við horfðum á vélina fara í loftið og um hálf sex leið mér orðið langt í frá vel og var að verða ansi áhyggjufullur.

Klukkan sex sendi ég Frankí upp á hótelið til að athuga hvort Johnson væri þar. Ég gerði enn ráð fyrir að hann kynni að hafa mælt sér mót við einhvern ellegar hann væri þarna á hótelinu of illa fyrir kallaður til að hafa sig fram úr. Ég hélt áfram að bíða og bíða þangað til orðið var áliðið. En ég var að verða býsna áhyggjufullur því hann skuldaði mér átta hundruð tuttugu og fimm dali.

Frankí var farinn fyrir rúmlega hálfri stundu. Þegar ég sá hann koma gekk hann greitt og hristi höfuðið.

„Hann fara með vélinni,“ sagði hann.

Allt í lagi. Þar hafði ég það. Það var búið að loka hjá konsúlnum. Ég átti fjörtíu sent, og, allt að einu, vélin væri í Miamí um þetta leyti. Ég gat ekki einu sinni sent skeyti. Einhver herra Johnson, allt í lagi. Ég hafði við mig einan að sakast, ég hefði átt að vita betur.

„Nú, jæja,“ sagði ég við Frankí, „því þá ekki að fá okkur einn kaldan, herra Johnson keypti þá.“ Það voru þrjár flöskur af Tropical eftir.

Frankí leið jafn illa og mér. Ég veit ekki hvernig hann fór að því en ekki bar á öðru. Hann bara klappaði mér látlaust á bakið og hristi höfuðið.

Svo þar hafði ég það. Ég var rúinn. Ég var búinn að tapa fimm hundruð og þrjátíu dölum á leigunni og veiðibúnaði sem ég gæti ekki endurnýjað fyrir minna en þrjú hundruð og fimmtíu að auki. Hve mundi hlakka í sumum í þessu liði sem hangir kringum dokkina, hugsaði ég. Örugglega mundu sumir Kínkanna verða hinir hamingjusömustu yfir þessu. Og daginn áður bandaði ég frá mér þrjú þúsund dölum fyrir að koma þremur útlendingum í land á Key-eyrunum. Hvar sem væri, aðeins að ég kæmi þeim úr landi.

Hvað sem því leið, hvað mundi ég gera núna? Ég gat engan farm tekið í hana því að maður verður að hafa pening til að kaupa lekann og þar fyrir utan eru engir peningar í því spili lengur. Plássið er yfirfljótandi af þessu og enginn til að kaupa. En eins gæti ég farið norður og niður eins og að fara heim rúinn og lepja dauðann úr skel í þessu plássi sumarlangt. Þar fyrir utan hef ég fyrir fjölskyldu að sjá. Tollurinn var greiddur þegar við komum inn. Venjulega greiðir maður miðlaranum fyrirfram og hann hleypir manni inn og rukkar gjöldin. Fjárinn sjálfur, ég átti ekki einu sinni fyrir olíu. Fjári hart að horfast í augu við það, en allt í lagi. Einhver herra Johnson.

„Eitthvað verð ég að flytja, Frankí,“ sagði ég. „Ég má til að verða mér úti um einhvern pening.“

„Sjá til,“ sagði Frankí. Hann hangir kringum höfnina og starfar ýmislegt skrýtið og er svona dáindis heyrnarsljór og drekkur of mikið hvert einasta kvöld. En ekki gat traustari og hjartahreinni náunga. Ég hef þekkt hann síðan ég fór fyrst að keyra þetta yfir. Hann hjálpaði mér býsna oft að ferma. Síðan, þegar ég hætti í sprúttinu og sneri mér að lagsmannaútgerð, leggjandist út í þessar sverðfiskaveiðar við Kúbu, sá ég hann oftsinnis á stjákli kringum dokkina og veitingaskálann. Hann kemur manni fyrir sjónir eins og hálfgerður daufdumbur og tjáir sig venjulega með brosi frekar en talandanum, en því veldur líka heyrnardeyfan.

„Flytja hvað sem er?“ spurði Frankí.

„Mátt trúa því,“ sagði ég. „Ég á engra kosta völ núna.“

„Hvað sem er?“

„Mátt trúa því.“

„Sjá til,“ sagði Frankí. „Hvar verðurðu?“

„Ég verð á Perlunni,“ sagði ég við hann. „Ég verð að éta.“

Maður getur fengið ágæta máltíð á Perlunni fyrir tuttugu og fimm sent. Allt á matseðlinum kostar dime nema súpan, og hún er á nikkel. Ég fór þangað og Frankí var samferða mér, og ég fór inn og Frankí hélt áfram. Áður en hann fór tók hann í höndina á mér og hristi hana og klappaði mér aftur á bakið.

„Engu kvíða,“ sagði hann. „Mig Frankí, mikla pólitíkur. Mikla bissness. Mikið drekka. Mikað blankur. En stórvinur. Engu kvíða.“

„Sjáumst, Frankí,“ sagði ég. „Kvíð þú heldur engu drengur.“

 

2. kafli

Ég fór inn á Perluna og fékk mér sæti við borð. Þeir höfðu látið setja nýja rúðu í gluggann fyrir þá sem sem hafði verið skotin úr og barhillurnar höfðu verið lagfærðar. Fjöldi gallegoa var á barnum að drekka, og nokkrir að snæða. Þeir voru strax farnir að spila dómínó á einu borðinu. Ég fékk mér svarta baunasúpu og nautagúllas með soðnum kartöflum fyrir fimmtán sent. Með flösku af Hatuey bjór kostaði það kvartdal. Þegar ég minntist á skotárásina við þjóninn vildi hann ekki neitt um það tala. Þeir voru allir býsna óttaslegnir.

Ég lauk við að borða og hallaði mér aftur og reykti sígarettu, að farast úr áhyggjum. Þá sé ég Frankí þar sem hann kemur inn um dyrnar með einhvern í fylgd með sér. Gult ranimosk, hugsaði ég með mér. Svo það er gult ranimosk.

„Þetta er herra Síng,“ sagði Frankí og brosti. Hann hafði verið dáindis snöggur og var sér þess vel meðvitandi.

„Komið þér sælir,“ sagði herra Síng.

Herra Síng var eitt það alfélegasta sem ég hef nokkru sinni augum litið. Hann var Kínki og allt í lagi með það en hann talaði eins og Englendingur og var í hvítu dressi og í silkiskyrtu og með svart bindi og einn svona hundraðtuttuguogfimm dala Panamahatt.

„Viltu kaffisopa?“ spurði hann mig.

„Ef þú vilt.“

„Þakka þér fyrir,“ sagði herra Síng. „Við erum alveg einir hér?“

„Nema að frátöldum öllum hér inni,“ sagði ég við hann.

„Það er í lagi,“ sagði herra Síng. „Þú ert með bát?“

„Þrjátíu og átta feta,“ sagði ég. „Hundrað hestafla Kermath.“

„Aha,“ sagði herra Síng. „Ég hafði gert mér í hugarlund dálítið stærra.“

„Það er hægt að setja í hann tvö hundruð sextíu og fimm kassa án þess að ofhlaða.“

„Værirðu til í að leigja mér hann?“

„Með hvaða skilmálum?“

„Þú þarft ekki að fara. Ég útvega skipstjóra og áhöfn.

„Nei, sagði ég. „Hvert sem henni er haldið fer ég með.“

„Ég skil,“ sagði herra Síng. „Væri þér sama þótt þú létir okkur eina?“sagði hann við Frankí. Frankí var áhugasemin uppmáluð og brosti til hans.

„Hann er heyrnarsljór,“ sagði ég. „Hann skilur lítið í ensku.“

„Ég skil,“ sagði herra Síng. „Þú talar spænsku. Segðu honum að hitta okkur aftur síðar.“

Ég gaf Frankí bendingu. Hann stóð upp og fór að barnum.

„Þú talar ekki spænsku?“ sagði ég.

„O, nei, sagði herra Síng. „Nú, hvaða atvik liggja til þess að þú — að þú ert að íhuga...“

„Ég er rúinn.“

„Ég skil, “ sagði herra Síng. „Hvíla einhver gjöld á bátnum? Væri hægt að kyrrsetja hann?“

„Nei.“

„Einmitt það,“ sagði herra Síng. „Yfir hve marga af mínum ógæfusömu löndum má skjóta skjólshúsi í bát þínum?“

„Þú átt við að flytja þá?“

„Einmitt.“

„Hve langt?“

„Dagsferð.“

„Ég veit ekki,“ sagði ég. „Það má koma í hana tylft ef þeir hafa engan farangur.“

„Þeir mundu engan farangur hafa.“

„Hvert viltu láta flytja þá?“

„Ég mundi láta þig um það.“ sagði herra Síng.

„Þú átt við hvar ég mundi setja þá á land?“

„Þú tækir þá um borð með Tortugas fyrir ákvörðunarstað, þar sem skonnorta ætti að taka við þeim.“

„Heyrðu mig,“ sagði ég. „Það er viti á Tortugas, á Þöngulhöfða-Key, sem sendir radíómerki á báða vegu.“

„Einmitt,“ sagði herra Síng. „Það mundi vissulega vera hin mesta flónska að setja þá þar á land.“

„Svo hvað þá?“

„Ég sagði að þú tækir þá um borð með þennan stað í huga. Þangað mundi ferð þeirra heitið.“

„Já,“ sagði ég.

„Þú mundir á hinn bóginn setja þá á land þar sem þér segði svo hugur að réttast væri.“

„Mun skonnortan koma til Tortugas að taka þá?“

„Að sjálfsögðu ekki,“ sagði herra Síng. „En sú flónska.“

„Á hvað virðirðu þá, á nef?“

„Fimmtíu dali,“ sagði herra Síng.

„Nei.“

„Hvað segirðu um sjötiu og fimm?“

„Hvað færð þú á nef?“

„O, það er málinu óviðkomandi. Þú skilur, það eru á því ótal fletir, eða horn skyldi maður kalla, áður en því svo vindur fram að maður geti gefið út brottfararmiðana. Því er heldur ekki lokið þar með.“

„Nei,“ sagði ég. „Og það sem er ætlast til af mér er þá varla endurgjaldsins virði, eða hvað?“

„Ég skil fullkomlega hvað þú átt við,“ sagði herra Síng. „Ættum við að segja hundrað dali á stykkið?“

„Heyrðu mig,“ sagði ég. „Veistu hvað ég fengi að sitja lengi inni ef þeir gripu mig?“

„Tíu ár,“ sagði herra Síng. „Minnsta kosti tíu ár. En ekki er nein ástæða til að fara í fangelsi, kapteinn minn kæri. Áhætta þín ein er að taka við farþegum þínum. Að því slepptu hefur þú allt að eigin geðþótta.“

„Og fáirðu þá aftur í þínar hendur?“

„Ofur einfalt mál. Ég mundi benda þeim á að þú værir sekur um svik við mig. Síðan endurgreiða þeim að hluta og koma þeim í annað skip. Þeir gera sér að sjálfsögðu grein fyrir að þetta er ekki nein skemmtiferð.“

„Hvað um mig?“

„Ég geri ráð fyrir að ég mundi koma orðsendingu á framfæri við konsúlatið.“

„Ég skil.“

„Tólf hundruð dalir, kapteinn, eru varla þess virði að slá hendi á móti eins og nú standa sakir.“

„Hvenær fengi ég peningana?“

„Tvö hundruð þegar þú samþykkir og þúsund þegar þú tekur þá um borð.“

„Segjum sem svo að ég sigldi á brott með þessi tvö hundruð?“

„Ég gæti að sjálfsögðu ekkert gert,“ sagði hann og brosti. „En ég veit að þú mundir ekki gera neitt slíkt, kapteinn.“

„Ertu með þessi tvö hundruð á þér?“

„Að sjálfsögðu.“

„Réttu mér þau undir borðið.“ Hann gerði það.

„Allt í lagi,“ sagði ég. „Ég fæ hana afgreidda í fyrramálið og legg í hann þegar dimmir. Nú, hvar tökum við þá?“

„Hvernig væri Bacuranao?“

„Allt í lagi. Ertu búinn að koma því í kring?“

„Að sjálfsögðu.“

„Nú, í sambandi við að taka þá um borð,“ sagði ég. „Þú hefur uppi tvö ljós á staðnum, annað yfir hinu. Ég kem inn þegar ég sé þau. Þú kemur út á bát og lætur þá yfir til mín úr bátnum. Þú kemur sjálfur með og afhendir féð. Ég tek ekki einn einasta um borð fyrr en ég hef fengið það.“

„Nei,“ sagði hann; „helminginn þegar þú byrjar að taka þá um borð og hitt þegar þú ert búinn.“

„Allt í lagi,“ sagði ég. „Það er sanngjarnt.“

„Fer þá nokkuð milli mála?“

„Geri ekki ráð fyrir því,“ sagði ég. „Engan farangur og engin vopn. Engar byssur, hnífa eða rakblöð; ekki neitt slíkt. Ég verð að vita það fyrir víst.“

„Kapteinn,“ sagði herra Síng, „berðu ekkert traust til mín? Sérðu ekki að hagsmunir okkar fara saman?“

„Þú hefur það tryggt?“

„Vinsamlega gera mér ekki erfitt fyrir,“ sagði hann. „Sérð þú ekki hve hagsmunir okkar fara saman?“

„Allt í lagi,“ sagði ég við hann. „Um hvaða leyti verðurðu þarna?“

„Undir miðnætti.“

„Allt í lagi,“ sagði ég. „Geri ráð fyrir að málið sé útrætt.“

„Hvernig viltu fá peningana?“

„Allt í lagi að fá þá í hundrað.“

Hann stóð upp og ég horfði á hann fara út. Frankí brosti til hans þegar hann fór hjá. Herra Síng leit ekki á hann. Hann var allra félegasti Kínki allt í lagi. Einhver Kínki.

Frankí kom yfir að borðinu. „Jæja?,“ sagði hann.

„Hvernig þekkirðu herra Síng?“

„Hann skipa út Kínverja,“ sagði Frankí. „Mikil bissness.“

„Hve lengi hefurðu þekkt hann?“

„Hann vera hér um tvö ár,“ sagði Frankí. „Annar skipa þeim út undan honum. Einhver drepa hann.“

„Einhver drepur líka herra Síng.“

„Trúa því,“ sagði Frankí. „Því ekki? Heilmikil bissness.“

„Einhver bissness,“ sagði ég.

„Mikil bissness,“ sagði Frankí. „Skipakínverja aldrei koma aftur. Aðra Kínverja skrifa bréf segja allt í fína.“

„Undursamlegt,“ sagði ég.

„Svona Kínverja ekki skilja skrifað. Kínverja sem skrifa allt ríkir. Ekki neitt éta. Bara grjón. Hundrað þúsund Kínverja hér. Kínverjakonur bara þrjár.“

„Af hverju?“

„Ekki stjórnin leyfa.“

„Fjárans vandræði,“ sagði ég.

„Þú eiga bissness með hann?“

„Má vera.“

„Góð bissness,“ sagði Frankí. „Betra en pólitíkur. Mikla peningar. Heilmikla bissness.“

„Fáðu þér bjór,“ sagði ég við hann.

„Þú ekki kvíða meir?“

„Nei, fjárinn hafi það,“ sagði ég. „Heilmikla bissness. Ég stend í stórri þakkarskuld við þig.“

„Gott,“ sagði Frankí og klappaði mér á bakið. „Mig meira glaður en ekki neitt. Vil ekki neitt nema þú glaður. Kínverja góð bissness, satt?“

„Undursamleg.“

„Gera mig glaðan,“ sagði Frankí. Ég sá að hann var að því kominn að beygja af, svo himinlifandi var hann yfir því að allt skyldi vera í lagi, svo að ég gaf honum klapp á bakið. Einhverjum Frankí.

Fyrsta sem ég gerði um morguninn var að hitta miðlarann og bað ég hann að afgreiða okkur. Hann vildi fá áhafnarlistann og ég sagði honum að það væri enginn.

„Ætlarðu einsamall yfir, kapteinn?“

„Einmitt.“

„Hvað er orðið af félaga þínum?“

„Dottinn í það,“ sagði ég honum.

„Það er mikið hættuspil að fara einsamall.“

„Þetta eru aðeins nítíu mílur,“ sagði ég. „Finnst þér líklegt að einhverju myndi breyta að hafa byttu um borð?“

Ég keyrði hana yfir að Standard olíubryggjunni hinum megin í höfninni og fyllti á báða tanka. Hún tók nærri tvö hundruð gallon full. Mér þótti það bölvað að kaupa gallonið á tuttugu og átta sent en ég vissi ekki hvert leiðir okkar kynnu að liggja.

Allt frá því ég hafði hitt Kínkann og fengið peningana hafði ég verið kvíðinn yfir þessum viðskiptum. Ég held ekki ég hafi sofið neitt alla nóttina. Ég tók hana aftur yfir í San Fransiskó dokkina, og þar á bryggjunni bíður mín Eddi.

„Hæ, Harrý,“ sagði hann og veifaði til mín. Ég kastaði upp til hans afturbandinu og hann setti fast og kom síðan um borð, slánalegri, voteygðari og drukknari en nokkru sinni fyrr. Ég sagði ekki við hann eitt aukatekið orð.

„Hvað finnst þér um þennan náunga Johnson, Harrý, að láta sig gufa svona upp?“ spurði hann mig. „Veistu eitthvað um hvernig í þessu liggur?“

„Snáfaðu burt,“ sagði ég við hann. „Kæri mig ekki um neitt nöðrukyns hér.“

„Bróðir sæll, heldurðu mér líði ekki jafn illa yfir þessu og þér?“

„Komdu þér burt frá borði,“ sagði ég við hann.

Hann einungis lét sig líða aftur í stólnum og teygði úr skönkunum. „Skilst við leggjum í hann yfir í dag,“ sagði hann. „Nú, ætli sé heldur eftir nokkru að slægjast að hoka hér.“

„Þú ferð ekki.“

„Hvað gengur eiginlega að þér, Harrý? Ekki nein ástæða til að vera svona uppsigað við mig.“

„Ekki það? Komdu þér frá borði.“

„Taktu það rólega maður.“

Ég gaf honum einn á hann og hann stóð upp og klöngraðist síðan upp á bryggju.

„Ég mundi aldrei gera neitt slíkt á hlut þinn, Harrý,“ sagði hann.

„Nei, fari það í kolað, mundir ekki gera það,“ sagði ég við hann. „Ég hef ekki hugsað mér að taka þig með. Ekkert fleira um það að segja.“

„Gott og vel, en af hverju þurftirðu að gefa mér á hann.“

„Til að koma þér í skilning um það,“

„Hvað ætlastu til að ég geri? Verði hér og deyi úr sulti?“

„Deyi úr sulti, fjárinn hafi það,“ sagði ég. „Þú getur farið til baka með ferjunni. Getur unnið fyrir þér um borð fyrir farinu.“

„Það er ekki sanngjarnt að leika mig svona,“ sagði hann.

„Hvern hefur þú nokkru sinni leikið af sanngirni, byttan þín? Þú mundir ekki hika við að foxa þína eigin móður.“

Það var líka sannleikanum samkvæmt. En mér leið illa yfir að hafa gefið honum á hann. Þú veist hvernig manni líður þegar maður gefur fyllirafti á hann. En eins og nú var í pottinn búið gat ég ekki tekið hann með; ekki einu sinni þó ég hefði viljað.

Hann gekk af stað upp bryggjuna, vart slánalegri ásýndum en þó hann hefði fetað dagshríðarspor. Svo sneri hann við og kom til baka.

„Hvað segirðu um að láta mig fá nokkra dali, Harrý?“

Ég lét hann hafa fimm dala seðil af peningunum Kínkans.

„Ég vissi alltaf að þú værir minn vin, Harrý; af hverju tekurðu mig ekki með?“

„Þú ert óheillakráka.“

„Þér er bara uppsigað við mig,“ sagði hann. „Býttar engu, gamli vinur. Þú átt samt eftir að fagna því að sjá mig.“

Sem hann nú var orðinn fjáður gekk hann á brott og eilítið sporgleiðari, en því máttu trúa, það setti að manni eiturkaldan hroll að sjá á honum göngulagið. Það var engu líkara en liðamótin á honum væru fylgja hans í eftirdragi.

Ég fór upp á Perlu og hitti miðlarann og hann lét mig fá pappírana og ég bauð honum upp á drykk. Síðan fékk ég mér að borða og Frankí kom inn.

„Náungi lét mig fá þetta handa þér,“ sagði hann og rétti mér einhvers konar vöndul upprúllaðan og innpakkaðan í pappír með rauðu bandi hnýttu utan um. Þetta leit út eins og ljósmynd þegar ég tók pappírinn utan af, og þegar ég slétti úr vafningnum hélt ég þetta væri kannski mynd sem einhver á ferli við dokkina hefði tekið af bátnum.

Það var og. Þetta var nærmynd af höfði og brjósti á dauðum niggara sem hafði verið skorinn á háls bókstaflega milli eyrnanna og skurðurinn síðan snoturlega saumaður saman aftur og spjaldi komið fyrir á brjósti hans þar sem á var letrað á spænsku: „Þannig saumum við að lengua largas.“

„Hver lét þig fá þetta?“ spurði ég Frankí.

Hann benti mér á spænskan pilt sem vann eitt og annað við dokkirnar. Hann stóð við matsöluborðið með fararsnið á sér.

„Biddu hann að koma hingað yfir“

Drengurinn kom yfir. Hann sagði að tveir ungir náungar hefðu látið sig fá þetta um klukkan ellefu. Þeir höfðu spurt hann hvort hann kannaðist við mig og hann játað því. Síðan bað hann Frankí að koma þessu til mín. Hann hafði fengið dal fyrir vikið að sjá til þess að ég fengi þetta. Þeir voru velklæddir, sagði hann.

„Pólitíkur,“ sagði Frankí.

„Ó, já,“ sagði ég.

„Þeir halda þú segja pólísu þú ætla að hitta þessa drengi þarna um morguninn.“

„Ó, já.“

„Slæma pólitíkur.“ sagði Frankí. „Gott að þú fara.“

„Höfðu þeir engin skilaboð til mín?“ spurði ég spænska drenginn.

„Nei,“ sagði hann. „Bara að fá þér þetta.“

„Ég er að hugsa um að fara núna,“ sagði ég við Frankí.

„Slæma pólitíkur,“ sagði Frankí. „Mjög slæma pólitíkur.“

Ég var með alla pappírana samanvöðlaða sem miðlarinn hafði fengið mér og ég greiddi reikninginn og gekk út af þessum stað og þvert yfir torgið og gegnum hliðið, og ég var býsna glaður með það að komast gegnum vöruskemmuna og niður að dokkinni. Þessir piltar höfðu gert mig myrkfælinn allt í lagi. Nógu voru þeir fákænir til að telja sér trú um að ég hefði lekið einhverju út í sambandi við þessi áform þeirra þarna um morguninn. Þessir drengir voru eins og Panchó. Næði hræðslan tökum á þeim komust þeir í uppnám, og þegar þeir voru í uppnámi fannst þeim þeir verða að drepa einhvern.

Ég fór um borð og hitaði upp vélina. Frankí stóð á bryggjunni og fylgdist með. Hann brosti þessu dáindis sljóa brosi sínu. Ég gekk til móts við hann.

„Heyrðu,“ sagði ég. „Komdu þér ekki í nein vandræði út af þessu.“

Hann heyrði ekki hvað ég sagði svo að ég varð að hrópa til hans.

„Mig góða pólitíkur,“ sagði Frankí. Hann sleppti gnoðinni.

 

3. kafli

Ég veifaði til Frankí þegar hann var búinn að kasta frambandinu um borð, og ég stefndi henni út úr kvínni og niður kanalinn. Enskur fraktari var á útleið og ég sigldi meðfram honum og fram úr. Hann risti djúpt undan sykurfarmi og byrðingurinn var ryðbrunnin. Aftur á stóð tjalli í blárri, lúinni duggarapeisu og horfði niður til mín sem ég fór hjá. Ég sigldi út úr höfninni og fram hjá Morró og tók stefnuna á Key-Vest, í hánorður. Ég fór frá stýrinu og fram á til að hringa upp frambandið og kom svo til baka og hélt henni á stefnunni, með Havana útbreidda aftur undan, þangað til tók að hilla undir fjöllin upp af borginni og hún seig í fjarskann.

Eftir dálitla stund missti ég sjónar á Morró og svo hvarf Þjóðarhótelið og að lokum fékk ég einungis greint kúpulinn á þinghúsinu. Straumfallið var lítið samanborið við það sem verið hafði síðasta daginn okkar á veiðum og aðeins smá gola. Ég sá tvær skútur sem var haldið í átt til Havana og þær komu vestan að, svo að straumurinn hlaut að vera með minna móti.

Ég tók í afdreparann og vélin þagnaði. Það var ekki nein ástæða til að vera að sóa olíu. Ég mundi láta reka. Þegar dimmdi gæti ég alltaf greint vitann á Morró eða, ef mig ræki of langt, þá ljósin í Cojimar, og ég mundi þá stýra inn úr og áleiðis til Bacuranao. Ef straumurinn var eins og ég reiknaði með þá mundi mig hafa rekið þessar tólf mílur til Bacuranao þegar myrkur félli á og ég mundi sjá ljósin í Baracoa.

Nú, ég drap á vélinni og klöngraðist fram á til að litast um. Ekkert bar fyrir augu annað en þessar skútur tvær á innleið vestur undan og heldur innar þinghúskúpulinn sem reis hvítur við hafsbrún. Það var dálítið af flóaþangi þarna í straumfallinu og nokkrir fuglar að athafna sig, en þeir voru ekki margir. Ég sat þarna um stund uppi á húsinu og litaðist um, en einu fiskarnir sem ég varð var voru brúnu tittirnir sem eru vanir að halda sig kringum flóaþangið. Bróðir sæll, láttu segja þér það tvisvar að það sé ekki nóg af sjónum þarna milli Havana og Key-Vest. Ég var einungis rétt við jaðarinn á honum.

Að dálítilli stund liðinni fór ég aftur niður og inn í skýlið, og þar er þá Eddi.

„Hvað er um að vera? Hvað er að vélinni?“

„Úrbrædd.“

„Af hverju ertu ekki búinn að opna vélarlúguna?“

„Hvert þó í heitasta!“ sagði ég.

Veistu hvað hann hafði gert? Hann hafði komið til baka og opnað lúguna fram á og farið niður í lúkar og sofnað. Hann var með tvo kvartara með sér. Hann hafði farið rakleiðis í fyrsta vínkjallarann á vegi hans, keypt þá og farið um borð. Þegar ég hélt af stað hafði hann vaknað en bara snúið sér á hina hliðina. Þegar ég síðan drep á úti á flóa og hún fer að velta aðeins með ylgjunni þá vaknar hann.

„Ég vissi að þú tækir mig með, Harrý,“ sagði hann.

„Tæki þig og sendi til helvítis,“ sagði ég. „Þú ert ekki einu sinni á áhafnarlistanum. Ég hef mikinn hug á að láta þig skoppa fyrir borð núna.“

„Alltaf sami gamli brandarakarlinn, Harrý,“ sagði hann. „Við Kræklingar eigum að vera eins og dregnir saman inn í skel okkar þegar vandræði steðja að.“

„Þú,“ sagði ég, „með þennan kjaft þinn. Hver leggur traust sitt á þann kjaft þegar þú ert íðí?“

„Ég hef góðan mann að geyma, Harrý. Reyndu mig og sjáðu hve ég hef góðan mann að geyma.“

„Láttu mig fá þessa tvo kvartara,“ sagði ég við hann. Ég var með hugann við annað.

Hann tók fram flöskurnar og ég saup á þeirri sem var átekinn og lét þær síðan fyrir framan stýrið. Þarna stóð hann og ég virti hann fyrir mér. Ég tók út fyrir að horfa á hann og fyrir það sem ég vissi að ég kæmist ekki hjá að gera. Fjárinn hafi það, ég þekkti hann þegar hann hafði góðan mann að geyma.

„Hvað gengur að gnoðinni, Harrý?“

„Það gengur ekki neitt að henni.“

„Hvað er þá að? Af hverju horfirðu svona á mig?“

„Bróðir sæll,“ sagði ég við hann, og mig tók sárt til hans, „þú ert í býsn miklum vandræðum.“

„Hvað áttu eiginlega við, Harrý?“

„Mér er það ekki alveg ljóst enn,“ sagði ég. „Ég er ekki búinn að reikna það allt út enn.“

Við sátum þarna um stund og ég hafði enga löngun til að tala við hann frekar. Sem mér var orðið þetta ljóst, þá var erfitt að tala við hann. Ég fór niður og náði í pumpuna og Winchesterinn 30-30, sem ég geymdi alltaf fram í lúkar, og hengdi þær í slíðrunum upp undir loftið í stýrisskýlinu þar sem við vorum annars vanir að hengja upp stangirnar, beint yfir stýrishjólinu þar sem ég gat gripið til þeirra. Ég læt þær alltaf vera í þessum slíðrum í fullri lengd, en þau eru fóðruð innan með snoðinni ull sem ég hef vætta í olíu. Þetta er eina leiðin til að geyma þær um borð í bát að þær ryðgi ekki.

Ég losaði um pumpuna og reyndi hana nokkrum sinnum og hlóð hana síðan fulla og þrýsti einu skoti inn í hlaupið. Ég setti kúlu í skothúsið á Winchesternum og fyllti magasínið. Svo tók ég fram undan sessunni Smith og Wessonina þrjátíuogátta spesíal sem ég notaði þegar ég var í lögregluliðinu í Miamí og hreinsaði hana og smurði og hlóð hana fulla og setti í beltið.

„Hvað stendur til?“ sagði Eddi. „Hver fjárinn stendur til?“

„Ekki neitt,“ sagði ég við hann.

„Hvað ætlarðu að gera með allar þessar bölvuðu byssur?“

„Ég hef þær alltaf með um borð,“ sagði ég. „Til að skjóta fugl sem atast í beitunni eða til að skjóta hákarl, eða til að fara í leiðangra með Eyrunum.

„Fjárinn hafi það, hvað stendur til?“ sagði Eddi. „Hvað stendur til?“

„Ekki neitt,“ sagði ég við hann. Ég sat þarna með gömlu þrjátíuogáttuna flangsandi við mjöðm, og ég virti hann fyrir mér. Ég hugsaði með mér, það er ekkert vit í að gera það núna. Núna þarf ég á honum að halda.

„Við eigum smá verk að vinna,“ sagði ég. „Inn frá hjá Bacuranao. Ég segi þér hvað þú átt að gera þegar þar að kemur.“

Ég vildi ekki vera að útskýra málið of löngu fyrirfram því það hefði aðeins gert hann of áhyggjufullan og svo draughræddan að ekkert lið hefði orðið í honum.

„Þú gætir ekki átt völ á neinum betri en mér, Harrý,“ sagði hann. „Ég er maðurinn sem þig vantar. Ég stend með þér í blíðu og stríðu.“

Ég virti hann fyrir mér slánann, voteygðan og skjálfandi, og sagði ekki orð.

„Heyrðu, Harrý. Viltu ekki gefa mér, bara einn?“ bað hann mig. „Rétt til að skjálftinn nái ekki tökum á mér.“

Ég gaf honum einn og við sátum og biðum myrkurs. Það var fallegt sólsetrið og ljúf gola lék um okkur, og þegar sólin var komin vel niður setti ég í gang og hélt henni á hægri ferð í átt til lands.

 

4. kafli

Við lágum í myrkrinu, um það bil mílu undan ströndinni. Straumurinn var orðið sterkari nú sem sólin var sest og ég fann hvernig féll að. Ég sá vitann á Morró spöl vestur undan og bjarmann af Havana, og ljósin upp af okkur voru frá Rincon og Baracoa. Ég hélt henni móti straumnum þangað til ég hafði Bacuranao að baki og var næstum kominn á móts við Cojimar. Þá lét ég reka. Það var orðið ansi dimmt en ég áttaði mig vel á hvar við vorum. Ég hafði slökkt á öllum ljósum.

„Hvað á að verða um okkur, Harrý?“ spurði Eddi mig. Óttinn var enn að ná tökum á honum.

„Hvað heldur þú?“

„Ég veit það ekki,“ sagði hann. „Þú hrellir mig.“ Hann var alveg að verða skjálftanum að bráð og þegar hann kom nær heyrði maður að önd hans nötraði svo að engu var líkara en hrossagaukur hneggjaði.

„Hvað er klukkan?“

„Ég ætla niður að athuga það,“ sagði hann. Hann kom upp aftur og sagði að hún væri hálftíu.

„Ertu svangur?“ spurði ég hann.

„Nei,“ sagði hann. „Þú veist ég kæmi ekki bita niður, Harrý.“

„Allt í lagi,“ sagði ég við hann. „Þú mátt fá þér einn.“

Þegar hann var búinn að fá sér spurði ég hann hvernig honum liði. Hann sagði að sér liði bærilega.

„Ég gef þér pöru í viðbót á eftir,“ sagði ég við hann. „Ég veit að þú ert ekki með skilningarvitin í lagi nema þú fáir þitt romm og það er ekki mikið af því hér um borð. Þú ættir því að taka það rólega.“

„Segðu mér, hvað hefurðu á prjónunum?“ sagði hann.

„Hlustaðu á mig, sagði ég, og myrkrið lék um okkur. „Við munum fara til Bacuranao og taka tólf Kínka. Þú tekur stýrið þegar ég segi þér svo og gerir svo sem ég segi þér. Við tökum Kínkana tólf um borð og læsum þá niður fram í. Farðu nú fram á og skálkaðu lúguna.“

Hann fór fram á og var eins og skuggi á að líta í myrkrinu. Hann kom til baka og hann sagði: „Harrý, má ég ekki fá hálfa pöruna núna.“

„Nei,“ sagði ég. „Rommið má glöggva þig, en með þig einskisnýtan hef ég ekkert með að gera.“

„Ég hef góðan mann að geyma, Harrý. Þú munt komast að raun um það.“

„Þú ert bytta,“ sagði ég. „Hlustaðu á mig. Það er Kínki sem kemur með þessa tólf út til okkar. Hann lætur mig fá dálítið af peningum til að byrja með. Þegar þeir verða allir komnir um borð lætur hann mig fá meira í viðbót. Þegar þú sérð að hann ætlar að afhenda mér peningana í seinna sinnið tekurðu áfram og snýrð henni og stefnir á haf út. Láttu þig annars einu gilda hvað gerist. Þú heldur henni út sama hvað gerist. Skilurðu mig?“

„Já.“

„Ef einhver Kínkanna gerir tilraun til að brjótast út úr lúkarnum eða klifra upp um lúguna, þegar við einu sinni verðum komnir af stað, þá tekurðu pumpuna og skýtur þá niður jafnskjótt og þeir birtast. Kanntu að fara með pumpuna?“

„Nei. En þú getur kennt mér það.“

„Þú mundir aldrei muna það. Kanntu þá að fara með Winchesterinn?“

„Bara taka í stöngina og hleypa af.“

„Einmitt,“ sagði ég. „Bara skjóttu ekki göt á bátinn.“

„Held þú ættir að láta mig fá þennan drykk,“ sagði Eddi.

„Allt í lagi. Þú færð einn lítinn.“

„Ég gaf honum einn sterkan. Ég vissi að hann yrði ekki drukkinn af þeim núna; ekki þegar svo mikill ótti var í bland. En hver drykkur héldi honum hreifum stundarkorn. Þegar hann hafði lokið honum af sagði þessi Eddi og var hinn brattasti: „Svo hugmyndin er að smúla Kínkum. Nú, það hafði ég einmitt alltaf hugsað mér, það veit Guð, að smúla Kínverjum ef ég yrði einhvern tímann rúinn.“

„En þú hefur aldrei áður verið rúinn, ehe?“ sagði ég við hann. Spaugilegur var hann allt í lagi.

Ég gaf honum þrjá í viðbót til að halda honum klárum áður en klukkan var orðin hálfellefu. Það var spaugilegt að fylgjast með honum og það dreifði huganum frá því sem í vændum var. Ég hafði ekki tekið alla þessa bið með í reikninginn. Ég hafði ráðgert að fara eftir myrkur, keyra út, rétt út úr ljóshafinu, og lóna með ströndinni til Cojimar.

Skömmu fyrir ellefu sá ég ljósin tvö birtast á staðnum. Ég beið um stund og hélt henni síðan hægt upp að. Bacuranao er við litla vík þar sem fyrr á tíð var stórt skipalægi myndað af sandorpnu eiði. Þegar rigningarnar brjóta skarð í eiðið fyrir víkurmynninu fellur þar fram dálítil árlæna. Norðlingurnar fylla upp í skarðið á veturna með sandinum. Þeir voru vanir að fara þarna inn með skonnortur og hlaða þær myrtueplum á ánni og þá var þarna bær. En hann eyddist í fellibyl og ekki er neitt eftir af honum nema eitt hús sem nokkrir gallegoar byggðu úr kofarústunum sem fellibylurinn skildi eftir sig og það hafa þeir fyrir samastað á sunnudögum þegar þeir fara þangað út eftir frá Havana til að synda og borða skrínukost. Annað hús til er þarna sem er bústaður umboðsmannsins, en það stendur spölkorn frá ströndinni.

Á hverjum einasta smástað sem þessum þarna niður með allri ströndinni er umboðsmaður settur af stjórnvöldum, en ég þóttist nú vita að Kínkinn hlyti að hafa sinn eigin bát til reiðu. Þegar við komum inn fór ekki hjá því að maður fyndi fyrir vitum sér ilminn af sjávargróðrinum og sæta anganina sem lagði af kjarrinu uppi á landi.

„Farðu fram á,“ sagði ég við Edda.

„Það er ekkert í veginum hérna megin,“ sagði hann. „Þú ert með hreint borð gagnvart rifinu hinum megin.“ Þú skilur, hann hafði góðan að geyma hér í eina tíð.

„Hafðu gott auga með henni,“ sagði ég, og ég hélt henni inn fyrir þangað sem ég vissi að þeir gætu séð okkur. Þar sem ekkert brim var áttu þeir geta greint vélarhljóðið. Ég vildi ekki hafa neina viðdvöl þarna, hafandi ekki hugmynd um hvort þeir sæu okkur eða ekki, svo að ég setti siglingarljósin snöggvast á, aðeins græna og rauða ljósið, og tók þau aftur af. Þá sneri ég henni og hélt henni út og rétt fyrir utan lét ég flatreka og lét vélina aðeins malla í hægagangi. Það var ekki mikil ylgja svo nærri.

„Komdu hingað aftur í,“ sagði ég við Edda og gaf honum einn sterkan.

„Dregurðu fyrst upp bóginn með þumlinum?“ hvíslaði hann að mér. Hann sat núna við stýrið en ég hafði teygt mig upp og opnað slíðrin og dregið byssuskeftin út um um það bil sex tommur.

„Einmitt.“

„Herraguð,“ sagði hann.

Hve undursamleg áhrif gat ekki drykkur haft á hann og hve fljótt.

Þarna lágum við og ég gat greint ljós frá húsi umboðsmannnsins handan gegnum kjarrið. Ég sá að ljósin tvö yfir staðnum duttu út en síðan tók annað að hreyfast fram og til baka kringum staðinn. Þeir hlutu að hafa slökkt á öðru þeirra.

Þá sé ég skömmu síðar hvar bátur stefnir í átt til okkar út úr víkinni með manni róandi í skut. Ég sá það á því hvernig hann sveigði sig aftur og fram. Hann hlaut að vera með stóra ár. Ég var ansi ánægður með það. Fyrst þeir reru bátnum með skutár gat ræðarinn aðeins verið einn.

Þeir komu upp að.

„Gott kvöld, kapteinn,“ sagði herra Síng.

„Leggist þvert fyrir skutinn,“ sagði ég við hann.

Hann sagði eitthvað við drenginn sem reri en hann gat ekki róið aftur á bak svo að ég tók um borðstokkinn og dró bátinn aftur með. Þeir voru átta um borð. Sex Kínkanna, herra Síng og ræðaradrengurinn. Á meðan ég var að draga hann aftur með átti ég alveg eins von á að fá eitthvað í hausinn en ekkert slíkt gerðist. Ég rétti úr mér og lét herra Síng halda við skutinn.

„Látum okkur sjá hverskyns er,“ sagði ég.

Hann rétti mér þá og ég fór með þá samanvöðlaða þangað þar sem Eddi var við stýrið og kveikti á kompásljósinu. Ég skoðaði þá vel. Þeir virtust vera í lagi og ég slökkti á ljósinu. Eddi nötraði og skalf.

„Fáðu þér einn,“ sagði ég. Ég sá að hann teygði sig eftir flöskunni og opnaði hana.

Ég fór til baka aftur á.

„Allt í lagi,“ sagði ég. „Láttu þessa sex koma um borð.“

Herra Síng og Kúbaninn sem reri áttu fullt í fangi með bátinn með þessa smá ylgju leikandi undir. Ég heyrði að herra Síng sagði eitthvað við Kínkana og allir Kínkarnir ætluðu að fara að klifra yfir í skutinn.

„Einn í einu,“ sagði ég.

Enn sagði hann eitthvað og þá komu þeir hver á eftir öðrum yfir í skutinn. Þeir voru með ýmsustu móti og vaxtarlagi.

„Sýndu þeim fram í,“ sagði ég við Edda.

„Þessa leið, herrar mínir,“ sagði Eddi. Það veit Guð að hann hefur fengið sér einn stóran.

„Læstu lúkarnum á eftir þeim,“ sagði ég.

„Já, herra minn,“ sagði Eddi.

„Ég kem til baka með hina,“ sagði herra Síng.

„Fínt er,“ sagði ég.

Ég ýtti þeim frá og drengurinn sem var með honum lagðist á árina í skutnum.

„Heyrðu mig,“ sagði ég við Edda. „Þú lætur þessa flösku vera. Þú ert orðinn nógu klár í kollinum.“

„Fínt er, stjóri,“ sagði Eddi.

„Hvað gengur að þér?“

„Þetta er það sem mér líkar,“ sagði Eddi. „Þú sagðir að maður bara drægi upp bóginn með þumlinum?“

„Þú lúsablesi og bytta,“ sagði ég við hann. „Láttu mig fá einn úr henni.“

„Allt búið,“ sagði Eddi. „Leitt, stjóri.“

„Heyrðu mig. Það sem þú átt að gera núna er að fylgjast með því þegar hann réttir mér peningana og þá tekurðu áfram.“

„Allt í fína, stjóri,“ sagði Eddi.

Ég teygði mig eftir hinni flöskunni og tappatogara og kippti úr korktappanum. Ég fékk mér einn vænan og fór aftur á þar sem ég lagði flöskuna með tappanum kyrfilega í settum bak við tvo tágakúta fulla af vatni.

„Þar kemur herra Síng,“ sagði ég við Edda.

„Já, herra minn,“ sagði Eddi.

Báturinn þokaðist út með ræðarann í skutnum.

Hann lagði að skutnum og ég lét þá halda honum að. Herra Síng var með tak á rúllunni sem við höfðum fyrir þverum skut til að innbyrða stórfiska.

„Láttu þá koma um borð,“ sagði ég, „einn í einu.“

Sex Kínkar til viðbótar komu í röð yfir í skutinn.

„Ljúktu upp fram í og sýndu þeim leiðina.“ sagði ég við Edda.

„Já, herra minn,“ sagði Eddi.

„Læstu lúkarnum.“

„Já, herra minn.“

Þá sá ég að hann var kominn að stýrinu.

„Allt í lagi, herra Síng,“ sagði ég. „Þá er sjá það sem eftir leifir.“

Hann fór eftir peningunum í vasann og rétti þá í átt til mín. Ég teygði mig til móts við hann og þreif fyrir brjóstið á honum sem hann var enn með peningana í höndum, og sem hann hallaðist að skutnum tók ég hann hálstaki með hinni hendinni. Ég fann að gnoðin tók áfram og fór á fulla ferð sem henni var beygt og ég fékk í nógu að snúast með herra Síng, og í þeirri sömu andrá er við keyrðum burt frá bátnum fékk ég séð Kúbanann þar sem hann stóð aftur í skut með árina í höndum en í höndunum á mér barðist herra Síng um á hæl og hnakka. Hann var verri viðureignar en nokkur höfrungur með ífæruna í sér.

Mér tókst að snúa upp á handlegginn á honum en einum um of því ég fann að hann lét undan. Þegar hann lét undan myndaði herra Síng svona dáindis lítið skrýtið hljóð og lét hallast fram yfir rúlluna, og ég enn með hann hálstaki og það allt, og bítur hann mig þá ekki í öxlina. En þegar ég fann að handleggurinn brast sleppti ég honum. Hann var honum einskisnýtur úr því sem komið var og ég tók um hálsinn á honum báðum höndum, og bróðir sæll, trúðu mér, bægslagangurinn í þessum herra Síng var engu líkara en maður væri að fást við fisk, og handleggurinn lausi ryskjandi eins og þreskiþúst. En mér tókst að koma honum á kné og sökkti báðum þumalfingrum vel inn í skoltann á honum og glennti hann síðan upp á honum þangað til það brast allt. Skalt ekki ímynda þér að heldur að maður heyri það ekki bresta.

Ég hélt honum kyrrum rétt andartak og lagði hann síðan niður þarna aftur á. Þarna lá hann og horfði kyrr með andlitið upp, í sínum fínu fötum, með fæturna inn undir stýrisskýlið; og ég lét hann eiga sig.

Ég tók peningana upp af dekkinu og fór upp og kveikti á kompásljósinu og taldi þá. Síðan tók ég við stýrinu af Edda og sagði honum að fara og finna aftur í skutkassa nokkur járndregg sem ég var alltaf vanur að nota til að leggjast við þegar við vorum í botnfiski á bleiðum eða urðarbotni þar sem maður vildi ekki hætta heilu ankeri.

„Ég finn ekki neitt,“ sagði hann. Honum var um og ó við að vera þarna niðri með herra Síng nærri sér.

„Taktu stýrið,“ sagði ég. „Haltu henni út.“

Það var einhver fyrirgangur í þeim fram í en mér stóð enginn stuggur af því.

Ég fann nokkur dregg eins og mig vantaði, járn ættuð úr gömlu kolakvínni í Tortugas, og með dálitlu af fiskilínu festi ég tvö vel stór við öklana á herra Síng. Síðan, þegar við vorum komnir um það bil tvær mílur frá landi, lét ég hann líða útbyrðis. Hann leið mjúklega yfir um rúlluna. Ég leit aldrei svo mikið sem í vasana hans. Ég kunni því ekki að hafa uppi við hann neinn dáruskap.

Dálítið blóð hafði runnið á dekkið þarna aftur á úr nefi hans og munni, svo að ég dýfði fötu í sjóinn, sem tók svo í á þessari ferð sem við vorum að mig hefði næstum getað tekið útbyrðis, en skrúbbaði síðan vel dekkið með kústi úr skutkassanum.

„Sláðu aðeins af,“ sagði ég við Edda.

„Ef hann nú flýtur upp?“ sagði Eddi.

„Ég lét hann fara á sjö hundruð föðmum,“ sagði ég. „Hann fer niður alla leið. Og það er nokkuð löng leið, bróðir sæll. Hann flýtur ekki upp fyrr en gasið lyftir honum og allt þangað til að því kemur berst hann með straumnum og lokkar til sín fiska í ætisleit. Fjárinn hafi það,“ sagði ég, „ástæðulaust að þú sért að gera þér áhyggjur út af herra Síng.“

„Hvað hafðirðu á móti honum?“ spurði Eddi mig.

„Ekki neitt.“ sagði ég. „Hann var þægilegasti maður viðskiptis sem ég hef nokkru sinni fyrirhitt. Mér fannst alltaf að það hlyti að vera einhver maðkur í mysunni.“

„Til hvers drapstu hann?“

„Til þess að þurfa ekki að drepa tólf aðra Kínka.“ sagði ég.

„Harrý,“ sagði hann, „þú verður að gefa mér einn; ég finn að þetta er allt á leið upp úr mér. Mér leið ógeðslega að sjá framan í hann allan svona slitinn sundur.“

Svo ég gaf honum einn.

„Hvað á verða um Kínkana?“ sagði Eddi.

„Ég hef í hyggju að losa mig við þá hið bráðasta,“ sagði ég við hann. „Áður en dauninn af þeim tekur að leggja upp úr lúkarnum.“

„Hvert ætlarðu með þá?“

„Við keyrum með þá beinustu leið upp í fjöru svo löng sem hún er til,“ sagði ég við hann.“

„Halda upp að núna?“

„Einmitt,“ sagði ég. „Haltu henni upp að á hægri ferð.“

Við komum á hægri ferð inn fyrir rifið og fórum svo langt upp að að maður sá bjarma fyrir ströndinni. Það er feikn nóg af sjónum þarna fyrir innan rifið og alls staðar sandbotn og honum hallar jafnt upp að ströndinni.

„Farðu fram á og taktu dýpið.“

Hann lóðaði stöðugt með krókstjaka milli þess að hann benti mér með stjakanum. Þá kom hann til baka og gaf mér merki um að stoppa. Ég fór aftur á.

„Þú hefur um það bil fimm fet.“

„Við verðum að leggjast,“ sagði ég. „Ef eitthvað gerist og okkur gefst ekki tími til að ná upp ankerinu þá höggvum við á eða slítum okkur lausa.“

Eddi gaf færið út og þegar hún hætti að draga setti hann fast. Hún snerist með skutinn upp í.

„Við eru á sandbotni, þú veist,“ sagði hann.

„Hvað er djúpt aftur undan?“

„Ekki yfir fimm fet.“

„Þú tekur riffilinn,“ sagði ég. „Og vertu varkár.“

„Gefðu mér einn,“ sagði hann. Hann var ansi taugaspenntur.

Ég gaf honum einn og tók pumpuna niður. Síðan tók ég lásinn af lúkarsdyrunum, opnaði þær og sagði: „Komið út.“

Ekkert gerðist.

Þá stingur einn Kínkinn út hausnum og sér Edda þar sem hann stendur með riffilinn og hörfar jafnskjótt.

„Komið út. Enginn ætlar að gera ykkur neitt,“ sagði ég.

En ekkert gerist. Aðeins heilmikið skvaldur á kínksku.

„Komið ykkur út, þið þarna!“ sagði Eddi. Drottinn minn, hvort hann hafði ekki tekið flöskuna.

„Settu frá þér þessa flösku.“ sagði ég við hann, „eða ég læt þig fjúka útbyrðis.“

„Komið út,“ sagði ég við þá, „eða ég skýt niður til ykkur.“

Einn gægðist út um gættina og sá augsýnilega ströndina því um leið fer hann að blaðra eitthvað.

„Komið út,“ sagði ég, „eða ég skýt.“

Og út komu þeir.

Þú getur nú rétt ímyndað þér hvort maður þyrfti ekki að vera skollanum auvirðilegari til að slátra svona kippu af Kínkum og það máttu hengja þig upp á, láttu mig um það, að það yrði líka feikn nóg fárið.

Þeir komu út og þeir voru óttaslegnir og þeir höfðu engar byssur en þarna voru þeir líka tólf saman. Ég gekk aftur á bak aftur í skut með pumpuna mundaða. „Gangið fyrir borð,“ sagði ég. „Það nær ykkur ekki yfir höfuð.“

Enginn hreyfði sig.

„Út fyrir með ykkur.“

Enginn hreyfði sig.

„Gulu útlensku rottuæturnar ykkar,“ sagði Eddi, „snautið út fyrir.“

„Haltu þér saman, svampkjafturinn þinn,“ sagði ég við hann.

„Ekki geta synda,“ sagði einn Kínkanna.

„Ekki neinn þurfa synda,“ sagði ég. „Ekki djúpt.“

„Áfram nú, út í með ykkur.“ sagði Eddi.

„Komdu hingað aftur á,“ sagði ég. „Haltu rifflinum í annarri hendi og hafðu krókstjakann í hinni og sýndu þeim hve djúpt það er.“

Hann sýndi þeim það, hélt uppi blautum stjakanum.

„Ekki þurfa synda?“ spurði sá sami.

„Nei.“

„Satt?“

„Já.“

„Hvar við vera?“

„Kúba.“

„Þú bannsettur svikari,“ sagði hann og fór út fyrir borðstokkinn, hékk á honum og lét sig síðan falla. Hann fór á kaf með höfuðið en kom upp úr aftur svo að sjórinn náði honum að höku. „Bannsettur svikari,“ sagði hann. „Djöfuls bannsettur svikari.“

Hann var bandóður og býsna hugrakkur. Hann sagði eitthvað á kínksku og hinir tóku að tínast fyrir borð út fyrir skutinn.

„Allt í lagi,“ sagði ég við Edda. „Inn með ankerið.“

Þegar við héldum henni út var tunglið að koma upp og maður gat séð til Kínkana með aðeins bláhöfuðin upp úr þar sem þeir stefndu upp að ströndinni sem bjarmaði af undan kjarrinu upp af.

Við fórum fyrir rifið og mér varð litið til baka þar sem tekið var að hilla undir fjöllin yfir ströndinni; síðan tók ég stefnuna á Key-Vest.

„Þú getur fengið þér blund núna.“ sagði ég við Edda. „Nei, bíddu annars, farðu niður og opnaðu allt út til að bægja burt dauninum og finndu handa mér joðið.“

„Hvað er að?“ sagði hann þegar hann fékk mér það.

„Ég skar mig á fingri.“

„Viltu að ég taki stýrið?“

„Farðu að sofa,“ sagði ég. „Ég vek þig.“

Hann lagðist á innbyggða bekkinn í stýrisskýlinu, yfir bensíntankinum, og var brátt sofnaður.

 

5. kafli

Ég studdi við stýrið með hnénu og fletti frá mér skyrtunni og virti fyrir mér bitið eftir herra Síng. Það var talsvert bit og ég setti á það joð, og svo sat ég þarna við stýrið og velti því fyrir mér hvort bit eftir Kínverja gæti verið eitrað, og ég hlustaði á hve hún keyrði fallega móti ylgjunni strjúkandi henni um bógana, og ég kvað upp úr með sjálfum mér: Nei, skollinn hafi það, þetta er ekki eitrað bit. Maður eins og þessi herra Síng hefur trúlega burstað í sér tennurnar tvisvar eða þrisvar á dag. Einhver herra Síng. Hann var örugglega ekki mikill bissnissmann. Má þó vera. Má vera að hann hafi einfaldlega treyst mér. Ég segi þér satt ég gat ekki séð hann út.

Hvað sem því líður, allt var einfalt nema hvað Edda varðaði. Hann er bytta og þess vegna talar hann þegar hann er kominn íða. Ég sat þarna við stýrið og ég virti hann fyrir mér og ég hugsaði: Fjárinn hafi það, hann er eins góður dauður sem lifandi svona útlifaður, og þá hef ég allt á hreinu. Þegar ég komst að raun um að hann var um borð sá ég fram á að ég yrði að losa mig við hann en nú sem ég hafði komist vel frá öllu hafði ég ekki hjarta í mér til þess. En það var vissulega freistandi sem maður virti hann fyrir sér þarna útafliggjandi. En þá hugsaði ég með mér að það væri ekkert vit í að klúðra öllu með því að gera eitthvað sem maður mundi sjá eftir seinna. Þá rifjaðist upp fyrir mér að hann var ekki einu sinni skráður á bátinn og ég fengi sekt fyrir að hafa hann með inn og ég hafði ekki hugmynd um hvað ég skyldi gera við hann.

Hvað sem því leið, ég hafði feikn nógan tíma til að hugleiða það og ég hélt henni á stefnunni og fékk mér annað slagið að drekka úr flöskunni sem hann hafði haft með sér um borð. Það var ekki mikið eftir í henni, og þegar hún var búin opnaði ég þá einu sem ég átti eftir sjálfur, og ég skal segja þér það, mér leið býsna vel þarna við stýrið, og svo dáindis falleg nóttin að sigla yfir. Þetta var orðinn ágætis túr þegar upp var staðið allt í lagi, og hafði útlitið þó verið ansi dökkt á köflum.

Þegar birti með morgninum vaknaði Eddi. Hann sagði að sér liði hræðilega.

„Taktu stýrið smá stund,“ sagði ég við hann. „Ég ætla að litast um.“

Ég fór aftur á og skvetti dálitlu af sjó á hana. En hún var alveg hrein. Ég tók kústinn og skrúbbaði lunninguna. Ég afhlóð byssurnar og kom þeim fyrir fram í. En ég var enn með skammbyssuna í beltinu. Loftið var ferskt og fínt um að litast þarna niðri, ekki hin minnsta lykt. Smávegis sjór hafði komið inn um kýraugað stjórnborðsmegin á einn bekkinn, annað var það ekki; svo ég lokaði kýraugunum. Sá tollvarðstjóri fyrirfyndist ekki í heiminum sem gæti fundið þef af Kínka í henni núna.

Ég rak augun í skipspappírana uppi í nethenginu þar sem ég hafði sett þá þegar ég kom um borð, undir skráningarskírteininu hennar, og ég tók þá fram til að líta á þá. Síðan fór ég upp í skýli.

„Heyrðu mig,“ sagði ég. „Hvernig komst þú á áhafnarlistann?“

„Ég rakst á miðlarann þar sem hann var á leið í konsúlatið og sagði honum að ég mundi fara með.“

„Guð hefur auga með byttum,“ sagði ég við hann og tók þrjátíuogáttuna úr beltinu og kom henni fyrir fram í.

Ég hellti upp á smá kaffi niðri og fór svo upp og tók stýrið.

„Það er kaffi fram í,“ sagði ég við hann.

„Bróðir, ég hefði síst gott af kaffi núna.“ Maður gat ekki annað en kennt í brjósti um hann. Það var svo sannarlega aumt upp á hann að horfa.

Um níuleytið sáum við vitann á Sanda-Key næstum beint fram undan. Við höfðum séð til tankskipa á leið upp flóann í dálítinn tíma.

„Við verðum inni eftir tvo tíma,“ sagði ég við hann. „Ég ætla að láta þig hafa þessa fjóra dali á dag rétt eins og Johnson hefði borgað.“

„Hvað hafðirðu mikið upp úr þér í gærkveldi?“spurði hann mig.

„Aðeins sex hundruð.“ sagði ég við hann.

Ég veit ekki hvort hann trúði mér.

„Fæ ég ekki hlut í því?“

„Þitt hlutskipti,“ sagði ég við hann. „Það er einfaldlega sem ég hef sagt, opnir þú nokkurn tímann á þér túllann um þetta í gærkveldi berst það mér til eyrna og ég mun gera út af við þig.“

„Þú veist vel að ég er ekki nein kjaftaglenna, Harrý.“

„Þú ert bytta. En sama hve skruggufullur þú verður, hrærirðu einhvern tímann tungu um það, þá hefurðu mitt loforð.“

„Ég hef góðan mann að geyma,“ sagði hann. „Þú ættir ekki að tala við mig á þennan hátt.“

„Þeir hafa aldrei undan að hrífa á þig að þú megir geyma þann góða.“ sagði ég við hann. En ég hafði ekki frekari áhyggjur af honum því hver mundi trúa honum? Varla mundi herra Síng hafa uppi kærumál. Ekki mundu Kínkarnir gera það. Ekki drengurinn sem reri út með þá, veist það. Hann mundi ekki kæra sig um að koma sér í nein vandræði. Fyrr eða síðar færi Eddi að fleipra um þetta, má vera, en hver trúir byttu?

Eða því þá, hver gæti sannað nokkuð? Auðvitað gæti það þýtt miklu meira mas að nafn hans var á áhafnarlistanum. Gæfan var með mér þar, allt í lagi. Hefði að vísu getað sagt að hann hefði fallið fyrir borð en það þýðir ansi mikið mas. Býsn mikil gæfa fyrir Edda, ekkert síður. Mikil gæfa, mikil býsn, sem ég er lifandi.

Við komum að straumjaðrinum og sjórinn var ekki lengur blár heldur grænn og glær og fyrir innan gat ég greint leiðarmerkin á Eystri og Vestri Þurraklettum og loftskeytamastrið á Key-Vest og Kræklingahótelið gnæfandi yfir öllum lágreistum húsunum og feikna reyk frá gúanóbræðslunni. Sanda-Key vitinn var kominn ansi nærri núna og maður gat greint bátaskýlið og litlu bryggjuna undir vitanum og ég vissi að við ættum aðeins fjörtíu mínútur eftir og mér leið vel að vera koma til baka og eiga nú nóg að leggja undir um sumarið.

„Hvað segirðu um drykk, Eddi?“ sagði ég við hann.

„A-a, Harrý.“ sagði hann. „Ég vissi alltaf þú værir minn vin.“

Þetta kvöld sat ég inni í stofu og drakk viskí og vatn og reykti vindil og hlustaði á Gracie Allen í útvarpinu. Stelpurnar höfðu farið í bíó og sem ég sat þarna sveif á mig höfgi og mér leið vel. Það var einhver við útidyrnar og María, konan mín, stóð upp og fór fram. Hún kom til baka og sagði: „Það er þessi bytta, Eddi Marshall. Hann segist þurfa að tala við þig.“

„Segðu honum að koma sér áður en ég rek hann burtu,“ sagði ég við hana.

Hún kom til baka og fékk sér aftur sæti og þarna sem ég sat með fæturna uppi og horfði út um gluggann sá ég hvar Eddi gekk eftir götunni í skímunni frá götuljósunum ásamt annarri byttu sem hann hefur hirt á vegi sínum, báðir slagandi og skuggar þeirra í skímunni hálfu meir.

„Vesalings guðsvoluðu byttur,“ sagði María. „Ég finn til með byttum.“

„Hann er gæfusöm bytta.“

„Það eru ekki neinar byttur gæfusamar,“ sagði María. „Það veistu, Harrý.“

„Nei, ætli það“ sagði ég. „Ætli það nokkuð.“

 

 

FYRSTI HLUTI: HARRÝ MORGAN, Vor

1. kafli

2. kafli

3. kafli

4. kafli

5. kafli

 

ANNAR HLUTI: HARRÝ MORGAN, Haust

1. kafli

2. kafli

3. kafli

 

ÞRIÐJI HLUTI: HARRÝ MORGAN, Vetur (1 til 10)

1. kafli - Albert hefur orðið

2. kafli - Harrý

3. kafli

4. kafli

5. kafli

6. kafli

7. kafli

8. kafli

9. kafli

10. kafli

 

ÞRIÐJI HLUTI: HARRÝ MORGAN, Vetur (11 til 18)

11. kafli

12. kafli

13. kafli

14. kafli

15. kafli

16. kafli

17. kafli

18. kafli

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist