< Á hverfanda hveli

Árni B. Helgason

 

Skattlendur jarðar og jarðargróðinn

 

Marinus van Reymerswale: Skattheimtumaður (1542)

Marinus van Reymerswale: Skattheimtumaður (1542)

 

 

"Átökin eru milli tveggja grundvallaratriða, vígvöllurinn liggur eftir öllum löndum, öllum sjó, öllu lofti; en einkum þó gegnum miðja vitund okkar sjálfra..."  Atómstöðin, 1948

 

 

Umheimurinn

 

Um langt árabil hefur atvinnuleysi verið aukast á Vesturlöndum. Liggur nærri að til jafnaðar sé tíundi hver vinnufærra manna skráður atvinnulaus eða sé beint eða óbeinlínis á framfæri hins opinbera af völdum sívaxandi langtíma-atvinnuleysis. Þar fyrir utan er fjöldinn allur sem vinnur meira og minna svarta vinnu eða er á hinn bóginn í löglegri láglaunavinnu sem skilar þó vart tekjum er nægi nema fyrir brýnustu lífsnauðsynjum. Jafnframt hefur ekkert lát orðið á sjálfvirknivæðingu, bæði í framleiðslu- og þjónustugreinum, m.a. vegna þess hve skattar leggjast þungt á vinnuafl en miklu síður á afl véla og sjálfstýrikerfa, á orku og hráefni.

Það er ekki fyrr en á allra seinustu árum sem sömu þróunar fer að gæta hér á landi, að ábati vegna sjálfvirknivæðingar og aukinnar framleiðni nær ekki að standa undir fjölgun starfa, að atvinnuleysi eykst þar af leiðandi og verður viðvarandi, og upp á síðkastið langtíma-atvinnuleysi ásamt nýrri, afar fræðilegri tegund örorkumats. Og líkt og annars staðar á Vesturlöndum hefur þessi þróun haldist í hendur við sífellt meira vægi sérfræði og sérgreiningar á flestum sviðum, samfara æ flóknari kerfismyndun á nær öllum sviðum. Lög og reglugerðir, kjarasamningar, vinnuskipulag, framleiðsluferli, viðskiptaferli, svo fátt eitt sé nefnt – allt tekur á sig sífellt flóknari myndir og illskiljanlegri þeim sem ekki eru heima í fræðunum, sem á hinn bóginn veldur sívaxandi eftirspurn eftir sérfræði á hinum ólíklegustu sviðum – sem því miður stafar af hreinni gerviþörf á æ fleiri sviðum, vegna hinnar flóknu kerfismyndunar.

Þannig er hið vestræna velferðarsamfélag að klofna í fylkingar þar sem jaðrar við að um það bil fimmtungur búi við atvinnuleysi eða opinbert framfæri eða starfi á mjög lágt launuðu og þá lítt skattlögðu sviði, oft við einhvers konar færibandaframleiðslu, mjög einhæfa og vélræna, eða við hraðþjónustu af samsvarandi toga – en hins vegar eflist annar eins fimmtungur sérhæfðs og hálaunaðs menntafólks, mjög skattlagðs, og þar af ákveðinn hluti starfandi að margvíslegri kerfisfræði, ýmist túlkandi kerfin eða gerandi þau enn flóknari, kallandi á enn meiri sérgreiningu. Bil beggja á milli þessara tveggja hópa af sitthvorum meiði er þá rúmur helmingur samfélaga er sinnir hinum margbreytilegustu verkum og ýmissi almennri þjónustu, þá með miðlungs laun, allt frá því að vera rífleg láglaun upp í hálaun í lægri kantinum, misskattlögð eftir því.

Vegna vélvæðingar og stóraukinnar framleiðni í almennum iðnrekstri vega beinar launagreiðslur æ minna í afkomu, enda jafnframt að stórum hluta á lítt skattlögðu láglaunasviði. Almenn þjónusta við reksturinn, að miklu leyti óbeinar launagreiðslur, vegur á hinn bóginn sífellt þyngra enda hvort tveggja í senn yfirleitt hátt launuð og hátt skattlögð svo að þrátt fyrir allt á iðnrekstur undir högg að sækja. Á sama tíma bjóða þróunarlönd ekki einungis upp á ódýr hráefni og ódýrt vinnuafl, og lítt sem ekkert skattlagt, heldur einnig í síauknum mæli upp á ýmsa rekstrarþjónustu á sérfræðisviði á mun hagkvæmari kjörum en tíðkast í gömlu iðnríkjunum. Afleiðingin er sú að iðnrekstur heldur áfram að færast til þróunarlandanna án þess þó að þau njóti neins verulegs ábata af vegna þess hve laun eru lág, í raun oft svo lág að verða vart neitt skattlögð, og verð á orku og hráefnum almennt mjög lágt, enda heimsmarkaðsverði á hvoru tveggja í raun stýrt af iðnríkjunum með því sjálf leggja þau litla sem enga skatta eða álögur á eigin auðlindir, orku eða hráefni – að olíu einni undanskilinni.

 

Íhugum almennar afleiðingar þess að Vesturlönd tækju að skattleggja í meira mæli eigin auðlindir, orku og hráefni, en lækka að sama skapi tekju- og neysluskatta. Ekki einungis olía heldur einnig kol, stál, timbur, fiskur, búpeningur, ræktarland, byggingarland, jarðefni, jarðhiti, vatnsorka – flest allt er heyrði undir slíka frumvinnslu myndi þá heldur stíga í verði en ræktarland myndi þó heldur lækka í verði enda væri ekki um beinar álögur á það að ræða heldur fyrst og fremst afnám eða lækkun framleiðslustyrkja. En slík almenn verðhækkun á auðlindum, orku og hráefnum myndi annars stuðla að hærra heimsmarkaðsverði og þróunarlöndin njóta góðs af í hærri einingaverðum af útflutningi sínum.

Um leið myndi draga úr eftirspurn eftir innfluttum varningi í iðnríkjunum en öll meðferð og nýting orku og hráefna batna á úrvinnslustigi svo sem ávallt gerist þegar slík verðhækkun verður. Þrátt fyrir minni útflutning þróunarlandanna til iðnríkjanna héldust tekjur þeirra fyrrnefndu af viðskiptunum engu síður óbreyttar vegna hærri einingaverða, hærri virðisauka af hverrri framleiðslueiningu, sem á hinn bóginn gerði þeim kleift að hækka laun, efla framleiðslu til eigin nota og sinna samfélagslegum verkefnum.

 

Mynd: Jóhann Pálsson / Fréttabréf Þróunarsamvinnustofnunar 2004

Spennt börn bera ný húsgögn inn í Msakaskóla í Malaví í janúar 2004

 

Veruleg lækkun tekju- og neysluskatta á Vesturlöndum - að óbreyttum kaupmætti launa, sem svaraði lækkun launatengdra gjalda og lækkun virðisaukaskatts - myndi á hinn bóginn leiða til lækkunar viðhaldskostnaðar og allrar sérfræðiþjónustu og því stuðla að bættri nýtingu og endingu hluta, véla og tækja. Og með því hlutirnir entust lengur væri því minna sóað af hráefnum og orku, enda væri þá hvort tveggja dýrara vegna hærri skattlagningar. Til langs tíma litið færu því hlutfallslega færri handarverk til nýsmíði hlutanna en hinu eldra og notaða væri á hinn bóginn betur haldið við – m.ö.o. öll nýting myndi batna. Framleiðslugeta heimsins nýttist þá því fremur þeim þjóðum sem skemmra eru á veg komnar í nýtingu tækninnar, samfara því að útflutt tækniþekking iðnríkjanna – sem er oft einn dýrasti útgjaldaliður þróunarlandanna – myndi lækka í verði. Orsökin til þess væri einfaldlega sú, að mannaflið, hvort sem væri í seldri hátækniþjónustu eða á öðrum sviðum, væri lítt sem ekkert skattlagt, hvorki í iðnríkjunum né annars staðar.

Áhrifin á heimsviðskipti yrðu víðtæk. Þróunarríkin flyttu hlutfallslega minna út af vöru til neysluríkjanna, gömlu iðnríkjanna, en fengju þó í heildina tekið svipað verð fyrir útflutninginn, m.ö.o. hærri einingaverð sem svaraði almennri hækkun auðlindagjalda, hráefna- og orkuskatta í heiminum. Útflutningstekjurnar myndu jafnframt nýtast þeim til kaupa á meiri sérfræðiþekkingu og hátækniþjónustu en áður – vegna minni skattlagningar launa á Vesturlöndum. Vöruskiptajöfnuður myndi því færast nær eðlilegu horfi – þannig að í stað mjög einhliða flutnings á neysluvarningi frá þróunarlöndum til hinna þróaðri og siglinga vanhlaðinna skipa til baka, myndi draga úr ofurflutningum á annan veginn en þeir heldur aukast á hinn eða standa í stað, þannig að draga myndi úr siglingum í heild en flutningar, og þjónustujöfnuður á sinn hátt, heimsálfanna á milli, nálgast að vera í jafnvægi.

 

Þannig hamla háir tekju- og neysluskattar á Vesturlöndum jafnt framleiðslu sem þjónustu sem útflutningi í þeim löndum. Lágt heimsmarkaðsverð á orku og hráefnum, vegna lágsköttunar á þeim sviðum um allan heim, að olíu einni undanskilinni, veldur á hinn bóginn óeðlilega lágu verði á útflutningsvörum þróunarlandanna. Vegna þess hve illa er farið með varninginn og hann nýttur til skamms tíma, m.a. af völdum ofursköttunar allrar viðhaldsþjónustu á hálaunasvæðunum, er vítahringurinn sífellt til staðar – krafan um nýjan, ódýran varning unninn úr lítt skattlögðum hráefnum, með lítt skattlagðri orku og lítt skattlögðum vélum og afar ódýru vinnuafli þróunarlandanna. Vítahringurinn lokast síðan með því stór hluti virðisauka þróunarlandanna fer til kaupa á ofurskattaðri sérfræðiþekkingu og hátækniþjónustu hinna þróaðri ríkja.

Þegar allt kæmi til alls myndi veruleg lækkun tekju- og neysluskatta á Vesturlöndum samfara almennri hækkun auðlindagjalda, hráefna- og orkuskatta í heiminum leiða af sér bætta nýtingu og þar af leiðandi sparnað á mörgum sviðum og heimsviðskipti myndu í meira mæli mótast af raunverulegri þörf en ekki tilbúinni þörf, mótaðri af ímyndafræðingum.

Í stað auðmýkjandi styrkja og fjármagnsfyrirgreiðslu Vesturlanda til handa þróunarlöndunum gætu fyrrnefndu ríkin snúið þróuninni við með því einu að hækka auðlindagjöld, hráefna- og orkuskatta heimafyrir en lækka jafnframt tekju- og neysluskatta. Þá kæmi af sjálfu sér að þróunarlöndin fylgdu á eftir með samsvarandi álögum á eigin auðlindir, orku og hráefni – þannig að í heildina tekið myndi heimsmarkaðsverð hækka á þessum sviðum. Um leið myndi lækkun tekju- og neysluskatta á Vesturlöndum leiða til minni mismunar á launakostnaði í þróunarlöndunum og á Vesturlöndum – en jafnhliða heildarlækkun launakostnaðar í neysluríkjunum, vegna lækkunar launatengdra gjalda, gæfist þróunarlöndunum færi á að nýta hluta síns virðisauka af hráefna og orkusköttum, m.ö.o. virðisaukann af hærri einingaverðum útflutnings, til að auka menntun og verkþekkingu og þar með hækka laun.

 

Mynd: Tristan Savatier / www.loupiote.com: Iceland

 

Þá er þeir komu til Kapernaum, gengu menn þeir, sem heimta inn musterisgjaldið, til Péturs og spurðu: "Geldur meistari yðar eigi musterisgjaldið?" Hann kvað svo vera.

En er hann kom inn, tók Jesús fyrr til máls og mælti: "Hvað líst þér, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?"

"Af vandalausum," sagði Pétur.

Jesús mælti: "Þá eru börnin frjáls. En til þess vér hneykslum þá ekki, skaltu fara niður að vatni og renna öngli, taktu síðan fyrsta fiskinn, sem þú dregur, opna munn hans og muntu finna pening. Tak hann og greið þeim fyrir mig og þig."

Matteus, 17, 24-27

 

Ísland og jarðargróðinn

Frumrót alls virðisauka liggur í jarðargróðanum – landinu, hafinu og jafnvel í orkulindum loftsins líka – og breytir engu hvort menn vinna að beinni uppskeru gróðans, úrvinnslu gróðans eða að allaveganna afleiddri þjónustu sem menn ýmist kaupa eða selja fyrir ígildi gróðans – fyrir peninga. Jafnframt erum við sífellt að neyta gróðans í einni eða annarri mynd – ýmist beinlínis í formi fæðu, eftir að hún hefur farið um hin ýmsu úrvinnslu- og þjónustustig, eða á hinn bóginn að við nýtum gróðann sem fjármuni – sem fasteignir eða lausafjármuni – eftir tilurð þeirra á hverju úrvinnslustiginu eftir annað, við smíðar, við byggingu, og þá jafnframt fyrir tilstuðlan ýmissar þjónustu.

Til viðbótar við almenna einkaneyslu og fjármunamyndun kemur samneysla, þ.e. kaup hins opinbera – ríkis og sveitarfélaga – á vöru og þjónustu, sem við kostum til með sköttum af margvíslegu tagi, og þar fyrir utan renna margvíslegar tilfærslur um sjóði hins opinbera – niðurgreiðslur, styrkir, bætur, almannatryggingar – til almennrar einkaneyslu og til reksturs atvinnuvega, og er tekna aflað á samsvarandi hátt með sköttum í einni eða annarri mynd, meðal annars af þeim sem njóta tilfærslanna.

Stór hluti útgjalda hins opinbera stafar af tekjustofnum því sjálfu til handa. Gróft á litið má ætla að um þriðjungur útgjalda sé vegna beinna og óbeinna skatta opinberra starfsmanna og hinna ýmsu þjónustuaðila og verktaka, auk álags vegna virðisaukaskatts, og miðast launagreiðslur þá jafnframt við að laun standi undir greiðslubyrði launþega vegna virðisaukaskatts – og undir greiðslubyrði vegna launaskatta þeirra sem einstaklingar skipta við...

Afleiðingin er sú að verulegur hluti alls verðlags og kauplags er fólginn í sýndarfé er magnar upp allar stærðir án þess að nein raunveruleg ígildi vöru eða þjónustu standi á bak við. Sýndarféið er þvert á móti í eilífri hringrás um hagkerfið án þess að andvirði þess komi nokkurn tímann í ljós, enda engu virði til að dreifa, nema á pappírunum – í háum bókhaldstölum hins opinbera jafnt sem í öðru bókhaldi, jafnt tekju- sem útgjaldamegin, svo samofin sem viðskipti hins opinbera og fyrirtækja og einstaklinga eru.

 

 

 

Þjóðarútgjöld samsvara um það bil brúttótekjum landsmanna í heild, þá að meðtöldum sköttum. Einkaneysla samsvarar öllum útgjöldum einstaklinga nema fjármunamyndun vegna íbúðarhúsnæðis – samkvæm skilgreiningu – að launatengdum gjöldum einstaklinganna greiddum en að viðbættum ýmsum tilfærslum hins opinbera. Hreinar tekjur einstaklinga eru jafnframt útgjöld atvinnuveganna og tilfærslur hins opinbera, auk þess sem atvinnuvegirnir í raun greiða og annast innheimtu skatta fyrir hið opinbera, á samsvarandi hátt og hið opinbera innheimtir og greiðir sjálfu sér tekjuskatt af öllum greiðslum til sinna starfsmanna.

 

Rúmur helmingur skattekna rennur til samneyslu, þ.e. til kaupa hins opinbera á ýmissi vöru og þjónustu, og þá ekki síst til launagreiðslna og ýmissar verktöku, en um þriðjungur í ýmsar tilfærslur fjár, sem renna að miklu leyti beint eða óbeint til einstaklinga, til einkaneyslu, hins vegar til atvinnuveganna, þá að hluta til óbeint til einstaklinga, að hluta til í fjárfestingar. Það sem eftir stendur af skattfé rennur til fjármunamyndunar hins opinbera og í ýmislegt ótilgreint. Um fjórðungur allrar fjármunamyndunar er annars fólginn í íbúðarhúsnæði, sem sagt einstaklinga, en rúmur helmingur stafar af fjárfestingum atvinnuveganna.

 

Þó að fjármunamyndun hins opinbera vegi minnst allrar fjárfestingar, ber að hafa í huga að fjárfestingar atvinnuveganna eru að þó nokkru leyti vegna ýmissar þjónustu við hið opinbera, og eins njóta þær ýmissa tilfærslna og stuðnings af skattfé, svo sem niðurgreiðslna. Þá ber og að hafa í huga að ýmis vörugjöld og ekki síst virðisaukaskattur eru að meira og minna leyti fólgin í niðurstöðutölum einkaneyslu og fjármunamyndunar og að nokkru leyti í samneyslunni. Einungis einkaneyslan reiknast að frádregnum beinum tekjuskatti neytenda – sem samneyslan og fjármunamyndunin á hinn bóginn fela í sér sem verulegan hluta kostnaðar.

 

 

 

Tilfærslur hagkerfisins – rætur sýndarfjárins

Einar dýpstu rætur sýndarfjár hagkerfisins liggja annars vegar í háu tekjuskattshlutfalli og hins vegar í persónuafslætti skatta. Þetta tvennt veldur því að fjármagn er í raun fært til – af hálaunasviði yfir á láglaunasvið, sem einnig mætti orða svo, að reikningslega séð sé rekstur á láglaunasviði niðurgreiddur af rekstri á hálaunasviði – og væru þó ekki öll kurl komin til grafar. Persónuafsláttur hins opinbera hefur í för með sér að því lægri sem laun eru, því lægra er tekjuskattshlutfallið í reynd. Afleiðingin er sú að rekstur á láglaunasviði beinlínis nýtir sér persónuafsláttinn til að greiða lægri heildarlaun en ella – nýtur þannig óbeinna tilfærslna, niðurgreiðslna, af hálfu hins opinbera, sem það á hinn bóginn aflar tekna til með hærri tekjuskatti af hálaunasviði, sem hálaunasviðin aftur á móti bæta sér upp með hærri kröfum til launa en ella.

Þessar tilfærslur valda verulegum skekkjum í öllum rekstri, þar sem rekstur á hálaunasviði verður mun dýrari en ella á sama tíma og rekstur á láglaunasviði er í raun niðurgreiddur af hinu opinbera. Fyrirtæki leitast því fremur við að spara á hálaunasviði, meðal annars með samþjöppun og sameiningu í því skyni að minnka óeðlilega háan stjórnunar- og sérfræðikostnað, vegna hinnar háu skattlagningar á því sviði, en á hinn bóginn að auka sem mest reksturinn á láglaunasviði, meðal annars með hagræðingu í formi véla og fjöldaframleiðslu sem stýrt er af láglaunuðu og þar af leiðandi niðurgreiddu vinnuafli, samfara því að starfsfólki er fækkað.

Gallinn er sá að slík hagræðing er að því leyti fölsk sem svarar til niðurgreiðslanna. Því að á sama tíma og fyrirtæki á láglaunasviði hagnast þannig séð reikningslega eykst kostnaður á hálaunasviðum þjóðfélagsins óeðlilega þar sem skattbyrðin eykst í réttu hlutfalli við skattasparnaðinn á láglaunasviðum – niðurgreiðslurnar. Það skekkir svo myndina enn meira þegar fyrirtæki leita á erlenda láglaunamarkaði eftir kaupum á ýmissi vöru og þjónustu vegna þess hve hún er orðin dýr á hinu innlenda hálaunasviði – af völdum skattanna sem ganga til niðurgreiðslna láglaunasviðanna...

Fullnýttur persónuafsláttur nemur um 330 þús. krónum á ári fyrir hvern launþega, ellilífeyrisþega og bótaþega, eða sem kann að svara í heild til um 60 milljarða króna á ári þó í raun sé einungis sýndarfé. En greiddir tekjuskattar (að meðtöldu útsvari) nema um 130 milljörðum króna á ári hverju, svo að til jafnaðar má ætla að persónuafslátturinn lækki skatta um þriðjung – að 38% skatthlutfall jafngildi um 25% innheimtu af öllum skattskyldum tekjum landsmanna. Í raun vegur afslátturinn á móti drýgstum hluta reiknaðs skatts af lægstu tekjum en því minna sem tekjurnar eru hærri, og sáralítið sem hlutfall af hæstu tekjum.

 

Þá stendur eftir spurningin: Hvaðan koma hálaunasviðunum tekjur til að standa undir niðurgreiðslum láglaunasviðanna? Svarið liggur trúlega framar öðru í skráningu gengis. Útflutningsatvinnuvegirnir, sem í innsta kjarna eru flestir á láglaunasviði, fá minna í sinn hlut en þeim bæri ef þeim væri ætlað að standa undir opinberum gjöldum til jafns við hálaunasviðin án niðurgreiðslna persónuafsláttarins. Leiðin til leiðréttingar og afnáms niðurgreiðslna – tilfærslanna, sýndarfjárins – snýst því m.a. um leiðréttingu gengisskráningar jafnframt leiðréttingu greiddra heildarlauna á öllum sviðum jafnframt leiðréttingu tekjuskattshlutfalls, að verði hið sama af öllum tekjum og þá reiknað án nokkurs persónuafsláttar.

Útflutningsatvinnuvegirnir, sem jafnframt fela í sér flestar frumvinnslugreinarnar og láglaunasviðin í innsta kjarna, gjalda þannig óbeint sjálfir fyrir niðurgreiðslurnar af hálaunasviði, sem hið opinbera síðan miðlar þeim með tilfærslum sínum, en neytendur á hinn bóginn njóta í formi óeðlilega ódýrs innflutnings vegna hinnar röngu gengisskráningar. Þannig rekur sig hvað á annars horn í tilfærslum eftir tilfærslur þar sem hagræðing í rekstri snýst fyrst og fremst um að þrengja umsvif á hálaunasviði, þar sem skattlagning er mest, m.ö.o. draga úr stjórnunarkostnaði, en njóta þá hlutfallslega því meiri niðurgreiðslna á láglaunasviði.

Ef tilfærslanna, niðurgreiðslna skatta, nyti ekki við, en launaskattar væru jafnt hlutfall af öllum launum, að greiddum launum óbreyttum, m.ö.o. að óbreyttum kaupmætti, þá þyrfti láglaunakostnaður eðli málsins samkvæmt að hækka en hálaunakostnaður að lækka. Af sjálfu leiddi með leiðréttingu gengisskráningar að útflutningsatvinnuvegirnir hefðu úr meira að spila til að standa undir heldur hærri láglaunakostnaði jafnframt því að hið opinbera, sem ber tiltölulega lítinn láglaunakostnað, og margvísleg innlend þjónusta myndu spara útgjöld vegna lægri hálaunakostnaðar. Í reynd myndi heildarskattheimta lækka, samfara lækkun útgjalda hins opinbera og lægri verðlagningar margvíslegrar innlendrar hálaunaþjónustu, en hreint innflutningsverð (cif) myndi heldur stíga í verði. Meðalkaupmáttur héldist sem næst óbreyttur en hlutföll neysluútgjalda breyttust á þann veg að innlend vara og þjónusta myndi lækka í verði á flestum sviðum en hreint innflutningsverð fara heldur hækkandi á sama tíma og innlendur sölukostnaður innflutnings færi þó lækkandi.

 

20% flatur tekjuskattur – eða 10%...?

Ef persónuafsláttur (e.t.v. um 60 milljarðar kr. á ári) væri afnuminn en tekjuskattshlutfall lækkað úr um 38% í 20%, að óbreyttum tryggingagjöldum (um 5%), þá myndu tekjuskattar hins opinbera lækka um 30 milljarða, úr um 130 milljörðum króna í um 100 milljarða. Jafnframt myndi launakostnaður hins opinbera jafnt sem alls atvinnulífsins breytast á þann veg að lægstu heilsárslaun, um 1 milljón króna, þyrftu að hækka í rúmar 1,1 milljónir króna en 5 milljóna króna laun að lækka í um 4,4 milljónir króna – miðað við að greidd laun, hið eiginlega neyslufé, stæði jafnt eftir sem áður. Heildarlaun í kringum 1,7 milljónir myndu standa nánast í stað, þar sem launatengd gjöld væru svipuð og áður. En vegin meðallaun í landinu eru verulega hærri, e.t.v. um 3 til 3½ milljónir króna að meðtöldum launatengdum gjöldum, svo að í heild myndi launakostnaður skreppa talsvert saman, ekki síst hjá hinu opinbera.

Heildarlaunakostnaður opinberra starfsmanna kann að nema um 120 milljörðum króna, mjög gróft ágiskað, en ársverk unnin af opinberum starfsmönnum nema um 29 þúsundum á ári hverju. Þar fyrir utan greiðir hið opinbera óbein laun við kaup á margvíslegri vöru og þjónustu, svo að í heildina tekið kunna beinar og óbeinar launagreiðslur hins opinbera að nema um 200 milljörðum króna, að frádregnum kostnaði er lítið myndi breytast, svo sem vegna erlendra aðfanga og ýmissa tilfærslna. (Samneysla og opinber fjárfesting nemur til samans um 250 milljörðum af alls um 400 milljarða króna veltu hins opinbera). Það er því ekki fráleitt að ætla að sparnaður hins opinbera vegna lækkunar launatengdra gjalda gæti numið a.m.k. sem svaraði 30 milljarða króna skattalækkuninni, sérstaklega með tilliti til þess hve margir opinberir starfsmenn eru með sérfræðimenntun og tiltölulega hátt launaðir eftir því, svo sem margt starfsfólk í heilbrigðisþjónustu og hjá mennta- og rannsóknarstofnunum og í innsta kjarna stjórnsýslunnar, auk þess sem aðkeypt vara og þjónusta hins opinbera er yfirleitt fremur í dýrari kantinum, oft á einhverskonar sérfræðisviði eða með iðnálagi.

Vissulega er fremur fátt fólk í atvinnulífinu með lægri heildarlaun en 1,7 milljónir króna, eða sem svarar 1,3 milljónum að slepptum launatengdum gjöldum, og mun færri með allægstu laun, um 1 milljón króna, sem yrðu að hækka um rúm 100 þúsund kr. á ári til að rísa undir hærri launatengdum gjöldum. Ef aftur á móti er litið til grunnlauna, að yfirvinnu slepptri, sem væri hin raunhæfa viðmiðun, myndu all margir fylla þennan lægst launaða flokk. Leiðrétting gengis – ef þörf væri á, að teknu tilliti til heildarlækkunar launatengdra gjalda – yrði því að miðast við að frumvinnslan og útflutningsatvinnuvegirnir bæru 1% til 10% hækkanir vegna launatengdra gjalda e.t.v. um 15  til 20 þúsund manns, en þá ber jafnframt að hafa í huga að um leið lækkuðu hin hærri laun á vinnumarkaði sem svaraði lækkun launatengdra gjalda þeirra.

Sé hins vegar litið til ellilífeyrisþega og þeirra er þiggja bætur af ýmsu tagi gæti sá hópur verið all stór sem er með lægri heildarlaun en 1,7 milljónir króna, eða á bilinu 1 til 1,3 milljónir að launatengdum gjöldum slepptum. Þar til viðbótar koma lægst launuðustu launþegar sem starfa á ýmsum öðrum sviðum en við útflutningsframleiðslu. Breyting er fæli í sér afnám persónuafsláttar samfara lækkun tekjuskattshlutfalls og leiðréttingu gengis væri að ýmsu leyti erfiðari viðfangs gagnvart þessum hópum, sérstaklega með tilliti til lífeyrisgreiðslna, sem þyrftu að hækka um 1% til 10%, hinar lægstu, til að vega á móti hærri launatengdum gjöldum – en án þess að bein innistæða sé endilega fyrir hækkunum í sjóðunum.

Einfaldast leiðin væri því að lækka tekjuskattshlutfall enn meira og þá jafnframt virðisaukaskatt, sem á ekki síður stóran hlut í tilurð sýndarfjárins en tekjuskattarnir. Þá myndu ekki einungis nánast öll launatengd gjöld lækka, allt niður í hin smæstu, heldur myndi verðlag jafnframt lækka til muna vegna minni launakostnaðar, ekki síst hjá hinu opinbera sem ber hlutfallslega mun hærri kostnað vegna launa en hið almenna hagkerfi, vegna þess hve hið síðarnefnda er vélvæddara.

 

 

Öll laun mættu þar af leiðandi lækka enn meira en sem næmi lækkun vegna lægri tekjuskatts og virðisaukaskatts – án þess að kaupmáttur skertist – einmitt vegna lækkunar alls sýndarfjárins. Jafnframt, til mótvægis lægri tekju- og virðisaukaskatti, væri hugað að nýjum skattstofnum er ekki hefðu sýndarfjármyndun í för með sér.

 

Full niðurfærsla launa- og neysluskatta –

og alls verðlags og kauplags

Þrátt fyrir að útgjöld neytenda samsvari tekjum þeirra að sköttum greiddum (samsvari útborguðum launum sem kallað er), þá samt sem áður fer önnur hver króna útgjaldanna til greiðslu á virðisaukaskatti og tekjusköttum þeirra er selja vöru og þjónustu – enda hvort tveggja innbyggt í verð jafnt sem vinnulaun, allt það sem myndar grundvöll einkaneyslunnar. Neytandinn greiðir því ekki einungis eigin skatt, oft um þriðjung til fimmtung launa, til hins opinbera heldur er samsvarandi skatthlutfall einnig fólgið í flestu því sem neytandinn kaupir. Gróft á litið má ætla að skattar nemi því a.m.k. um helmingi af heildarútgjöldum landsmanna þrátt fyrir að raunveruleg umsvif hins opinbera í rekstri og þjónustu, því sem við köllum samneyslu, sé innan við þriðjungur allrar neyslu, og þó í raun enn minna, að teknu tilliti til þess hve hið opinbera skattleggur sjálft sig grimmt, vegna hins mikla vægis beinna og óbeinna launa í öllum opinberum rekstri.

Mismunurinn liggur í sýndarfénu – á eilífri hringrás um hagkerfið án þess að eiginlegt andvirði þess birtist nokkurs staðar nema í háum tölum alls verðlags og kauplags og þar með í sköttum.

Því fremur sem neyslu- og tekjuskattar væru lægri – og laun í krónutölu þá að sama skapi lægri en að óbreyttum kaupmætti – en skattar væru á hinn bóginn lagðir því fremur á frumstofna hagkerfisins, í eitt skipti fyrir öll, þá kæmi í ljós verðhjöðnun á öllum sviðum og um leið myndu skattar nálgast að vera raunverulegt ígildi samneyslunnar, auk þess sem tilfærslur lækkuðu á sama veg. Sýndarfé hagkerfisins myndi ekki einungis lækka að tölugildi heldur jafnframt og ekki síst sem hlutfall af heild. Tekjur jafnt sem útgjöld hins opinbera myndu því dragast verulega saman í krónum talið án áhrifa á umsvifin sem slík, enda væri umbreytingin í raun alls óháð hefðbundinni skiptingu stjórnmálastefna í hægri og vinstri og snerist ekki um hversu mikil hlutdeild hins opinbera skuli vera í sjálfu sér, heldur fyrst og fremst um breytta skattstofna, burtséð frá því hvernig að samfélagslegum verkefnum sé annars staðið.

 

Mynd: ©2001 Emanuel Brito / www.xaraxone.com

Hugsum okkur verulega einföldun skattkerfisins. Virðisaukaskattur væri einungis eitt þrep, 10%, og án allra undanþága nema e.t.v. á mjög afmörkuðum sviðum menningar- og líknarmála. Tekjuskattur til ríkisins væri enginn, einungis 10% útsvar til sveitarfélaga af öllum tekjum manna, hverju nafni sem þær nefndust – almennar launatekjur, fjármagnstekjur eða tekjur af rekstri fyrirtækja. Og til enn frekari einföldunar væri fyrirtækjum óheimilt að eiga hvert í öðru, hvað þá að eiga hlut í sjálfum sér. Tekjustofnar útsvars væru með öðrum orðum og ávallt einstaklingarnir sjálfir, hvort sem kölluðust almennir launþegar, rekstraraðilar eða eigendur fyrirtækja eða fjármagns – útsvar væri því greitt af öllum umsvifum manna og í raun væri litið á arð fyrirtækja jafnt sem af fjármagni sem arð eigendanna.

Heildarlaun launþega myndu lækka að tölugildi sem svaraði lækkun skattstiganna, þ.e. lækkun launatengdra gjalda og lækkun virðisaukaskatts, og verðlag og útseld vinna þar af leiðandi lækka samsvarandi. Lækkun verðlags og útseldrar vinnu hefði þá jafnframt í för með sér að laun mættu lækka enn meira að tölugildi en sem svaraði lækkun skattstiganna – væru raunlaun, hinn eiginlegi kaupmáttur, engu að síður hin sömu og áður þó að almennt kauplag lækkaði þannig til jafnaðar um allt að þriðjungi, þá mest í hálaunuðustu greinum, þeim sem mest eru skattlagðar, jafnvel allt að því um helming á sama tíma og heildarlaun í lægri kantinum lækkuðu e.t.v. um fimmtung – allt að óbreyttum kaupmætti.

Svo litið sé til frumvinnslugreinanna, sem fyrst og fremst byggja á útflutningi og miða afurðaverð því við verð á erlendum mörkuðum og við heimsmarkaðsverð, þá myndi launakostnaður, þrátt fyrir óbreyttan kaupmátt, lækka verulega sem hlutfall af útflutningstekjum. Með því tekjuskattur væri afnuminn en einungis 10% útsvar lagt á launþega jafnt sem á arð og hagnað og fjármagnstekjur, þá skapaðist verulegt svigrúm til greiðslu orku- og auðlindagjalda af öllum slíkum rekstri.

 

Mótvægi orku- og auðlindagjalda

Reikna má með að launaskattar í stóriðjugreinum og afleiddum þjónustugreinum ásamt sköttum af rekstri muni nema á ári hverju allt að því einum tug milljarða króna á komandi árum (að Kárahnjúkaframkvæmdum loknum), að óbreyttu skattkerfi. Með verulegri niðurfærslu skatta og alls verðlags í landinu mætti því á móti leggja orkugjöld á stóriðju sem næmi svipaðri upphæð eða hátt í 10 milljarða króna á ári hverju, er fram í sækti, án þess að útflutningstekjur stóriðjunnar skertust. Og þá ber að hafa í huga að hver slík skattheimt króna myndi vega mun þyngra í útgjöldum hins opinbera vegna þess hve útgjöld þess hefðu lækkað til muna við niðurskurð launatengdra gjalda, jafnt starfsmanna hins opinbera sem annarra er seldu því vöru og þjónustu – enda öll vara og öll þjónusta þá orðin mun ódýrari.

Slíkt hið sama myndi gerast í sjávarútvegs og fiskvinnslugreinum og í allri afleiddri þjónustustarfsemi – að launatengd gjöld jafnt sem allur annar almennur rekstrarkostnaður myndi skreppa saman, þrátt fyrir óbreytt raunlaun, óbreyttan kaupmátt launa. Reikna má með að þessar greinar standi nú beint og óbeint undir 10 til 20 af hundraði allra tekjuskattsgreiðslna í landinu og á sama hátt undir samsvarandi hluta allrar virðisaukaskattsveltu landsmanna – þá með tilliti til hinna margvíslegu tengsla við hinar ýmsu þjónustugreinar. En þetta hlutfall gæti þá svarað til um 17 til 34 milljarða króna hlutdeildar í þessum tveimur stærstu tekjustofnum hins opinbera. Um leið og þessir tekjustofnar myndu skerðast verulega og tekjuskattsstofninn reyndar falla niður en einungis útsvar og tryggingagjöld standa eftir og talsvert skertur virðisaukaskattur, samfara að minnsta kosti fjórðungs samdrætti í útgjöldum þessara greina og allra afleiddra greina vegna lækkunar launa og alls verðlags í landinu, þá kæmi fram aukinn hagur sem hlypi á tugmilljörðum króna að útflutningstekjum óbreyttum.

Að öllu þessu athuguðu má gróflega ætla að sjávarútvegur gæti til jafnaðar borið um 25 milljarða króna auðlindagjald, er fram í sækti, og þá ekki síður með tilliti til þess að honum væri þá ekki lengur ætlað að kaupa til sín veiðiheimildir, líkt og verið hefur, með ærnum vaxta- og afskriftakostnaði, heldur einungis greiða hlutfallsgjald af afla, sem í raun ákvarðaðist annars vegar af sókn í auðlindina en á hinn bóginn af greiðslugetu fiskvinnslunnar með tilliti til útflutningsverðmæta – og allur almenningur þó í raun greiddi þegar upp væri staðið, svo samofnar frumvinnslugreinunum hinar ýmsu þjónustugreinar eru.  Þó gjaldið væri lagt á óunninn afla, jafngilti það í raun gjaldi af öllu útflutningsverðmæti sjávarafurða, sem hefur verið um 125 milljarðar króna til jafnaðar, nærri því 2/3 alls vöruútflutnings. Gjaldið jafgilti því um 20 af hundraði alls útflutningsverðmætis frumvinnslunnar en á móti kæmu allar hinar fjölmörgu kostnaðarlækkanir sem hér hefur verið lýst. Og hið sama gildir um hverja slíka skattheimta krónu, líkt og af stóriðjunni, eftir niðurfærslu alls kauplags og verðlags, að hver og ein myndi vega mun þyngra í útgjöldum hins opinbera en krónurnar sem nú hringsóla um hagkerfið, að minnsta kosti önnur eða þriðja hver í formi sýndarfjár, snauðu að andvirði.

 

 

 

Hrein einingaverð erlendra aðfanga (cif) útflutningsatvinnuveganna myndu standa í stað á sama tíma og innlend aðföng, vara og þjónusta, myndu lækka í verði vegna minni skattlagningar, á samsvarandi hátt og greidd laun, m.ö.o. vegna niðurfærslu verðlags og kauplags. Erlend aðföng myndu því minnka vegna hagstæðara verðs á innlendri vöru og þjónustu. Mismunur jákvæðs viðskiptajöfnuðar, sem af leiddi, myndi nýtast til nýrra og þá hagkvæmari stofnfjárfestinga innanlands fremur en til erlendra fjárfestinga, svo og til kjarabóta starfsmanna.

 

 

Auk 10 milljarða króna nýrra orkugjalda af stóriðju og 25 milljarða króna auðlindagjalds væru vörugjöld af atvinnutækjum hækkuð til samræmis við önnur vörugjöld og jafnframt lögð sérstök orkugjöld á almenningsveitur rafmagns, sem miðuðu að hækkun raforkuverðs til atvinnurekstrar og e.t.v. einnig til almennings, sem hvort tveggja er óeðlilega lágt verðlagt miðað við aðra orku, svo að í raun er fólgin hvati til sóunar á mörgum sviðum. Á sama hátt væri stuðlað að bættri nýtingu ýmissa hráefna og hrávöru með álagningu gjalda. Þessir nýju tekjustofnar hins opinbera, 10 milljarðar af stóriðju, 25 milljarða króna auðlindagjald og e.t.v. 5 til 10 milljarða króna aukning á öðrum sviðum myndu samt sem áður, í heildina tekið, nema þó nokkuð lægri upphæð en sem svaraði til heildar skattalækkunar og lækkunar launakostnaðar fyrirtækja samfara niðurfærslu verðlags og kauplags – að óbreyttum kaupmætti – en hver skattheimt króna vægi aftur á móti því þyngra í útgjöldum hins opinbera vegna samdráttar alls sýndarfjárins.

 

Breytingarskeiðið

Það segir sig sjálft að slík umbreyting sem hér er lýst gengi ekki eftir nema á all-löngum tíma, e.t.v. á einum áratug eða svo, eftir því hve gerlegt þætti að fara hratt í sakirnar. Áhrifanna myndi gæta á öllum sviðum þjóðlífs og því mikilvægt að ráðrúm gæfist til aðlögunar. Má hugsa sér að lækkun tekjuskatts væri framkvæmd í fimm áföngum, úr 38% heildarskatti niður í 10% útsvar, samhliða afnámi persónuafsláttar, og að skattar af rekstri og fjármagni væru þá jafnframt aðlagaðir að sömu reiknireglu. Slík breyting myndi svara til 5-6% tekjuskattslækkunar á tveggja ára fresti, alls sex sinnum frá fyrsta ári til hins tíunda. Á samsvarandi hátt væri virðisaukaskattur lækkaður úr 14/24% í 10% á álíka löngu tímabili, þá t.d. þannig að framkvæmdin skaraðist við tekjuskattslækkanir um eitt ár. Tekjuskatts- og virðisaukaskattsbreytingar færu þá fram til skiptis, hvor sitt annað hvert ár, samfara því að orkugjald af stóriðju færi smám saman hækkandi og slíkt hið sama auðlindagjald af sjávarútvegi, að útgjöld frumvinnslugreinanna héldust með öðrum orðum svipuð að teknu tilliti til útflutningstekna, auk þess sem hin ýmsu vöru- og orkugjöld af almennum atvinnurekstri væru smám saman heldur aukin.

Hverju sinni sem breyting ætti sér stað lækkuðu vinnulaun samsvarandi, þ.e.a.s. annars vegar launatengdur kostnaður sem svaraði tekjuskattslækkununum en hins vegar sem svaraði lækkun virðisaukaskattsins, á þann hátt að raunlaun og þar með kaupmáttur lægstu sem hæstu tekna héldist í heildina tekið óbreyttur, og þá eðlilega að teknu tilliti til lækkandi verðlags. Vegna þess hve skattar vega þungt í hærri launum myndu þau lækka hlutfallslega talsvert meira en lág laun, vegna afnáms persónuafsláttar, og af sjálfu sér kæmi að öll útseld vinna og þjónusta, jafnt sem almenn vinnulaun, myndi lækka því meira sem sérfræði- eða hálaunastigið er hærra, skattbyrðin nú meiri. Má þannig gera ráð fyrir að heildarlaun allra landsmanna, að sköttum meðtöldum, lífeyrisgreiðslum og hvaðeina, myndu gróft á litið lækka um þriðjung til jafnaðar.

Hreint einingaverð innflutnings, cif-verð mælt í erlendum gjaldeyri, myndi standa í stað á sama tíma og innlendur kostnaður vöru og þjónustu myndi almennt lækka í krónum talið. Á samsvarandi hátt héldust einingaverð útflutnings óbreytt í erlendri mynt, en kostnaður myndi lækka á flestum sviðum í innlendri mynt, í krónum talið, með þeim afleiðingum að innlend framleiðsla og þjónusta efldist, og þá jafnframt útflutningur, vegna mun hagstæðari framleiðsluskilyrða og meira gagnsæis alls hagkerfisins. Hver króna væri í raun mun verðmætari – verðmæti hvers hlutar og hvers handtaks hefði lægra tölugildi í krónum talið en að óbreyttu raungildi gagnvart rauntekjum, vegna mun minna vægis sýndarfjárins eftir niðurfærslurnar. Eiginlegt raungengi krónunnar myndi því styrkjast að teknu tilliti til niðurfærslu verðlags og kauplags án minnkandi kaupmáttar. Erlend vara og þjónusta myndi vega svipað og áður í útgjöldum, reiknað á hreinu innkaupsvirði í erlendum gjaldeyri, en samsvarandi innlend útgjöld myndu fara lækkandi, þar á meðal álagning á hin erlendu aðföng. Áhrifin kæmu fram í mun jákvæðari viðskiptajöfnuði er ekki síst lægi í auknum hlut sérhæfðrar iðnframleiðslu og sérfræði- og hátækniþjónustu í útflutningi, sem og að allra handa nýsmíði, viðhalds- og rekstrarþjónusta yrði samkeppnishæfari við innflutta vélsmíði – án þess að heildarkaup-máttur hefði í nokkru skerst.

Þannig héldist lækkun verðlags í hendur við lækkun kauplags og með tímanum myndu jafnast skilyrði vaxandi iðn- og þjónustugreina móti stóriðju og sjávarútvegsgreinum, sem fram til þessa hafa í raun notið stuðnings hins opinbera í formi mjög ódýrrar orku og í raun frírrar auðlindar, auk niðurgreiðslna láglauna í formi persónuafsláttar, en sem þær greinar myndu ekki njóta á sama hátt eftir skattabreytingaferlið, og nytu þó engu að síður mun lægri launatengds kostnaðar, sem aðrar greinar. Með afnámi kvótakaupa myndi sjávarútvegurinn ekki síst spara sér háar vaxtagreiðslur og afskriftir (sem í raun jafngilt hafa mjög hárri kvótaleigu) – greiðslur sem mörg undanfarin árin hafa fyrst og fremst hlaðið undir banka- og verðbréfaviðskipti og ekki síst myndað stofn fjárfestinga erlendis, sem margar hverjar hafa glatast en aðrar skilað litlum arði í þjóðarbúið. Það fé myndi á hinn bóginn renna til hins opinbera eftir niðurfærslurnar og um leið vega á móti verulega minnkandi tekjum þess af beinum launa- og neyslusköttum.

Það lægi í hlutarins eðli að auðlindagjald af sjávarútvegsgreinum sem öðrum greinum væri aldrei hærra en svo að útflutningstekjur stæðu fyllilega undir gjaldtöku með tilliti til innlends kostnaðar – myndi gjaldið þannig í raun markast af lögmáli framboðs og eftirspurnar, líkt og orkugjöld af stóriðju tækju mið af heimsmarkaðsverði á útflutningsvörum stóriðjunnar og af almennum kjörum hérlendis.

Sé bein og óbein hlutdeild gjaldeyriskaupa  í opinberum umsvifum og í allri afleiddri þjónustu gróft á giskað um sjöundi hluti útgjalda (sbr. verð/afskriftir t.d. tölvubúnaðar vegna skrifstofuhalds, ferðakostnaðar erlendis, vinnuvéla verktaka vegna vegagerðar, steypustyrktarjárns í opinberar byggingar, o.sv.frv. – án tolla, skatta og innlendrar álagningar), og að sá hluti myndi haldast svipaður á breytingarferlinu, og að annar eins hluti myndi lækka tiltölulega lítið, t.d. almannatryggingar ýmsar og bætur sem fela nú í sér lág launatengd gjöld, en önnur útgjöld væru beinn og óbeinn launakostnaður er lækka myndi um þriðjung – þá má gróft á litið reikna með að heildartekjur jafnt sem heildarútgjöld hins opinbera gætu lækkað um allt að fjórðung – úr um það bil 400 milljörðum í um 300 milljarða á um það bil áratugar löngu breytingarskeiði. Tekjur og útgjöld ríkisins myndu þannig lækka úr 290 milljörðum í um það bil 220 milljarða en hjá sveitarfélögum úr um 110 milljörðum í 80 milljarða – að óbreyttu raunvirði heildartekna jafnt sem útgjalda í heild, m.ö.o. að óbreyttum umsvifum hins opinbera.

 

 

 

Almennar afleiðingar niðurfærslu

Starfsmaður hjá hinu opinbera fær 5 milljónir í árslaun – þar af fer nú hátt í helmingur úr einum vasa hins opinbera yfir í annan. Eftir greiðslu í lífeyrissjóð, staðgreiðslu skatta og greiðslu tryggingagjalda, auk greiðslu 14/24% virðisaukaskatta af all flestum útgjöldum, nema ráðstöfunartekjur hans innan við helmingi heildarlauna – um 2,3 milljónum króna – og færi þó enn engu að síður um þriðjungur útgjalda hans í skatta og álögur þeirra er hann skiptir við.

 

 

Eftir skattalækkanir og þriðjungs niðurfærslu heildartekna myndu tekjurnar jafngilda um 3,3 milljónum króna í heild. Eftir greiðslu í lífeyrissjóð, 10% staðgreiðslu skatta (án persónuafsláttar) og greiðslu tryggingagjalda, auk 10% virðisaukaskatts af nær öllum útgjöldum, næmu ráðstöfunartekjur hans svipaðri upphæð og áður – um 2,3 milljónum króna – en af þeim útgjöldum færi einungis lítið brot í skatta og álögur þeirra er hann skiptir við.

 

 

Starfsmaður í fiskvinnslu er með um 2,5 milljónir í árslaun. Eftir greiðslu í lífeyrissjóð, staðgreiðslu skatta og greiðslu tryggingagjalda, auk greiðslu 14/24% virðisaukaskatta af all flestum útgjöldum, nema ráðstöfunartekjur hans um 1,3 milljónum króna – og færi þó enn engu að síður um þriðjungur útgjalda hans í skatta og álögur þeirra er hann skiptir við.

Eftir skattalækkanir og fjórðungs niðurfærslu heildarlauna myndu tekjurnar jafngilda um 1,9 milljónum króna í heild. Eftir greiðslu í lífeyrissjóð, 10% staðgreiðslu skatta (án persónuafsláttar) og greiðslu tryggingagjalda, auk 10% virðisaukaskatts af nær öllum útgjöldum, næmu ráðstöfunartekjur hans svipaðri upphæð og áður – um 1,3 milljónum króna – en af þeim útgjöldum færi einungis lítið brot í skatta og álögur þeirra er hann skiptir við.

Ljóst má vera af þessum tveimur dæmum að allur innlendur kostnaður myndi dragast verulega saman og verðlag þar af leiðandi lækka umtalsvert. Tölugildi launanna gæti því lækkað enn meira en hér er sýnt án þess að kaupmáttur skertist. Margvíslegur sparnaður af völdum mun liðugra og ekki síst gagnsærra hagkerfis myndi á hinn bóginn almennt stuðla að hækkun kaupmáttarins þrátt fyrir enn meiri lækkun að tölugildi.

Vegna þess hve laun vega þungt í álagningu verslunar og þjónustu myndi álagning almennt lækka, og þá ekki einungis að tölugildi heldur einnig hlutfallslega á sumum sviðum (sér í lagi af innflutningi), og ekki síður myndi allur þjónustu- og framleiðslukostnaður innanlands lækka, sérstaklega í mannaflsfrekri starfsemi, auk sjálfkrafa lækkunar á flestum sviðum af völdum lægri virðisaukaskatts. Öll vara og þjónusta myndi því lækka talsvert í verði, og þá því fremur sem unnin væri hér innanlands. Stóriðja og fiskvinnsla stæði í svipuðum sporum og áður vegna álagningar orku- og auðlindagjalds, án þess þó í raun að missa neinn spón úr aski sínum, vegna hinna miklu útgjaldalækkana er kæmu á móti, en annar iðnaður, sem almennt hefur átt erfitt uppdráttar, myndi eflast til muna, jafnt á heimamarkaði sem á útflutningsmörkuðum, og slíkt hið sama öll þjónusta, ekki síst margvísleg hátækni- og sérfræðiþjónusta sem myndi bera mun lægri álögur eftir niðurfærslu.

Með aukinni eftirspurn eftir vinnuafli myndi atvinnuleysi brátt heyra sögunni til og margra milljarða króna útgjöld vegna atvinnuleysisbóta og ýmissa samverkandi kostnaðarþátta hins opinbera myndu sparast. Lækkun launaskatta og virðisaukaskatts myndi jafnframt draga verulega úr allri svartri vinnu, sem fer sívaxandi, og hinir lágu skattar skila sér mun betur en nú er raunin, svo sem reynsla af skattalækkunum hefur sýnt.

Til mótvægis lækkun framleiðslukostnaðar í landbúnaði og tengdum greinum, vegna mun lægri skattlagningar, mætti draga verulega úr niðurgreiðslum og í raun nánast fella þær niður þegar fram í sækti. Verð á landbúnaðarkvóta myndi lækka til muna og verð á jörðum einnig fara lækkandi þegar hvata niðurgreiðslanna nyti ekki lengur við, en gróft á litið má ætla að stór hluti niðugreiðslanna streymi nú út úr atvinnugreininni, annars vegar vegna vaxta og afskrifta vegna kaupa eða leigu á landbúnaðarréttindum og hins vegar í formi skattgreiðslna á ýmsum stigum framleiðslunnar, fyrir utan hve niðurgreiðslurnar letja alla skapandi hugsun, þeirra er þiggja, til hagræðingar. Um leið myndi landbúnaður laga sig að breyttum framleiðsluskilyrðum og leggja áherslu á þær greinar sem samkeppnisfærastar væru við innflutning, sem á hinn bóginn nyti lítt lækkandi verðlags, enda stæði hreint innflutningsvirði nánast í stað.

Öll mjög vélræn framleiðsla og þjónusta, þá láglaunuð fjöldaframleiðsla fyrst og fremst eða á hinn bóginn t.d. vegagerð, sem krefst hlutfallslega lítils mannafla sem vægis af heildarafkomu og rekstri, myndi standa í svipuðum sporum og áður hvað varðaði erlend aðföng en vissulega standa því betur að vígi sem launakostnaður, viðhaldsvinna og kaup á innlendum aðföngum vægi þyngra.

Staða mannaflsfrekra greina, og þá því fremur þeirra sem byggja á mikilli sérhæfingu starfsfólks og þá almennt hærra launuðu, myndi í flestu tilliti batna til muna. Mannaflsfrekar þjónustugreinar eins og t.d. almenningssamgöngur og flutningar eða veitingarekstur og ferðaþjónusta, myndu einnig styrkjast verulega svo og margvísleg viðhaldsþjónusta. Skipasmíðar og byggingariðnaður, jafnt nýsmíði sem viðhald, bílaviðgerðir og marvísleg önnur tækni- og viðhaldsþjónusta, kvikmyndagerð, leikhús, bóka- og blaðaútgáfa, hugbúnaðargerð, sérsmíði og hönnun hátæknibúnaðar, sérfræði ýmis og ráðgjöf, svo sem verkfræðiþjónusta og margvísleg hönnun, lögfræðiþjónusta og viðskiptaráðgjöf – allar myndu þessar greinar standa betur að vígi en áður, og þá ekki síður heilbrigðisþjónusta, rekstur skóla og menntastofnana, störf að listum og íþróttamálum. Almennt talað myndi öll dýr útseld vinna vega hlutfallslega minna en nú, vegna mun minna vægis launatengdra gjalda og virðisaukaskatts.

 

Staða hins opinbera í ljósi niðurfærslna

Þegar útgjöld hins opinbera eru metin í ljósi tekjustofna, miðað við föst, óbreytt umsvif, þá verða útgjöldin – og þar af leiðandi tekjurnar – að vera því hærri sem tekjulindirnar eru í meira mæli hluti af því sjálfu. Þetta á því fremur við sem umsvifin mynda stærri hluta af hagkerfinu, líkt og hér á landi þar sem þau eru gróft  á litið um þriðjungur alls, en myndi litlu máli skipta ef umsvifin væru einungis lítið brot.

Umsvif hins opinbera ráðast mest af því hve stór hluti vinnuafls er í beinni eða óbeinni þjónustu þess. Þá skiptir ekki höfuðmáli hvort launþegar séu opinberir starfsmenn eða starfsmenn sjálfstæðra verktaka í þjónustu hins opinbera eða starfsmenn framleiðenda eða þjónustuaðila sem það skiptir við – í öllum tilvikum er hið opinbera að greiða laun fyrir þjónustu sem um leið myndar skattstofn fyrir það, jafnvel svo að allt að því helmingur launa rennur beinustu leið til baka í sömu fjárhirslur, úr einum vasanum í annan – beinlínis sem tekjuskattur og óbeinlínis sem virðisaukaskattur af útgjöldum launþeganna.

Reyndar er það svo að kaup hins opinbera á utanaðkomandi þjónustu fela oft í sér enn meira sýndarfé en ella, þar sem virðisaukaskattur leggst þá tíðum ofan á almenna launaskatta sem á hinn bóginn flest innri þjónusta, sem unnin er beint af opinberum starfsmönnum, er oftast undanþegin. Strangt til tekið skiptir það ekki máli reikningslega séð, enda eru áhrifin jöfn bæði tekju- og gjaldamegin, en tölugildi alls hækkar enn meira fyrir bragðið, m.ö.o. vítahringur sýndarfjár í umferð eflist til muna.

Eina leiðin til að rjúfa vítahringinn er að hið opinbera nýti sér þær tekjulindir almenna hagkerfisins sem bein opinber umsvif snerta hvað minnst – þó óbeint og engu að síður séu stjórnsýslan og hið almenna hagkerfi tengd órjúfanlegum böndum, hvernig sem á er litið. Arðsemi hins almenna hagkerfis byggir beinlínis á arðsemi stjórkerfisins – á menntun sem það veitir, á heilbrigðisþjónustu, á samgöngum, á utanríkisþjónustu, á lögum og rétti, sem skapa ramma allra viðskipta, jafnt sem það byggir á löggæslu hins opinbera. Þannig er hið almenna hagkerfi til vegna þegnanna á sama hátt og hið opinbera er til vegna margvíslegrar þjónustu sem það veitir, jafnt þegnunum sem hagkerfinu til handa.

 

Mynd: Helgi Þorgils - blaðsíða úr bók Listasafns Íslands - www.listasafn.is

 

Þegar upp er staðið kemur því út á eitt þó launa- og neysluskattar séu lækkaðir – og þar með álögur hins opinbera á sjálft sig – en álögur auknar á frumframleiðslu til mótvægis. Kæmi út á eitt í því tilliti að allir borguðu að lokum, svo samofið hagkerfið er öllum launþegum, öllum neytendum, en myndi gjörbreyta öllum bókhaldslegum skilningi á rekstri hins opinbera, svo að mun ljósara væri í hvaða útgjöldum rekstur þess liggur – og slíkt hið sama yrði allt bókhald einkarekstrar einfaldara og gegnsærra.

Sé þjóðfélagsbygging samofin úr þremur meginþáttum, frumframleiðslu, almennri þjónustu og loks þjónustu hins opinbera, þá eru bein tengsl frumþáttarins og opinbera þáttarins tiltölulega lítil en tengsl almenna þjónustuþáttarins því meiri á báða vegu. Tiltölulega há laun í almennri þjónustu, sérstaklega sérfræðiþjónustu, og á hinn bóginn í opinberri þjónustu, valda mjög háum sköttum á þessum tveimur sviðum, sem eiga mikil viðskipti sín á milli, og orsaka háskattarnir þar af leiðandi uppskrúfun alls verðlags opinberrar þjónustu sem hinnar almennu. Frumframleiðslan geldur svo ekki síst fyrir hásköttunina við kaup á almennri vöru og þjónustu – nema sæki aðföngin á erlendan láglaunamarkað, sem sífellt færist í vöxt.

Lækkun launatengdra gjalda – beinna og óbeinna skatta af launum – myndi þannig lækka sýndarútgjöld opinberrar þjónustu jafnt sem almennrar þjónustu en á móti myndi frumframleiðslan hafa þann hag af, að hún greiddi mun minna fyrir almenna þjónustu, viðhald jafnt sem alls kyns innlend kaup á vöru og þjónustu, og jafnframt lægri gjöld af eigin starfsemi, auk þess sem vaxtaútgjöld og afskriftir vegna kvótakaupa heyrðu sögunni til. Þannig myndi frumframleiðslan rísa undir samsvarandi hærri álögum, sem e.t.v. gætu numið um 15 af hundraði af tekjum hins opinbera en önnur almennari framleiðsla undir 5 af hundraði. Eftir sem áður hefði hið opinbera hefðbundnar tekjur af eignarskatti og almennum vörugjöldum, vélum, bifreiðum, eldsneyti og þungaskatti  – og þá fremur í auknum mæli – auk á hinn bóginn 5% tryggingargjalds af launum og 10% virðisaukaskatts er legðist á nær öll innlend umsvif hins almenna hagkerfis og 10% útsvars er legðist á allar tekjur manna, hverju nafni sem þær nefnast – laun, hagnaður, arður eða fjármagnstekjur.

 

 

Með því vægi launaskatta myndi stórlega minnka og eins virðisaukaskattur lækka til muna, þá myndu útgjöld hins opinbera skreppa verulega saman og þá um leið tekjuþörfin, þrátt fyrir óbreytt umsvif og óbreytta þjónustu. Vegna þess hve raungildi krónunnar myndi hækka með samdrætti alls sýndarfjárins myndu tiltölulega lág auðlinda-, orku- og framleiðslugjöld vega að mestu leyti á móti hlutfallslega mikilli tekjurýrnun af völdum skattalækkana.

 

 

Einu útgjöld hins opinbera sem myndu standa í stað eða lækka lítið væru vegna hreins innflutnings erlendra aðfanga og kaupa á þjónustu í erlendum gjaldeyri (svo sem að ferðalögum erlendis meðtöldum og t.d. kaupum á vinnuvélum verktaka á vegum hins opinbera), sem vega tiltölulega lítið samanborið við erlend aðföng margra einkafyrirtækja, sérstaklega framleiðslufyrirtækja. Annar rekstrarkostnaður felur að langmestu leyti í sér launagreiðslur, jafnt beinar greiðslur vegna opinberra starfsmanna sem óbeinar vegna margvíslegrar aðkeyptrar þjónustu, sem sagt að frátöldum hinum erlenda aðfangahluta.

Gert er ráð fyrir að til mótvægis lækkunum skatta myndu framleiðslustyrkir minnka verulega en hrein fjármunamyndun hins opinbera haldast hlutfallslega svipuð, m.ö.o. vera óbreytt að raungildi en einungis lækka að tölugildi samsvarandi við útgjöldin í heild.

Vegna þess hve tekju- og fjármagnstilfærslur eru almennt lítt skattlagðar myndu þær yfirleitt lækka hlutfallslega minna en almennur launakostnaður – en hvort tveggja haldast svipað að raungildi, einungis lækka að tölugildi.

 

 

 

 

Niðurfærsla fjárlaga á einum áratug:

frá 2004 til 2014...

Birta: í fullri mynd

 

 

Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum

skulu koma með gjafir,

konungarnir frá Saba og Seba

skulu færa skatt

Sálmarnir, 72,10

 

 

Heimsþorpið

 

Fljótt á litið mætti ætla að lífskjör yrðu lakari á Vesturlöndum þegar hráefni og orka, hvort sem væru innflutt eða heimanfengin, hækkuðu í verði og þá jafnframt innflutningsvirði véla og neysluvarnings vegna hærra verðhlutfalls orku og hráefna við framleiðsluna í þróunarlöndunum af völdum hærra heimsmarkaðsverðs. Reynslan sýnir og sannar þó hið gagnstæða, að hækkun leiðir nær undantekningarlaust af sér bætta nýtingu, og þá því fremur sem verð er mjög lágt fyrir, og gerir þá nýtingin yfirleitt gott betur að vega á móti kostnaðarhækkunum. Þá ber og að hafa í huga og er grundvallaratriði, hve lækkun tekju- og neysluskatta hefði jákvæð áhrif til mótvægis – hve allur launakostnaður, öll útseld vinna og þjónusta, lækkaði að sama skapi.

Ein skýrustu dæmi um jákvæð áhrif hækkana á Vesturlöndum eru annars vegar almennar launahækkanir lungann úr allri síðustu öld og hins vegar olíuverðshækkanirnar á seinustu áratugum aldarinnar. Lengi vel leiddu almennar hækkanir láglauna og miðlungslauna til gríðarlegrar hagræðingar á flestum sviðum – vélvæðingar sem var reyndar sumpart á kostnað hinna vanþróuðu landa, sumpart ekki – og lengi vel nýttist ábatinn af aukinni framleiðni til nýrrar fjárfestingar og hæfilegrar fjölgunar starfa. Á sama hátt ýttu olíuverðshækkanir undir smíði á mun sparneytnari vélum og til orkusparnaðar á flestum sviðum, með þeim afleiðingum m.a. að nú nýta vélar orku almennt helmingi betur en fyrir aðeins þremur áratugum síðan, samfara því að meiri áhersla er lögð á léttleika véla og tækja og er nýting annarra hráefna þar af leiðandi talsvert betri jafnframt.

En allar hækkanir eiga sér sínar takmarkanir, sérstaklega ef þær eru mjög einhliða og í miklu ójafnvægi við aðra tekjustofna eða útgjöld – og þá beinlínis í landfræðilegu tilliti. Fyrir tíma olíuverðshækkana og þá jafnframt fyrir tíma tölvutækninnar voru allir flutningar mun dýrari en nú og þá slíkt hið sama öll samskipti, að ekki sé talað um heimsálfanna á milli, slíkar eru hinar tæknilegu framfarir og þá hagræðingin sem af hækkununum hefur leitt. Öll samskipti heimsálfa á milli eru því orðin mun einfaldari en um leið er ójafnvægið milli launa og allrar afkomu jarðarbúa ekki einungis orðið mun ljósara heldur er misvægið farið að hafa mun sterkari áhrif á vogarskálar beggja vegna. Hálaunasvæði skáka ekki lengur í skjóli landfræðilegra múra – erfiðra samganga og erfiðra samskipta – líkt og fyrr á tíð heldur eiga nú í beinni samkeppni dags daglega við láglaunasvæði þó víðs fjarri séu.

Í sjálfu sér er þessi þróun ekki ný af nálinni. Öldum saman hafa samgöngur batnað og samskipti einfaldast og þá því fleiri landfræðilegir múrar fallið með þeim afleiðingum að einstakar efnahagslegar heildir hafa farið sístækkandi. Þannig var Evrópa á sínum tíma girt innbyrðis háum tolla- og samskiptamúrum allt niður í smæstu fursta- og greifadæmi og munur á afkomu einstakra héraða jafnt sem landa á milli mikill. Ísland var langt í frá í sömu sveit sett sem Kaupmannahöfn, líkt og nánast er nú, hvað þá að bændur á Jótlandi lifðu í sama heimi sem herrragarðseigandinn – og skipti þá litlu máli þó hinir sömu væru allir þegnar sama kóngs, slík var mismununin múranna á milli og bilið þó stutt á milli. En eftir langvarandi misklíð og baráttu um brauðið má segja að Evrópa, í eina tíð ein þéttbýlasta álfa jarðar, hafi leyst sín innri mál og smám saman brotið niður sína innbyrðis múra með nýlendustefnunni, beint í kjölfar landafundanna, sem gekk þó ekki þrautalaust og kostaði er upp var staðið tvær heimsstyrjaldir og uppskiptingu allrar jarðar í áhrifasvæði – svæði er fyrst og fremst voru undir hæli Vesturlanda og áttu sinn stóra þátt í innbyrðis velferð og niðurbroti hinna innri múra, m.ö.o. múrarnir voru færðir út og lágu nú fyrst og fremst milli hins tæknilega þróaða heims og hinna vanþóaðri heima.

 

 

Á gullöld vestrænna velferðarsamfélaga, sem svo er nú farið að kalla (nú sem ýmsar blikur eru á lofti), og fellur í grófustu dráttum saman við kaldastríðsárin, svo kaldhæðnislega sem það annars hljómar, þá stefndi í talsverðan jöfnuð tækifæranna víðast hvar á Vesturlöndum, hvort sem væri á sviði menntamála, heilbrigðismála eða atvinnumála, án þess að verulegs ójafnvægis gætti í fjármálum hins opinbera eða í almennri atvinnuþátttöku. Að því var hins vegar lítt hugað hverjar væru rætur velferðarinnar, með hvaða hætti það gæti gerst að æ færri störfuðu að beinni framleiðslu en því fleiri að margvíslegri þjónustu og sífellt sérhæfðari – hverjar væru rætur ódýrrar orku, rætur ódýrra hráefna, rætur afar ódýrs neysluvarnings sem streymt hefur inn á allan hinn vestræna markað – en sem við erum nú farin að gera okkur ljóst að á sér ekki einungis rætur í tækniframförum heldur ekki síður í afar lágt verðlögðum og lítt sem ekkert skattlögðum afurðum hinna vanþróaðri heima.

Olíufundirnir í Arabíu um miðbik aldar orkuðu fyrstu áratugina á eftir eins og vítamínsprauta fyrir allt efnahagslíf heims og þó vissulega fyrst og fremst á Vesturlöndum. Það var því fyrst í stað áfall fyrir neysluríkin þegar samtök olíuútflutningsríkja, sem langflest teljast með þróunarlöndunum, knúðu fram olíuverðshækkanir á áttunda áratugnum, sem neysluríkjunum þó lærðist að bregðast við með nýtni og hagræðingu jafnframt því þó að hækkanirnar urðu þeim enn frekari hvatning til að beita vanþróuð ríki viðskiptaþvingunum eða sundrandi hernaðarógn. Fáir Vesturlandabúa áttuðu sig á því að þetta var einungis krókur á móti bragði – að sjálfir höfum við einmitt lagt afar háa skatta á alla framleiðslu og þjónustu hinum vanþróuðu til handa – reyndar ekki með auðlindagjöldum líkt og olíuríkin heldur fyrst og fremst með hinum háu tekju- og neyslusköttum vinnuafls – en á hinn bóginn krafist lágrar verðlagningar og skattleysis af hálfu þróunarríkjanna í samsvarandi skiptum á vöru og þjónustu.

Ef ekki hefði komið til samstaða á meðal olíuútflutningsríkja, fyrst og fremst byggð á gömlum merg menningarlegrar samheldni múslima, er ólíklegt að þeim hefði tekist að knýja fram hækkanir á olíuverði á sínum tíma, í krafti yfirráða sinna yfir um tveimur þriðju hlutum olíulinda heims, þar af flestra hinna auðunnustu, og ráðandi hátt í helmingi heimsframleiðslunnar – og þó í raun miklu meira með tilliti til þess hve olíulindir vestrænna ríkja, ekki síst Bandaríkjanna, fara þverrandi. Auðlindir heims eru annars flestar dreifðari um alla jörð og erfitt um vik fyrir vanþróuð ríki, sem mörg hver eru trúarlega sem menningarlega sundruð innbyrðis, á sinn hátt líkt og Evrópa var fyrrum, að knýja fram hækkanir á samsvarandi máta og olíuríkin hafa gert. Og því miður er hin menningarlega óeining þessara ríkja oftar en ekki af völdum hinnar gömlu nýlendustefnu Evrópumanna sem gekk oftast út á að brjóta niður samtakamátt og viðnámsþrek þeirra, jafnt innbyrðis sem ríkjanna sín á milli – og sundruninni svo verið haldið við á margvíslegan máta með auðmýkjandi skilyrðum af hálfu Vesturveldanna í öllu viðskiptaferli, sem þau svo hnykkja á með hernaðarógn sé ekki fallist á skilmála þeirra.

Á Vesturlöndum héldust tækniframfarir löngum í hendur við framfarir í heilbrigðismálum en tækniframfarirnar fólu jafnframt í sér velferðartryggingu er komið hefur í stað hinnar gömlu inngrónu afkomutryggingar þegnanna, barneigna, með þeim afleiðingum að verulega hefur dregið úr fólksfjölgun á meðal Vesturlandabúa. Þessu er öfugt farið á meðal margra þróunarlanda sem hafa einungis notið lágmarks heilbrigðisþjónustu, oft í formi þróunaraðstoðar Vesturlanda, en þá oft einungis að því marki að dregið hefur úr barnadauða án þess þó að nein almenn afkomutrygging í formi tækniframfara og velferðar kæmi til jafnframt og leysti af hólmi hvata alls fjöldans til að tryggja sig með barneignum. Löndin eru því mörg hver föst í vítahring mjög örrar fólksfjölgunar án þess að hafa tök á því að hamla gegn henni með almennri menntun og þar með tækniframförum er leitt gæti af sér almenna velferð og þar með afkomutryggingu er kæmi í stað hvatans til barneigna og þar með offjölgunar.

 

 

Það hefur sýnt sig að þróunaraðstoð í formi lána og styrkja til uppbyggingar atvinnuvega skilar sér oft illa í hinum vanþróuðu löndum vegna þess hve allar menntastoðir jafnt sem stjórnvaldshefðir eru feysknar. Lánsfé og styrkir renna því iðulega í vanburða gæluverkefni stjórnvalda, og þá yfirleitt að langmestu leyti sem greiðslur til sjálfra lán- og styrkveitendanna fyrir aðföng í formi véla, tækja eða lyfja eða aðkeyptrar tækni- og sérfræðiþjónustu (þá hvort tveggja ávallt dýrtselt og háskattað af hálfu veitendanna), ef ekki rennur féið beint og viðkomulaust í vasa stjórnarherranna, enda auðveldara um vik að dylja slíkar peningaslóðir sem ekki eiga beinar rætur í fjárlögum ríkjanna. Stuðningur á sviði heilbrigðismála skilar sér á hinn bóginn heldur betur, einfaldlega vegna þess að stjórnvöld veigra sér frekar við að bruðla með eða hafa á samviskunni undanskot slíks fjár. Fólki fjölgar því hraðar en svo að atvinnuvegirnir hafa möguleika á að byggja sig upp jafnharðan, hvað þá menntastofnanir, sjálfur grundvöllur allrar nútíma atvinnusköpunar – og lýðræðis.

Það sem vanþróuð ríki skortir fyrst og fremst er eigið fé – fé sem þau geti litið til sem heiðarlega fengins aflafjár og lært að fara með sem sitt eigið. Vesturlönd verða jafnframt að horfast í augu við hver er uppsprettan, gróðalindin, að baki þróunaraðstoð þeirra og lánveitingum. Í raun eru þau að höndla með annarra fé en ekki sitt eigið er þau taka gróða sinn úr einum vasa vanþróuðu ríkjanna og setja svo í hinn í formi styrkja og lána, sem fyrst og fremst er veitt með þeirra eigin framlagi háskattaðrar tækni og sérfræðivinnu. Hringrásin er í reynd knúin áfram af tilfærslum þar sem raunverulegt eigið aflafé hinna vanþróuðu er fært sem eign í bækur neysluríkjanna en síðan bakfært sem skuldir hinna vanþróuðu, og oftar en ekki til greiðslu á eldri og sívaxandi gjaldföllnum lánum, með þeim afleiðingum að greiðendunum fallast hendur.

 

 

Handan framboðs og eftirspurnar

 

Þegar farið var að leggja grunn að almennri menntun og heilbrigðisþjónustu ásamt uppbyggingu samgangna og fjarskipta á Vesturlöndum, gróft á litið fyrir um öld síðan, var fjár aflað til að byrja með nær alfarið með tollum, útflutningsgjöldum, aðstöðugjöldum og eignarsköttum – og jafnvel með hinum gömlu afurðasköttum, því sem enn eftir leyfði af hinni gömlu "tíund". Þannig var fjár, fyrst framan af, aðeins í mjög litlum mæli aflað með almennum tekjuskatti og enn síður með söluskatti, hvað þá með virðisaukaskatti, öfugt við það sem síðar átti eftir að verða. Á þeim tíma hefði enda verið nær ógjörningur að halda utan um innheimtu almenns tekjuskatts, hvað þá sölu- eða virðisaukaskatts, svo frumstæð sem almenn launa-, sölu- og uppgjörskerfi voru, enda þá enn alvanalegt að laun væru að verulegu leyti goldin í alls kyns hlunnindum eða fríðindum eða þá vöru- og vinnuskiptum, fyrir utan það að laun alls þorra fólks voru það lág að hefðu sjaldnast staðið undir slíkum skattgreiðslum.

Mörg vanþróuð samfélög standa í svipuðum sporum og Vesturlönd voru á þessari tíð, án þess þó að njóta ódýrra aðfanga líkt og við nutum og njótum enn í formi marvíslegs nýlenduvarnings, á sama tíma og þeim er settur stóllinn fyrir dyrnar af ströngum markaðslögmálum framboðs og eftirspurnar, eigandi þess lítinn sem engan kost að keppa í hæfni og verkþekkingu, hvað þá að þau búi að almennri stjórnsýsluhefð til að treysta tök sín á viðskiptunum. Þó öðlast hafi sjálfstæði að nafninu til standa þau enn mörg hver í svipuðum sporum og á nýlendutímanum – breytingin er fyrst og fremst formlegs eðlis, að í stað þess að þau lúti beint erlendu stjórnsýsluvaldi er þeim nú gert af alþjóðabönkum og alþjóðastofnunum að fylgja flóknum markaðsreglum, leikreglum einhliða settum af Vesturlöndum.

Forskotið sem Vesturlönd fengu á nýlendutímanum var slíkt að kalla má að þau hafi haft ráð flestra gömlu nýlendanna í hendi sér allar götur síðan. Lögmál framboðs og eftirspurnar réði frá upphafi aðeins í orði kveðnu en á borði hafa viðskipti milli þessara tveggja heima ráðist af hernaðarlögmálum fyrst og fremst. Ógnin var frá upphafi til staðar og gilti einu hvort lönd kölluðust nýlendur eða voru leppríki, hvort hétu Indland eða Kína, hvort í hlut ættu lendur Afríku, Asíu, Ameríku, eða Ástralíu. Eina nýlendan sem náði að brjótast undan yfirráðum Evrópumanna og jafnframt að standa þeim jafnfætis var Norður-Ameríka, enda sú álfa fyrst og fremst byggð Evrópumönnum og afkomendum þeirra, fólki sem þekkti jafn vel til hernaðartækninnar og alls hugarfarsins sem að baki ógninni bjó og drottnararnir sjálfir. Afkomendur Evrópumanna í Suður-Ameríku léku svipaðan leik en vegna þess hve fámennir þeir voru samanborið við innfædda og afkomendur aðfluttra Afríkumanna tóku þeir sér sömu valdastöðu gagnvart öðrum landsmönnum og Evrópuríki höfðu haft fyrrum og þó í skjóli náfrænda sinna, Norður-Ameríkumanna. Niðurstaðan var sú að nánast um alla jörð höfðu Evrópumenn eða afkomendur þeirra flest ráð í hendi sér við upphaf síðustu aldar – jarðargróðinn var þeirra.

Að hernaðarógninni slepptri hefur forskot Vesturlanda annars mótast af tækni iðnbyltingarinnar og innflutningi ódýrs nýlenduvarnings, svo og af hagnýtingu ágóðans til enn frekari uppbyggingar menntunar og almennrar velferðar heimafyrir, sem hefur verið grundvallarforsenda þess að byggja mætti upp virkt lýðræði – heimafyrir.

Andstæðurnar gömlu og lífseigu, fátækt og ríkidæmi, skerpast engu að síður út um alla jörð, hvað sem líður hornsteinum lýðræðisins – upplýsingu og jafnræði allra manna til tækifæra. Vesturlandabúar hafa lokað augum fyrir því að velferð þeirra er alls ekki sjálfbær heldur þrífst á stöðugu innstreymi að utan inn í margslungin kerfin. Þannig á velferð okkar beinlínis rætur að rekja til fáfræði og gríðarlegs stéttarmunar í þróunarlöndunum. Kröftum stórs hluta jarðarbúa er eytt í framleiðslu afurða, hluta og véla okkur til handa, sem við svo hendum á haugana lítt notuðum vegna þess hve ímyndafræðin hefur náð tökum á okkur – í skjóli þess þess hve hátt skattlögð öll viðhaldsþjónusta í velferðarríkjunum er orðin, þveröfugt við hræódýra frumvinnslu og færibandavinnu hinna lágþróuðu skattlenda okkar, slík er skattheimtan okkur til handa, brauðstrit ánauðugra goldið með gnægð afurða okkur til handa.

 

Mynd: Gunnar Salvarsson / Fréttabréf Þróunarsamvinnustofnunar 2004

 

Að heimsviðskipti ráðist fyrst og fremst af framboði og eftirspurn fjármagns – hráefna, úrvinnslu, mannafls – er því beinlínis rangt, enda veigamesti þátturinn, framboð og eftirspurn atkvæða í lýðræðisríkjunum, iðnríkjunum, hunsaður, og þá að sjálfsögðu hernaðarógnin hunsuð jafnframt með lítt ígrundaðri kenningunni. Og á meðan velferðaratkvæðin falla öll á nær sömu lund – að skattpína skuli hina tæknilega vanþróuðu heima og kúga með hernaðarógn til hlýðni (hvort sem kjósendur annars kalla sig til hægri eða vinstri, trúaða eða vantrúaða lýðræðis þegna), þá mun misréttið halda áfram að aukast í heiminum.

 

______________________________

í nóvember 2004

 

Stuðst er m.a. við fjárlög og áætlanir fyrir árið 2004 á vef Fjármálaráðuneytisins

Sjá einnig vef Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, m.a. fréttabréf 2004

 

Á hverfanda hveli:

Að aðhafast – að aðhafast ekki

Réttmæti skattheimtu

Jeppi barón og hirðin hans

Kjarneðlisfræði skattalaga

Skattlendur jarðar og jarðargróðinn

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist