< Á hverfanda hveli

Árni B. Helgason

 

Kjarneðlisfræði skattalaga

drög að heimsviðskiptafræðum framtíðar...

 

Rue Mouffetard, 1954


Mólikúl 1

Á um það bil einni öld hafa skattar breyst frá því að vera aðallega eigna- og afurðaskattar í beina tekjuskatta og neysluskatta fyrst og fremst. Afleiðingin er sú að efniskostnaður vegur sífellt minna í heildarkostnaði fullunninnar vöru, nema varan sé þess eðlis að vinna megi hana að miklu leyti með vélum og lækka þannig hlutfall launakostnaðar – þann hluta sem einmitt vegur þyngst í skattheimtu.

Vegna þess hve hráefni eru ódýr og eru lítið skattlögð en vinnuafl dýrt og mikið skattlagt – þá er framleiðsla því ódýrari sem mannshöndin kemur minna nærri en vélar því meir, og þá einmitt því fremur sem hægt er að koma við fjöldaframleiðslu, enda vélavinna almennt sáralítið skattlögð.

Það þykir ekki koma svo að sök þó að þessi háttur komi iðulega niður á endingartíma verkanna og framleiðsluvarningsins – einmitt vegna þess hve ódýrt er að afla nýrra hráefna og framleiða nýja hluti með lítt skattlögðum vélum og þá með því minna vinnuafli. Fyrir vikið fer mest öll orkan í að framleiða miklu fleiri einingar en þyrfti á að halda ef hugað væri að endingu hlutanna.

Velmegun í hinum þróuðu ríkjum gæti vel haldist sú hin sama og nú er, þó verulega drægi úr framboði á  nýsmíði og nýjum varningi, ef einungis væri stuðlað að bættri nýtingu og endingu hlutanna, en umframorkan og minni hráefnanotkun iðnríkjanna myndi þá á hinn bóginn koma hinum vanþróuðu ríkjum til góða – í raun án þess að þróuðu ríkin misstu nokkurn spón úr aski sínum.

 

Mólikúl 2

Hugsum okkur afleiðingar þess að skattheimtu væri algjörlega snúið við og horfið til nokkuð líks vegar og var fyrr á tíð – að skattlagning sneri þá fyrst og fremst að orku jarðar, hráefnum og auðlindum, eða almennt talað, að því minna sem afurðir væru unnar því fremur legðist á þær skattur. Tekjuskattar einstaklinga og fyrirtækja myndu þá að mestu leyti heyra til liðinni tíð og slíkt hið sama neysluskattar sem álag á virðisauka framleiðslu, og þá einnig vörugjöld af fullunnum varningi. Skattheimta sneri þess í stað beint að frumrót alls – að nýtingu jarðarinnar.

Heildarlaun myndu þá lækka sem svaraði afnámi tekjuskatts og gróft á litið einfaldlega jafngilda útborguðum launum. Kaupmáttur í heild væri til jafnaðar óbreyttur en innbyrðis hlutföll útgjalda myndu breytast. Orka myndi almennt hækka í verði sem og allur lítt unninn varningur allt frá hráefnum, en verð á unninni vöru héldist svipað eða óbreytt og þó því fremur sem vinnslan væri mannaflsfrekari að þá myndi verð hennar lækka frá því sem nú er, eða almennt talað, öll þjónusta og aðkeypt vinna myndi lækka í verði.

Fyrirtæki myndu ekki greiða skatt af rekstri, ekki fremur en launþegar af launum sínum, en fyrirtækin myndu á hinn bóginn greiða beint eða óbeint til hins opinbera með kaupum á orku, hráefnum og lítt unninni hrávöru til frekari úrvinnslu. Og svo samofið sem atvinnulífið er lífi einstaklinganna, þá myndi í raun hver og einn, á endanum, greiða skatt með kaupum á hinum margvíslega varningi, og á orku í ýmsum myndum, sem allt saman, þegar allt kemur til alls, á rætur að rekja til frumvinnslugreinanna.

Allt rekstrarumhverfi fyrirtækja yrði til muna einfaldara og næstum hverjum og einum væri kleift að stofna til rekstrar á sínu þekkingarsviði, hvort sem væri til smæsta einstaklingsrekstrar sem stórrekstrar, án beinnar sérþekkingar í margvíslegum greinum alls óskyldum sjálfum rekstrinum, svo sem nú er í raun frumskilyrði. Atvinnurekendur myndu því einbeita sér að sjálfum atvinnurekstrinum, í þess orðs fyllstu merkingu, en ekki eyða óhemju kröftum í að ryðja sér leið um frumskóg skattalaga og reglna, að ekki sé talað um allan hinn mikla fjölda grárra og svartra svæða, svo sem nú nær því hver einasti má tilneyddur laga sig að meira og minna, að ekki lendi undir í samkeppninni.

 

Mólikúl 3

Ef jörðin væri ein og óskipt, eitt ríki án landamæra, þá væri þessi skattheimtuleið – að skattleggja fyrst og fremst frumrót alls, nýtingu jarðarinnar – afar einföld í framkvæmd.  Hún er vissulega því auðveldari viðfangs sem löndin eru ríkari að auðlindum og byggja að talsverðu leyti á frumvinnslu, svo sem t.d. hér á landi, en á hinn bóginn erfiðari við að eiga, að óbreyttu, í ríkjum eins og Danmörku, sem byggir fyrst og fremst á úrvinnslugreinum en er fremur snauð að auðlindum, að frátöldu ræktarlandi og fáeinum fiskimiðum.

Vandinn er sá að í flestum greinum er það heimsmarkaðsverð sem ræður að lokum úrslitum um möguleika mismunandi skattheimtuleiða. Allt misvægi í skattalögum einstakra ríkja skekkir samkeppnisstöðu þeirra, svo sem þróun í skattlagningu fyrirtækja hefur sýnt og sannað á undanförnum árum.

Með því æ fleiri ríki hafa tekið að laða til sín atvinnurekstur með því að setja rýmri skattalög um fyrirtæki og beinlínis að lækka skatta á þau, þá hafa önnur fundið sig knúin til að fara sömu leið, til að missa ekki fyrirtæki úr landi. Afleiðingin er sú að almennir launþegar bera æ hærra hlutfall skattbyrðanna á sama tíma og forsvarsmenn fyrirtækja og ýmsir starfsmenn þeirra hafa margvíslega möguleika á að dylja almenna neyslu sína í skjóli lítt skattlagðs fyrirtækjarekstrarins.

Háir launþegaskattar valda svo hækkun vinnuaflskostnaðar og leiða því til enn frekari fjöldaframleiðslu þar sem magn skiptir mestu máli en ekki gæði í þeim skilningi að hluturinn endist til langframa, enda borgar sig sjaldnast núorðið að gera við hlutina eða halda þeim við til lengdar vegna hins háa skattlagningarhlutfalls sem viðgerðarmenn bera jafnt sem aðrir launþegar.

Hráefnum og auðlindum heims er því sóað, og þá fyrst og fremst á kostnað þróunarríkjanna þar sem vinnuafl er afar ódýrt og er ekki síst notað til að vinna úr hræódýrum hráefnunum endingarlitlar "hágæðavörur" handa Vesturlandabúum.

 

Mólikúl 4

Há skattlagning eldsneytis – hin eina eiginlega almenna undantekning frá viðtekinni reglu um tekju- og neysluskatta í öllum hinum þróaðri ríkjum heims – sýnir og sannar að ríki geta vel skipt skattlagningu sín á milli þannig að ekki einungis neysluríkið hagnist. Olía er nánast hið eina sem vanþróuðu ríki leyfist að skattleggja í einhverjum mæli – engu að síður leggja iðnríkin sinn skatt ofan á kaupverð í því skyni að hamla gegn ofnotkun.

Ef hráefni og auðlindir jarðar væru almennt skattlögð á samsvarandi máta og olía þá myndi draga úr eftirspurn í iðnríkjunum en öll meðferð og nýting vörunnar batna á úrvinnslustigi. Á móti minni útflutningi vanþróuðu landanna til iðnríkjanna kæmu hærri einingaverð. Tekjur þeirra myndu því ekki dragast saman en á hinn bóginn myndi aukinn hagur – hærri virðisauki – af hverrri framleiðslueiningu gera þeim kleift að hækka laun, efla framleiðslu til eigin nota og sinna samfélagslegum verkefnum.

Skattheimta sem sneri beint að frumgróðanum væri að öllu leyti svo miklu einfaldari í sniðum en nú er. Skattaðilar væru miklu færri og allt skattaeftirlit þar af leiðandi mjög auðvelt og virkt, ekki síður en innheimtan sjálf væri auðveld í framkvæmd. Skattsvik myndu þá í flestum greinum heyra sögunni til, einfaldlega af því að eiginlegum skatti væri sjaldnast til að dreifa. Nú þegar stendur lýðræði orðið völtum fótum vegna afar flókinna reglna um atvinnurekstur, og þá ekki síst vegna skattareglna sem gera einstökum þjóðfélagsþegnum kleift að fara í kringum lögin og jafnvel lifa sem væru þeir sjálfstætt ríki í ríkinu.

Það þarf því beinlínis að verða almenn hugarfarsbreyting á meðal stjórnmálamanna, í víðtækasta skilningi þess orðs, um allan heim, og þó alveg sérstaklega í hinum þróaðri ríkjum, iðnríkjunum, sem duglegust eru að afla tekna til samfélagslegra verkefna og þá fyrst og fremst með launa- og neyslusköttum. Á alþjóðavettvangi væri þá mælt fyrir lækkandi tekjuskatti og virðisaukaskatti samfara því að hið opinbera aflaði æ stærri hluta tekna með orkugjöldum, hrávöru- og hráefnagjöldum, auðlindagjöldum, afgjöldum af landi og fasteignagjöldum – og væri þá mælt fyrir sem almennri reglu um allan heim. Það kæmi raunar af sjálfu sér ef iðnríkin, á sínum eigin innri mörkuðum, tækju þannig að stuðla að hækkandi heimsmarkaðsverði á orku og hráefnum, að vanþróuðu ríkin - á samsvarandi hátt - öðluðust svigrúm til öflunar skatttekna til samfélagslegra verkefna.

Þessi umbreyting væri í raun alls óháð hefðbundinni skiptingu stjórnmálastefna í hægri og vinstri, enda snýst umbreytingin ekki um hversu mikil hlutdeild hins opinbera skuli vera í sjálfu sér, heldur fyrst og fremst um breytta skattstofna, burtséð frá því hvernig að samfélagslegum verkefnum sé annars staðið.

 

Mólikúl 5

Ein skýrustu dæmin um sóun hráefna, orku og vinnu er að finna í bílaiðnaði og tölvuframleiðslu. Flestum bílum og tölvum er að lokum lagt, hent á haugana, vegna þess að ekki borgar sig að halda hlutunum við, þrátt fyrir að oft séu að verulegu leyti heilir (og eins ekki síður vegna þess hve ímyndafræðingar ala á nýjungagirni). Vegna þess hve hráefnin og orkan til þessara hluta eru í lágu verði af völdum mjög lágrar skattlagningar þeirra um allan heim, og þá einnig hráefni og orka til smíði á vélum vegna framleiðslunnar, þá er einfaldlega ódýrara að búa til ný eintök heldur en að kosta miklu til viðhalds á hinum eldri.

Væri skattlagningu öfugt farið þá væri mun ódýrara að láta taka upp bílvélar og gangverk og láta yfirfara bremsukerfi og ryðverja bíla og lakka þá að nýju heldur en að henda þeim meira og minna í heillegu ástandi. Nýir bílar kynnu samt sem áður að kosta ósköp svipað eða litlu meir, en viðhald á þeim væri það miklu ódýrara að það myndi borga sig að halda þeim vel við og nota þá lengur. Á samsvarandi hátt væri hlutfallslega ódýrara að láta uppfæra tölvuna sína á verkstæði en að kaupa sífellt nýja á örfárra ára fresti. Þannig myndu bílar almennt endast mun lengur og slíkt hið sama tölvur.

Með því hlutirnir entust lengur væri því minna sóað af hráefnum og minni orka og færri handarverk færi til nýsmíði hlutanna. Framleiðslugeta heimsins nýttist þá því fremur þeim þjóðum sem skemmra eru á veg komnar í nýtingu tækninnar, samfara því að útflutt tækniþekking iðnríkjanna – sem er oft einn dýrasti útgjaldaliður þróunarlandanna – myndi lækka í verði. Orsökin til þess væri einfaldlega sú, að mannaflið, hvort sem væri í seldri hátækniþjónustu eða á öðrum sviðum, væri lítt sem ekkert skattlagt, hvorki í iðnríkjunum né annars staðar.

Eða því skyldi hátt verðlag – há laun og hátt vöruverð – vera óhjákvæmilegur fylgifiskur tæknivæddra ríkja? Eða gæti ekki verið að skattlagning launa og neyslu (í stað orku og hráefna) ýti undir keðjuverkan launahækkana og verðlags og að þar sé skýringarinnar að leita á hinum gríðarlega mun sem er á verðlagi í þróuðum löndum og í hinum vanþróaðri? Tvísköttunin, sem launaskattar fela í sér, og þá krafan um að útborguð laun nægi jafnt til kaupa á skattlagðri þjónustu annarra sem greiðslu virðisaukaskatts af vöru og þjónustu (sem laun þjónustuaðila okkar taka einnig mið af!), veldur því meiri hækkun vöruverðs og vinnulauna sem afurðin eða þjónustan er í hærra úrvinnsluþrepi – sem hún er hátæknivæddari, á æðra sérfræðistigi.

Í vanþróuðum löndum eru almennir launaskattar á hinn bóginn ýmist lágir eða alls engir, einfaldlega vegna þess að af svo litlu er að taka, enda duga laun þorra fólks varla fyrir nauðþurftum. Fjárlög Nígeríu, Íslands og Banglades hljóða upp á svipaða tölu – á bilinu 300 til 400 milljarða króna í hverju ríki fyrir sig. Nígeríumenn og Bangladesbúar eru þó hvorir um sig um 140 milljón manns, eða til samans nálægt því að vera jafn margir og Bandaríkjamenn sem á hinn bóginn eru með um 500-falt hærri ríkisútgjöld (að fjárlögum fylkjanna þó slepptum) en þessar vanþróuðu þjóðir tvær. Hlutfallslega hundraðfalt fleiri hafa síma á Íslandi og í Bandaríkjunum heldur en í Nígeríu og í Banglades...

 

Mólikúl 6

Iðnríkin, með Vesturlönd í fararbroddi, beinlínis nærast á fátækt þróunarlandanna. Þegar viðskipti eiga sér stað milli þessara tveggja heima taka þróunarlöndin í raun þátt í að greiða fyrir hin ýmsu samfélagslegu verkefni iðnríkjanna með því drjúgur hluti af afurðaverði og ekki síst tækniþekkingu iðnríkjanna stafar af tekju- og neyslusköttum, sem er aðal undirstaða velferðarmála þeirra. Á hinn bóginn nýta iðnríkin sér bága stöðu vanþróuðu landanna – jafnt fátækt sem fáfræði – til að selja sér afurðir á sem lægstu verði. Vanþróað land hefur sáralitla möguleika á að leggja skatt á útflutningsvörur sínar – launaskatta, auðlindagjöld eða beinan útflutningsskatt – það verður þá einfaldlega undir í keppni iðnríkjanna að sem lægstu verði og missir viðskiptin.

Tekjuskattar og neysluskattar svo sem virðisaukaskattur hafa slík margföldunaráhrif á verðlag og verðmyndun vinnulauna að kalla má að feli í sér sjálfvirkan hvata til skattsvika. Og vegna þess hve skattaðilar eru margir og af margvíslegu tagi er ógjörningur að hafa eftirlit með skattskilum nema á afar takmörkuðum sviðum. Þrátt fyrir öll lög um mannréttindi og jafnan rétt og jafnræði í orði kveðnu, lifa í raun fleiri þjóðir í landi hverju í skattalegum skilningi, og þá ekki einungis með tilliti til landlægra skattsvika og ólöglegra undanskota frá samneyslu, heldur einnig að lögum, þvert ofan í allar mannréttindaskrár.

Berskjaldaðir einstaklingar, án skjóls af fyrirtækjum eða svörtum og gráum markaði, standa undir langstærstum hluta skatta og þar með undir drýgstum hluta allrar samneyslunnar. Fjöldinn allur vinnur og starfar eftir margvíslegum launatöxtum fyrir sömu verk, allt eftir því hvort skipt er við hið opinbera, við fyrirtæki eða einstaklinga eða Guð veit hvað. Þannig getur samskonar verk kostað margfalt meira eða minna, allt eftir því hver á í hlut, hver er bakgrunnur viðskiptanna – svartur eða hvítur eða grár...

Samkeppni í rekstri snýst sífellt minna um að bjóða vöru sem stendur fyrir sínu í bráð og lengd en því meira um fagra ásýnd og ímynd á yfirborði og á hinn bóginn um klókindi í öllu smuguferlinu um skattalagafrumskóginn. Þegar verst lætur er ímyndin útávið fullkomlega fölsk en í engu samræmi við innviðina og allar hinar flóknu og duldu rætur skógarins myrka. Baráttan um markaðinn er farin að ganga svo nærri lífi hins almenna manns, að varla nokkurs staðar er flóafriður fyrir sífelldu áreiti áróðursímynda, sem ávallt miða að því sama, að auka sölu og stytta þar með endingartíma þess varnings sem í notkun er.

 

Mólikúl 7

Á sama tíma og stór hluti íbúa jarðar sveltur eða á varla fyrir nauðþurftum keppa stórfyrirtæki sem smáfyrirtæki að hámörkun hagnaðar á sem skemmstum tíma. Fjárfestingar í vanþróuðum löndum miða fyrst og fremst að öflun hráefna sem ríkin verða nauðbeygð að láta af hendi með litlu sem engu skattaálagi – eða miða á hinn bóginn að úrvinnslu hráefna með svo ódýru vinnuafli að ríkin eiga þess lítinn sem engan kost að skattleggja það.

Virðisaukinn sem eftir verður í löndunum rétt nægir fyrir nauðþurftum þeirra íbúa er leggja hönd að verki en hagnaðurinn streymir úr landi í formi ódýrra hráefna og varnings sem íbúar iðnríkjanna, aldir á óseðjandi fíkn í nýjar og æ nýrri vörur, henda frá sér eftir skamma notkun, oft meira og minna í heilu lagi, krefjandist sífellt meiri og nýrri varnings til að fá fullnægt fíkninni, alls burtséð frá endingu og oft í rauninni alls burtséð frá eiginlegri þörf fyrir hlutina.

Hjól athafnalífs jarðar snúasta þannig um hringrás sem á annan veginn liggur um frumskóg tekju-, neyslu- og virðisaukaskatta iðnríkjanna, allt til vanþróuðu landanna – það er leiðin til ánauðar – en á hinn bóginn, til baka, um sviðna jörð og arðrændar hendur fátækralendanna, til iðnríkjanna – það er leiðin til allsnægta. Þannig eru vanþróuðu löndin föst í vítahring rándýrra smáinnkaupa á margskattlögðum vélum, tækjum og tækniþekkingu sem þau eru neydd til að gjalda dýrasta verði fyrir með sóun hráefna sinna og auðlinda og sölu á ódýrum varningi til iðnríkjanna, án nokkurs eiginlegs virðisauka af versluninni, hvorki í sköttum né launum sem neinu nemur, til að standa undir lágmarks samfélagsþjónustu, svo sem brýnustu menntun, heilbrigðisþjónustu og samgöngum.

Iðnríkin með Vesturlönd í fararbroddi hafa sett sig í stöðu hins hrokafulla herragarðseiganda sem skipar undirsátum sínum fyrir, á sama tíma og menntun og tækniþekkingu hefur fleygt fram á herragarðinum. Menn ráða yfir þekkingu og kröftum til að smíða meiri gæðagripi og sterkari hluti en nokkru sinni fyrr, og í raun er það gert á fjölmörgum sviðum, jafnvel svo að oft vantar ekki nema herslumuninn á að framleiðsluvarningur gæti enst áratugum og jafnvel öldum saman, einungis að tillit væri tekið til þess með eilítið frábrugðnari hönnun sem þá miðaði fyrst og fremst að góðri endingu, miklum varanleika og þá eðlilegu viðhaldi – í stað þess að kastað sé til höndunum og ímyndafræðingar látnir ráða ferðinni, með það eitt fyrir augum að hlutirnir séu endurnýjaðir sem örast, alls burtséð frá ástandi þeirra og möguleikum til endingar sem á hinn bóginn ofursköttun allrar viðhaldsvinnu hamlar.

 

Svartholið

Getur verið að hið geysilega flókna laga- og reglugerðarumhverfi sem iðnríkin hafa flækt sig í sé orðið svo flókið að skógurinn sé góðri leið með að hverfa sjónum fyrir öllum trjánum – eða á hinn bóginn að ekki sjáist lengur í tréin fyrir öllum skóginum, hvert sé hið eiginlega inntak og markmið laganna, hver sé tilgangurinn með svo margfaldri og margræðri löggjöf, ekki síst um skattamál og rekstur fyrirtækja?

Hverjum datt í hug á sínum tíma að leyfa fyrirtæki að eiga í öðru fyrirtæki, hvað þá að eiga hlut í sjálfu sér! Hver var og er tilgangurinn? Feluleikur? Voru loddarar á ferð á þingum – í erindum klókindamanna í atvinnurekendastétt að leika á lýðræðið, að leita leiða til dylja gróða og skjóta sér undan þátttöku í samfélagslegum verkefnum? Varla þó úr hópi þeirra fjölmörgu atvinnurekenda sem voru þó einu sinni til, sem margir hverjir þoldu því minna bókhald, hvað þá margfalt bókhald, sem þeir elskuðu meir að láta verkin tala – athafnamenn sem svo voru kallaðir en hafa nú flestir horfið af sjónarsviði en viðskipta- og markaðsfræðingar leyst af hólmi, einblínandi á skattalagasmugur, hvernig haganlegast megi komast hjá rekstri með skattlögðu mannafli.

Loddaraskapurinn er orðinn slíkur að fínast þykir að vera sem margfaldastur í roðinu og dylja eiginlegar forsendur lífs síns með hverju pappírslaginu af öðru, jafnvel með heilu skúffufyllunum af pappírsfyrirtækjum.

Hinn innbyggði hvati til skattsvika og afbökunar alls verðlags og eiginlegra vinnulauna, fyrir utan allt hið flókna reikningshald, ætti að vera næg ástæða til að hverfa frá hinu flókna og margliða kerfi tekju- og neysluskatta. Óhemju skrifræði fylgir því og heilu stéttir manna hafa orðið til í kringum gervivísindi sem snúast um það eitt að myrkva æ meir frumskóg skattalaga og reglna með æ fleiri og flóknari sérfræðihugtökum sem æ færri skilja eða botna nokkuð í, að ekki sé talað um allar skattalagasmugurnar sem heilu sérfræðingaherirnir hafa atvinnu af að leita uppi – eða búa til.

Að orðið hafi bylting í atvinnurekendastétt með hinni miklu fjölþjóðavæðingu og ofvexti alls laga- og reglugerðarumhverfisins, að ný manngerð hafi tekið völdin, pappírstígrisdýr, sem svo eru stundum kölluð, þá hugsandi einungis í tölum á blöðum en ekki í verkum, einungis hvernig haganlegast megi hámarka gróða á pappírnum og skjóta umsömdum ágóðahlut undan áður en skútan sé yfirgefin og allar talnaflækjurnar, óskiljanlegar oft jafnvel æðstu stjórnarmönnum...?

 

Klofningsatómið

Kol, olía, stál, timbur, fiskur, búpeningur, ræktarland, byggingarland, jarðefni, jarðhiti, vatnsorka... og þannig mætti halda lengi áfram upp að telja. Þegar allt kemur til alls snúa allar athafnir mannanna að virkjun þessara gæða jarðarinnar. Í jarðargróðanum eru fólgnar frumeindir alls lífs og allir möguleikar til lífs.

Í hvert sinn sem hönd er lögð að verki er hún sífellt að brjóta upp frumeindir eða á hinn bóginn setja þær saman á nýjan hátt þannig að meiri möguleikar verði til lífs en voru fyrir. Afraksturinn birtist svo í fjölmörgum myndum fæðu, húsaskjóls, verkfæra og véla – en vélar eru verkfæri að því einu leyti frábrugðin handverkfærum að einhver önnur orka en mannshandarinnar knýr þau áfram.

Vélar og verkfæri hafa sjaldnast verið skattlögð á jörðinni nema þá óbeint og í mjög litlum mæli. Og í raun ekki mannaflið heldur nema þá óbeint – ekki fyrr en í allra seinustu tíð, og í raun ekki fyrr en á allra seinustu áratugum að kalla megi að það verði almenn regla í þróuðum ríkjum að skattleggja mannafl beint og beinlínis, og þá því fremur sem ríki hafa tekið að láta stjórnast af hagfræði vöruígilda – peninga – í stað vöruskipta. Það er þá fyrst sem tekju- og neysluskattar verða almennir og leysa eigna- og afurðaskatta að mestu leyti af hólmi.

Fyrr á tíð greiddu einungis eignamenn og búhöldar skatta – og þá eigna- og afurðaskatta fyrst og fremst. Tíund gekk til kirkju og kóngs og til framfæris þurfalinga og þá því sem næst í bókstaflegri merkingu sem svaraði til tíunda hluta afurða af jörð eða tíunda hverjum fiski af sjávarfangi eða tíunda hverju felldu tré í rjóðri skógarhöggsmannsins, allt eftir því hver jarðargróðinn var. Þar á ofan bættust leigur af jarðnæði, rentur herragarðseigandans og skattur til lénsherrans af eign. Í reikningshaldi voru notaðar verðeiningar eins og vaðmál, fiskur, ærgildi, kúgildi, og það skyldi þó ekki vera að orðið króna sé beinnar ættar við orðið korn – grain, corn – og kóróna kóngs þá ímynd kornknippis, þessa algengasta afgjalds bænda og lénsmanna í landbúnaðarlöndum til herra síns.

Þannig voru það upp til hópa einungis bændur og eignamenn sem greiddu skatta. Hljóðfæraleikarinn á kránni, trésmiðurinn í þorpinu eða járnsmiðurinn, eða vinnuhjú bænda eða stóreignamanna – alþýðan, almúginn – voru á hinn bóginn því sem næst skattlaus en gultu skattinn engu að síður á óbeinan hátt sem neytendur allra hinna margvíslegu afurða sem eftir stóðu handa þeim að afurðaskattinum greiddum. Því hærri sem skattar voru, því minna var eftir til skiptanna handa hinum almennu neytendum, en því lægri, því meira var eftir – svo einfalt var það og svo einfalt gæti það reyndar verið.

Kosturinn við þetta gamla skipulag var einfaldleiki skattheimtunnar (alls burtséð frá réttmæti skattheimtunnar, sem er allt önnur saga). Þorri fólks varð skattheimtumanna varla var heldur fyrst og fremst ráðsmenn uppskerunnar, stundum illilega. En í sama stað kom niður – allur þorrinn greiddi á endanum. Skattgreiðslur voru einfaldlega dregnar frá afurðunum áður en til úthlutunar kom á meðal almennings.

 

Atómbomban

...og værum komin á byrjunarreit. Eða þannig. Horfðum þá fram hjá öllu því mikla "barokk" og rókokkó" ef svo mætti kalla alla ofhleðslu skattalaga liðinnar aldar, og þá alveg sér í lagi allra seinustu ára og áratuga, en stæðum nú frammi fyrir "renaissance" – endurreisn allrar skattalöggjafar, endurfæðingu heimsviðskipta...

Hver væru þá markmiðin? Frjáls verslun, í besta skilningi þess orðs? Almenn samfélagsleg ábyrgð, í besta skilningi orðanna? Skýr, gagnsæ grundvallarlöggjöf, byggð á alþjóðasáttmálum? Gæti heimurinn komið sér saman um það – að skattleggja fyrst og fremst frumrót alls, sjálfan jarðargróðann, en ekki fyrirtækin sem slík eða einstaklingana? Að samband athafnalífs og einstaklinga byggðist þá á gagnkvæmum, tvíhliða samskiptum, en skattaíhlutun ríkisvalds sneri á hinn bóginn fyrst og fremst að frumgróðanum áður en til frekari úrvinnslu og ávöxtunar – og skiptingar – kæmi.

Það væri allt komið undir örfáum ríkjum – iðnríkjunum – að leiða slíkar breytingar, að slíkar almennar grundvallarreglur í viðskiptum gætu gilt um allan heim, að einstök ríki eða einstök fyrirtæki eða forréttindastéttir hefðu ekki tök á að maka sífellt krókinn á kostnað annarra og skekkja og skekja þannig heilbrigða samkeppni og samvinnu jarðarbúa.

Enginn veit hverjum klukkan glymur, við vitum það eitt að hún tifar og tifar en höfum ekki hugmynd um hverjir hafa hana í hendi sér, sem lá þó ávallt ljóst fyrir í kalda stríðinu þegar það voru einungis örfáir valdsmenn. Bilið milli ríkra og fátækra hefur aldrei verið meira í heiminum en nú er. Og það sem er geigvænlegast – og reyndar mun geigvænlegra en sjálft kalda stríðið – er hve meðvitund hinna fátæku um stöðu sína hefur fleygt fram í krafti þróunar í upplýsingatækni. Hinum fátæku svíður því mun sárar undan en ella, samfara því að öll bombutækni og þá líka atómbombutækni er á góðri leið með að verða barnameðfæri. Heit og heilög stríð krefjast ekki lengur herafla heldur einungis tækniþekkingar örfárra, að kunni á úrverk og þykir þá ekki lakara að kunni líka með atómklukkur að fara....

Vex þó bilið ekki einungis milli fátækra landa og ríkra heldur ekki síður milli fátæktar og ríkidæmis í flestum ríkjum um allan heim, iðnvæddum sem óiðnvæddum. Nýr aðall lénsherra og lénsmanna haslar sér óðum völl, alls óháður eiginlegum löndum og landamærum og gamaldags lénum en því hollari pappírskonungdæmum sem teygja anga sína um heiminn eins og risavaxnir kolkrabbar nærandist á vélmenningu – fyrir hvert og eitt mannafl sem strika má út úr kokkabókum pappírsveldis kemur óskattlögð vél í stað, en fyrrum mannaflsskatturinn, er rann til samfélagsverkefna, stendur eftir sem gróðalind krabbans.

Svört vinna og atvinnuleysi fer því vaxandi um allan heim samfara vélmenningunni sem jafnvel skipulögðustu borgir þróaðra ríkja hafa ekki undan að laga sig að, hvað þá hinar óskipulögðustu, hvað þá borgirnar hafi tök á að hemja mengunarskýin grúfandi yfir. Með lítt skattlagðri vélmenningunni leggjast svo skattar æ þyngra á mannaflsfrekar greinar eins og rekstur skóla og sjúkrahúsa og almennt talað þungt á flestar þjónustugreinar. Í flestum greinum víðs vegar um heim, og þá alveg sér í lagi í sérfræðigreinum, færist því í vöxt að almennir launþegar taki á sig gervi fyrirtækja, hirðandi hagnað af starfi sínu í skjóli fyrirtækjaskattavildar ríkisins, vinnandi þannig undir merkjum hins tvöfalda siðgæðis í leiknum maður á mann, iðulega á kostnað vinnufélaga sinna og meðborgara, skattborgaranna, vinnandi þó nákvæmlega sömu handtökin.

 

Endurfæðing?

Ef verslun Vesturlanda við annars og þriðja heims ríkin nyti ekki við, og svo hefði aldrei verið, ættu Evrópa og Norður-Ameríka allt undir sjálfum sér einum komið við öflun hráefna, nýtingu auðlinda, orku og mannafls – og þá slíkt hið sama hinar tæknilega vanþróaðri álfur, hver og einn menningarheimur fyrir sig. Vesturlönd stæðu þá frammi fyrir mjög þverrandi hráefnum, auðlindum og orku á flestum sviðum, og á sumum sviðum beinlínis frammi fyrir þurrausnum lindum, má bóka – nema ríkin hefðu sameinast um að grípa í taumana áður en í óefni stefndi, þá að ætla mætti einhvern tímann á fyrri hluta síðustu aldar.

Það er ekki okkar að dæma um hvernig þá væri um að litast í álfunum hinum sem við höfum annars leyft okkur að ganga í sem okkar eigið forðabúr væri og allra allsnægtanna. Hitt má okkur vera ljóst, að allt frá upphafi nýlendustefnunnar, öldunum fyrr, höfum við ásælst lendur og eigur annarra og farið fram í krafti mikils aflsmunar, fyrir slagkrafti iðnbyltingarinnar. Menningarheimar voru vísvitandi lagðir í rúst. Vesturlensk stjórnvöld beinlínis hvöttu fullum fetum til mansals og eiturlyfjasölu á heimsvísu, í því skyni að afla ódýrs vinnuafls og að brjóta niður mótstöðuafl og stjórnskipulag hinna framandi heima.

Flest vanþróuðustu lönd jarðar eru þau hin sömu og verst urðu úti á nýlendutímanum, sem fjaraði ekki út fyrr en komið var vel fram á öldina okkar sem var að líða. Fæst þessara ríkja hafa náð sér eftir alla niðurlæginguna sem þau mátta sæta af hálfu Vesturveldanna, og sem þau sæta í raun enn, flest að að meira eða minna leyti háð stuðningi okkar í orði kveðnu – sem þó í raun má jafna til ránskapar, að sé enn í fullu gildi, svo sem hér hefur verið lýst, hvernig við enn blóðmjólkum þau.

Sá siðferðilegi grunnur sem iðnríkin með Vesturlönd í fararbroddi byggja á er fyrir löngu brostinn. Heimspeki og trú landanna hefur beðið skipbrot, kennimenn lokað sig af í fílabeinsturnum lúinna skræða og fornaldarlegra fræða sem þeir staglast á í fáfengilegri keppni um kraftbirtingarhljóm óendanlegra heimildalista sinna, lafandi út um turnglugga, en fyrir neðan lifa og hrærast stjórnmálamennirnir í svartholi sínu. Hugarfar hreinnar illmennsku og ágirndar breiðir úr sér út um allan heim í krafti öflugri tækni og meira upplýsingaflæðis en nokkru sinni – ekki vegna þess að tæknin sé slæm eða ill í sjálfri sér, sem hún er svo sannarlega ekki, hvað þá heldur upplýsingin í sjálfu sér, heldur vegna þess að hvort tveggja er stjórnlaust. Heimspekingar jafnt sem prestar og prelátar, stjórnmálamenn jafnt sem stjórnendur stórfyrirtækja sem smáfyrirtækja, ritstjórar jafnt sem útgefendur, rithöfundar jafnt sem blaðamenn – þeir ganga orðið flestir fyrir aurum einum, hafa selt sálir sínar.

Svo lengi sem mannréttindaskrám er einungis flaggað en augum lokað fyrir hinni einföldu hlutfallafræði heimsviðskipta – að annar heimurinn skattleggur grimmt hinn og heldur ánauðugum – þá mun hið tvöfalda siðgæði allsnægtanna nærast á dauðum sálum.

 

Srinagar, Kashimir

 

______________________________

í ágúst 2004

 

Ljósmyndir: Henri Cartier-Bresson

Heimild að heimi: Heimsbók Leyniþjónustu Bandaríkjanna

 

Á hverfanda hveli:

Að aðhafast – að aðhafast ekki

Réttmæti skattheimtu

Jeppi barón og hirðin hans

Kjarneðlisfræði skattalaga

Skattlendur jarðar og jarðargróðinn

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist