Árni
B. Helgason
Jeppi barón og hirðin hans

"Átökin eru
milli tveggja grundvallaratriða, vígvöllurinn liggur eftir öllum
löndum, öllum sjó, öllu lofti; en einkum þó gegnum miðja vitund
okkar sjálfra. Heimurinn er ein atómstöð." Atómstöðin, 1948
Í árdaga atómaldar Laxness voru vígvellirnir margir og dreifðir
um alla jörð og atómið enn aðeins hugtak í vitundarlífi fáeinna.
Vitund eins á einum vellinum, í einu landinu, í einni álfunni, var
öll önnur en vitund annars á enn öðrum velli, og enn vissu fáir
neitt hver af öðrum. Vitnaðist þó sífellt meira og meira um atómið
er á öldina leið, hvernig skekið gæti löndin, sjóinn og loftið –
jafnvel alla alheimsvitundina.
Á tíð Jeppa á Fjalli (Jeppe paa
Bierget) í leikriti Holbergs enn öldunum fyrr, voru
hagsmunaárekstrar fjarlægra heima hverfandi í vitund flestra – samanborið við ginnungagapið hagsmunanna á milli sem er nú því
stærra sem hnattstaðan – og samviska okkar – er meira á hverfanda
hveli.
Átökin eru milli tveggja grundvallaratriða...
Vígvöllur Jeppa var akurinn herra hans, vitund hans stritið, eina
hugsjón hans brennvínið, eina hugsjón alþýðumannsins á þeirri tíð.
Hann var vesæll bóndadurgur, í rauninni þræll þó heita ætti
leiguliði barónsins, herragarðseigandans, drottnara síns. Bilið á
milli þeirra var stutt, að þeirrar tíðar hætti, vígvöllurinn
einungis ein lítil skák í einu litlu léni í Danmörku.
Einn sólarhring ævi sinnar naut Jeppi þeirrar náðar
að frelsast úr viðjum og komast nær því að upplifa paradís en orð fá
lýst – svo sem leikritið þó lýsir. Sér og sínum til skemmtunar
hirðir baróninn hann upp af götu sinni dauðan úr drykkju og felur
þjónum sínum að hátta hann í sitt eigið rúm í sínum eigin
hátignarlegu náttklæðum. Þegar Jeppi vaknar að morgni heldur hann
sig vera að dreyma. Eða er hann virkilega í paradís? Eða er hann
keisarinn í Kína? Varla þó baróninn sjálfur! Og reynir þó þjónninn
allt hvað hann getur að telja honum trú um það og má að lokum kalla
á lækna barónsins sem koma honum í skilning um að hann sé haldinn
slæmri ímyndaveiki, að hvorki sé hann nú í paradís hvað þá heldur sé
hann neinn keisari, heldur sé hann einfaldlega baróninn sjálfur og
enginn annar...
Tekur Jeppi þá gleði sína og aldeilis gerist húsbóndi
á sínu heimili, skipandi þjónum sínum fyrir um mat og drykk, úðandi
í sig með guðsgöflunum einum, svolgrandi í sig vínin. Hikar Jeppi
ekki við að svipta þjónana launum og hóta þeim hengingu þegar þeir
hafa ekki undan að bera í hann bjargirnar, en barónshirðin veltist
um af hlátri.
Að lokum lognast Jeppi út af sínum drykkjudauða og
baróninn lætur bera hann út á þann sama stað þar sem hann hafði hirt
hann upp af götu sinni, þar sem ekkert mun bíða hans nema kerla
hans, hún Nilla hans, og má þá eigi sköpum renna, nema bíði hans
gapastokkurinn, nema hvorttveggja væri og hann sjálfur, augliti til
auglitis. Slík var hrakspá Holbergs að ræst gætu lýðveldisdraumar,
er nokkuð var tekið að örla á í hans tíð í árdaga upplýsingarinnar.
Lýðveldi – lýðfrelsi – lýðræði – hvort ekki heldur hefur þó ræst,
allt að einu! Eða hvað ... hefur Holberg reynst sannspár ... þegar
allt kemur til alls?
Vígvöllurinn liggur eftir öllum löndum, öllum sjó,
öllu lofti...
Látum svo vera – að hvorki hafi verið draumur, hvað þá heldur að
tjaldað hefði verið til einnar nætur, en Jeppar allir og Nillur,
barónar og barónessur ... að öll hefðum við nú tekið höndum saman um
að láta drauminn um paradís rætast, drauminn um lýðfrelsi og
drauminn um
jöfnuð tækifæranna.
Og lítum yfir sviðið. Herragarðurinn er vissulega
okkar, ekki satt, á góðri leið með að verða fyrirmyndarríki þar sem
jöfnuður og almenn velferð blómgast í skjóli heilbrigðrar
samkeppni... Eða fá ekki allir sömu tækifæri til að sýna hvað í þeim
býr og útrás fyrir mannkærleikann? Varla neitt rotið lengur í
Danaveldi, hvað þá í veldi Íslendinga fremur en í öðrum
velferðarríkjum jarðar, og blómgast ekki samviskan í skjóli
mannkærleikans?
Holberg gæti þannig átt sínar hrakspár út af fyrir
sig, eða hvað – eða greiðum við einhverjum Guði lengur það sem Guðs
er eða keisara það sem keisarans er? Ráðum við ekki yfir veröld
allri og látum skenkja okkur það sem okkar er og veitum ölmusu þeim
sem ölmusu ber, að friða megum samviskuna? Hafa ekki
jafnaðarforingjar tekið höndum saman við baróna og barónessur breitt
út faðminn mót Jeppa, blómanum í fjöreggi lýðfrelsins...
Í tíð gamla Jeppa voru einungis afurðirnar
skattlagðar og þá áður en til útdeilingar afurðanna kom á meðal
almúgans. Þannig hlaut baróninn sitt og kóngurinn sitt og kirkjan
sitt og á sinn hátt hlaut keisarinn í Kína sitt. Jeppi greiddi
skattinn sinn með vinnu á ökrum barónsins og fékk að launum sína
litlu hlutdeild í afurðunum, eðlilega að skerfi höfðingjanna fyrst
frádregnum, nema væri svo heppinn að fá smá skika ræktarlands
út af fyrir sig, fyrir sig og hana Nillu sína, og voru það þá máski
öll launin, en vinnan á ökrum barónsins þá einfaldlega landskuld og
leiga. Í sama stað kom niður, Jeppi og Nilla töldust ekki til
skattborgara.
Nú sem vígvöllurinn liggur eftir öllum löndum, öllum
sjó, öllu lofti, ber nýrra við. Eða leikur ekki flestum hugtakið
skattur svo dæmalaust létt á tungu, þó vissulega þyngri kunni að
vera skattbyrðarnar hjá Jeppa barón en bara Jeppa. Í sama stað kemur
niður, öll njótum við menntunar, heilbrigðisþjónustu og öflugra
samgangna, allrar velferðarinnar, sama hvað köllumst við – Jeppi
jafnaðarforingi eða Nilla ráðherra eða Jeppi barón eða barónessa
Nilla, herra og frú hæstvirtir kjósendur Jeppi og Nilla, eða bara
Jeppi og Nilla heimsborgarar í Lúx eða á Bahamas...
En undir allri velferðinni, langt, langt úti í heimi,
strita Jeppi gamli og Nilla á vígvelli okkar víðfeðma og teljast
vissulega ekki til skattborgara fremur en fyrri daginn. Einungis
stritið kemur í þeirra hlut, en ráðsmanna okkar heims um ból er
skattheimtan, lífsbjörgin okkar, sem þeir skattheimtumenn færa okkur
yfir hafið og heim, heim á herragarðinn okkar.
Einkum þó gegnum miðja vitund okkar sjálfra...
Vi derfor Øvrighed fra Ploven meer ej tage
Giør Bonde til Regent, som udi fordum Dage,
Thi gamle Griller hvis mand fuldte derudi
Hvert Herredom maa skee faldt hen til Tyranni.
Hrakspá ... ekki hrakspá? Herradómur harðstjóra drottnandi yfir
jörð, som udi fordum Dage ... eða herradómur aðals og heimsborgara,
líkt og hertoganna, barónanna, greifanna, i de gamle, gode Dage?
Bljúg hirðin sjálft velferðarríkið sem nærist á skattheimtu
ráðsmanna vorra, viðskiptajöfranna, sem búið hafa um sig sér til
hægðarauka í borgríkjum er hafin eru yfir öll lönd, allan sjó, allt
loft, þvert á öll gamaldags landamæri, því að þegar allt kemur til
alls er vígvöllurinn nú aðeins einn, og átökin, eins og ævinlega,
milli tveggja grundvallaratriða – milli vígvallarins og vitundar
okkar, milli aðals og undirsáta.
Kemur ekki spáin í sama stað niður? Lénsskipan hin nýja
som i de
gamle Dage – aðall Jeppa og öll vor skattborgaralega hirð, en á hinn
bóginn framleiðendur annars og þriðja heimsins sem greiða skattinn
sinn með stritinu einu, búandi okkur höfðingjunum í haginn með
hráefnavinnslu og fjöldaframleiðslu hræódýrs neysluvarnings, alls
þess er myndar rætur velferðar okkar, rætur sem teygja orðið sogæðar
sínar og klær út um alla jörð.
Viðskiptajöfnuðurinn er einfaldur, líkt og í þá gömlu góðu daga
þegar Jeppi stýrði plóg, nær einhliða streymi afurða í forðageymslur
herragarðsins, í sama gamla bítibúrið sem aðallinn nærðist á, sem
gaf aðlinum afl og mátt til mennta sig (og meðal annars skrifa
leikrit, líkt og Holberg) og veitti aðlinum heilbrigði og langlífi
(líkt og Holberg) og möguleika á að fara ferða sinna að vild (líkt
og Holberg) – en á móti kemur, til alls jöfnuðar viðskiptanna, strit
hinna vanþróuðu og hungurlúsin, skattlaus reyndar, að okkar skilningi, að
okkar reikningskúnstar reglum, vissulega, enda sjaldnast af miklu að
taka í kvadratrótina.
Þannig er hnattstaðan og samviska okkar öll á hverfanda hveli,
enda veldisvaxandi tekju- og neysluskattar ein styrkasta stoð
skattvitundar okkar og allrar velferðarinnar. Í öllum viðskiptum í
velferðarríkjunum magnast tekjuskattar stig af stigi fyrir hvert
þrep viðskiptanna – öfugt við frumskattheimtu, sem var meginregla
fyrr á tíð, að skatturinn var tekinn í eitt skipti fyrir öll á
frumvinnslustigi og hafði lítil áhrif eftir það á viðskipti.
Tvísköttunin, sem launaskattar á hinn bóginn fela í sér, og krafan
um að útborguð laun nægi jafnt til kaupa á skattlagðri þjónustu
annarra sem greiðslu virðisaukaskatts af vöru og þjónustu, veldur
síðan því meiri hækkun vöruverðs og vinnulauna sem afurðin eða
þjónustan er í hærra úrvinnsluþrepi – sem hún er hátæknivæddari, á
æðra sérfræðistigi.
Því er það að hinum tæknilega vanþróuðu ríkjum er nánast um megn
að hafa annan hag en brauðstrit af viðskiptum við okkur.
Skattstofnar þeirra eru sáralitlir enda halda velferðarríkin
heimsmarkaðsverði á hráefnum í skefjum, annars vegar með skattleysi
þeirra heimafyrir og hins vegar með sundrandi ógn hervalds og dýrt
seldri, afar hátt skattlagðri sérfræðiþjónustu um allan heim.
Skattfé til lágmarksmenntunar er því vart til að dreifa á meðal
hinna vanþróuðu, hvað þá til heilbrigðisþjónustu eða til almennra
samgangna. Þvert á móti hagnýtum við okkur fátækt þeirra og fáfræði,
neyðum þá til að skaffa okkur því sem næst ókeypis hráefni og
úrvinnsluvarning í skiptum fyrir smáskammtalækningar í formi
hátæknivarnings og hátækniþjónustu – einmitt það sem við
skattleggjum hvað grimmast – hátækni, sem á hinn bóginn er forsenda
alls vítahringsins, frumvinnslunnar og allrar færibandavinnunar
okkur til handa, alls brauðstritsins undirsáta okkar; þannig er
viðskiptajöfnuði öfugsnúinnar velferðarhyggju og vanþróunar komið á
okkar dögum.
Heimspólitíkin ein atómstöð...
Að heimsviðskipti ráðist fyrst og fremst af framboði og
eftirspurn fjármagns – hráefna, úrvinnslu, mannafls – er í
hæsta máta frumstæð kenning, enda veigamesti þátturinn, framboð og
eftirspurn atkvæða í lýðræðisríkjunum, iðnríkjunum, hunsaður
– eða
hvað við viljum kalla þennan mikla herradóm okkar og jarðar allrar,
velferðarríkin. Og á meðan velferðaratkvæðin falla öll á nær sömu
lund, að skattpína skuli hina tæknilega vanþróuðu heima, mun
misréttið halda áfram að aukast í heiminum.
Nú þegar er stærsta ríki heims, Kína, á leið út á sömu refilstigu
og vanþróað lýðræði okkar er komið, óðum tekjuskattsvæðandi
velferðarskika sína, búandi til hagvaxtarspútnik úr þumalskrúfu
hinnar sömu, öfugsnúnu velferðarhyggju og okkar. Vígvöllur Jeppa
gamla keisarans er vissulega ekki lengur bara akurinn herra hans eða
vitund hans einbert stritið, hvað þá hans eina hugsjón ópíum, dópið
okkar þeim til handa – um skeið nær eina hugsjón kínversks aðals
jafnt sem alþýðu í tíð nýlenduvelda okkar fordum
Dage – heldur hillir nú undir að Jeppi sá taki mjög
heimspólitíska afstöðu.
Jeppi þessi var vesæll bóndadurgur, í rauninni þræll forðum daga
þó heita ætti leiguliði drottnara síns, herragarðseigandans, er um
hríð mátti þó heita undir hæli okkar, en tók svo á sig rögg og
reyndar mynd ríkisvalds er kenndi honum þó að lesa og eflt hefur
þrótt hans til hugar og handa á ýmsa lund, en stendur nú með annan
fótinn í hinum gamla heimi en hinn í heimi okkar, og þó báða, eins
og við öll, á einum og sama risastóra vígvellinum þar sem baráttan
snýst um velferðaratkvæðin – ella brauðstritið eitt, jafnvel
hungur. Hvorum megin hryggjar Jeppi þessi eða Jeppi hinn lendir: í
hálaunuðu tekjuskattsumhverfi velferðaraðalsins – eða í þrautpíndum
láglaunaheimi vanþróunar, frumvinnslu og færibandaframleiðslu aðli
vorum til handa, getur oltið á ýmsu.
Andstæðurnar gömlu og lífseigu, fátækt og ríkidæmi, skerpast í
sífellu út um alla jörð, jafnt í ríkjum Vesturlanda sem í Kína, sem
á vígvellinum öllum í heild. Þannig lokar velferðaraðallinn í
sífellu augum fyrir orsökum hinnar gríðarlegu sóunar orku og hráefna og alls
bruðlsins með afurðirnar, hvað þá að velti vöngum yfir hinni
miklu sóun alls vinnuafls af sömu sökum, og því vart að undra þó aðall þessi
botni lítt í því hví svo margir sitji jafnframt hjá með hendur í
skauti – að minnsta kosti í skattalegum skilningi.
Kröftum stórs hluta jarðarbúa er eytt í framleiðslu afurða, hluta
og véla, sem við svo hendum á haugana lítt notuðum vegna þess hve
hátt skattlögð öll viðhaldsþjónusta í velferðarríkjunum er orðin –
þveröfugt við hræódýra frumvinnslu og færibandavinnu hinna lágþróuðu
skattlenda okkar, slík er skattheimtan okkur til handa, brauðstrit
ánauðugra goldið með gnægð afurða okkur til handa. Við á hinn bóginn vaggandi
af velferð og sjálfumgleði, uppfull af nýjungagirni, föst í
þumalskrúfum ímyndafræðinga okkar, nákvæmlega eins og aðallinn
fordum Dage...
Jeppa heimspólitík lætur ekki að sér hæða, ekki fremur en i de
gamle, gode Dage – eða hvað? Eða öll kjarneðlisfræðin
vígvallarins og vitundar okkar... Öll gervivísindin stjórnmálafræða og markaðsfræða, félagsfræða og hátimbraðra guðfræða okkar, öll hin
mikla hagfræði siðfræði okkar – lætur hún að sér hæða, þó reist sé á
sandi, frekar en heimspekin öll?
______________________________ í ágúst 2004 Leikritið:
Jeppe paa Bierget (Ludvig Holberg,
1684-1754)
|