Árni
B. Helgason
Að aðhafast —
að aðhafast ekki
Mörg eru andlit nýlendustefnunnar

Ópíumveldin
á 19. öld: Skipting kökunnar
ER herfræðin gölluð? spurði
Morgunblaðið í ítarlegri fréttaskýringargrein
um teppalagningu og fleira í Afganistan þegar síðasta aðför
hinna velmegandi landa gegn ríkinu stóð sem hæst – ein hin síðasta í röð
margra.
Samkvæmt texta við nákvæmar skýringarmyndir með
greininni tæki það
fimm manna áhöfn fullkominnar teppalagningarvélar
aðeins innan við mínútu að leggja teppisbút sem þekti
um það bil 3ja kílómetra langt og 800 metra breitt belti, sem
svarar nokkurn veginn til þess að búturinn
klæddi alla Viðey. Samkvæmt
því tæki það aðeins rétt innan við viku að
bútasauma allt Ísland.
Árið 1965 lét Ronald Reagan hafa
eftir sér í blaðaviðtali, að út í hött væri að vera að bollaleggja
um einhverja margra ára vist í frumskógum Víetnam þegar
Bandaríkjamenn gætu malbikað landið eins og það legði sig, og
strikamálað það bílastæðum jafnframt, og engu að síður haft sig heim
fyrir jól. Voru þá ekki nema tveir og
hálfur mánuður til stefnu að kasta mætti hinstu jólakveðjunni á
Víetnam.
Þegar Japanir þráuðust við tveimur
áratugum fyrr, voru tvö valin svæði teppalögð með um 3ja sólarhringa
millibili á um það bil sekúndu hvort. Á aðeins örfáum andartökum
féllu álíka margir óbreyttir borgarar í valinn og allir Íslendingar.
Hugmyndin að baki teppalagningu er
ekki ný af nálinni innan herfræðinnar. Tilgangurinn er ævinlega sá
sami, að valda skelfingu í röðum óvinarins og lama baráttuandann.
Mannfall getur orðið óskaplegt, líkt og í Japan og Víetnam.
Tilganginum var náð í Japan, en í Víetnam ekki, ef til vill vegna
þess að ekki var farið að ráðum kvikmyndaleikarans, heldur einungis
bútasaumað með napalmeitri og
sprengiregni, en mannfólk ekki steikt upp úr geislavirku biki.
Á nýlendutímanum höfðu Bretar þann
háttinn á að teppaleggja heilu landbúnaðarhéröð margra lendna sinna
og leppríkja með valmúa. Með ópíum, sem þeir uppskáru, að vopni,
teppalögðu þeir síðan Kína og nutu til þess dyggrar aðstoðar Frakka,
Portúgala, Bandaríkjamanna og fleiri þjóða. Tilgangurinn — að valda
skelfingu á meðal Kínverja og lama baráttuþrek þeirra — náðist
fyllilega.
Breski stjórnmálamaðurinn og
heimspekingurinn Edmund Burke sem uppi var á 18. öld barðist gegn
þeirri vanvirðingu sem bresk stjórnvöld og krúna sýndu jafnan hinum
undirokuðu þjóðum. Orð hans fengu lítinn hljómgrunn, svo sem sagan
sýnir og sannar; þá helst að góðkynja
íhaldsmönnum þætti ástæða til að vitna í orð hans á helgum dögum og
tyllidögum, þótt þeir jafnan gagnstæðan hug sýndu í verki dagana þá
virku.
Elísabet II — fyrir Guðs náð
drottning Stóra-Bretlands og Norður-Írlands og annarra ríkja sinna
og jarðarparta, höfuð samveldisins og verndari trúarinnar — hennar
hátign hélt dýrlega veislu til heiðurs Jórdaníukonungi á
dögum Afganistanstríðsins og þótti þá ástæða til
að dusta af heimspekingnum rykið. Vildi hún nú til stuðnings
aðgerðunum í Afganistan hvetja fólk af öllum trúarbrögðum til að
tryggja, að haturshugur, ótti og skemmdarfýsn næði
ekki tökum á okkur mönnunum — sagði með dálítið þversagnarkenndum
orðum Edmunds Burke: Að góðu fólki væri sú ein nauðsyn brýn, vildi
það efla sigurgöngu hins illa, að aðhafast ekkert.
Rætur hins illa
Langalangömmu Elísabetar, Viktoríu drottningu,
var eitt sinn sent bréf frá Kína, frá Lin Tse-hsü, sérlegum fulltrúa
Kínakeisara í fíkniefnamálum. Eiturlyfjakóngar voru þá langt komnir
með að leggja landið að fótum sér. Viktoría var nú rétt um tvítugt
og hafði nokkuð nýlega tekið við krúnunni. Lin Tse-hsü hafði einsett
sér að uppræta fíkniefnavandann með öllum ráðum, og var eitt þeirra
að skrifa hinni ungu drottningu þetta bréf. Hvort hún hefur nokkurn
tímann fengið að sjá það er önnur saga, hugsanlega hafa ráðgjafar
hennar ekki talið það hálfgerðu barninu hollt að sjá til sín höfðað
sem eiturlyfjadrottningar.
Í annars fremur vinsamlega orðuðu
bréfi sínu, sem er upp á nokkrar síður, og eftir að hafa þakkað
drottningu ýmis góð samskipti sem tekist hefðu milli Breska
heimsveldisins og Kína, þá spyr hann hana hreinskilnislega hvað líði
samvisku hennar. — Sér hafi verið tjáð að stranglega væri bannað að
reykja ópíum í landi hennar, sem sýndi að fullur skilningur væri á
því hve ópíumneysla væri skaðleg. En fyrst ekki væri heimilt að
vinna landi hennar slíkan miska, þá því
síður skyldi hún heimila það gagnvart öðrum löndum — og þá
hve miklu síður gagnvart Kína! Eða selji
Kínverjar til annarra landa einhvern óþarfa? leyfði hinn
kínverski fíkniefnalögreglumaður sér að spyrja drottningu.
Kæmust erlend ríki af einn dag án kínverska
tesins eða rabbarbarans? Hversu margir barbarar á Vesturlöndum myndu
ekki líða skort ef Kínverjar tækju fyrir slík viðskipti? Eða tækju
fyrir útflutning á silki, sem væri nauðsynlegt til að vinna úr ull
og hör góða vefnaðarvöru?
Á hinn bóginn, hvað uppskæri Kína
fyrir útflutningsvörur sínar, og nefnir hann
til viðbótar kandíssykur, engifer, kanel,
atlasksilki og margskonar kínavöru. —
Einungis eintómt glingur og glys. Og fyrst svo
væri, hvaða erfiðleika gæti það þá bakað Kínverjum þótt þeir lokuðu
landamærum sínum og stöðvuðu öll viðskipti? Hver yrði hagur ykkar
þá? Varningurinn sem þið flytjið nú út frá Kína uppfyllir ekki
einungis ykkar eigin þarfir, heldur eigið þið einnig kost á að vinna
úr honum margvíslega vöru og selja öðrum þjóðum með margföldum
hagnaði. Jafnvel þótt þið versluðuð ekki með neitt ópíum, væri hagur
ykkar samt margfaldur. Hvernig fáið þið þá af ykkur að bjóða vöru
sem verður öðrum að meini, í því augnamiði einu að svala ykkar
óseðjandi gróðafíkn?
Á Indlandi einu, á stöðum undir
stjórn hennar hátignar, eins og í Bengal, Madras, Bombay, Patna,
Benares, Malwa, væri nú valmúi ræktaður frá einni hæðinni til
annarrar, svo langt sem augað eygði, benti
fíkniefnalögreglumaðurinn drottningu á. Legði
dauninn af eitrinu um himininn og skelfdi andana. Því ekki fremur að
rækta hollt korn og skera á rætur hins illa? Og njóta stuðnings
andanna.
Og hinn keisaralegi erindreki
fíkniefnavandans í Kína leggur jafn einlægt mat á guðfræðilegt sinni
í landi drottningar sem á verslunarmáta og viðskipta, og virðist þar
einnig ýmsum hnútum kunnugur: Okkur hefur borist til eyrna, segir
hann, að yðar hávelborinn drottinn sé góðgjarn og vænn. Segjum nú
sem svo að fólk kæmi til Englands annars staðar frá og byði ópíum
falt og ginnti fólk ykkar til að kaupa það og reykja. Áreiðanlega
fengi ykkar hávelborinn drottinn á því megnustu óbeit og tæki það
afar nærri sér. Að sjálfsögðu vilt þú ekki gera öðrum það sem þú
ekki vilt að aðrir þér gjöri.
Gróðavegurinn mikli
Fyrstu kynni Kínverja af ópíum má rekja til
tyrkneskra og arabískra kaupmanna sem hófu að versla með það um
þúsund árum fyrr. Var það löngum notað í fremur litlum mæli og
aðallega sem deyfilyf við sársauka, þangað til á 16. öld að sá siður
indíána í Norður-Ameríku að reykja tóbak tók að berast um alla jörð,
og þá einnig til Kína. Fundu glöggir reykingarmenn út að ópíum í
bland við tóbakið í pípunni yki áhrifin til muna. Undir verndarhendi
enska Austur-Indía Verslunarfélagsins, í skjóli krúnunnar — höfuðs
Breska samveldisins og verndara trúarinnar á hverjum tíma — og þvert
ofan í öll bönn kínverskra stjórnvalda, jókst nú innflutningur á
ópíum hröðum skrefum, ekki síst frá Indlandi. Önnur vestræn ríki
lágu ekki á liði sínu og sóttu talsvert í þennan gróðaveg, þar á
meðal Bandaríkin, sem versluðu jöfnum höndum með tyrkneskt sem
indverskt ópíum — allt í nafni frjálsrar verslunar, eins og tamt var
að orða það.
Það er árið 1839, að Lin Tse-hsü
ritar drottningu bréfið. Er hann þá nýlega kominn til borgarinnar
Kanton við Perluá í suðaustanverðu Kína, þá og nú einni helstu
miðstöð utanríkisverslunar Kínverja.
Eftir margfaldar viðvaranir til
kaupmanna og bresku herstjórnarinnar, og eins til landa sinna sem
þátt tóku í hinum ólöglegu viðskiptum, hafði þessi skelegga
fíkniefnalögga keisarans látið til skarar skríða, jafnt á Linton
eyju í Kantonflóa, þá einni helstu umskipunarhöfn ópíumsmyglara, sem
í vöruhúsum enskra í Kantonborg. Í téðu bréfi tjáir hann drottningu
viðskiptanna samviskusamlega að hann hafi nú gert upptækar og látið
eyðileggja á einu bretti 20.183 byrður af ópíum. En byrður voru
kistur kallaðar sem m.a. korn, mjöl og annar varningur var fluttur í
á milli landa.
Þetta svaraði til um hálfs árs
innflutnings á þessum tíma, eða sem nemur um 1.200 tonnum af efninu,
sem jafngildir 3/4 hlutum ársframleiðslu mesta ópíumræktanda í heimi
á vorum dögum, Afganistan, að mati CIA. Á þessum tíma hefðu þessar
tuttugu þúsund byrður nægt til að svala ópíumþörf margra milljóna
Kínverja í eitt ár. Með flóknum nútímaaðferðum mætti vinna úr því um
120 tonn heróíns sem dygði til ársins handa tugum milljóna manns.
Neytendur komu ekki síst úr yfirstéttum, þar sem erlendra áhrifa
gætti mest, og kaupgetan var mest, svo lengi sem þeir ekki heltust
úr lestinni, dauðir úr dópinu, líkt og þá nýlega höfðu orðið örlög
sonar keisarans, ellegar að lánið léki á annan hátt við þá og þeir
kannski ynnu sig upp í að verða göturæsiskandídatar.
Ópíumkaupmenn sáu sitt óvænna og
fá nú augastað á eyjunni Hong Kong, skammt austur af mynni
Kantonflóa, sem kjörinni miðstöð fyrir athafnir sínar. Höfn var þar
afbragðsgóð og hentug til að umskipa ópíum og öðrum nýlenduvörum,
sem leynt skyldu fara, úr kaupskipum um borð í kínverska smyglkugga.
Kaupskipin gátu að því loknu siglt óáreitt inn flóann og upp Perluá
til Kantonborgar og þá aðallega með löglegan varning innanborðs.
Hong Kong átti eftir að vaxa og
dafna, fyrst framan af sem ein helsta miðstöð fíkniefnaviðskipta í
heiminum. Til marks um vaxandi árangur viskiptanna þá skiptu
ópíumneytendur í Kína orðið tugum milljóna undir lok 19. aldar.
Kínverskt stjórnkerfi var þá orðið lamað enda ráðamenn einungis
strengjabrúður í höndum postula frjálsrar verslunar, aðallega
kristinna. Á 20. öld varð Hong Kong slík miðstöð almennra
heimsviðskipta, svartra sem hvítþveginna, að varla hefur
verslunarvald verið miklu samanþjappaðra og meira í heiminum fyrr en
New York deildin skákaði öllum Babelsturnum veraldarsögunnar með
vígslu World Trade Center himnakljúfanna undir lok 8. áratugar
aldarinnar.
Ópíumstríðin — ópíumverslun
lögleidd
Lin Tse-hsü lýkur skrifum sínum með sárri bón
til hennar hátignar um að hafa hemil á hinum guðlausu, barbarisku
kaupahéðnum lands hennar og binda endi á ópíumverslunina. En allt
kom fyrir ekki. Bréfið til Viktoríu drottningar bar engan árangur.
Þegar þarna var komið sögu, árið 1839, nam innflutningur á ópíum um
40 þúsund byrðum á ári, frá því að telja aðeins rétt um 200 byrður
góðri öld áður. Var þó ópíumvandinn þá þegar orðinn slíkur, að árið
1729 sá Yung-cheng, þáverandi keisari, sig
knúinn til að banna með öllu sölu ópíums sem og að reykja það. Kom
það fyrir lítið sem og önnur ópíumbönn arftaka hans.
Hvort sem það átti að heita svar
Breta við aðgerðum hins kínverska fíkniefnalöggæslumanns eða við
téðu bréfi hans til drottningar, nema hvort tveggja væri, þá hófu
þeir nú sitt Fyrra ópíumstríð, sem svo hefur verið nefnt og þeir
háðu við Kínverja á árunum 1839 til 1842. Því lyktaði með
nauðungarsamningum. Kínverjar skyldu gjalda háar stríðsskaðabætur og
meðal annars afsala sér fimm höfnum til Breta þar sem þeir gætu búið
óáreittir og stundað sín frjálsu viðskipti. Var Hong Kong þar á
meðal. Breskir borgarar skyldu heyra undir bresk lög og breskan
rétt. Þess var líka skammt að bíða að aðrar vestrænar þjóðir gerðu
samsvarandi kröfur og fengu þeim ekki síður framgengt. Enn var ópíum
í orði kveðnu látið heita bannað að kínverskum lögum en fyrir
ráðríki útlendinganna var heimamönnum á hinn bóginn gert nær ókleift
að framfylgja þeim.
Árið 1856 gerði lögreglan í Kanton
tilraun til að yfirtaka kaupskipið Arrow, sem var í eigu Kínverja og
mannað Kínverjum en skráð breskt og sigldi undir breskum fána. Var
áhöfnin sökuð um smygl og víkingaskap. Bretar brugðust umsvifalaust
við og sendu flotadeild upp Perluá til Kanton. Frakkar sendu einnig
að bragði hersveit á vettvang, reyndar undir því yfirskini að
kínversk stjórnvöld hefðu látið aflífa franskan kristinboða í Kína.
Rússar og Bandaríkjamenn biðu átekta og sendu einungis diplómata
sína til að fylgjast með, hafa talið sinn vitjunartíma tæpast
kominn.
Seinna ópíumstríðið var hafið. Að
rúmlega ári liðnu höfðu Frakkar hernumið Kantonborg. Nokkrum mánuðum
seinna héldu herir þeirra inn í eina af helstu hafnarborgum Kína,
Tientsin, skammt suður af Peking. Kínverjum var enn þröngvað til
samninga, nú meðal annars um að opna tíu hafnarborgir til viðbótar
og enn með skilmálum um rétt erlendra borgara til að eiga þar búsetu
og stunda viðskipti að eigin geðþótta, auk þess sem yfirráð Kínverja
yfir hinum ýmsu landssvæðum voru mjög takmörkuð eða gerð að engu.
Sölsuðu Bretar þá einnig undir sig skagann sem liggur að Hong Kong,
auk nærliggjandi eyja. Þá skyldu vestrænir erindrekar hafa heimild
til að dvelja í Peking og kristinboðar vera frjálsir ferða sinna um
landið allt, svo fátt eitt sé nefnt. Að samningi þessum loknum þótti
vesturveldunum þó ekki nóg að gert, heldur knúðu Kínverja fáeinum
mánuðum seinna til að aflétta með öllu banni við verslun með ópíum.
Seinna ópíumstríðinu, eða
Örvarstríðinu, sem svo var kallað eftir kaupskipinu Arrow, var þó
ekki þar með lokið, því að Kínverjar þráuðust við að staðfesta
nauðungarsamninginn. Það neyddust þeir þó til að gera árið 1860 með
undirritun Pekingsáttmálans svonefnda, með boðbera kristnidóms og
frjálsra eiturlyfjaviðskipta yfir höfðum sér, gráa fyrir járnum, sem
þá höfðu tekið Peking herskildi og meðal annars brennt sumarhöll
keisarans til grunna.
Herfræðin gölluð — eða
fjölmiðlafræðin?
Ópíumvandinn var að lokum að mestu upprættur í
Kína. Var hliðum jafnframt skellt í lás fyrir frekari áhrifum
vestrænna kaupahéðna með því Kínverjar kusu að teppaleggja land sitt
með kommúnisma. Alþýðan rís aldrei upp fyrir sakir árásargirni
heldur fyrir óþoli þjáninganna, varaði Edmund Burke höfðingjana við,
hartnær tveimur öldum áður, en fékk engan hljómgrunn, og virðist
lítinn fá enn.
Nú, þegar eiturlyfjavandinn
brennur á eigin skinni, hamast ríkustu þjóðir heims á hinum
fátækustu. Afganistan hefur löngum
verið þrælkað af
fíkniefnabarónum til að sjá þeim fyrir ópíum, mikilvægasta hráefninu
til framleiðslu heróíns. Valmúarækt vegur orðið þyngst í
landbúnaðarframleiðslu þjóðarinnar, sem er langstærsti
atvinnuvegurinn. Tók Afganistan forystuna í þessum efnum fyrir
fáeinum árum af Myanmar, sem áður hét Burma. Bæði löndin voru löngum
leppríki Breta eða undirokuð af þeim á einn eða annan hátt. Hafa þau
verið langsamlega stærstu framleiðendur ópíums í heiminum síðan
vestræn stjórnvöld hættu að stuðla opinberlega að ræktun þess á
Indlandi, í Kína og víðar um lönd.
Fjölmiðlar, múlbundir af víli
herfræðinga, lýsa fyrir okkur stríðsrekstri stórþjóðanna í
vísindalegri hnotskurn. Beina sjónum okkar að herfræði aðgerðanna —
frá sögunni og sérkennilegri siðfræðinni sem að baki býr. Bláfátækir
bændur hafa löngum verið neyddir til að framleiða hráefni og fengið
hungurlús fyrir. Afurðin — ópíum, morfín, heróín, eða hvað hún hefur
kallast — síðan seld dýrum dómum og því dýrt seldari sem hún er verkuð
meira. Í téðu bréfi til Viktoríu drottningar er því lýst eftir hvaða
leiðum breskir herramenn fyrrum keyptu sér te. Og silki í
sokka og slæðu drottningar.
Undanfarin ár hafa
fjölmiðlar lýst því
fjálglega eftir hvaða leiðum hann fer, breski herramaðurinn Tony
Blair, að kaupa sér grið. Og vinum sínum, teppalagningarhetjunum
fræknu. Hann ætti að þekkja þær, leiðirnar, þekki hann eitthvað til
sögu þjóðar sinnar, sögu silkileiðarinnar, sögu tekaupa, sögu olíu-
og ópíumviðskipta, sögu valmúavíls. Nema að hann sé alinn upp við
hreint fjölmúlavíl.
Er nema von að Morgunblaðið
hafi spurt hvort fræðin væru
gölluð? En varla heldur von að blaðið hafi áhuga á að upplýsa
lesendur sína um söguna sem býr að baki stríðsrekstri stórþjóðanna,
þegar öll athygli þess er rígbundin við herfræðina, svo múlbundið
sem það er af öllu vílinu.
______________________________ nóvember 2001 – febrúar 2004
Heimildir:
Morgunblaðið, sunnud. 4. nóv. 2001 - bls 12:
Er herfræðin gölluð?,
Timarit.is - PDF-skjal
Lin Tse-Hsü:
Letter of Advice to Queen Victoria,
DigitalChina-Harvard.edu
Arthur Waley:
The Opium War Through Chinese Eyes,
Stanford 1958/1968
Encyclopædia Britannica:
Lin Tse-hsü
|