< Umhverfi og byggð

 

Brautir í borg og bæjarleiðir

Samspil umhverfis og umferðarmannvirkja

 

Þó ólíku sé saman að jafna hvað varðar fólksfjölda þá er munurinn á reykvískri umferð og hinna ýmsu stór-borga heims minni en ætla mætti vegna þess hve bifreiðaeign og notkun einkabifreiða er miklu almennari í Reykjavík en tíðkast víðast hvar. Þrefalt færri eru um hvern einkabíl í Kaupmannahöfn en í Reykjavík og þar er notkun almenningssamgangna um sexfalt almennari. Í Stokkhólmi eru almenningssamgöngur um tífalt almennari en hér og um fjórfalt færri nýta sér einkabíl. Meðal Reykvíkingur ferðast 6680 km á ári innan sinna borgarmarka á sama tíma og Kaupmannahafnarbúinn gerir sér helmingi skemmri veg að góðu. Stokkhólmsbúanum nægir innan við fjórðungur hins reykvíska vegar, eða sem svarar til einungis 1440 km á ári hverju. Það segir líka sína sögu um bæjarleiðirnar að öll Stór-Reykjavík er svipuð að flatarmáli innan sinna óreglulegu borgarmarka og hin eiginlega Parísarborg er innan öllu hringlagaðri marka sinna. Stórborgin er meira en tífalt þéttbýlli en hin fámennari borg og gengur umferð þar þó furðu skjótt fyrir sig.

Í fyrsta hluta er hugað að tvískiptingu Sundabrautar yfir Elliðaárvog – hvort möguleiki væri að ná fram jafnari umferðardreifingu með tveimur einföldum tvístefnuleiðum í stað einnar fjórbreiðrar leiðar, auk þess sem leið væri lögð um stokk og göng undir Langholt og um Laugardal milli Holtagarða og Glæsibæjar. Annar hluti fjallar um gerð sérleiða fyrir fólksbíla um lággöng og lágstokka – en þannig mætti nýta fé til umferðarmannvirkja mun betur en ella og leysa marga samhangandi samgönguhnúta í einni samfellu. Í þriðja hluta er svo sýnt fram á hvernig mætti beita slíkri lágganga- og lágstokkalausn á Miklubraut og gatnamótum.

 

 

1. Tvískipting Sundabrautar um Elliðaárvog

Um árabil hafa verið skiptar skoðanir um legu frumáfanga Sundabrautar á kaflanum innan úr Sundum yfir Elliðaárvog að Gufuneshöfða. Valið virðist nú standa fyrst og fremst milli tveggja meginkosta, innri leiðar um manngerða eyju á miðjum voginum eða ytri leiðar um hábrú. Báðir leiðir byggjast á fjórbreiðri braut með verulega miklum umferðarmannvirkjum, stokkum og brúm, m.a. vegna tengsla við Sæbraut.

Tvær einfaldar tvístefnuleiðir. (Myndgrunnur, lítið eitt breyttur, úr skýrslu Línuhönnunar: "Sundabraut, 1. áfángi. Mat á umhverfisáhrifum")

Væri skynsamlegra að leggja tvær brautir yfir voginn með samsvarandi dreifðara umferðarálagi og minni röskun á öllu umhverfi? Þá annars vegar að mestu leyti einfalda tvístefnuleið um göng gegnum Gufuneshöfða og á brúm og fyllingu yfir voginn að Gelgjutanga, og síðan innar með voginum en annars hefur verið gert ráð fyrir, inn með vesturálum Elliðaáa allt að Vesturlandsvegi en hins vegar, að nokkrum árum liðnum, væri ytri leiðin lögð, einnig að mestu leyti sem einföld tvístefnuleið, um tvíbreiða hábrú, í stað fjórbreiðrar svo sem annars hefur verið miðað við, frá Kleppsvík yfir að Gufuneshöfða norðanverðum –?

Jafnframt er hugað að leið er lægi um stokk og göng um Laugardal og undir Langholt Holtagöng milli Holtagarða og Glæsibæjar, til að jafna enn frekar og dreifa umferðarálagi...
[nánar um tvískiptingu Sundabrautar...]

 

2. Lágstokkar og lággöng – umferð á krossgötum

Með flýtileiðum fyrir fólksbíla um lággöng og lágstokka mætti víða koma mesta umferðarþunganum af yfirborði og þá jafnframt lækka hámarkshraða um íbúðabyggð og draga þannig úr slysahættu og minnka umferðarnið – án þess þó að ógna jafnframt umhverfinu með umfangsmiklum umferðarmannvirkjum, eða fjárveitingarvaldinu fram úr hófi.

Gatnakerfi á yfirborði miðast þá við jafna umferð án teljandi hindrana á gatnamótum. Vægi umferðarljósa minnkar svo að ýmist má sleppa þeim eða búa þau skynjurum sem einungis hömluðu umferð þá þörf væri á, en hringtorg væru annars sett á gatnamót ásamt helmingaskiptum undirgöngum þar sem þess væri kostur. Allt flæði umferðarinnar yrði því jafnara, hvort sem er ofanjarðar eða neðan, leiðir ávallt greiðar og lausar við umferðarteppur á annatímum.

Enginn væri knúinn til að fara gangaleið eða um stokka, enda ávallt val um tvær leiðir nema fyrir hin tiltölulega afar fáu ökutæki sem væru yfir stærðarmörkum ganga og stokka...
[nánar um lágstokka og lággöng...]

 

3. Miklabraut og krossgötur

Fjármagn til samgöngubóta á höfuðborgarsvæðinu er ekki bara takmarkað heldur er einnig takmarkaður arður af því vegna þess hve það deilist í fáa staði. Heildartjón tryggingafélaga nema gróft á litið um einum milljarði króna á ári hverju vegna Miklubrautar einnar og gatnamóta, og er þá ótalinn allur samfélagslegur kostnaður og margvíslegur skaði sem tryggingafélögin bæta ekki.

Með lausnum sem byggðu á lágstokkum og lággöngum samfara gerð hringtorga á gatnamótum mætti lækka kostnað við umferðarmannvirki verulega. Fjármagnið deildist þá í því fleiri staði og margir samhangandi samgönguhnútar væru leystir í einni samfellu – og þó nánast að uppfylltum sömu skilyrðum og hefðbundin mannvirki lúta um verulega minni slysahættu samfara auknum umferðarafköstum...
[nánar um Miklubraut og krossgötur...]

 

Heimilda er getið í hverjum kafla fyrir sig

______________________________

Brautir í borg og bæjarleiðir:

1. Tvískipting Sundabrautar um Elliðaárvog

2. Lágstokkar og lággöng - umferð á krossgötum

3. Miklabraut og krossgötur

 

© október 2004

Árni B. Helgason

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist