Kostnaður

Google Translate

Venjuleg veggöng eins og Héðinsfjarðargöng kost­uðu fullbúin með akbrautum, lagnaleiðum, ganga­munnum og nær­liggjandi brúm og vegum, að meðtöldum kostnaði við rannsókir, hönnun og eftirlit, um einn og hálfan milljarð króna hver kíló­metri – eða sé kostnaði jafnað niður sem hlut­falli af sprengdu holrými í tæplega 11 km löngum Héðins­fjarðargöngum, um 580 þús. rúmmetrum af föstu bergi, þá eru það um 27 þús. krónur á hvern rúm­metra, eða um 33 þús. kr. m.t.t. verðlagsbreytinga, og kann það að verða svipað í Norðfjarðar­göngum.[1]

FáskrúðsfjarðargöngSé reiknað með hálfu hærra einingar­verði til jafn­aðar, eða um 50 þús. krónum á hvern rúmmetra, þá gefur það grófa vísbendingu um að grunnkostn­aður við 130 km langa neðanjarðarleið á höfuð­borgar­svæð­inu, með þverskurðarflatarmál sprengds holrýmis um helm­ing af venju­­legum veg­göngum, 26 fm í stað um 53 fm, svo sem í Héðinsfjarðar- og Norð­fjarðargöngum, gæti legið í kringum 169 millj­arða króna – miðað við fullbúin göng, ganga­munna og stokka, með tilbúnum akbrautum, frá­rennslum og lagnaleiðum – en án fjarskipta- Gangasnið - 26 fm / 53 fmog rafhleðslu­bún­aðar. En að frátöldum þeim búnaði væri um margt nokkuð áþekk göng að ræða, nema hvað varðar stærðar­muninn. Samsvar­andi leið um Suðurnes frá Straumsvík, alls um 50 km, á drýgstum hluta leiða á yfir­byggðum fylling­um en jafnframt í göngum og stokkum, má ætla að myndi kosta um 50 milljarða króna. – Alls myndi þá byggingarverð full­búinna brauta með öllum lögnum og lagnaleið­um, en án kostn­aðar við fjarskiptanet og rafhleðslu­búnað, nema um 219 milljörðum króna.

Gera má ráð fyrir að 7 stórar brautarstöðvar kosti um 1 milljarð hver, eða samtals 7 milljarða, 21 miðlungi stór stöð kosti 500 milljónir hver, alls 10½ milljarð, og að 176 litlar stöðvar kosti 300 milljónir króna hver, eða alls um 52½ milljarð – allt fullbúnar stöðvar með rúllustigum, lyftum, brautar­pöllum og sjálfvirkum hurðum. Heildarbyggingar­verð stöðv­anna væri þá um 70 milljarðar króna.

Fjarskipta- og rafhleðslubúnaður fyrir öll göngin og stöðvarnar ásamt varaaflsrafstöðvum má gróflega ætla að kosti um 27 milljarða króna.

Tólf hundruð 6 farþega vagnar á 10 milljónir króna hver myndu alls kosta 12 milljarða króna og fimm hundruð 20 til 25 farþega vagnar á 30 milljónir hver alls 15 milljarða króna. Heildarverð vagna með öllum búnaði, þ.m.t. rafgeymum, ratsjám og fjarskipta­búnaði, væri þá um 27 milljarðar króna.

Loks má reikna með að byggingarkostnaður höfuð­stöðva, stjórnstöðvar og rekstrar- og þjónustu­stöðva væri alls um 8 milljarðar króna fyrir allt kerfið, og að stjórn- og fjarskiptabúnaður stjórn­stöðvar kostaði 3 milljarða króna.

Fjármagnskostnað á framkvæmdatíma má áætla um 30 milljarða króna en að seld jarðefni úr göng­um og skeringum, m.a. til flugvallargerðar, næmu um 10 milljörðum króna og myndu því standa undir hluta fjármagnskostnaðar.

Öll fjárfestingin, þannig reiknuð, myndi þá nema um 374 milljörðum króna.

Opna fjármálayfirlitÁrlegur heildarkostnaður við rekstur alls kerfisins væri fyrst og fremst vextir og afskriftir, rafmagns­kostnaður vegna far­þega­flutn­ing­anna o.fl. og loks starfsmannahald.

3,5% vextir á ári jafngiltu rúmlega 13 milljörðum króna, en 1 til 2% afskriftir af meginhluta ganga, stokka og bygg­inga, og 5 til 8% afskriftir af því sem skemur entist af hlut­um kerfisins, næmu samtals um 9½ millj­arði króna, þannig að alls næmu vextir og af­skriftir um 22½ milljarði króna á ári. Raf­magns­kostn­að, auk kostn­aðar við endur­nýjun hjól­barða og annað skamm­tíma­viðhald, má áætla um 3½ milljarð króna á ári, og að starfs­manna­hald, laun og launa­tengdur kostn­aður, vegna höfuð­stöðva, stjórnstöðv­ar og marg­vísleg­rar rekstrar­þjónustu við brautir og brautarstöðvar, ásamt ýmsum búnaði til daglegs rekstrar, næmi einnig um 3½ milljarði króna.

Rekstrarkostnaður væri þá alls um 29 milljarðar króna á ári. Þá ber að hafa í huga að afskriftir fela í sér allt eiginlegt lang­tíma­viðhald (samfara afborg­unum af lánum), allan kostnað sem miðar að því að viðhalda mannvirkjum til lengri tíma litið, en ein­ung­is mjög skammvinn endurnýjun, svo sem hjól­barða o.þ.h., flokk­ast með daglegum rekstri.

Ef fjöldi ferða um höfuðborgarsvæðið væri 55 millj­ónir á ári og meðalfargjald væri um 230 krónur, þá næmu fargjaldatekjur af þeim hluta um 12,7 millj­örðum króna, en tekjur af Suðurnesjahluta, miðað við 7 milljónir ferða og 2300 króna meðal­fargjald, næmu um 16,1 milljarði króna. Fargjaldatekjur í heild næmu þá um 28,8 milljörðum króna, þannig að mis­munur, sem kæmi í hlut hins opinbera, sveitar­félaga og ríkis, næmi um 300 milljónum króna.

Heildarrekstrartekjur væru þá jafnar heildar­rekstrar­­kostnaði – um 29 milljarðar króna á ári. Allra fyrstu árin, á meðan farþegar væru nokkru færri en hér er miðað við, væri hlutur hins opinbera allt að 4 millj­örðum króna en færi stigminnkandi með árunum þar til jarð­brauta­netið færi að standa alfarið undir sér án stuðnings hins opinbera, e.t.v. að 8 til 10 árum liðnum frá verk­lokum.

Vagnar á brautarstöð

{ultimatesocialbuttons}

 

[1] Héðinsfjarðargöng 2006-2009http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Hedinsfj_Kynningarbaeklingur/$file/Kynningarb%C3%A6klingur-4b.pdf

Kostnaður við Héðinsfjarðargönghttp://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/frettir/nr/4801

Norðfjarðargöng, yfirlit  – http://www.vegagerdin.is/verkefnavefir/Nordfjardargong.nsf

 

Mynd nr. 2: Fáskrúðsfjarðargöng – Vegagerð ríkisins – http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/frettir/nr/4281

Aðrar myndir, en eru tilgreindar, eru höfundar