Strandbyggðin - hafnarhverfin
2. Umferðarskipan (apríl 2004)
Helstu umferðaræðar og aðkomuleiðir
Lögð eru drög að byggð þar sem annars vegar eru hús,
bryggjur, götur, torg og gróður
og fremur hægfara umferð en ekki íþyngjandi, hins vegar hröð umferð
neðanjarðar í fyrirferðarlitlum mjógöngum og lágstokkum fyrir fólksbíla og
önnur minni ökutæki á meginleiðum.
Gatnakerfi á yfirborði miðast þá við
jafna umferð án teljandi hindrana á gatnamótum. Vægi umferðarljósa
minnkar svo að ýmist má sleppa þeim eða búa þau skynjurum sem
einungis hömluðu umferð þá sjaldan þörf væri á, eða á hinn bóginn setja
hringtorg á gatnamót. Allt flæði umferðarinnar verður því jafnara,
hvort sem er ofanjarðar eða neðan, leiðir ávallt greiðar og lausar
við umferðarteppur á annatímum. Enginn er knúinn til að fara
gangaleið eða um stokka, enda ávallt val um tvær leiðir, gegnum
byggðina eða undir hana, nema fyrir hin tiltölulega afar fáu ökutæki sem eru
yfir stærðarmörkum ganga og stokka.

Birta uppdrátt:
(370 kb) -
(960 kb)
Ein akrein á hindrunarlausri ganga- eða stokkleið getur annað allt
að því á við tvær venjulegar akreinar á venjulegri stofnbraut með
tafsömum ljósum og gatnamótum. Umferðarflæðið eykst því all verulega
og að sama skapi öll landnýting á yfirborði. Hraðleiðir um
stokka og göng gera kleift að lækka hámarkshraða á yfirborði og þar með
byggingamörk vegna hljóðverndar. Engu að síður gengur umferðin
greitt fyrir sig vegna þess hve farartækin eru færri og því lítið um
tafir á gatnamótum.

Tvenn mjógöng, 15 til 20 fermetrar
að þverskurðarmáli, heilboruð fyrir hvora akstursstefnu á
tvístefnuleið, samanlagt þverskurðarflatarmál um 30 til 40 fm, eða rétt
um helmingur af venjulegum tvístefnu-gögnum fyrir öll ökutæki.
Göng þarf því minna að styrkja sem þau eru mjórri, jafnvel
lítið sem ekki neitt þegar best lætur, auk þess sem þau krefjast
lítillar bergþekju. Þegar verst lætur í
víðustu göngum í brotgjörnu bergi getur kostnaður við styrkingar
ganga numið jafn miklu og við sjálfa gangaborunina og
brottflutning efnis.
Þá má ætla að heilborun
ganga eigi almennt betur við eftir því sem göng eru mjórri,
sérstaklega hér á landi þar sem jarðlög eru víðast hvar fremur
lárétt í eðli sínu vegna ungs jarðsögulegs aldurs. Heilborun
hefur líka þann kost að yfirborð gangaveggja verður mun
sléttara og því minni hætta á alvarlegum slysum missi ökumaður
stjórn á ökutæki og það rekist utan í vegg, fyrir utan að hætta
á árekstri farartækja er kæmu á móti hvort öðru væri engin í
mjógöngum.

Hætta af völdum
jarðskjálfta og hruns væri til muna minni og viðhaldskostnaður
mjóganga hverfandi samanborið við víð göng. Hætta á slysum af
völdum elds væri að því leyti miklu minni, að samliggjandi
mjógöng væru sam-tengd með ákveðnu millibili með akfærum opum
með sjálfvirkt opnandi eldvarnar-hurðum á milli og þjónuðu
þannig hvort öðru sem öryggisgöng, auk þess sem útskot væru með
jöfnu millibili, með öryggissímum og slökkvibúnaði.
|
Séu
göng og stokkar tengdir
bílakjöllurum, þá dregur enn frekar úr umferðartöfum ofanjarðar og styður
þá hvað annað - greiðar ferðir til og frá, einkabíla
sem og almenningsfarartækja, og rými eykst fyrir þétta byggð jafnt sem
fyrir opin svæði og almenningsgarða, án truflunar af hávaðasamri og
mikilli umferð. Útblásturs- og rykmengun minnkar - ofanjarðar
vegna minni og hægari umferðar, en neðanjarðar væru göng og stokkar loftræst og menguðu lofti blásið út og upp í loft, upp yfir byggðina.

Fyrir miðri myndinni að ofan er 17. júní torg
og hringleika- og veitingahúsið Jökulsbúð, vestur undir túnjaðri
Arnarhóls. Lega Víkurganga og Skólavörðuganga er mörkuð daufgulum
lit.
Myndin að neðan sýnir hvernig helstu stokka-
og ganga-leiðir myndu koma saman við neðanjarðarhringtorg undir
Jökulsbúð, sem væri reist upp af torginu miðju. Þetta væri stórt 2ja
akreina torg sprengt inn undir Arnarhól. Að verki loknu væri hóllinn
færður á ný í sama horf og lagaður að 17. júní torgi er lægi upp að
Jökulsbúð og túnjaðrinum.
 |
Þó ekki sé sýnt á myndinni mætti leggja
tvær akreinar í dýpri viðbótarstokk, eina fyrir hvora stefnu,
undir torgið á milli Geirsgötustokks og Víkurganga, ef sýnt þætti að
torgið eitt og sér annaði ekki umferðinni. Mest öll umferð milli
Geirsgötustokks og Víkurganga færi þá undir torgið og létti
þannig verulega á því. Þessi tilhögun, sem kallaði á heldur
breiðari stokk og göng næst sér, væri talsvert dýrari en
vafalaust þess virði, að ekki væri hætta á umferðarteppum við
torgið,
sérstaklega á hátíðisdögum þegar mikill straumur liggur í bæinn. |
Ljósu fletirnir á myndinni að ofan og hér fyrir neðan sýna
bílageymslur sem gætu legið undir byggingum á þessu svæði, og næðu
þó sums staðar út undir aðliggjandi götur. Því frekar sem tengja má
þær beint stokkum og göngum þá dregur úr umferð á yfirborði. Sá
möguleiki er einnig opinn að mynda tengsl við bílageymslu
Seðlabankans, rétt austan við torgið, þá beint frá Víkurgöngum, og
einnig að tengja sömu göng við bílageymslur á Stjórnarráðsreit, þar
sem þau færu þvert undir reitinn, áður en þau kæmu undan Skúlagötu
og tengdust Sæbraut. Yrði þá að vænta má að reikna með meiri
gangabreidd á köflum af þessum sökum, sem reiknaðist þó að talsverðu
leyti sem kostnaður af bílageymslunum.

Almennt er miðað við að bílageymslur myndu vera samnýttar, a.m.k.
undir stofnana- og atvinnubyggingum. Þannig væri sjálfsagt að reikna
með að bílageymslur Seðlabanka og tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvar
samnýttust með Listaháskóla og verslunarmiðstöð (byggingunum mitt á
milli hinna fyrrnefndu), eins og hér er gert ráð fyrir. Þannig getur ákveðin
samröðun bygginga leitt til hagræðis, séu annatímar hluta
bygginganna yfir hádaginn en annarra seint síðdegis og á kvöldin og
um helgar - svo sem nánar er lýst í þættinum Samfelldri hugmynd að
skipulagi.

Miðað er við að Framnesgöng komi í beinu framhaldi af
Geirsgötustokki, og þá undir Geirstorgi, en að Þjóðminjagöng tengdust á hinn bóginn
torginu sjálfu, hvar gangamunninn opnaðist skammt norðan Vesturgötu. Álag væri því
lítið á Geirstorgi, og ekkert af völdum Framnesganga. Mögulega mætti
þó tengja Framnesgöng með römpum við Tryggvagötu að vestanverðu við
Geirstorg en alls óvíst að nokkur ávinningur væri af því, enda
líka þröngt um vik og væri kostnaðarsamt.

Aðalkosturinn við Framnesgöng væri hve umferð myndi létta af
Mýrargötu og Smiðjugötu (sem væri ný gata í framhaldi af
Tryggvagötu, er lægi gegnum slippsvæðið og tengdist Mýrargötu og
framlengdum Bræðraborgarstíg við Mýrartorg) og leggja mætti af allar
hugmyndir um stokk á þeim slóðum, svo sem fram hafa komið.
Beita skrunborða - eða birta
langsnið
Hámarkshæð og breidd ökutækja í göngum og
stokkum gæti legið nálægt 2,3 metrum -
en innan þeirra marka rúmast um 95 af hundraði
allra ökutækja...

30 til
35 fm lággöng |
Framnesgöng
gætu verið tvenn 15 til 20 fm samsíða mjógöng, hvor
göng um 4,5 til 5 metrar í þvermál, með vegbreidd um 3,5 metrar og álíka
lofthæð, sbr. mynd ofar á síðunni - eða á hinn bógin ein 30 til 35
fm lággöng, boruð og sprengd á hefðbundinn máta, sbr. mynd hér til
hliðar. Lofthæð Geirsgötustokks yrði e.t.v. um 2,7 m. Vestantil lægi stokkurinn um 3 metra undir yfirborði, en
austantil, nær Arnarhóli, væri dýpt hans um 2 metrar frá núverandi
yfirborði, en á hinn bóginn myndi þak stokksins og nærliggjandi svæði
þeim megin hækka um einn metra frá núverandi hæðarlegu.
Um það bil þar
sem endastöð SVR var í gamla daga, allt fram á 7. áratug, kæmi stórt
neðanjarðarhringtorg er næði inn undir Arnarhól og tengdi saman
Geirsgötustokk, Víkurgöng og Lækjargötu, og e.t.v. Skólavörðugöng
með tíð og tíma, en upp af torginu miðju kæmi mannvirki er myndaði
undirstöðu útileikhúss og útisviðs - Jökulsbúð.
Víkurgöng væru áþekk Framnesgöngum að gerð, en
miklu styttri en þó stærri um sig og breiðari á köflum, sér í lagi
næst hringtorginu, að rúmuðu tvær akreinar á aðliggjandi stefnu. Að
austanverðu tæki stokkur við Víkurgöngum, u.þ.b. undir Sölvhólsgötu,
sem opnaðist norðan Skúlagötu, þaðan sem akreinar lægju undir brú
syðri akreina Sæbrautar áður en sameinuðust brautinni á sitthvorri
akstursstefnunni.
Miðað við 60 km meðalhraða ökutækja, með um 30
m millibili (um 25 m, að frátalinni lengd bíls), gæti akrein hvorrar
akstursstefnu annað allt að 2000 bílum á klukkustund við bestu
aðstæður. 30 km
meðalhraði ökutækja með um 15 m millibili (um 10 m frá bíl í bíl),
gefur sömu útkomu - ein akrein annaði eftir sem áður um 2000 bílum á
klst, sem jafngildir 4000 bílum í tvístefnu.
Með
hraðastýringu mætti auka virkni ganga- og stokkaleiða og öryggi
þeirra, með því
hraðanemar ásamt röð leiðbeinandi vísana á skjám segðu ökumönnum svo
til, að samræmi héldist milli hraða og hemlunarvegalengdar.
Samsvarandi búnaður varaði við hættum og hamlaði innakstri í göng ef
þau önnuðu ekki umferð, auk þess sem fullt eftirlit væri með öllum
neðanjarðarleiðum í sameiginlegri öryggis- og stjórnstöð á vegum
lögreglu.
|