Strandbyggðin - hafnarhverfin
1. Samfelld hugmynd að byggð
(apríl 2004)
Skipulag byggðar frá frá Granda og
Ánanaustum austur á móts við Sólfar Jóns Gunnars við Sæbraut. Á hinn
bóginn frá gamla Vesturbæ og gamla Miðbæ norður um höfn, svo og
norður fyrir Sæbraut og Kolbeinshaus.
Beita skrunborða - eða birta uppdrátt
Uppdráttur felur
í sér tillögur að hugmyndalegri afstöðu - fremur en útliti
Gert er ráð fyrir
verulegri uppbyggingu á svæðinu í kringum væntanlegt ráðstefnu- og
tónlistarhús, þar á meðal hótelbyggingum og banka, að listamiðstöð
og Listaháskóli rísi svo og verslunarmiðstöð. Fiskmarkaðurinn verði
rekinn áfram í svipaðri mynd og byggt upp austanvert með höfninni
með hliðsjón af hafnsækinni starfsemi, þá að ný landfylling verði
mótuð milli Ingólfsgarðs og Sæbrautar, meðal annars viðlegukantur
fyrir skemmtiferðaskip og kví fyrir skútur og snekkjur. Vestanvert
með höfninni, framundan gamla slippnum, milli Daníels-slipps og
Ægisgarðs, er miðað við að höfnin verði aukin og endurbætt með nýjum
bryggjum og margvíslegri starfsemi í tengslum við höfnina.
Hugmyndin miðar að talsvert
aukinni íbúðabyggð - í Vesturbæ á Slippfélagslóð og sunnan
Daníels-slipps, svo og á milli Geirsgötu og Grófarbakka, og á hinn
bóginn að rísi ný byggð norður af gamla Skuggahverfi og Stjórnarráðsreit. Þá
verði torg myndað fyrir norðan Hafnarhús og annað undir rótum
Arnarhóls, svo og eitt minna torg í tengslum við Listaháskóla,
listamiðstöð og ráðstefnu- og tónlistarhús.

Birta uppdrátt
(490 kb) - eða
(1020 kb)
Uppdrættir fela
í sér tillögur að hugmyndalegri afstöðu - fremur en útliti
Þétt byggð og há en með skjólsælum
sólskinsreitum, ásamt opnari útivistarsvæðum - eða dreifð byggð, lág
og sólrík en afar næðingssöm. Þar á milli liggur valið - og sporin
stutt eða löng. Hverju á að fórna og fyrir hvaða uppskeru?
Tillögurnar sýna dæmi um mögulega
landnýtingu þar sem all nokkuð er lagt upp úr þéttri byggð og all
hárri á köflum. Tækist vel til með vindbrotshönnun og ásýnd
bygginga, að sólskinsblettahönnun
ógleymdri, væru fjöllin og flóinn þrátt fyrir allt enn á sínum stað,
en undir margvíslegum nýjum sjónarhornum af svölum, úr gluggum og úr
turnum.
 |
Horft yfir Slippfélagslóðina og austur að
Hafnartorgi. Mishá íbúðabyggð á syðri hluta slipplóðarinnar en á
milli Daníels-slipps og Ægisgarðs kæmi aukin hafnaraðstaða,
Ægishöfn. Að sunnanverðu við
Slippfélagshúsið
þjónaði Mýrargata sem íbúðagata án gegnumumferðar. Ný gata,
Smiðjugata, lægi um slipplóðina, sunnan nýbyggðarinnar, í beinu
framhaldi af Tryggvagötu, sem tengdist Geirsgötu við nýtt torg,
Geirstorg, en þar fyrir austan opnaðist Hafnartorg.
Engin regla í mannlífi segir að íbúðabyggð
geti ekki þrifist vel í nánd við atvinnulífið. Eða því fái þeir
ekki að kjósa svo sem vilji - að búa í nálægð við fjölbreytt
athafnalíf, líkt og við gömlu höfnina?
|
Með prófun skipulagsmódela í
vindhermum má leitast við að finna æskilegustu lögun
bygginga gagnvart vindi, að hafi sem jákvæðust áhrif í þá veru að brjóti upp vind,
sérstaklega norðanvindinn, en honum fylgir jafnan sólríkt veður hér
á þessum slóðum. Á sumrin er hann gjarnan norðvestlægur í mynd
hafgolu sem getur orðið all stríð á köflum, en á veturna yfirleitt
norðan- og norðaustanstæðari, steypir sér þá ofan af Esjunni eða
liggur í köldum streng út Hvalfjörð, með Kjalarnesi.
Meginstoðir fjölskrúðugra
borgarkjarna eru íbúarnir á svæðinu, og því fremur sem miðborgir
eiga í hlut. Það eru þeir sem móta svipinn og miðborgarandann frá
degi til dags - séu íbúar næsta fáir er viðbúið að andi doða og
drunga svífi yfir vötnunum á milli þess sem straumurinn liggur í
bæinn, og kann þá iðulega að líða langt á milli fallaskipta, jafnvel
æði langt.
Eigi miðborg að vera lífvænleg í
þessum skilningi vegur þungt að hún sé skjólgóð og bjóði upp á
aðlaðandi og fjölbreytt umhverfi og sé þá ekki hrjáð af
umferðarþunga og niði, en leiðir um hana engu að síður greiðar og
allar aðkomuleiðir skjótfarnar. Með öðrum orðum, að miðborginni sé
ekki gert lægra undir höfði í þessum efnum en öðrum íbúða- og
atvinnubyggðum borgar.
 |
Borgarbókasafnið og Hafnarhúsið
fyrir miðri mynd, norðan Tryggvagötu. Geirsgata og Hafnartorg
þar fyrir handan, en vestar og fjær íbúðir, e.t.v.
þjónustuíbúðir aldraðra. Þeim megin, fyrir miðri Geirsgötu, er
hálf-yfirbyggður munni lágstokks, er liggur undir torginu, en
samsíða Tollstöðinni bygging sem rís yfir munnann að
austanverðu. Byggingar meðfram Miðbakka gætu verið hótel.
Miðað er við að bílastæðið á bak við Kaffi
Reykjavík yrði grafið út og gert að bílakjallara en gamalt hús,
e.t.v. ofan úr Árbæ, sett þar niður (sem áður hafa komið fram
áþekkar hugmyndir um), en húsið ásamt stéttinni fyrir framan
gæti verið í beinum tengslum við Listasafn Reykjavíkur í
Hafnarhúsinu.
|
Mestu máli skiptir að borgarbúar
geti almennt átt nokkuð frjálst val um það byggðarmynstur sem það
kýs sér, hvort kjósi sér þéttan borgarkjarna með margbreytilega
möguleika innan seilingar eða á hinn bóginn dreifbýlli borgarbyggð
með rúmgóðum görðum og stórum útivistarsvæðum í nánd.
Því haganlegar sem þéttur
borgarkjarni er samansettur, hvort sem varðar búsetu,
atvinnu eða afþreyingu, inni við eða úti í fallegu umhverfi, því frekar ætti
kjarninn að laða að sér fjölskrúðugt mannlíf - og heilbrigðara eftir
því sem fleira er í góðu göngufæri án trafala af völdum umferðar og
gnýs.
Þá skyldi hafa hugfast gildi
nálægðarinnar við sjóinn og höfnina, sem fyrir fjölmörgum vegur
þyngra en hafgolan sem inn flóann leggur á stundum svo og
sjávarrokið þegar þannig viðrar á veturna. Eftirspurn eftir húsnæði
við Skúlagötu bendir eindregið til að verulegur áhugi sé fyrir
húsnæði á þessum slóðum, og síst skyldi Lystihöfnin, sem hér er gert
ráð fyrir, draga úr eftirspurn, enda miðað við að a.m.k. hluti hafnarinnar verði
opinn öllum almenningi ekki síður en snekkjueigendum. Og margt fólk
beinlínis æskir þess að búa í nálægð við athafnalíf líkt og við
gömlu höfnina, sem hér er gengið út frá að verði ekki síður líflegt er
fram í sækir.
Sjálfsagt er að reikna með að
efstu hæðir hæstu turna væru a.m.k. sumir opnir öllum almenningi,
þar sem gæti verið ýmiss konar afþreying, veitingar og þjónusta í
boði, í
nánum tengslum við sjóndeildarhringinn út yfir alla borg og flóann
og fjöllinn. Kúplarnir á turnhýsunum, sem hér eru sýndir á
uppdráttum, eru m.a. til marks um hagnýtingu í þá veru.

Í barnvænasta hluta Reykjavíkur,
Grafarvogi, eru einhleypir einungis um þriðjungur íbúanna, en í
miðborginni hlutfallslega helmingi fleiri, eða um sex af hverjum
tíu. Það er skýr vísbending um þörf á litlum íbúðum og haganlega
gerðum, sem búsetumynstur í miðborgum erlendis undirstrikar enn
frekar. Víðast hvar er langstærsti hluti miðborgarbúa einhleypir og
barnlaust sambúðarfólk eða börnin fá. Það er því eðlilegt að
megináhersla sé lögð á háreist hús, meðfram vegna þess hve
miðborgarlandið er dýrt og enn fremur til að ná fram þeim þéttleika
byggðar sem miðbær krefst, að sé líflegur frá degi til dags en ekki
einungis iðandi af lífi þegar straumurinn liggur í bæinn á
tyllidögum. Engu að síður býður góð miðborg upp á barnvænt umhverfi
með leikvöllum og görðum, en ekki síst með því að hafa hömlur á
umferð ökutækja, að greina skýrt hraðfara umferð og gegnumumferð frá
rólegri umferð innan hverfanna.

Birta allan uppdrátt
(490 kb) - eða
(1020 kb)
Uppdrættir fela
í sér tillögur að hugmyndalegri afstöðu - fremur en útliti
Væri gerlegt að bægja gegnumumferð að mestu
frá hverfinu norðaustur af Seðlabanka og norðvestur af Arnarhóli og
tengja það gamla miðbænum þannig að myndaði sem næst eina órofa
heild – án óhóflegrar umferðar, án óhóflegs framkvæmdakostnaðar við
skipulag? Með öðrum, að öll hraðfara gegnumumferð færi um mjógöng og
lágstokk þar sem hámarkshraði gæti verið 45 til 60 km/klst, eftir
aðstæðum. 30 km hraðamörk væru þá eðlileg á öllum götum ofanjarðar
og engum til trafala. Um allt hverfið væru greiðar leiðir og
hættulausar fyrir gangandi vegfarendur og gönguleiðir inn í hverfið
hvergi rofnar af þungri bílaumferð.
Akstursleiðir um þetta nýja hverfi – sem
e.t.v. mætti nefna Bugtina eftir Bugtinni, Flóanum, Faxaflóa – myndu
dreifðast nokkuð jafnt, samkvæmt þessum skipulagsdrögum, og stutt að
fara hvort sem komið væri úr austri af Sæbraut eða úr vestri af
Geirsgötu eða sunnan af Lækjargötu ellegar niður Ingólfsstræti.
Gönguleiðir lægju alls staðar beint við, hvort sem væri vestan að
eða úr gamla miðbænum eða um Arnarhól ellegar Kolbeinssund -
götusund sem gert er ráð fyrir að yrði lagt frá Sölvhólsgötu gegnum
svonefndan Stjórnarráðsreit, meðfram austurgafli gamla
útvarpshússins, að tengdist hverfinu á þeim slóðum þar sem
Kolbeinshaus liggur nú undir. Myndi sú leið opna greiða og nokkuð
skjólsæla leið, ekki síst fyrir gangandi vegfarendur, upp úr
austanverðri Bugtinni, í átt að Skuggasundi, Þjóðleikhúsi og grennd.
Gengið er út frá að skiptistöð Strætó verði
áfram á sama stað, en "Nýja húsið" við Lækjartorg, sem m.a. hýsir
biðstöðina, verði endurgert og fengið margvíslegt hlutverk og
gjarnan nýtt nafn, t.d. Lækjarbúð. Og væri ekki gamla Zimsen-búðin
þá kjörin til að þjóna sem bílstjórabúð, jafnt fyrir
strætisvagnastjóra sem leigubílstjóra? Auk almennra gönguleiða inn í
Bugtina væri jafnframt leið frá Lækjartorgi um göngubrú yfir
Faxabugt að 17. júní torgi, útihátíðasvæði, sem nýta mætti sem
bílastæði virka daga, auk þess sem þar væri útileikhúsið Jökulsbúð
(nánar lýst í þættinum um Framkvæmd og kostnaðarmat). Þá væri farið
upp skábraut með Nýja húsi endurgerðu, sem jafnframt tengdist svölum
á húsinu er sneru að Lækjartorgi. Svalirnar nýttust annars vegar sem
hljómsveitar- og ræðupallur, hins vegar sem hluti kaffishúss sem
hefði opið út á svalirnar á góðviðrisdögum.
Sjálfgefið er að væntanleg tónlistar- og
ráðstefnumiðstöð myndi þungamiðju Bugtarinnar. Er lagt til að
miðstöðin fengi nafnið Hólmgarðar, með margvíslegri tilvísun til
sögu Reykjavíkur og íslenskra bókmennta. Skipulagið miðar að því að
marka miðstöðinni sem nánust tengsl við gamla miðbæinn, jafnframt
innri tengslum við íbúðabyggðina í austurhluta hverfisins. Fullt
tillit er tekið til þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið, að
tónlistar- og ráðstefnumiðstöðinni fylgi víðtæk hótel- og
ferðþjónusta (svo sem nánar er lýst á uppdrætti, sem og öðru,
).
Þá er gerð tillaga um og tekið undir áður fram komnar hugmyndir, í
því augnamiði að auka enn fjölbreytni hverfisins og að nýta kosti
þess sem best, að hér verði einnig aðsetur Listaháskólans með öllum
þeim margvíslegu möguleikum sem þá opnuðust með tengslum skólans við
tónlistar- og ráðstefnumiðstöðina. Skólinn væri mjög vel í sveit
settur með tilliti til alls hins skapandi umhverfis, hvort sem horft
er til borgarinnar og miðbæjarins, með öllum sínum innviðum, eða til
ytri sjóndeildar- og fjallahrings. Ætti skólinn tvímælalaust að geta
orðið lyftistöng fyrir miðbæinn, ekki síður en tónlistar- og
ráðstefnumiðstöðin.
Við Kalkofnsveg, á milli Seðlabanka og
Listaháskóla, er gert ráð fyrir verslunarmiðstöð sem drægi nafn af
gamla Battaríinu (hvar Seðlabankinn nú stendur - og reyndar spurning
hvort hverfið allt ætti ekki að bera það nafn fremur en Bugtin eða
hvað annað kæmi til álita). Greiðar aðkomuleiðir væru annars vegar
frá neðanjarðar-hringtorgi undir 17. júní torgi (hvoru tveggju lýst
nánar í þættinum um Framkvæmd og kostnaðarmat) og hins vegar af
Kalkofnsvegi. Auk bílageymslu undir allri miðstöðinni þá væri
sjálfgefið að samnýta bílageymslur Seðlabankans, sem tengja mætti
Víkurgöngum og á hinn bóginn með neðanjarðar-fólkfæribandi undir
Kalkofnsvegi, milli bílageymslunnar og miðstöðvarinnar. En flestir
háannatímar verslunarmiðstöðvarinnar, á föstudagssíðdegjum og um
helgar, féllu utan opnunartíma bankans. Á samsvarandi hátt er miðað
við að bílageymslur undir byggingum á svæðinu væru almennt
samnýttar. Þannig myndi t.d. bílageymsla undir Listaháskóla, á milli
Battarísins og Hólmgarða, jafnt nýtast verslunarmiðstöðinni sem
tónlistar- og ráðstefnuhúsinu, en skólanum annars dags daglega. (Um
bílageymslur og tengsl þeirra við almenna umferð er nánar fjallað í
þættinum um Skipan umferðar, m.a. á uppdrætti.)
Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að
höfnin verði starfrækt áfram í svipaðri mynd og verið hefur. Hver
sem endanleg mynd tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvar annars verður,
er gert ráð fyrir því að fiskmarkaður og löndunarþjónusta verði
áfram á sínum stað, en á hinn bóginn að starfsemi Bugtar megin í
húsinu verði öll önnur en nú og taki fullt mið af annars breyttu
hlutverki hverfisins. Eðlilega verður að skilja algjörlega á milli
og gera sérstakar kröfur til markaðarins um eld- og öryggisvarnir og
til umgengni á athafnasvæðinu úti, á Austurbaka, svo sjálfsagt sem
það ætti að vera. Með því skyggni væri byggt yfir markaðsmóttökuna
mætti skilja enn betur á milli. Fiskangan ætti ekki að vera
áhyggjuefni, síst nú á tímum þegar það heyrir sögunni til að fiski
sé ekki landað ferskum. Jafnvel þó svo vindátt bæri smá angan stöku
sinnum um svæðið, þá væri það einfaldlega hrein peningalykt, sem
engum væri óhollt að minnti sig á upptök og rætur alls fjármagnsins
sem þó undir öllu stendur.

Birta allan uppdrátt
(490 kb) - eða
(1020 kb)
Uppdrættir fela
í sér tillögur að hugmyndalegri afstöðu - fremur en útliti
Á íbúðabyggð heima í grennd við athafnalíf -
og þá lífið við höfnina svo sem hér á gömlu Slippfélagslóðinni, upp
af nýju hafnarsvæði, Ægishöfn, og meðfram smábátalegunni og
Grófarbakka og Miðbakka? Með öðrum orðum, hvort þeir séu til sem
myndu æskja þess að búa á slíkum stöðum? Eða er það hlutverk
borgaryfirvalda að skilja að hinn almenna borgarbúa og almenna
verkmenningu - skilja að fullu á milli verkmenningar og
menningarneyslu?
Eða því fái þeir ekki að kjósa svo sem vilji -
að búa í nálægð við fjölbreytt athafnalíf, líkt og við gömlu
höfnina? Eða kynni slíkt fólk að fyrirfinnast, hvort sem væri
einhleypt eða í sambúð eða barnafólk, að kysi svo? Eða kynnu þeir að
fyrirfinnast sem jafnvel kysu að geta átt sér ofurlítið val um hvar
ala skyldi manninn ellidagana, í þessu skjólinu eða hinu?
Hér er einungis gert ráð fyrir fáeinum
byggingareitum þar sem þessa væri kostur - þeir sem á hinn bóginn
ekki kysu svo, hefðu eftir sem áður úr aragrúa möguleika að velja,
víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu, að ekki væri hætta á að verkin talandi
og verkamenn ónáðuðu hlustir, að athafnir bæru fyrir sjónir, jafnvel
peningalykt fyrir vitin.
Því lengra sem er gengið fram í þeim efnum að
einangra hinar ýmsu starfsgreinar og stéttir þjóðfélagsins frá annarri, því meiri hætta er á að skilningsleysi fari enn og
sífellt vaxandi þjóðfélagshópa á milli, með öllum þeim illþefjandi
fylgifiskum sem þá eru gjarnan samfara.
|