< Miðborg og strönd

Strandbyggðin - hafnarhverfin

3. Framkvæmd og kostnaðarmat (apríl 2004)

Gróft á litið vegur útgröftur úr göngum og uppgröftur úr grunnum húsa og bílakjallara á móti landfyllingu. Flutningsleiðir með jarðefni væru með allra stysta móti og áhrif framkvæmda á almenna borgarumferð þar af leiðandi lítil. Kostnaður við frágang byggingarhæfs lands væri að sama skapi lágur.

Göng og stokkar eru því ódýrari og einfaldari að gerð sem stærðarmörk ökutækja eru lægri. Sé miðað við hámarkshæð og hámarksbreidd ökutækja í kringum 2,3 metra eða þaðan af minna - en allt að 95 af hundraði umferðarinnar fellur innan þeirra marka - þá gæti kostnaður legið á bilinu þriðjungur til helmingur af því sem samsvarandi umferðarmannvirki fyrir öll ökutæki myndu kosta.

Munnar mjóganga og lágstokka krefjast lítils rýmis og eru sjónræn áhrif af þeim því í lágmarki. Munni lágstokks með tveimur akreinum er litlu meiri um sig en hin tvöfalda innkeyrsla í bílageymslu Seðlabankans - gamla Kolaportið - auk aðliggjandi u.þ.b. 20 til 30 metra langrar skábrautar, sem þó getur verið hulin að hluta eða öllu leyti, sé byggt yfir hana. Á samsvarandi hátt þarf einfaldur mjógangamunni vart að vera meiri um sig en innkeyrsludyr á smurstöð fyrir minni bíla.

Á þessu myndbroti af skipulagsmódeli fyrir miðborg Sidney í Ástralíu má sjá dæmi um hvernig gangamunni, reyndar stór, ætlaður öllum ökutækjum, nánast hverfur milli bygginga - milli tveggja stærstu gulu húsanna á þessari mynd (sem allt eins gæti verið ættuð úr miðborg Reykjavíkur).

Á lághraðasvæðum tækju einstakar hliðarreinar inn í mjógöng og lágstokka litlu meira pláss en aðkomuleiðir að bílakjöllurum húsa. Að sama skapi væru tengingar við stofnbrautir minni að umfangi en hefðbundnar tengingar ganga og stokka, sem ætlaðar væru öllum ökutækjum, vegna þess hve munnar mjóganga og lágstokka liggja mun grynnra, eða allt að tveimur metrum grynnra, auk þess sem hver akrein getur verið nokkuð mjórri en ella.

Með þessu móti vinnast tvö meginmarkmið: Aðkomuleiðir geta orðið fleiri og greiðfarnari, annars vegar vegna hraðfara umferðar í göngum og stokkum og hins vegar vegna minnkandi umferðar á yfirborði. Hljóðmörk má minnka vegna minni og hægari umferðar ofanjarðar og því eykst hlutfall byggingarhæfs lands og til útivistar. Landrými verður eftirsóttara og að sama skapi verðmætara.

Mjógöng og lágstokkar stuðla því að vistvænni og hagkvæmri miðborgarbyggð, þar sem annars vegar væru hús og gróður og fremur hægfara en jöfn umferð og því ekki íþyngjandi, hins vegar hröð umferð neðanjarðar. Hvora leiðina sem ökumaður veldi, þá væri hún greið og laus við umferðarteppur á annatímum.

Lofthæð Geirsgötustokks yrði e.t.v. um 2,7 m. Vestantil lægi stokkurinn um 3 metra undir yfirborði, en austantil, nær Arnarhóli, væri dýpt hans um 2 metrar frá núverandi yfirborði, en á hinn bóginn myndi þak stokksins og nærliggjandi svæði þeim megin hækka um einn metra frá núverandi hæðarlegu. Um það bil þar sem endastöð SVR var í gamla daga, allt fram á 7. áratug, kæmi stórt neðanjarðarhringtorg er næði inn undir Arnarhól og tengdi saman Geirsgötustokk, Víkurgöng og Lækjargötu, og e.t.v. Skólavörðugöng með tíð og tíma. Upp af torginu miðju kæmi mannvirki er myndaði undirstöðu útileikhúss og útisviðs - Jökulsbúð - sem yrði hluti af samkomutorgi - 17. júní torgi (með leyfi Sjálendinga í Garðabæ?) - sem myndi vera byggt yfir hringtorgið. Að verki loknu stæði Arnarhóll eftir í óbreyttri mynd allt niður að 17. júní torgi.

Ganga- og stokkaleiðin frá Eiðistorgi að Sæbraut væri alls um 1,6 km að lengd - þar af Framnesgöng um 800 m, stokkur um Geirsgötu að Faxatorgi um 500 m og Víkurgöng undir Arnahóli, að meðtöldum stokkstubbum á þeirri leið, um 300 m. Rúmtak þessara umferðarmannvirkja í heild gæti gróft á litið numið um 60 til 65 þús. teningsmetrum eða sem svarar til alls rúmtaks hinna tvíbreiðu 55 fm ganga um Almannaskarð.

Almannaskarð - myndhönnun af vef Vegagerðarinnar (www.vegag.is)Almannaskarðsgöng eru um 1,2 km að lengd og kosta um 800 milljónir kr. með öllum frágangi, vegskálum og vegtengingum beggja vegna.

 

Að ýmsu leyti er ólíku saman að jafna - sérstaklega að teknu tilliti til munna og aðreina. Almannaskarðsgöng telja einungis tvo munna, einn hvorum megin, en í þessari miðborgarframkvæmd væru þeir til muna fleiri en á hinn bóginn mun minni um sig, hver og einn, sem og göngin. En ætla má að kostnaður við styrkingar í mjógöngum væri til muna minni en í Almannaskarðsgöngum, enda um 15 fermetra þverskurð í mjógöngum að ræða (tvennum slíkum samsíða) á móti um 55 fermetra þverskurði í Skarðinu.

 

Gangaleiðin ein og sér, þá að Geirsgötustokki frátöldum, væri álíka löng og göngin um Almannaskarð, en næstum helmingi minni að rúmtaki. Að teknu tilliti til alls er varðar fjölda gangamunna og mismunandi gangagerð og aðstæður, er ekki fráleitt að ætla að kostnaður við þann hluta, þ.e. Framnesgöng og Víkurgöng, gæti verið áþekkur göngunum fyrir austan, eða um 800 milljónir króna. Gróft á litið gæti hinn 500 m langi lágstokkur í Geirsgötu kostað um 500 milljónir með öllum aðreinum, og þá öll þessi 1,6 km langa stokka- og gangaleið um 1,3 milljarða í heild - eða e.t.v. um einn og hálfan milljarð króna að viðbættum kostnaði vegna brúar á Sæbraut og tengingar við brautina. Þar að auki mætti reikna með nokkrum hundruðum milljóna króna til viðbótar vegna hringtorgs og tenginga við Lækjargötu og Kalkofnsveg og í ýmsan ófyrirséðan kostnað, eða e.t.v. allt að hálfum milljarði króna, þannig að í heildina tekið gæti kostnaður við göng og stokka ásamt öllum tengingum og frágangi, m.a. Arnarhóls, numið um tveimur milljörðum króna.

Undir 17. júní torgi og Jökulsbúð (sjá mynd og myndatexta) væri stórt tveggja akreina neðanjarðarhringtorg sprengt og grafið út inn í Arnarhól, allt að munna Víkurganga. En hringtorgið tengdi Víkurgangaleið við norðurenda Lækjargötu og austurenda Geirsgötustokks, auk tengingar við Kalkofnsveg og með tíð og tíma við Skólavörðugöng.

Horft frá mótum Lækjargötu og Hverfisgötu norður eftir Faxabugt. Á miðri mynd er 17. júní torg, útihátíðasvæði og leikhústorg sem nýta mætti sem bílastæði virka daga, og fjær Jóns Nýja torg (bæði nöfnin undir sterkum áhrifum af of góðum nafngiftum Hallgríms Helgasonar á Sjálandi - að vart fái Garðabær einn að sitja að...?) en á milli torganna liggur Kalkofnsvegur.

 

Við 17. júní torg, í túnjaðri Arnarhóls, er Jökulsbúð - hringleikahús, hljómleikasvið, kaffi- og veitingahús, byggt yfir neðanjarðarhringtorg er tengja myndi saman Víkurgangaleið undan Arnarhóli og norðurenda Lækjargötu og Geirsgötustokk, og auk þess aðreinar af Kalkofnsvegi sem e.t.v. gætu verið neðanjarðar að hluta og tengst beint Battaríinu - verslunarmiðstöð sem sér í endann á efst t.h.

 

Neðst fyrir miðri mynd, undir Arnarhóli, er Brekkukot, reist sem næst í gamalli mynd Melkots, en um hlaðið lægi 17. júní stígur, göngugata ofan úr Bankastræti sem á þessum kafla, um túnið, þjónaði jafnframt sem aðkomuleið bíla inn á bílastæði við 17. júní torg. Grálitaði stígurinn á myndinni færi á brú frá skiptistöð Strætó við Lækjartorg yfir Faxabugt að 17. júní torgi og síðan einnig á brú yfir Kalkofnsveg og tengdist þaðan annars vegar Jóns Nýja torgi, hins vegar Hólmgörðum, tónlistar- og ráðstefnumiðstöðinni, um brú yfir Faxabugt.

 

Sprengigrjótið væri beint til þess fallið að klæða hafnargarða og fyllingar í kringum Lystihöfn, nýja höfn fyrir skemmtiferðaskip og báta í krikanum milli Sæbrautar og Ingólfsgarðs, líkt og útgröftur úr göngum og stokkum færi í almennar fyllingar. Að grjótnámi loknu og hringtorginu gerðu væri byggt öflugt þak yfir torgið en hringleikahúsið Jökulsbúð byggt upp af hringtorginu miðju. Væri hóllinn svo færður á ný í áþekka mynd og nú er. Jökulsbúð stæði þá nokkurn veginn þar sem endastöð S.V.R. var áður fyrr vestur undir hólnum, allt fram á 7. áratuginn. Neðanjarðar væri aðgengi frá hringtorginu fyrir starfsmenn Jökulsbúðar, um kjallarann þar sem væri leikmunageymsla og starfsaðstaða tengd kaffi- og veitingahúsi í búðinni.

Eðlilegt er að gera ráð fyrir að kostnaður við grjótnámið í Arnarhóli færðist að miklu leyti á reikning Lystihafnarinnar, og mætti svo um margt segja í kringum framkvæmdir sem þessar, að á ýmsan hátt myndi skarast kostnaðarþátttaka hinna ýmsu aðila - borgarinnar, hafnaryfirvalda og vegamála og hinna margvíslegu einkaaðila er myndu standa að byggingarframkvæmdum. Koma þá meðal annars til álita bílageymslur undir húsum og tengingar þeirra við göng og stokka og við götur á yfirborði.

Útgröftur úr göngum og uppgröftur úr stokkum myndi allur fara í fyllingar, annars vegar undir nýtt land og hafnarsvæði í krikanum milli Sæbrautar og Ingólfsgarðs og hins vegar í land- og hafnfyllingu á slippsvæðinu, þá meðal annars í nýjar bryggjur milli Ægisgarðs og Daníels-slipps, Ægishöfn sem hér er nefnd svo. Og gilti hið sama um gröft úr húsgrunnum, en grunnarnir nýttust á hinn bóginn undir bílageymslur.

Miðað er við að Daníels-slippur myndi vera starfræktur áfram, enda einstakur um margt og beinlínis fræðandi fyrir skólabörn, ferðamenn og hvern sem er, bæði að kynnast atvinnuháttum og lífinu við höfnina og eins frá því sjónarmiði að þarna leifir trúlega eftir af einu upprunalegu fjörunni í gömlu Reykjavík. Þá er Stálsmiðjan gamla ekki síður athyglisverð bygging sem vert er að varðveita, hver sem nýting hennar yrði - áfram verkstæði og vélsmiðja eða á hinn bóginn allra handa myndlistarlistasmiðja og listmarkaður eða allt í senn, nóg er rýmið og byggingin traust.

Neðan Daníels-slipps, á móts við gömlu Bakkavör þar sem bátarnir eru teknir upp í dráttarbrautina, er gert ráð fyrir mjórri bryggju - garði er myndaði gönguleið milli Grandabótar og gamla slippsvæðisins um skipgenga lyftibrú. Þetta væri létt brú sem einungis væri tekin upp til að hleypa bátum inn í og út úr slippnum en hafnarmegin mynduðu garðarnir jafnframt legukanta og ný bátalægi. Þetta væri einföld og ódýr framkvæmd sem myndi opna óvenjulega leið að lífinu við höfnina og gera Grandabót og slippsvæðið að einni órofa heild, sem meðal annars tengdist nýju íbúðahverfi - Slipphúsum - ofan Ægishafnar, á efri hluta slippsvæðisins.

Auk ganga- og stokkaleiðarinnar að austan og vestan er miðað við að tvenn önnur göng tengdust strandbyggð miðborgarinnar og þá að sunnan, þá annars vegar göng frá Melatorgi, sem lagt er til að verði heldur nefnt Þjóðminjatorg og göngin þá nefnd Þjóðminjagöng, og liggi að Geirstorgi, á mótum Tryggvagötu og Geirsgötu, en hins vegar göng um Skólavörðuholt frá Hringbraut á móts við BSÍ er myndu tengjast neðanjarðarhringtorginu undir Jökulsbúð, vestur undir Arnarhóli.

Hugmyndin að vestari göngunum, sem hér eru nefnd Þjóðminjagöng, kom fram fyrir mörgum árum en lítið verið á hana minnst, frá hverjum hún annars kom, en á hinn bóginn hafa borgaryfirvöld stefnt að gerð Skólavörðuganga með tíð og tíma.

Myndin er tekin mót norð-norðvestri, sem liggur nokkuð nærri átt hafgolunnar í Reykjavík á sumrin. Ofantil á miðri mynd er nýi olíuskipa-hafnargarðurinn austur úr Örfyrisey sem hefur gert kleift að færa má út kvíar gömlu hafnarinnar til austurs frá Ingólfsgarði vegna þess hve nýi garðurinn dregur úr sjógangi inni á Víkinni.

 

Ný land- og hafnfylling, í skjóli af olíuskipagarðinum, myndi færa út ströndina norður af hvítu Skúlagötu-háhýsunum. Nýbyggingar á landfyllingunni og á hafnarbakkanum, ásamt farþegaskipum er lægju við bakkann á sumrin, myndu að öllu jafnu draga úr hafgolunni yfir norðurbænum. Á veturna, þegar norðanáttir eru oftast austanstæðari (nær því að liggja þvert á mynd), gæti nýbyggðin á landfyllingunni sem og nýbyggðin upp af Austurhöfninni, nær miðbænum, slegið á Hvalfjarðarstrenginn sem annars á til að leiða nepjuna suður alla Lækjargötu.

 

Með prófun skipulagsmódela í tölvulíkönum og vindgöngum má leitast við að finna bestu lögun bygginga, að hafi sem jákvæðust áhrif í þessa veru - að brjóta upp vind, sérstaklega norðanvindinn, en honum fylgir jafnan sólríkt veður sunnanlands. Slíkt hið sama á við um íbúða- og atvinnubyggðina sem gert er ráð fyrir á slippsvæðinu, að skipulag og lögun bygginga tæki mið af niðurstöðum vindprófana, að hefðu sem jákvæðust áhrif á gamla Vesturbæinn og Grófina, nær sér og fjær.

 

Meginmarkmið vindbrotshönnunar eru þá fólgin í að beina vindbylgjum upp á við, að brotni yfir byggð án þess að hætta sé á steypivindum hlémegin bygginga, og á samsvarandi hátt að grisja vindstrengi milli húsa, eftir því sem tök eru á. Ljóst má vera að vindbrotshönnun hlýtur að taka mið af klösum fleiri bygginga, samstæðra og fjær liggjandi, svo langt sem hönnunin kann að hrífa, en ekki taka mið af einstökum húsum einum og sér án tillits til annarra. Þá liggur í eðli málsins að norðurhliðar bygginga munu ávallt taka á sig vind eftir sem áður, og ekkert við því að segja, enda svalir og útivistarsvæði yfirleitt sem næst að sunnanverðu við byggingar.

 

Uppdrættir þessa verkefnis taka á engan hátt mið af vindbrotshönnun, hvorki í tvívídd né þrívídd. Skyldi fyrst og fremst líta á myndir húsa sem táknmyndir fyrir byggingareiti, tillögur að hugmyndalegri afstöðu og sem dæmi um hugsanlega nýtingu byggingareitanna gagnvart hæð.

Birta uppdrátt í fyllri mynd

Uppdráttur felur í sér tillögur að hugmyndalegri afstöðu - fremur en útliti

______________________________

Miðborg og strönd:

1. Samfelld hugmynd að byggð

2. Skipan umferðar

3. Framkvæmd og kostnaðarmat

 

© maí 2004

Árni B. Helgason

 

prenta skjal

Rómanza: heim á kvist