
Árni B. Helgason:
Léttsporaleið - svar við hjólsins þunga og þunga niði?
3. hluti - Þungbyggð spor og létt,
háloftabrautir og þungavægi vagna
Að aka snýst nú á tímum um að stýra vél - æki úr stáli - en áður
fyrr fremur skepnum er færu fyrir vagni. Er sjálfstýring þó tekin að
ryðja eklum jafnvel úr vegi - sjálfhreyfivélin í orðsins fyllstu
merkingu farin að hreyfa sig sjálf, og jafnvel sjálf farin að láta
undan síga í allri sinni hringlaga mynd fyrir öllu línulegri
hreyfli. Hringhreyfillinn verður þó enn um sinn óumdeilanlega hinn
þarfasti þjónn á flestum sviðum svo sem verið hefur síðan að leysti
þörfustu þjóna síns tíma af hólmi.

Egypsk háloftbraut, línulegur hreyfill á
viðarlegum
Hugmynd bandarísks píramídaáhugamanns að flutningsbraut fyrir
byggingarefni. Brautin er lögð skáhöll upp með hliðum píramída á
byggingartíma. Drifkraftur hreyfilsins er mannafl - enda er
þetta hugsað löngu fyrir tíma sjálfhreyfivéla og segulsvifs - en
hjólkefli, innbyggð í sporstokka, langsum eftir allri brautinni,
draga úr viðnámi. Keflin gegna því áþekku hlutverki og vagnhjól
- líkt og segulsvifi er ætlað að gera á sinn hátt í nútíma
háloftabrautum. Faróar hefðu vissulega getað komist af með
umfangsminni brautir eða færibönd, og liðugra afl sinna þörfustu
þjóna, ef reist hefðu sér minnisvarða, og þó engu að síður jafn
stóra, úr heldur smærra grjóti. |
Bandarísk þróunaráætlun um segulsvif
Fyrir fáeinum árum ákváðu bandarísk stjórnvöld að
hrinda af stað nokkurra ára þróunarverkefni í gerð segulsvifbrauta,
sem nefnt hefur verið
Low speed Maglev Technology Development Program, einnig því
eilítið lengra heiti Urban Magnetic Levitation Transit Technology
Development Program - með öðrum orðum, í þágu þéttbýlissamgangna. Þá
hafði áðurnefndur Richard F. Post, eðlisfræðingur við
Kaliforníuháskóla, gert árangursríkar tilraunir með hinn línulega
hreyfil sinn, og er verkefnið byggt á hugmynd hans og samstarfsmanna
og unnið samkvæmt hans ráðgjöf.
Bandaríska samgöngumálastjórnin FTA (Federal Transit
Administration) fjármagnar stærsta hluta verkefnisins (FTA project:
"CA-26-7025") en fyrirtækið General Atomics í San Diego, Kaliforníu,
er aðalframkvæmdaraðili á fyrstu stigum þess. (FRA - Federal
Railroad Administration hefur á hinn bóginn með höndum High speed
Maglev þróunaráætlun sem er algjörlega óháð þessari). Lokaskýrsla
fyrsta áfanga verkefnisins lá fyrir í fyrravor þar sem birtar voru
niðurstöður tilrauna með ýmsa hluta hreyfilsins. Þar eru einnig
dregnar saman upplýsingar um nokkur helstu segulsporvagnakerfi sem
unnið hefur verið að í heiminum og gerður samanburður á kerfum. Loks
eru í skýrslunni lögð hugmyndaleg drög að segulsporsamgöngum í
borgar- og þéttbýlisumhverfi, sem verkefninu er ætlað að miða að -
hvernig spori og stýrikerfi væri best háttað og almennri
verkfræðilegri útfærslu mannvirkja. Í grundvallaratriðum er gert ráð
fyrir T-burðarvirkjum úr steyptum einingum - einföldum röðum súlna
sem samsíða holbitar hvíldu á, í allt að 6 metra hæð, með vagnsporum
beggja akstursstefna. Þá kæmu með allnokkru millibili tveggja hæða
stöðvar þar sem vagnar hefðu viðkomu á efri hæð.
Liðvagn á stærð við rúmgóðan strætisvagn.
Hámarksfjöldi 100 manns í sætum og í stæðum. |
Burðarvirki fyrir tvístefnubraut hvílir á
allt að 6m háum súlum. |
|
Nú er annan áfangi verkefnisins í gangi og mun honum
væntanlega ljúka um mitt næsta ár. Frumgerð segulsporvagns hefur
verið smíðuð og lagt tilraunaspor, hvort tveggja í fullri stærð, og
er markmiðið með áfanganum að reynsluprófa hönnunina á margvíslega
vegu og leggja ákveðnari línur að fullmótuðu kerfi. Með lokaáfanga
verkefnisins er síðan ætlunin að leggja fullgilt spor til almennrar
notkunar, sýningar og frekari reynslu áður en farið yrði út í
fjöldaframleiðslu. Ráðgert er að það verði í Pennsylvaniufylki, á
austurströnd Bandaríkjanna, þá um 4 km langur (2,5 vegmílna) spotti
sem myndi þjóna háskólanum California University of Pennsylvania
ásamt sjálfum háskólabænum (sem ber sama nafn og Kaliforníuríki) í
suðvesturhluta fylkisins, suður af Pittsburgh.
Stofnuð hafa verið samtök fyrirtækja og stofnana,
Urban Maglev Group, til að standa að verkefninu í samvinnu við
bandarísku samgöngumálastjórnina, þar á meðal eru fyrirtækin Union
Switch & Signal, PJ Dick, Sargent Electric Company, Mackin
Engineering, US Maglev Development Corporation, General Atomics og
Hall Industries. Síðastnefnda fyrirtækið, Hall Industries, sem er í
vesturhluta Pennsylvaniu, eins og flest þessara fyrirtækja, hefur
séð um útlitslega jafnt sem verkfræðilega forhönnun sporvagns og
lauk í sumar við smíði frumgerðarinnar sem nú er verið að
reynsluprófa hjá General Atomics í San Diego í Kaliforníu vestra.
Háloftabrautir
 Þróunaráætlunin
byggir á sporvögnum á stærð við rúmgóðan strætisvagn. Þeir mundu
vera 12 m langir og 2,6 m breiðir og vega á tíunda tonn tómir en á
sautjánda tonn fullhlaðnir með allt að 100 farþegum um borð.
Hámarkshraði er ætlaður 160 km/klst en algengur hraði eftir því sem
skemmra væri á milli stöðva um 50 km/klst. Flutningsgeta kerfis er
miðuð við allt að 12.000 manns í aðra áttina á klst, eða um 24.000
manns í tvístefnu! Sporbrautir hvorrar stefnu munu hvíla á um 1,3 m
breiðum og um mannhæðarháum holbitum. Heildarbreidd slíkrar
tvístefnubrautar, að meðtöldu bili á milli brauta, og með
brautarufsum, yrði nálægt sex metrum. Holbitarnir munu hvíla á
axlarstykkjum í um 6 metra hæð yfir jörð sem um 1,3 m sverar súlur
munu bera uppi. Kerfið verður byggt á fastákveðnum leiðum milli
allstórra stöðva, líkt og venjuleg neðanjarðar- og léttlestarkerfi.
Kostnaður er talinn muni geta hlaupið á fleiri tugum milljóna dala
fyrir hvern kílómetra, eða svo skipti milljörðum króna, og þó engu
að síður vera talsvert lægri en við jarðlæg borgarlestakerfi sem
krefðust niðurrifs bygginga, gangagerðar og rýmis á kostnað annarra
mannvirkja.
Annað
ekki ólíkt verkefni, en af heldur minni stærðargráðu, hefur verið
kynnt fyrir bandarísku samgöngumálastjórninni. Það er svonefnt
Maglev M3 kerfi fyrirtækisins MagneMotion í Massachusetts. Það
framleiðir segulsviffæribönd og stýrikerfi fyrir segulsporbrautir í
margvíslegum iðnaði. Maglev M3 verkefnið er á hreinu hugmyndalegu
stigi og ekkert hefur verið ákveðið með frekari framvindu þess.

Um 6m langt tilraunaspor fyrir Maglev M3 í
nokkuð smækkuðum kvarða. Þessi línulegi hreyfill er nokkuð
hefðbundinn LSM-mótor og þar af leiðandi þungbyggður og dýr í
framleiðslu.
 |
|
Í skýrslu fyrirtækisins til
samgöngumála-stjórnarinnar frá í janúar nú í ár, 2003, ("As
part of FTA Project MA-26-7077") er kerfinu lýst all ítarlega og
lögð fram nokkuð skýr kostnaðaráætlun. Jafnt lyfting sem áframdrif
segulsvifhreyfilsins er fólgið í rafsegulbraut eftir spori, en
Halbach-spanspori kemur ekki við sögu líkt og í Urban Maglev Group
verkefninu. Hreyfillinn er því þyngri í eðli sínu og háður nokkuð
flókinni jafnvægisstýringu, þó framför sé frá ýmsum fyrri gerðum. Að
öðru leyti er kerfið allt léttbyggðara, jafnt vagnar sem bitar og
súlur. Miðað er við að vagnar séu um helmingi minni og beri
fullhlaðnir um 40 farþega, þar af 24 í sætum. Gert er ráð fyrir
svipuðum hönnunarhraða, allt að 160 km/klst, og áþekkri
flutningsgetu, um 12.000 manns í einstefnu á klst, 24.000 manns í
tvístefnu! Með öðrum orðum, að með minni en á hinn bóginn fleiri
vögnum en í hinu kerfinu megi anna áþekkum fjölda farþega. Bitar og
súlur myndu vera allnokkru minni um sig, bitar meters breiðir
ofantil en heldur mjórri neðantil og um 1,6 m á hæð, og ætlað að
spanna 36 metra haf milli súlna. Bæði kerfin gera ráð fyrir um 18
metra beygjuradíus að lágmarki.
Rætur MagneMotion fyrirtækisins liggja hjá
Massachusetts Institute of Technology (MIT) þar sem stofnendur
fyrirtækisins unnu að þróun margvíslegrar segulsviftækni er síðan
hefur verið beitt við gerð línulegra hreyfla og sjálfstýrikerfa. Að
svo miklu leyti sem fyrirtækið býr ekki yfir sérhæfingu, svo sem í
hreinni mannvirkjagerð og almennum burðarvirkjum, hefur það aflað
sem nánastra kostnaðaráætlana hjá aðilum sem unnið hafa að
framleiðslu og uppsetningu háloftalestarkerfa.
Útreikningar
gefa niðurstöður á bilinu 20 til 26 milljónir dala á
tvístefnuvegmílu, að meðtöldum fjórum 24 sæta vögnum fyrir hverja
mílu, á verðlagi ársins 2002. Hefur þá 50% óvissuálagi verið bætt
við útreikninga fyrir burðarvirki, sem þó má e.t.v. líta á að hluta
sem uppsetningarkostnað á verkstað, en 25% óvissuálagi bætt við aðra
liði. Á móti kemur að útreikningar fela ekki í sér flutningskostnað
eininga, kaup eða leigu á landi eða kostnað við staðbundna
verkfræðilega hönnun. Í skýrslu MagneMotion er hver þessara liða
nánar sundurliðaður en hér einungis birtar niðurstöðutölur.
Útreikningar fela í sér eftirtalda liði fyrir hverja 72 m langa
einingu:
· Tvo 72 metra langa bita (eða tvisvar tvo 36m
langa bita)
· Tvær súlur (þ.e. 36 m milli súlna er hver og ein myndar
T-laga tveggja bita burð)
· Átta 36 metra langa línulega rafsegulvindinga (Linear
Synchronous Motor, LSM)
· Eitt rafvirki með 8 spennum og þar til gerðum stýringum
· Eitt stjórnbox og boðskiptaeiningu, einskonar höfuðstöð
fyrir hverja 72 m einingu
· Fjóra rafmagnskapla til að miðla jafnstraumi (DC), þ.e. tvo
kapla í hvorum bita
Maglev M3 Niðurstöðutölur fyrir hverja
tvístefnuvegmílu (1,609 km) í milljónum dala, að meðtöldu 25-50%
óvissuálagi:
Í milljónum dala |
Steinsteypu-burðarvirki |
Blönduð tækni steypa/stál |
Stál- burðarvirki |
Afl- og stjórnbúnaður
(með 25% álagi) |
9,6 |
9,6 |
9,6 |
Súlnabraut og bitar
(með 50% álagi) |
6,4 |
8,6 |
12,7 |
LSM rafsegulvindingar
(með 25% álagi) |
4,1 |
4,1 |
4,1 |
Alls án vagna
(með óvissuálagi) |
20,1 |
22,3 |
26,4 |
Fjórir 24 sæta vagnar
(með 25% álagi) |
1,3 |
1,3 |
1,3 |
Alls að meðtöldum fjórum 24 sæta vögnum - m.ö.o. alls 96
sætum |
21,4 |
23,6 |
27,7 |
Maglev M3 Niðurstöðutölur umreiknaðar fyrir
tvístefnukílómetra (0,62 vegmílur) í milljónum króna - miðað við 77
kr gengi dals. (Ath. 4 vagnar á vegmílu x 0,62 mílur/km umreiknast
sem 2½ vagn á km):
Í milljónum króna |
Steinsteypu-burðarvirki |
Blönduð tækni steypa/stál |
Stál- burðarvirki |
Afl- og stjórnbúnaður
(með 25% álagi) |
459 |
459 |
459 |
Súlnabraut og bitar
(með 50% álagi) |
306 |
412 |
608 |
LSM rafsegulvindingar
(með 25% álagi) |
196 |
196 |
196 |
Alls án vagna
(með óvissuálagi) |
962 |
1.067 |
1.263 |
2½ 24 sæta vagnar
(með 25% álagi) |
62 |
62 |
62 |
Alls að meðtöldum 2½ 24 sæta vögnum - m.ö.o. alls 63 sætum
|
1.024 |
1.129 |
1.325 |
Vagnar þyrftu þó að vera mun fleiri til að fullnægja
24.000 manna flutningsgetu á tvístefnukílómetra á klst, og í raun
miklu fleiri miðað við raunhæfan meðalflutningshraða, e.t.v. 50
km/klst, á slíkum háannatímum þegar gera verður ráð fyrir að hver
vagn stöðvi á allflestum stöðvum á leið sinni, líkt og
neðanjarðarlestir og stórir strætisvagnar hljóta að gera.
Rekstrarforsendur léttlesta í strjálbýlu
borgarsamfélagi
Miðað
við vægar rekstrarforsendur, 6% ársvexti, 3% afskriftir og innan við
1% í beinan, daglegan rekstur - laun vagnstjóra (væri þeirra þörf),
orkugjöld, tryggingar, þrif og eftirlit - alls allt að 10% - þá
þyrfti 10 km tvístefnuleið, er kostaði um 10 milljarða króna, að
skila um einum milljarði í tekjur á ári eða til jafnaðar tæpum
þremur milljónum króna á dag eða um 200 þús. krónum til jafnaðar á
klst. miðað við 14 klst jafnaðarnýtingu á sólarhring árið um kring.
Með öðrum orðum, 200 kr fargjald 1000 farþega á klst stæði þá undir
arðsemiskröfunni. Það jafngilti því að sex strætisvagnar, er gengju
sömu leið fram og til baka á tíu mínútna fresti (helmingi örar en
Strætó), yrðu að flytja 166 farþega á klst, hver og einn, daglangt
og fram á kvöld, alla 365 daga ársins... Væri hver vagn einmitt um klst að fara fram og til
baka (að meðtaldri bið á endastöðvum), og flytti þá um 83 farþega
hvora leiðina hverju sinni, væri sem sagt alltaf troðfullur, lungan
úr sólarhringnum, hvert sæti setið og góður helmingur farþega
standandi. Væru þetta miklu fleiri farþegar en hver og ein
arðbærastu leiða Strætó flytur á hverri háannaklukkustund fyrir
næstum helmingi lægra fargjald til jafnaðar, eða sem næst 100 kr
fyrir far reglulegs viðskiptavinar er notar mánaðar- eða
ársfjórðungskort.
Það
er því alveg ljóst að slíkar samgöngur hraðfara sporvagna, er ætlað
væri að koma í stað strætisvagna á arðsömustu meginleiðum, fyrir um
einn milljarð króna á kílómetra í stofnkostnað (sem svarar til um 10
milljarða króna fyrir spottann neðan úr bæ upp í efra Breiðholt,
ellegar suður í Fjörð) gætu aldrei nándar nærri borið sig í svo
strjálbýlu borgarsamfélagi sem hér á landi. Framlög hins opinbera
yrðu að margfaldast frá því sem nú er ellegar farþegum að fjölga
gríðarlega, og það þótt byðist talsvert ódýra kerfi. - Og því þá að
vera að kosta svo miklu til einnar einustu léttlestaleiðar, hvað þá
fleiri, ef veita má samsvarandi þjónustu með sex liprum
strætisvögnum (og raunar mun betri þjónustu, að teknu tilliti til
Stór-Reykjavíkur-strjálbýlisins) fyrir örlítið brot af milljarðs
árskostnaðinum við járnbrautina? Eða því þá að vera að hugsa um
lest, þegar svo miklu ódýrara er að reka strætó í strjálbýlli borg?
Rekstur allra strætisvagnasamganga
höfuðborgarsvæðisins (sem telja um 90 vagna) nemur um tveimur
milljörðum króna á ári, en því miður verður fremur lítið úr fénu
enda leiðakerfið fyrir löngu úr sér gengið, marguppálappað.
Fargjaldatekjur hafa farið verulega lækkandi með sífelldri fækkun
farþega og eru nú vel innan við milljarð króna á ári - með öðrum
orðum, allar fargjaldatekjur alls núverandi leiðakerfis myndu ekki
standa undir rekstri einnar einustu léttlestaleiðar...
Léttlestir - léttvagnar?
Sé hugmyndin að auka framlög verulega og kosta til
léttlestakerfis, svo sem rætt hefur verið um í borgarstjórn
Reykjavíkur, því þá ekki heldur að létta sjálfum strætisvögnunum
sporin, - að skapa víðtækt, þéttriðið leiðanet þar sem ekki elti
hver vagninn annan, - að skipta út hinum tiltölulega fáu og þungu,
afar illa nýttu vögnum, fyrir öllu meiri flota sparneytinna
léttvagna er fengjust fyrir svipað heildarverð? Slíkur floti gæti
gengið helmingi tíðar en nú, án þess að meiru þyrfti að kosta til
flotans sjálfs eða beins reksturs hans, jafnvel þó að fjölgaði í
honum hátt um helming. Hin auknu framlög færu því til greiðslna
launa fleiri vagnstjóra, og gætu e.t.v. fyrst í stað numið um hálfum
milljarði króna á ári en síðan farið lækkandi.
Hluti hugmyndar höfundar að leiðaneti
léttvagna |
Lággólfs léttvagnar sem þessi gætu kostað á
bilinu 8 til 12 milljónir króna eftir lengd, vélarstærð, fjölda
og högun hurða og annars búnaðar. Fimm ára
rekstrarleigu-samningur, er fæli í sér innkaupaumsjón og
endur-sölu, eftirlit og alla almenna viðhaldsþjónustu, gæti
e.t.v. numið sem svaraði nývirði vagnanna. Þeir væru vel
endurseljanlegir vegna marg-háttaðs annars notagildis, hvort sem
væri til léttra vöru- og pakkaflutninga eða áfram til
fólksflutninga, eða sem hús-, ferða- og vinnubílar fyrir
verktaka, stofnanir og al-menning. En gott endursölu-verð hefur
m.a. áhrif á afskriftartíma vagna og stuðlar þ.a.l. að lægri
rekstrarleigu. |
Gæði almenningssamgangna eru háð
þéttleika leiðanets
og tíðni ferða.
Miðað við samsvarandi gæði - þéttleika og
tíðni - er því stærri vagna þörf (oft lestarvagna) sem byggð er
þröngbýlli - en því minni sem byggð er strjálbýlli (þá jafnvel
einungis smávagna). Að þessu gefnu kemst gisið borgarsamfélag
því af með smærri og ódýrari vagna en verður á hinn bóginn að
gjalda hlutfallslega fleiri ökumönnum laun en hið þröngbýla -
þ.e. svo lengi sem vagnstjóra verður þörf. |
Framleiðendur eru nú farnir að bjóða upp á afar létta
og sparneytna lággólfsvagna, ekki síður vel búna en hina stærri, og
jafnvel betur búna - með innbyggðum skábrautum og öryggi fyrir
hjólastóla og kerrur. Vel skipulagt leiðanet slíkra vagna, er gengju
helmingi tíðar en strætó nú, væri mun líklegra til að laða að fleiri
farþega, jafnvel verulega fleiri, en fáeinar, þungar og rándýrar
léttlestaleiðir, og drægi þá jafnframt aftur úr niðurgreiðslum með
auknum fargjaldatekjum. Styrkur slíks léttvagnakerfis væri ekki síst
í því fólginn hve vagnarnir væru fljótari í förum en nú. En því
minni sem vagnar eru og ferðir jafnframt tíðari, fækkar eðlilega
viðkomum hvers vagns á biðstöðvum (og þá raunar því frekar ástæða
til að stytta bil þar sem langt er á milli stöðva). Af þessum sökum
einum - hve sjaldnar þurfa að stoppa, þeir litlu, fyrir utan að vera
almennt sneggri í snúningum - eru þeir fljótari í förum en fáir,
stórir vagnar, sem eðli málsins samkvæmt þurfa oftar að stoppa og
taka af stað - taka upp og láta út fleiri farþega - í sínum strjálu
ferðum.
Sjálfstæðar rekstrareiningar - einhlítari stjórn?
Með
rekstrarleigu vagna (þ.e. án ökumanna) gætu stjórnendur einbeitt sér
að sjálfum samgönguþættinum - sjálfri kerfisfræðinni og
félagsfræðinni - en með reglulegum útboðum látið öðrum (sérfræðingum
á sínu sviði) eftir innkaup á bílum og endursölu, viðhalds- og
viðgerðarþjónustu og e.t.v. tryggingarmál. Þá mætti ætla, að gæti
verið eftirsótt af eigendum verslunarmiðstöðva og ýmissa
þjónustukjarna að annast að mestu leyti á sinn kostnað rekstur
helstu bið- og skiptistöðva, væri leiðanet vel lagað að slíkri
starfsemi sem annarri. Það væri þeirra hagur (sérfræðinga í
viðskiptum) að laða að sem flesta farþega með snyrtilegu umhverfi og
góðri þjónustu, þeir fengju sem sagt meiri viðskipti fyrir vikið. Á
líkan hátt gætu öll biðskýli verið á annarra hendi (sérfræðinga í
athygli), sem þá sæju alfarið um uppsetningu skýlanna, þrif og
viðhald - en ekki einungis þau skýli sem bera sig með auglýsingum og
öll framkvæmd virðist hafa tekist mjög vel með. Væri þá væntanlega
greitt mismikið með skýlunum að svo miklu leyti sem þau borguðu sig
ekki sjálf með auglýsingum eða á annan hátt.
Slík uppskipting rekstrar í sjálfstæðar einingar
myndi skýra allar línur og auðvelda stjórnendum jafnt sem fulltrúum
hins opinbera, almennings - eigenda rekstrarins - alla yfirsýn, sem
er forsenda þess að halda honum í góðu horfi. Það er varla nóg að
vagnar séu glæsilegir og vel búnir og vagnstjórar hinir liprustu og
prýðis ökumenn ef sjálft leiðakerfið er í molum, samgöngumátinn
fyrst og fremst lýsandi tákn stétta- og tekjuskiptingar. Þar sem
almenningssamgöngur eru einna þróaðastar, líkt og í Kaupmannahöfn og
París, gætir mest alls litrófs mannlífs og þykir fátt sjálfsagðara
en að taka bússinn, og nú metró í borgunum báðum tveim.
Strætó bs Gróf hugmynd um rekstur
léttvagnastrætó. Til samanburðar, í aftasta dálki, eru ágiskaðar
tölur, sem gætu e.t.v. farið nærri um kostnaðar-skiptingu í núverandi
kerfi Strætó bs. Gert er ráð fyrir að á móti yfirgripsmeiri umsjón
með fleiri vögnum og auknu starfsmannahaldi komi sparnaður í
almennri stjórnun og rekstri vegna rekstrarleigu vagna og
rekstrarútboðs biðskýla og skiptistöðva.
Rekstrarkostnaður í milljónum króna á ári |
Einn léttur |
150 léttir |
90 þungir |
Rekstrarleiga á ári, 20% af nývirði vagns |
2 |
300 |
|
Samsv. rekstrarkostn. núv. vagna. Gróf ágiskun |
|
|
400? |
3½ stöðugildi vagnstjóra pr. vagn |
12 |
1.800 |
1.080? |
Eldsneyti, tryggingar, ýmisl. ót. utan rekstr.leigu |
2 |
250 |
370? |
Alls utan stjórnunar og umsjónar |
16 |
2.350 |
1.850? |
Stjórnun, umsjón, vefur, viðhald á sætum, þrif o.fl |
1 |
150 |
150? |
Alls að meðtalinni stjórnun og umsjón |
17 |
2.500 |
2.000 |
Hálfs milljarðs útgjaldaaukning á ári (frá um tveimur
milljörðum nú) myndi svara til um helmings árlegs rekstrarkostnaðar
einnar 10 km langrar léttlestaleiðar, svo sem hér hefur verið rakið,
t.d. suður í Fjörð. Farþegum Strætó yrði að fjölga verulega ættu
fargjaldatekjur einar að vega á móti aukningunni, sem væri þó ekkert
fráleitt markmið í sjálfu sér, væri til lengri tíma litið, næstu
fimm ára eða svo, að því tilskyldu að nýtt leiðakerfi væri hugsað út
í þaula og kort öll og upplýsingamiðlun væri á við það sem best
gerist í þróuðum samgöngukerfum menningarborga. En fleira kemur til
sem vægi á móti útgjöldum. Nær öll aukning strætófarþega myndi að
sama skapi draga úr umferð einkabíla og þar með minnka þörf fyrir
umfangsmeiri umferðarmannvirki, og bílastæði myndu nýtast betur. Og
ekki einungis strætófarþegar heldur einnig þeir fjölmörgu sem
virkilega þurfa á eigin bíl að halda kæmust betur leiðar sinnar.
Menningarborg?
Hvaða sess ætlar Reykjavíkurborg sér á meðal
menningarborga í framtíðinni. Hvernig tekur hún til að mynda á móti
útlendingum sem koma hingað til dvalar, hvort sem eru á vegum
mennta- og rannsóknarstofnana, fyrirtækja eða stjórnvalda, eða eru
hér einfaldlega á eigin vegum? Hvaða áhrif hafa vanþróaðar
almenningssamgöngur í ofanílag við einn frumstæðasta
íbúðaleigumarkað sem um getur? Hversu fýsilegt er að koma hingað,
hvort sem er til lengri eða skemmri dvalar, sé horft til þessara
mikilvægu menningarþátta?
Að ekki sé minnst á landann sjálfan, háborgarann eða
lágborgarann eða af hvaða stigu sem er, kæri hann sig hvorki um að
eiga íbúð eða bíl, hvað þá hafi hann efni á hvorugu. Hversu margir
geta leyft sér að leggja líf sitt svo undir í Reykjavíkurborg eða
grannbyggðum, eða skyldu þeir annars helst flytja út í lönd til að
fá notið svo sjálfsagðrar menningar borga og bæja? Eða hversu mikil
menningarbót væri það ekki fyrir fólk af öllum stigum, og þá
sérstaklega láglaunafólk og námsfólk, að geta minnkað við sig
rekstur bílsins, nú eða bílaflota, ellegar að geta sleppt þeim
rekstrarlið alveg og litið á sem hreina kjarabót, þegar það kostar
borgarann um fjórðung til fimmtung árslauna að reka hvern bíl - oft
allan tekjuafganginn að nauðsynjaútgjöldum greiddum - fyrir utan
alla barnabílana?
Og hversu mikil uppbót væri það ekki fyrir
heilbrigðiskerfið að fólk hreyfði sig aðeins meira? Væri það ekki
þess virði, að verja sem svarar um hundraðasta hluta af fimmtíu
milljarða útgjöldunum þess kerfis til að hlaupa undir bagga með
Strætó á meðan nýtt leiðakerfi væri að ná sér á strik? Í því
sambandi má benda á, að samkvæmt norsk-íslenska heimspekiskólanum er
besta fegrunarmeðalið hressilegur göngutúr og fátt hollara en að
hlaupa á eftir strætó. Fólk er einfaldlega sætt í strætó, samkvæmt
kenningunni, en feitt og ljótt í einkabíl...
Léttvagnar - léttsporabrautir?
Hitt
er svo annað mál, að á allra næstu árum gæti skapast grundvöllur
fyrir mun léttbyggðara og ódýrara sporvagnakerfi en nú er völ á, sem
gæti myndað stofnbrautir hraðfara almenningssamgangna, við hlið
léttvagnastrætó. Vegna einfaldleika síns og mikla innbyggða
jafnvægis er Halbach-spansporinn líklegur til að mynda kjarnann í
einum ódýrasta og öruggasta línulega rafhreyfli sem völ verði á og
sem á sinn hátt verði fyllilega samkeppnisfær við hefðbundinn
hringhreyfil.
Í dæminu um Maglev M3-kerfið, sem er sundurliðað hér
að framan, með útkomu upp á um milljarð króna fyrir
tvístefnukílómetrann, er gert ráð fyrir öllu hefðbundnari gerð
línulegs hreyfils fyrir segulsvif - myndað með efnismiklum og dýrum
LSM-rafsegulvindingum sem krefjast flókins jafnvægiskerfis. Afl og
stýribúnaður ásamt vindingunum nema heilum tveimur þriðju hlutum
alls kostnaðar á meðan sjálf súlnabrautin með bitum er áætluð að
nemi einungis um þriðjungi kostnaðar, að vísu þó með einhverjum
uppsetningarkostnaði til viðbótar, að vænta má. Kostnaðarskipting í
hinu dæminu, þar sem Halbach-segulsvif er lagt til grundvallar,
liggur ekki á lausu, enda enn á viðkvæmu þróunarstigi, en það kæmi
ekki á óvart að hlutfallslegur kostnaður hreyfils sé þar talsvert
lægri, þó vagnar, spor og öll mannvirki séu öllu stærra í sniðum.
Þegar
haft er í huga að um er að ræða háloftasporbrautir fyrir vagna sem í
fyrra dæminu gætu vegið allt að 17 tonnum fullhlaðnir með um 100
manns um borð, og í hinu síðara allt að 10 tonnum með um 40 manns um
borð, þá er ekki fráleitt að ætla að raunverulegar léttsporabrautir
- og þá fremur láglofta, og fyrir sjálfstýrða smávagna, eiginlega
smá snekkjur eða hálfgerð flugfis, er vægju gott hálft tonn með
einni, tveim, þrem eða fjórum manneskjum um borð - gætu kostað til
muna minna og þá allt eins komið til greina sem raunverulegur,
arðbær valkostur hér í strjálbýlu borgarumhverfi íslensku.
Fisin flyttu þá ekki einungis fólk heldur einnig
vörur, viðkomulaust á ákvörðunarstað, eftir vali hvers og eins,
þegar hverjum og einum hentaði. Og þá ekki einungis á meginleiðum í
þéttbýli, jafnhliða léttvagnleiðum Strætó, er þjónuðu á skemmri og
þrengri leiðum, heldur einnig landshluta og eyja og flugvalla á
milli, á örskots hraða.

___________________________________
í desember, 2003
Tilvísanir (hyperlinks) í nokkrar helstu heimildir á vef eru með
tilvísanalit í texta eða birtast að baki mynda eftir því sem við á.
1. hluti:
Fólksflutningaveitur og færibönd
2. hluti:
Þróun og hagnýting segulsvifs
3. hluti:
Þungbyggð spor og létt, háloftabrautir og þungavægi vagna
prenta skjal
Rómanza:
heim á kvist
|