
Árni B. Helgason:
Léttsporaleið - svar við hjólsins þunga og þunga niði?
2. hluti - Þróun og hagnýting segulsvifs
Fyrstu eiginlegu hugmyndir um segulsporbrautir voru settar fram
fyrir um öld síðan en verða ekki að veruleika fyrr en á sjöunda og
áttunda áratugnum, að ýmsum áætlunum um lestir knúnar rafsegulafli
er hrundið af stað í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi og Japan.
Bandarísk stjórnvöld voru með hinum fyrstu til að sinna rannsóknum á
þessu sviði en drógu sig fljótt í hlé og hættu alfarið að veita fé
til þeirra sökum mikils kostnaðar. Þær lestir sem hingað til hafa
komist á sporið, aðallega í Þýskalandi og Japan, eru háhraðalestir
allflestar sem ná jafnvel 4-500 km hraða á klst. Enn eru þetta
einungis lestir sem ganga stuttar leiðir, en kostnaður við lestir og
lestarspor er verulega meiri en við hefðbundin kerfi.
Óstöðugleiki segulsviðs. Hagnýting línulegs
segulsviðs
Það sem helst hefur staðið hagkvæmnisþróun fyrir
þrifum er sú staðreynd að segulmagn er í eðli sínu óstöðugt, nokkuð
sem mönnum hefur verið ljóst allar götur síðan árið 1842 að
eðlisfræðingurinn Earnshaw sýndi fram á það óumdeilanlega. Þá hefur
það jafnframt reynst þrautin þyngri að ná hæfilegri lyftigetu án
þess að kosta of miklu til. Allt til skamms tíma hafa menn því
leitast við að þróa æ flóknari stýribúnað til að vinna gegn
óstöðugleikanum og æ aflmeiri segulorkubúnað til að auka lyftigetuna
- en sá böggull fylgir skammrifi að allur búnaðurinn er háður
rafmagni, sem á sinn hátt er óstöðugt vegna bilanahættu, og hefur
því kallað á enn öflugri, flóknari og dýrari öryggisbúnað.
Línulegur
rafhreyfill er grundvöllur allrar segulsportækni. Hann lýtur í
sjálfu sér sömu lögmálum og venjulegur hringlaga hreyfill - munurinn
er sá einn að segulsvið vinnur gegn segulsviði í láréttum flötum í
stað hringlaga. Og líkt og í hringlaga hreyfli getur gagnkvæmum
segulsviðum verið hagað á þrjá vegu: með föstum síseglum en
hreyfanlegum rafseglum, með föstum rafseglum en hreyfanlegum
síseglum,og loks með föstum rafseglum jafnt sem hreyfanlegum
rafseglum.
Fjórða tilhögunin, að síseglar einir séu látnir spana
upp segulsvið í gagnstæðum fleti rafleiðandi efnisþátta, gæti ekki
kallast mótor í sjálfu sér, enda þá afls vant, en með ákveðinni
samröðun seglanna getur slík högun orkað sem
legur án snertiflata, hvort sem er fyrir línulega eða hringlaga
hreyfingu. Albesta virkni í þessu skyni er fólgin í segulhögun sem
kennd hefur verið við eðlisfræðinginn Klaus Halbach og er farin að
hafa áhrif á hagnýtingu segulmagns, og gæti átt eftir að valda
straumhvörfum í gerð segulsporbrauta.
Segulsporbrautir hafa hingað til í aðalatriðum verið
tvenns eða þrenns konar - sjálft sporið er myndað af sísegli, en
hreyfanlegi hlutinn, sporvagninn, búinn rafseglum sem orka á
segulsporbrautina, eða á hinn bóginn að öll sporbrautin er samsett
úr rafseglum, en hreyfanlegi hlutinn, sporvagninn, þá búinn
síseglum. Þá eru til margvísleg afbrigði og samsetningar þessarar
högunar, meðal annars að búa bæði spor og vagn rafseglum, svo og
notkun ofurleiðara og hlutlauss segulspans.
Þótt löngu sé vitað að rafsegullestir séu talsvert
sparneytnar á orku hafa þær átt erfitt uppdráttar í samkeppni við
lestir búnar hefðbundnum, orkufrekari aflvélum vegna kostnaðarins
sem fylgir gerð línulegra hreyfla. Slíkur hreyfill er í raun aflvél
öll á lengdina, undir öllum vögnum, með öllu spori, svo langt sem
braut nær. Ekki einungis hefur hann krafist gríðarlegs magns segla,
símagnaðra eða rafmagnaðra, heldur einnig afar nákvæmrar smíði og
flókinnar jafnvægisstillingar til að vagnar svífi rétt yfir sporinu.
En segulsvifhreyflar hafa enga snertifleti og krefjast þar af
leiðandi mjög lítils viðhalds og er endingartími þeirra því öllu
lengri en hefðbundinna hreyfla. Af sömu ástæðu eru þeir einstaklega
hljóðlátir, alveg lausir við hjólsins þunga nið, og þykja þar af
leiðandi mjög hentugir fyrir sporbundnar samgöngur í þéttbýli.
Segulfylki Halbachs
Undir lok aldarinnar sem var að líða kom fram hugmynd
um nýja gerð línulegs rafhreyfils sem nýtir jafnt símagnað sem
rafmagnað segulsvið miklum mun betur en hingað til hefur þekkst. Með
henni tekst að sveigja verulega hjá lögmáli Earnshaws um
óstöðugleika segulmagns, þó vissulega hafi lögmálinu ekki verið
hnekkt. Sporin jafnt sem vagnhlutar hreyfilsins eru mun einfaldari
að gerð og léttbyggðari og næst engu að síður meiri lyftigeta.
Hugmyndin byggir annars vegar á verulega einfaldari gerð
rafsegulspors - sporhluta sem dregur vagn áfram jafnframt því að
leiða stöðuga stýringu án sérstaks stýrikerfis - og hins vegar á
sporhluta sem er í eðli sínu hlutlaus - er hvorki sísegull né
rafsegull, en er sett saman úr rafleiðandi efnisþáttum sem sterkt
segulsvið spanast í kringum þegar segull byggður á segulhögun
Halbachs fer með sporinu.
Klaus Halbach (1925-2000) var þýskur eðlisfræðingur sem flutti
til Bandaríkjanna á 6. áratugnum og starfaði lengst af hjá
rannsóknarstofnuninni Lawrence Berkeley National Laboratory, sem er
sjálfstæð deild innan Kaliforníuháskóla. Á 9. áratugnum sýndi hann
fram á að með sérstakri samröðun segulkubba í sjálfstæð segulfylki,
var gerlegt að mynda einhliða sísegulsvið þannig að nær allt
segulmagnið kæmi fram einungis öðrum megin fylkis, þá í raun
tvíeflt, en fylkið væri um leið nær sneytt öllu segulmagni hinum
megin. Með þessu móti mátti mynda stóran, einhliða segulmagnaðan
flöt þar sem allt segulmagn kubbanna nýttist sömu megin, og það sem
ekki síður var mikilvægt, að segulmagn svo samsett hafði síður
tilhneygingu til óstöðugleika en ella. Þá var heldur ekkert því til
fyrirstöðu að mynda t.d. hólklaga sveigðan flöt þannig að allt
segulsviðið magnaðist einungis innan hólksins. Halbach fann
segulfylkið upp í því skyni að ná fram sem sterkustu símögnuðu
segulsviði til að hafa áhrif á ljóseindir og hefur aðferðinni síðan
verið beitt í margvíslegum tilgangi - í ljóshraðlatækni og í
tölvutækni, þar sem seglar gegna mjög veigamiklu hlutverki, og eins
í véltækni, m.a. til að búa til ofurlegur án snertiflata, svo sem
drepið er á hér að framan.

Segulkubbar límdir saman í tréstokki
mynda hér Halbach-sísegulfylki. Örvar tákna segulstefnu
hvers kubbs. |
Hringlaga Halbach-sísegulfylki myndar hér
tvíeflt segulsvið að innanverðu en er nær hlutlaust að
utanverðu. |

Fylkið myndar tvíeflt segulsvið að neðan
en er nær hlutlaust að ofan. |
 |
 |
Klaus Halbach sýndi fram á að með sérstakri samröðun
segulkubba í sjálfstæð segulfylki, er gerlegt að mynda
einhliða sísegulsvið þannig að nær allt segulmagnið komi
fram einungis öðrum megin fylkis, þá í raun tvíeflt. |
|
Á 10. áratugnum beitti bandaríski eðlisfræðingurinn
Richard F. Post, hjá rannsóknarstofnuninni Lawrence Livermore
National Laboratory (sem er einnig innan vébanda Kaliforníuháskóla),
segulfylkjum Halbachs við gerð einskonar
rafsnældu eða rafkasthjóls, sem er rafall sem framleiðir raforku
og varðveitir innra með sér sem hreyfiorku hjólsnúningsins - líkt og
venjulegur rafgeymir varðveitir orku en á efnafræðilegan hátt.
Forsenda hleðslunnar er háhraðasnúningur snældu sem magnar upp
sterkt, einhliða segulsvið, framkallað með Halbach-segulfylkjum í
hjólnöf kasthjólsins. Til að ná upp sem hröðustum snúningi hjólsins,
af stærðargráðu 1000 hringir á sekúndu, næst bestur árangur með
ofurlegum, sem Halbach-sísegulfylki eru einnig besti efniviður í.
Hver sem hinn ytri orkugjafi er, sem kemur snældunni á snúning, þá
varðveitir rafallinn hreyfiorku svo lengi sem hann snýst (á sinn
hátt líkt og upptrekt fjöður í klukku) en Halbach-fylkin spana upp
straum í rafleiðandi efnum í föstum kjarna snældunnar sem myndar þá
jafnframt öxul hennar.
 |
 |
Þversnið snældu. Halbach-sísegul-fylki umlykja rafalkjarnann. |
Tilraunasnælda á fullum snúningi og ásýnd í lokuðu hylki, 20
sm í þvermál, 30 sm á hæð. |
Hreyfiorka kasthjólsins er svo beisluð með því að
virkja þennan straum. Rafsnælda getur falið í sér margfalt þéttari
orkurýmd, samfara verulega minni orkuþyngd, en hingað til hefur
þekkst og gæti orðið hagkvæm leið til að binda sveiflukennda orku,
t.d. vinds og sólar, og jafna orkusveiflurnar. Orkuþyngd rafsnældu
er mun minni en bifreiðaeldsneytis og miklum mun minni en venjulegra
rafgeyma, auk þess sem rafsnældan nýtir betur varðveitta orku.
Rafsnældan er nú þegar framleidd til ýmissa hluta og er aldrei að
vita nema hún eigi eftir að leysa þann vanda sem fjöldaframleiðsla
ódýrra rafbíla hefur strandað á - að geta geymt raforku í sem
léttustu formi.
Rafsnældan - sem slík - skiptir litlu máli í sambandi
við segulsporbrautir, en sé litið á hana sem útflattan hlut, sem
línulegan rafal, Halbach-sísegulfylki er renna eftir braut úr
rafleiðandi efnum, þá kann hún að eiga eftir að skipta öllu máli í
sambandi við segulsporbrautir, en myndi þá að sjálfsögðu ekki
kallast snælda. En líkt og í sívölum rafala, að síseglar spana upp
straum í rafleiðandi efnum, þá gerist slíkt hið sama í línulegum
rafli. Straumurinn er þá á hinn bóginn ekki nýttur sem leiðandi
rafmagn heldur er einungis segulsvið straumsins nýtt. En allur
straumur myndar segulsvið og segulsviðið má virkja sem lyftikraft.
Spansporinn - Inductrack
Þegar Richard F. Post starfaði að gerð rafsnældunnar
eygði hann þessa leið til að nýta Halbach-fylki. Að með því að líta
á snælduna sem línulegan hlut, spor sem lægi á lengdina - en ekki í
hring, líkt og í snældunni - mætti magna verulegan lyftikraft.
Niðurstaða hans var að lyfta mætti hlut - t.d. lest - og halda á
lofti með slíkum spanspora ef samhliða væri myndaður drifkraftur -
líkt og eitthvað þarf til að drífa venjulegan rafal og koma
rafsnældu á snúning. Slík segulsviflest gengi þá ekki eftir spori úr
þungum síseglum eða rafseglum með málmkjarna, líkt og nú gerist,
heldur eftir spori sem mynda mætti úr léttum rafleiðandi efnisþáttum
sem Halbach-sísegulfylki undir lestinni orkuðu á og spönuðu upp
straum í, og þar með segulsvið er orkaði á móti segulsviði fylkjanna
og myndaði hinn lóðrétta lyftikraft.
Til
að fá fram hinn lárétta drifkraft hönnuðu Post og samstarfsmenn hans
jafnframt nýja gerð línulegs rafhreyfils, sem byggir einnig á
Halbach-sísegulfylkjum undir lest eða lestarvagni. Þá er það enn
lykilatriði að Halbach-fylkin mynda einhliða, tvíeflt segulmagn.
Hreyfillinn myndar því mun einfaldara og efnisminna rafsegulspor en
ella. Það er myndað úr auðsveigjanlegum, þáttuðum rafmagnsköplum sem
fléttast eftir ákveðinni reglu um stálklofa langsum eftir sporinu, í
stað þess að fela í sér efnismikilla margvafninga um þunga
málmkjarna, svo sem annars venja er. Með ákveðinni lögun
rafmagnskaplanna um stálklofann næst ekki einungis láréttur
drifkraftur heldur einnig sporstýring í mjög góðu innra jafnvægi -
jafnvægi sem Halbach fylkin eiga sinn stóra þátt í. Það ræðst svo
einfaldlega af afli drifhreyfilsins hvort hann er jafnframt,
samhliða drif- og stýrikraftinum, látinn mynda lyftikraft til
viðbótar krafti spansporans.

Sporvagn og spor - Inductrack. Liður í
bandarískri þróunaráætlun um segulsportækni.

Þversnið af öðrum helmingi spors ásamt
vagngripi.
LSM Guide Rails - rafsegulspor (Linear
Synchronous Motor)(4) myndar drif- og stýrikraft (og reyndar
einnig hluta lyftikrafts) fyrir meðvirkni Halbach-sísegulfylkis
(3) sem fest er ofan á C-laga stálbita undir vagninum. Innan á
C-bitanum eru Halbach-sísegulfylki (1 og 1) er spana upp
segulsvið í spansporanum (Inductrack)(2) þegar vagninn hreyfist
áfram fyrir drifkrafti rafsegulsporsins.
Í kyrrstöðu og á litlum hraða liggja fylkin
neðarlega gagnvart spansporanum, - efra fylkið nær honum en
neðra fjær - en þegar segulsviðið spanast upp spyrnir efra
fylkið móti segulsviði sporans og veldur lyftikrafti er orkar á
C-bitann og þar með vagninn. Þegar neðra sísegulfylkið, undir
sporanum, nálgast segulsvið sporans spornar það við frekari
lyftingu - myndar mótvægi, jafnvægi. |

Drif- og stýrispor ásamt spanspora
(Inductrack)
1. Sporflötur vagnhjóla úr sérstaklega hertu stáli. Hjól
vagns hvíla á fletinum fyrir og eftir svif.
2. Drif- og stýrispor (LSM Guide Rails). Þáttaðir rafmagnskaplar
fléttast eftir ákveðinni reglu um stálklofa langsum eftir
sporinu. Þegar rafstraumi er hleypt á kaplana myndast segulsvið
sem grípur móti segulsviði sísegla undir vagni, sbr. mynd til
hliðar.
3. Festingar fyrir spanspora (Inductrack) úr stálvinklum.
4. Spanspori (Inductrack), myndaður úr samlímdum, einangruðum
koparþynnum.
5. Sporgrind. Boltast niður á holbita úr steinsteypu sem ber
uppi sporeininguna (sjá mynd ofar, sporvagn og spor).
6. Stálplata langsum eftir grindinni myndar flöt fyrir festingar
og bindur grindina saman. |
 |
Þessi tvíhliða, línulegi rafhreyfill Richard F.
Posts, myndaður af Halbach-spanspora og Halbach-rafspora, ef svo má
kalla, er mun einfaldari en aðrir línulegir rafhreyflar. Og það sem
mest er um vert, að með segulkubbaröðun Halbachs - sísegulfylkjunum
- hefur tekist án nokkurs sérstaks stýri- og jafnvægisbúnaðar að
sveigja hjá lögmáli Earnshaws um óstöðugleika segulmagns, svo sem
áður er sagt. En stór hluti kostnaðar við segulsporlestir hingað til
hefur verið fólginn í flóknum stýri- og jafnvægisbúnaði. Þá er
hreyfillinn í eðli sínu mjög sparneytinn á orku, fyrir utan að vera
einstaklega léttbyggður, og vegna góðrar lyftigetu og hinnar
innbyggðu jafnvægisstýringar krefst hann ekki slíkrar ofurnákvæmni
við smíði en ella. Með spanspora má lyfta allt að fimmtugföldum
þunga sjálfra seglanna - með öðrum orðum, einungis góð tuttugu kíló
af seglum lyfta hverju þungatonni vagns. Vegna einfaldleika síns er
hann nær óháður veðurfarslegum áhrifum, öfugt við eldri tegundir með
öllum sínum viðkvæma stjórnbúnaði. Slái rafmagni út er segulsvif
engu að síður áfram til staðar svo lengi sem skriðþunginn viðheldur
hreyfingu (líkt og rafsnælda á sinn hátt spanar upp segulsvið svo
lengi sem hún snýst), þangað til hreyfing er orðin svo lítil að
tekur fyrir svif og vagnhjól snerta mjúklega sporið.
Rafsegulsvifhreyflar verða á hinn bóginn að vera búnir einhvers
konar varafli eða slíkum öryggisbúnaði, að ekki taki skyndilega
fyrir svif af völdum rafmagnsleysis og vagnar skelli niður.
Inductrack
kallast þessi gerð hreyfla á ensku - eða spanspori, svo sem hér
hefur verið nefndur - og hefur átt sinn þátt í að breyta viðhorfum
bandarískra stjórnvalda til segulsporbrauta eftir að þau hættu mest
öllum stuðningi við slíkar áætlanir á áttunda áratugnum.
Beinast
sjónir manna nú ekki síst að fremur léttbyggðum segulsporvögnum er
tengja myndu borgarhluta saman og úthverfi - kallað Urban Maglev -
og er hugsað sem sjálfstýrð, þ.e. tölvustýrð, sporvagnaútfærsla
neðanjarðar- og léttvagnalesta, m.ö.o. án lestarstjóra, án eiginlegs
lestargangs. En segulsvif - magnetic levitation, oft nefnt Maglev á
ensku - auðveldar mjög að láta einstaka sporvagna ganga sjálfstætt,
með því hreyfillinn er að mestu leyti innbyggður í sporið. Og svo
einfaldur hreyfill sem spansporinn er, gæti hann brátt átt eftir að
verða lykill að léttspora flutningaveitum, er gætu verið því minni
um sig sem vagnar væru fleiri en smærri. Í stað vagna, stakra eða í
lest saman, sem ætlað er að flytja tugi manna eða hundruð, kæmu
fjölmörg hálfgerð fis, sem hverju og einu væri einungis ætlað að
flytja fáeina farþega, ellegar vörur, líkt og á færibandi, en þó
engu að síður á ákvörðunarstað, viðkomulaust, eftir vali hvers og
eins, þegar hverjum og einum hentaði.
Í þriðja og síðasta hluta verða nánar kynntar til
sögu nýlegar áætlanir bandarískra stjórnvalda um segulsportækni í
þágu þéttbýlissamgangna og þá hugað að því hvort gerlegt væri að
yfirfæra hugmyndirnar, og þó í heldur smærri kvarða, á íslenskan
veruleika í náinni framtíð. Eða verður það þá kannski orðið um
seinan? Smæð almenningssamgangna hér orðin svo algjör að það taki
því varla að hugsa um það? Eða er völ á einhvers konar léttsporaleið
inn í framtíðina, að mögulega megi auka gæði almenningssamgangna
verulega og búa undir komandi tíð? Að því verður meðal annars hugað
- hvort sé betra að hugsa um lest eða taka léttan strætó.
___________________________________
í nóvember, 2003
Tilvísanir (hyperlinks) í nokkrar helstu heimildir á vef eru með
tilvísanalit í texta eða birtast að baki mynda eftir því sem við á.
1. hluti:
Fólksflutningaveitur og færibönd
2. hluti:
Þróun og hagnýting segulsvifs
3. hluti:
Þungbyggð spor og létt, háloftabrautir og þungavægi vagna
prenta skjal
Rómanza:
heim á kvist
|