
Árni B. Helgason:
Milli lands og Eyja
Um ferjugöng (janúar 2008)
Vandséð er hvernig þróun byggðar í Vestmannaeyjum verði snúið við
frá verulegri fólksfækkun til fólksfjölgunar nema á grundvelli
stórbættra samgangna við land. En sama hve miklu væri til kostað þá
mun hvorki flug né sjóferja nokkurn tímann geta skapað þann
grundvöll sem til þarf – sem snýst um mjög tíðar, traustar, greiðar
og ekki síst ódýrar samgöngur við nálægustu jafnt sem fjarlægari
byggðir.
Þær samgönguleiðir aðrar sem hingað til hafa
verið ræddar og allar hafa snúist um göng, hafa á hinn bóginn verið
þess eðlis að ýmist hefur kostnaður að lokum verið talinn
óyfirstíganlegur eða þá að gangnagerð væri ekki talin nógu traust
og gilti þá einu hve ódýr væri.
Hver sem skoðun manna kann að vera á þessu þá er
ljóst að samgönguráðherra hefur nú alfarið hafnað öllum þeim
gangnakostum sem ræddir hafa verið mörg undanfarin ár. Ákvörðun
hefur verið tekin um að gera ferjuhöfn í Bakkafjöru þannig að þangað
liggi leið Herjólfs í framtíðinni – nema veður spilli.
Í allri þessari miklu umræðu hefur einn kostur
tæpast verið nefndur, það sem mætti þó kalla einskonar samnefnara
ganga- og ferjuleiðar – eða einfaldlega ferjugöng – en með slíkum
göngum mætti einmitt bjóða upp á mjög tíðar, traustar, greiðar og
ekki síst mjög ódýrar samgöngur milli lands og Eyja, og það jafnvel
án þess að fjárveitingavaldið veitti meira fé til þeirra en það
almennt hefur gert hingað til.
Spurningin er hvort allt of seint sé orðið að
setja þessa hugmynd fram – nú þegar undirbúningur er hafinn að
hönnun og gerð Bakkafjöruhafnar og nýrrar ferju. En hugmyndin snýst
um boruð og heilfóðruð, einföld göng, er samsvöruðu einungis um
þriðjungi af þverskurðarflatarmáli stórganga, og væri þó samt rúm
fyrir eldvarinn öryggisgang meðfram gangnabrautinni. Göngin væru
alfarið gerð fyrir ferjuvagna er gengju fyrir samhæfðri
sjálfstýringu, sumpart líkt því sem gerist í nýjustu léttlestakerfum
og metró erlendis. Stóri munurinn væri þó sá að vagnarnir ækju eftir
nánast venjulegri sléttri akbraut án nokkurra teina eða
brautarstýringar annarrar en þeirrar að beggja vegna brautar væru
leiðarar sem lárétt stuðningshjól út frá hliðum vagnanna fylgdu
eftir - enda væri fullbúin léttlestabraut líklega of dýr kostur
fyrir ekki meiri umferð en hér má reikna með, að minnsta kosti í
bráð.
Akbrautin væri að mörgu leyti hönnuð eins og
hefðbundinn bílvegur með bundnu slitlagi nema að viðbættri
stýringunni, leiðurunum, líkt og á sinn hátt tíðkast að hafa
hliðarstýringu í sumum metrókerfum, t.d. í París og Montréal, þar
sem vagnar aka á hjólbörðum, reyndar oft einnig með stuðningi af
stálhjólum og teinum. Slík léttlestakerfi og metró eru annars hönnuð
með það fyrir augum að geti annað flutningi á hundruðum þúsunda og
milljónum manns á degi hverjum, í 25 til 30 tonna þungum vögnum,
oftast nokkrum samtengdum í lest, er náð geti verulegri hröðun og
allt að 80 til 90 km hraða á klukkustund þrátt fyrir mjög skammar
vegalengdir milli stoppistöðva. Þessi kerfi krefjast því jafnframt
mjög sérhæfðra brauta og flókinnar stýringar og kosta sitt eftir
því.

Gróf hugmynd að eins til tveggja bíla rafknúnum ferjuvagni – fram sett alls óútlitshönnuð
Hér er á hinn bóginn gert ráð fyrir léttum
bílferjuvögnum er gengju stakir, með flutningsgetu fyrir tvo eða
þrjá smábíla eða færri stærri, ásamt farþegum, og samsvarandi stórum
farþegavögnum, ef þörf væri á, er flyttu e.t.v. um 30 manns í sæti
eða allt að 50 manns miðað við að hluti væri standandi – þannig að
alls væri annað flutningi á nokkrum hundruðum eða nokkrum þúsundum
manns á degi hverjum. Hámarkshraði gæti verið á bilinu 80 til 100
km/klst, allt eftir því hve mikið væri lagt í búnað vagnanna,
sléttleika brautarinnar og hliðarstýringuna. Þungaflutningavagnar
er ætlaðir væru til að ferja stærri og þyngri bíla færu þó heldur
hægar, e.t.v. að hámarki 60 til 70 km/klst, enda væru göngin
yfirleitt lokuð þeim á mesta annatíma almennrar umferðar. Háir
bílar, yfir 3,4 m á hæð eða þar um bil, væru ferjaðir á
lággólfsvögnum, með burðarvirkjum í hliðum vagnanna og með
hjólastellum framan og aftan við vagnpalla, þannig að hámarkshæð
ökutækis með farmi gæti numið allt að 4,2 m hæð, svo að nægði hæstu
rútum og vörubílum með flutningskassa eða gám – en lengstu ökutæki,
t.d. stærstu rútur eða dráttarbílar með tengivagna og stóran gám (40
feta) eða með samsvarandi flutningskassa, væru fluttir á sérstaklega
lengdum og styrktum lággólfsvögnum. Lausir gámar án ökutækis
rúmuðust á hinn bóginn auðveldlega á brautarvögnum af venjulegri hæð
með hjólum undir palli.
Gróf hugmynd að rafknúnum lággólfsvagni fyrir
stærstu ökutæki – fram sett alls óútlitshönnuð
Allir ferjuvagnar, jafnt fyrir litla sem stóra
bíla, væru búnir læsingum sem féllu að hjólum, og slár á milli bíla
og við vagnenda hömluðu ennfremur hreyfingu bíla. Bílstjórar og
farþegar héldu alfarið kyrru fyrir í faratækjum sínum, líkt og í
hverjum öðrum akstri, enda ferjuleiðin í raun hugsuð sem beint
framhald af þjóðvegakerfinu, með þeim eina mun að bifreiðum væri
ekki ekið eftir veginum fyrir eigin vélarafli heldur væru þær
drifnar áfram af sjálfstæðum vagni er stýrði för. Ferming bifreiða
gengi að mestu sjálfvirkt fyrir sig, þannig að við upphaf brautar
væri ekið um hlið og yfir vogir þar sem sjálfvirkir nemar mældu og
flokkuðu ökutæki, en ökutækjunum væri síðan beint inn á viðeigandi
vagna í samræmi við lengd, breidd, hæð og þyngd. Jafnvel má hugsa
sér að vagnar væru almennt án beygjubúnaðar, enda möguleiki á að
leggja göngin alfarið eftir beinum línum sem tengdust einungis með
mjög mjúkum bogum, en í endastöðvum væru snúningseiningar á sporinu
sem snúið væri þversum þannig að vagnar ækju fyrst að
affermingarpalli en síðan í gagnstæða átt að fermingarpalli.
Hugsanleg rökfræðileg skipan endastöðvar við
Kross. Það kann þó að vera spurning hvort yfirleitt sé ástæða til að
hafa bílastæði og þá jafnframt sérstaka farþegavagna, og eins
spurning með gáma, hvort að einhverju leyti væru fluttir lausir og
þá umskipað á gámavelli eða hvort alfarið og einungis væru fluttir á
flutningabílum um göngin. Þetta væri m.a. spurning um hve liðug
ferming og afferming hinna stærri og þyngri ökutækja, rútubíla og
vörubíla, gæti verið. Umfang endastöðvar í Eyjum gæti í öllu falli
verið minna, enda þar síður þörf á miklum bílastæðum.
Að lágmarki væri ávallt einn starfsmaður á vakt
til eftirlits í hvorri endastöð og einn í stjórnstöð sem vaktaði
m.a. umferð með myndavélum. Þetta væru sólarhringsvaktir árið um
kring þannig að göngin væru ávallt opin almennri umferð á nóttu sem
degi. Þar fyrir utan væru nokkrir starfsmenn sem sinntu daglegu
viðhaldi og almennu eftirliti með göngum og vögnum auk þess sem þeir
aðstoðuðu við almennt umferðareftirlit á háannatímum. Þá hefðu
dagmenn jafnframt umsjón með fermingu og affermingu þeirra þyngri
og stærri ökutækja sem krefðust lággólfsvagna, en miklir
þungaflutningar væru almennt bundnir við virka daga og utan
háannatíma almennrar umferðar.
Margra áratuga reynsla er fengin af samhæfðri
sjálfstýringu fyrir lestarkerfi og þykir slíkur búnaður orðinn
sjálfsagður hlutur í flestum nýrri borgarlestakerfum og metró, líkt
og t.d. í Kaupmannahöfn og víðar. Kostnaður við sjálfstýribúnað er
nánast hverfandi sem hluti af heild[i], öfugt við það sem mætti
ætla, ekki síst að teknu tilliti til sparnaðar við rekstur kerfanna
er kemur að mannahaldi og enn frekar sé litið til þess hve
sjálfstýrikerfi fela í sér mun þjálli ferðamöguleika en handstýrð.
En því fleiri möguleikar á ferðum og ferðatíma, því frekar fjölgar
farþegum og þá því frekar skapast möguleikar á að halda fargjöldum
lágum án þess að heildartekjur skerðist, en lægri fargjöld kalla á
enn frekari fjölgun farþega og þar með auknar tekjur. Mestu varðar
þó hve öryggi sjálfstýrikerfa er margfalt á við handstýrð kerfi.
Munur á viðbragðstíma, t.d. vegna slysa í göngum
eða yfirvofandi jarðskjálftahættu, er verulegur sé sjálfstýrt kerfi
stakra vagna í einföldum ferjugöngum borið saman við almenna tveggja
stefnu bílaumferð í frjálsu flæði. Miðað við 90 km/klst meðalhraða
sjálfstýrðra vagna mætti tæma 18 km löng ferjugöng á um 6 til 7
mínútum, en það samsvaraði tímanum sem tæki vagn að fara lengstu
leið, þ.e. frá miðju ganga, til endastöðvar. Aðrir vagnar færu út úr
göngum á því skemmri tíma sem nær væru gangnamunnum – og gilti þá
einu á hvaða stefnu væru, þeim væri stefnt út skemmstu leið frá
hættustað, enda allir vagnar gerðir fyrir tvístefnu, þannig að engu
máli myndi skipta hvort ekið væri áfram eða “afturábak”.
Öðru máli gegnir um almenna bílaumferð. Mjög
örðugt eða nær ógerlegt er að koma boðum til ökumanna um að snúa við
í göngum, enda myndu slík boð fyrst og fremst skapa hættu á óreiðu
og árekstrum þegar tugir eða jafnvel hundruð ökumanna reyndu að
forða sér og sínum á sem skemmstum tíma undan hættu. Venjuleg
bílagöng verða því ekki tæmd nema með lokun fyrir innakstur og bið
eftir því að bílar skili sér út fyrir handan. Að öllu jöfnu
samsvaraði lágmarkstími því um 70 km/klst hámarkshraða gegnum 18 km
löng göng, þ.e. tímanum sem tekur bíl, nýkomnum inn í göngin eftir
lokun, að skila sér út hinum megin – svo fremi að aðstæður á
slysstað eða afleiðingar af leka eða jarðskjálfta hömluðu ekki ferð.
Tæming gangna jafngilti samkvæmt því um 15 til 20 mínútum – og
þyrfti þó einungis einn örvæntingarfullan bílstjóra til að ljúka
ferð allra annarra vegna vanhugsaðra viðbragða við hættu. Ef bílar
neyddust til að snúa við gæti teygst verulega úr tímanum – og þá því
frekar sem bílar væru fleiri í göngum – með ófyrirsjánlegum
afleiðingum.
Líkur á árekstrum eða eldi eru á hinn bóginn
miklum mun minni í sjálfstýrðum göngum með vögnum knúmum rafmagni
heldur en í göngum með tveggja stefnu bílaumferð í frjálsu flæði,
fyrir utan það hve viðbragðstími vegna náttúruvár, jarðskjálfta eða
leka, er mun skemmri. Sjálfstýrikerfið veit ávallt hvar hver og einn
vagn er staddur, á hvaða leið er og á hvaða hraða, jafnframt því að
hver vagn vaktar eigin leið og ferð gegnum göngin. Þar við bætist að
starfsmenn í stjórnstöð geta ávallt gripið inn í og breytt áætlunum
þegar sérstakar aðstæður skapast. Öryggi sjálfstýrikerfa verður því
seint ofmetið, enda njóta slík kerfi mun hagstæðari trygginga,
jafnvel svo að numið gæti tugmilljónum króna í iðgjaldagreiðslum á
ári hverju fyrir göng sem þessi, samanborið við göng fyrir
bílaumferð í frjálsu flæði.
TBM-bor (Tunnel Boring Machine), áþekkur að stærð
og nýtast myndi við borun ferjuganga milli lands og Eyja. Myndin er
fengin úr skýrslu Mott MacDonald um "Fixed Link Between Labrador and
Newfoundland", útg. 2004
Í þessum drögum er gert ráð fyrir göngum sem væru
boruð gegnum setlögin ofan berggrunnsins milli lands og Eyja og
væru um 6,8 m að þvermáli, og fóðruð jafnóðum með 30 sm þykkum
steinsteypueiningum þannig að mesta innanmál fullbúinna ganga yrði
um 6,1 m, sem svarar til 29 fm innra þverskurðarflatarmáls.
Borflatarmál gangnanna yrði samkvæmt þessu um 36 fm (eða rétt rúmur
þriðjungur af borflatarmáli stórganga með tvíbreiðri akbraut og
öryggisgangi undir eða til hliðar). Göng boruð á þennan hátt kæmu
nær fullgerð aftan úr borsamstæðunni, með tilbúinni akbraut og
stýringum, enda væri brautin nýtt jafnóðum til flutnings á jarðvegi
út úr göngunum en sömu vagnar flyttu síðan gangnaeiningar og búnað
inn í göngin til samsetningar. Sjálfstýrikerfið gerði kleift að
spara mannahald við gangnagerðina þannig að heildarkostnaður gæti
orðið lægri sem því næmi. Göngin væru þannig hönnuð, að síðar meir,
með aukinni umferð og auknum framförum við sporbrautalagnir (t.d.
byggðum á hlutlausu segulsvifi – indutrack, Halback arrays), væri
auðvelt að leggja öflugara og afkastameira spor, t.d. er kæmi að
endurnýjun vagna, e.t.v. að aldarfjórðungi liðnum.
Kostnaður við heilfóðruð stórgöng (um 11,1 m að
borþvermáli, 10 m að innanmáli og 98 fm að borflatarmáli) sem boruð
væru gegnum setlög, ásamt kostnaði við gangnamunna og alla vegagerð,
hefur verið áætlaður að gæti orðið um 63 milljarðar króna með
óvissukostnaði (heldur yfir því sem óvissa almennt er áætluð), og að
meðtöldum fjármagnskostnaði á verktíma, auk 24,5% virðisaukaskatts
– samkv. skýrslu Mott MacDonald / Línuhönnunar / Vegagerðarinnar,
frá því í apríl 2004[ii] – sem myndi samsvara um 23 milljörðum króna
fyrir göng er væru rétt rúmur þriðjungur stórganga að umfangi.
Líklega má þó reikna með hlutfallslega heldur
lægri kostnaði í svo smáum göngum, sem hér er um rætt, miðað við
stórgöng, vegna þess hve flest verk liggja beinna við mannshöndinni
í smáum göngum og auðveldara er að koma vélum og tækjum við án hárra
vinnupalla eða stórfellds lyftibúnaðar, jafnframt að teknu tilliti
til sparnaðarins við efnis- og einingaflutninga á verktíma af völdum
sjálfstýrikerfisins. Gróft á litið kynnu sjálf göngin samkvæmt því
að kosta um 20 milljarða króna, þá að meðtöldum eldvörðum
öryggisgangi, líkt og jafnframt hefur verið reiknað með að væri í
stórgöngum. Þá væri eftir að reikna til viðbótar kostnað við
endastöðvar og ýmsan búnað tengdan þeim, kaupverð á vögnum, sem
e.t.v. gætu orðið í kringum tuttugu talsins (en undirvagna þeirra
mætti jafnframt nýta við sjálfa gangnagerðina við flutning á
jarðvegi, einingum og búnaði), og loks kostnað við
sjálfstýribúnaðinn, en búnaðurinn myndi tengjast á margvíslegan hátt
jafnt göngum sem vögnum sem endastöðvum og loks stjórnstöð, þaðan
sem full yfirsýn væri yfir allt kerfið.
Sé reiknað með að endastöðvar kosti alls um einn
og hálfan milljarð króna, tuttugu vagnar annað eins og
sjálfstýrikerfi um tvo milljarða króna, þá bættust alls fimm
milljarðar króna við gangnagerðarkostnaðinn þannig að alls myndu
fullbúin göng með öllum búnaði kosta um 25 milljarða króna, að
meðtöldum óvissukostnaði, fjármagnskostnaði á verktíma og
virðisaukaskatti. Besta leiðin til að komast að sem raunhæfastri
niðurstöðu um kostnað væri þó sú að leita til verktakafyrirtækja og
verkfræðistofa sem unnið hefðu að gerð sem líkastra ganga, þ.e.
tiltölulega mjórra ganga sem boruð hefðu verið gegnum setlög á
langri leið. En allnokkur göng áþekk að umfangi og gerð hafa verið
boruð víðsvegar í heiminum, oft vegna járnbrauta en einnig vegna
vatnslagna og ýmissa orkukerfa. Jarðfræðilegar forsendur,
samsetning og gerð setlaganna milli lands og Eyja, liggja nokkuð
ljósar fyrir (öfugt við þekkingu á sjálfum berggrunninum, hvað þá
tugum metrum neðar, ef á hinn bóginn um bergborun væri að ræða) og
raunhæft, nokkuð ábyggilegt kostnaðarmat því fyrst og fremst
spurning um að fá álit þar til bærra sérfræðinga með mikla reynslu
af sambærilegri gangagerð.
Íbúum í Eyjum hefur fækkað jafnt og þétt mörg
undanfarin ár, þannig að ekki er fjarri lagi að fækkunin sé í öfugu
hlutfalli við almenna íbúafjölgun suðvestantil á landinu.
Augljóslega er einangrunin, af völdum afar slakra samgangna, lang
stærsti áhrifavaldurinn, þrátt fyrir að einungis nokkrir tugir
kílómetra skilji Eyjar að frá ört vaxandi byggðarlögum á Suðurlandi.
Íbúum í hinu sameinaða sveitarfélagi Árborg hefur fjölgað um
fjórðung síðan um aldamót, á sama tíma og fækkun í Eyjum hefur numið
um tíunda hluta. Hætt er við að Bakkafjöruferja myndi litlu breyta
um þessa þróun, enda væru Vestmannaeyingar áfram bundnir af stopulum
ferðum, einungis örfá skipti á dag, þ.e.a.s. þegar ferðir féllu ekki
niður vegna veðurs á veturna. Þróun undanfarinna ára bendir mjög
ákveðið til þess að smá sveitarfélög séu dæmd til hnignunar eigi þau
ekki möguleika á að sameinast eða að minnsta kosti að samhæfa krafta
sína jafnt í samgöngumálum, atvinnumálum sem skólamálum og
heilbrigðismálum.
Með hugmyndum þessum að ferjugöngum er því ekki
síst litið til margvíslegra aukinna möguleika allra sveitarfélaga á
Suðurlandi, en ekki bara Eyja. Hvort sem Vestmannaeyjar sameinuðust
nágrannasveitarfélögunum í kjölfar gangnagerðar eða ekki – hvort
sem væri Rangárþingum einum eða jafnvel að Árborg væri með inni í
þeirri mynd – að þá er augljóst að Eyjar yrðu hluti af stórri heild,
jafnt með tilliti til atvinnumála sem annars. Ferð milli lands og
Eyja tæki um 12 til 15 mínútur, auk biðtíma við endastöðvar
er væri til jafnaðar um 8 mínútur – og þá miðað við að göngin væru
tvöföld á stuttum kafla kafla á miðri leið þannig að vagnar á
sitthvorri leið gætu mæst. Akstur milli Kross og Hvolsvallar tæki
um 15 mínútur og milli Hvolsvallar og Hellu um 6 mínútur. Frá Hellu
til Selfoss er um 25 mínútna akstur og þaðan til eystri byggða
höfuðborgarsvæðisins um 40 mínútna akstur – allt miðað við 90 km
meðalhraða á klst.
Þá er spurning hvort Vestmannaeyjahöfn gæti ekki
orðið samkeppnishæf við Faxaflóahafnir um flutninga milli Suðurlands
og erlendra hafna með tilkomu gangnanna, en leiðin milli Eyja og
Evrópu er um 10% styttri en miðað við Reykjavík. Faxaflóahafnir anna
nú orðið mest öllum gámaflutningum fyrir landið allt, með alls um
278 þús. staðaleininga flutning (TEU, samsv. 20 feta gámi) árið
2006, þ.e. til og frá höfn; þar af fóru 258 þús einingar um
Sundahöfn og um 20 þús um Grundartangahöfn[iii]. Sé bein samsvörun
milli íbúafjölda og dreifingar gámaflutninganna, mætti gróft á litið
ætla að um 6 til 7% þessara flutninga séu vegna byggða á Suðurlandi,
þ.e. að um Hellisheiði og Þrengsli fari e.t.v. sem svari til allt að
20 þús. staðaleininga á ári vegna Suðurlandsbyggða, auk þess sem
flutt er austar á land. Það væri því ekki óraunhæft að ætla að
Vestmannaeyjahöfn gæti náð til sín um 12 þús eininga flutningi á
ári, samhliða ferjuflutningi um göng. Ef 2.000 einingar væru vegna
Eyja sjálfra þá stæðu 10.000 einingar eftir sem myndu skila göngunum
um 100 milljóna króna tekjum á ári, miðað við að meðalflutningsgjald
um göngin væri um 10 þús. krónur pr. gámaeiningu. Með víðtækari
flutningum, m.a. austur á land og jafnframt einnig á
höfuðborgarsvæðið, kynni höfnin að geta náð samjöfnuði við
Grundartangahöfn, a.m.k. er fram í sækti, með um 20 þús gámaeiningar
vegna landflutninga (en það myndi jafngilda um 80 TEU-einingum á
dag, 250 daga ársins, 40 í hvora átt, eða samsv. 20 gámum í hvora
átt miðað við 40 feta gáma), sem skilað gæti göngunum um 200 milljón
króna tekjum á ári (sem gróft á litið kynni að vera álíka og tekjur
Vestmannaeyjahafnar af auknum skipakomum). Í þessu sambandi er
jafnframt vert að hafa í huga að á Hellisheiði er áformað að virkja
um 500 MW og áhersla nú lögð á að selja orkuna jafnvel frekar til
hátækniiðnaðar ekki síður en til stóriðju og þá ekki fráleitt að
ætla að Suðurland muni taka hluta af þeirri köku til sín, með
tilheyrandi flutningum og atvinnuuppbyggingu.
Stækkun Vestmannaeyjahafnar gæti orðið álitlegur
kostur samhliða gangnagerð ef setlagaúrgangurinn úr göngunum
hentaði í fyllingar. Setlögin eru aðallega samsett úr sandi og möl
og myndu líklega skila sér þannig að mestu leyti á óbreyttu formi.
Hvernig sem stækkun væri annars háttað, þá er fyrst og fremst tvennt
sem gæti aukið vægi gangnanna, auk almennra skipaflutninga, en það
væru annars vegar auknar komur skemmtiferðaskipa og hins vegar
útgerð hraðskreiðrar bíla- og farþegaferju er gengi milli
Vestmannaeyja og valinna áfangastaða í Evrópu, líkt og Norræna
gerir á sinn hátt. Evrópuferja sem flytti um 30 þús. farþega og um
10 þús. bíla á ári (15 þús. manns og 5 þús. bíla hvora leið) gæti
skilað göngum nokkrum tugum milljóna króna í tekjur, auk þess sem
farþegar skemmtiferðaskipa greiddu í gangnagjald í skipulögðum
ferðum upp á land. Þá er stór spurning hvort Vestmannaeyjar gætu
komið til greina sem umskipunarhöfn vegna Íshafsflutninga
norðausturleiðina til Asíu, ef gerlegt væri að gera hafnargarð með
lægi fyrir djúpristuskip austur af Stóraklifi, norður af
Heimakletti, með hafnarmynni undan Miðkletti, samhliða því að Eiðið
væri breikkað til norðurs með landfyllingu er lögð væri undir
gámavöll. Það væri þá háð því að jarðvegurinn úr göngunum hentaði í
fyllingar, þá væntanlega í bland með grófara fyllingarefni, m.a.
hraungrýti, úr Eyjum.
Miðað við 2% meðalafskriftir og 3% raunvexti af
alls 25 milljarða króna heildarfjárfestingu í göngum og öllum
búnaði, ásamt vögnum og endastöðvum, þá jafngilti það um 1.250
milljónum króna á ári. Sé þar til viðbótar reiknað með um 250
milljónum króna til daglegs reksturs á ári, þ.e. vegna trygginga,
orku, mannahalds o.fl. þá væri heildarkostnaður við göngin um 1.500
milljónir króna á ári, til jafnaðar. Þá er miðað við, gróft á litið,
að rúmur þriðjungur daglegs rekstrarkostnaðar væri vegna launa um
20 starfsmanna (þar af um 12 til 15 manns til að sinna lágmarks 3ja
manna sólarhringsvakt), um þriðjungur kostnaðar vegna raforkukaupa
og loks tæpur þriðjungur vegna trygginga.
Sé gert ráð fyrir um 550 milljóna króna árlegu
framlagi ríkis (líkt og hefur verið til jafnaðar mörg undanfarin ár
til ferjusmíði, ferjureksturs og flugumsjónar) og 50 milljóna króna
framlagi sveitarfélaga, þá þyrfti umferð um göngin að standa undir
900 milljóna króna kostnaði á ári. Sé reiknað með að sérstakir
fragtflutningar, þ.e. í tengslum við höfn og millilandasiglingar,
gæfu af sér um 200 milljónir króna og farþegar Evrópuferju og með
skemmtiferðaskipum um 50 milljónir, þá stæðu eftir um 650 milljónir
króna sem öll almenn umferð yrði að standa undir.
Til grundvallar gjaldtöku mætti miða við að
greitt væri sérstaklega fyrir hvert ökutæki eitt og sér og
sérstaklega fyrir hvern fullorðinn einstakling, sem ferðaðist um
göngin. Grundvallareining væri þá grunngjald hvers fullorðins
einstaklings að bílstjórum meðtöldum – sem væri hið sama og
grunngjald fyrir minni fólksbíla. En því stærri eða þyngri sem
ökutæki væru, því fleiri einingar reiknuðust fyrir ökutækið, e.t.v.
átta til tíu einingar fyrir hin stærstu, auk þess sem reiknaðist
sérstaklega t.d. fyrir tengivagna. Þar fyrir utan væru
fjölferðaafslættir (á samsvarandi máta og t.d. í Hvalfjarðargöngum)
og möguleikar fyrir einstaklinga og fyrirtæki að gera sérstaka
greiðslusamninga um akstur og ferðir.
Til einföldunar er hér reiknað með að aukin gjöld
af þyngri og stærri ökutækjum myndu vega nokkurn vegin á móti
fjölferðaafsláttum, þannig að til jafnaðar megi reikna með einni
grundvallareiningu fyrir sérhvert ökutæki og sérhvern fullorðinn
einstakling (án umferðar v. gámaflutninga og Evrópuferju, enda áður
frádregin hér á undan). Í skýrslu Hagfræðistofnunar frá árinu 2004
um greiningu á veggöngum (stórgöngum) milli lands og eyja er gert
ráð fyrir 632 bíla umferð á opnunarári gangna (591 einkabíll + 41
stærri), árið 2010, miðað við 2.500 króna veggjald af fólksbílum,
óháð farþegafjölda, og 7.500 króna gjaldi af stærri bifreiðum. Ætla
má að umferð væri lítið eitt minni miðað við heldur tafsamari
ferjugöng, e.t.v. um 5%, eða sem svaraði til um 600 ökutækja á dag
til jafnaðar. En miðað við 600 ökutæki og 1.300 fullorðna
einstaklinga á dag til jafnaðar og 900 króna grundvallarverð á
einingu, næmu tekjur af almennri umferð 624 milljónum króna á ári,
sem er lítið eitt lægri fjárhæð en Hagfræðistofnun gerir ráð fyrir
að stórgöng gætu skilað á fyrsta rekstrarári...[iv]
600 ökutæki og 1300 manns á dag x kr 900 x 365
dagar = 624 milljónir króna
Í skýrslu Hagfræðistofnunar er gert ráð fyrir
aukningu ferða og þar með tekjuaukningu þannig að á 30 ára tímabili
skiluðu göng rétt rúmum 25 milljörðum króna eða sem svaraði til um
835 milljóna króna á ári til jafnaðar, en það jafngildir um það bil
1,5% aukningu ferða á ári miðað við óbreytt gangnagjald. Sé á hinn
bóginn gert ráð fyrir fyrir Evrópuferju og stækkun hafnarinnar með
verulega auknum fragtflutningum og auknum komum skemmtiferðaskipa,
ásamt því að íbúum í Eyjum myndi fjölga í öfugu hlutfalli við fækkun
undanfarinna ára í kjölfar gangnagerðar, væri þó ekki fráleitt að
búast mætti við allt að 2,5% jafnaðaraukningu á ári.
Sé gert ráð fyrir að tekjur af almennri umferð
nemi um 650 milljónum króna á fyrsta eða öðru rekstrarári og að
hugsanlegar tekjur af sérstökum fragtflutningum ásamt tekjum af
umferð vegna Evrópuferju og af farþegum skemmtiferðaskipa gætu numið
um 250 milljónum króna þá myndu árstekjur nema um 900 milljónum
króna, auk 550 milljóna króna framlags frá ríki og um 50 milljóna
frá sveitarfélögum, þannig að alls næmu tekjur samkvæmt því um 1.500
milljónum króna. Að frádregnum almennum rekstrargjöldum, um 250
milljónum króna, stæðu þá eftir um 1.250 milljónir króna til
greiðslu afskrifta og vaxta.
Hugsa má sér stofnun fyrirtækis um framkvæmdina,
með 5 milljarða króna stofnfé, þannig að um helmingur væri í eigu
hins opinbera og helmingur í eigu einstaklinga. Öll útgjöld á
verktíma næmu 25 milljörðum króna, að meðtöldum sköttum og
fjármagnskostnaði til verkloka. [Þegar þetta var ritað var gengi
dollars búið að vera um 60 til 65 krónur undanfarin misseri en tók
síðan að hækka er leið á árið 2008. Gengi dollars eftir hrun, árin 2009-2015, hefur verið til jafnaðar um 125 krónur.]
Gerum ráð fyrir að lántökur nemi alls 20
milljörðum króna (að allri fjármögnun á verktíma lokinni), þannig að
15 milljarðar séu jafngreiðslulán til 40 ára en 5 milljarðar með
jöfnum afborgunum til 25 ára, frá og með fyrsta notkunarári
gangnanna. Gerum jafnframt ráð fyrir að opinber framlög séu 700
milljónir króna fyrsta rekstrarárið en fari síðan minnkandi um 10
milljónir króna á ári, þannig að yrðu 600 milljónir á 10. ári, 500
milljónir á 20. ári og 400 milljónir á 30.ári og allt til fertugasta
árs, er langtímalán væri uppgreitt, en opinber framlög væru síðan
300 milljónir króna á ári eftir það. Grunngjald væri 950 kr. pr.
einingu fyrstu 3 árin, lækkandi í 900 krónur á 4. ári, og færi síðan
smám saman lækkandi eftir 10. ár þannig að næmi 600 krónum á 41.
ári, að öllum langtímaskuldum greiddum. Almenn umferð væri áætluð
600 ökutæki og 1300 fullorðnir einstaklingar á 1. notkunarári
gangna, eða sem svaraði til 1.900 fareininga, og að umferðin færi
vaxandi um 2,5% á ári. Gangnatekjur af höfn, Evrópuferju og af
farþegum skemmtiferðaskipa væru áætlaðar 200 milljónir á 1. ári og
færu vaxandi um 2% á ári.

Að þessu gefnu má ætla að hagnaður hluthafa gæti orðið um 3% á 1.
ári, um 5% á 10. ári, um 6 til 7% á 20. ári, 9 til 10% á 30. ári og
um 13% á 40. ári. Helmingshlutdeild hins opinbera í 5 milljarða
króna stofnfé gæfi því um 75 milljónir króna í fjármagnstekjur á 1.
ári og þá öðrum hluthöfum annað eins, um 125 milljónir króna á 10.
ári, 160 milljónir á 20. ári, 240 milljónir á 30. ári og um 325
milljónir króna á 40. ári – og öðrum hluthöfum annað eins – eða
þaðan af meira eftir það, að öllum langtímalánum greiddum og eftir
greiðslur í afskriftasjóð, miðað við þokkalega endingu mannvirkja og
búnaðar.
Augljóslega myndu tekjur af flutningum í tengslum
við verulega aukin hafnarumsvif vega all þungt í framkvæmd sem
þessari, jafnvel ríða baggamuninn, sem hins vegar er borin von að
gæti nokkurn tímann skipt sköpum við rekstur Bakkafjöruferju, enda
mjög óhentugt og dýrt að ferja gáma með slíkum hætti, og hvað varðar
rekstur Evrópuferju þá væri í rauninni útilokað að stilla ferðir
hennar og flutning saman við ferðir smáferju milli lands og Eyja,
hvað þá að almenn flutningahöfn myndi nokkurn tímann borga sig í
Bakkafjöru sjálfri sökum gríðarlegs aukakostnaðar. Miklir
þungaflutningar um venjuleg veggöng með umferð í frjálsu flæði kæmu
tæpast heldur til greina, væru slík göng enn á teikniborðinu,
einfaldlega vegna áhættunar, eld- og árekstrarhættu, sem myndi
fylgja stórum flutningabílum, akandi fyrir eigin vélarafli.
Spurningin um arðsemi stækkaðrar Eyjahafnar snýst
ekki síst um það hvort styttri siglingaleið milli meginlands Evrópu
og Eyja en samsvarandi leið fyrir Reykjanes til Faxaflóahafna, eða
e.t.v. um 10%, næði að vega á móti aukakostnaði sem hlytist af
flutningi gáma um göngin. Á það ber einnig að líta hve styttri
siglingaleiðin er öruggari að slepptum röstunum fyrir Reykjanesi og
Garðskaga, með öllum því misvindi, misdýpi og óreglulega sjólagi sem
einkennir þá leið, jafnvel langt út fyrir skaga, svo sem fram hefur
komið í umræðum um að færa siglingaleiðina fjær landi og þar með
reyndar lengja þá leið nokkuð.
Hraðskreið Evrópuferja hefði heldur ekki lítið að
segja, ásamt auknum komum skemmtiferðaskipa í kjölfar verulega
endurbættrar hafnar, enda Vestmannaeyjar út af fyrir sig með mikið
aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn umfram aðra staði. Ekki er
ástæða til að ætla að útgerð bíla- og farþegaferju kæmi niður á
rekstri Norrænu, enda væri væntanlega tekið mið af áfangastöðum
sunnar í álfu, með beinni siglingu e.t.v. suður um Írlandshaf með
viðkomu á Írlandi, Bretlandi og e.t.v. einnig í Frakklandi. Markaður
myndi þannig stækka til muna, jafnframt því að möguleikar sköpuðust
á fjölbreyttari ferðum, m.a. með því að velja Eyjaferju aðra leiðina
en Norrænu hina. Gangnagjald fyrir tvo ferðamenn á bíl kynni að nema
um 2.500 krónum til viðbótar við 40 til 60 þús. króna fargjald með
ferjunni eða þaðan af meir, eða sem svaraði til um eða innan við 5
af hundraði. Á móti kæmi beinni sigling og styttri siglingatími,
enda án viðkomu í Færeyjum eða Hjaltlandseyjum, Bergen eða
Skotlandi, auk þess sem nálægð Eyja við stærsta markaðssvæðið
innanlands, höfuðborgarsvæðið, er mun meiri en Seyðisfjarðar.
[i] Sbr. t.d. 30,8 milljóna evru samningur París-Metró við Siemens
frá árinu 2005 um að búa leið 1, (sem er 16,6 km löng) alsjálfvirku
stýrikerfi, sem á að verða fullbúið árið 2010. Til samanburðar við
annan kostnað borgarlestakerfa má nefna að nýjasta Parísarleiðin,
nr. 14, sem er alsjálfvirk 7 km löng leið, kostaði í heild sinni með
öllum sínum margháttuðu mannvirkjum, brautarstöðvum, vögnum og
búnaði um einn milljarð evra. Paris Metro, Meteor Automated Line,
France (http://www.railway-technology.com/projects/meteor/)
[ii] Mott MacDonald / Línuhönnun / Vegagerðin:
Independent Review of a Tunnel Connection to Vestmannaeyjar
http://vgwww.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Vestmannaeyjar-Final-report/$file/Vestmannaeyjar%20-%20Final%20report.pdf
Mott MacDonald, aðalráðgjafinn að baki skýrslunnar frá því 2004, er
verkfræðifirma með um 11.000 manns að störfum á ótal sviðum í
fjölmörgum löndum og er fyrirtækið ekki síst með mjög margháttaða
reynslu af gangagerð, jafnt fyrir milljónaumferð bíla, sem lestir,
sem metró. Meðal fjölmargra gangnaverkefna fyrirtækisins má nefna
Ermasundsgöngin, lestargöng undir Stórabelti, göng fyrir hraðlestir
tengdar Heathrow og önnur samsvarandi göng fyrir bíla, lestargöng
undir hafnarsvæði New York og svokölluð SMART-göng í Kuala Lumpur,
sem eru 9,5 km löng tveggja hæða bílagöng. Þá má einnig nefna
Liefkenshoek-vörulestargöngin, sem nú er unnið að og munu verða alls
16,2 km löng og tengja saman austur- og vesturhafnir Antwerpen
borgar. Það er því tæpast ástæða til að taka mark á áætlun
VST-verkfræðistofunnar
(http://www.samgonguraduneyti.is/media/Skyrsla/Vestmannaeyjagong_-_skyrsla_VST.pdf)
frá því nú í ár (útgefin í júlí 2007), sem raunar ýkir áætlanir
2004-skýrslunnar án rökstuðnings, og enda eru gangnagerðarverkefni
VST-stofunnar hverfandi fá og varla að þeirra gæti í upptalningu í
verkefnalista á heimasíðu stofunnar. Aðkoma stofunnar að
Hvalfjarðargöngum snerist fyrst og fremst um vegarlagninguna sjálfa
og gerð gangnamunna, en alls ekki um gangngerðina sjálfa.
Samstarfsaðili VST, Pöyry Infra (sem í VST-skýrslunni er einungis
ranglega stafsett Intra), starfar fyrst og fremst á jarðeðlisfræði-
og jarðfræðisviði og við margvíslega mælitækni – en ekki á sviði
margháttaðrar verkfræðilegrar hönnunar mannvirkja, líkt og
verkfræði- og ráðgjafafirmað Mott MacDonald.
[iii] Um gámaflutninga, sjá vef Faxaflóahafna,
m.a. Hafnarblaðið júlí 2007:
http://www.faxafloahafnir.is/faxafloahafnir/upload/files/hafnarbladid/hafnablad_jun_07.pdf
[iv] Til marks um árlega meðaldagsumferð (ÁDU) má
taka mið af Sauðárkróksbraut, sem liggur um Sveitarfélagið
Skagafjörð, en alls búa í öllu sveitarfélaginu álíka margir og í
Vestmannaeyjum eða rétt rúmlega 4 þúsund manns, þar af um 2.600
manns á Sauðárkróki. Árleg meðaldagsumferð þess hluta brautarinnar
sem liggur frá frá Hringvegi til Sauðárkróks, um 24 km leið, er um
735 bílar á dag (SDU-sumar, um 1000 bílar, en VDU-vetur, um 565).
Samsvarandi ÁDU tölur fyrir Skagastrandarveg, sem tengir
Skagaströnd, með um 600 íbúa, við Hringveginn (að frátaldri umferð
um Þverárfjallsveg), er um 279 bílar (SDU = 398, VDU = 207). Árleg
meðaldagsumferð yfir Gagnheiði, um 27 km veg milli Hringvegar og
Seyðisfjarðar, lætur nærri að vera um 400 bílar – með
sumardagsumferð í kringum 600 bíla en vetrardagsumferð um 250 bíla –
en íbúar Seyðisfjarðar töldust vera 726 manns undir árslok 2006.
Sé árleg meðaldagsumferð reiknuð sem hlutfall af
íbúafjölda hvers þessara kaupstaða, sem allir eiga það sameiginlegt
að vera fyrst og fremst endastöð án almennrar gegnumumferðar
(samsvarandi og á við um Vestmannaeyjar á sinn hátt), þá svarar ÁDU
fyrir Sauðárkrók til 28% íbúa, ÁDU fyrir Skagaströnd til 47% íbúa og
ÁDU fyrir Seyðisfjörð til um 55% eða rúmlega helmings íbúa. Lágt
hlutfall fyrir Sauðárkrók stafar vafalaust af miklum fjarlægðum frá
öðru þéttbýli. Skýringin á háu hlutfalli fyrir Skagaströnd kann að
vera hve stutt er til Blöndóss, að þangað sæki margir þjónustu og
vinnu, en fyrir Seyðisfjörð er hlutfallið svo hátt ekki síst vegna
ferða Norrænu (með mörg þúsund bíla umferð á ári, sem flestir
teljast tvisvar, fram og til baka), enda sumardagsumferð SDU
hlutfallslega mun meiri en fyrir staðina hina tvo, en annars um
snjóþungan fjallveg að fara yfir á veturna.
Með hliðsjón af þessum tölum, mætti ætla að
ÁDU-hlutfall fyrir Vestmannaeyjar væri alls ekki lægra en fyrir
Sauðárkrók (sem hefur lægsta hlutfall af viðmiðunarkaupstöðunum
þremur) ef gjaldfrjáls bílvegur hefði nýlega verið opnaður um göng
milli lands og Eyja – en það myndi samsvara um 28% af rúmlega 4000
manna íbúafjölda í Eyjum eða um 1150 bílum til jafnaðar á
sólarhring, án Evrópuferju eða sérlega aukinna flutninga um höfn. Sé
hins vegar gert ráð fyrir heldur hærra hlutfalli, eða um 33%, enda
Vestmannaeyjar verulega fjölsóttari af ferðamönnum en Sauðárkrókur
og í meiri nálægð við önnur þéttbýl svæði, þá myndi það jafngilda um
1.300 bílum til jafnaðar á sólarhring. Á hinn bóginn kynni
gjaldtaka, svipuð og hér hefur verið um rætt, um 900 kr pr einingu,
fyrir bíl og sérhvern fullorðinn, að draga úr umferð um allt að
helming, eða sem svaraði til um 650 bíla meðaldagsumferðar milli
lands og Eyja árið um kring (sem kæmi nokkurn veginn heim og saman
við skýrslu Hagfræðistofnunar frá árinu 2004 þar sem
miðað er við alls 632 bíla (http://www.xtreme.is/net/skraarsafn/gong//1082148955.pdf)) eða sem svaraði e.t.v. til um 600 bíla
miðað við ferjugöng sem væru lítið eitt tafsamari en göng fyrir bíla
í frjálsu flæði, en 600 bíla umferð á dag er nokkurn veginn það sem
hér hefur verið reiknað með að gæti orðið til að byrja með.
janúar 2008
prenta skjal
Rómanza:
heim á kvist
|